Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun

Menntavísindasvið Háskóla Íslands
 

Grein birt 31. desember 2010

Greinar 2010

Fríða Björnsdóttir, Guðrún Þórðardóttir og Guðbjörg Daníelsdóttir

Lagt í vörðuna

Geðræktarverkefni fyrir miðstig grunnskóla

Lagt í vörðuna er þróunarverkefni í geðrækt. Helstu markmið verkefnisins eru að auka vellíðan nemenda, efla og styrkja sjálfsmynd þeirra, gera þá meðvitaðri um andlega líðan og kenna þeim leiðir til að draga úr vanlíðan. Megindleg og eigindleg rannsókn var gerð til að kanna hvort þróunarverkefnið hefði skilað nemendum aukinni vellíðan og bættum skilningi á eigin líðan. Einnig var kannað hvort nemendur hefðu notfært sér svokallaðan geðræktarkassa sem leið til að draga úr vanlíðan. Þrenns konar spurningalistar voru lagðir fyrir þátttakendur, viðhorfskönnun, strax eftir að verkefni lauk og nemendakönnun og foreldrakönnun, tveimur og ellefu mánuðum eftir að verkefni lauk. Einnig voru tveir rýnihópar með samtals tólf nemendum kallaðir saman. Svarhlutfall í viðhorfskönnun var 100%. Svarhlutfall í nemenda- og foreldrakönnun var 87,3% í úrtaki 55 nemenda og 55 foreldra þeirra.

Samkvæmt niðurstöðum svöruðu 65% nemenda að vellíðan þeirra hefði aukist eftir þátttöku. Tveir af hverjum þremur nemendum svöruðu því til að þeir skildu betur hvernig þeim leið og í 67% tilvika þekktu nemendur leiðir út úr vanlíðan. Nemendur töldu almennt að verkefnið hefði skilað þeim meiri þekkingu á geðrækt. Niðurstöður rannsóknarinnar gáfu einnig til kynna að viðhorf foreldra til verkefnisins væru í 98% tilfella jákvæð og 94% foreldra fannst verkefnið áhugavert.

Fríða Björnsdóttir er skólahjúkrunarfræðingur, Guðrún Þórðardóttir grunnskólakennari og Guðbjörg Daníelsdóttir sálfræðingur hjá Geðhjálp.

Adding to the cairn: A middle grade development project
in promoting mental health

Adding to the cairn is a development project in promoting mental health. The goal of the project is to increase student’s well-being, enhance and strengthen their self image, make them more aware of their own mental health and to teach them methods to deal with misery.

Quantitative and qualitative research was used to evaluate the outcome of the development project. The research was intended to study whether the developmental project had resulted in student’s better understanding of their well being. Also to study if they had utilized the mental aid box or the ten commandments of mental health. Three kinds of questionnaires were used for participants, a survey on attitudes was administered right after the project. A questionnaire for students and their parents were administered two and eleven months after the project. Two focus groups were assembled with twelve students. All of the students answered the attitude survey. Answers were collected from 48 participants out of a sample of 55 students and parents.

According to results 65% of students answered that their well being had increased after participation. Two thirds of students answered that they understood better how they felt and in 67% of the cases students had better knowledge of methods to deal with misery. Students thought the project had improved their understanding of mental health promotion. Results from the research indicated that 98% of parents had a positive disposition towards the project and 94% of parents thought the project intriguing.

Fræðilegur bakgrunnur

Lagt í vörðuna – Engin heilsa án geðheilsu, allir hafa geðheilsu, er þróunarverkefni í geðrækt, byggt á geðorðunum 10 og geðræktarkassa, unnið í lífsleikni í 6. bekk grunnskóla. Þróunarverkefnið er hugsað sem samvinnuverkefni grunnskólakennara og skólahjúkrunarfræðinga.

Almenn markmið með forvörnum ættu að miða að því að börn og unglingar vaxi upp sem andlega heilbrigðir einstaklingar (Kristján Már Magnússon, 2004). Mikilvægt er að forvarnir meðal ungmenna, sem eru að mótast andlega og líkamlega, séu unnar á þverfaglegan hátt af fagfólki sem starfar með börnum og unglingum (Kristján Már Magnússon, 2004). Með það í huga var lagt upp með samstarf grunnskólakennara og skólahjúkrunarfræðings í þróunarverkefninu.

Helstu markmið verkefnisins eru að auka vellíðan nemenda, efla og styrkja sjálfsmynd þeirra, gera þá meðvitaðri um andlega líðan og kenna þeim leiðir til að bregðast við vanlíðan. Til að stuðla að vellíðan nemenda á sem flestum sviðum, líkamlegum, félagslegum og ekki síst andlegum, er kjörið að efla og auka samstarf umsjónarkennara og skólahjúkrunarfræðings. Kennari hefur kennslufræðilega og heildræna nálgun á verkefnið og skipulag þess. Fræðileg nálgun hjúkrunarfræðings er aftur á móti heilbrigðismiðuð, en saman áorka þessir fagaðilar meiru. Því er mikilvægt að þeir vinni náið saman að sameiginlegum markmiðum við að stuðla að vellíðan og auka námsárangur nemenda.

Samkvæmt Landlæknisembættinu er geðheilsa skilgreind sem hugsanir einstaklingsins, tilfinningar og athafnir. Geðheilsan stýrir því einnig hvernig einstaklingurinn bregst við streitu, tengist öðrum og velur leiðir í lífinu. Geðheilsan, eins og líkamlega heilsan er mikilvæg á öllum æviskeiðum, allt frá bernsku og unglingsárum fram á fullorðinsár. Áhyggjur, kvíði, leiði og streita leita á alla einhvern tímann í lífinu en það líður oftast fljótt hjá. Ef um geðsjúkdóm er að ræða vilja þessar tilfinningar ekki víkja og eru svo áleitnar að þær trufla daglegt líf (Landlæknisembættið, e.d.).

Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) þjást allt að 20% barna og unglinga, víðs vegar um heim, af geðrænum vandamálum (WHO, 2005). Í skýrslu Kristjáns Más Magnússonar (2004) er áætlað að um það bil 80–85% barna hér á landi séu í góðu andlegu ástandi og þurfi ekki sérstaka aðstoð vegna geðheilsu sinnar. Um 12–15% barna hafi vægar geðraskanir og þurfi aðstoð, en einungis 2–5% barna eigi við alvarlegar hegðunar- og geðraskanir að stríða.

Depurð virðist vera vaxandi hjá íslenskum börnum. Samkvæmt rannsókninni Ungt fólk 2007 sýnir samanburður við niðurstöður frá árinu 2005 að hlutfallsleg aukning milli ára er á fjölda stelpna í 5., 6. og 7. bekk sem eru daprar eða niðurdregnar (Margrét Lilja Guðmundsdóttir, Álfgeir Logi Kristjánsson, Inga Dóra Sigfúsdóttir og Jón Sigfússon, 2007). Mikilvægt er að forvarnarstarf byggist á því að halda þeim hópi barna og unglinga, sem hefur enga þjónustuþörf, sem fjölmennustum og heilbrigðustum (Kristján Már Magnússon, 2004). Með þróunarverkefninu Lagt í vörðuna er verið að höfða til barna í góðu andlegu ástandi og þeirra sem glíma við vægar geðraskanir. Þau börn sem glíma við alvarlegar hegðunar- og geðraskanir þurfa sértæka aðstoð.

Þegar geðraskanir eiga í hlut sýna rannsóknir meðal annars að líkamleg einkenni (erfðafræðileg, taugafræðileg o.s.frv.) eru ekki eini áhættuþátturinn, heldur skiptir umhverfið sem einstaklingurinn elst upp í miklu máli fyrir þróun einkenna. Margar tegundir geðraskana eiga sér forstig eða upphaf í barnæsku. Rannsóknir sýna að því fyrr sem gripið er inn í, þeim mun meiri árangurs er að vænta (Kristján Már Magnússon, 2004). Sýnt hefur verið fram á að snemmbær íhlutun og forvarnir hjá börnum og unglingum, sem voru í áhættu með að þróa með sér truflun á andlegri líðan, virka vel. Forvarnir ættu því að miða að því að styrkja, þjálfa og kenna börnum, sem glíma við margvíslegan minniháttar vanda, þá færni sem nægir til að koma þeim úr áhættu eða hindra að einkenni versni. Árangursríkar leiðir í forvörnum eru að kenna börnum og unglingum að leysa vandamál sín, temja sér sjálfsaga og auka hæfni og færni þeirra til að sjá um sig sjálf; ásamt því að auka sjálfstraust þeirra (Hall og Torres, 2002; Kristján Már Magnússon, 2004).

Markmið þróunarverkefnisins Lagt í vörðuna er að auka andlega vellíðan (e. well-being) nemenda. Það að vera að eðlisfari vongóður, bjartsýnn og hafa tök á væntingum sínum til lífsins hefur áhrif á vellíðan einstaklingsins. Það er ekki bara hvernig einstaklingurinn er, heldur hvernig hann hugsar, sem hefur áhrif á vellíðan hans (Diener, Lucas og Oishi, 2005). Mælingar á andlegum sjúkdómseinkennum tengjast meðal annars huglægu mati einstaklingsins á vellíðan. Andleg heilsa og andleg vanheilsa eru ekki andstæður í heilsuferli hvers einstaklings, heldur er heilsa samfellt viðvarandi ástand. Andleg heilsa snýst ekki eingöngu um það að vera laus við andleg veikindi, né heldur að líða mjög vel. Andleg heilsa er skilgreind sem „alheilt“ viðvarandi ástand einstaklings sem byggist á því að vera laus við andlega sjúkdóma og hafa hátt stig vellíðunar (Keyes og Lopez, 2005). Til að skilja vellíðan er mikilvægt að gera sér grein fyrir persónulegum styrkleikum og kostum einstaklingsins. Þegar vellíðan tengist þeim verður lífið innihaldsríkara. Tilfinningar eru ástand eða augnabliksupplifun sem þurfa ekki að endurspegla persónuleikann því þær eru annað hvort neikvæðar eða jákvæðar og geta komið fram á mismunandi tímum og við ákveðnar aðstæður. Þau jákvæðu persónueinkenni sem laða fram góðar tilfinningar og vellíðan eru styrkleikar og kostir einstaklingsins (Seligman, 2002).

Lífsleiknikennsla í skólum í formi íhlutana getur hjálpað börnum að vernda og efla eigin heilsu og vellíðan (Weisen og Orley, 1996). Íhlutanir sem auka vellíðan eru mikilvægar ekki einungis vegna þess „að það er gott að líða vel“ heldur geta þær einnig stuðlað að því að gera einstaklinga hamingjusamari og virkari í lífinu, ásamt því að gefa þeim meiri starfsgleði og eftirsóknarverðari lífsviðhorf (Diener, Lucas og Oishi, 2005). Það getur því skipt sköpum að hefja forvarnir strax í bernsku. Eins og fram hefur komið er mikilvægt að forvarnir meðal ungmenna sem eru að mótast andlega og líkamlega séu unnar á þverfaglegan hátt af fagfólki sem starfar með börnum og unglingum (Kristján Már Magnússon, 2004). Með það í huga var lagt upp með samstarf grunnskólakennara og skólahjúkrunarfræðings í þróunarverkefninu Lagt í vörðuna.

Lífsleikni fékk fastan sess í skólakerfinu hér á landi með tilkomu grunnskólalaganna 1999 og upp úr því hófst markvissari kennsla en áður í ýmsum mannlegum færniþáttum (Lög um grunnskóla, 2008). Í íslensku skólakerfi er boðið upp á nokkur forvarnarverkefni á sviði geðræktar sem miða að því að kenna börnum um samskipti og tilfinningar. Þau helstu eru Stig af stigi, Að ná tökum á tilverunni, Vinir Zippýs og Geðrækt (Vinur í vanda? Ha, ég?). Kennsluefnið Að ná tökum á tilverunni er þrískipt og ætlað 6–15 ára nemendum. Stig af stigi og Vinir Zippýs er kennt ungum börnum, allt frá fjögra ára aldri til tíu ára aldurs. Verkefnið Lagt í vörðuna er þróað fyrir ellefu ára nemendur þar sem geðræktarverkefni fyrir þann aldurshóp hafa verið af skornum skammti hér á landi.

Áhrifamáttur verkefna innan skólakerfisins getur verið mikill og stuðlað að bættri líðan nemenda síðar á ævinni. Þar af leiðandi eru skólarnir mikilvægur liður í geðheilbrigðisþjónustu nemenda. Nýta þarf áhrifamátt verkefna innan skólakerfisins, sem hafa forvarnargildi, til þess að fækka andlegum vandamálum eða hefja meðferðir vegna þeirra (Lear, Isaacs og Knickman, 2006).

Þróunarverkefnið Lagt í vörðuna

Þróunarverkefnið Lagt í vörðuna byggist á verkefninu Geðrækt (Lýðheilsustöð, 2008) þar sem unnið er út frá geðorðunum 10 og geðræktarkassa. Geðorðin 10 (sjá dæmi um kynningarefni frá Lýðheilsustöð) eru tíu setningar sem minna á hvað við getum sjálf gert daglega til að efla og bæta geðheilsuna. Þau eru byggð á lýsingum á eiginleikum sem taldir eru einkenna farsælt fólk eða fólk sem gengur vel í lífinu og líður vel. Þeir sem tileinka sér að lifa í samræmi við boðskap geðorðanna eru líklegri til að búa við hamingju og velferð í lífi sínu (Elín Ebba Ásmundsdóttir, 2005a).

Geðræktarkassinn (sjá dæmi um kynningarefni frá Lýðheilsustöð) er hugsaður sem leið út úr vanlíðan í átt að betri líðan. Hann hefur að geyma notalega hluti sem vekja góðar tilfinningar og minningar. Geðræktarkassanum er ætlað að bæta andlega heilsu einstaklinga (Elín Ebba Ásmundsdóttir, 2005b; Guðrún Guðmundsdóttir, 2006).

Þróunarverkefnið Lagt í vörðuna miðar að því að efla geðheilsu nemenda og hjálpa þeim að skilja mikilvægi góðrar geðheilsu. Tilgangurinn er meðal annars að gera nemendur meðvitaða um mismunandi tilfinningar og kenna þeim leiðir til að auka vellíðan. Hugmyndin á bak við þróunarverkefnið er að kynna nemendum jákvæðar nálganir sem þeir geta nýtt sér þegar á þarf að halda. Það er ekki nóg að kenna þeim að losna við neikvæðar hugsanir og neikvætt ástand, heldur þarf að kenna þeim jákvæðar hugsanir og jákvæðar leiðir út úr vanlíðan. Norman Bradburn (í Diener, Lucas og Oishi, 2005) sýndi fram á árið 1969; að við það að losna við neikvæðar hugsanir, vakni jákvæðar hugsanir ekki sjálfkrafa, jákvæðni og neikvæðni eru andstæður en tengjast ekki innbyrðis. Það að gera nemendur meðvitaða um mismunandi tilfinningar og kenna þeim að bregðast við þeim til að auka vellíðan og draga úr vanlíðan samræmist áfangamarkmiði aðalnámskrár í lífsleikni við lok 7. bekkjar í sjálfsþekkingu og samskiptum (Menntamálaráðuneytið, 1999).

Markmið

Markmið þróunarverkefnisins Lagt í vörðuna eru að:

  • auka vellíðan (e. well-being) nemenda

  • gera nemendur meðvitaðri um andlega líðan sína og annarra

  • nemendur tileinki sér leið til að draga úr vanlíðan (t.d. að nýta geðræktarkassann)

  • nemendur hafi stjórn á eigin geði/líðan, eins og mögulegt er

  • nemendur læri að það er eðlilegt að líða illa tímabundið

  • nemendur geri sér grein fyrir mismunandi tilfinningum

  • efla og styrkja sjálfsmynd nemenda.

Framkvæmd

Þróunarverkefnið var unnið á tíu vikum, eina til tvær kennslustundir á viku. Fjöldi kennslustunda fór eftir umfangi og viðfangsefni hverju sinni. Geðorðin 10 voru notuð sem grunnur að geðorðabók sem nemendur unnu sjálfir í tímum. Í upphafi hvers tíma var nýtt geðorð kynnt og fjallað um áhugaverðar frásagnir út frá því þar sem inntak þess var aðalatriðið. Nemendur voru fræddir um þýðingu andlegrar heilsu og mikilvægi hennar út frá geðorðunum. Opnað var fyrir umræður um geðorðin og tillögur nemenda skrifaðar upp á töflu. Þannig fengu nemendur tengingu við viðfangsefnið út frá eigin reynslu. Síðan skrifuðu nemendur hvert geðorð fyrir sig á litríkan pappír, orð og setningar um geðorðin og skreyttu það að lokum. Hvert geðorðablað fékk sinn lit, svo úr varð litrík „harmonikubók“. Bókin var sett saman í síðasta tíma og átti að fara í geðræktarkassann við lok verkefnisins. Nemendur útbjuggu geðræktarkassa fyrir persónulega hluti og muni. Honum var ætlað að; bæta hugarástand, hlúa að þegar þörf er á, vera athvarf í vanlíðan, stuðla að jákvæðum hugsunum og kalla fram góðar hugsanir eða tilfinningar. Í kassanum gætu verið hlutir svo sem; uppáhaldsljóð, uppáhaldstónlist eða slakandi tónlist, ilmur eða lykt, persónuleg bréf eða sögur, myndir af nákomnum ættingjum, vinum og stöðum, sem vekja góðar minningar, ásamt dagbók og penna eða blýanti til að skrifa með jákvæðar hugsanir.

Kennslustundirnar voru brotnar upp með leikjum, sem tengdust geðorði dagsins, með það að markmiði að boðskapurinn kæmist betur til skila og að gera kennslustundirnar meira lifandi og spennandi. Með þessu móti varð hver nemandi virkari þátttakandi í verkefninu.

Í fyrsta tíma verkefnisins var nemendum lesin saga um móður sem varð að láta börn sín frá sér. Í henni kemur upprunalegur tilgangur geðræktarkassans fram. Móðirin útbjó kassa handa hverju barni sem innihélt hluti sem höfðu mikið persónulegt gildi. Börnin áttu að nota kassana ef þeim liði illa til að kalla fram fallegar minningar. Í tímanum var einnig farið yfir hvernig unnið yrði með geðorðin 10 næstu vikurnar. Nemendum var sýndur tilbúinn geðræktarkassi og fóru fram umræður um tilgang hans. Þeir voru hvattir til að lesa geðorðin 10 og hugsa um þýðingu hvers og eins þeirra. Heimavinna nemenda var að finna kassa og skreytiefni fyrir þeirra eigin geðræktarkassa sem þeir áttu að koma með í næsta lífsleiknitíma.

Í öðrum tíma var verkleg vinna þar sem nemendur útbjuggu eigin geðræktarkassa og skreyttu að vild. Lögð var áhersla á að hver nemandi hefði kassann sinn persónulegan sem hann gæti síðar sett persónulega hluti í. Uppálagt var að í kassanum væri penni eða blýantur og dagbók svo nemendur gætu skrifað hugsanir sínar og tilfinningar. Heimavinnan var að hugsa um fyrsta geðorðið og ræða það heima með foreldrum. Næstu tímar voru byggðir upp á svipaðan hátt og geðorðin kynnt eitt af öðru.

Í þriðja tíma var fyrsta geðorðið Hugsaðu jákvætt, það er léttara, kynnt með umræðum, hugflæði nemenda og verklegri vinnu með geðorðabókina. Heimavinnan var að hugsa um annað geðorðið.

Í fjórða tíma var svipað fyrirkomulag og í þriðja tíma, þar sem annað geðorðið, Hlúðu að því sem þér þykir vænt um, var til umræðu auk verklegrar vinnu með geðorðabókina. Í tímanum gróðursettu nemendur lítið fræ sem þeir áttu að sjá um að vökva og hlúa að og fylgjast með því vaxa og dafna. Heimavinnan var að hugsa um þriðja geðorðið.

Í fimmta tíma var unnið með þriðja geðorðið, Haltu áfram að læra svo lengi sem þú lifir, með kennslu, umræðu og hugflæði nemenda auk verklegrar vinnu með geðorðabókina. Farið var í leik sem krafðist samvinnu og einbeitingar. Heimavinnan var að hugsa um fjórða og fimmta geðorðið.

Í sjötta tíma var unnið með fjórða geðorðið, Lærðu af mistökum þínum, með kynningu, umræðu og hugflæði nemenda auk verklegrar vinnu með geðorðabókina. Á sama hátt var unnið með fimmta geðorðið, Hreyfðu þig daglega, það léttir lundina. Farið var í tvo hreyfileiki í lok tímans. Heimavinnan var að hugsa um sjötta geðorðið.

Í sjöunda tíma var unnið með sjötta geðorðið, Flæktu ekki líf þitt að óþörfu, með kynningu, umræðu og hugflæði nemenda auk verklegrar vinnu með geðorðabókina. Farið var í flækjuleik. Heimavinnan var að hugsa um sjöunda og áttunda geðorðið.

Í áttunda tíma var unnið með sjöunda geðorðið, Reyndu að skilja og hvetja aðra í kringum þig, með kynningu, umræðu og hugflæði nemenda auk verklegrar vinnu með geðorðabókina. Farið var í pappadiskaleik þar sem nemendur áttu að skrifa jákvæð skilaboð til hvers annars. Einnig var farið í áttunda geðorðið, Gefstu ekki upp, velgengni í lífinu er langhlaup. Byggt var á stuttum kynningum kennara, umræðu og hugflæði nemenda auk verklegrar vinnu með geðorðabókina. Farið var í klappleik sem krafðist samvinnu og athygli til að ná settu marki. Heimavinnan var að hugsa um níunda og tíunda geðorðið og að hrósa einhverjum heima af innileika.

Í níunda tíma var unnið með níunda geðorðið, Finndu og ræktaðu hæfileika þína, með innlögn, umræðu og hugflæði nemenda auk verklegrar vinnu með geðorðabókina. Í tímanum áttu nemendur að skrifa hæfileika sína í dagbókina sem var í geðræktarkassanum. Einnig var farið í tíunda geðorðið, Settu þér markmið og láttu drauma þína rætast. Kennari rifjaði upp efnið sem nemendur síðan ræddu. Þessu fylgdi hugflæði nemenda og verkefni tengd geðorðabókinni, m.a. var farið í athyglisleik. Í lok tímans var gefinn stuttur tími til ljóðagerðar þar sem nemendum var skipt í fjögra til sex manna hópa. Hver hópur átti að velja tvö geðorð og fékk um það bil tíu mínútur til að semja ljóð með hliðsjón af þeim. Hóparnir fluttu að lokum ljóðin sín. Heimavinnan var að koma með hluti að heiman í geðræktarkassann.

Í tíunda tíma var verkleg vinna með geðorðabókina og hún sett saman. Geðræktarkassinn var fullgerður og fleiri hlutir settir í hann. Í lok tímans var viðhorfskönnun lögð fyrir nemendur og lokapunktur settur á verkefnið.

Verkefnið var framkvæmt í tveimur 6. bekkjum, annars vegar vorið 2007 og hins vegar haustið 2007.

Aðferð

Þróunarverkefnið Lagt í vörðuna var metið með eigindlegri og megindlegri rannsókn. Rannsókninni var auk þess að meta þróunarverkefnið ætlað að gefa rannsakendum innsýn í viðhorf nemenda og foreldra til verkefnisins og hvort nemendur hefðu tileinkað sér þær leiðir sem kenndar voru til að auka vellíðan og draga úr vanlíðan. Leitast var við að svara rannsóknarspurningunni: Er hægt að bæta líðan nemenda með þróunarverkefni af þessu tagi?

Þátttakendur

Úrtak rannsóknarinnar var 55 nemendur sem höfðu lokið þátttöku í þróunarverkefninu þegar þeir voru í sjötta bekk í grunnskóla og foreldrar þeirra. Tveir spurningalistar voru lagðir fyrir nemendur og einn fyrir foreldra. Fyrri spurningalistinn fyrir nemendur var viðhorfskönnun, allir þátttakendur svöruðu (svarhlutfall 100%). Seinni spurninglistanum, þ.e. nemendakönnun, svöruðu 48 nemendur (svarhlutfall 87%). Í foreldrakönnun tóku þátt 48 foreldrar (svarhlutfall 87%). Í úrtaki rýnihópa voru tólf nemendur af 55, átta stúlkur og fjórir drengir.

Mælitæki

Með fyrri spurningalistanum til nemenda var leitast við að fá sýn þeirra á verkefnið og upplifun af því. Spurt var hvort nemendur skildu aðra betur og hvort þeir vissu hvað orðið geð þýddi, hvað þeim þætti skemmtilegast, leiðinlegast, erfiðast og auðveldast við verkefnið og hvort einhverju ætti að breyta.

Með seinni spurningalista til nemenda var viðhorf þeirra til verkefnisins skoðað aftur og kannað hvort nemendur hefðu nýtt sér geðræktarkassann og geðorðin 10. Einnig var kannað hvort nemendur þekktu leiðir út úr vanlíðan, hvort þeir upplifðu að vellíðan hefði aukist og hvort skilningur á líðan væri meiri. Að lokum var skoðað hvaða geðorð var vinsælast hjá nemendum. Í spurningalista til foreldra var viðhorf foreldra til verkefnisins skoðað.

Framkvæmd

Viðhorfskönnun var lögð fyrir nemendur í skólanum strax við lok verkefnis. Nemendakönnun og foreldrakönnun voru lagðar fyrir síðar, eða tveimur mánuðum eftir að verkefninu lauk hjá seinni hópi og ellefu mánuðum eftir lok verkefnisins hjá fyrri hópi, þ.e. í mars 2008. Einnig voru tveir rýnihópar kallaðir saman á svipuðum tíma og spurningalistarnir voru lagðir fyrir. Spurningalistar til nemenda voru lagðir fyrir á skólatíma en spurningalistar til foreldra voru sendir heim með nemendum sem skiluðu þeim aftur í skólann. Umræðuefni rýnihópa var fyrir fram ákveðið en viðtalsramminn var ekki í föstum skorðum. Spurningar voru hafðar opnar til að koma í veg fyrir stutt, eins atkvæða svör. Auk þess voru nákvæmari undirspurningar notaðar til að nálgast viðfangsefnið betur. Viðtölin tvö fóru fram 10. apríl 2008 í grunnskóla nemendanna og tóku tæplega 40 mínútur í báðum tilfellum.

Úrvinnsla gagna

Gögn úr rýnihópum og spurningalistum voru flokkuð í sex þemu. Þau eru: líðan nemenda, leiðir út úr vanlíðan, viðhorf til verkefnisins, aukin þekking á geðrækt, innihald geðræktarkassans og dagbók nemenda (ekki verður fjallað um dagbókina hér). Úrvinnsla gagna úr spurningalistum var unnin í tölfræðiforritinu SPSS 16,0 (Field, 2005).

Niðurstöður

Líðan

Samkvæmt viðhorfskönnun telja flestir nemendur sig geta talað við einhvern þegar þeim líður illa eða 78%. Aftur á móti eru fleiri drengir en stúlkur sem telja sig ekki geta talað við neinn. Nemendur telja sig geta skilið aðra betur eftir að hafa farið í gegnum þróunarverkefnið eða um 82% drengja og 93% stúlkna.

Nemendur vilja vera jákvæðir og láta sér líða vel og telja sig stundum geta haft stjórn á líðan sinni. Nemendur virðast nota mismunandi orð um vanlíðan. Dæmi um orð sem þeir nota yfir vanlíðan eru að þeir séu pirraðir, sárir og reiðir.

Mynd 1 Finnst þér að vellíðan þín hafi aukist eftir að þú tókst þátt
í þróunarverkefninu?

Í nemendakönnun kemur fram að tæplega 65% (31 nemandi) nemenda eru mjög eða frekar sammála því að vellíðan þeirra hafi aukist eftir að þeir tóku þátt í þróunarverkefninu eins og sjá má á Mynd 1. Enginn strákur svarar að hann sé mjög sammála því að vellíðan sín hafi aukist. Um 55% (11 drengir) drengja svara því aftur á móti til að þeir séu frekar sammála því að vellíðan þeirra hafi aukist eftir þátttöku í verkefninu. Þegar svör stúlkna eru skoðuð svara 72% (20 stúlkur) þeirra því til að þær séu mjög eða frekar sammála því að vellíðan þeirra hafi aukist. Enginn drengur er mjög ósammála eða frekar ósammála því að vellíðan hafi aukist eftir þátttöku, en tvær stúlkur eru frekar ósammála. Tæplega 69% (33 nemendur) nemenda telja sig skilja betur hvernig þeim líður eftir að þeir tóku þátt í þróunarverkefninu (sjá Mynd 2).

Mynd 2 Finnst þér að þú skiljir betur hvernig þér líður
eftir að þú tókst þátt í þróunarverkefninu?

Eftir þátttöku í verkefninu svara 60% (12 drengir) drengja og 75% (21 stúlka) stúlkna því til að þau skilji betur hvernig þeim líður mjög eða frekar oft. Þegar nemendur eru spurðir hvort það sé eðlilegt að líða stundum illa segjast 94% nemenda vera mjög sammála eða frekar sammála. Allir nemendur nema ein stúlka eru mjög eða frekar sammála því að eðlilegt sé að upplifa mismunandi tilfinningar eða 98%. Engum virðist finnast óeðlilegt að upplifa mismunandi tilfinningar. Nær allir nemendur eða 96% eru mjög eða frekar sammála því að það sé eðlilegt að sýna tilfinningar sínar á mismunandi hátt, af þeim eru 77% mjög sammála.

Nemendur voru spurðir að því í nemendakönnun hvaða jákvæðar og neikvæðar tilfinningar þeir þekktu. Þær jákvæðu tilfinningar sem þeir þekkja helst og flestir nefndu eru (í þessari röð): gleði, hamingja, hlátur, jákvæðni, skemmtilegheit, vellíðan og ást. Þær neikvæðu tilfinningar sem þeir þekkja helst og áberandi flestir nefna eru: reiði, því næst kemur neikvæðni (að fá nei), fúlheit, leiði, sorg, sársauki, leiðindi og pirringur.

Leiðir út úr vanlíðan

Þegar kemur að því að leita sér leiða út úr vanlíðan kemur fram í rýnihópum að nemendur noti geðorðin 10 sem eina leið í átt að bættri líðan. Geðorð 1, hugsaðu jákvætt, það er léttara, virðist vera eftirminnilegast í báðum hópum. Nemendur eru flestir sammála því að þeim finnist gott að hugsa um geðorðin þegar þeim líður illa. Nokkrir hugsa líka um þau þegar þeim líður vel. Margir nemendur nefna þetta fyrsta geðorð sem leið út úr vanlíðan og ein stúlkan talar um að sér finnist gott að hugsa um þetta ákveðna geðorð hugsaðu jákvætt, það er léttara og að horfa á björtu hliðarnar, þannig nái hún að láta sér líða betur. Margir nemendur telja að það að hugsa jákvætt sé ein auðveldasta leiðin til að viðhalda vellíðan.

Nemendur í rýnihópi segjast leita í geðræktarkassann og segja að þeim finnist að þeim líði betur eftir það. Aftur á móti nota nemendur geðræktarkassann á mjög mismunandi hátt. Sumir nota hann meira sem minningakassa og safna í hann hlutum sem þeim þykir vænt um. Aðrir leita í hann jafnt þegar þeim líður vel eða illa. Tveir nemendur segjast hafa leitað í kassann þegar þeir hafa þurft þess og eiga þá við þegar þeim leið illa. Með því að leita í kassann líði þeim aðeins betur. Sumir þeirra fara í kassann þó að þeim líði ekki illa. Þeim finnst gaman að skoða hann og sjá hvað þau voru að gera og hvað þau geyma í honum. Ein stúlkan segist líka nota kassann sinn þegar hún er glöð.

Nemendur voru spurðir hvort þeir þekktu aðrar leiðir til þess að láta sér líða betur, heldur en að leita í geðræktarkassann. Margir þeirra gerðu það. Nærvera foreldra kom sterkt fram og voru það bæði drengir og stúlkur sem töluðu um það. Það að tala við mömmu og pabba í vanlíðan segja þau að hjálpi sér. Gott dæmi um það er þegar einn drengurinn segir: „... þegar ég var pirraður, að þá fór ég bara og knúsaði mömmu“. Vinir virðast einnig hjálpa þegar vanlíðan gerir vart við sig. Það að fara út að leika og hitta vinina er ein leið út úr vanlíðan hjá sumum þeirra. Það að hugsa um eitthvað skemmtilegt með öðrum hjálpar þeim einnig. Nemendur virðast auk þess hugsa oftar um líðan vina sinna eftir þátttöku í verkefninu. Sem dæmi nefnir einn nemandinn: „Maður byrjar að pæla í því hvernig manni líður og líka öðrum. Til dæmis ef einhver vinur manns er leiður eða eitthvað eða leið ... að þá fer maður að hugsa svona hvernig henni eða honum líður ...“.

Annar drengur segir þegar hann er spurður um aðrar leiðir út úr vanlíðan: „Bara reyna að vinna úr þeim og ... líta á björtu hliðarnar“. Fleiri nemendur tala um að líta á björtu hliðarnar og tengja það jákvæðum hugsunum; hugsa um eitthvað fallegt og reyna að einbeita sér að því að vera glaður. Þeir nefna einnig lestur sem eina leiðina og einn nemandi nefnir jóga. Sumir reyna að hugsa um eitthvað annað en það sem veldur vanlíðan, sem leið út úr henni.

Mynd 3 Finnst þér að þú þekkir leiðir út úr vanlíðan
eftir að þú tókst þátt í þróunarverkefninu?

Samkvæmt spurningalista nemenda telja þeir sig í um 67% (32 nemendur) tilvika þekkja betur leiðir út úr vanlíðan eftir að hafa tekið þátt í þróunarverkefninu (sjá Mynd 3). Rúmlega 8% nemenda telja sig ekki þekkja leiðir út úr vanlíðan eftir þátttöku. Þeir nemendur sem svara hvorki né eru 25% (12 nemendur). Þær leiðir út úr vanlíðan sem nemendur nefna oftast eru: að hugsa jákvætt, að hugsa um eitthvað annað og að leita í geðræktarkassann. Það að fara út að leika sér eða hitta vini, tala við einhvern, eins og foreldra eða vini kemur þar á eftir. Einnig voru örfáir sem nefndu tónlist, tölvur, einveru og trú sem leið út úr vanlíðan.

Eins og sjá má á Mynd 4 telja nemendur sig geta breytt slæmri líðan yfir í góða líðan í tæplega 65% (31 nemandi) tilvika eftir að þeir tóku þátt í þróunarverkefninu. Rúmlega 10% (5 nemendur) nemenda eru frekar ósammála því að þeir geti breytt slæmri líðan yfir í góða líðan eftir þátttöku í verkefninu.

Mynd 4 Finnst þér að þú getir breytt slæmri líðan yfir í góða líðan
eftir að þú tókst þátt í þróunarverkefninu?

Þegar nemendur eru spurðir hvort þeir hugsi um geðorðin 10, svara tæp 40% (11 stúlkur) stúlkna því til að þær hugsi frekar oft um þau en einungis 10% (2 drengir) drengja hugsa frekar oft um þau. Tæplega 30% (14 nemendur) nemenda svara því til að þeir hugsi frekar eða mjög sjaldan um geðorðin 10. Af þessu má sjá að stúlkur eru líklegri til að hugsa oftar um geðorðin.

Aukin þekking á geðrækt

Að eigin sögn höfðu nemendur í rýnihópum ekki mikla þekkingu á geðrækt áður en verkefnið hófst og sumir þeirra vissu ekki neitt um geðorðin 10. Ein stúlkan tekur svo til orða: „Já, til dæmis, fyrir tveimur árum þegar við vorum ekki búin að læra neitt um þetta, ef það hefði verið sagt við mig geðrækt eða eitthvað ... þá hefðum við bara ekkert vitað um það ...“. Einn drengur tekur svo sterkt til orða að hann segir: „Ég hélt að það væri geðveikt fólk eða eitthvað, geðveikt eitthvað“.

Annar drengur í hópnum segist ekki hugsa mikið um geðrækt, en hann hafi ekkert hugsað um hana áður en hann tók þátt í verkefninu. Einnig segir hann að verkefnið hafi breytt hugsun hans, en kannski ekki breytt líðan. Nemendur virðast vera meðvitaðri um líðan sína og annarra eftir að hafa farið í gegnum verkefnið. Þeir segja að það hjálpi þeim líka að hugsa um eitthvað skemmtilegt eftir að hafa glímt við verkefnin. Fram kom í rýnihópum að nemendur hugsa jákvæðar eftir að þeir tóku þátt í verkefninu. Þá töldu þeir að það að vinna meira með hvert geðorð hjálpaði þeim að læra um þau.

Nemendur telja sig flestir hafa lært mikið á því að vinna verkefnið og að það hafi skilað þeim meiri þekkingu á geðorðunum 10 og geðrækt. Í viðhorfskönnuninni kemur fram að 67% nemenda telja sig vita hvað orðið geð þýði.

Viðhorf til verkefnisins

Samkvæmt rýnihópum virðast nemendur hafa mjög jákvætt viðhorf til verkefnisins. Þeir voru flestir sammála því að vinnan hefði verið skemmtileg, spennandi og fræðandi. Nemendur voru einnig ánægðir með geðorðabókina sem þeir unnu sjálfir og fannst flestum gaman að skrifa um geðorðin upp á töflu og ræða innihald þeirra. Það gaf þeim betri skilning á hverju geðorði fyrir sig. Þeim fannst flestum mjög skemmtilegt í leikjunum og töluðu um að með þeim skildu þeir geðorðin betur.

Þegar nemendur voru spurðir um það hvort vinna hefði mátt verkefnið öðruvísi kom fram að þeir voru ánægðir með það eins og það var unnið, en komu þó með góðar ábendingar. Tillaga kom fram um að hafa hluta af verkefninu utan dyra, en greinilegt var að þeim fannst gott að tengja innihald geðorðsins við eitthvað sem þeir þekktu af eigin raun. Einnig kom fram hugmynd um að hafa meiri umræður í tímunum. Í viðhorfskönnuninni kemur fram að tæplega 90% nemenda vilja halda áfram að vinna svipað verkefni, þeir sem ekki svara því til eru drengir. Þegar nemendur voru inntir eftir því hvað þeir vildu gera, var helst nefnt að gera eitthvað skemmtilegt eða tala meira saman. Flestum fannst gaman að vinna með geðorðin 10 eða 87% nemenda. Um 79% drengja þótti gaman að vinna með geðorðin og rúmlega 96% stúlkna. Einum dreng þótti vinnan leiðinleg (sjá Mynd 5).

Mynd 5 Hvernig fannst þér vinnan með geðorðin 10?

Það sem nemendum fannst skemmtilegast í verkefninu voru leikirnir og svarar fjórðungur nemenda því til. Það sem þeim þótti einnig mjög skemmtilegt var að læra um geðorðin, þ.e. þegar þau voru skrifuð upp á töflu og geðorðabókin var unnin. Þetta nefna 15% nemenda. Eftirtektarvert er að 15% nemenda nefna að „allt“ hafi verið skemmtilegt við vinnuna.

Þegar nemendur voru spurðir í viðhorfskönnuninni að því hvort þeim hafi þótt erfitt eða auðvelt að vinna með geðorðin 10, svara 82% þeirra því til að það hafi verið auðvelt, 90% stúlkna fannst auðvelt að vinna með geðorðin 10 og rúmlega 78% drengja (sjá Mynd 6). Enginn svarar því til að það hafi verið erfitt.

Mynd 6 Var erfitt eða auðvelt að vinna með geðorðin 10?

Þegar nemendur voru inntir eftir því hvað þeim hafi þótt erfiðast að vinna, svöruðu 72% því til að ekkert hafi verið erfiðast. Einstaka nemandi hafði á orði að erfitt hefði verið að skrifa mikið og vinna með fleiri en eitt geðorð í einu. Þorri nemenda tilgreinir að allt hafi verið auðvelt við vinnuna með geðorðin 10, eða um 72%. Einn nemandi nefnir þó að ekkert hafi verið auðvelt. Þegar nemendur voru spurðir í viðhorfskönnuninni hvort þeir vildu breyta einhverju við vinnu verkefnisins svara 91% nemenda því til að þeir vilji ekki breyta neinu.

Í spurningalista voru nemendur spurðir um uppáhaldsgeðorðið sitt. Flestir nefndu geðorð 10 „Settu þér markmið og láttu drauma þína rætast“ eða ellefu nemendur. Geðorð 1 „Hugsaðu jákvætt, það er léttara“ komst næst því að vera uppáhaldsgeðorð eða hjá tíu nemendum. Þriðja vinsælasta geðorðið er númer 4 „Lærðu af mistökum þínum“. Það nefna sex nemendur. Fimm nemendur eiga sér fleiri en eitt uppáhaldsgeðorð.

Innihald geðræktarkassans

Í viðhorfskönnun kemur fram að nemendum fannst í 93% tilfella gaman að útbúa geðræktarkassann og 89% telja sig eiga eftir að nota hann. Þar af telja allar stúlkur sem svara sig eiga eftir að leita í kassann, en 82% drengja telja sig eiga eftir að nota kassann. Þegar nemendur eru spurðir að því hvenær þeir myndu nota kassann telja 70% af þeim sem svara sig eiga eftir að nota kassann þegar þeim líður illa eða eru sorgmæddir; eða þegar þeir upplifa söknuð eða sækja í minningar.

Í rýnihópunum voru nemendur beðnir um að segja frá innihaldi geðræktarkassans. Í kassanum áttu allir nemendur að hafa dagbók til að skrifa í og penna eða blýant. Flestir höfðu bætt í kassana sína eftir að heim kom og hafa haldið því áfram. Margir eru með myndir og kort frá vinum og fjölskyldu sem virðast vekja góðar minningar og færa þau nær fjarstöddum ættingjum. Nokkrir nemendur geyma steina í kassanum sínum. Í þeim er einnig að finna minjagripi, verðlaunagripi, bangsa, bækur, Nýja testamentið og gjafir sem hafa tilfinningalegt gildi fyrir þá.

Samkvæmt nemendakönnun virðast tæp 40% (18 nemendur) nemenda leita í geðræktarkassann. Þar af eru 25% (5 drengir) drengir frekar eða mjög sammála en rúmlega 46% (13 stúlkur) stúlkur. 10% (2 drengir) drengja eru mjög ósammála og 35% (7 drengir) drengja eru frekar ósammála því að þeir leiti í kassann (sjá Mynd 7).

Mynd 7 Hefur þú leitað í geðræktarkassann?

Þegar nemendur eru spurðir að því hvernig þeir hafa notfært sér geðræktarkassann svara þeir á mjög mismunandi hátt. 19% (9 nemendur) nemenda leita ekkert eða lítið í kassann og telja sig lítið þurfa á honum að halda. 27% (13 nemendur) nemenda leita í kassann ef þeim líður illa eða þegar þeir eru leiðir. 23% (ellefu nemendur) nemenda notfæra sér geðræktarkassann til að sækja í góðar minningar. 4% nemenda segjast sækja í kassann þegar þeim líður vel og 4% (tveir nemendur) nemenda sækja sérstaklega í hann til að skrifa í dagbókina. 15% (sjö nemendur) nemenda kíkja í kassann og nota hann sem afþreyingu.

Foreldrar

Viðhorf foreldra til þróunarverkefnisins er mjög jákvætt, en 98% foreldra svara því til að þeir séu mjög jákvæðir eða frekar jákvæðir gagnvart því. 73% svara því til að þeir séu mjög jákvæðir. Einungis eitt foreldri svarar hvorki né, eða 2%. Allir aðrir foreldrar eru jákvæðir gagnvart verkefninu. Foreldrar drengja virðast vera jákvæðari en foreldrar stúlkna og svara 80% þeirra því til að viðhorf þeirra sé mjög jákvætt en tæplega 68% foreldra stúlkna (sjá Mynd 8).

Mynd 8 Viðhorf foreldra til þróunarverkefnisins.

Þegar foreldrar eru spurðir að því hvort börn þeirra leiti í geðræktarkassann svara 67% þeirra því til að börnin leiti mjög sjaldan eða frekar sjaldan í kassann, er það nokkuð jafnt milli kynja nemenda. Þegar nemendur eru sjálfir spurðir að því hvort þeir leiti í kassann segjast 40% þeirra gera það eins og áður hefur komið fram.

Foreldrar virðast ekki tala mikið um geðorðin við börn sín, einungis eitt foreldri svarar því til að það tali mjög oft um geðorðin við barn sitt. 21% foreldra telja sig tala frekar oft um geðorðin við barn sitt. 29% svara því til að þau tali frekar sjaldan um geðorðin við barn sitt og önnur 29% svara hvorki né. Ekki er munur á svörum foreldra drengja og stúlkna.

Þegar foreldrar voru spurðir hvort barni þeirra hafi fundist verkefnið áhugavert eru 88% frekar eða mjög sammála. Voru foreldrar stúlkna þar í meirihluta. Foreldrum sjálfum fannst verkefnið mjög áhugavert, 94% foreldra svara því til að þeir séu mjög eða frekar sammála því að svo hafi verið. Einungis þrír foreldrar svara hvorki né. Allir foreldrar drengja eða 100% eru mjög eða frekar sammála því að verkefnið sé áhugavert og tæplega 89% foreldra stúlkna eru því sammála (sjá Mynd 9).

Mynd 9 Áhugi foreldra á þróunarverkefninu.

Einungis helmingur nemenda virtist tala um verkefnið heima meðan á því stóð og voru það helst stúlkur sem ræddu verkefnið við foreldra.

Samkvæmt foreldrakönnun virtist verkefnið hafa hjálpað um helmingi nemenda að skilja tilfinningar sínar betur, en 53% foreldra svara þannig að þeir séu mjög eða frekar sammála því. Þeir sem svöruðu mjög sammála voru eingöngu foreldrar stúlkna, önnur svör skiptust nokkuð jafnt á milli kynja nemenda.

Mynd 10 Nemendur ræða tilfinningar sínar við foreldra.

Um 31% nemenda hefur rætt tilfinningar sínar meira eftir að hafa farið í gegnum geðræktarverkefnið samkvæmt foreldrakönnun. Þeir sem svara mjög sammála eru foreldrar stúlkna en meirihluti þeirra sem svara frekar sammála eru foreldrar drengja (sjá Mynd 10).

Umræða

Með þróunarverkefninu Lagt í vörðuna er leitast við að sinna sem breiðustum hópi nemenda, bæði þeim sem eru frískir og heilbrigðir og þeim sem glíma við vægar geðraskanir. Forvarnarstarfið byggist á því að þjóna þessum hópi sem best. Þeir nemendur sem glíma við alvarlegar hegðunar- og geðraskanir þurfa sértæka þjónustu, en gætu engu að síður nýtt sér verkefnin til gagns.

Í niðurstöðum kom fram að meirihluti nemenda taldi að vellíðan þeirra hefði aukist eftir þátttöku í þróunarverkefninu. Flestir sögðust skilja líðan sína og annarra betur að verkefni loknu og þeir sögðust geta gert greinarmun á því hvort þeim liði vel eða illa. Einnig töldu flestir nemendur sig geta leitað til og talað við einhvern þegar þeim leið illa. Nær allir nemendur töldu eðlilegt að upplifa mismunandi tilfinningar og voru sammála því að einstaklingar sýni þær á mismunandi hátt. Tveir af hverjum þremur nemendum töldu sig þekkja betur leiðir út úr vanlíðan. Eftirtektarvert var að 8% nemenda töldu sig ekki þekkja leiðir út úr vanlíðan.

Nemendur virðast kunna ýmsar leiðir sér til hjálpar til að takast á við vanlíðan. Hluti nemendahópsins segist hafa tileinkað sér geðorðin 10 og geðræktarkassann sem leið út úr vanlíðan. Þegar nemendur eru í góðu andlegu jafnvægi, eða líður vel, virðast þeir ekki vera að hugsa um geðorðin. Það virðist þurfa að koma upp einhver vanlíðan til þess að þeir hugsi um þau. Tveir af hverjum þremur nemendum töldu sig geta breytt slæmri líðan í góða, eftir verkefnavinnuna. Eftir stendur að 10% nemenda töldu sig ekki getað unnið sig út úr vanlíðan af sjálfsdáðum. Greinilegt var að nemendur segjast hugsa jákvæðar og líta frekar á björtu hliðarnar eftir að hafa farið í gegnum verkefnið. Auk þess virðast nemendur hugsa meira um vellíðan, á markvissan hátt. Niðurstöður sýna að þátttakendur telja sig þekkja betur leiðir til að draga úr vanlíðan og eiga auðveldara með að breyta slæmri líðan í vellíðan eftir þátttöku í verkefninu. Þekking og skilningur nemenda á geðrækt virtist hafa aukist eftir þátttöku í verkefninu. Ekki má þó vanmeta fjölbreytileika einstaklinga, en rannsóknin sýnir að eiginleikar einstaklinga til að þróa með sér sína eigin leið út úr vanlíðan eru til staðar og ber að hlúa að slíkum eiginleikum.

Nemendur töldu að þróunarverkefnið hefði einnig skilað þeim bættum skilningi á þeirra eigin líðan og annarra. Niðurstöður viðhorfskönnunar, sem gerð var strax eftir verkefnalok, sýna að tæp 90% nemenda telja sig eiga eftir að sækja í geðræktarkassann síðar. Þá kemur fram í nemendakönnun, sem lögð var fyrir nokkrum mánuðum eftir verkefnalok, að 40% þátttakenda nota geðræktarkassann. Greinilegt er að þátttakendur kunna að notfæra sér geðræktarkassann í réttum tilgangi og skilja notkunargildi hans.

Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að verkefnið hafi stuðlað að auknum skilningi þátttakenda á eigin líðan og annarra sem er mikilvægt á mótunarstigi ungra einstaklinga.

Sé tekið mið af ofangreindum viðhorfum nemenda má draga þá ályktun að hægt sé að svara rannsóknarspurningunni játandi, þ.e. að þróunarverkefnið skili nemendum bættri líðan. Aftur á móti þyrfti að gera áframhaldandi rannsóknir með samanburðarhópum til að hægt væri að draga ályktanir um beinan árangur verkefnisins. Höfundar hafa áhuga á að halda áfram að þróa verkefnið Lagt í vörðuna og leitast við að mæla árangur þess með slíkum hætti. Þar sem um nýtt þróunarverkefni er að ræða er ekki unnt að gera grein fyrir langri reynslu af því, en með rannsókninni er reynt að sýna fram á mikilvægi verkefnisins með hliðsjón af forvarnargildi þess.

Áhugaverðar niðurstöður komu frá foreldrum sem gefa aðra sýn á verkefnið en nemendur veittu. Viðhorf foreldra til verkefnisins var mjög jákvætt, sem skiptir miklu máli, þar sem þeir hafa afgerandi áhrif á þroska og viðhorf barna sinna. Allir foreldrar nema eitt svöruðu því til, þegar þeir voru spurðir um viðhorf til verkefnisins, að þeir væru annað hvort mjög jákvæðir eða frekar jákvæðir gagnvart því. Eftirtektarvert er að foreldrar drengja eru jákvæðari gagnvart verkefninu en foreldrar stúlkna. En þegar nemendur sjálfir eru spurðir er viðhorf stúlkna jákvæðara en viðhorf drengja. Áhugi foreldra á verkefninu er mjög mikill en allir nema þrír svara því til að þeir séu mjög eða frekar sammála því að verkefnið sé áhugavert. Jákvætt viðhorf og áhugi foreldra gefur tilefni til þess að velta því fyrir sér hvort hægt sé að fá foreldra til meiri þátttöku í verkefninu.

Í ljósi reynslunnar af vinnu við forvarnarverkefnið telja höfundar mikilvægt að efla og auka samstarf skólahjúkrunarfræðinga og umsjónarkennara til að stuðla að vellíðan nemenda á sem flestum sviðum, líkamlegum, félagslegum og síðast en ekki síst andlegum. Hlutverk hjúkrunarfræðings í fræðslu og forvörnum er mjög mikilvægt og hefur aukist síðustu ár. Hjúkrunarfræðingur kemur með aðra nálgun á viðfangsefni en kennari og saman áorka þessar stéttir meiru. Mikilvægt er því að þessar stéttir vinni náið saman að sameiginlegum markmiðum við að bæta líðan og auka námsárangur nemenda. Þar sem viðfangsefni þróunarverkefnisins Lagt í vörðuna fjallar um andlega líðan, getur það vakið upp tilfinningar eða vanlíðan sem annars myndi ekki koma upp á yfirborðið í skólanum. Af þeim sökum er talið nauðsynlegt að hjúkrunarfræðingur vinni að verkefninu samhliða umsjónarkennara.

Þetta samstarfsverkefni inni í grunnskóla er tilraun til að sýna fram á árangursríkt samstarf þessara tveggja stétta, þ.e. kennara og hjúkrunarfræðinga. Að auka samvinnu heilsugæslunnar og grunnskólans er í samræmi við stefnu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (World Health Organisation, 2005) sem hefur hvatt til þess að menntastofnanir noti heildstæða nálgun til að bæta andlega líðan og vellíðan nemenda almennt inni í skólum. Sömuleiðis þarf að meta þarfir einstaklingsins í upphafi íhlutunarinnar og nálgunin á viðfangsefnið þarf að vera þverfagleg. Þess konar íhlutun skilar frekari árangri og stuðlar að tilfinningalegri vellíðan einstaklingsins.

Heimildir

Diener, E., Lucas, R. og Oishi, S. (2005). Subjective well-being: The science of happiness and life satisfaction. Snyder, C. og Lopez, S. (ritstj.). Handbook of Positive Psychology (bls. 63–73). Oxford: Oxford University Press.

Elín Ebba Ásmundsdóttir. (2005a). Lýðheilsustöð. Sótt 5. desember 2007 af: http://www.lydheilsustod.is/greinar/greinasafn/gedraekt/nr/1649.

Elín Ebba Ásmundsdóttir. (2005b). Lýðheilsustöð. Sótt 5. desember 2007 af:
http://www.lydheilsustod.is/fraedsla/fraedsluefni/gedraekt/nr/1457.

Field, A. (2005). Discovering statistics using SPSS. London: Sage Publication Ltd.

Guðrún Guðmundsdóttir. (2006). Geðorðin 10 og geðræktarkassinn: Lokaskýrsla kynningarátaks. Reykjavík: Lýðheilsustöð.

Hall, A. S. og Torres, I. (2002). Partnerships in preventing adolescent stress: Increasing self-esteem, coping, and support through effective counseling. Journal of Mental Health Counseling, 24(2), 97–109.

Keyes, C. L. M. og Lopez S. J. (2005). Toward a science of mental health: Positive directions in diagnosis and interventions. Í Snyder, C. og Lopez, S. (ritstj.). Handbook of Positive Psychology (bls. 45–55). Oxford: Oxford University Press.

Kristján Már Magnússon. (2004). Samhæfing í málefnum barna og unglinga með geðraskanir. Reykjavík: Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið.

Landlæknisembættið. (e.d.). Geðheilsa. Sótt 24. mars 2008 af: http://www.landlaeknir.is/Pages/1026.

Lear, J. G., Isaacs, S. L. og Knickman, J. K. (2006). School health services and programs. San Francisco: Jossey-Bass.

Lýðheilsustöð. (2008). Geðrækt. Sótt 25. júní 2008 af: http://lydheilsustod.is/lydheilsustod/gedraekt/.

Lög um grunnskóla nr. 91/2008. Sótt 5. desember 2008 af: http://www.althingi.is/lagas/135b/2008091.html

Margrét Lilja Guðmundsdóttir, Álfgeir Logi Kristjánsson, Inga Dóra Sigfúsdóttir og Jón Sigfússon. (2007). Ungt fólk 2007: Grunnskólanemar. Reykjavík: Menntamálaráðuneytið.

Menntamálaráðuneytið. (1999). Aðalnámskrá grunnskóla. Sótt 29. april 2007 af: http://bella.stjr.is/utgafur/AGalmennurhluti.pdf

Seligman, M. E. P. (2002). Authentic happiness: Using the new positive psychology to realize your potential for lasting fulfillment. New York: Free Press.

Weisen, R. B. og Orley, J. (1996). Mental health promotion in schools. World health, 49(4), 29.

WHO. (2005). Mental Health Declaration for Europe. Facing the Challenges, building solutions. Sótt 28. april 2007 af: http://www.euro.who.int/__data/assets/pdf_file/0008/88595/E85445.pdf.

World Health Organisation. (2005). Promoting mental health. Sótt 29. april 2007 af:
http://www.who.int/mental_health/evidence/MH_Promotion_Book.pdf.


Prentútgáfa     Viðbrögð