19/04/2018

Tónlistarþroski ungbarna og tónlistaruppeldi: Yfirlitsgrein

Í þessari ► yfirlitsgrein Helgu Rutar Guðmundsdóttur er skoðað hversu mikið er vitað um tónlistarhæfni ungbarna og hvernig slík þekking gæti verið upplýsandi varðandi hlutverk tónlistar og tónlistaruppeldis á fyrstu árum barnsins. Farið er yfir helstu niðurstöður rannsókna á tónskyni ungbarna á fyrsta ári og fyrstu tilburðum þeirra til tónlistarlegrar hegðunar. Því er lýst hvernig almennt tónlistaruppeldi og skipulögð tónlistariðkun með ungbörnum getur tekið mið af þekkingu á næmi ungbarna fyrir tónlist. Af skipulögðum rannsóknum á ungbörnum má draga þann lærdóm að vanmeta ekki tónlistar- og vitsmunalega hæfni ungbarna. Niðurstöður rannsókna benda til þess að tónlist sem ungbörn heyra mótar næmi þeirra fyrir viðkomandi tónlistarhefðum og því sé vert að huga að fjölbreyttri tónlist í umhverfi barna. Draga má þann lærdóm af fræðunum að tónlist geti orðið að liði í daglegum samskiptum við börn án þess að orðum sé beitt. Með þekkingu og færni er unnt að virkja eðlislæga tónlistarhneigð ungra barna og hafa áhrif á líðan þeirra og hegðan. Að lokum er bent á að foreldrar og aðrir uppalendur geti á byggt á því, sem fræðimenn kalla meðfædda þörf ungbarna til músíkalskra samskipta, og stuðlað með því að félagslegum og tónlistarlegum þroska. ► Sjá grein.