23/04/2018

Reynsla nemenda í Verkmenntaskólanum á Akureyri af þróunarverkefni um stutta starfsnámsbraut

Suða - Sótt af vef VMA

Í þessari ► grein Hjalta Jóns Sveinssonar og Rúnars Sigþórssonar er fjallað um tilraunaverkefni sem miðaði að því að koma á fót stuttri starfsnámsbraut innan Almennrar brautar við Verkmenntaskólann á Akureyri (VMA) skólaárin 2011–2012 og 2012–2013. Markmið greinarinnar er að lýsa tilraunaverkefninu og greina frá reynslunni af því frá sjónarhóli nemendanna sem tóku þátt í því fyrstu tvö árin, reynslu þriggja starfsmanna skólans af verkefninu og mati þeirra á því að hvaða marki það kom til móts við þarfir nemendanna. Starfsnámsbrautin er liður í viðleitni VMA til að ná til nemenda í brotthvarfshættu með nýju og óhefðbundnu námsúrræði. Markmið starfsnámsbrautarinnar er að bjóða nemendum fræðslu um atvinnulífið og búa þá undir frekari þátttöku á vinnumarkaði að loknu framhaldsskólaprófi. Sjö nemendur af tólf sem hófu starfsnámið haustið 2011 luku námi á vorönn 2012 og höfðu staðfest skólavist á næsta hausti. Af sex manna hópi sem innritaðist á starfsnámsbrautina haustið 2012 höfðu fimm lokið því námi sem þeir voru skráðir í og staðfest skólavist ári síðar. Í viðtölum sem tekin voru við nemendurna sem tóku þátt í náminu og dagbókum frá nokkrum þeirra kom fram að þeir voru allir ánægðir með námið og töldu það hafa verið gagnlegt enda þótt þeir væru enn óráðnir um framtíð sína að öðru leyti en því að ætla að halda áfram námi við VMA. Starf þeirra á vinnustöðunum gekk í öllum tilvikum vel. Kennslustjórum Almennu brautarinnar og umsjónarkennara námsins bar saman um að það hefðu verið vonbrigði að fimm nemendur hurfu frá náminu fyrra árið. Engu að síður er það niðurstaða rannsóknarinnar að starfsnámið hafi sannað gildi sitt fyrir þá nemendur sem luku skólaárinu og að þeir hefðu að öllum líkindum hætt í skólanum að loknu fyrsta námsári ef þeir hefðu ekki átt kost á þessu úrræði. ► Sjá grein.

Framtíð í nýju landi: Þróunarverkefni með innflytjendum í framhaldsskólum

Úr vettvangsferð með þátttakendum í verkefninu Framtíð í nýju landi.

► Grein Anh-Dao Tran og Hanna Ragnarsdóttur fjallar um þróunarverkefnið Framtíð í nýju landi (FÍNL). Verkefnið var þriggja ára tilraunaverkefni og því var ætlað til að styðja víetnömsk ungmenni á Íslandi. 35 ungmenni voru skráð þátttakendur í verkefninu. Af þeim hópi voru tólf í skóla eða í starfsþjálfun en önnur voru ekki í formlegu námi. Almennt má segja að víetnömsk ungmenni hafi komið sér áfram í íslensku samfélagi. Ungmennin sem þátt tóku í rannsókninni höfðu flest gert tilraunir til að snúa aftur í skóla til að læra íslensku eða einhverja iðngrein en hætt aftur, aðallega vegna slakrar íslenskukunnáttu, skorts á heppilegum íslenskunámskeiðum, skorts á innri hvatningu og sjálfsvirðingu og erfiðra fjölskylduaðstæðna. FÍNL var stofnað í desember 2004 til að bregðast við þessum erfiðleikum. Öll fengu ungmennin aðstoð við heimanám, stuðning frá mentorum og annan skipulagðan stuðning og ráðgjöf. Heildarniðurstöður mats á þróunarverkefninu voru á þá leið að þrátt fyrir nokkra erfiðleika hefðu markmið þess náðst að tvennu leyti. Annars vegar hefði tekist að styðja og efla þátttakendur í að auka við menntun sína og aðlögun að Íslandi, hins vegar hefðu einstaklingar og stofnanir í sameiningu stuðlað að umbótum í menntakerfinu og samfélaginu til að liðsinna ungu fólki af erlendum uppruna. Þróað var líkan sem lýsir því hvernig þeir aðilar, sem mest áhrif hafa á framgang ungra innflytjenda og annarra ungmenna sem eiga undir högg að sækja, geta unnið saman til að auð-velda skólagöngu þeirra og aðlögun. Þótt FÍNL hafi verið hannað fyrir víetnömsk ungmenni á Íslandi má nota líkanið sem þróað var við að leysa vanda ungmenna hvar sem er í heiminum. ► Sjá grein.

Er hægt að spara í framhaldsskólanum með heimspeki?

Í þessari grein Kristínar Sætran færir höfundur rök fyrir því að heimspeki sé vænleg leið til að sporna gegn námsleiða. Námsleiði virðist hrjá framhaldsskólanemendur illilega og vera einn aðalorsakavaldur brottfalls úr skóla. Brottfallið er þjóðfélaginu gífurlega kostnaðarsamt og ekki síst þess vegna er rétt að hugleiða allt sem koma mætti til greina til að minnka það. Heimspeki styrkir hugsun og virkni, hún veitir frelsi en krefst líka agaðrar hugsunar, hún ýtir undir forvitni og spurn og í heimspeki er borin virðing fyrir margbreytileikanum. Kennsla þar sem áhersla er lögð á þessa þætti spornar gegn tilgangs- og tilbreytingarleysi, ósjálfstæði og ónógri áskorun, en einmitt þessir þættir stuðla að brottfalli. Hin heimspekilega nálgun getur nýst í tengslum við fjölmargar námsgreinar. Þarft er að kynna hvernig þættir heimspekinnar geta unnið gegn námsleiða um leið og kallað er eftir frumkvæði kennara því þeir einir ráða því sem gerist innan skólastofunnar.

Veginn og léttvægur fundinn? Íslenski framhaldsskólinn í evrópskum samanburðartölum

Í grein Helga Skúla Kjartanssonar rýnir höfundur í ýmsar og ólíkar tölur sem tíðkast að vitna í til marks um það hve algengt sé að ungir Íslendingar ljúki framhaldsskólanámi seint eða aldrei. Misræmi í tölum reynist eiga sér ýmsar skýringar, en vandinn er raunverulegur, áskorun sem íslenskt skólakerfi verður að svara.