23/04/2018

„Voruð þið að tala um mig?“: Um nemendavernd í grunnskólum

Krakkar í fótbolta á skólavelli

Í ► grein þeirra Jóhönnu Kr. Arnberg Gísladóttur, Guðrúnar Kristinsdóttur og Amalíu Björnsdóttur segir frá rannsókn á starfsemi nemendaverndarráða í grunnskólum og hlutdeild nemenda í ákvörðunartöku í eigin málum í ráðunum. Tilgangurinn með rannsókninni er að veita innsýn í störf ráðanna og draga lærdóm af niðurstöðum en einnig að vekja lesendur til umhugsunar um réttindastöðu grunnskólanemenda. Vaxandi skilningur er á mikilvægi þess að rödd barna fái hljómgrunn, að á þau sé hlustað og að þess sjáist merki við ákvörðunartöku í málum þar sem aðstæður þeirra og vandi eru til meðferðar. Nemendaverndarráð eru þverfagleg teymi sem eiga að starfa í grunnskólum landsins og þeim er ætlað að stuðla að velferð nemenda. Starfsemi þeirra hefur lítt verið rannsökuð og ekki hafa legið fyrir upplýsingar um þátttöku barna í meðferð mála sem tekin eru fyrir þar. Rafrænn spurningalisti var sendur til skólastjóra allra grunnskóla á Íslandi skólaárið 2013–2014. Alls bárust svör frá 84 skólum og var svarhlutfall 50% á landsvísu. Niðurstöður benda til þess að nemendaverndarráð starfi í flestum grunnskólum og töldu þátttakendur þau almennt starfa með hagsmuni nemenda að leiðarljósi. Mál sem rata inn á borð nemendaverndarráða eiga það flest sameiginlegt að fjalla um málefni einstakra nemenda en hlutdeild nemenda í afgreiðslu mála sem þá snerta er takmörkuð. Þátttakendur töldu aldur og þroska nemenda og eðli mála helstu ástæður lítillar aðkomu nemendanna sjálfra. Meirihluta foreldra (86%) er tilkynnt að um mál barns þeirra sé fjallað í ráðunum en hlutfallslega fáum börnum er gert viðvart um það (17%). Niðurstöður benda til að tryggja þurfi betur hlutdeild nemenda í ákvörðunum um eigin málefni í nemendaverndarráðunum. ► Sjá grein.

Efnahagshrunið og skólastarf í Reykjavík

Við Austurbæjarskóla

Grein þeirra Steinunnar Helgu Lárusdóttur, Önnu Kristínar Sigurðardóttur, Örnu H. Jónsdóttur, Barkar Hansen og Guðnýjar Guðbjörnsdóttur segir frá rannsókn þar sem könnuð voru áhrif efnahagshrunsins á Íslandi árið 2008 á skóla í Reykjavík. Gagnaöflun fór fram á árunum 2013 og 2014. Tekin voru viðtöl við einstaklinga og í rýnihópum. Rætt var við fulltrúa hjá Reykjavíkurborg og í mennta- og menningarmálaráðuneyti, skólastjórnendur, kennara, foreldra og nemendur í völdum leik-, grunn- og framhaldsskólum. Niðurstöður benda til þess að tekist hafi að vernda kjarnann í skólastarfinu fyrir niðurskurði en þó í meira mæli í grunnskólum en í leik- og framhaldsskólum. Niðurskurðurinn olli því ekki skólakreppu í þeim skilningi að grunngildum skólanna væri ógnað. Öðru máli kann þó að gegna um leikskólana sem urðu fyrir þyngri áföllum en skólarnir á hinum skólastigunum. Þótt ekki kæmi til skólakreppu í framangreindum skilningi þá hafði niðurskurður margvísleg áhrif á skólastarfið. Stjórnunarstöðum fækkaði umtalsvert, einkum millistjórnendum, forfallakennsla var unnin af skólastjórnendum, annað starfsfólk var ráðið í hlutastörf og framlög til tómstundastarfs og náms- og starfsráðgjafar skert. Yfirvinna starfsfólks var ekki leyfð, minna fé var veitt til samstarfs, bekkir urðu fjölmennari og dregið úr fjárveitingum til kaupa á efniviði og námsgögnum og til viðhalds tækja og húsa. Loks voru skólar á leik- og grunnskólastigi sameinaðir. Fram kom að sú aðgerð hefði aukið mjög á þá erfiðleika sem af niðurskurðinum hlaust. Ekki voru nefnd dæmi um að fólk missti vinnuna þótt talsvert væri um uppsagnir, starfsmönnum var þá boðin vinna að nýju en stundum í skertu starfshlutfalli. Þótt viðmælendur teldu að ekki kæmi til frekari niðurskurðar sögðust þeir ekki vongóðir um bjartari tíma framundan. Að mörgu leyti voru áherslur hagsmunaaðila skóla í samræmi við ráðleggingar fræðimanna um fagleg viðbrögð við efnahagsþrenginum. Sú áhersla sem lögð var á að vernda nám og kennslu og standa vörð um velferð nemenda eru dæmi um slík viðbrögð. Á hinn bóginn komu upp mál þar sem bæði starfsmenn skóla og foreldrar kvörtuðu yfir þeim skorti á samráði sem yfirvöld hefðu viðhaft við ákvarðanir um mikilvæg málefni skólanna. Rannsóknin var unnin af fimm fræðimönnum Rannsóknarstofu í menntastjórnun, nýsköpun og matsfræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.  ► Sjá grein.

Hugmyndir á síðasta hluta nítjándu aldar og í byrjun þeirrar tuttugustu um grenndaraðferð í skólastarfi

Íslensk tímarit upp úr aldamótunum 1900.

Í ► grein Ruthar Margrétar Friðriksdóttur og Braga Guðmundssonar segir frá rannsókn sem beindist að hugmyndum íslenskra skólamanna um nýtingu grenndaraðferðar í skólastarfi á áratugunum kringum 1900. Gengið er út frá þremur rannsóknarspurningum: Hvaða hugmyndir höfðu íslenskir skólamenn um grenndaraðferð og grenndarkennslu í kringum aldamótin 1900? Hvernig birtust þessar hugmyndir og að hvaða marki í tímaritum á þeim tíma? Hverjar eru rætur hugmynda íslenskra skólamanna um nýtingu nánasta umhverfis til náms? Til að fá svör við þessum spurningum var byrjað á því að kanna efnisyfirlit skóla- eða menntatímarita og fáeinna annarra rita og skoða vandlega allar greinar sem bera heiti er benda til þess að í þeim sé eitthvert efni sem tengist grenndaraðferð eða grenndarkennslu. Sú leit bar umtalsverðan árangur og frá niðurstöðum hennar segir hér í greininni. Í þeirri umfjöllun er lítill greinarmunur gerður á hugtökunum grenndarkennslu og grenndaraðferð þótt það fyrrnefnda vísi til þess þegar áhersla er lögð á að kenna nemendum um grenndina en grenndaraðferð til þess þegar viðfangsefni úr nágrenni eru nýtt sem uppspretta hugmynda eða samanburðar við kennslu. Rannsóknaraðferðin er í eðli sínu söguleg og framsetning efnisins einnig. Í ljós kemur að íslenskir skólamenn höfðu margar og býsna fjölbreyttar hugmyndir um ágæti þess að nýta grenndina við kennslu og rökstuddu kosti þess gjarnan með vísun í uppeldisfræðileg sjónarmið. Í skrifum nokkurra þeirra má jafnframt greina sterka þjóðerniskennd, tengsl við vaxandi félagshreyfingar og áherslu á ættjarðar-ást. Helstu námsgreinar sem höfundar tengja við grenndaraðferð eða grenndar-kennslu eru saga, náttúrufræði, landafræði og átthagafræði.  ► Sjá grein.

Skínandi námsefni um jafnrétti: Ég, þú og við öll – Sögur og staðreyndir um jafnrétti

Í ► ritfregn og dómi Ingólfs Ásgeirs Jóhannessonar segir frá nýrri bók og kennsluleiðbeiningum á vef um jafnrétti ætlað til nota í grunnskóla. Höfundar eru Kolbrún Anna Björnsdóttir og Fatima Hossaini.

Ég fagna þessari bók mikið. Bókin er skrifuð til að falla að ákvæðum laga um grunnskóla og ákvæðum aðalnámskrár grunnskóla frá 2011 og 2013 um jafnréttisfræðslu. Eins og fræðimenn á sviði kynjafræði og skólastarfs hafa mælt sterklega með (sjá t.d. Guðnýju Guðbjörnsdóttur, 2009; Þorgerði Einarsdóttur og Ingólf Ásgeir Jóhannesson, 2011) eru aðferðir og hugtök kynjafræðinnar í öndvegi í þessu riti, enda „líka vel nothæf til að öðlast skilning á annars konar misrétti“ (eins og segir í kennsluleiðbeiningum, bls. 2). Bókin er gott dæmi um fjölbreytileika kynjafræðanna og hvernig hægt er að nota þau í samvinnu við aðrar greinar til að koma auga á mismunun og forréttindi og ræða leiðir til að draga úr hvorutveggja.

Sjá ritfregn.

Kennsluhættir í grunnskólum Reykjavíkur: Niðurstöður ytra mats

Bekkjarkennsla í reykvískum grunnskóla 2009 - TH

Í ► grein Birnu Sigurjónsdóttur segir frá ytra mati á kennsluháttum í grunnskólum Reykjavíkur. Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar hefur gert heildarmat (ytra mat) í grunnskólum borgarinnar allt frá árinu 2007. Nær allir grunnskólar borgarinnar hafa verið heimsóttir og kennslustundir verið metnar út frá viðmiðum um gæði. Einnig hefur verið merkt við hvaða kennsluhættir einkenndu stundirnar. Frá byrjun árs 2009 hafa 1.066 kennslustundir verið metnar og greindar, þar af hafa 75% verið metnar góðar eða frábærar, rúmlega 22% viðunandi og tæplega 3% óviðunandi. Greining á kennsluháttum í þessum rúmlega þúsund stundum sýnir að langalgengast er að nemendur vinni að verkefnum undir beinni stjórn kennara og hlusti á fyrirlestur eða innlögn hans. Kennarinn er þannig í aðalhlutverki sem fræðari og stýrir námi nemenda að því marki að sömu lausnir komi fram hjá öllum nemendum. Greining kennsluhátta eftir námsgreinum sýnir að kennarastýring er enn meiri í bóklegum greinum en list- og verkgreinum. Markviss samvinna nemenda, það er að þeir vinni að sameiginlegu viðfangsefni og komist að sameiginlegri niðurstöður, sást í 12% stunda og sjálfstæð vinna nemenda að einhverju leyti að eigin vali í 10%. Þemavinna er algengust í samfélagsgreinum og tilraunir sjást helst í náttúrugreinum, en einnig í þessum greinum eru algengustu kennsluhættirnir verkefnavinna og innlögn kennara. Lítill munur er á kennsluháttum eftir aldri nemenda.
Í öllum aldurshópum er verkefnavinna undir stjórn kennara algengust en bein kennsla eða innlögn er þó heldur algengari á unglingastigi en hjá yngri nemendum.  ► Sjá grein.

Netnotkun íslenskra ungmenna og mörk sem foreldrar setja þeim um netnotkun

Netnotkun hefur aukist mikið síðasta áratuginn og er orðin stór hluti af daglegu lífi margra, einnig ungmenna. Tækniþróun hefur leitt til þess að komast má á Netið næstum hvar og hvenær sem er. Í þessari ► grein Hjördísar Sigursteinsdóttur, Evu Halapi og Kjartan Ólafssonarer skýrt frá niðurstöðum rannsóknar á netnotkun ungmenna í 9. og 10. bekk grunnskóla á Íslandi og hvort foreldrar setji ungmennunum einhverjar reglur eða mörk varðandi hana. Byggt er á gögnum sem safnað var í rannsóknarverkefni um netávana (netfíkn) meðal ungmenna í Evrópu (EU NET ADB). Markmið rannsóknarverkefnisins var að meta algengi og áhrifaþætti netávana meðal evrópskra ungmenna. Blönduðum rannsóknaraðferðum var beitt við gagnaöflun, spurningalistakönnun og hálfstöðluðum viðtölum við ungmenni sem mældust með netávana. Meginniðurstöður eru þær að allir þátttakendur í 9. og 10. bekk grunnskóla nota Netið og tveir af hverjum þremur gera það daglega eða nánast daglega. Strákar verja meiri tíma á Netinu en stelpur eða að meðaltali um tveimur og hálfri klukkustund á dag á móti tveimur klukkustundum hjá stelpum. Um 1% þátttakenda í rannsókninni hafði einkenni netávana og um 7% til viðbótar töldust vera í áhættuhópi vegna netávana. Nærri 60% foreldra settu því sjaldan eða aldrei mörk hversu lengi ungmennin máttu vera á Netinu. Ungmenni sem rætt var við í eigindlegum hluta rannsóknarinnar töldu sig almennt hafa stjórn á netnotkun sinni en mörg hver voru þó jafnframt á þeirri skoðun að netnotkun þeirra væri orðin meiri en eðlilegt gæti talist. Tengja mátti leiða, einmanaleika og flótta frá raunveruleikanum við netnotkun ungmennanna sem rætt var við í eigindlegum hluta rannsóknarinnar. ► Sjá grein.

Íþróttaþátttaka íslenskra ungmenna: Þróun íþróttaþátttöku og greining á félagslegum áhrifaþáttum

Drengir og þjálfarar

Frá og með seinni hluta tuttugustu aldar hefur íþróttaþátttaka vaxið það ört að fræðimenn hafa talað um „íþróttavæðingu samfélagsins“. Þessi aukna þátttaka á ekki síst við í íþróttum barna og ungmenna, sem eru í dag stærstur hluti þátttakenda í skipulögðu íþróttastarfi. Ástæður almennrar þátttöku ungs fólks í skipulögðu íþróttastarfi má að einhverju leyti rekja til jákvæðra hugmynda almennings um slíkt starf þar sem litið er á íþróttafélög sem hluta af uppeldisstofnunum samfélagsins og því heppilegan vettvang fyrir samfélagslega aðlögun barna og ungmenna. En samhliða þessari þróun hefur fjölbreytni aukist í íþróttastarfi þar sem athæfi af sífellt fleira tagi fellur undir hefðbundna íþróttaskilgreiningu. Athæfi sem ekki endilega mætir væntingum um jákvæða þróun uppeldis fyrir ungt fólk. Þessari ► grein Viðars Halldórssonar er ætlað að varpa ljósi á íþróttaiðkun íslenskra ungmenna, skoða þróun skipulagðs íþróttastarfs og sérstaklega að skoða hverjir eru líklegastir til að taka þátt í íþróttum eftir ólíkum leiðum hér á landi. Greinin byggir á viðamiklum gögnum Rannsókna og greiningar á ungu fólki með megináherslu á könnun sem gerð var vorið 2014 meðal nemenda í 8.–10. bekk allra grunnskóla á Íslandi. Niðurstöður sýna að mun fleiri ungmenni stunda nú skipulagt íþróttastarf en árið 1992. Ennfremur hefur hlutfall þeirra sem æfa oft tvöfaldast hjá piltum og nærri þrefaldast hjá stúlkum á þessum árum. Íþróttaþátttaka í íþróttafélögum er mest meðal nemenda í 7. bekk en eftir það dregur jafnt og þétt úr þátttöku ungs fólks í skipulögðu íþróttastarfi. Þátttakan eykst aftur á móti í íþróttum utan íþróttafélaga. Niðurstöðurnar benda einnig til þess að ýmsir félagslegir þættir hafi áhrif á hvort og með hvaða hætti ungmenni stunda íþróttir. Þættir eins og kyn, aldur, búseta, heimilisgerð, hvatning foreldra, tengsl við vini og íþróttatengd virðing vina, tengjast allir íþróttaþátttöku ungmenna. Í þessu samhengi er mikilvægt að líta til þess að félagslegar hindranir geta haldið ákveðnum hópum ungs fólks frá uppeldisvænu tómstundastarfi á borð við skipulagt íþróttastarf. ► Sjá grein.

Brot úr starfi Brúarásskóla: Hver og einn er einstakur

Krakkar í Brúarásskóla að steikja pylsur á opnum eldi.

Í ► grein Stefaníu Malenar Stefánsdóttur segir frá áhugaverðu skólastarfi í fámennum skóla Fljótsdalshéraði. Brúarásskóli hefur vakið athygli fyrir frjótt og skapandi skólastarf og var valinn Nýsköpunarskóli ársins í flokki minni skóla árin 2012 og 2013. Útikennsla er fastur liður í starfinu, tvær útikennslustofur eru við skólann og ein kennsluvika í hverjum mánuði er útikennsluvika. Kennarar skólans hafa verið þátttakendur í þróunarverkefnum og öllu námsmati skólans hefur verið umbylt á síðustu árum. Margar skemmtilegar hefðir einkenna starfið, dans er kenndur á öllum stigum og á hverju ári er settur upp frumsaminn söng-leikur þar sem allir nemendur skólans fara með hlutverk, spila á hljóðfæri og semja sum lögin í sýningunni. Tónlistarskóli er starfandi í húsakynnum skólans og þar stunda um 90% nemenda grunnskólans nám á skólatíma. Við skólann er dýrahús þar sem nemendur halda hænur, kanínur og naggrísi. Þangað fara afgangar úr mötuneytinu og svo eru eggin úr hænunum notuð í heimilisfræðikennslu. Skólinn er Grænfánaskóli og annað hvert ár er valið nýtt þema tengt náttúru og umhverfisvernd að vinna með. Á tveggja vikna fresti fá nemendur með sér heim hjartaása þar sem umsjónarkennarar hafa skrifað til þeirra jákvæð skilaboð. ► Sjá grein.

Physical Activity of 11–12 Year Old Pupils in Two Schools in Norway and Iceland

Fótleggir drengs á hlaupum í íþróttasal.

Detailed knowledge about physical activity (PA) in both school and leisure time is of great importance in order to promote children’s health. This ► article by Bjørg Oddrun Hallås, Torunn Herfindal and Hege Wergedahl gives an account of a study designed to investigate and compare the PA levels of sixth-grade pupils, 11–12 years of age, in two Nordic schools, during both school and leisure time by combining pedometer measures with activity diary records. Pupils from Norway (n= 44) and Iceland (n=37) wore pedometers for seven consecutive days and kept an activity diary for the first two days. After pupils’ PA had been registered for one week using a pedometer, no significant differences in pedometer step counts were found. Nor were there significant differences in the pedometer step counts between weekdays and weekends. But when looking only at the group of pupils reporting to meet the standard of at least 60 minutes PA and 12,000 pedometer step counts per day for girls and 15,000 for boys, results revealed that there were a higher percentage of Norwegian pupils in this group. However, within this group the Icelandic pupils were active for a longer period and had higher pedometer step counts. The Norwegian pupils reported a significantly higher daily PA from walking or cycling to school than the Icelandic pupils. Among boys, there were no other significant differences. On the other hand, the Norwegian girls reported a significantly higher level of exercise in sports club and a significantly lower level of leisure time walks than the Icelandic girls. In conclusion, although the total amount of PA of Norwegian and Icelandic pupils was similar, a closer look at the various activities during school time and leisure time revealed significant differences between the case schools, including gender differences. The study has contributed to the knowledge about PA among 11–12-year-old pupils in two Nordic countries and revealed a need for more research into different factors, in both school and leisure time that can contribute to increasing Nordic pupils PA levels. ► See article.

Nákvæm þekking á hreyfingu (e. physical activity) á skólatíma og í tómstundum er ákaflega mikilvæg þegar efla á heilsu barna. Í þessari rannsókn var könnuð og borin saman hreyfing 11 til 12 ára barna í sjötta bekk í tveimur norrænum skólum, bæði á skólatíma og í frjálsum tíma með því að tefla saman skrefamælingum og hreyfidagbókarfærslum. Nemendur í Noregi (n=44) og á Íslandi (n=37) gengu með skrefamæla í sjö daga samfleytt og héldu hreyfidagbók fyrstu tvo dagana. Eftir að hreyfing nemenda hafði verið mæld með skrefamæli í eina viku fannst enginn marktækur munur á fjölda skrefa. Ekki mátti heldur greina marktækan mun á skrefafjölda á virkum dögum og helgardögum. En þegar einblínt var á þann hóp nemenda, sem mætti þeirri lágmarkskröfu að hreyfa sig í minnst 60 mínútur og taka fyrir stelpur 12.000 mæld skref á dag en fyrir stráka 15.000 mæld skref á dag, leiddu niðurstöður í ljós að hærra hlutfall norskra nemenda fyllti þann hóp. Íslendingarnir í hópnum, aftur á móti, reyndust hreyfa sig lengur og skila hærri skrefatölu. Norsku nemendurnir gerðu grein fyrir marktækt meiri hreyfingu fólginni í því að ganga eða hjóla til og frá skóla. Á meðal stráka var enginn annar marktækur munur. Stelpurnar aftur á móti sýndu marktækt meiri hreyfingu á æfingum á vegum íþróttafélaga og marktækt minni göngu í frístundum. Í hnotskurn má segja að þótt hreyfing norskra og íslenskra nemenda hafi verið ámóta mikil á heildina litið hafi nánari athugun á athöfnum á skólatíma og í frístundum leitt í ljós marktækan mun á þátttökuskólunum, meðal annars eftir kynjum. Rannsókn okkar hefur aukið þekkingu á hreyfingu 11 til 12 ára skólabarna í tveimur Norðurlanda. Niðurstöður okkar sýna þörf fyrir frekari rannsóknir á ýmsum þáttum sem geta stuðlað að því að nemendur á Norðurlöndum hreyfi sig meira. ► Sjá grein.

Gildi og áherslur skólastjóra í grunnskólum í Reykjavík

Krakkar á gangi með skóla.

Grein Birnu Sigurjónsdóttur og Barkar Hansen lýsir rannsókn þar sem byggt er á viðtölum við skólastjóra í 22 grunnskólum í Reykjavík. Viðtölin voru tekin þegar heildarmat á skólunum fór fram. Markmiðið var að draga fram hvernig skólastjórar líta á hlutverk sitt sem faglegir leiðtogar í skólastarfi, greina áherslur þeirra í starfi og gildi sem þeir leggja til grundvallar í starfi sínu. Einnig voru athuguð tengsl þeirra við kennara og kannað hvernig þeir virkjuðu millistjórnendur til faglegar forystu eða fælu þeim hlutverk í því að leiða faglegt starf og umræður og mynda tengsl milli kennara og skólastjóra um þróun náms og kennslu. Greining á viðtölunum leiddi í ljós þrjá lykilþætti í stjórnunarháttum skólastjóra. Þeir eru áhersla á faglegt forystuhlutverk, áhersla á árangur nemenda og umhyggja fyrir velferð og líðan nemenda og starfsfólks. Niðurstöður benda til þess að um helmingur viðmælenda líti á það sem sitt meginhlutverk að beita sér sem faglegir leiðtogar í skólastarfi og rúmlega þriðjungur leggi mesta áherslu á nám og árangur. Í skólum þar sem styrk fagleg forysta er fyrir hendi birtist það meðal annars í því að millistjórnendur eru tengiliðir milli skólastjóra og kennarahópa. Aðeins tveir skólastjóranna tengjast námi og kennslu með heimsóknum í skólastofur og endurgjöf til kennara. Styrkur skólastjóranna virðist felast í þeirri umhyggju sem þeir bera fyrir starfsfólki og nemendum og birtist greinilega í viðtölunum. Umhyggja skólastjórans birtist í stuðningi við starfsfólk og nemendur og í sumum tilvikum verður hún megineinkenni stjórnunarhátta, en styðjandi forysta (e. supportive leadership) einkennist af því að stjórnandi leggur áherslu á mikilvægi einstaklinga í hópnum, líðan og tilfinningar. Helsti veikleikinn í störfum skólastjóranna, sem fram kemur í rannsókninni, er að sumir þeirra sinna lítið eða ekki faglegri forystu og hafa lítil tengsl við kennara að því er varðar nám og kennslu, auk þess sem millistjórnendur undir þeirra stjórn, ef um þá er að ræða, hafa óljóst faglegt hlutverk. Hagnýtt gildi rannsóknarinnar er að hún sýnir fram á að styðja þurfi skólastjóra til að verða þeir faglegu stjórnendur sem ákvæði laga gera ráð fyrir og sem fræðin telja að leiði til besta árangurs í skólastarfi. ► Sjá grein.

Forspárgildi málþroskaathugana við 5–6 ára aldur um síðari líðan og reynslu

Strákar í skóla - Úr safni Menntavísindasviðs Háskóla Íslands

Tilgangur rannsóknar sem segir frá í ► grein Amalíu Björnsdóttur, Jóhönnu T. Einarsdóttur og Ingibjargar Símonardóttur var að kanna hvort málþroskamælingar við fimm ára aldur spái fyrir um ýmsa félagslega og sálræna þætti síðar á lífsleiðinni. Árin 1997 og 1998 var athugaður málþroski 267 leikskólabarna með HLJÓM-2-prófinu. Þessi börn, sem eru nú orðin fullorðin (18 og 19 ára), voru í þessari rannsókn beðin að svara rafrænum spurningalista um ýmsa þætti, meðal annars reynslu þeirra af grunnskólagöngu sinni, hvort þau hefðu verið greind með þætti sem hamla þeim í námi og hvort þau hefðu stundað nám að loknum grunnskóla. Niðurstöður sýndu marktæk tengsl milli árangurs á HLJÓM-2 og margra þessara þátta. Þau sem höfðu sýnt slakan árangur á HLJÓM-2 fannst námið í grunnskóla bæði erfiðara og leiðinlegra, þeim hafði frekar verið strítt eða þau lögð í einelti og höfðu frekar verið í sérkennslu en þau sem hafði gengið betur á HLJÓM-2. Þessi sami hópur var einnig líklegri til að vera með greiningar um örðugleika, til dæmis var rúmlega fjórðungur þeirra sem sýndu slakan árangur á HLJÓM-2 með greiningu um athyglisbrest og fjórðungur með námsörðugleika. Af þeim sem gekk vel á HLJÓM-2 voru aftur á móti 12% með greiningu um athyglisbrest og 2% með námsörðugleika. Ljóst er að slakur árangur á HLJÓM-2 spáir ekki aðeins fyrir um slakan árangur í námi heldur hefur hann einnig forspárgildi um slæma reynslu úr grunnskóla. Mikilvægt er að betri samvinna og samskipti um viðbrögð við niðurstöðum á HLJÓM-2 náist milli leikskóla og grunnskóla. Þannig mætti koma betur til móts við þarfir nemenda í áhættu og draga úr eða koma í veg fyrir neikvæða reynslu þeirra í grunnskóla. ► Sjá grein.

„Uss, ég er að vinna!“ – Einstaklingsmiðaðar stuðningsáætlanir vegna hegðunarerfiðleika

Stelpur í skóla - Úr safni Menntavísindasviðs Háskóla Íslands

Grein Guðrúnar Bjargar Ragnarsdóttur og Önnu-Lindar Pétursdóttur segir frá rannsókn á áhrifum einstaklingsmiðaðra stuðningsáætlana með stighækkandi viðmiðum um frammistöðu á námsástundun grunnskólanemenda með hegðunarerfiðleika. Þátttakendur voru fjórir drengir á aldrinum sjö til átta ára sem höfðu sýnt hegðunarerfiðleika í fimm til sjö ár þrátt fyrir ýmis úrræði. Þrír þátttakenda voru greindir með ADHD, tveir með mótþróaþrjóskuröskun, einn með ódæmigerða einhverfu og einn með almenna kvíðaröskun og Tourette-heilkenni. Virknimat fólst í viðtölum og beinum athugunum til að finna út hvað hefði áhrif á hegðunarerfiðleika þátttakendanna. Einstaklingsmiðaðar stuðningsáætlanir voru útbúnar með hliðsjón af niðurstöðum virknimats og fólu í sér úrræði sem beindust að bakgrunnsáhrifavöldum, breytingum á aðdraganda, þjálfun í viðeigandi hegðun og hvatningarkerfi. Kennarar fylgdu áætlununum eftir undir handleiðslu sérkennara og sérfræðings í atferlisíhlutun. Fjórar til sjö útgáfur af hvatningarkerfi með stighækkandi viðmiðum um frammistöðu voru notaðar í sex til þrettán vikur til að auka sjálfstæða námsástundun þátttakenda samhliða því að dregið var úr umfangi íhlutunar. Námsástundun þátttakenda var metin með endurteknum áhorfsmælingum í námsaðstæðum sem höfðu reynst þeim erfiðar. Námsástundun jókst hjá öllum þátttakendum þegar stuðningsáætlun byggð á virknimati var notuð. Að meðaltali jókst námsástundun um 53,4%, eða úr 55,9% í 85,8%. Í mælingum tveimur til fjórum vikum eftir að notkun hvatningarkerfa lauk mældist námsástundun þátttakenda 75% að meðaltali. Niðurstöður eru í samræmi við fyrri rannsóknir og benda til þess að hægt sé að auka sjálfstæða námsástundun nemenda með stuðningsáætlunum sem byggjast á virknimati og viðhalda bættri færni með því að draga smám saman úr umfangi íhlutunar. ► Sjá grein.