20.8.2014
Laufey Axelsdóttir og Gyða Margrét Pétursdóttir
Kynjaðar væntingar til kvenna og karla í tveimur leikskólum

Rannsóknin sem hér er greint frá fjallar um konur og karla sem starfa við uppeldi og kennslu í tveimur leikskólum á Íslandi. Lögð er áhersla á að skoða hvernig hugmyndir um karlmennsku og kvenleika hafa áhrif á vinnubrögð þeirra og viðhorf og væntingar sem þau mæta í starfi. Byggt er á hugtökum Connell (1987), ríkjandi karlmennska og styðjandi kvenleiki. Eigindlegum rannsóknaraðferðum var beitt en gagnasöfnun með hálfstöðluðum einstaklingsviðtölum og þátttökuathugunum hófst í september 2011 og stóð fram í apríl 2012. Tekin voru viðtöl við átta konur og tvo karla sem starfa í tveimur leikskólum og gerðar tvær þátttökuathuganir, ein í hvorum leikskóla. Niðurstöður benda til þess að viðhorf til starfsmanna og verkaskipting í leikskólunum tveimur séu kynjuð og endurspegli hefðbundnar hugmyndir um hlutverk kynjanna.