23/04/2018

Ritrýnt efni

Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun
Menntavísindasvið Háskóla Íslands

Hér eru einungis taldar ritrýndar greinar í ársritum Netlu – Veftímariti um uppeldi og menntun allt frá fyrsta útgáfuári 2002. Ritstýrðar greinar ársrita eru taldar í ársyfirlitum um greinar og greinar í sérritum Netlu , bæði ritrýndar og ritstýrðar greinar, eru taldar í ársyfirlitum þeirra rita en ekki hér að neðan.

29.12. 2016
Guðný S. Guðbjörnsdóttir og Þórdís Þórðardóttir
Kynjajafnrétti og kennaramenntun: Ákall kennaranema um aukna fræðslu
Í þessari grein er sagt frá rannsókn á þekkingu, áhuga og viðhorfum kennaranema á jafnréttismálum með áherslu á kynjajafnrétti. Niðurstöður benda til þess að fáir þeirra hafi kynnst kynjafræði áður en þeir hófu kennaranámið og mikill meirihluti þeirra er ósammála því að fræðsla um kynjajafnrétti hafi verið hluti af þeirra kennaranámi. Þótt þekking nemanna á hugtökunum jafnrétti, karlmennsku, kynbundnum staðalmyndum og femínisma mælist mikil segist aðeins helmingur þeirra þekkja hugtakið kyngervi (e. gender) vel og um 15‒20% hugtakið kynjakerfi (e. gender system). Kennaranemarnir hafa mikinn áhuga á að breyta staðalmyndum kynjanna en margir hafa takmarkaða þekkingu á nauðsynlegum hugtökum og hefðbundin eðlishyggjuviðhorf sem þykja afturhaldssöm eru algeng. Hins vegar kemur í ljós að 87% kennaranemanna telja að auka þurfi fræðslu um kynjajafnrétti í náminu og yfir 70% þeirra hafa mikinn áhuga á að taka sérstakt námskeið um kynjajafnrétti. Nemarnir hafa mestan áhuga á að læra meira um kynbundið ofbeldi eða einelti, kynbundnar staðalmyndir, kyn og margbreytileika, samskiptamiðla og stöðu kynjanna. Niðurstöður rannsóknarinnar eru skýrt ákall um breytingar. Hér eru lagðar fram tillögur um áherslur og leiðir í þeim efnum og vonast er til að þær verði Menntavísindasviði hvatning til að efla kynjajafnréttisfræðslu í kennaranáminu.

29.12. 2016
Þorsteinn Helgason
Verkfæri þjóðminninga: Tyrkjaránið í skólabókunum (seinni hluti)
Í þessum skrifum sem skipt er í tvo hluta er kannað hvernig fjallað hefur verið um Tyrkjaránið í sögukennslubókum frá 1880 til þessa dags. Hér er þráðurinn tekinn upp um 1960. Fram kemur að þjóðhverf framsetning frásagnarinnar af Tyrkjaráninu mótaðist á fyrri hluta tuttugustu aldar en atburðurinn var svo sérkennilegur að erfitt var að steypa hann fullkomlega í fast mót. Þegar leið á öldina tók að brydda á fleiri sjónarmiðum með aukinni alþjóðasýn. Tyrkjaránsins er ekki getið í námsgögnum sem fylgdu róttækri samþættingu sögu og fleiri greina í grunnskólanum undir heitinu samfélagsfræði og birtist í námskrá árið 1977. Það hefði þó verið mjög í anda hennar að taka þennan fjölþætta og alþjóðlega atburð fyrir og útfærslan hefði líklega orðið frumleg. Í stað þess kom hefðbundnari framsetning þar sem staða ránsins í sameiginlegri minningu þjóðarinnar – frægð atburðarins – ryður því braut inn í námsgögnin, óháð samhengi þess við annað efni bókanna. Öðru máli gegnir um Aldir bændasamfélagsins sem var ætluð fyrir framhaldsskóla og fjallaði um formgerðir hagsögu og félagssögu. Þar átti Tyrkjaránið ekki heima en fann sér þó leið bakdyramegin með því að höfundur nemendaverkefna setti það inn sem viðfangsefni. Í aðalnámskrá fyrir grunn- og framhaldsskóla sem kom út 1999 var gert ráð fyrir að Tyrkjaránið væri tekið til umfjöllunar og námsbókahöfundar hentu það á lofti. Samhengið varðaði varnarmál, stríð og frið, siglingar um heimshöfin, sjórán og samkeppni stórvelda. Einnig komu einstaklingar við sögu, ekki einungis Guðríður Símonardóttir heldur einnig trúskiptingurinn Anna Jasparsdóttir. Niðurstaða rannsóknarinnar er sú að Tyrkjaránið eigi traustan sess í sameiginlegri minningu Íslendinga svo að námsefnishöfundur eru tilbúnir að leggja lykkju á leið sína til að hafa það með þó að samhengi textans útheimti það ekki að öðru leyti. Umfjöllunin hefur verið breytileg, efnisatriði og helstu persónur mismunandi, samhengið af ólíku tagi og túlkanirnar sömuleiðis. Bæði hefur aukist að sjá atburðina í alþjóðlegu ljósi og að fjalla af innlifun um einstakar persónur.

29.12. 2016
Silja Bára Ómarsdóttir
„Þetta gefur okkur vettvang utan skólans“: Facebook sem verkfæri í háskólanámi
Þessi grein lýsir tilraunaverkefni í stjórnmálafræði, þar sem óformlegir hópar voru stofnaðir á Facebook, samhliða námskeiðum. Gengið er út frá hugmyndum um að háskólanemar í dag séu innfæddir netverjar og markmiðið var að efla sjálfsmynd þeirra og starfssamfélag, með hliðsjón af kenningum um aðstæðubundið nám og starfssamfélög. Rannsóknin er byggð á vettvangsglósum höfundar og viðtölum við nemendur sem voru í námskeiðunum sem greind voru með aðferðum orðræðugreiningar. Niðurstöður sýna að starfssamfélag efldist í gegnum hinn rafræna vettvang og jók um leið sjálfstraust nemenda í skólastofunni. Því fylgdu aukin þægindi og minna álag að fylgjast með umræðum á Facebook en á formlegum kennslumiðlum og nemendur töldu sig eiga í betri samskiptum við bæði kennara og samnemendur. Nemendur töldu þó að umræður á Facebook væru lítil viðbót við formlegt nám en þeim mun gagnlegri til að tengja viðfangsefnið við daglegt líf. Vísbendingar eru um að breytinga sé þörf á umræðukerfum formlegri kennsluvefja, eigi þeir að nýtast. Frekari rannsókna er enn fremur þörf til að skoða hvort samfélagsmiðlar bæti nám umfram það að styrkja starfssamfélag nemenda.

29.12. 2016
Gunnlaugur Sigurðsson
Lýðræði í frjálsum leik barna
Í þessari grein er fjallað um fræðilegan grunn að þróunarverkefni sem unnið var að í leikskólanum Krakkaborg. Markmið verkefnisins var að efla sjálfsprottinn, öðru nafni frjálsan leik barnanna sem markvissa náms- og kennsluaðferð til lýðræðis, í skilningi Aðalnámskrár leikskóla, 2011. Þróunarverkefnið var unnið í tveim áföngum. Í þeim fyrri var markmiðið að greinarhöfundur, skólastjóri og aðstoðarskólastjóri ásamt nokkrum starfsmönnum öðrum legðu fræðilegan grunn að þróunarverkefninu. Það er efni þessarar greinar. Í þeim seinni byggðu starfsmenn á þeim grunni við athuganir sínar og tilraunir til að þróa frjálsan leik barnanna til þess vettvangs og leiðar í menntun barnanna til lýðræðis sem Aðalnámskrá leikskóla 2011 kveður á um. Það verður efni í aðra grein. Í fyrri áfanganum reyndum við að ná markmiði okkar með því að glöggva okkur á lýðræðisákvæðum námskrárinnar, skilningi okkar sjálfra á lýðræði, hvað við teldum að lýðræði þýddi, hvernig þær hugmyndir hefðu mótast og hvernig þær féllu að því markmiði að framfylgja í frjálsum leik barnanna lýðræðisákvæði Aðalnámskrár leikskóla, 2011. Við fylgdum því eftir með því að skoða og endurskoða niðurstöður okkar og álitamál í ljósi þess sem hugsuðir um lýðræði hafa um það skrifað, sérstaklega þeir sem hafa gert lýðræði í skólastarfi að viðfangsefni sínu. Meginniðurstaða okkar var sú að í frjálsum leik barna yrði lýðræði ekki kennt sem regluverk heldur skapaði hann börnum einstakt tækifæri til að öðlast sérstæða ef ekki einstæða reynslu af þeim sammannlegu gildum sem auðga einstaklingsbundna og félagslega tilveru manna; það sem John Dewey boðaði sem sjálft fyrirheit lýðræðisins.

16.11. 2016
Anna Þóra Baldursdóttir og Sigríður Margrét Sigurðardóttir
Reynsla skólastjóra af meistaranámi í stjórnun skólastofnana
Í þessari grein er sagt frá rannsókn á viðhorfi og reynslu skólastjóra sem brautskráðst hafa úr meistaranámi í skólastjórnun við kennaradeild Háskólans á Akureyri og þeim áhrifum sem þeir telja að námið hafi haft á þá og störf þeirra á vettvangi. Gögnum var safnað með hálfstöðluðum viðtölum við 14 skólastjóra í leik- og grunnskólum. Niðurstöður benda til þess að meistaranámið hafi haft mikið gildi fyrir viðmælendur og eflt þá sem skólastjóra. Viðmælendur sögðu að námið hefði aukið faglegt sjálfstraust þeirra, fræðilega þekkingu, ígrundun og virkni í starfi. Þeir töldu að námið hefði leitt til breytinga á stjórnunarháttum og eflt leiðtogafærni þeirra. Þeir töldu sig einnig leggja meiri áherslu á kennslufræðilega forystu og að nýta mannauð skólans betur en áður. Jafnframt hefði námið styrkt þá við að byggja upp sýn og stefnu og vinna að þróun og breytingum. Þeir töldu sig færari í að leita sér bjarga og finna verkfæri sem gagnast þeim í starfi. Þó kallaði nokkur hópur eftir hagnýtari viðfangsefnum, sérstaklega þeim sem tengdust rekstri og mannauðsstjórnun. Niðurstöður sýndu jafnframt að það sem einum fannst hagnýtt taldi annar síður hagnýtt og virtist það að einhverju leyti fara eftir fyrri reynslu, áhuga og viðfangsefnum í námi og starfi. Þessar niðurstöður ríma í meginatriðum við niðurstöður erlendra rannsókna sem gefur tilefni til að ætla að framhaldsnám fyrir skólastjórnendur sé mikilvægt veganesti fyrir skólastjóra.

16.11. 2016
Börkur Hansen og Steinunn Helga Lárusdóttir
Störf deildarstjóra í grunnskólum – verkefni og áherslur
Í kjölfar tilfærslu grunnskólans frá ríki til sveitarfélaga breyttu skólar smám saman stjórnskipulagi sínu og komu á dreifðri forystu með því að fjölga millistjórnendum. Flestir fengu þeir starfsheitið deildarstjórar. Hér segir frá niðurstöðum rannsóknar meðal deildarstjóra í 17 íslenskum grunnskólum. Meginmarkmið rannsóknarinnar var að draga upp mynd af störfum deildarstjóra með því að kortleggja helstu viðfangsefni og kanna sýn þeirra á hlutverk sitt. Gagna var aflað með viðtölum við 17 deildarstjóra. Niðurstöðurnar sýna að störf þeirra eru erilsöm og fjölbreytt. Fram kemur að þeir vildu hafa meiri tíma til að sinna faglegum hluta starfa sinna. Þeir virðast ekki veita mikla forystu á sviði náms og kennslu. Þessum niðurstöðum ber saman við niðurstöður fyrri rannsókna. Höfundar benda á mikilvægi þess að skólastjórar sem eru ábyrgir fyrir því að dreifðri forystu sé komið á í skólum hafi skýra sýn á markmiðið með slíku skipulagi.

16.11.2016
Ingvar Sigurgeirsson og Amalía Björnsdóttir
Heimanám í íslenskum grunnskólum: Umfang og viðhorf nemenda, foreldra og kennara til þess
Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna viðhorf nemenda, foreldra og kennara grunnskóla til heimanáms og hvort þættir eins og kyn og námsgeta hefðu áhrif á þessi viðhorf. Auk þess var umfang heimanáms kannað, svo og áhugi nemenda á því. Byggt var á gögnum sem safnað var í tengslum við stærri rannsókn á starfsháttum í 20 grunnskólum. Í ljós kom að 47% nemenda í 7.‒10. bekk þótti heimanám hæfilegt, en 62% foreldra voru þeirrar skoðunar. Algengast var að nemendur á unglingastigi lærðu heima 20‒39 mínútur á dag. Nemendur sem lýstu sér sem slökum námsmönnum og foreldrar barna með námsörðugleika, sérstaklega þeirra sem að sögn foreldra fá ekki nægilega aðstoð í skólanum, lýstu heimanáminu sem krefjandi og jafnvel sem hálfgerðri áþján. Þessi hópur notar einnig meiri tíma í heimanámið. Mikill meirihluti starfsmanna skólanna taldi heimanámið mikilvægt og átti það sérstaklega við um kennara á yngsta stigi. Mikill munur var þó á viðhorfum eftir skólum. Foreldrar töldu flestir að skólinn gerði hæfilegar kröfur til sín um aðstoð við heimanám, með þeirri undantekningu að foreldrar barna með námsörðugleika töldu skólann gera of miklar kröfur. Nemendur vildu gjarnan að foreldrar aðstoðuðu þá við heimanám, en höfðu almennt fremur neikvæð viðhorf til þess.

16.11.2016
Guðbjörg Linda Rafnsdóttir og Hjördís Sigursteinsdóttir
Veikindafjarvistir, læknisheimsóknir og vinnutengd líðan í kjölfar bankahruns: Samanburður á starfsfólki skóla og öðru starfsfólki sveitarfélaga
Tilgangur greinarinnar er að varpa ljósi á veikindi, veikindafjarvistir og læknisheimsóknir starfsfólks grunnskóla/tónlistarskóla og leikskóla í samanburði við annað starfsfólk sveitarfélaga í kjölfar efnahagshrunsins 2008. Spurt er: „Breyttist fjöldi veikindadaga og læknisheimsókna vegna vinnutengdra þátta meðal starfsfólks skólanna og annars starfsfólks sveitarfélaga á Íslandi í kjölfar bankahrunsins 2008?“ Eru tengsl á milli uppsagna á vinnustöðum starfsfólksins, aldurs, kyns, hjúskaparstöðu eða tegundar vinnustaðar annars vegar og líðanar, veikindafjarvista og læknisheimsókna hins vegar? Einnig er skoðað hvort líðan, veikindafjarvistir og læknisheimsóknir séu algengari meðal starfsfólks skólanna en annars starfsfólks sveitarfélaganna. Greinin byggir á langtíma panelgögnum 20 sveitarfélaga og 2971 starfsmanns frá árunum 2010, 2011 og 2013. Svarhlutfallið var 64,5%–84,4%. Niðurstöðurnar sýna að læknisheimsóknir, veikindafjarvistir og það að mæta veikur til vinnu jókst tveimur, þremur og fimm árum eftir bankahrunið haustið 2008. Aukningin var mest á vinnustöðum þar sem uppsagnir starfsfólks höfðu átt sér stað. Konur og yngra fólk virtist veikara en karlar og eldri aldurshópar. Hagnýtt gildi rannsóknarinnar felur einkum í sér aukna þekkingu á líðan starfsfólks skólanna í kjölfar efnahagskreppa. Aukið álag og óöryggi vegna annarra þátta, svo sem endurskipulagningar starfsmannamála, aðhaldsaðgerða og uppsagna getur reyndar alið af sér sambærilegt ástand, óháð kreppum. Mikilvægt er að skólastjórnendur, þeir sem sinna starfsmannaheilsuvernd og rannsakendur hafi þetta hugfast.

16.11. 2016
Jón Ingvar Kjaran
„Faggi, tappi, lessa, feit eða heit“: Orðtíðni framhaldsskólanema um staðalmyndir kynhneigðar og kyngervis
Hér er fjallað um viðhorf framhaldsskólanema til staðalmynda á borð við útlit, kyngervi og kynhneigð. Til að skyggnast inn í hugmyndaheim þeirra var lögð megindleg myndakönnun fyrir 238 þátttakendur í tveimur framhaldsskólum. Myndakönnunin var þess eðlis að sjö myndir voru valdar með það fyrir augum að þær væru á einhvern hátt staðalmynd(ir) fyrir tiltekna eiginleika, á borð við kynhneigð, útlit, karlmennsku eða kvenleika. Nemendur áttu að merkja við uppgefin orð sem þeim fannst eiga við um hverja mynd. Marktækur munur var á orðavali nemenda um myndirnar eftir kyni. Ennfremur mátti draga þá ályktun að mörg einkenni gagnkynhneigðarhyggju hafi komið fram í viðhorfum og svörum nemenda. Piltar notuðu neikvæðari orð um sumar myndirnar og virtust þeir frekar en stúlkurnar hafa tileinkað sér ríkjandi orðræðu um kvenleika og karlmennsku. Bæði kynin voru þó undir áhrifum ríkjandi orðræðu um útlit, staðalmyndir og kynhneigð sem bendir til þess að kynjakerfið hafi enn áhrif á menningu framhaldsskólanna og viðhorf nemenda.

19.09.2016
Atli Harðarson
Lýðræði og menntun: Hugleiðing um aldargamla bók
Bókin Lýðræði og menntun (Democracy and education) er höfuðrit Johns Dewey (1859–1952) um heimspeki menntunar. Hún kom fyrst út árið 1916 og á því aldarafmæli. Í þessari grein er gerð tilraun til að skilja þetta verk og setja í hugmyndasögulegt samhengi. Í þau hundrað ár sem liðin eru frá útkomu Lýðræðis og menntunar hafa hugmyndir Deweys lifað í draumum fólks um betri skóla. Menntastefna hans hefur þó haft lítil áhrif í raun. Þetta skýrist að nokkru leyti af því að heimspekihefðirnar sem hann tók í arf og gerði að sínum fóru halloka þegar leið á tuttugustu öldina. Önnur skýring sem ekki skiptir síður máli er að þeir sem réðu ferðinni í skólamálum sættu sig ekki óvissuna og þau mannlegu takmörk sem Dewey benti á að væru óhjákvæmilega hlutskipti okkar. Stefna hans stangaðist á við tæknihyggju sem átti vaxandi fylgi að fagna. Hugsjón hans um skóla vinnugleðinnar mátti því víkja fyrir sjónarmiðum þeirra sem vildu öryggi, skipulag, miðstýringu og fyrirframákveðin markmið.

19.09.2016
Sigrún Harðardóttir og Guðrún Kristinsdóttir
Námserfiðleikar og velgengni í námi: Um mikilvægi stuðnings
Hér er greint frá niðurstöðum nýlegrar rannsóknar sem ætlað var að varpa ljósi á hvað nemendur með námserfiðleika telja að hafi haft áhrif á námsárangur þeirra. Byggt er á vistfræðikenningu Bronfenbrenners um gagnvirk áhrif foreldra, skóla og samfélags á þroska og aðlögun barna, og á öðrum rannsóknum sem sýna hvað hefur áhrif á líðan nemenda með námserfiðleika og námsframvindu þeirra. Tekin voru viðtöl við tíu ungmenni sem áttu við námserfiðleika að stríða alla skólagönguna en náðu þrátt fyrir það að ljúka námi í framhaldsskóla. Sjónarmið nemenda sjálfra eru nú í auknum mæli talin mikilvæg og viðtalsrannsóknir undanfarinna ára sýna að mörg börn og ungmenni tjá sig vel um eigin reynslu. Í viðtölunum komu fram þrjú meginatriði: a) Erfiðleikar við að fá námsvandann viðurkenndan, b) tilhneiging til að aðgreina nemendur og flokka, og c) hvatning og stuðningur foreldra og skóla sem stuðlaði að seiglu og velgengni í námi. Seigla sem nemendur komu sér upp með stuðningi í nærumhverfinu virtist ráða mestu um aukna trú ungmennanna á eigin getu.

19.09.2016
Anna Elísa Hreiðarsdóttir og Eygló Björnsdóttir
Sumarlokun leikskóla: Áhrif á faglegt starf og starfsaðstæður
Í þessari grein er fjallað um sumarlokun leikskóla og hvernig ákvarðanir rekstraraðila tengdar þeim geta haft áhrif á faglegt starf í skólunum og starfsaðstæður kennara og barna. Rekstrarlegir þættir þrýsta á um fulla nýtingu leikskóla allan ársins hring og það skapar sérstakar aðstæður sem ekki eru fordæmi fyrir á öðru skólastigi. Spurningakönnun var lögð fyrir 110 leikskólastjóra þar sem markmiðið var að kanna áhrif sumarlokunar á starf og starfsaðstæður í leikskólum. Helstu niðurstöður eru að það skiptir máli fyrir starfið í leikskólunum hvort þeir loka að sumrinu eður ei, hve lengi þeir loka og á hvaða tímabili. Í niðurstöðum gætir ákveðinna þversagna. Skólastjórar hafa orð á margvíslegum áhrifum ytri ákvarðana en telja þær ekki hafa mikil áhrif á faglegt starf. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að mikilvægt sé að skoða betur áhrif sumarlokunar á faglegt starf skólanna og starfsaðstæður kennara og barna.

19.09.2016
Erla Sif Markúsdóttir og Lilja M. Jónsdóttir
„Þegar maður finnur að krökkunum líður vel og eru kátir í skólanum, þá er takmarkinu náð.“ Um hlutverk, ábyrgð og skyldur umsjónarkennara
Þessi rannsókn fjallar um hlutverk, ábyrgð og skyldur umsjónarkennara í grunnskólum á Íslandi. Rannsóknin er eigindleg viðtalsrannsókn og var megintilgangurinn að kynnast viðhorfum þeirra til starfs síns. Kannaðar voru hugmyndir sex umsjónarkennara um hlutverk sitt, ábyrgð og skyldur og hvað þeim þótti erfitt og ánægjulegt í starfi. Niðurstöður rannsóknarinnar gefa til kynna að umhyggjuþátturinn skipti þessa kennara mestu máli, ásamt því að skapa andrúmsloft í skólastofunni þar sem nemendum líður vel. Þeir telja gott foreldrasamstarf mjög mikilvægt, sem og að halda vel utan um allt nám nemenda. Þá leggja þeir áherslu á að reyna að koma til móts við mismunandi áhuga og getu nemenda sinna. Erfiðast þykir þeim að þurfa að takast á við ýmis barnaverndarmál, s.s. vegna vanrækslu og erfiðra heimilisaðstæðna nemenda. Af niðurstöðum má sjá að á síðustu árum hefur starf umsjónarkennara breyst umtalsvert og segjast þeir hafa almennt fleiri hlutverkum að gegna en áður tíðkaðist. Telja þeir ríka þörf á að endurskoða starf umsjónarkennarans, m.a. að minnka þurfi kennsluskyldu þeirra svo þeir geti betur sinnt þessu mikilvæga hlutverki.

 

31.12.2015
Jóhanna T. Einarsdóttir og Álfhildur Þorsteinsdóttir
Málsýni leikskólabarna: Aldursbundin viðmið
Tilgangur rannsóknarinnar var að finna aldursbundin viðmið fyrir máltjáningu íslenskra leikskólabarna út frá sjálfsprottnu tali eins og það birtist í málsýnum. Skoðaðir voru eftirtaldir þættir: Meðallengd segða (MLS), heildarfjöldi orða (HFO), fjöldi mismunandi orða (FMO) og hlutfallslegur fjöldi villna auk kynbundins munar á þessum mæliþáttum. Þátttakendur voru 221 íslensk leikskólabörn 2,6–6,6 ára, eintyngd og ekki með greind þroskafrávik. Tekið var hentugleikaúrtak og níu leikskólar valdir. Hugbúnaðurinn Málgreinir var notaður við úrvinnslu gagna. Helstu niðurstöður voru þær að MLS lengdist og HFO og FMO hækkaði með auknum aldri. Málfræðivillur voru hlutfallslega sjaldgæfar í máli barnanna og fækkaði þeim marktækt með auknum aldri. Mikil dreifing var innan barnahópsins og einstaklingsmunur á því í hversu löngum setningum börnin töluðu og hvað þau notuðu fjölbreytt orð. Ekki var marktækur munur eftir kynjum á þessum mæliþáttum. Niðurstöðurnar hafa gildi fyrir alla þá sem vinna með og rannsaka málþroska íslenskra barna. Þær eru mikilvægar við greiningu á málþroskafrávikum, athugun á greiningu barna sem tala íslensku sem annað mál og mælingum á framförum í meðferð og skipulagningu íhlutunar. Málsýni af sjálfsprottnu tali eru mikilvæg viðbót við athuganir og rannsóknir á málþroska samhliða stöðluðum prófum.

31.12.2015
Hróbjartur Árnason and Halla Valgeirsdóttir
Why do people with little formal education not participate in lifelong learning activities? The views of adult educators
The fact that adults chose to spend otherwise free time on participating in adult education courses used to fascinate researchers. But when lifelong learning was discovered to be a driving force for the economy, participation in learning activities became an adult’s obligation, and thus, those who stay away have become interesting. This paper adds a new point of view to the picture by adding the perspective of adult educators – people who have regular interactions with both non-participants and participants, and thus gives a different vantage point than prior research has given. The authors present the results of a qualitative study based on small focus group interviews with a total of 22 adult educators from eight lifelong learning centres in Iceland. According to their findings a large portion of non-participants with lower levels of formal eduation, express a longstanding desire to further their education but many stay away because of insecurity, distrust in their learning abilities and negative earlier experience of school. The results indicate that a substantial number of non-participants in Iceland stay away from organized learning because of prior bad experiences and a lack of self-esteem. These findings should encourage lifelong learning organizations to design and present their offerings in ways that take this insecurity into account.

31.12.2015
Kristín Karlsdóttir og Anna Magnea Hreinsdóttir
Námssögur: Tæki til að meta áhuga, virkni og líðan barna í leikskóla
Greinin fjallar um starfendarannsókn sem fór fram samhliða þróunarverkefni í átta leikskólum í sveitarfélagi á höfuðborgarsvæðinu. Deildarstjórar leikskólanna, 23 talsins, tóku þátt í rannsókninni ásamt höfundum þessarar greinar; lektor við Háskóla Íslands og leikskólafulltrúa Garðabæjar. Markmiðið var að þróa skráningu á námssögum og fylgjast með því hvernig deildarstjórarnir öðluðust færni í að skrá námssögur um hvert barn og framfarir þess en einnig hvernig þeim gengi að meta nám barnanna í samvinnu við foreldra og börnin sjálf. Þróun starfsaðferða við mat á námi barna var rædd og metin á mánaðarlegum fundum. Gagna var aflað með skráningu fundargerða, mati þátttakenda, ljósmyndum, myndböndum og námssögum sem þátttakendur ræddu og ígrunduðu á fundunum. Niðurstöður benda til þess að deildarstjórarnir hafi aukið færni sína í að skrá námssögur. Með þátttöku í verkefninu hafi þeir öðlast betri skilning á námi barna og innsýn í hugarheim þeirra. Áform voru uppi innan leikskólanna um að halda vinnunni áfram.

31.12.2015
Hrafnhildur Ragnarsdóttir
Málþroski leikskólabarna: Þróun orðaforða, málfræði og hlustunarskilnings milli fjögra og fimm ára aldurs
Markmið rannsóknar sem hér er kynnt var að kanna a) framfarir og einstaklingsmun meðal íslenskra barna í þremur málþroskaþáttum, orðaforða, málfræði og hlustunarskilningi á lokaári þeirra í leikskóla; b) hvort mælingar á orðaforða, málfræði og hlustunarskilningi tengdust innbyrðis og við bakgrunnsbreytur á borð við menntun og stöðu foreldra, heimilishagi og læsismenningu á heimili, leikskóladvöl og fleira; og c) hvort ‒ og þá hvaða ‒ þættir málþroska við fjögra ára aldur spá fyrir um árangur barna ári síðar. Þátttakendur voru 111 fjögra ára börn úr átta leikskólum í Reykjavík. Niðurstöður staðfesta að meðal íslenskra barna eru síðustu árin í leikskóla mikið gróskutímabil fyrir málþroskaþætti sem gegna lykilhlutverki í alhliða þroska og leggja grunn að læsi og námsárangri síðar. Þær leiða í ljós að munur á málþroska jafngamalla íslenskra barna er þá þegar orðinn verulegur og að sá munur tengist að hluta ýmsum áhættuþáttum í aðstæðum barnanna og fjölskyldna þeirra. Niðurstöður undirstrika þannig hversu mikilvægt er að fylgjast grannt með málþroska og þróun orðaforða, málfræði og hlustunarskilnings barna á leikskólaárunum, ekki síst þeirra sem slakast standa og tryggja að þau fái fjölþætta og vandaða málörvun.

31.12.2015
Jóhanna Kr. Arnberg Gísladóttir, Guðrún Kristinsdóttir og Amalía Björnsdóttir
„Voruð þið að tala um mig?“: Um nemendavernd í grunnskólum
Markmiðið með rannsókninni sem hér er greint frá er að kanna starfsemi nemendaverndarráða í grunnskólum og hlutdeild nemenda í ákvörðunartöku í eigin málum í ráðunum. Ráðin eru þverfagleg teymi sem eiga að starfa í grunnskólum landsins og þeim er ætlað að stuðla að velferð nemenda. Starfsemi þeirra hefur lítt verið rannsökuð og ekki hafa legið fyrir upplýsingar um þátttöku barna í meðferð mála sem tekin eru fyrir þar. Rafrænn spurningalisti var sendur til skólastjóra allra grunnskóla á Íslandi skólaárið 2013–2014. Alls bárust svör frá 84 skólum og var svarhlutfall 50% á landsvísu. Niðurstöður benda til þess að nemendaverndarráð starfi í flestum grunnskólum og töldu þátttakendur þau almennt starfa með hagsmuni nemenda að leiðarljósi. Mál sem rata inn á borð nemendaverndarráða eiga það flest sameiginlegt að fjalla um málefni einstakra nemenda en hlutdeild nemenda í afgreiðslu mála sem þá snerta er takmörkuð. Meirihluta foreldra er tilkynnt að um mál barns þeirra sé fjallað í ráðunum en hlutfallslega fáum börnum er gert viðvart um það. Niðurstöður benda til að tryggja þurfi betur hlutdeild nemenda í ákvörðunum um eigin málefni í nemendaverndarráðunum.

29.12.2015
Anna-Lind Pétursdóttir og Kristín Helga Guðjónsdóttir
Pör að læra saman í leikskóla: Reynsla starfsfólks af K-PALS
K-PALS (e. Kindergarten Peer-Assisted Learning Strategies) er kennslunálgun sem felur í sér samvinnunám og aðferðir til að efla hljóðkerfisvitund, hljóðaþekkingu og umskráningarfærni barna. Börnin vinna í pörum eftir kynningu kennara á verkefnum. Markmið með þessari rannsókn var að fá innsýn í reynslu starfsmanna í leikskóla af K-PALS, hvernig þeim hefði gengið að nota aðferðirnar, áhrif aðferðanna á börnin, helstu kosti og galla að mati starfsmanna og hvort þeim þætti bein kennsla af þessu tagi eiga heima í íslensku leikskólaumhverfi. Tekin voru hálfstöðluð viðtöl við þrettán starfsmenn fimm leikskóla á höfuðborgarsvæðinu. Almennt var reynsla viðmælenda jákvæð þótt sumir hefðu verið neikvæðir í byrjun og innleiðing aðferðanna hafi stundum reynt á. Rætt var um jákvæð áhrif á undirstöðu lestrarfærni, samvinnu og samskipti barnanna, greinilegar framfarir hjá börnunum og ánægju þeirra með K-PALS. Fram komu hugmyndir um nýjar útfærslur á innleiddum aðferðum en á heildina litið töldu viðmælendur nálgunina henta vel sem viðbót við læsisumhverfi í íslenskum leikskólum.

29.12.2015
Steinunn Helga Lárusdóttir, Anna Kristín Sigurðardóttir, Arna H. Jónsdóttir, Börkur Hansen og Guðný Guðbjörnsdóttir
Efnahagshrunið og skólastarf í Reykjavík
Í þessari rannsókn voru könnuð áhrif efnahagshrunsins á Íslandi árið 2008 á skóla í Reykjavík. Gagnaöflun fór fram á árunum 2013 og 2014 með viðtölum við einstaklinga og í rýnihópum. Niðurstöður benda til þess að tekist hafi að vernda kjarnann í skólastarfinu fyrir niðurskurði en þó í meira mæli í grunnskólum en í leik- og framhaldsskólum. Samt hafði niðurskurður margvísleg áhrif á skólastarfið. Stjórnunarstöðum fækkaði umtalsvert, einkum millistjórnendum, forfallakennsla var unnin af skólastjórnendum, annað starfsfólk var ráðið í hlutastörf og framlög til tómstundastarfs og náms- og starfsráðgjafar skert. Yfirvinna starfsfólks var ekki leyfð, minna fé var veitt til samstarfs, bekkir urðu fjölmennari og dregið úr fjárveitingum til kaupa á efniviði og námsgögnum og til viðhalds tækja og húsa. Loks voru skólar á leik- og grunnskólastigi sameinaðir. Fram kom að sú aðgerð hefði aukið mjög á þá erfiðleika sem af niðurskurðinum hlaust.

22.11.2015
Ruth Margrét Friðriksdóttir og Bragi Guðmundsson
„Átthagarnir eru hverjum manni miðstöð heimsins“: Hugmyndir íslenskra skólamanna á síðasta hluta nítjándu aldar og í byrjun þeirrar tuttugustu um grenndaraðferð í skólastarfi
Hvaða hugmyndir höfðu íslenskir skólamenn um grenndaraðferð og grenndarkennslu á áratugunum í kringum aldamótin 1900? Hvernig birtust þessar hugmyndir og að hvaða marki í tímaritum á þeim tíma? Hverjar eru rætur hugmynda íslenskra skólamanna um nýtingu nánasta umhverfis til náms? Til að fá svör við þessum spurningum var farið yfir skóla- eða menntatímarit og fáein rit önnur og skoðað efni tengt grenndaraðferð eða grenndarkennslu. Í ljós kemur að íslenskir skólamenn höfðu margar og býsna fjölbreyttar hugmyndir um ágæti þess að nýta grenndina við kennslu og rökstuddu kosti þess gjarnan með vísun í uppeldisfræðileg sjónarmið. Í skrifum nokkurra þeirra má jafnframt greina sterka þjóðerniskennd, tengsl við vaxandi félagshreyfingar og áherslu á ættjarðarást. Helstu námsgreinar sem höfundar tengja við grenndaraðferð eða grenndarkennslu eru saga, náttúrufræði, landafræði og átthagafræði.

21.11.2015
Guðrún Kristinsdóttir og Hervör Alma Árnadóttir
Hliðvörður – hvert er hlutverk þitt? Þátttaka barna í rannsóknum
Markmiðið með greininni er að varpa ljósi á reynslu rannsakenda af því að fá formleg leyfi og aðgengi að börnum til að rannsaka hagi þeirra og ræða við þau um málefni sem þau varða. Tilgangurinn er að efla umræðu um málið og vekja athygli á því hver réttur barnanna er í því sambandi. Rannsakendum ber að afla formlegra leyfa stofnana, forsjáraðila og barna við undirbúning rannsókna þar sem börn eru þátttakendur. Í slíkum rannsóknum þurfa rannsakendur oftar en ekki aðstoð við aðgengi að börnum frá stofnunum, fagfólki og forsjáraðilum, svokölluðum hliðvörðum (e. gatekeepers). Greinin er byggð á rýnihópaviðtölum og var rætt við starfandi fræðimenn við Háskóla Íslands. Allir höfðu þeir lagt stund á rannsóknir með börnum þar sem þau voru beinir þátttakendur og höfðu talsverða reynslu af samskiptum við hliðverði.

31.8.2015
Þórdís Þórðardóttir
Virðingarsess leikskólabarna: Þekking á barnaefni, kynjun og lagskipting í tveimur leikskólum
Markmið rannsóknar þeirrar sem hér er greint frá er að varpa ljósi á hvernig mismunandi þekking leikskólabarna á barnaefni getur tengst kyni, uppruna og félagslegri stöðu þeirra í leikskóla. Spurt var: Þekking á hvers konar barnaefni er líklegust til að skapa fjögurra til fimm ára börnum virðingarsess í leikskóla? Athugað var hvernig þekking fjórtán barna á því aldursbili í tveimur leikskólum í Reykjavík á barnabókum, mynddiskum, sjónvarpsefni og tölvuleikjum birtist í frjálsum leik og skapandi starfi. Virðingarsessinn var notaður sem mælitæki á félagslega stöðu barnanna og mældur út frá viðbrögðum jafningjahópsins við tilvísunum í barnaefni eftir því hvernig jafningjahópurinn staðfesti tilvísanir í barnaefnið, hafnaði þeim eða hundsaði þær.

31.12.2014
Gunnar Börkur Jónasson, Allyson Macdonald and Guðrún Kristinsdóttir
Student demands and a thematic approach to teaching and learning at the University College of Education in Iceland in 1978
The purpose of this study was to analyse forces affecting teacher education in Iceland around the time of upgrading from secondary to university level. The response of the administration when the university level programme did not meet the expectations of some students and teachers is examined. So too is why and how the introduction in 1978 of the socalled ‘thematic approach’ (í. þemanám) accounted for some of the factors affecting the teacher education programme, including the questions of theory and practice and the status of education as a field of study in academia. The study is based on documentary analysis of published and unpublished material and data from interviews taken in 2002 and 2003 with with ten key informants who had participated in most of the changes being studied.

31.12.2014
Svanborg R. Jónsdóttir, Meyvant Þórólfsson, Jóhanna Karlsdóttir og Gunnar E. Finnbogason
Að uppfæra Ísland: Sýn stjórnenda íslenskra framhaldsskóla á nýsköpunar- og frumkvöðlamennt og framkvæmd námssviðsins í námskrárfræðilegu ljósi
Haustið 2012 hófu Nýsköpunarmiðstöð Íslands og tvö ráðuneyti ásamt fleiri samstarfsaðilum sameiginlegt átak um að efla þátt nýsköpunar- og frumkvöðlamenntar (NFM) í framhaldsskólum. Samstarfið hófst með könnun á núverandi stöðu námssviðsins. Vefkönnun var lögð fyrir stjórnendur framhaldsskóla, þar sem meðal annars var spurt um stöðu nýsköpunar- og frumkvöðlamenntar í hverjum skóla fyrir sig, afstöðu stjórnenda til námssviðsins og þáttar þess í kennaramenntun og hvernig þeir myndu skilgreina það. Svanborg R. Jónsdóttir annaðist greiningu gagna í samstarfi við Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Í framhaldi af því fengu höfundar þessarar greinar og Rannsóknarstofa um námskrá, námsmat og námsskipulag (NNN) leyfi til að greina niðurstöður opinna spurninga nánar með hliðsjón af flokkunarkerfi Michael Schiro (2008) í námskrárfræðum. Niðurstöðurnar gefa til kynna að stjórnendur sjái margvísleg tækifæri felast í nýsköpunar- og frumkvöðlamennt. Nánar voru rannsökuð tvö tilvik um nýsköpunar- og frum-kvöðlamennt í skólastarfi og leiddu þau í ljós sterka tengingu við samfélag og jafnframt áherslu á skapandi og sjálfstæða hugsun..

31.12.2014
Gerður Guðmundsdóttir og Birna Arnbjörnsdóttir
Undirbúningur framhaldsskólanemenda fyrir notkun ensku í háskólanámi: Námskrár og nýtt íslenskt málumhverfi
Í greininni er varpað ljósi á misræmi á milli opinberrar stefnu í kennslu ensku og breyttrar stöðu ensku í íslensku málumhverfi. Rýnt er í nýlegar rannsóknir á stöðu ensku á Íslandi, á viðhorfum íslenskra nemenda til gagnsemi enskunáms í framhaldsskóla og viðhorfum nemenda í Háskóla Íslands til eigin færni til að takast á við námsefni á ensku. Þær rannsóknir gefa vísbendingu um að um þriðjungur nemenda eigi í erfiðleikum með að skilja námsbækur á ensku í háskólanámi en um 90% námsefnis á háskólastigi er á ensku. Í rannsókninni er reynt að varpa frekara ljósi á þann undirbúning sem nemendur fá í framhaldsskólum og skoðaðar áherslur og inntak áfanga í ensku í tveimur aðalnámskrám og fjórum nýlegum skólanámskrám, einkum með tilliti til áherslu á akademíska ensku. Í ljós kemur að hvorki í aðalnámskrá frá 1999 né 2011 er lögð sérstök áhersla á að undirbúa nemendur fyrir lestur námsefnis í háskólanámi. Í nýjum skólanámskrám eru hins vegar áfangar þar sem lögð er áhersla á markvissan undirbúning af þessu tagi.

31.12.2014
Kristín Björnsdóttir og Kristín Stella L’orange
„Engar hendur, ekkert súkkulaði“: Kyngervi, hörundslitur, fötlun og stétt í kvikmyndinni Intouchables
Samhengi menningar og fötlunar er áhugavert viðfangsefni og með því að skoða mismunandi menningarafurðir er hægt að fá vísbendingar um gildi og viðmið samfélaga. Leiknar kvikmyndir eru dæmi um slíka menningarafurð, geta gefið vísbendingar um tíðarandann og haft áhrif á viðhorf almennings. Í greininni verður rýnt í frönsku kvikmyndina Intouchables sem var frumsýnd árið 2011, sló mörg aðsóknarmet og var tilnefnd til fjölda verðlauna. Myndin fjallar um fatlaðan auðkýfing og aðstoðarmann hans, sem er „ómenntaður“ innflytjandi frá Senegal og hefur enga faglega þekkingu á því hvernig aðstoða eigi fatlað fólk í daglegu lífi. Í kvikmyndinni er aðalsögupersónunum stillt upp sem andstæðupörum — fátækur og ríkur, ófatlaður og fatlaður, svartur og hvítur — og með því að beita kenningum um samtvinnun er í þessari grein leitast við að lýsa því hvernig þessar hugsmíðar tvinnast saman og gefa vísbendingar um ríkjandi kynjamisrétti, kynþáttafordóma, hæfishroka og stéttahroka.

22.12.2014
Hjördís Sigursteinsdóttir, Eva Halapi og Kjartan Ólafsson
„Ég nota alla lausa tíma sem ég hef“: Netnotkun íslenskra ungmenna og mörk sem foreldrar setja þeim um netnotkun
Í þessari grein er skýrt frá niðurstöðum rannsóknar á netnotkun ungmenna í 9. og 10. bekk grunnskóla á Íslandi og því hvort foreldrar setji þeim mörk varðandi hana. Byggt er á gögnum úr evrópsku rannsóknarverkefni sem hafði það að markmiði að meta algengi og áhrifaþætti netávana meðal evrópskra ungmenna. Blönduðum rannsóknaraðferðum var beitt við gagnaöflun, spurningalistakönnun og hálfstöðluðum viðtölum. Meginniðurstöður eru þær að allir þátttakendur í 9. og 10. bekk grunnskóla nota Netið og tveir af hverjum þremur nota það daglega eða nánast daglega. Strákar verja meiri tíma á Netinu en stelpur eða að meðaltali um tvær og hálfa klukkustund á dag á móti tveimur klukkustundum hjá stelpum. Um 1% þátttakenda í rannsókninni höfðu einkenni netávana og um 7% til viðbótar töldust vera í áhættuhópi vegna netávana. Nærri 60% foreldra settu ungmennunum sjaldan eða aldrei mörk hversu lengi þau máttu vera á Netinu. Ungmenni töldu sig almennt hafa stjórn á netnotkun sinni en mörg hver voru þó jafnframt á þeirri skoðun að netnotkun þeirra væri orðin meiri en eðlilegt gæti talist.

20.12.2014
Viðar Halldórsson
Íþróttaþátttaka íslenskra ungmenna: Þróun íþróttaþátttöku og greining á félagslegum áhrifaþáttum
Þessari grein er ætlað að varpa ljósi á íþróttaiðkun íslenskra ungmenna, skoða þróun skipulagðs íþróttastarfs og sérstaklega að skoða hverjir eru líklegastir til að taka þátt í íþróttum eftir ólíkum leiðum hér á landi. Greinin byggir á viðamiklum gögnum Rannsókna og greiningar á ungu fólki með megináherslu á könnun sem gerð var vorið 2014 meðal nemenda í 8.–10. bekk allra grunnskóla á Íslandi. Niðurstöður sýna að mun fleiri ungmenni stunda nú skipulagt íþróttastarf en árið 1992. Ennfremur hefur hlutfall þeirra sem æfa oft tvöfaldast hjá piltum og nærri þrefaldast hjá stúlkum á þessum árum. Íþróttaþátttaka í íþróttafélögum er mest meðal nemenda í 7. bekk en eftir það dregur jafnt og þétt úr þátttöku ungs fólks í skipulögðu íþróttastarfi. Þátttakan eykst aftur á móti í íþróttum utan íþróttafélaga. Niðurstöðurnar benda einnig til þess að ýmsir félagslegir þættir hafi áhrif á hvort og með hvaða hætti ungmenni stunda íþróttir. Í þessu samhengi er mikilvægt að líta til þess að félagslegar hindranir geta haldið ákveðnum hópum ungs fólks frá uppeldisvænu tómstundastarfi á borð við skipulagt íþróttastarf.

20.12.2014
Fuhui Chen and Hanna Ragnarsdóttir
Single-parent immigrant families in Iceland: Lives and educational experiences of their children
The aim of this study is to explore what situations immigrant single-parent families face in Iceland, their process of integration into Icelandic society and the educational experiences of their children. The main significance of the study is to give a minority group a voice while also providing important information for Icelandic society and educational system. Findings of the study indicate that the families and their children initially experienced difficulties in society and schools, partly related to marginalization and discrimination. However, social support systems, such as support from social networks and financial support from the state, and school support systems, such as special school support, do have positive effects on the lives of these families. All the parents interviewed in this study are concerned about preserving their children’s mother tongue, but all of them put their first consideration on their children’s Icelandic language learning. Most children in this study experienced marginalization in Icelandic schools, particularly in the first few months of attending the schools.

10.10.2014
Hjalti Jón Sveinsson og Rúnar Sigþórsson
„Hver önn sem þau hafa klárað hér í skólanum er sigur fyrir hvert og eitt“: Reynsla nemenda í Verkmenntaskólanum á Akureyri af þróunarverkefni um framhaldsskólapróf af stuttri starfsnámsbraut
Greinin fjallar um tilraunaverkefni sem miðaði að því að koma á fót stuttri starfsnámsbraut innan Almennrar brautar við Verkmenntaskólann á Akureyri (VMA) skólaárin 2011–2012 og 2012–2013. Markmið greinarinnar er að lýsa tilraunaverkefninu og greina frá reynslunni af því frá sjónarhóli nemendanna sem tóku þátt í því fyrstu tvö árin, reynslu þriggja starfsmanna skólans af verkefninu og mati þeirra á því að hvaða marki það kom til móts við þarfir nemendanna. Starfsnámsbrautin er liður í viðleitni VMA til að ná til nemenda í brotthvarfshættu með nýju og óhefðbundnu námsúrræði. Markmið starfsnámsbrautarinnar er að bjóða nemendum fræðslu um atvinnulífið og búa þá undir frekari þátttöku á vinnumarkaði að loknu framhaldsskólaprófi.

7.10.2014
Þorsteinn Helgason
Verkfæri þjóðminninga: Tyrkjaránið í skólabókunum – Fyrri hluti
Kennslubækur í skólum og önnur námsgögn eru hagnýtt tæki í höndum kennara og nemenda en þær, ekki síst sögukennslubækur, eru einnig vitnisburður um viðhorf í samfélagi hvers tíma. Í þessari rannsókn er könnuð umfjöllun um Tyrkjaránið árið 1627 í kennslubókum á árabilinu frá 1880 til 2010. Í fyrri grein eða hluta, sem hér liggur fyrir, er numið staðar um 1970. Í fyrstu kennslubókum fram yfir aldamótin 1900 var frásögnin í mótun og hafði ekki tekið á sig mót þjóðernisviðhorfa af fullum þunga. Það beið einkum lífseigrar Íslandssögu Jónasar Jónssonar frá Hriflu en hún kom fyrst út 1916–1918. Þar er dregin upp mynd af grimmlyndum ræningjum, kúguðum Íslendingum með vissa sjálfsbjargarviðleitni og dáðlausum Dönum. Þeim sem næst fjölluðu um Tyrkjaránið tókst ekki að heilla lesendur að sama skapi og Jónas enda var þjóðernismóðurinn runninn af þeim. Nánast alltaf var þessi atburður þó ómissandi í sögukennslubókunum og kallaði á myndræna framsetningu í Sögunni okkar árið 1960. Hún bendir fram til fjölbreyttara úrvals kennslubóka eftir 1960 og um þær verður fjallað í síðari hluta eða grein.

20.8.2014
Bjørg Oddrun Hallås, Torunn Herfindal and Hege Wergedahl
Comparison of the Physical Activity of 11–12 Year Old Pupils in Two Schools in Norway and Iceland, using Pedometer Registrations and Activity Diaries
Detailed knowledge about physical activity (PA) in both school and leisure time is of great importance in order to promote children’s health. This study investigates and compares the PA levels of sixth-grade pupils, 11–12 years of age, in two Nordic schools, during both school and leisure time by combining pedometer measures with activity diary records. Pupils from Norway (n= 44) and Iceland (n=37) wore pedometers for seven consecutive days and kept an activity diary for the first two days. Although the total amount of PA of Norwegian and Icelandic pupils was similar, a closer look at the various activities during school time and leisure time revealed significant differences between the case schools, including gender differences. The study has contributed to the knowledge about PA among 11–12-year-old pupils in two Nordic countries and revealed a need for more research into different factors, in both school and leisure time that can contribute to increasing Nordic pupils PA levels.

20.8.2014
Laufey Axelsdóttir og Gyða Margrét Pétursdóttir
Kynjaðar væntingar til kvenna og karla í tveimur leikskólum
Rannsóknin sem hér er greint frá fjallar um konur og karla sem starfa við uppeldi og kennslu í tveimur leikskólum á Íslandi. Lögð er áhersla á að skoða hvernig hugmyndir um karlmennsku og kvenleika hafa áhrif á vinnubrögð þeirra og viðhorf og væntingar sem þau mæta í starfi. Byggt er á hugtökum Connell (1987), ríkjandi karlmennska og styðjandi kvenleiki. Eigindlegum rannsóknaraðferðum var beitt en gagnasöfnun með hálfstöðluðum einstaklingsviðtölum og þátttökuathugunum hófst í september 2011 og stóð fram í apríl 2012. Tekin voru viðtöl við átta konur og tvo karla sem starfa í tveimur leikskólum og gerðar tvær þátttökuathuganir, ein í hvorum leikskóla. Niðurstöður benda til þess að viðhorf til starfsmanna og verkaskipting í leikskólunum tveimur séu kynjuð og endurspegli hefðbundnar hugmyndir um hlutverk kynjanna.

18.8.2014
Birna Sigurjónsdóttir og Börkur Hansen
Gildi og áherslur skólastjóra í grunnskólum í Reykjavík
Rannsóknin byggir á viðtölum við skólastjóra í 22 grunnskólum í Reykjavík. Hún leiðir í ljós áherslu skólastjóra á faglegt forystuhlutverk, árangur nemenda og umhyggju fyrir velferð og líðan nemenda og starfsfólks. Um helmingur viðmælenda virtist líta á það sem sitt meginhlutverk að beita sér sem faglegir leiðtogar í skólastarfi og rúmlega þriðjungur virtist leggja mesta áherslu á nám og árangur. Í skólum þar sem fagleg forysta virðist styrk birtist það meðal annars í því að millistjórnendur eru tengiliðir milli skólastjóra og kennarahópa. Styrkur skólastjóranna virðist framar öðru felast í þeirri umhyggju sem þeir bera fyrir starfsfólki og nemendum.

31.12.2013
Guðmundur Sæmundsson og Sigurður Konráðsson
Hvílík snilld! Íslenskt íþróttamálfar í fjölmiðlum og einkenni þess
Í greininni segir frá rannsókn á málfari í umfjöllun um íþróttir í fjölmiðlum. Notuð er orðræðu- og textagreining og leitað fanga í fræðigreinum eins og stílfræði, málsálarfræðum og félagsmálfræði. Unnið var úr efni úr prentmiðlum og útvarpi (hljóðvarpi og sjónvarpi) frá árinu 2008, auk viðbótargagna úr vefmiðlum frá árinu 2012. Þrír flokkar einkenna fundust, auk fyndni sem líta má á sem eins konar yfireinkenni. Fyrsti flokkurinn er ýkt orðafar, sem greinist í ýkjur og afdráttarleysi, hástigsnotkun og hástigsmerkingu, og tvöfaldar eða viðbættar ýkjur. Annar flokkurinn er nýjungar í máli, sem skiptist í nýyrði, ný orðatiltæki, nýmerkingar og nýjungar í málfræði. Þriðji flokkurinn fjallar um skáldmál, þar á meðal stuðla, rím og orðaleiki, auk vísana í bókmenntir; aðrar íþróttir; átök – meðal annars hermennsku, afbrot og aftökur; samskipti; umferð og tæki; og loks náttúru.

31.12.2013
Birna Arnbjörnsdóttir and Patricia Prinz
An English Academic Writing Course for Secondary Schools: A Pilot Study
Recently, the Department of English at the University of Iceland developed a series of special writing courses designed to enhance students’ English academic proficiency. One of the courses was deemed appropriate for secondary school. This article describes the adaptation and implementation of one of the university courses at the secondary level. The article outlines the art and architecture of the course, that focuses on awareness of different genres, demonstrations and scaffolded practice prior to production of academic text. The article presents some qualitative outcomes from a pilot iteration of the project. The findings suggest that students find writing less interesting than other activities such as watching movies, but that they recognize the future value of instruction aimed at enhancing their academic English proficiency.

31.12.2013
Jórunn Elídóttir
„… ég er fædd í Kína en á heima á Íslandi og ég er ættleidd og ég er stolt af því …“: Tvímenningarlegur heimur ættleiddra barna
Talið er mikilvægt fyrir börn sem ættleidd eru til Íslands erlendis frá haldi nokkrum tengslum við upprunalandið, að tengslin efli skilning barnanna á ættleiðingarferlinu og stuðli að þroska jákvæðrar sjálfsmyndar. Í greininni er fjallað um tvímenningarlega félagsmótun ættleiddra barna og rýnt í fræðin til að skýra og skilgreina hvað átt er við þegar fjallað er um þessi málefni. Kynnt er rannsókn þar sem rafræn spurningakönnun var send til tíu telpna sem allar voru ættleiddar frá Kína. Þær voru meðal annars spurðar um uppruna sinn og tengsl við upprunalandið. Með rannsókninni var leitast við að skilja hvað telpurnar telja mikilvægt við þau tengsl og uppruna sinn og greina hvað þeim finnst um að vera ættleiddar frá Kína.

31.12.2013
Anna Lilja Sævarsdóttir, Anna Elísa Hreiðarsdóttir og Hermína Gunnþórsdóttir
Foreldrasamstarf og fjölmenning: Samskipti deildarstjóra í leikskóla við erlenda foreldra sem ekki tala íslensku
Í Aðalnámskrá leikskóla frá 2011 er lögð rík áhersla á foreldrasamstarf og jafnrétti. Deildarstjórar í leikskólum bera höfuðábyrgð á samvinnu sinnar deildar við foreldra og áhugavert þótti að greina reynslu þeirra af því samstarfi með tilliti til fjölmenningar og menningarlegs margbreytileika. Í greininni er fjallað um hluta af niðurstöðum rannsóknar á reynslu deildarstjóra í leikskólum af samskiptum við erlenda foreldra sem ekki tala íslensku. Markmið rannsakenda var að fá sem raunsannasta mynd af reynslu deildarstjóranna af þessari hlið í fjölmenningar í skólum og þeim björgum sem þeir nýttu sér í starfi. Gagna var aflað með megindlegum rannsóknaraðferðum, rafrænum spurningalista var beint til deildarstjóra í 91 leikskóla vítt og breitt um landið. Svörin varpa ljósi á tvo mikilvæga þætti í starfi leikskóla, fjölmenningu og samstarf við foreldra.

31.12.2013
Helgi Skúli Kjartansson
Skóli gegn skólakerfi: Um baráttu Menntaskólans á Akureyri gegn nýmælum fræðslulaganna 1946
Greinin fjallar um tilurð og sögu miðskóladeildar Menntaskólans á Akureyri (1948–1964). Um hana hefur áður verið ritað frá sjónarmiði stofnanasögu og persónusögu stjórnenda, bæði Menntaskólans og Gagnfræðaskóla Akureyrar. Hér er þess freistað að líta á atburði úr meiri fjarlægð, túlka hagsmuni skólanna tveggja og nemenda þeirra í tengslum við þróun gagnfræðastigsins og nýtt skólakerfi samkvæmt fræðslulögum frá 1946. Jafnframt gefst í greininni tilefni til að tengja söguefnið atriðum sem enn eru til umræðu í menntamálum: hvort sé betra samræmt skólakerfi eða ólíkir valkostir, hvort sjálfræði einstakra skóla hæfi betur einkaskólum en opinberum skólum, hvort gott sé að stytta röskum nemendum leið um skólakerfið og hvort gott sé að eftirsóttir skólar geti valið úr nemendum.

29.12.2013
Allyson Macdonald
An emerging research ethos 1998–2004: A case study from a merger in teacher education in Iceland
The aim of this case study is to identify factors that influenced the research culture and the emerging research ethos in the Iceland University of Education (i. Kennaraháskóli Íslands) formed in 1998 when four organizations merged. The study analyses published documents, summaries of research activity and other information, collected between 1998–2004, to describe internal assimilation and external adaptation. Attempts were made to strengthen the research infrastructure in the institution as staff members grappled with the need to engage in discovery, the scholarly activity defined by Boyer (1990) to be most like research. There was some conflict between the tendency of staff to work on integration and application, and the external pressure to further develop discovery as a scholarly activity, while the ethos of research activity was one of cautious optimisim about the value of research and growing self-confidence in carrying it out.

27.12.2013
Amalía Björnsdóttir, Jóhanna T. Einarsdóttir og Ingibjörg Símonardóttir
Langtímarannsókn á forspárgildi málþroskaathugana við 5–6 ára aldur um síðari líðan og reynslu
Tilgangur rannsóknarinnar sem hér segir frá var að kanna hvort málþroskamælingar við fimm ára aldur spái fyrir um ýmsa félagslega og sálræna þætti síðar á lífsleiðinni. Árin 1997 og 1998 var athugaður málþroski 267 leikskólabarna. Þessi börn eru nú orðin fullorðin, 18 og 19 ára, og voru beðin að svara rafrænum spurningalista um þætti á borð við reynslu þeirra af grunnskólagöngu, hvort þau hafi verið greind með þætti sem hamla námi og hvort þau hafi stundað nám að loknum grunnskóla. Niðurstöður sýndu marktæk tengsl milli árangurs á HLJÓM-2-prófinu og margra þessara þátta. Höfundar telja að með betri samvinnu og samskiptum um viðbrögð við niðurstöðum á HLJÓM-2 milli leikskóla og grunnskóla mætti koma betur til móts við þarfir nemenda í áhættu og draga úr eða koma í veg fyrir neikvæða reynslu þeirra í grunnskóla.

27.12.2013
Guðrún Björg Ragnarsdóttir og Anna-Lind Pétursdóttir
„Uss, ég er að vinna!“: Áhrif einstaklingsmiðaðra stuðningsáætlana á námsástundun grunnskólanemenda með hegðunarerfiðleika
Í greininni segir frá rannsókn á áhrifum einstaklingsmiðaðra stuðningsáætlana með stighækkandi viðmiðum um frammistöðu á námsástundun grunnskólanemenda með hegðunarerfiðleika. Þátttakendur voru fjórir drengir á aldrinum sjö til átta ára sem höfðu sýnt hegðunarerfiðleika í fimm til sjö ár þrátt fyrir ýmis úrræði. Þrír þátttakenda voru greindir með ADHD, tveir með mótþróaþrjóskuröskun, einn með ódæmigerða einhverfu og einn með almenna kvíðaröskun og Tourette-heilkenni. Virknimat fólst í viðtölum og beinum athugunum til að finna út hvað hefði áhrif á hegðunarerfiðleika þátttakendanna. Kennarar fylgdu áætlununum eftir undir handleiðslu sérkennara og sérfræðings í atferlisíhlutun. Niðurstöður eru í samræmi við fyrri rannsóknir og benda til þess að hægt sé að auka sjálfstæða námsástundun nemenda og viðhalda bættri færni með því að draga smám saman úr umfangi íhlutunar.

17.12.2013
Eygló Björnsdóttir, María Steingrímsdóttir og Sigríður Margrét Sigurðardóttir
Innleiðing á Byrjendalæsi – Viðhorf og reynsla kennara
Markmið rannsóknarinnar sem hér er kynnt er að greina reynslu kennara af innleiðingu á læsisaðferðinni Byrjendalæsi samkvæmt starfsþróunarlíkani, kanna viðhorf kennaranna í því sambandi og skoða hvaða áhrif þátttaka hefur haft á starfsþroska þeirra. Ráðgjafar um aðferðina við Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri (MSHA) söfnuðu matsgögnum um mat kennara á aðferðinni og líkaninu. Í rannsókninni er byggt á gögnum frá 2009 til 2012, bæði einstaklingsmati og hópmati. Niðurstöður benda til ánægju með aðferðina og starfsþróunarlíkanið sem henni fylgir. Kennarar telja vel haldið utan um innleiðinguna af hálfu MSHA og að það auðveldi þeim að tileinka sér aðferðina. Hins vegar koma einnig fram vísbendingar um óöryggi í hópi kennaranna. Þeir kalla eftir meiri stuðningi við framkvæmd aðferðarinnar í starfi með nemendum.

6.12.2013
Þuríður Jóhannsdóttir [Thurídur Jóhannsdóttir]
‘What we wanted to do was to change the situation’: Distance teacher education as stimulation for school development in Iceland
The article describes the origin of a distance programme for teachers first offered at the Iceland University of Education in 1993 in response to a lack of qualified teachers in rural Iceland. Student teachers were teaching in their home districts while enrolled in the programme, which was organized as a combination of campus-based sessions and home study, communicating with university lecturers via the Internet. The purpose of the article is to enhance understanding of the inception of the programme and shed light on the way in which student teachers’ participation in the distance programme enabled them to stimulate school development.

4.12.2013
Anna Magnea Hreinsdóttir
„Hversu lýðræðisleg á ég að vera?“ Þróunarstarf um lýðræði og mannréttindi í leikskólanum Árbæ
Í greininni er fjallað um þróunarstarf og starfendarannsókn við leikskólann Árbæ. Tilgangur með þróunarverkefninu var að efla lýðræðisleg vinnubrögð í leikskólanum og stuðla að fræðslu og umræðum meðal starfsfólks um lýðræðislegan skólabrag og hvað í honum fælist, lýðræðisleg viðhorf og starfshætti. Einnig var með verkefninu ætlunin að leita eftir hugmyndum frá starfsmannahópnum um starfshætti sem styrkt gætu lýðræðislegan skólabrag í leikskólanum, reyna þær hugmyndir einn vetur í daglegu starfi og meta verkefnið að því loknu. Loks átti að semja námskrá í lýðræði fyrir leikskólann og láta reyna á hana í starfi. Niðurstöður eftir einn vetur benda til þess að starfendarannsóknin og þróunarstarfið hafi haft áhrif á starfsaðferðir og viðhorf starfsfólks við skólann.

3.12.2013
Anh-Dao Tran og Hanna Ragnarsdóttir
Framtíð í nýju landi: Þróunarverkefni með innflytjendum í framhaldsskólum
Framtíð í nýju landi (FÍNL) var tilraunaverkefni um stuðning við víetnömsk ungmenni á Íslandi. Almennt má segja að víetnömsk ungmenni hafi komið sér áfram í íslensku samfélagi. Ungmennin sem þátt tóku í rannsókninni höfðu flest gert tilraunir til að snúa aftur í skóla til að læra íslensku eða einhverja iðngrein en hætt aftur, aðallega vegna slakrar íslenskukunnáttu, skorts á heppilegum íslenskunámskeiðum, skorts á innri hvatningu og sjálfsvirðingu og erfiðra fjölskylduaðstæðna. Þau fengu aðstoð við heimanám, stuðning frá mentorum og annan skipulagðan stuðning og ráðgjöf. Með verkefninu var stutt við þátttakendur og stuðlað að umbótum til að liðsinna ungu fólki af erlendum uppruna. Þróað var líkan til nota hvar sem henta þykir í heiminum til að lýsa því hvernig þeir, sem mest áhrif hafa á framgang ungra innflytjenda og annarra ungmenna, sem eiga undir högg að sækja, geta unnið saman til að auðvelda skólagöngu þeirra og aðlögun.

2.12.2013
Jóhanna Einarsdóttir, Arna H. Jónsdóttir og Bryndís Garðarsdóttir
Sjónarmið leikskólakennara og leiðbeinenda: Áherslur og verkaskipting í leikskólastarfi
Rannsóknin sem hér segir frá var unnin í samvinnu við tvo norska háskóla. Gögnum fyrir íslenskan hluta rannsóknarinnar var safnað með spurningakönnun sem send var í alla leikskóla hér á landi veturinn 2011–2012. Niðurstöður leiða í ljós að óljós verkaskipting virðist vera milli leikskólakennara og leiðbeinenda í íslenskum leikskólum hvað snertir dagleg störf. Báðir hópar segjast sinna daglegri umönnun barnanna og taka þátt í leik þeirra og hreyfingu. Báðir hópar segjast leggja mikla áherslu á virka þátttöku, tjáningu, félagsfærni, leik og uppeldi barnanna. Hins vegar sögðust fleiri leikskólakennarar en leiðbeinendur leggja áherslu á nám og afmarkaða þætti tengda námssviðum leikskólans. Leikskólakennararnir virtust líka bera meiri ábyrgð á samskiptum við foreldra og umönnun og menntun barna með sérþarfir.

3.10.2013
Árný Helga Reynisdóttir og Ingólfur Ásgeir Jóhannesson
Fleiri vindar blása: Viðhorf reyndra framhaldsskólakennara til breytinga í skólastarfi 1986–2012
Höfundar þessarar greinar tóku viðtöl við tólf reynda kennara í fjórum framhaldsskólum til að varpa ljósi á reynslu þeirra af breytingum í starfi sínu frá útgáfu fyrstu samræmdu námskrárinnar fyrir framhaldsskóla árið 1986. Niðurstöður benda til þess að hlutverk kennaranna hafi breyst töluvert og viðhorf nemendanna líka, þeim finnst ekki lengur „merkilegt“ að vera í framhaldsskóla, þeir gera kröfur um athygli sem einstaklingar og eru síður pólitískt meðvitaðir. Aðalnámskráin frá 1999 var flestum viðmælendum minnisstæð og ný aðalnámskrá frá 2011 fékk fremur jákvæða dóma, þótt ýmislegt hafi þótt óljóst um hvernig ætti að útfæra suma þætti hennar í skólastarfinu.

3.10.2013
Sigrún Erla Ólafsdóttir og Sigrún Aðalbjarnardóttir
„Til þess að aðrir virði mann verður maður að virða sig sjálfur“: Sýn grunnskólakennara á virðingu í starfi
Hér segir frá rannsókn þar sem rýnt var í sjálfsvirðingu kennara og reynslu þeirra af virðingu annarra fyrir kennarastarfinu. Jafnframt var markmiðið að leita eftir því hvernig þeir telja vænlegt að efla sjálfsvirðingu kennara og virðingu í samfélaginu fyrir kennarastarfinu. Viðtöl voru tekin við sex grunnskólakennara á höfuðborgarsvæðinu, þrjár konur og þrjá karla. Rannsóknin leiðir í ljós að kennararnir telja sjálfsvirðingu kennara og virðingu annarra á störfum þeirra þýðingarmikla í mörgu tilliti. Af niðurstöðum má líka greina ýmsar leiðir til að efla sjálfsvirðingu kennara og jákvæð viðhorf til kennarastarfsins.

3.10.2013
Helga Rut Guðmundsdóttir
Tónlistarþroski ungbarna og tónlistaruppeldi: Yfirlitsgrein
Í greininni er lýst þekkingu á tónlistarhæfni ungbarna og farið yfir áhugaverða möguleika sem felast í tónlistariðkun og tónlistaruppeldi á fyrstu árum barnsins. Farið er yfir helstu niðurstöður rannsókna á tónskyni ungbarna á fyrsta ári og fyrstu tilburðum þeirra til tónlistarlegrar hegðunar. Því er lýst hvernig almennt tónlistaruppeldi og skipulögð tónlistariðkun með ungbörnum getur tekið mið af þekkingu á næmi ungbarna fyrir tónlist. Af skipulögðum rannsóknum á ungbörnum má draga þann lærdóm ekki megi vanmeta tónlistar- og vitsmunalega hæfni ungbarna. Á eðlislægri tónlistarhneigð ungra barna má byggja ýmsa viðleitni sem stuðlar að þroska og góðri líðan.

20.9.2013
Kristín Bjarnadóttir
Stærðfræðimenntun á tuttugustu öld: Áhrif Ólafs Daníelssonar
Ólafur Dan Daníelsson (1877–1957) lauk Mag.Scient.-prófi í stærðfræði frá Kaupmannahafnarháskóla árið 1904, gaf út Reikningsbók árið 1906 og lauk við doktorsritgerð á sviði rúmfræði árið 1909, fyrstur Íslendinga. Meðal kennara hans var Julius Petersen, kunnur kennslubókahöfundur. Ólafur réðst að Kennaraskóla Íslands við stofnun hans 1908 og mótaði síðar stærðfræðideild við Menntaskólann í Reykjavík. Ólafur samdi fjórar kennslubækur í stærðfræði og varð öðrum fyrirmynd. Kennsla hans og kennslubækur, sér í lagi í reikningi og algebru, mótuðu stærðfræðimenntun á Íslandi fram á miðjan áttunda áratug tuttugustu aldar. Afstaða Ólafs var strangfræðileg, hann taldi taldi stærðfræði fullkomnasta vísindagreina og vildi skýra hana frá rótum.

19.9.2013
Gísli Þorsteinsson og Brynjar Ólafsson
Viðhorf kennara til ákvarðanatöku nemenda í hönnun og smíði
Greinin fjallar um rannsókn á viðhorfum grunnskólakennara til ákvarðanatöku nemenda í hönnun og smíði. Einkum var horft til nemenda á aldrinum 12 til 14 ára og könnuð tækifæri sem kennarar í greininni veita þeim til að taka eigin ákvarðanir. Fjallað var um námskrá grunnskóla í námsgreininni, viðhorf kennaranna til kennarahlutverksins og hvaða möguleika þeir töldu sig hafa til þess að ýta undir og þroska færni nemenda að þessu leyti. Af niðurstöðum má álykta að námskráin bjóði upp á mörg tækifæri til þess að taka ákvarðanir um hönnun og smíði verkefna en geri kröfur sem erfitt getur reynst að mæta í skólastarfi.

20.8.2013
Henry Alexander Henrysson
Skoðanir, siðferði, samfélag: Enn um gagnrýna hugsun
Skortur á gagnrýninni hugsun hefur verið mikið í umræðunni í íslensku samfélagi undanfarin ár. Sú umræða hefur meðal annars náð inn í nýja aðalnámskrá. Skilningur á þessu hugtaki virðist þó ekki hafa aukist í jöfnu hlutfalli við aukna umræðu. Jákvæðri og skapandi hugsun er jafnvel teflt fram sem nauðsynlegu mótvægi við gagnrýna hugsun. Í þessari grein er leitast við að lýsa mismunandi túlkunum á hugtakinu með því að svara þeirri spurningu hvort gagnrýnin hugsun sé ekki einmitt jákvæð, skapandi og uppbyggileg.

31.12.2012
Halldóra Haraldsdóttir
Er samfella í læsiskennslu barna á mótum leik- og grunnskóla?
Yfirfærsla (e. transition) á milli fyrstu skólastiga og samfella í námi (e. continuity) hefur fengið töluverða umfjöllun í fræðaheiminum. Markmið rannsóknarinnar sem hér er kynnt var að skoða hvort hugað sé að samfellu í námi barna á mótum skólastiga, einkum hvað varðar læsi. Skoðað var á hvern hátt unnið er með læsi í leikskóla, hvernig upplýsingar flytjast á milli skólastiganna og hvernig þær eru notaðar í grunnskólanum. Tekin voru rýniviðtöl við kennara elstu deilda þriggja leikskóla og yngsta bekkjar tveggja grunnskóla og rýnt í ýmis rituð gögn skólanna. Meginniðurstöður eru þær að skólastofnanirnar hafa skipulegt samstarf á mótum skólastiga. Samstarfið beinist einkum að því að draga úr spennu og kvíða og felst í því að kynna börnum aðstæður og umhverfi grunnskólans. Minna virðist hugað að samræmingu kennsluhátta.

31.12.2012
Kristín Bjarnadóttir
Björn Gunnlaugsson og Tölvísi: Stærðfræði og einlæg trú í menntun 19. aldar
Ferill nítjándualdarstærðfræðingsins Björns Gunnlaugssonar (1788–1876) er einstakur. Hann naut aldrei skólavistar á Íslandi en náði óvenjulegum tökum á stærðfræði, að mestu með sjálfsnámi, áður en hann settist í Kaupmannahafnarháskóla, 29 ára að aldri. Þar vann hann til tvennra gullverðlauna fyrir stærðfræðiþrautir. Hann kenndi stærðfræði við Bessastaðaskóla og Lærða skólann í Reykjavík um fjörutíu ára skeið og landmælingar hans voru grunnur að Íslandskortum í hálfa öld. Bók hans um stærðfræði, Tölvísi, var gefin út er hann var orðinn 77 ára að aldri. Tölvísi, sem er meginviðfangsefni greinarinnar, bregður ljósi á hversu mikils Björn mat stærðfræðina og á heimspekilega og trúarlega afstöðu hans til stærðfræðilegra hugtaka og lögmála.

31.12.2012
Hafþór Guðjónsson
Kennaramenntun og skólastarf í ljósi ólíkra viðhorfa til náms
Í grein þessari er fjallað um kennaramenntun og skólastarf í ljósi þriggja ólíkra viðhorfa til náms sem höfundur kallar viðtökuviðhorfið, hugsmíðahyggju og aðstæðuviðhorfið. Viðtökuviðhorfið, segir höfundur, hefur verið ríkjandi viðhorf til náms um langan aldur og mótað starfshætti kennara bæði í skólum almennt og í kennaraskólum en jafnframt haldið okkur föngnum í þeirri þröngu sýn að það að læra merki að taka við því sem aðrir hafa hugsað. Bæði hugsmíðahyggju og aðstæðuviðhorfið má skoða sem andóf gegn viðtökuviðhorfinu og með því að leggja þau saman verður til kraftmikil sýn á nám sem ætti að geta auðveldað okkur að þróa nýja og betri starfshætti bæði í kennaraskólum og skólum almennt.

31.12.2012
Anni G. Haugen
Samstarf í þágu barna: Samvinna grunnskóla og barnaverndar
Í samfélagi nútímans er farsæl skólaganga og menntun oftar en ekki lykillinn að velgengni í lífinu. Því er öllum börnum mikilvægt að fá góðan stuðning og hvatningu í námi og þjálfun í félagslegri færni í skólanum. Barnaverndarnefndir á Íslandi sinna á ári hverju miklum fjölda barna á grunnskólaaldri, oftast með því að aðstoða barnið heima, en í þeim tilvikum sem barn er talið vera í hættu á heimili sínu eða í þörf fyrir umfangsmeiri aðstoð er hægt að vista það á fóstur- eða meðferðarheimili. Því má ætla að samstarf skóla og barnaverndar þurfi að vera náið og markvisst en ýmsar vísbendingar eru þó um að það megi bæta. Í greininni er fjallað um samstarf skóla og barnaverndar og stöðu barna í skóla og dregnir fram þættir sem þörf er á að bæta frekar til að slíkt samstarf geti þróast og dafnað til hagsbóta fyrir barnið. Greinin er byggð á íslenskum og erlendum rannsóknum og fræðigreinum um efnið.

2.12.2012
Guðbjörg Pálsdóttir og Guðný Helga Gunnarsdóttir
Námssamfélag í kennaranámi: Rannsóknarkennslustund
Greinin segir frá rannsókn á rannsóknarkennslustund (e. lesson study) sem leið til að byggja upp námssamfélag í kennaramenntun. Í rannsóknarkennslustund felst að hópur kennara og kennaranema skipuleggur saman, rannsakar og ígrundar kennslustund með ákveðin markmið í huga. Rannsakað var hvernig námssamfélag myndaðist meðal stærðfræðikennaranema vormisserin 2009 og 2010 þegar þeir prófuðu að nota þessa aðferð með kennurum sínum. Niðurstöður sýndu að rannsóknarkennslustund getur stutt við myndun námssamfélags þar sem kennaranemar þróa færni sína í faglegri umræðu og auka um leið samstarfshæfni sína, en hvort tveggja er talið mikilvægt í kennaramenntun og kennarastarfi.

2.12.2012
Gyða Jóhannsdóttir
Þróun menntunar fyrir norræna grunnskólakennara: Liggur leiðin í háskóla?
Greinin segir frá samanburðarrannsókn á þróun í menntun norrænna grunnskólakennara og kannar hvort og á hvern hátt þróun á Íslandi er sambærileg þróuninni á öðrum Norðurlöndum. Leitast er við að greina hvort og á hvern hátt þróunin endurspeglar bóknámsrek, hvort sú tilhneiging sé á Norðurlöndum að færa kennaramenntun í háskóla eða í stofnanir sem smám saman leitast við að haga starfsemi sinni á líkan hátt og gert er í háskólum. Sérstaklega er kannað hvernig bóknámsrek er tilkomið og hvernig það tengist menntapólitískum aðstæðum og uppbyggingu æðri menntunar í hverju landi. Þróunin endurspeglar mismikið bóknámsrek í löndunum fimm.

6.11.2012
Anna Jeeves
“Being able to speak English is one thing, knowing how to write it is another”: Young Icelanders’ perceptions of writing in English
The paper reports a qualitative study on perceived relevance of secondary school English studies in Iceland. Interviews with secondary school and university students as well as young people in employment give insight into perceptions of studying English at secondary school. The paper focuses on what value writing in English at school has for students and what changes to classroom material and activities could benefit them. Findings suggest a need for advanced language accuracy and fluency in employment. Participants enjoy writing in English, but mention a lack of autonomy and self-assessment skills.

6.11.2012
Eygló Björnsdóttir
„Ég er svo óvanur svona fjarnemastússi“: Aukinn sveigjanleiki náms við Háskólann á Akureyri
Á vormisseri 2011 var gerð tilraun í Háskólanum á Akureyri með því að kenna þrjú námskeið með mesta mögulegum sveigjanleika í stað þess að líta á námið annað hvort sem fjarnám eða staðnám. Í greininni er kynnt rannsókn meðal nemenda í einu þessara námskeiða að námskeiði loknu. Markmiðið var að kanna reynslu nemenda af því að stunda háskólanám með þessum hætti. Nemendurnir voru ánægðir með tilhögun námskeiðsins, skipulag og innihald. Þeim fannst námskeiðið krefjandi en áhugavert og töldu sig margt hafa lært.

16.10.2012
Katrín Björg Ríkarðsdóttir og Ingólfur Ásgeir Jóhannesson
Er hægt að bjóða kynjakerfinu birginn? Reynsla átta kvenna af smíðum og tölvunarfræði
Í greininni er fjallað um birtingarmyndir kynjakerfisins í reynslu kvenna af námi og störfum í húsasmíði og tölvunarfræði. Tekin voru viðtöl við átta konur sem allar höfðu lokið námi í sinni starfsgrein á síðastliðnum sex árum þar á undan. Húsasmiðirnir höfðu stundað nám í þremur framhaldsskólum og tölvunarfræðingarnir í þremur innlendum háskólum. Í greininni er leitast við að svara því hvort kynjakerfið í formi útilokunar, aðgreiningar og undirskipunar kvenna komi fram í reynslu þessara viðmælenda, hvaða teikn séu skýrust og hvort kynjakerfið leiti nýrra leiða til að halda jafnvægi þegar tilraunir eru gerðar til að vinna í trássi við það. Rannsóknin sýnir að ýmsir þættir í reynslu kvennanna endurspegla kynjakerfið þegar grannt er hlustað.

28.9.2012
Gunnlaugur Sigurðsson
Óboðinn gestur í orðræðu um börn
Í sjálfsprottinni umræðu í kennslustund á Menntavísindasviði Háskóla Íslands þar sem Óli prik kemur óvænt til skjalanna eru tvö lykilhugtök í boði, uppeldi og menntun. Annað þeirra verður tilfallandi fyrir valinu og umræðan fer fram á merkingarsviði þess en tekur óvænta stefnu vegna þriðja hugtaks sem sprettur, að því er virðist, óumhugsað upp innan þessa merkingarsviðs og reynist hafa afgerandi áhrif á framvindu umræðunnar. Í ljósi kenninga Platons, Rousseau, Alice Miller og Peter Winch reynir höfundur að draga fram ástæður þess að þetta hugtak fær svo ráðandi hlutverk. Greiningin leiðir í ljós samband hugmynda okkar og orða um börn og samband hugmynda okkar, gjörða okkar og félagslegra tengsla við börn.

9.9.2012
Guðmundur Sæmundsson
Svo sæt og brosmild …: Umfjöllun í blöðum og tímaritum um íslenskar afreksíþróttakonur á alþjóðavettvangi
Orðræða íslenskra fjölmiðla um íþróttakonur býr yfir eigin einkennum, mjög í anda þeirrar umfjöllunar sem ríkir um konur almennt í íslensku samfélagi en að mörgu leyti ólík þeim einkennum sem fram koma um íþróttakarla. Þetta er niðurstaða rannsóknar á orðræðu íslenskra fjölmiðla yfir 60 ára tímabil um íslenskar afreksíþróttakonur sem náð hafa árangri á alþjóðavettvangi. Íþróttir eru vígi karlmennskunnar og hafa verið um langan aldur á Íslandi. Í rannsókninni var beitt þemabundinni og sögulegri orðræðugreiningu og skoðuð stef á borð við kvenlegt útlit, t.d. andlitsfegurð, fallegan líkamsvöxt, kvenlega hárgreiðslu og klæðnað, einnig samviskusemi, dugnað, tilfinningar, metnað, ákveðni og þrjósku, umhyggju og samvinnu.

9.9.2012
Ingibjörg Óskarsdóttir og Jóhanna Einarsdóttir
„Við getum kennt þeim svo margt í gegnum leik“: Hlutverk þriggja leikskólakennara í leik barna
Hér segir frá rannsókn þar sem fylgst var með störfum þriggja leikskólakennara í þremur leikskólum og rætt við þá um starf þeirra. Markmiðið var að öðlast innsýn í hvernig leikskólakennarar styðja við leik barna og að skoða hugmyndir þeirra um hlutverk sitt og stuðning við börnin í leik. Gögnum var safnað með þátttökuathugunum og viðtölum og fór gagnasöfnun fram í 6 mánuði. Helstu niðurstöður rannsóknarinnar sýna að leikskólakennararnir höfðu allir svipaðar hugmyndir um hlutverk sitt í leik barna. Þeir vour þó ekki allir einu máli um hvort leyfa ætti börnum að leika sér einum í lokuðu rými þar sem enginn fullorðinn er viðstaddur né hvort eðlilegt væri að leikskólakennarinn sinnti öðrum verkefnum á meðan börnin léku sér. Fastar venjur og menning í skólastarfinu virtust ráða miklu um framkvæmd og niðurstöður benda til ákveðinnar togstreitu um skipulag leikskólastarfsins hvað snertir áherslu á stuðning við leik.

30.6.2012
Gunnar J. Gunnarsson
Trúarbragðafræðsla í samfélagi margbreytileikans
Í greininni er fjallað um trúarbragðafræðslu á tímum trúarlegs margbreytileika og fjölhyggju, meðal annars með hliðsjón af ályktunum og álitsgerðum Evrópuráðsins og Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu en í þeim er áréttað mikilvægi vandaðrar trúarbragðafræðslu til að auka skilning ungs fólks á hlutverki trúarbragða í fjölmenningarsamfélögum nútímans og dregið fram hvernig góð þekking á trúarbrögðum og lífsviðhorfum getur stuðlað að virðingu fyrir trúfrelsi og eflt skilning á félagslegum margbreytileika. Litið er til trúarbragðakennslu í Bretlandi, einkum aðferðum sem taka mið af óhjákvæmilegum áhrifum margbreytileikans á nemendur og sett fram sjónarmið um nálgun og áherslur í trúarbragðafræðslu hér á landi á tímum margbreytileiki og fjölhyggju í trúarefnum.

27.6.2012
Lilja M. Jónsdóttir
„Það er náttúrulega ekki hægt að kenna manni allt“: Viðhorf byrjenda í grunnskólakennslu til kennaranáms síns
Hér er gerð grein fyrir niðurstöðum rannsóknar á viðhorfum fimm ungra grunnskólakennara til kennaranáms síns. Þetta er langtímarannsókn þar sem rætt var við kennara um reynslu þeirra fyrstu fimm árin í starfi frá brautskráningu. Rannsóknin byggist á rannsóknaraðferð sem höfundur kallar narratífu og veit hann ekki til þess að sú aðferð hafi áður verið notuð í menntarannsóknum hér á landi. Kennaranámið þótti að mestu leyti góður undirbúningur undir kennarastarfið og í langflestum tilvikum hefði það nýst vel. Kennararnir höfðu samt mjög ákveðnar skoðanir á því hvað þyrfti að bæta í kennaranáminu. Lögðu þeir mesta áherslu á lengingu námsins, aukið vettvangsnám, meiri hagnýta kennslufræði, aukna fræðslu um námsefni grunnskólans, aga og bekkjarstjórnun, hvernig best verður komið til móts við nemendur með sérþarfir og foreldrasamstarf.

30.4.2012
Kristín Bjarnadóttir
Stærðfræði 102 í fjölbrautaskóla: Námskrá og áherslur
Greinin segir frá rannsókn á námskrá við fimm framhaldsskóla þar sem kannað var inntakt hægferðaráfangans Stærðfræði 102. Í ljós kom ósamkvæmni milli skóla. Í fjórum skólum af fimm var kennd meiri algebra en gert er ráð fyrir í námskrá. Lítil sem engin áhersla virtist á samvinnuverkefni og ritgerðir sem þó gætu hentað breiðum hópi nemenda af mörgum námsbrautum. Greinin er framhald greinar frá árinu 2011, Stærðfræði 102 í fjölbrautaskóla: Vandi og ávinningur.

15.4.2012
Þuríður Jóhannsdóttir
Að læra að verða kennari í starfi á vettvangi
Hér segir frá því hvernig kennarnemar lærðu að starfa sem kennarar þegar þeir unnu sem leiðbeinendur í skólum jafnframt því að stunda kennaranám í fjarnámi sem skipulagt var með reglubundnum staðlotum. Tilgangur rannsóknarinnar var að varpa ljósi á aðstæður kennaranema sem starfa á vettvangi og var byggt á menningarsögulegri starfsemiskenningu sem hefur reynst vera gagnlegt verkfæri til að greina samspil einstaklingsbundinna og samfélagslegra þátta í þróun og námi. Á grundvelli greiningarinnar voru þróaðar tilgátur um atriði sem mestu máli skipta í því ferli að læra til starfa sem kennari.

8.3.2012
Hanna Ragnarsdóttir
Kennarar í fjölmenningarsamfélagi: Aðgengi fjölbreyttra nemendahópa að kennaranámi á Íslandi
Greinin fjallar um kennara í fjölmenningarsamfélagi og aðgengi fjölbreyttra nemendahópa að kennaranámi á Íslandi. Dregið er fram mikilvægi þess að kennaramenntun á Íslandi sé aðgengileg fjölbreyttum nemendahópum og að búið sé í haginn fyrir þá með réttum áherslum. Sagt er frá þremur rannsóknum meðal erlendra nemenda í kennaranámi og menntunarfræði á Íslandi. Einnig er vísað í erlendar rannsóknir og skýrslur á tímum hnattvæðingar og félagslegs fjölbreytileika.

9.1.2012
Ragnhildur Bjarnadóttir
Stefnumótun í kennaranámi: Áhersla á rannsóknir – Áhersla á vettvang
Höfundur ræðir mótun stefnu í kennaranámi í Kennaraháskóla Íslands, síðar á Menntavísindasviði Háskóla Íslands, frá árinu 2004 til 2011. Markmiðið var að auka gæði námsins, m.a. með því að efla tengsl við rannsóknir og vettvang. Niðurstaða höfundar er að vel hafi miðað í þessum efnum; sátt virðist hafa náðst um að öll námskeið tengist rannsóknum og fyrstu skrefin verið tekin í að útfæra markmið þar sem samvinna og samábyrgð háskólans og almennra skóla um kennaramenntun er í brennidepli.

30.12.2011
Kristín Bjarnadóttir
Stærðfræði 102 í fjölbrautaskóla: Vandi og ávinningur
Greinin segir frá hægferðaráfanganum Stærðfræði 102 í fjölbrautaskóla. Í ljós kom að mun meiri áhersla var lögð á algebru en aðalnámskrá sagði fyrir um en lítil sem engin á samvinnuverkefni eða ritgerðir.

30.12.2011
Jóhanna Einarsdóttir og Anna Magnea Hreinsdóttir
„Við hugsum kannski meira um námið sem leikurinn felur í sér“:
Starfendarannsókn um tengsl leiks og læsis í leikskóla

Hér er greint frá starfendarannsókn sem fram fór í einum leikskóla á höfuðborgarsvæðinu. Byggt var á samvinnu við tvo kennara. Meðal annars var fylgst með því hvernig hugmyndir um tengsl leiks og náms þróuðust hjá kennurunum meðan á rannsókninni stóð.

20.12.2011
Jóhanna Einarsdóttir, Ingibjörg Símonardóttir og Amalía Björnsdóttir
Langtímarannsókn á forspárgildi athugana á málþroska:
Frá leikskólaaldri til fullorðinsára

Greinin fjallar um rannsókn á því hvort málþroskamælingar við fimm ára aldur spái fyrir um námsgengi í samræmdum prófum í grunnskóla. Niðurstöður sýna að góð málþekking og hljóðkerfisvitund eru meðal þátta sem virðast stuðla að farsælu námi í grunnskóla.

15.12.2011
Þorsteinn Helgason
Kjölfesta eða dragbítur? Gagnrýnin hugsun og kennslubækur í sögu
Greinin snýst um gagnrýna hugsun og námsefni í sögu. Gera má nemendur læsa á námsgögnin og gera þá um leið sem sjálfstæðasta gagnvart námsefninu. Gefin eru raunhæf dæmi um aðferðir til þess að semja kennslubækur sem hvetja til gagnrýni og kennsluaðferðir til að efla þetta hlutverk.

15.12.2011
Hafþór Guðjónsson
Að verða læs á náttúrufræðitexta
Í greininni leitast höfundur við að vekja til umhugsunar um náttúrufræðimenntun í íslenskum skólum í ljósi áherslu á læsi og grunnþætti í nýrri námskrá. Okkur sé tamt að hugsa um náttúrufræðikennslu sem miðlun upplýsinga. Úr því þurfi að draga og leggja aukna áherslu á skilning.

29.9.2011
Guðrún V. Stefánsdóttir og Vilborg Jóhannsdóttir
Starfstengt diplómunám fyrir fólk með þroskahömlun
Greinin fjallar um starfstengt diplómunám við Menntavísindasvið Háskóla Íslands fyrir fólk með þroskahömlun. Niðurstaða þeirra er m.a. að nemendur og aðstandendur hafi verið ánægðir með námið og að það hafi aukið þátttakendum sjálfstæði, sjálfsvirðingu og sjálfsöryggi.

15.9.2011
Ásta Jóhannsdóttir og Kristín Anna Hjálmarsdóttir
Skaðleg karlmennska? Greining á bókinni Mannasiðir Gillz
Greinin geymir greiningu höfunda á bókinni Mannasiðir Gillz. Niðurstaða þeirra er m.a. að sú karlmennskuhugmynd sem þar kom fram virðist líkleg til að stuðla að skaðlegri karlmennsku og vinna gegn þróun í jafnréttisátt.

15.9.2011
Gerður Bjarnadóttir og Guðný Guðbjörnsdóttir
Kynjakerfið og viðhorf framhaldsskólanema
Greinin fjallar um viðhorf framhaldsskólanema til þess að brjóta upp hefðbundin kynjamynstur. Byggt er á spurningalista sem lagður var fyrir 111 nemendur á fyrsta ári í framhaldsskóla á höfuðborgarsvæðinu. Svör kynjanna reyndust marktækt ólík.

31.12.2010
Atli Harðarson
Hvaða áhrif hafði Aðalnámskráin frá 1999 á bóknámsbrautir framhaldsskóla?
Í þessari grein er því lýst hvaða breytingar áttu að verða á kennslu í stærðfræði, raungreinum og sögu með Aðalnámskránni frá 1999 og að hve miklu leyti þær voru framkvæmdar af kennurum. Meginniðurstöður eru að kennsla í átta skólum hafi ekki orðið samræmd í þeim mæli sem Aðalnámskrá krafðist og áhugi er á að hverfa aftur til fyrri hátta.

31.12.2010
Kristín Bjarnadóttir
Reikningsbók Eiríks Briem
Áhrifa kennslubókar sr. Eiríks Briem í reikningi gætti allan síðasta þriðjung nítjándu aldar og fram á tuttugustu öld. Á því tímabili urðu miklar þjóðfélagsbreytingar á Íslandi. Athugun á verkefnum bókarinnar bregður upp áhugaverðum þjóðlífsmyndum af viðskiptaháttum bænda og kaupmanna og sígandi breytingum á búsetu og högum landsmanna.

31.12.2010
Aldís Yngvadóttir
Ruslakista eða raunhæf menntun? Viðhorf skólastjórnenda og kennara
til lífsleikni í grunnskólum

Niðurstöður rannsóknar á kennslu og viðhorfum skólastjórnenda og kennara til lífsleikni í grunnskólum benda til þess að lífsleikni sé kennd að lágmarki eina stund í viku í hverjum árgangi í allflestum skólum og að talsverð breidd sé í notkun námsefnis. Minnihluti skóla virðist gera lífsleikniáætlun en viðhorf kennara og skólastjórnenda til lífsleikni og námskrár eru mjög jákvæð.

31.12.2010
Hafþór Guðjónsson
Að vitsmunir barnanna þroskist á náminu …
Höfundur heldur því fram að skólastarf á Íslandi sé bundið á klafa hugmynda sem kynda undir einstefnumiðlun af hálfu kennara en ætli nemendum takmarkað vitsmunalegt hlutverk. Skólafólk þurfi að huga betur að félagslegum hugmyndum um nám sem beina athygli að tengslum námsathafna, virkni og þroska.

1.9.2010
Guðrún Ragnarsdóttir, Ásrún Matthíasdóttir og Jón Friðrik Sigurðsson
Velferð kennara er lykillinn að öflugum framhaldsskóla:
Rannsókn á starfsánægju og starfsumhverfi framhaldsskólakennara

Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna starfsánægju, líðan og starfsumhverfi á meðal framhaldsskólakennara á Íslandi. Þótt mikill meirihluti þátttakenda segðist vera ánægður í starfi taldi um helmingur þeirra sig vera undir töluverðu starfstengdu álagi sem reyndist hafa áhrif á starfsánægju þeirra.

15.7.2010
Guðrún V. Stefánsdóttir
Samvinnurannsóknir með fólki með þroskahömlun
Greinin segir frá samvinnurannsókn sem höfundur vann í nánu samstarfi við fjórar konur með þroskahömlun. Samstarfið var nánara en oftast er í hefðbundnum rannsóknum. Höfundur segir frá samstarfinu og varpar ljósi á þýðingu þess fyrir rannsakanda og þátttakendur.

30.12.2009
Kristín Norðdahl
Menntun til sjálfbærrar þróunar – í hverju felst hún? Um gerð og notkun greiningarlykils til að greina slíka menntun
Tilgangur þessarar greinar er að auka skilning á markmiðum og inntaki menntunar til sjálfbærrar þróunar. Þar er gerð grein fyrir aðferð og hugmyndafræði á bak við greiningarlykil sem varð til í alþjóðlega rannsóknar- og þróunarverkefninu GETA til sjálfbærni – menntun til aðgerða. Einnig er fjallað um hvernig hann hefur gagnast og hvernig hann gæti nýst áfram til að ýta undir menntun sem hjálpar fólki að tileinka sér sjálfbæra lífshætti og framtíðarsýn.

30.12.2009
Kristín Á. Ólafsdóttir
Margslungið að útbreiða nýjung: Um hvata og hindranir á vegferð leikrænnar tjáningar í íslenskum grunnskólum
Greinin byggist á rannsókn á þróun leikrænnar tjáningar í íslenskum grunnskólum. Mest var byggt á rituðum heimildum og viðtölum við 17 þátttakendur sem flestir höfðu komið að leikrænni tjáningu á árabilinu frá því um 1970 til 2007. Leitað var svara við þeirri spurningu hvað greitt hafi götu leikrænnar tjáningar í íslenskum grunnskólum frá því hún nam þar land og hvað hindraði?

30.12.2009
Brynjar Ólafsson
„… að mennta þá í orðsins sanna skilningi“: Um sögu, þróun og stöðu handmennta í grunnskólum á Íslandi 1970–2007
Í greininni er fjallað um sögu og þróun handmenntakennslu frá 1970 til 2007 sem og stöðu greinarinnar í skólakerfinu um þessar mundir. Lögð er áhersla á sögulega umfjöllun tímabilsins. Fjallað er um stöðu handmennta, hlut þeirra í skólastarfi og hvernig áherslur menntayfirvalda hafa birst í framkvæmd. Ennfremur er unnið úr gögnum frá Hagstofu Íslands um kenndar stundir í grunnskólum en af þeim má sjá raunverulega stöðu námsgreina hvað kennslutíma snertir.

30.12.2009
Amalía Björnsdóttir, Baldur Kristjánsson og Börkur Hansen
Tíminn eftir skólann skiptir líka máli: Um tómstundir og frítíma nemenda í 1., 3., 6. og 9. bekk grunnskóla
Í greininni er fjallað um tómstundaiðkun og frístundir barna í 1., 3., 6. og 9. bekk grunnskóla. Gagna var aflað með spurningalista sem lagður var fyrir nemendur og foreldra þeirra skólaárið 2007–2008. Alls svöruðu 1.002 nemendur og 1.066 foreldrar spurningalistunum.

1.12.2009
Jóhanna Einarsdóttir
„Frábær skólaföt á hressa krakka!“: Rannsókn á umfjöllun fjölmiðla um börn við upphaf grunnskólagöngu
Hér er greint frá rannsókn þar sem kannað var fjalla um grunnskólabyrjun og flutning úr leikskóla í grunnskóla í fjölmiðlum, hvernig grunnskólabyrjunin er kynnt og hvaða sýn á börn endurspeglast í fjölmiðlum.

20.2.2009
Hafsteinn Karlsson
Kennsluaðferðir í íslenskum og finnskum grunnskólum
Í greininni er sagt frá niðurstöðum eigindlegrar rannsóknar á kennsluháttum í sex íslenskum og fjórum finnskum grunnskólum. Rannsóknin var gerð veturinn 2006–2007. Rannsóknarspurningin var: Hvað einkennir helst kennsluhætti í sex íslenskum og fjórum finnskum grunnskólum og að hvaða leyti er munur þar á?

30.12.2008
Ingibjörg H. Harðardóttir og Amalía Björnsdóttir
Það þarf þorp til að ala upp barn: Framlag eldri borgara til umönnunar barna á Íslandi
Í rannsókn sem greinin lýsir er fjallað um framlag eldri borgara til samfélagsins og athygli beint að stuðningi afa og ömmu við afkomendur. Stuðningur eldri borgara á Íslandi við afkomendur sína virðist mikill og margþættur og má segja að þeir myndi stuðningsnet um fjölskyldur sínar.

30.12.2008
Hafþór Guðjónsson
PISA, læsi og náttúrufræðimenntun
Í greininni er fjallað um PISA-rannsókn frá árinu 2006 þar sem náttúrufræðimenntun var í fyrirrúmi, eðli prófsins sem lagt var fyrir og möguleg viðbrögð við niðurstöðum. Íslensk ungmenni voru undir meðallagi hvað snertir læsi á náttúruvísindi og virðast þurfa aukna þjálfun til að afla sér þekkingar á því sviði.

30.12.2008
Sigurborg Sturludóttir og Jóhanna Einarsdóttir
Reynsla foreldra af grunnskólabyrjun barna sinna
Í þessari rannsókn var könnuð upplifun og reynsla foreldra af grunnskólabyrjun barna sinna og þær breytingar sem grunnskólabyrjunin hafði á fjölskylduna. Enn fremur var athugað hvort samskiptin við leikskóla og grunnskóla, breyttust á þessum tímamótum.

1.12.2008
Guðmundur Ó. Ásmundsson, Börkur Hansen og Ólafur H. Jóhannsson
Stjórnskipulag grunnskóla: Hugmyndir skólanefnda um völd sín og áhrif
Í greininni er fjallað um hugmyndir skólanefnda á Íslandi um völd sín og áhrif og mat skólastjóra á þeim völdum. Rætt er um áhrif valddreifingar á stjórnkerfi grunnskóla víða um heim, horft til skólanefnda í nokkrum löndum og greint frá niðurstöðum úr eigindlegri rannsókn þar sem tekin voru viðtöl við formenn skólanefnda og skólastjóra í fjórum sveitarfélögum.

30.12.2007
Ingólfur Ásgeir Jóhannesson
Fjölmenning og sjálfbær þróun: Lykilatriði skólastarfs eða óþægilegir aðskotahlutir?
Markmið greinarinnar eru að skoða hvernig málaflokkarnir fjölmenning og sjálfbær þróun eru meðhöndlaðir í stefnu ríkis og sveitarfélaga, hjálpa til við að „smala“ saman efni úr stefnumótandi skjölum til að gera kennurum betur kleift að fylgjast með þróun í málaflokkunum og loks marka stefnu með því að tengja málin tvö með hugtökunum alheimsvitund og geta til aðgerða.

30.12.2007
Hafdís Guðjónsdóttir og Jónína Vala Kristinsdóttir
Kennarar eru á mörkum gamalla tíma og nýrra: Þróun námskeiðs um stærðfræðikennslu fyrir alla
Í greininni er fjallað um rannsókn kennara á eigin kennslu á námskeiði í framhaldsdeild Kennaraháskóla Íslands. Markmið rannsóknarinnar var að þróa námskeið sem auðveldaði kennurum að skipuleggja stærðfræðikennslu fyrir börn með ólíkar forsendur til náms.

30.12.2007
Kristín Loftsdóttir
Hin mörgu andlit Íslands: Framandleiki og fjölmenning í námsbókum
Greinin fjallar um þær ímyndir sem nýlegar íslenskar námsbækur bregða upp af fjölmenningarlegu Íslandi. Greining á tveimur bókaflokkum gefur til kynna mikilvægar breytingar á íslenskum námsbókum þar sem sjá má tilraun til að endurspegla Ísland á jákvæðan hátt sem fjölbreytt og fjölmenningarlegt samfélag.

18.12.2007
Helga Rut Guðmundsdóttir
Tónskynjun 7-11 ára barna: Þroskaferli í getu til að heyra tvær laglínur sem hljóma samtímis
Rannsóknin sem hér er lýst beindist að getu barna í 1., 3., og 5. bekk til að heyra tvær laglínur sem hljómuðu samtímis. Laglínupör voru sett saman á mismunandi vegu. Niðurstöður gáfu til kynna að eldri börnin væru fljótari að þekkja tvær samhljómandi laglínur og gerðu það af meiri nákvæmni en yngri börnin.

12.11.2007
Sigríður Pálmadóttir
Tónlist í munnlegri geymd: Rannsókn á stemmum og þululögum frá Ytra-Fjalli í Aðaldal
Höfundur skoðar einkenni tónmáls sem varðveitt er í munnlegri geymd Ásu Ketilsdóttur á 30 ára tímabili. Greind eru grundvallaratriði í tónmáli, formúlur til grundvallar tóngerðinni og stöðugleiki í tónmáli en jafnframt dregur rannsóknin fram breytileika sem undirstrikar eðli tónlistar í munnlegri geymd. Greininni fylgja nótur og fjöldi tóndæma.

17.10.2007
Sigríður Anna Guðjónsdóttir, Amalía Björnsdóttir og Ólafur H. Jóhannsson
Deildarstjórar í grunnskólum: Hver er afstaða skólastjóra og kennara til deildarstjórastarfsins, hlutverks þess og mikilvægis?
Í greininni er rætt um niðurstöður rannsóknar frá 2005 á afstöðu skólastjóra og kennara til starfa deildarstjóra í grunnskólum. Rannsóknin náði til allra skólastjóra þar sem deildarstjórar starfa. Samskipti skólastjóra við deildarstjóra eru mikil en kennarar hafa ekki jafn ljósa hugmynd um störf þeirra.

17.10.2007
Anna Ólafsdóttir
Change agents in the contemporary university: How do forces of change such as ICT impact upon developments and quality within higher education systems?
The article seeks to illuminate how ICT, along with other forces of change, is affecting developments within the higher education sector and, as a consequence, impacting upon the quality discourse.

30.6.2007
Auður Torfadóttir
Notkun nemenda við lok grunnskóla á enskum orðasamböndum við ritun
Í rannsókninni er leitast við að fá yfirlit yfir notkun enskra orðasambanda í ritun nemenda við lok 10. bekkjar grunnskóla byggt á úrlausnum á samræmdu prófi í ensku vorið 2004. Notkun orðasambanda er góður mælikvarði á hversu gott vald einstaklingur hefur á erlendu tungumáli.

16.4.2007
Hólmfríður K. Gunnarsdóttir, Herdís Sveinsdóttir og Guðbjörg Linda Rafnsdóttir
Birtingarmyndir vanlíðanar hjá konum í hópi grunnskólakennara
Hér er greint frá niðurstöðum rannsóknar á vanlíðan hjá konum í hópi grunnskólakennara sem mátu heilsu sína, líkamlega líðan eða andlega líðan sæmilega eða slæma. Þessi hópur var borinn saman við hóp þeirra sem mat heilsu sína og líðan góða eða mjög góða. Vanlíðan hjá kennurum kom fram bæði í andlegum og líkamlegum einkennum af ýmsu tagi.

31.12.2006
Kristín Dýrfjörð
Lýðræði í leikskólum: Um viðhorf leikskólakennara
Rannsóknin sem greint er frá beinist að því hvað leikskólakennarar við fimm leikskóla telji vera lýðræði í leikskólum, hvernig það lýsir sér í starfsháttum og hjá barnahópnum. Stuðst er við kenningar John Dewey og Mörthu Nussbaum um lýðræði.

31.12.2006
Anna Ólafsdóttir, Sigurlína Davíðsdóttir og Sólveig Jakobsdóttir
Evrópuverkefnið CEEWIT Þróun og mat á tölvunámi fyrir landsbyggðarkonur
Greinin fjallar um evrópska samvinnuverkefnið CEEWIT (Communication, Education and Employment for Women through Information Technology) styrkt af Leonardo-áætluninni. Markmið verkefnisins var að þróa aðferðir sniðnar að þörfum kvenna á landsbyggðinni til að efla þekkingu þeirra og færni í tölvunotkun.

1.11.2006
Gyða Jóhannsdóttir
Rannsóknir í Kennaraháskóla Íslands á áttunda áratugnum: Sýn og veruleiki
Hér er greint frá rannsókn þar sem kannað er hvernig tókst að hrinda í framkvæmd ákvæðum laga um rannsóknarhlutverk Kennaraháskóla Íslands á tímabilinu 1971–1978 og varpað ljósi á sögulegt og menntapólitískt samhengi þeirra breytinga.

30.12.2005
Eygló Björnsdóttir
Hollur er heimafenginn baggi: Um grenndarkennslu og umhverfistúlkun sem leiðir í umhverfismennt
Í greininni er rætt hvernig nýta má skólanámskrá og samþættingu námsgreina til að gera umhverfismennt og heimabyggðarfræðslu að þungamiðju skólastarfs. Sagt er frá aðferðum grenndarkennslu og umhverfistúlkunar og kynntur grenndarkennslunámsvefurinn Á heimaslóð.

30.12.2005
Kristín Norðdahl
Að leika og læra í náttúrunni: Um gildi náttúrulegs umhverfis í uppeldi og menntun barna
Greinin segir frá rannsóknar- og þróunarverkefni um heimsóknir leikskólabarna í lítinn skógarreit. Byggt er á vettvangsathugunum höfundar, viðtölum og spurningalistum. Niðurstöður sýna að skógarferðirnar virtust hafa jákvæð áhrif á heilbrigði, sjálfsmynd, áhuga, nám, sköpunargleði, hugmyndaflug og samskipti.

15.12.2005
Þorsteinn Helgason
Saga mín og heimsins: Kennsluverkefni á persónulegum einsögunótum
Greinin lýsir þeirri sögukennsluaðferð að láta nemendur glíma við sagnfræðileg viðfangsefni á persónulegum einsögunótum. Höfundur miðlar af reynslu, skoðar aðferðina í sögulegu ljósi, rekur dæmi um einsöguverkefni og reifar hugmyndir um gildi einsögu og nálgunar af þessum toga.

22.11.2005
Kristín Norðdahl og Svala Jónsdóttir
Notkun upplýsinga- og samskiptatækni í sex leikskólum
Hér er lýst rannsókn í sex leikskólum sem leitað hafa leiða til að nýta upplýsinga- og samskiptatækni á markvissan hátt hver eftir sínum áherslum. Einn einbeitti sér að menntun starfsfólks á þessu sviði, annar að þróun vefsvæðis og aðrir að starfi með börnum. Rannsóknin leiðir í ljós mörg dæmi um ný tækifæri fyrir nemendur og starfsfólk í leik og starfi.

3.6.2005
Sif Einarsdóttir
Lögfræðingur, læknir eða prestur? Flokkun íslenskra starfslýsinga samkvæmt kenningu Hollands um starfsáhuga
Greint er frá rannsókn sem sýnir að kenningu Hollands má beita við flokkun íslenskra starfa á áreiðanlegan og réttmætan hátt. Flokkun þessi er fyrsti vísir að skipulögðum rafrænum upplýsingagrunni um störf sem gagnast getur fólki í leit að námi og störfum sem hæfa áhugasviðum þeirra.

4.3.2005
Kristín Á. Ólafsdóttir
Fræ í grýtta jörð eða framtíðarblómstur: Um þróun og framtíðarhorfur leikrænnar tjáningar í íslenskum grunnskólum
Viðfangsefni þessarar greinar er þróun leikrænnar tjáningar í íslenskum grunnskólum. Dregin eru saman brot úr 35 ára sögu greinarinnar hér á landi og sett í samhengi við skólaþróun og erlend áhrif. Lagt er mat á stöðu greinarinnar og bent á teikn um bjarta framtíð.

30.12.2004
Þuríður Jóhannsdóttir og Kristín Guðmundsdóttir
Væntingar og veruleiki: Notkun upplýsinga- og samskiptatækni í námi og kennslu í nokkrum grunnskólum á Íslandi haustið 2003
Hér er gerð grein fyrir rannsókn byggðri á heimsóknum í grunnskóla haustið 2003. Kennaranemar í fjarnámi gerðu vettvangsathuganir í kennslustundum þar sem verið var að nota upplýsinga- og samskiptatækni og tóku viðtöl við kennara um nýtingu hennar. Á grundvelli þeirra gagna er leitast við að meta hvort hægt sé að tala um að notkun tölvutækni hafi í för með sér breytta kennsluhætti.

27.12.2004
Sólveig Jakobsdóttir
Distributed Research in Distributed Education: How to Combine Research & Teaching Online
This article focuses on why and how one can do “distributed research” in teacher education. Two studies using a “distributed research” model are described. Methods and organization in studies of this kind are presented as well as potential problems and practical benefits for students, teachers and researchers.

10.12.2004
Samuel C. Lefever
ICT in teacher education: What an e-learning environment has to offer
This study looks at an e-learning environment for distance education courses in an English language teaching program at Iceland University of Education. The findings focused on how ICT provided learners with increased opportunities for effective communication, cooperative learning and learner autonomy.

17.11.2004
Rúnar Sigþórsson
Hún er löng, leiðin til stjarnanna: Þarfir nemenda, starfsþróun og skólaþróun
Hér er rætt um skilvirka skóla og þarfir kennara í ljósi af þörfum nemenda, samspil starfsþróunar og skólaþróunar. Fjallað er um mikilvægi tilfinninga, sýnar og siðferðilegrar skuldbindingar kennara og sagt frá reynslu af skólaþróunarlíkaninu AGN.

1.11.2004
Börkur Hansen, Ólafur H. Jóhannsson og Steinunn Helga Lárusdóttir
Yfirfærsla grunnskólans til sveitarfélaga: Valddreifing eða miðstýring?
Í greininni segir frá rannsókn höfunda á viðhorfum kennara, foreldra, millistjórnenda og skólastjórnenda til áhrifa af flutningi grunnskóla til sveitarfélaga. Viðhorfin eru jákvæð en í fjölmennum sveitarfélögum töldu kennarar afskipti fræðsluyfirvalda of mikil og hlutdeild kennara í stefnumótun of lítil. Þá þykja skólastjórar hafa minni tíma en áður til að sinna faglegu forystuhlutverki.

15.10.2004
Gerður Guðmundsdóttir
Það er eftir að byggja brú: Af viðhorfum enskukennara til tölvu- og upplýsingatækni
Hér segir frá rannsókn á viðhorfum þriggja enskukennara í framhaldsskóla til tölvu- og upplýsingatækni og reynslu þeirra af notkun tækninnar í kennslu. Athugunin varpar ljósi á mikilvægi þess að tillit sé tekið til sjónarmiða kennara þegar tölvutækni er innleidd í skólastarf.

12.6.2004
Anna Magnea Hreinsdóttir
Tóti var einn í tölvulandi, á tölvuspilið var snjall: Athugun á tölvunotkun leikskólabarna
Í greininni segir frá rannsókn höfundar á tölvunotkun í leikskólastarfi. Leitað var svara við þeim spurningum hvernig tölvunotkun barna væri háttað í leikskólum, hvernig hún félli að hugmyndafræði leikskóla og hvernig starfsfólk væri í stakk búið til að innleiða þessa nýjung í skólastarfið.

15.5.2004
Börkur Hansen
Heimastjórnun: Áhersla í stefnumörkun um grunnskóla
Hugtakið heimastjórnun er almennt ekki notað í umfjöllun um skólamál á Íslandi en hugtakið vísar til þess að vald og ákvarðanir séu færð nær þeim vettvangi þar sem verk eru unnin, þ.e. til stofnana eins og skóla. Í greininni er fjallað um mismunandi útfærslur á heimastjórnun í Bandaríkjunum og skoðað hvernig þær birtast í stefnumarkandi gögnum hér á landi.

17.3.2004
Kristín Bjarnadóttir
Algorismus: Fornt stærðfræðirit í íslenskum handritum
Greinin er um fornan texta, Algorismus, í nokkrum íslenskum handritum en hann fjallar um indóarabíska talnaritun og er þýðing á latnesku ljóði frá um 1200 eftir franskan höfund. Í greininni er farið yfir reikniaðferðir í þessu forna íslenska stærðfræðiriti, raktar rannsóknir á uppruna textans og sett fram tilgáta um að ritið hafi verið þýtt og skráð í Viðey á 13. öld.

29.12.2003
Rúnar Sigþórsson
„… það eru alltaf leiðir”: Tilraun til fjarkennslu með fjarfundabúnaði milli Grunnskólans á Hólmavík og Broddanesskóla í Kollafirði veturinn 1999–2000
Hér segir frá tilraun til fjarkennslu milli tveggja fámennra skóla. Meginmarkmiðið var að kanna hvort fjarkennsla með fjarfundabúnaði væri fær leið til að styrkja starf í fámennum grunnskólum með því að auka námsframboð, styrkja félagslega stöðu nemenda og bæta starfsaðstæður kennara.

15.8.2003
Jóhanna Einarsdóttir
Þegar bjallan hringir þá eigum við að fara inn: Viðhorf leikskólabarna til leik- og grunnskóla
Greinin segir frá rannsókn á viðhorfum leikskólabarna til leikskóla og grunnskólans sem bíður þeirra. Byggt er á hópviðtölum við börnin þar sem börnin gera skýran greinarmun á starfsemi skóla á þessum tveimur skólastigum.

9.1.2002
Sigríður Pálmadóttir
Barnagælur og þulur
Greinin lýsir rannsókn á barnagælum og þulum í flutningi Ásu Ketilsdóttur kvæðakonu. Rannsóknin beinist að tónlistinni, einkennum sönglaga og flutningi. Lög eru greind og skráð og kannað hvort finna megi sömu laggerðir í hljóðritum eða á nótum. Greininni fylgja nótur og fjöldi tóndæma.