16.11. 2016
Börkur Hansen og Steinunn Helga Lárusdóttir
Störf deildarstjóra í grunnskólum – verkefni og áherslur
Í kjölfar tilfærslu grunnskólans frá ríki til sveitarfélaga breyttu skólar smám saman stjórnskipulagi sínu og komu á dreifðri forystu með því að fjölga millistjórnendum. Flestir fengu þeir starfsheitið deildarstjórar. Hér segir frá niðurstöðum rannsóknar meðal deildarstjóra í 17 íslenskum grunnskólum. Meginmarkmið rannsóknarinnar var að draga upp mynd af störfum deildarstjóra með því að kortleggja helstu viðfangsefni og kanna sýn þeirra á hlutverk sitt. Gagna var aflað með viðtölum við 17 deildarstjóra. Niðurstöðurnar sýna að störf þeirra eru erilsöm og fjölbreytt. Fram kemur að þeir vildu hafa meiri tíma til að sinna faglegum hluta starfa sinna. Þeir virðast ekki veita mikla forystu á sviði náms og kennslu. Þessum niðurstöðum ber saman við niðurstöður fyrri rannsókna. Höfundar benda á mikilvægi þess að skólastjórar sem eru ábyrgir fyrir því að dreifðri forystu sé komið á í skólum hafi skýra sýn á markmiðið með slíku skipulagi.