23/04/2018

Gildi og áherslur skólastjóra í grunnskólum í Reykjavík

Krakkar á gangi með skóla.

Grein Birnu Sigurjónsdóttur og Barkar Hansen lýsir rannsókn þar sem byggt er á viðtölum við skólastjóra í 22 grunnskólum í Reykjavík. Viðtölin voru tekin þegar heildarmat á skólunum fór fram. Markmiðið var að draga fram hvernig skólastjórar líta á hlutverk sitt sem faglegir leiðtogar í skólastarfi, greina áherslur þeirra í starfi og gildi sem þeir leggja til grundvallar í starfi sínu. Einnig voru athuguð tengsl þeirra við kennara og kannað hvernig þeir virkjuðu millistjórnendur til faglegar forystu eða fælu þeim hlutverk í því að leiða faglegt starf og umræður og mynda tengsl milli kennara og skólastjóra um þróun náms og kennslu. Greining á viðtölunum leiddi í ljós þrjá lykilþætti í stjórnunarháttum skólastjóra. Þeir eru áhersla á faglegt forystuhlutverk, áhersla á árangur nemenda og umhyggja fyrir velferð og líðan nemenda og starfsfólks. Niðurstöður benda til þess að um helmingur viðmælenda líti á það sem sitt meginhlutverk að beita sér sem faglegir leiðtogar í skólastarfi og rúmlega þriðjungur leggi mesta áherslu á nám og árangur. Í skólum þar sem styrk fagleg forysta er fyrir hendi birtist það meðal annars í því að millistjórnendur eru tengiliðir milli skólastjóra og kennarahópa. Aðeins tveir skólastjóranna tengjast námi og kennslu með heimsóknum í skólastofur og endurgjöf til kennara. Styrkur skólastjóranna virðist felast í þeirri umhyggju sem þeir bera fyrir starfsfólki og nemendum og birtist greinilega í viðtölunum. Umhyggja skólastjórans birtist í stuðningi við starfsfólk og nemendur og í sumum tilvikum verður hún megineinkenni stjórnunarhátta, en styðjandi forysta (e. supportive leadership) einkennist af því að stjórnandi leggur áherslu á mikilvægi einstaklinga í hópnum, líðan og tilfinningar. Helsti veikleikinn í störfum skólastjóranna, sem fram kemur í rannsókninni, er að sumir þeirra sinna lítið eða ekki faglegri forystu og hafa lítil tengsl við kennara að því er varðar nám og kennslu, auk þess sem millistjórnendur undir þeirra stjórn, ef um þá er að ræða, hafa óljóst faglegt hlutverk. Hagnýtt gildi rannsóknarinnar er að hún sýnir fram á að styðja þurfi skólastjóra til að verða þeir faglegu stjórnendur sem ákvæði laga gera ráð fyrir og sem fræðin telja að leiði til besta árangurs í skólastarfi. ► Sjá grein.