31.12.2017
Þuríður Jóna Jóhannsdóttir
Skólalíkan sem stuðlar að jafnrétti til náms: Einkenni skólastarfs við Menntaskólann á Tröllaskaga í ljósi kenninga Bernsteins

Í nýrri grein í Netlu er fjallað um skólalíkan Menntaskólans á Tröllaskaga (MTR), sem stofnsettur var árið 2010. Skólinn hefur farið nýjar leiðir í skipulagi náms og kennslu og ánægja starfsfólks með stjórnun og starfsanda hefur vakið athygli. Lítið brottfall hefur verið og framvinda nemenda í námi almennt verið góð. Á síðustu árum hefur aðsókn að fjarnámi við skólann margfaldast og lítið brottfall verið líka í þeim hópi. Markmið rannsóknarinnar var að átta sig á sérkennum skólalíkansins og skólamenningarinnar. Tilgangurinn er að öðlast skilning á því hvað einkennir skólastarf þar sem nemendur ná árangri þannig að aðrir geti dregið lærdóma af. Fjallað er um einkenni Aðalnámskrár framhaldsskóla 2011 og áhrif hennar á skipulag hins nýja skóla. Rannsókn á skólalíkani MTR varpar ljósi á tengsl hugmyndafræðinnar sem stýrir skólastarfinu við skipulag náms og kennslu og hvaða áhrif það hvernig þessum tengslum er háttað hefur á velgengni nemenda. Kenningar Basils Bernstein (1924­–2000), sem skýra hvernig skólakerfi mismuna nemendum eftir þjóðfélagslegum bakgrunni, eru notaðar til að varpa ljósi á hvernig samspil skólamenningar og skipulags náms og kennslu hefur áhrif á velgengni nemenda. Þeim var beitt til að greina orðræðuna um menntun (e. pedagogic discourse) í Aðalnámskrá framhaldsskóla 2011 og þá orðræðu sem einkennir starfshætti í Menntaskólanum á Tröllaskaga. Byggt er á fjölþættum gögnum sem aflað var með etnógrafískum aðferðum í heimsóknum í skólann á árunum 2013–2017 en skráð gögn sem eru aðgengileg á vef skólans gegna einnig mikilvægu hlutverki. Líkan Morais og Neves um blandaða kennsluhætti (e. mixed pedagogic practice), sem tekur mið af kenningum Bernsteins, er notað til að meta hvernig skólalíkan MTR styður velgengni nemenda óháð félagslegum bakgrunni. Áherslur í aðalnámskrá á hæfni og valdeflingu nemenda og sjálfstæði skóla við setningu þekkingarmarkmiða studdi þróun skólalíkans sem leggur áherslu á frumkvæði nemenda, valfrelsi og góð tengsl við samfélagið. Skýr umgerð um skipulag náms og kennslu og námsmat er síðan til þess fallin að styðja nemendur í að að halda áætlun og ná árangri í náminu.