Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun

Menntavísindasvið Háskóla Íslands
 

Grein birt 31. desember 2010

Greinar 2010

Guðmundur Sæmundsson

Er hægt að vera óhlutdrægur
í rannsóknum?

Í greininni er fjallað um hlutlægni eða óhlutdrægni þess sem rannsakar. Sérstaklega er skoðuð rannsóknarnálgun sem kallast orðræðugreining. Því er haldið fram að í orðræðugreiningu skipti meginmáli að rannsakandinn sé meðvitaður um sín eigin áhrif á umfjöllunina um rannsóknarefnið. Fram hjá slíkum áhrifum sé áreiðanlega erfitt að komast en þá sé enn nauðsynlegra að draga þessi áhrif fram þannig að lesendur geti tekið þau með í reikninginn. Rannsókn fræðimanns á sjálfum sér verði þannig hluti af rannsókn hans á orðræðu eða texta. Leitað er skilgreininga á hugtakinu hlutlægni í rannsóknum og staða rannsakandans í orðræðugreiningu rædd. Höfundur tekur dæmi um álitamál þessu tengd úr doktorsrannsókn sinni á orðræðu um íslenska afreksmenn í íþróttum sem náð hafa langt á alþjóðavísu og skoðar hvernig atriði úr hans eigin bakgrunni og ævi gætu haft áhrif á umfjöllun hans um þá. Tilgangur greinarinnar er að hvetja alla rannsakendur til að huga að hlutlægni sinni og vekja til umhugsunar og umræðu um hvernig það verði best gert.

Guðmundur Sæmundsson er aðjunkt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Inngangur

Um þessar mundir vinn ég að niðurstöðum rannsóknar sem er hluti doktorsverkefnis míns um orðræðu í og um íþróttir. Rannsóknin felst í að skoða fjölmiðlaumfjöllun um nítján íslenska afreksíþróttamenn sem hafa náð langt á alþjóðlegum vettvangi. Með aðferðum orðræðugreiningar tek ég mér fyrir hendur að greina umfjöllunina, greina í henni þemu og þrástef sem leiða mig til þess að reyna að átta mig á þeim viðhorfum sem að baki umfjöllunarinnar búa. Ég reyni að skoða hvort munur sé á umfjöllun um íþróttakarla og íþróttakonur, fatlaða og ófatlaða íþróttamenn og milli íþróttagreina og hvort greina megi breytingar á umræðunni á þeim tíma sem rannsóknin tekur til.

Í þessari grein langar mig að deila með lesendum hugleiðingum sem skipta miklu um mína eigin stöðu gagnvart rannsóknarefninu, einkum þeim persónum sem um er að ræða. Þetta kann að þykja undarlegt þar sem rannsókn mín setur mig ekki í neitt beint samband við þær persónur sem um ræðir, heldur eingöngu við orðræðuna um þær í íslenskum fjölmiðlum. Þessir textar hafa birst opinberlega sem fréttatextar sem fréttamenn hafa skrifað og aðrir sem taka fulla ábyrgð á eigin texta. Enda þótt orðræðugreiningin innihaldi í sjálfu sér ekkert nýtt sem geti skaðað eða gefið óheppilega mynd af viðkomandi einstaklingum, íþróttaiðkendum, fréttamönnum eða ritstjórum, gæti hún varpað yfir þá nýju ljósi, dregið fram einkenni eða umfjöllun sem gæti verið heppileg eða óheppileg fyrir þá, einkum sé þess gætt að það sem fræðimaður setur fram hefur að jafnaði meira vægi en orð annarra.

Mér þykir því mjög mikils um vert að ég sem rannsakandi geri mér þetta ljóst frá upphafi, að minnsta kosti áður en ég fer að draga niðurstöður af athugunum mínum. Í raun og veru eru þetta spurningar sem allir fræðimenn verða að spyrja sig, ekki síst þeir sem fást við eigindlegar eða hugvísindalegar rannsóknir en orðræðugreining er einatt talin til þeirra. Ljóst má vera að í eigindlegum og hugvísindalegum rannsóknum skiptir máli að rannsakandinn sé meðvitaður um eigin áhrif á rannsóknarefnið, rétt eins og í megindlegum rannsóknum þar sem bein samskipti eru við þátttakendur. Framhjá slíkum áhrifum er áreiðanlega erfitt að komast en þá verður enn nauðsynlegra að draga þessi áhrif fram þannig að lesendur geti tekið tillit til þeirra.

Tilgangur greinarinnar er að hvetja alla rannsakendur til að huga að hlutlægni sinni og vekja til umhugsunar og umræðu um hvernig það verði best gert.

Eigindlegar rannsóknir og hlutlægni

Hugtakið hlutlægni má skilja á ýmsa vegu. Austurrísk-enski vísinda- og stjórnmálaheimspekingurinn Karl Popper segir: „Þekking er í hlutlægum skilningi aðskilin frá einstaklingnum sem býr yfir henni, hún er þekking án auðsýnandi frumlags“ (Chalmers, 2003, bls. 183). Þekkingin er með öðrum orðum aðskilin frá einstaklingnum. Að vera hlutlægur merkir samkvæmt því að vera trúr þekkingunni sjálfri, án tillits til hugsunar eða mats einstaklingsins.

Orðræðufræðingar líta á hlutlægni og hugmyndafræði sem samheiti þar sem hlutlægnin er söguleg afurð pólitískra ferla og baráttu, afleidd orðræða eða vald (Jørgensen og Phillips, 2008, bls. 48–49). Hlutlægni er þarna skilgreind sem löng röð félagslegra staðhæfinga sem fólk tekur sem gefnum og dregur því hvorki í efa né reynir að breyta (sama heimild, bls. 69).

Peter Railton skilgreinir vísindalega hlutlægni á aðeins einfaldari hátt þegar hann segir (1991, bls. 764) að a) hlutlæg rannsókn sé ekki gildishlaðin, b) hlutlæg rannsókn skekkist ekki af fyrir fram viðteknum fræðilegum skoðunum eða skoðunum um staðreyndir, og c) hlutlæg rannsókn noti aðferðaferli sem aðrir geta endurtekið og sé því óháð tilteknum einstaklingum eða aðstæðum. Það er alveg ljóst að þetta síðasta getur verið ýmsum annmörkum háð hvað varðar eigindlegar rannsóknir, svo sem djúpviðtöl, mannfræðilegar nálganir og, að mínu viti, orðræðugreiningu.

Enn einfaldari og skýrari skilning á hlutlægni er að finna hjá Resnik. Hann segir að vísindaleg hlutlægni sé fyrst og fremst fólgin í heiðarleika, varkárni og sveigjanleika og bætir við að þörfin fyrir hlutlægni í vísindum gildi um öflun gagna, skráningu þeirra, greiningu, túlkun, dreifingu og varðveislu, auk annarra ferla innan vísinda, svo sem birtingu og ritrýningu (Resnik, 1999, bls. 53–59, 74).

Hlutlægni er ekki síður mikilvæg í eigindlegum rannsóknum sem byggjast á sögulegum gögnum eða afleiddum textum þótt ekki sé beinlínis verið að fást við fólk eða lifandi verur (Drowatsky, 1996). Því er litið á það sem nauðsyn innan allra rannsóknarstefna að rannsakendur rannsaki sjálfa sig í einhverjum mæli og geri grein fyrir afstöðu sinni til rannsóknarefnisins og eigin skoðunum og viðhorfum (sjá til dæmis Sigríði Halldórsdóttur, 2003, bls. 259–260; Rannveigu Traustadóttur, 2003, bls. 273–274 og Rúnar Helga Andrason, 2003, bls. 284, 293). Þetta gildir ekki síst um orðræðugreiningu (Kristín Björnsdóttir, 2003, bls. 245). Jørgensen og Phillips (2008) telja þannig að fræðimenn eigi að setja sviga utan um sjálfa sig og fjarlægja sig efninu sem þeir eru að rannsaka (bls. 31). Hlutverk fræðimannsins er einnig mikilvægt úrlausnarefni hjá Ingólfi Ásgeiri Jóhannessyni (2010), hvaða tilgang hann hafi með rannsóknum sínum, hver hann sé og hvaða bakgrunn og menntun hann hafi hlotið (bls. 188–192).

Fræðimaðurinn ég og rannsókn mín til doktorsprófs

Hér á eftir mun ég reyna að gera grein fyrir eigin skoðunum og viðhorfum, jafnvel hugsanlegum fordómum, gagnvart rannsókn minni og rannsóknarefni. Rannsókn mín fólst í að orðræðugreina um 1000 fréttatexta úr íslenskum prentmiðlum um nítján afreksíþróttamenn sem náð hafa sérlega langt á alþjóðavettvangi, til dæmis unnið til verðlauna á Ólympíuleikum, heimsmeistaramótum eða Evrópumeistaramótum.

Helsta vísindafræðilega og siðfræðilega vandamál mitt er hið sama og margra annarra sem stunda eigindlegar rannsóknir, nefnilega ég sjálfur. Samt er rétt að nefna það hér og nú að ef til vill er réttara að flokka orðræðugreiningu sem vísindalegt viðhorf eða nálgun fremur en rannsóknaraðferð (Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 2010, bls. 251–252). Þannig stendur hún utan við bæði eigindlega og megindlega aðferðafræði og getur notað þætti frá báðum að vild. Þetta má glögglega sjá í allri orðræðugreiningu og kemur ljóslega fram í rannsóknarvinnunni hjá mér.

Eftir sem áður getur verið hentugt að tengja orðræðugreiningu nánar eigindlegum en megindlegum aðferðum. Hún beinist fremur að merkingu í samhengi, sbr. hugtakið „intertextuality“ sem er algengt í þessum fræðum. Í henni er skoðuð dýpt merkingarinnar, túlkað og gáð bak við textann fremur en talið, mælt og lýst eins og tíðkast helst í megindlegum aðferðum. Einmitt þess vegna hefur hlutlægni orðræðugreiningar verið dregin í efa, rétt eins og hlutlægni allra eigindlegra rannsókna (Sigurlína Davíðsdóttir, 2003, bls. 233).

Hvatningin til að hefja doktorsnám tengist í sjálfu sér eiginhagsmunum rannsakandans á einhvern hátt. Í grein sinni „On dodgy ground? Problematics and ethics in educational research“ álítur Pat Sikes (2006, bls. 105–117) að val rannsóknarverkefnis geti haft áhrif á akademíska framtíð viðkomandi einstaklings. Sum verkefni séu unnin til að uppfylla eigin þarfir eða koma að notum í frama fræðimannsins sjálfs, svali hans eigin forvitni, staðfesti kenningar hans, komi til móts við þarfir hans eða stuðli að því að gera hann að færari fræðimanni. Öll þessi atriði geti leitt til vafasamra rannsókna sem hafi annan tilgang en að afla aukinnar þekkingar. Rannsóknarverkefni sem dragi í efa viðteknar skoðanir eða trúarbrögð geti verið áhættusöm fyrir eigin hagsmuni. Markmið rannsókna sé að afla meiri þekkingar og þekking gefur vald. Þess vegna verði fræðimenn að meta vandlega markmið rannsókna sinna og áhrif þeirra og verkan á aðra og á sjálfa sig. Alltaf sé hætta á að fræðimenn sniðgangi rannsóknir á þáttum í samfélaginu sem nauðsynlegt væri að rannsaka, af því að það geti orðið þeim til trafala í öðrum þáttum starfs síns eða eyðilagt starfsframa þeirra.

Þetta er vissulega réttmæt viðvörun gegn því að vera of bundinn eigin hagsmunum og eigin þörfum. En hér má heldur ekki ganga of langt. Vel má vera að Sikes geri það þegar hún gagnrýnir fræðimenn fyrir sjálflæga forvitni og telur að það geti leitt til vafasamra rannsókna og rannsóknarniðurstaðna. Ekki er ólíklegt að slík forvitni sé einmitt mikilvægasta hvatningin til allrar fræðimennsku og leiði til bestu niðurstaðnanna, jafnvel þótt félagslegur eða samfélagslegur áhugi og viðhorf geti einnig verið sterk hvatning fyrir marga.

Pat Sikes (2006, bls. 105–117) segir að fræðimenn ættu ætíð að huga að siðfræði rannsóknanna, jafnvel þótt rannsóknunum sjálfum sé ætlað að þjóna samfélaginu. Þessu er ég sammála. Auk þess bera fræðimenn skyldur gagnvart starfsstétt sinni. Þeir bera ábyrgð á rannsóknarsniðinu. Margar rannsóknir eru birtar í ýmsum fjölmiðlum, aðrir fagmenn nota þær og til þeirra er vísað. Fræðimönnum ber því skylda til að skipuleggja rannsóknarverkefni sitt þannig að niðurstöðurnar gefi ekki villandi upplýsingar. Þeir eru einnig skuldbundnir til að gefa nákvæmar og heiðarlegar skýrslur um niðurstöður sínar. Ekki má setja þær þannig fram að hætta sé á mistúlkun, slíkt er alvarleg misnotkun á skyldum fræðimanna gagnvart starfi sínu (Ary, Jacobs og Razavieh, 1996, bls. 516).

En hvernig snýr þetta allt að rannsókn minni, rannsókninni á orðræðu íslenskra fjölmiðlamanna um nítján íslenska afreksíþróttamenn sem hafa náð langt innan sinna greina á alþjóðavettvangi? Áhrif skoðana minna á efnisval og lýsingu orðræðunnar er í sjálfu sér áhugaverð rannsókn eða hluti rannsóknarinnar á orðræðunni sjálfri.

Afstaða til íþrótta: Brot úr sjálfsævisögu

Sem barn var ég afar áhugasamur um íþróttir og stofnaði nokkur íþróttafélög í hverfinu mínu. Bræður mínir og vinir urðu félagar þeirra, auk mín. Við stunduðum einkum frjálsíþróttir en einnig aðrar íþróttir eins og glímu, fótbolta í örlitlum mæli ef okkur tókst að fá fleiri með, hnefaleika o.fl. Síðar æfði ég frjálsar hjá stærra félagi í Reykjavík. Því lauk með því að ég meiddist á stóru íþróttamóti, raunar fyrsta og eina opinbera mótinu sem ég tók þátt í. Ég sneri mig á ökkla í þrístökki og tókst ekki að komast í gegnum fyrsta stökkið.

Eftir þetta og öll menntaskóla- og háskólaárin varð ég einskonar „antisportisti“, neitaði að taka þátt í nokkrum íþróttum og náði mér meira að segja í vottorð til að losna við að mæta í leikfimi. Eitt vorið í Menntaskólanum að Laugarvatni tók ég mig reyndar til og ætlaði að hressa upp á hreystina og fór út að hlaupa með tveimur bekkjarfélögum mínum. Það þótt svo mikill viðburður að um okkur var saminn háðssöngur.

Ég laumaðist líka til að taka þátt í smávegis frjálsíþróttum í góðu veðri, kúluvarpi, langstökki og þrístökki, svo að eitthvað sé nefnt, en var alveg ómögulegur í og áhugalaus um hópíþróttir, t.d. blak, fótbolta og körfubolta sem þá voru í mikilli tísku á Laugarvatni. En ég fylgdist með og á fimmtugs- og sextugsaldri, þegar synir mínir voru komnir á skóla- og íþróttaaldurinn, fór ég að fylgja þeim á íþróttamót og æfingar og hvatti þá til að taka þátt í ýmsum íþróttum, sem þeir hafa raunar gert æ síðan í einhverjum mæli. Ég tók þátt í foreldrastarfi og settist meira að segja í stjórnir og ráð í íþrótta- og ungmennafélögum þeirra. Einnig skrapp ég með bróður mínum í einn vetur í badminton.

Árið 2001 fór ég að kenna íslensku og fræðilega ritun við Íþróttafræðasetur Kennaraháskóla Íslands á Laugarvatni. Bæði nemendur og kennarar setursins voru og eru miklir áhugamenn um íþróttir og hreyfingu. Gamall áhugi minn á íþróttum sem fyrirbæri vaknaði af dvala. Ég valdi því fljótlega að sameina menntun mína og nývakinn íþróttaáhugann í eigin rannsóknum og námi. Á vissan hátt er ég með starfi mínu við Íþróttafræðasetrið orðinn hluti tveggja heima: Íslensks íþróttaheims þar sem allir eiga að taka þátt í baráttunni fyrir íþróttum, hreyfingu og góðri heilsu og íslensks rannsóknaheims með akademísku umhverfi þar sem allir berjast gegn öllum um alltof lítið rannsóknafé. Innan íslensks rannsóknaheims er loks heimur íslenskra íþróttarannsókna (aðallega á Laugarvatni) þar sem örfáir akademískir fræðimenn rannsaka heilsu, þol, kraft og lífsstíl íslenskra barna, unglinga og eldra fólks. Menning, samfélag, saga, heimspeki, bókmenntir, málnotkun og sálfræði voru varla til þar í neinum mæli þegar ég hóf þar störf svo að mér fannst full þörf á að bæta þar úr.

Hér er því greinilega ýmislegt sem ég þarf að vara mig á þegar ég greini texta sem fjallar um íþróttir eða skrifa um íþróttaorðræðuna sem slíka.

Val íþróttamannanna

Úr stórum hópi afreksíþróttafólks sem hefur gert garðinn frægan erlendis valdi ég nítján og útilokaði þar með að minnsta kosti jafnmarga. Að sjálfsögðu varð ég að takmarka val mitt svo að gögnin yrðu ekki of mikil að vöxtum og ómeðfærileg. Að sjálfsögðu varð ég líka að reyna að leggja mitt eigið mat á það hverjir gæfu besta mynd af orðræðunni í heild. Ég varð einnig að byggja val mitt á því að nægileg gögn væru til um viðkomandi íþróttamenn. Loks varð ég að reyna að finna verðuga fulltrúa íslenskra kvenna í alþjóðlegum íþróttum og fulltrúa fatlaðra íslenskra íþróttamanna sem hafa einmitt verið í fremstu röð í íþróttagreinum sínum á alþjóðlegan mælikvarða. Samt þurfti ég að íhuga ýmis vísindafræðileg og siðfræðileg álitamál þegar ég valdi og ákvað hverjir skyldu vera með.

Tveir af elstu íþróttamönnunum voru til dæmis mestu hetjur barnæsku minnar og síðar kynntist ég þeim persónulega, hvorum á sinn hátt. Einn í viðbót var virkur í stjórnmálaflokki sem ég hef um langan aldur litið á sem pólitíska andstæðinga mína. Hefði ég átt að sleppa þeim þess vegna? Hefði það verið sanngjarnt þar sem þeir voru þrátt fyrir allt þrír af allra öflugustu íþróttamönnum 20. aldarinnar á Íslandi? Alls ekki, taldi ég. Þeir urðu að vera með til að orðræðan fengi sögulega vídd yfir þau 60–65 ár sem íslenskir íþróttamenn hafa getað borið sig saman við erlenda afreksmenn. Fjórði íþróttamaðurinn er náskyldur mér, átti ég að sleppa honum þess vegna þótt hann hafi í allmörg ár verið einn af tíu bestu í heiminum í íþrótt sinni. Það fannst mér ekki heldur. Einn fötluðu íþróttamannanna sem ég valdi var í þjálfun hjá vini mínum og náfrænda og ég kynntist honum því ágætlega persónulega. Mér fannst ég ekki geta sleppt honum þess vegna þar sem hann varð bæði heimsmeistari og fékk tvö silfur á Ólympíuleikum, auk margra heims- og Evrópumeta.

Ég valdi fimm íþróttakonur, tvær fatlaðar og þrjár ófatlaðar. Þessar þrjár afrekskonur voru í rauninni einu ófötluðu íslensku afrekskonurnar sem höfðu komist langt í íþrótt sinni á alþjóðavettvangi. Að minnsta kosti sumar þeirra komust ekki jafn langt í íþróttagreinum sínum og sumir þeirra íþróttakarla sem ég varð að sleppa. Var það réttlátt gagnvart þessum afrekskörlum? Eða gagnvart konunum þremur? Eftir miklar pælingar komst ég að þeirri niðurstöðu að þetta val væri réttmætt. Það sjónarmið að vera með eins margar konur og hægt væri vó þyngra en spurningin um að hafa fleiri íþróttakarla með. Það verður að hafa í huga að aðstæður kvenna til að stunda íþróttir og ná langt í þeim hafa verið og eru svo miklu verri að það er hæpið að bera kynin saman á þennan hátt (Kjartan Ólafsson, 2006). Þetta á raunar ekki síður við um samanburð á fötluðum og ófötluðum íþróttamönnum.

Stærsti afreksmannahópurinn í orðræðugreiningu minni er frjálsíþróttafólk, samtals átta af nítján, þar af tveir fatlaðir íþróttamenn. Getur það verið vegna þess að ég hafði sem barn og unglingur meiri áhuga á frjálsíþróttum en öðrum íþróttum? Getur það verið vegna þess að margir af nánum ættingjum mínum hafa stundað frjálsíþróttir? Ég held ekki. Ég er miklu fremur að velja fjölbreytilegan hóp af málefnalegum ástæðum sem koma mjög lítið við persónulegum skoðunum. Á fullorðinsárum og reyndar líka sem barn og unglingur hef ég haft jafnmikinn áhuga á að fylgjast með vinsælustu íþróttagrein landsins, knattspyrnu, og einnig fylgst með enska boltanum og alþjóðlegum fótbolta, rétt eins og synir mínir. Ég held að ástæðan fyrir þessari skiptingu með aðeins þrjá knattspyrnumenn sé fremur sú að íslensk knattspyrna hefur ekki náð alþjóðlegum hæðum og aðeins örfáir íslenskir knattspyrnumenn hafa öðlast frægð út fyrir landssteinana.

Í handbolta hefur Ísland raunar verið í fremstu röð um árabil en samt hafa aðeins fáir Íslendingar orðið heimsþekktir fyrir íþrótt sína. Þess vegna er aðeins einn leikmaður þaðan þrátt fyrir mikinn áhuga minn á íþróttinni. Sama gildir um júdó, þolfimi og körfubolta. Vissulega reyndi ég að hafa með eins margar íþróttagreinar og hægt væri en ég gat ekki skáldað upp alþjóðlegri velgengni í þeim tilgangi einum að ná yfir fleiri greinar. Þess vegna eru t.d. engir skíðamenn með og heldur ekki neinir blakíþróttamenn.

Önnur álitamál

Þegar ég set fram niðurstöður orðræðugreiningar minnar get ég ekki leyft mér að segja hvað sem er um íþróttamennina. Ég get þó ekki notað nafnleynd vegna þess að þetta er frægt fólk og allir sem fylgjast með íþróttum mundu fljótlega átta sig á því um hverja ég væri að tala. Hvað lög og reglur varðar þarf ég sennilega heldur ekki að hafa svo miklar áhyggjur þar sem þetta eru textar sem hafa verið birtir áður og aðrir bera ábyrgð á. Ég tel þó að ég verði ætíð að gæta þess að skaða ekki þá einstaklinga sem greiningin fjallar um, jafnvel þótt um sé að ræða rannsóknaniðurstöður byggðar á textum sem eru aðgengilegir hverjum sem er.

Annað sem gæti haft áhrif á umfjöllun mína eða val er félög og lið sem einstakir íþróttamenn tilheyra, jafnvel þjóðernisstolt mitt sem Íslendings, landshluta- eða byggðasjónarmið, stjórnmálaskoðanir, kynþáttafordómar og afstaða til einstakra fjölmiðla. Aldur er einnig þáttur sem getur stuðlað að fordómum, til dæmis í garð yngri íþróttamanna, í garð nýrra íþróttagreina, nýrra reglna, nýrra félaga. Allt samfélagið á Íslandi hefur breyst verulega á þeim rúmlega 60 árum sem ég hef lifað og alls ekki ólíklegt að það liti viðhorf mín ef ég gæti mín ekki.

Loks má nefna kynferði. Vafalaust hefur það áhrif á alla frásögn mína að ég er karlkyns en við því og öðrum hugsanlegum fordómum get ég fátt annað gert en að gæta mín á gildrunni, fela ekki stöðu mína eða skoðanir og leyfa lesendum að dæma. Einnig verð ég að gæta þess að ganga ekki of langt, vera ekki svo „meðvitaður“ um sjálfan mig að ég gangi lengra en efni standa til af ótta við að vera hlutdrægur eða fordómafullur.

Boðorð um hlutlægni

Eins og fram hefur komið voru margir pyttir og gildrur á þeirri leið minni að vera hlutlægur rannsakandi. Ég þurfti að gæta hlutlægni við val á rannsóknarefni, val á einstaklingum sem viðföngum rannsóknarinnar, val á fjölmiðlum, val á íþróttagreinum, val á milli íþróttamanna eftir kynjum og val á fötluðum íþróttamönnum. Ég þurfti að gæta hlutlægni þegar ég las yfir fréttatextana og greindi þá. Ég þarf að gæta hlutlægni þegar ég skrifa niðurstöður mínar og túlka þær. Þessi krafa er einkar sterk vegna eðlis rannsóknarinnar og vegna þeirrar nálgunar og þeirra rannsóknaraðferða sem beitt er. Ég hygg að þessar gryfjur séu þó í rauninni ekki svo sérstakar. Flestir rannsakendur reka sig á þær fyrr eða síðar og raunar ýmsar aðrar gryfjur, allt eftir eðli hverrar rannsóknar. Til að vinna úr þeim er handhægt að nota ágætt rit eftir David B. Resnik (1999, bls. 59–68) þar sem hann setur fram tólf boðorð um siðfræði í vísindum og rannsóknum. Þau eiga öll vel við um rannsóknarstarfið almennt en sum þeirra snúa beint að umræðuefni þessarar greinar, til dæmis þessi þrjú:

  1. Heiðarleiki gagnvart einstaklingum og málefnum. Þetta er meginregla sem aldrei má gleymast og verður sífellt að vera efst í huga og samvaxin starfi fræðimanna. Heiðarleiki felst í að segja satt og rétt frá, láta allt njóta sannmælis, draga ekkert undan og bæta engu við.

  2. Varkárni í vali og umtali. Fræðimenn verða að gæta þess að orð þeirra og val á rannsóknarefnum og viðföngum getur haft meiri áhrif en þeir gera sér grein fyrir. Þess vegna er varkárnin bráðnauðsynleg. Sannleikurinn getur stundum verið þungbær og sár. Þess vegna er gott að átta sig á því að ekki er nauðsynlegt að segja allt, heldur aðeins það sem nauðsynlegt er vegna efnisins og skilningsins á því.

  3. Virðing fyrir þátttakendum í rannsókn. Síðast en ekki síst er boðorðið sem snýr að þátttakendum í rannsóknum, viðföngunum, fólkinu sem rannsóknin beinist að. Um réttindi þeirra og skyldur er fjallað í óteljandi siðareglum og veitir svo sannarlega ekki af eins og dæmin hafa sýnt. Fræðimenn verða sífellt að gæta hags þessara einstaklinga, réttinda þeirra og tillitssemi við þá. Og í raun gildir þetta ekki aðeins um einstaklinga, heldur ekki síður um heil samfélög, samfélagshópa og menningu og einnig um dýr, umhverfi og náttúru.

Niðurstaða mín er sú að það sé í raun ótrúlega auðvelt að falla í gryfjur óhlutdrægni og fordóma. Ég þurfti oft að vara mig á þessum pyttum í rannsókn minni á orðræðunni um íslenska afreksmenn í íþróttum sem gert hafa það gott á alþjóðavettvangi. Þess vegna kom sér vel að vera meðvitaður um þessa hættu, lesa sér til um hana og hafa hana nánast „á bak við eyrað“ allan tímann sem rannsóknin stóð yfir og áfram þegar um hana er fjallað í framhaldinu

Heimildir

Ary, D., Jacobs, L. og Razavieh, A. (1996). Introduction to research in education (5. útg). Forth Worth og víðar: Harcourt Brace College Publishers.

Chalmers, A. F. (2003). Hvad er videnskab? Kaupmannahöfn: Gyldendal.

Drowatsky, John N. (1996). Ethical decision making in physical activity research. Champaign, IL: Human Kinetics.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson. (2010). The politics of historical discourse analysis: a qualitative research method? Discourse: Studies in the Cultural Politics of Education, 31(2), 251–264.

Jørgensen, M. W. og Phillips, L. (2008). Diskursanalyse som teori og metode. Hróarskelda: Roskilde Universitetsforlag.

Kjartan Ólafsson (ritstj.). (2006). Sports, media and stereotypes. Women and men in sports and media. Akureyri: Jafnréttisstofa.

Kristín Björnsdóttir. (2003). „Orðræðugreining“. Í Sigríður Halldórsdóttir og Kristján Kristjánsson (ritstj.), Handbók í aðferðafræði og rannsóknum í heilbrigðisvísindum (bls. 237–248). Akureyri: Háskólinn á Akureyri.

Railton, P. (1991). „Marx and the objectivity of science“. Í Boyd R., Gasper, P. og Trout, J. D., The philosophy of science (bls. 763–773). Cambridge and London: The MIT Press.

Rannveig Traustadóttir. (2003). „Femínískar rannsóknir“. Í Sigríður Halldórsdóttir og Kristján Kristjánsson (ritstj.), Handbók í aðferðafræði og rannsóknum í heilbrigðisvísindum (bls. 267–280). Akureyri: Háskólinn á Akureyri.

Resnik, D. B. (1999). The ethics of science. An introduction. London og New York: Routledge.

Rúnar Helgi Andrason. (2003). „Tilfellarannsóknir“. Í Sigríður Halldórsdóttir og Kristján Kristjánsson (ritstj.), Handbók í aðferðafræði og rannsóknum í heilbrigðisvísindum (bls. 281–294). Akureyri: Háskólinn á Akureyri.

Sigríður Halldórsdóttir. (2003). „Vancouver-skólinn í fyrirbærafræði“. Í Sigríður Halldórsdóttir og Kristján Kristjánsson (ritstj.), Handbók í aðferðafræði og rannsóknum í heilbrigðisvísindum (bls. 249–266). Akureyri: Háskólinn á Akureyri.

Sigurlína Davíðsdóttir. (2003). „Eigindlegar eða megindlegar rannsóknaraðferðir“. Í Sigríður Halldórsdóttir og Kristján Kristjánsson (ritstj.), Handbók í aðferðafræði og rannsóknum í heilbrigðisvísindum (bls. 219–236). Akureyri: Háskólinn á Akureyri.

Sikes, P. (2006). “On dodgy ground? Problematics and ethics in educational research.” International Journal of Research and Method in Educaton, 29(1), 105–117.

Prentútgáfa     Viðbrögð