17.11.2015
Heimir Pálsson
Hugsað um Litlu Skáldu: Kennslubækur og kennsla á miðöldum
Miðaldahandritin AM 748 I b 4to og AM 757 a 4to hafa að geyma hluta Skáldskaparmála úr Snorra-Eddu auk annars efnis um skáldskaparlist. Í þessum handritum er meðal annars um að ræða sjálfstæða gerð kenningatals úr Skáldskaparmálum og hefur þetta efni stundum verið nefnt Litla Skálda. Hér er bent á að líklegast sé þarna á ferðinni sjálfstætt námsefni handa verðandi skáldum og byggi textinn líklega á heimildum sem þess vegna gætu verið kennsluefni frá tólftu öld. Um er að ræða vísnalaust kenningatal, sem líklega hefur átt að lærast eins og það kom fyrir. Greinarhöfundur hefur að markmiði að leggja kennurum upp í hendur efni til að kynna nemendum forna kennslubók og vekja þannig umræður um kennsluhætti. Margir þeir orðaleikir og þær myndir sem á kreiki eru í fornum kenningum eru vænleg til að vekja áhuga nemenda, sem sjálfir hafa nautn af margs konar málþrautum.