23/04/2018

Virðingarsess leikskólabarna: Þekking á barnaefni, kynjun og lagskipting í tveimur leikskólum

Sokkar á snúru - leikskóli - TH 2015

Grein Þórdísar Þórðardóttur segir frá rannsókn sem varpar ljósi á hvernig mismunandi þekking leikskólabarna á barnaefni getur tengst kyni, uppruna og félagslegri stöðu þeirra í leikskóla. Spurt var: Þekking á hvers konar barnaefni er líklegust til að skapa fjögurra til fimm ára börnum virðingarsess í leikskóla? Athugað var hvernig þekking fjórtán barna á því aldursbili í tveimur leikskólum í Reykjavík á barnabókum, mynddiskum, sjónvarpsefni og tölvuleikjum birtist í frjálsum leik og skapandi starfi. Virðingarsess var notaður sem mælitæki á félagslega stöðu barnanna og mældur út frá viðbrögðum jafningjahópsins við tilvísunum í barnaefni. Mat kennara og svör foreldra við spurningalista um notkun barnaefnis á heimilum voru notuð til þess að setja þekkingu barnanna í víðara félags- og kenningalegt samhengi. Niðurstöður sýna hvernig þekking á barnaefni birtist í leikjum og hvernig hún var staðfest, hún hundsuð eða henni hafnað af jafningjahópnum. Þær sýna jafnframt að mat kennaranna og lýsingar foreldranna á notkun barnaefnis á heimilum voru í samræmi við það sem birtist í leikjunum. Þekking á ofurhetjum og tölvum færði drengjum hæstan virðingarsess í leikskólunum. Þekking telpna á ævintýraefni sem inniheldur bæði spennu og tengsl skilaði einnig háum virðingarsessi þótt þekking telpnanna væri ekki staðfest jafn oft og þekking drengjanna. Börnin sem hlutu hæsta sessinn vísuðu oftar í barnaefni en hin börnin, voru í hópi elstu barnanna á deildunum og eiga háskólamenntaða foreldra. Börnin sem fylgdu fast á eftir þeim, töldust hafa meðalháan virðingarsess. Þessi börn bjuggu almennt yfir góðri þekkingu á barnaefni en síðri þekkingu á tölvum og ofurhetjum en börn sem hæsta sessinn skipuðu. Foreldrar þeirra eru ýmist með stúdentspróf eða iðnmenntun. Börn sem nutu lítillar virðingar í jafningjahópnum notuðu sjaldan tilvísanir í barnaefni og þau voru börn foreldra sem höfðu einungis lokið grunnskólaprófi. Telpur staðfestu bæði þekkingu drengja og telpna en drengir staðfestu eingöngu þekkingu annarra drengja.  ► Sjá grein.

Skínandi námsefni um jafnrétti: Ég, þú og við öll – Sögur og staðreyndir um jafnrétti

Í ► ritfregn og dómi Ingólfs Ásgeirs Jóhannessonar segir frá nýrri bók og kennsluleiðbeiningum á vef um jafnrétti ætlað til nota í grunnskóla. Höfundar eru Kolbrún Anna Björnsdóttir og Fatima Hossaini.

Ég fagna þessari bók mikið. Bókin er skrifuð til að falla að ákvæðum laga um grunnskóla og ákvæðum aðalnámskrár grunnskóla frá 2011 og 2013 um jafnréttisfræðslu. Eins og fræðimenn á sviði kynjafræði og skólastarfs hafa mælt sterklega með (sjá t.d. Guðnýju Guðbjörnsdóttur, 2009; Þorgerði Einarsdóttur og Ingólf Ásgeir Jóhannesson, 2011) eru aðferðir og hugtök kynjafræðinnar í öndvegi í þessu riti, enda „líka vel nothæf til að öðlast skilning á annars konar misrétti“ (eins og segir í kennsluleiðbeiningum, bls. 2). Bókin er gott dæmi um fjölbreytileika kynjafræðanna og hvernig hægt er að nota þau í samvinnu við aðrar greinar til að koma auga á mismunun og forréttindi og ræða leiðir til að draga úr hvorutveggja.

Sjá ritfregn.

Kyngervi, hörundslitur, fötlun og stétt í kvikmyndinni Intouchables

Driss og Philippe í Intouchables

Samhengi menningar og fötlunar er áhugavert viðfangsefni og með því að skoða mismunandi menningarafurðir er hægt að fá vísbendingar um mismunandi gildi og viðmið samfélaga. Leiknar kvikmyndir eru dæmi um slíka menningarafurð, geta gefið vísbendingar um tíðarandann og haft áhrif á viðhorf almennings. Í ► grein Kristínar Björnsdóttur og Kristínar Stellu L’orange er rýnt í frönsku kvikmyndina Intouchables sem var frumsýnd árið 2011, sló mörg aðsóknarmet og var tilnefnd til fjölda verðlauna. Myndin fjallar um fatlaðan auðkýfing og aðstoðarmann hans, sem er „ómenntaður“ innflytjandi frá Senegal og hefur enga faglega þekkingu á því hvernig aðstoða eigi fatlað fólk í daglegu lífi. Birtingarmyndir fatlaðs fólks í kvikmyndum byggja oft á tíðum á staðalímyndum um hið „afbrigðilega“ en slíkar staðalímyndir má einnig finna um aðra minnihlutahópa. Í kvikmyndinni er aðalsögupersónunum stillt upp sem andstæðupörum — fátækur og ríkur, ófatlaður og fatlaður, svartur og hvítur — og í þessari grein er því lýst með hjálp kenninga um samtvinnun hvernig þessar hugsmíðar tvinnast saman og draga fram ríkjandi kynjamisrétti, kynþáttafordóma, hæfishroka og stéttahroka. Þrátt fyrir að kvikmyndin kunni á yfirborðinu að virðast einföld saga tveggja ólíkra manna, þá má þegar betur er að gáð greina í henni flókin samfélagsmynstur mismununar og forréttinda. Í greininni er dregið fram með rökum hvernig myndin bæði ýtir undir og grefur undan ríkjandi hugmyndafræði, allt eftir því frá hvaða sjónarhorni á hana er horft. ► Sjá grein.

Kynjaðar væntingar til kvenna og karla í tveimur leikskólum

Börn í leikskóla - Veggmyndir

Í ► grein Laufeyjar Axelsdóttur og Gyðu Margrétar Pétursdóttur er fjallað um konur og karla sem starfa við uppeldi og kennslu í tveimur leikskólum á Íslandi. Lögð er áhersla á að skoða hvernig hugmyndir um karlmennsku og kvenleika hafa áhrif á vinnubrögð þeirra og viðhorf og væntingar sem þau mæta í starfi. Ætlunin er að varpa ljósi á stöðu jafnréttismála í þessum tveimur leikskólum. Byggt er á hugtökum Connell (1987), ríkjandi karlmennska og styðjandi kvenleiki. Eigindlegum rannsóknaraðferðum var beitt en gagnasöfnun með hálfstöðluðum einstaklingsviðtölum og þátttökuathugunum hófst í september 2011 og stóð fram í apríl 2012. Tekin voru viðtöl við átta konur og tvo karla sem starfa í tveimur leikskólum og gerðar tvær þátttökuathuganir, ein í hvorum leikskóla. Niðurstöður benda til þess að verkaskipting í leikskólunum tveimur sé kynjuð þar sem hefð-bundnum hugmyndum um hlutverk kynjanna er viðhaldið innan þeirra. Orðræðan um karlana innan leikskólanna og áherslur þeirra er með jákvæðum formerkjum og þeim hrósað af konunum fyrir að sinna til dæmis fótbolta. Þessi stuðningur skapar körlunum ákveðna sérstöðu í leikskólunum tveimur þar sem sambærileg orðræða á sér ekki stað um konurnar. Orðræðan um áherslur kvennanna á líkamlega umönnun, eftirlit og foreldrasamskipti var oft með neikvæðum formerkjum. Umræðan var lituð eðlishyggju: talað var um móðureðlið sem áhrifaþátt í starfsvali og að kynin væru ólík og þyrftu þar af leiðandi ólík verkefni. Einnig kom fram að karlkyns starfsmenn í leikskólunum tveimur mæta fordómum en það bendir til þess að starfið samræmist illa hugmyndum samfélagsins um karlmennskuna. Umræðan gefur til kynna að fólk virðist eiga erfitt með að sjá það fyrir sér að karlar sem sækjast eftir starfi í leikskólum geri það af áhuga á umönnun og velferð barna heldur hljóti annarleg sjónarmið að búa þar að baki. ► Sjá grein.

Að bjóða kynjakerfinu birginn – Reynsla átta húsasmiða og tölvunarfræðinga

Veggmynd með andlitum af báðum kynjum - Glerárskóla - TH

Grein Katrínar Bjargar Ríkarðsdóttur og Ingólfs Ásgeirs Jóhannessonar fjallar um birtingarmyndir kynjakerfisins í reynslu kvenna af námi og störfum í húsasmíði og tölvunarfræði. Tekin voru viðtöl við átta konur í greinunum tveimur. Allar höfðu þær lokið námi á síðastliðnum sex árum áður en viðtölin voru tekin. Húsasmiðirnir höfðu stundað nám í þremur framhaldsskólum og tölvunarfræðingarnir í þremur háskólum á ólíkum stöðum á landinu. Í greininni er leitast við að svara því hvort kynjakerfið í formi útilokunar, aðgreiningar og undirskipunar kvenna komi fram í reynslu þeirra, hvaða teikn séu skýrust og hvort kynjakerfið leiti nýrra leiða til að halda jafnvægi þegar tilraunir eru gerðar til að vinna í trássi við það. Meginniðurstaðan er sú að þótt einstaka konum takist að bjóða kynjakerfinu birginn dugi það skammt þar sem birtingarmyndir kynjakerfisins eru ekki persónuleg sérviska heldur kerfislægt fyrirbæri. Þegar skyggnst var undir yfirborðið og hlustað grannt á raddir kvennanna kom í ljós að ýmsir þættir kynbundinnar menningar í reynslu þeirra eru mjög lúmskir og í flóknu samspili við launavinnu, heimili, kynverund, ofbeldi og þátt ríkisins.

Orðræða fjölmiðla um íslenskar afreksíþróttakonur

Í grein Guðmundar Sæmundssonar lýsir höfundur orðræðu íslenskra fjölmiðla um íþróttakonur. Orðræðan býr yfir eigin einkennum, mjög í anda þeirrar umfjöllunar sem ríkir um konur almennt í íslensku samfélagi en að mörgu leyti ólík þeim einkennum sem fram koma um íþróttakarla. Þetta er niðurstaða rannsóknar á orðræðu íslenskra fjölmiðla yfir 60 ára tímabil um íslenskar afreksíþróttakonur sem náð hafa árangri á alþjóðavettvangi. Í rannsókninni var beitt þemabundinni og sögulegri orðræðugreiningu og skoðuð stef á borð við kvenlegt útlit, t.d. andlitsfegurð, fallegan líkamsvöxt, kvenlega hárgreiðslu og klæðnað, einnig samviskusemi, dugnað, tilfinningar, metnað, ákveðni og þrjósku, umhyggju og samvinnu.

Skaðleg karlmennska? Grein um bókina Mannasiðir Gillz

Grein Ástu Jóhannsdóttur og Kristínar Önnu Hjálmarsdóttur lýsir greiningu þeirra á bókinni Mannasiðir Gillz. Niðurstaða höfunda er m.a. að sú karlmennskuhugmynd sem þar kom fram virðist líkleg til að stuðla að skaðlegri karlmennsku og vinna gegn þróun í jafnréttisátt.

Kynjakerfið og viðhorf framhaldsskólanema

Grein Gerðar Bjarnadóttur og Guðnýjar Guðbjörnsdóttur fjallar um viðhorf framhaldsskólanema til þess að brjóta upp hefðbundin kynjamynstur. Byggt er á spurningalista sem lagður var fyrir 111 nemendur á fyrsta ári í framhaldsskóla á höfuðborgarsvæðinu. Svör kynjanna reyndust marktækt ólík.

Ritdómur: Bók fyrir forvitnar stelpur

Ritdómur Aðalbjargar Guðmundsdóttur og Svövu Gunnarsdóttur fjallar um Bók fyrir forvitnar stelpur. Niðurstaða ritdómara er m.a. að bókin eigi ekki aðeins erindi við unglingsstúlkur, heldur einnig við foreldra þeirra.