19/04/2018

Er hægt að spara í framhaldsskólanum með heimspeki?

Í þessari grein Kristínar Sætran færir höfundur rök fyrir því að heimspeki sé vænleg leið til að sporna gegn námsleiða. Námsleiði virðist hrjá framhaldsskólanemendur illilega og vera einn aðalorsakavaldur brottfalls úr skóla. Brottfallið er þjóðfélaginu gífurlega kostnaðarsamt og ekki síst þess vegna er rétt að hugleiða allt sem koma mætti til greina til að minnka það. Heimspeki styrkir hugsun og virkni, hún veitir frelsi en krefst líka agaðrar hugsunar, hún ýtir undir forvitni og spurn og í heimspeki er borin virðing fyrir margbreytileikanum. Kennsla þar sem áhersla er lögð á þessa þætti spornar gegn tilgangs- og tilbreytingarleysi, ósjálfstæði og ónógri áskorun, en einmitt þessir þættir stuðla að brottfalli. Hin heimspekilega nálgun getur nýst í tengslum við fjölmargar námsgreinar. Þarft er að kynna hvernig þættir heimspekinnar geta unnið gegn námsleiða um leið og kallað er eftir frumkvæði kennara því þeir einir ráða því sem gerist innan skólastofunnar.