2.12.2013
Jóhanna Einarsdóttir, Arna H. Jónsdóttir og Bryndís Garðarsdóttir
Sjónarmið leikskólakennara og leiðbeinenda: Áherslur og verkaskipting í leikskólastarfi

Rannsóknin sem hér segir frá var unnin í samvinnu við tvo norska háskóla. Gögnum fyrir íslenskan hluta rannsóknarinnar var safnað með spurningakönnun sem send var í alla leikskóla hér á landi veturinn 2011–2012. Niðurstöður leiða í ljós að óljós verkaskipting virðist vera milli leikskólakennara og leiðbeinenda í íslenskum leikskólum hvað snertir dagleg störf. Báðir hópar segjast sinna daglegri umönnun barnanna og taka þátt í leik þeirra og hreyfingu. Báðir hópar segjast leggja mikla áherslu á virka þátttöku, tjáningu, félagsfærni, leik og uppeldi barnanna. Hins vegar sögðust fleiri leikskólakennarar en leiðbeinendur leggja áherslu á nám og afmarkaða þætti tengda námssviðum leikskólans. Leikskólakennararnir virtust líka bera meiri ábyrgð á samskiptum við foreldra og umönnun og menntun barna með sérþarfir.