23/04/2018

Brot úr starfi Brúarásskóla: Hver og einn er einstakur

Krakkar í Brúarásskóla að steikja pylsur á opnum eldi.

Í ► grein Stefaníu Malenar Stefánsdóttur segir frá áhugaverðu skólastarfi í fámennum skóla Fljótsdalshéraði. Brúarásskóli hefur vakið athygli fyrir frjótt og skapandi skólastarf og var valinn Nýsköpunarskóli ársins í flokki minni skóla árin 2012 og 2013. Útikennsla er fastur liður í starfinu, tvær útikennslustofur eru við skólann og ein kennsluvika í hverjum mánuði er útikennsluvika. Kennarar skólans hafa verið þátttakendur í þróunarverkefnum og öllu námsmati skólans hefur verið umbylt á síðustu árum. Margar skemmtilegar hefðir einkenna starfið, dans er kenndur á öllum stigum og á hverju ári er settur upp frumsaminn söng-leikur þar sem allir nemendur skólans fara með hlutverk, spila á hljóðfæri og semja sum lögin í sýningunni. Tónlistarskóli er starfandi í húsakynnum skólans og þar stunda um 90% nemenda grunnskólans nám á skólatíma. Við skólann er dýrahús þar sem nemendur halda hænur, kanínur og naggrísi. Þangað fara afgangar úr mötuneytinu og svo eru eggin úr hænunum notuð í heimilisfræðikennslu. Skólinn er Grænfánaskóli og annað hvert ár er valið nýtt þema tengt náttúru og umhverfisvernd að vinna með. Á tveggja vikna fresti fá nemendur með sér heim hjartaása þar sem umsjónarkennarar hafa skrifað til þeirra jákvæð skilaboð. ► Sjá grein.

Tónlistarþroski ungbarna og tónlistaruppeldi: Yfirlitsgrein

Í þessari ► yfirlitsgrein Helgu Rutar Guðmundsdóttur er skoðað hversu mikið er vitað um tónlistarhæfni ungbarna og hvernig slík þekking gæti verið upplýsandi varðandi hlutverk tónlistar og tónlistaruppeldis á fyrstu árum barnsins. Farið er yfir helstu niðurstöður rannsókna á tónskyni ungbarna á fyrsta ári og fyrstu tilburðum þeirra til tónlistarlegrar hegðunar. Því er lýst hvernig almennt tónlistaruppeldi og skipulögð tónlistariðkun með ungbörnum getur tekið mið af þekkingu á næmi ungbarna fyrir tónlist. Af skipulögðum rannsóknum á ungbörnum má draga þann lærdóm að vanmeta ekki tónlistar- og vitsmunalega hæfni ungbarna. Niðurstöður rannsókna benda til þess að tónlist sem ungbörn heyra mótar næmi þeirra fyrir viðkomandi tónlistarhefðum og því sé vert að huga að fjölbreyttri tónlist í umhverfi barna. Draga má þann lærdóm af fræðunum að tónlist geti orðið að liði í daglegum samskiptum við börn án þess að orðum sé beitt. Með þekkingu og færni er unnt að virkja eðlislæga tónlistarhneigð ungra barna og hafa áhrif á líðan þeirra og hegðan. Að lokum er bent á að foreldrar og aðrir uppalendur geti á byggt á því, sem fræðimenn kalla meðfædda þörf ungbarna til músíkalskra samskipta, og stuðlað með því að félagslegum og tónlistarlegum þroska. ► Sjá grein.