31.12.2012
Anni G. Haugen
Samstarf í þágu barna: Samvinna grunnskóla og barnaverndar

Í samfélagi nútímans er farsæl skólaganga og menntun oftar en ekki lykillinn að velgengni í lífinu. Því er öllum börnum mikilvægt að fá góðan stuðning og hvatningu í námi og þjálfun í félagslegri færni í skólanum. Barnaverndarnefndir á Íslandi sinna á ári hverju miklum fjölda barna á grunnskólaaldri, oftast með því að aðstoða barnið heima, en í þeim tilvikum sem barn er talið vera í hættu á heimili sínu eða í þörf fyrir umfangsmeiri aðstoð er hægt að vista það á fóstur- eða meðferðarheimili. Því má ætla að samstarf skóla og barnaverndar þurfi að vera náið og markvisst en ýmsar vísbendingar eru þó um að það megi bæta. Í greininni er fjallað um samstarf skóla og barnaverndar og stöðu barna í skóla og dregnir fram þættir sem þörf er á að bæta frekar til að slíkt samstarf geti þróast og dafnað til hagsbóta fyrir barnið. Greinin er byggð á íslenskum og erlendum rannsóknum og fræðigreinum um efnið.