19/04/2018

Samvinna kennara um aukið samvinnunám í Öldutúnsskóla

Samvinna í Öldutúnsskóla

► Grein Hildigunnar Bjarnadóttur og Margrétar Sverrisdóttur fjallar um hóp grunnskólakennara sem þróaði starf sitt með samvinnunámi í kennslu. Hópurinn varð til í tengslum við meistaraprófsritgerðir höfunda sem þeir skrifuðu veturinn 2010–2011. Um er að ræða tvær sjálfstæðar starfendarannsóknir sem tengdust á þann hátt að rannsakendur tóku báðar þátt í þróunarvinnu í samvinnu við aðra kennara um að auka hlut samvinnunáms í skólastarfinu. Önnur rannsóknin beinir sjónum umsjónarkennara að eigin kennsluháttum með það að markmiði að auka samvinnunám, skapa meiri fjölbreytni og koma betur til móts við mismunandi þarfir nemenda. Hin er rannsókn deildarstjóra sem skoðar hvernig gengur að leiða þróunarvinnuna. Því er lýst hvernig hópi kennara sem hittist reglulega skólaárið 2010–2011 gengur að tileinka sér hugmyndafræði og aðferðir samvinnunáms og miðla reynslu sinni innan hópsins. Vinnu í samvinnunámsteyminu var svo haldið áfram skólaárið 2011–2012. Reynslan eftir þessi tvö skólaár gefur til kynna að teymisvinnan hafi skilað sér í úrbótum á skólastarfinu. ► Sjá grein.