20/04/2018

Tónlistarþroski ungbarna og tónlistaruppeldi: Yfirlitsgrein

Í þessari ► yfirlitsgrein Helgu Rutar Guðmundsdóttur er skoðað hversu mikið er vitað um tónlistarhæfni ungbarna og hvernig slík þekking gæti verið upplýsandi varðandi hlutverk tónlistar og tónlistaruppeldis á fyrstu árum barnsins. Farið er yfir helstu niðurstöður rannsókna á tónskyni ungbarna á fyrsta ári og fyrstu tilburðum þeirra til tónlistarlegrar hegðunar. Því er lýst hvernig almennt tónlistaruppeldi og skipulögð tónlistariðkun með ungbörnum getur tekið mið af þekkingu á næmi ungbarna fyrir tónlist. Af skipulögðum rannsóknum á ungbörnum má draga þann lærdóm að vanmeta ekki tónlistar- og vitsmunalega hæfni ungbarna. Niðurstöður rannsókna benda til þess að tónlist sem ungbörn heyra mótar næmi þeirra fyrir viðkomandi tónlistarhefðum og því sé vert að huga að fjölbreyttri tónlist í umhverfi barna. Draga má þann lærdóm af fræðunum að tónlist geti orðið að liði í daglegum samskiptum við börn án þess að orðum sé beitt. Með þekkingu og færni er unnt að virkja eðlislæga tónlistarhneigð ungra barna og hafa áhrif á líðan þeirra og hegðan. Að lokum er bent á að foreldrar og aðrir uppalendur geti á byggt á því, sem fræðimenn kalla meðfædda þörf ungbarna til músíkalskra samskipta, og stuðlað með því að félagslegum og tónlistarlegum þroska. ► Sjá grein.

Viðhorf kennara til ákvarðanatöku nemenda í hönnun og smíði

Smíðastofa 2009 TH

► Grein Gísla Þorsteinssonar og Brynjars Ólafssonar fjallar um rannsókn á viðhorfum grunnskólakennara til ákvarðanatöku nemenda í námsgreininni hönnun og smíði. Í rannsókninni var einkum horft til nemenda á aldrinum 12 til 14 ára og könnuð tækifæri sem kennarar í greininni veita þeim til að taka eigin ákvarðanir. Fjallað var um viðhorf kennaranna til kennarahlutverksins og hvaða möguleika þeir töldu sig hafa til þess að ýta undir og þroska færni nemenda að þessu leyti. Leitað var eftir viðhorfum kennaranna til ákvarðanatöku af hálfu nemenda og athugað hvort kennarar veittu nemendum tækifæri til sjálfstæðra ákvarðana. Einnig var rannsakaður skilningur kennara á mikilvægi þess að veita nemendum svigrúm til ákvarðana og því hlutverki menntunar að stuðla að ákvörðunum nemenda um eigin athafnir. Könnuð var sýn kennara á aðalnámskrá og innt eftir hugmyndum þeirra um áhrif hennar á skólastarf. Af niðurstöðum rannsóknarinnar má álykta að aðalnámskrá grunnskóla í hönnun og smíði frá 2007 bjóði upp á mörg tækifæri til þess að taka ákvarðanir um hönnun og smíði verkefna. Kennarar telja hins vegar að námskráin geri kröfur sem erfitt sé að mæta í skólastarfi. Kennararnir telja nauðsynlegt að setja ákveðnari kröfur í námskrá en líta líka svo á að leiðbeina þurfi kennurum um þessi efni. ► Sjá grein.