19/02/2018

Sýn grunnskólakennara á virðingu í starfi

► Grein Sigrúnar Erlu Ólafsdóttur og Sigrúnar Aðalbjarnardóttur segir frá rannsókn sem beindist að sjálfsvirðingu kennara og reynslu þeirra af virðingu annarra fyrir kennarastarfinu. Einnig var leitað eftir því hvernig þeir telja vænlegt að efla sjálfsvirðingu kennara og virðingu í samfélaginu fyrir kennarastarfinu. Viðtöl voru tekin við sex grunnskólakennara á höfuðborgarsvæðinu, þrjár konur og þrjá karla. Kennararnir sex telja sig búa yfir sjálfsvirðingu í starfi og álíta að það eigi við um flesta kennara; fáir endist í kennslu án sjálfsvirðingar. Þeir álíta að sumir þeirra kennara sem skortir sjálfsvirðingu tali niður til starfsins eða fjalli um það á afsakandi hátt. Þessi hópur sé fámennur en hávær. Einnig eru kennararnir þeirrar skoðunar að sjálfsvirðing kennara hafi áhrif á nemendur, líðan þeirra, námsárangur og traust þeirra til kennarans. Þá telja þeir að nemendur og foreldrar beri flestir virðingu fyrir kennarastarfinu en að almenningur, sveitarstjórnir og menntamálayfirvöld geri það ekki. Umræða um kennarastarfið sé oft neikvæð og ófagleg; þekking annarra á starfinu sé oft takmörkuð. Þá ræða þeir leiðir til að efla sjálfsvirðingu kennara og um leið virðingu annarra fyrir kennarastarfinu. ► Sjá grein.

Sýna fleirum: Email this to someoneShare on FacebookShare on LinkedInTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on Pinterest