Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun

Menntavísindasvið Háskóla Íslands
 

Grein birt 31. desember 2010

Greinar 2010

Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir

„... Þó er best að borða ljóð,
en bara reyndar þau sem eru góð“

Um ljóð og ljóðakennslu í grunnskólum

Börn vilja skemmtileg ljóð sem þau skilja og ljóð sem fjalla um efni sem þau geta tengt sig við. Ljóð gegna ríku hlutverki í málræktarstarfi grunnskólans og þegar vel er á málum haldið efla þau bæði málskilning og lesskilning. Meðal annars þess vegna er brýnt að laða þau að ljóðum. Í þessari grein er fjallað um ljóð og ljóðakennslu í grunnskólum. Sjónum er meðal annars beint að því hvers konar ljóð grunnskólabörn njóta helst og vilja fást við. Í því sambandi er vísað til erlendra og innlendra rannsókna, svo langt sem þær ná, en bent á að það þurfi frekari rannsókna við í íslenskum skólum. Vakin er athygli á nokkrum nýlegum íslenskum og þýddum ljóðabókum fyrir börn og unglinga og gildi þeirra í kennslu. Gefin eru dæmi um nokkur ljóð og bent á leiðir til að vinna með þau í kennslu. Heiti greinarinnar er sótt til lokaorða Guðmundar á Mýrum í sonnettunni Bókagleypir eftir Þórarin Eldjárn (Óðfluga, 1991), en þar eru tvær síðustu hendingarnar í ljóðinu á þessa leið: „Hann sagði: Þó er best að borða ljóð, en bara reyndar þau sem eru góð.“

Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir er lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.
 

Hvernig ljóð vilja börn og unglingar og hvernig ljóð fá þau í íslenskum grunnskólum? Hvað vilja börn og unglingar gera með ljóðin og hvernig er ljóðakennslan? Það vantar tilfinnanlega íslenskar rannsóknir í þessum efnum, en ýmislegt má þó læra af niðurstöðum erlendra rannsókna á því hvernig ljóð höfða mest til ungmenna og hvaða kennsluhættir þeim hugnast best. Ljóð eru fjársjóður í skólastarfi sem brýnt er að nýta vel.

Það krefst góðs málskilnings að lesa ljóð sér til ánægju og málskilningur er grundvöllur lesskilnings. En lestur ljóða eflir líka málskilning og er þar að auki afbragðs lestrarþjálfun. Ljóð geta einnig verið uppspretta mikillar ánægju og ekki síður sköpunar. Ljóð eru búin til úr sérstaklega völdum orðum, samsett á ýmsa vegu sem gefur þeim margvíslega merkingu. Ljóð nýta sér áhrifamátt málhljóðanna, hljómfall tungumálsins, fjölbreytt ljóðform og mismunandi hrynjandi, til að leggja réttar áherslur og skapa hughrif. Þegar vel tekst til veita ljóð áheyrendum og lesendum nýja sýn og opna augu þeirra fyrir ýmsu sem þeir höfðu ekki tekið eftir, eða setja það í nýtt samhengi. Ljóð geta þannig dregið upp margvíslegar myndir og kallað fram í lesendum og áheyrendum fjölbreyttar tilfinningar, nýja skynjun og nýjan skilning. Eftirfarandi ljóð Danans Thorsteins Thomsen er gott dæmi um slíkt ljóð:

Siggi er negldur

Siggi er negldur
við sætið.

Glerið rennur af pallinum
og sker höfuðið af
í heilu lagi
og það þeytist út í loftið.
En það gerir ekkert til
því hann var illmenni.
Hann hafði skotið til bana
móður og tvö börn.

Siggi stóri hefur setið eins og myndastytta
niðursokkinn,
grafkyrr,
og einbeitt sér,
framan við vídeóið í hálfan annan klukkutíma.

Og svo segir stærðfræðikennarinn
að Siggi
geti ekki setið kyrr.

                     (Þórður Helgason og Michael Dal íslenskuðu)

Hvernig ljóð vilja börn og unglingar?

Engar rannsóknir hafa verið gerðar á því hvers konar ljóð íslensk börn og unglingar hafa gaman af að lesa síðan prófessor Símon Jóh. Ágústsson gerði sínar rannsóknir á lestrarvenjum barna á sjöunda áratugnum. Hann kannaði meðal annars áhuga barna á ljóðum í þeim ljóðasöfnum sem skólinn bauð þeim upp á. Allt voru það hefðbundin ljóð, flest eftir gengin skáld. Í stuttu máli kom fram að stúlkur njóta frekar ljóða um tilfinningaleg efni, en drengir vildu frekar frásagnarljóð. Torskilin ljóð voru óvinsæl hjá báðum kynjum. Ljóðaforðinn sem börn höfðu úr að velja innihélt ekki ljóð um samtímaefni, sérstaklega ort fyrir börn, og þau ljóð sem skilgreina mátti sem barnaljóð voru sum fremur smábarnaleg og/eða fjölluðu um liðna tíð (Símon Jóh. Ágústsson, 1972). Eysteinn Þorvaldsson prófessor rannsakaði útgáfur á skólaljóðum fyrir grunnskóla 1901–1979. Meginniðurstaða hans var sú að skólaljóðin endurspegluðu hugmyndafræði og fagurfræði 19. aldar en tækju ekki mið af því sem var að gerast í samtímanum (Eysteinn Þorvaldsson, 1988).

Ingibjörg B. Frímannsdóttir, lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, gerði könnun á frjálsu ljóðavali keppenda í Stóru upplestrarkeppninni í 7. bekk, og birti niðurstöður í grein í tímaritinu Hrafnaþingi árið 2006. Í stuttu máli sýna niðurstöður Ingibjargar að börnin velja mest bundin ljóð eftir Davíð Stefánsson, Tómas Guðmundsson, Þórarin Eldjárn, Stein Steinarr, Jóhannes úr Kötlum, Jónas Hallgrímsson og Kristján frá Djúpalæk. Það vekur athygli að meðal vinsælustu ljóðahöfundanna sem börnin nefna er aðeins einn núlifandi ljóðahöfundur, Þórarinn Eldjárn, sem auk þess yrkir sérstaklega fyrir börn. Engin kona meðal ljóðskálda er nefnd. Lítill sem enginn munur er á vali drengja og stúlkna á höfundum. Þó kemur það fram að stúlkur velja fremur ljóð eftir Þórarin Eldjárn og Kristján frá Djúpalæk.

Val barnanna vekur meðal annars spurningar um það framboð af ljóðum sem börn kynnast í skólanum. Þegar börnin voru spurð um ástæður fyrir vali sínu nefndu þau helst til skýringar að ljóðin væru skemmtileg, flott, sniðug eða sorgleg. Stelpur tengja sig til dæmis mjög við ljóð Kristjáns frá Djúpalæk, Slysaskot í Palestínu. Það kemur væntanlega engum á óvart að börn skuli fyrst og fremst velja ljóð sem þeim finnst skemmtileg eða höfða til þeirra tilfinningalega og það rímar ágætlega við niðurstöður þeirra erlendu rannsókna í þessum efnum sem Ingibjörg vísar til í greininni.

Meðal þeirra sem mest hafa rannsakað ljóðaáhuga skólabarna í Bandaríkjunum er Ann Terry. Hún hefur skoðað bandarískar rannsóknir fræðimanna allt frá því snemma á þriðja áratug síðustu aldar á áhuga barna á ljóðum. Terry (1974) segir allar þessar rannsóknir sýna að áhugi barna hafi lítið breyst í gegnum tíðina. Niðurstöður hennar benda til þess að:

  1. Börnin sjálf séu færust um að dæma hvernig ljóð þau vilja.

  2. Börnum sé yfirleitt ekki boðið upp á uppáhaldsljóðin sín í lesefni og ljóðakennslu.

  3. Það sem hafi áhrif á áhuga barna á ljóðum ráðist í fyrsta lagi af formi ljóðsins, í öðru lagi af ákveðnum ljóðrænum eiginleikum og í þriðja lagi af innihaldinu þar sem húmor og tenging við eigin reynslu vegi þyngst.

  4. Ljóð, sem börn á einu aldursstigi njóta, geti einnig notið vinsælda á öðrum aldursstigum.

  5. Börn njóti ekki ljóða sem þau skilja ekki.

  6. Börn vilji ekki ljóð sem einkennast af djúpri hugsun og íhygli.

  7. Sum ljóð höfði meira til annars kynsins og stúlkur hafi meiri áhuga á ljóðum en strákar.

  8. Börn vilji frekar ljóð úr samtímanum en eldri og hefðbundnari ljóð.

  9. Bókmenntaleg gæði ljóða séu ekki endilega skilyrði fyrir því að börn njóti þeirra.

Við þetta má bæta að rannsókn sem Terry gerði sjálf á áhuga barna í 4.–6. bekk (1974) sýnir að ljóð sem segja sögu, svo og limrur, bæði hefðbundnar og nýstárlegar, njóta mestra vinsælda. Aftur á móti njóta hækur minnstra vinsælda. Rím, hrynjandi og hljóðeiginleikar ljóðanna höfða mest til barnanna af einstökum eiginleikum ljóða. Ljóð með flóknu táknrænu orðalagi og ríku myndmáli höfðuðu síst til þeirra, en þau ljóð sem mestra vinsælda njóta í öllum þremur bekkjunum eru þau sem eru fyndin og um þekkta hluti og fyrirbæri, eða um dýr. Öll börnin í þessari rannsókn Ann Terry vildu frekar ljóð úr samtímanum um nútímaleg fyrirbæri á nútímalegu máli en eldri og hefðbundnari ljóð. Svipaðar niðurstöður komu fram í rannsókn þeirra Carol J. Fisher og Margaret A. Natarella (1982) á áhuga barna í 1.–3. bekk á ljóðum, og sömu sögu er að segja um niðurstöður Karen S. Kutiper (1985) á áhuga barna í 7.–9. bekk.

En það kom einnig fram í þessum rannsóknum að yngri börnin hafa meira gaman af ljóðum um skrítin og furðuleg atriði en þau eldri sem vilja frekar raunsærri ljóð. Þá vilja yngri börnin líka fremur hefðbundnari ljóð en þau eldri. Yngri börnin vilja hafa rím og þar eð hefðbundnari ljóðin hafa rím gæti verið að val þeirra byggðist meira á ríminu en innihaldi ljóðanna.

Þótt hægt sé að styðjast við niðurstöður úr erlendum rannsóknum til að reyna að gera sér grein fyrir hvers konar ljóð börn vilja heyra og lesa er mikil þörf á nýrri íslenskri rannsókn í þessum efnum sem nær til nemenda á öllum aldursstigum grunnskólans. Þar þarf líka að taka mið af þeim ljóðaforða sem börnunum er boðið upp á í skólanum og ekki síst til þeirra kennsluhátta sem tíðkast í ljóðakennslu.

Ljóðakennsla

Það segir sig nokkurn veginn sjálft að viðbrögð barna við ljóðum eru háð því hvernig þau eru kynnt fyrir þeim og hvernig kennslan er, eins og fram kom í rannsókn Amy McClure (1990) á upplifun barna af ljóðum í skólastofunni. Kennslan og viðhorf kennarans skiptir miklu máli í þeim efnum eins og öllum öðrum. Þar kom líka í ljós að börn sem kynnast ljóðum í jákvæðu, styðjandi og lestrarvænu umhverfi bregðast mun jákvæðar við fjölbreyttum ljóðum, bæði að efni og formi. Kennarinn gegnir því lykilhlutverki þegar laða á börn að ljóðum. Mörg börn fá andstyggð á ljóðum ef alltaf er verið að heimta af þeim að þau geri grein fyrir dýpri merkingu, myndmáli og rímgerð ljóðanna. Slíkt hefur enga merkingu fyrir þau og laðar þau ekki að ljóðum eins og bent er á í ágætri bók þeirra Bernice E. Cullinan og Lee Galda Literature and the child (1994). Smásmuguleg ljóðgreining sviptir ljómanum af ljóðunum. Þeir töfrar orðanna sem verka á ímyndunaraflið eru meira virði en nákvæmni, þegar laða á börn að ljóðum, og skilja eftir sig varanleg jákvæð áhrif.

Í umræðum um ljóð og vinnu með ljóð er því margs að gæta. Það þarf ekki síst að taka tillit til aldurs og þroska barnanna svo og reynslu þeirra af ljóðum. Börn sem eru óvön ljóðum þurfa að heyra ljóð mjög oft og í ánægjulegum aðstæðum. Það er allt í lagi að leggja aðra skólavinnu til hliðar þá stund sem ljóð er lesið. Kennarinn þarf líka að bregðast aðeins við ljóðinu eins og þegar bók er lesin, svo að þau venjist ljóðum eins og bókum og læri að skilja ljóð á sama hátt og sögur. En ekki er nauðsynlegt að hafa langar umræður um ljóðin í hvert sinn sem ljóð er lesið. Smám saman fara börn að finna fyrir tilfinningum og geðhrifum og sjá myndir þegar ljóð eru lesin fyrir þau og þegar þau lesa þau sjálf. Þegar börnin eru orðin vön því að heyra og lesa ljóð, þegar þeim líður vel með að hlusta og lesa ljóð og bregðast við þeim, þá er hægt að snúa sér að því að ræða hvað ljóð eru eiginlega.

Þegar börn eru orðin innvígð í heim ljóðanna getur ljóðavinna orðið mjög gefandi. Þá má líka gera meiri og öðruvísi kröfur til barnanna, til dæmis að kveikja áhuga á myndmálinu og hlutverki þess. Börn þurfa þjálfun og æfingu í að átta sig á myndmáli. Þau eiga auðveldara með að skilja myndmál og óeiginlega málnotkun sem vísar til sýnilegra hluta í umhverfi þeirra en myndmál sem vísar til sálrænna og andlegra eiginleika og tilfinninga. Með auknum þroska og reynslu öðlast þau færni til að greina dýpri merkingu ljóðmálsins. Og þá er líka óhætt fyrir kennara að hætta sér inn á nýjar brautir til að reyna að þroska ljóðasmekk barnanna, því það er ekki meiningin að einskorða sig við ljóð sem vitað er fyrir fram að börnum finnst skemmtileg. Best er því að byrja á ljóðum sem höfða sterkt til barna og færa sig svo smám saman að fjölbreyttara úrvali að efni og formi.

Eins og gildir um öll viðfangsefni er dálæti á ljóðum smitandi. Það sem kennarinn gerir, hvernig hann les upp og bregst við ljóðum hefur mikil áhrif á börn. Ef barnið sér að kennarinn nýtur ljóða eru meiri líkur á því að barnið fái jákvæð viðhorf til þeirra. Ef börnin upplifa að kennarar grípa til ljóða eða ljóðlína þegar það á við eru meiri líkur á að börnin geri það líka. Ef þau sjá kennarann grípa til ljóða og tengja þau reynslu og tilfinningum eru meiri líkur á að börnin geri það líka og nái þessum sérstöku tengslum við ljóð sem á að vera markmið með ljóðakennslu (Cullinan og Galda, 1994). Og ekki má gleyma því að börn geta líka gert sín eigin ljóð og þurfa að fá hvatningu, fyrirmyndir og leiðbeiningar í þeim efnum.

Í þessu sambandi vakna spurningar um hvaða forsendur kennarar hafa til að fást við ljóð með nemendum á öllum aldursstigum grunnskólans. Hvaða kennslu fá þeir sjálfir í kennaranámi sínu um ljóð og ljóðakennslu? Eins og kennaranámi er nú háttað á Menntavísindasviði Háskóla Íslands, og eins og það hefur verið mörg undanfarin ár í Kennaraháskóla Íslands, er lítil sem engin bókmenntakennsla í grunnnámi kennara. Kennaranemar fá sáralitla eða enga bókmenntakennslu nema þeir velji að leggja sérstaka stund á faggreinina íslensku og það gerir aðeins lítill hluti kennaranema. Það eru því einungis örfáir kennaranemar sem kynnast nýlegum ljóðabókum í námi sínu, þar með talið ljóðabókum fyrir börn, og fá einhverja þjálfun í ljóðakennslu. Einnig má minna á þá staðreynd að það er engin trygging fyrir því að grunnskólabörn njóti kennslu sérmenntaðra íslenskukennara, sérstaklega á yngsta- og miðstigi. Þó að margir starfandi kennarar hafi mikla reynslu af vel heppnaðri bókmenntakennslu, þar með talinni ljóðakennslu, er það engu að síður mikið áhyggjuefni hve bókmenntakennsla í kennaranámi er lítil. Hvernig eiga börn annars að þjálfast í lestri og lesskilningi ef ekki með því að lesa bókmenntir við hæfi, ljóð og sögur af fjölbreyttu tagi? Til þess þurfa þau sérmenntaða kennara á því sviði.

Aðalnámskrá og kennsluefni

Í íslenskuhluta aðalnámskrár (Menntamálaráðuneytið, 2007) er fjallað sérstaklega um ljóð í lokamarkmiðunum í 4., 7. og 10. bekk undir köflunum um annars vegar talað mál og ritað og hins vegar lestur og bókmenntir. Þar má meðal annars sjá að talsverð áhersla er lögð á að börn læri ljóð utanbókar, geti flutt ljóðin skýrt og áheyrilega og sungið. Enn fremur að þau geti beitt helstu hugtökum sem við eiga, kunni skil á bragfræðilegum einkennum ljóða, hlusti á ljóð og geti túlkað þau í flutningi. Einnig er talað um að börn eigi að geta notið bókmennta sér til ánægju, bæði í flutningi annarra og með eigin lestri, og geti auk þess tjáð sig um eigin upplifun, tilfinningar og skoðanir, í tengslum við það. Þá er um það rætt að þau kynnist menningararfinum og einnig ljóðum annarra þjóða í íslenskri þýðingu.

Kennarar hafa samkvæmt aðalnámskránni mikið til frjálsar hendur um val á bókmenntalegu efni sem þeir nýta í kennslu þó reikna megi með að nokkurs samræmis gæti innan hvers skóla, einkum þegar kemur að námsmati. Kennslubækur og opinber útgáfa safnrita, til dæmis ljóðasafna sem ætluð eru til kennslu í grunnskólum, stýra eflaust valinu að miklu leyti.

Á árunum 1988–1990 gaf Námsgagnastofnun út þrjár sýnisbækur ljóða eftir íslenska höfunda, eina bók fyrir hvert aldursstig grunnskólans. Fyrir yngstu börnin (1.–4. bekk) var það bókin Ljóðsprotar, fyrir miðstigið (5.–7. bekk) Ljóðspor og fyrir unglingana (8.–10. bekk) Ljóðspeglar. Við val á ljóðunum í bækurnar var meðal annars tekið tillit til menningararfsins og sögunnar, kvenna í hópi ljóðskálda, fjölbreytts ljóðforms og efnis, meðal annars að ljóðin höfði til sem flestra barna (Kolbrún Sigurðardóttir, Sverrir Guðjónsson og Þórdís Mósesdóttir, 1989). Þetta er metnaðarfull útgáfa og greinilega til hennar vandað, en byggist eingöngu á vali fullorðinna. Lítið sem ekkert er um ljóð sem eru ort fyrir börn og unglinga og sem tengja þau við líf sitt í samtímanum.

Liðin eru tuttugu ár frá því að bækurnar komu út og því þörf á að efna til nýrrar útgáfu með meira af nýju efni, meðal annars ljóðum sem sérstaklega eru ort fyrir börn og unglinga. Ljóð fyrir börn eru einkum frábrugðin ljóðum fyrir fullorðna að því leyti að þau snerta raunverulegt líf barna og unglinga á þann hátt að þau geta tengt sig við þau. Börn hafa sterkar tilfinningar og ljóð sem höfða til þeirra tilfinningalega njóta því vinsælda. Þá er mikilvægt að ganga ekki fram hjá þýddum ljóðum fyrir grunnskólabörn. Og væri ekki ráð að spyrja börnin sjálf hvað þau vilja og taka meira tillit til þess?

Ljóðabækur fyrir börn

Mig langar í þessu sambandi að minna á nokkrar nýlegar ljóðabækur fyrir börn og unglinga sem sjálfsagt er að nýta í ljóðakennslu og eflaust gera margir kennarar það nú þegar. Ég nefni enn fremur dæmi um nokkur ljóð úr þeim sem hægt væri að nýta í kennslu, einkum fyrir þau börn sem ekki eru komin mjög langt inn í ljóðaheima. Það er þó langt frá því að þau ljóð gefi heildarmynd af þeim ljóðaforða sem bækurnar geyma og þau eru ekki endilega dæmigerð fyrir þau ljóð sem þar er að finna. Svo þarf alltaf að hafa í huga að kennarar meta sjálfir hvaða ljóð þeim finnst henta þeirra nemendum hverju sinni. Þegar aldur er nefndur, yngri börn, börn á miðstigi eða á unglingastigi, þarf að taka því með eðlilegum fyrirvara.

Þórarinn Eldjárn

Þórarinn Eldjárn hefur gefið út sex frumsamdar ljóðabækur fyrir börn á undanförnum tuttugu árum, fyrir utan aðrar sem hann hefur ljóðskreytt og þýtt. Þær eru Óðfluga (1991), Heimskringla (1992), Halastjarna (1997), [1] Grannmeti og átvextir (2001), Gælur, fælur og þvælur (2007) og nú síðast Árstíðirnar (2010). Allar eru bækur Þórarins myndskreyttar á frumlegan og skemmtilegan hátt af systur hans Sigrúnu Eldjárn.

Guðmundur bókagleypir sem sagt er frá í Óðflugu (1991) er smekkmaður á bókmenntir og borðar bara ljóð sem eru góð. Og víst er að í bókum Þórarins er að finna bæði skemmtilegt og næringarríkt andlegt fóður fyrir grunnskólabörn. Ljóðin eru mörg byggð á skapandi orðaleikjum og tilvísunum í menningararfinn, innlendan og erlendan, og eldri lesendur fá mikið fyrir sinn snúð líka. Sömu sögu er að segja um margar myndir Sigrúnar. Ljóðabækur Þórarins Eldjárns eru svo fjölbreyttar að efni að í þeim má finna ljóð fyrir börn á öllum aldri og fullorðna ekki síður.

Sum yngri börn, sem eru orðin vel læs, gætu til dæmis haft gaman af því að spreyta sig í upplestri á ljóðinu Símalandi í Símalandi í Heimskringlu (1992) á meðan önnur eldri skemmta sér með kennaranum við Skúffurnar hennar Jóhönnu í Gælum, fælum og þvælum (2007). Ljóðið Hvítt, blautt, heitt í Grannmeti og átvextir (2002) hefur margt til að bera sem hentar í umfjöllun með börnum á miðstigi. Hér er skemmtilegt rím og það er mátulega krefjandi að ráða í merkinguna og að lesa ljóðið upphátt. Ljóðið er mjög myndrænt og myndmálið er fyndið, einfalt og auðskilið. Kennarar meta svo sjálfir hversu djúpt þeir kafa með nemendum í einstaka þætti bragfræðinnar, merkingarinnar eða myndmálsins. Ljóðið gefur líka tilefni til fjölbreyttrar sköpunar í myndmennt og tónlist.

Hvítt, blautt, heitt

Heimurinn er allur orðinn hvítur
úti lemja fjörð og jörð hörð spörð
sem himinninn úr haglabyssu skýtur
á hús og götur, móa, tún og börð.

Heimurinn er allur orðinn blautur
úti bleytir regn hvern þegn í gegn.
Náttúran er orðin eins og grautur
og er að verða þjóðinni um megn.

Heimurinn er allur orðinn heitur
úti vermir sól hól ból og skjól.
Gróður jarðar fer að verða feitur
færist líf á ný í allt sem kól.

Böðvar Guðmundsson

Árið 2003 kom út bókin Krakkakvæði með ljóðum Böðvars Guðmundssonar. Áslaug Jónsdóttir myndskreytti bókina listilega. Myndirnar teygja sig og tengjast á milli síðna og á saurblöðunum er rímleikur. Bæði ljóð og myndir henta einkar vel yngri börnum og börnum á miðstigi. Ljóðin einkennast af hlýju og mikilli kímni sem er undirstrikuð í myndunum. Mörg ljóðin gefa tilefni til heimspekilegra vangaveltna um veröldina og líf manna og dýra hér á jörðinni, til dæmis ljóðin Landafræði handa lengra komnum og Ævintýri frá Austurlöndum.

Á eftir ljóðinu Landafræði handa lengra komnum segir höfundur að þetta sé eiginlega ekki ljóð heldur rímleikur og stingur upp á því að börnin taki þátt í honum. Hann gefur síðan dæmi um hvernig hægt væri að halda áfram með leikinn og nefnir enn fremur að þau megi breyta vísunum „ef einhverjum dettur eitthvað skemmtilegt í hug.“ Það er einmitt alveg upplagt að gefa nemendum tækifæri til þess.

En hér er ljóðið Samkomulag, fyndið, einfalt og myndrænt fyrir yngri börnin og gefur tilefni til umræðna um samskipti:

Á snúrunni dansa í blíðum blænum
buxurnar mínar og þrennir sokkar,
gallar og skyrtur af Nínu og Nonna
og náttfötin okkar.

Þau eru vinir og vefja ermum
og veifa skálmum og finnst svo gaman.
Mikið er skrýtið
að sjá þau svona,
því okkur kemur svo illa saman.

Davíð Þór Jónsson

Ljóðabók Davíðs Þórs Jónssonar Vísur fyrir vonda krakka, sem út kom árið 2004, hefur undirtitilinn með orðskýringum. Því fylgir höfundurinn eftir strax á bókarkápu með tilvísunarmerkjum við orðin vonda og orðskýringum í bókartitlinum. Skýringarnar eru svo neðanmáls og um vonda stendur: „Hér er átt við krakka sem eru ekki eins vel upp aldir og foreldrar þeirra vonuðust til“. Þetta gefur ákveðin fyrirheit um að lesendur geti átt á ýmsu von. Enda er það raunin. Lilja Gunnarsdóttir myndskreytti bókina og myndir hennar eru einstaklega prakkaralegar og undirstrika oft ósvífnina í ljóðunum.

Ljóðin eru bráðfyndin, jafnvel meinleg, og fjalla sum um efni sem einhverjum kann að finnast tabú í ljóðabókum fyrir börn, svo sem ofbeldi, fordóma og dauða. En þar er ekki sneitt að börnum heldur fullorðnum. Það er gert á gamansaman hátt og stundum verður háðið napurt. Það á við ljóð eins og að Ala upp drengi þar sem er fjallað um ofbeldisfullar uppeldisaðferðir og afleiðingar þeirra. Öllu gamni fylgir alvara. Ljóðið vekur bæði börn og fullorðna til umhugsunar og gefur tækifæri til umræðna um mikilvægt málefni sem þó er vandmeðfarið og ætti að undirbúa vel með börnum sem komin eru á miðstig eða unglingastig.

Hið sama á við um ljóðið Þjóðir veraldar. Þar fangar höfundur í beittu háði ýmsar staðalmyndir sem oft heyrast um fólk frá tilteknum löndum eða af tilteknum uppruna. Þar gefast því næg umfjöllunarefni og brýn. Ljóðið hefst á þessum hendingum: „Arabar eru illmenni / sem eyðileggja og brjóta. / Gyðingar eru glæpamenn / sem grýta börn og skjóta.“ Svona heldur ljóðið áfram í sama dúr en endar svo á því að nefna Íslendinga: „Íslendingar eru indælisfólk / og indælastur er ég.“

Gaman er að bera saman ljóðin Þjóðir veraldar og Landafræði handa lengra komnum eftir Böðvar Guðmundsson, sem nefnt var hér að framan, því efni þeirra kallast skemmtilega á þó efnistökin séu ólík. Svo væri líka hægt að hvetja nemendur til að „yrkja upp“ Þjóðir veraldar á svipaðan hátt og Böðvar hvetur til í sínu ljóði.

Hér kemur stutt einfalt ljóð sem leynir á sér og gefur tilefni til að ræða margbreytileika mannlífsins, óskir nemenda og þrár og væntingar þeirra til lífsins:

Lífið

Lærðu að sjá hvað þú þráir og þarft
því það er svo ólíkt sem hver og einn metur
og lífið er kaffi, hvítt eða svart
og kannski með sykri ef þér líkar það betur.

Þýdd ljóð fyrir unglinga

Framboð á ljóðum fyrir börn og unglinga er margfalt meira hjá flestum öðrum þjóðum, meðal annars á Norðurlöndunum, og það er full þörf á því að þýða meira af því efni, einkum ljóð fyrir unglinga.

Ég ætla að nefna að lokum tvær nýlegar þýðingar fyrir unglinga. Í fyrsta lagi er það bók Danans Thorsteins Thomsen Græna slumman og önnur ljóð (2004), sem Þórður Helgason og Michael Dal íslenskuðu. Ljóðið Siggi er negldur í upphafi greinarinnar er úr þeirri bók. Í ljóðum Thomsens birtist sýn unglinga á ýmislegt í veröldinni, en einkum þó það sem næst þeim stendur. Tilfinningar og samskipti skipa þar stóran sess og efnistökin eru oft írónísk, án þess þó að gera lítið úr unga fólkinu.

Í öðru lagi vil ég nefna bók Bandaríkjamannsins Hal Sirowitz Sagði mamma (2006), sem Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson íslenskaði. Ljóðin eru flest lögð í munn móður sem talar við son sinn um ýmislegt er varðar samskipti og hegðun, örfá ljóð eru frá föðurnum. Umfjöllunarefnið er því séð með augum móðurinnar. Það er bæði nýstárlegt og bráðskemmtilegt sjónarhorn sem gaman er að ræða um við unglinga. Eins og í ljóðum Thomsens er mikil írónía í ljóðum Sirowitz. En hann getur leyft sér að vera meira ögrandi af því að sjónarhornið er bundið móðurinni.

Báðir hafa þeir Thomsen og Sirowitz ort mikið fyrir börn og unglinga og þeir voru gestir á barna- og unglingabókahátíðinni Krakkar úti í mýri sem haldin var í Norræna húsinu árið 2006 og var helguð barnaljóðum. Þar tóku þátt fleiri erlendir og íslenskir höfundar sem yrkja fyrir börn og unglinga, meðal þeirra voru þeir Aðalsteinn Ásberg, Böðvar, Davíð Þór og Þórarinn. Það er mikil gróska í þessum skáldskapargeira og brýnt að ljóðin rati til grunnskólabarna og það er meðal annars á ábyrgð kennara að þau geri það.

Ég lýk þessari umfjöllun á eftirfarandi prósaljóði eftir Hal Sirowitz úr bókinni Sagði mamma. Ég geri ráð fyrir að flestir unglingar geti tengt sig við efni þess og það geti skapað fjörugar umræður, enda umfjöllunarefnið sígilt umræðuefni á flestum heimilum þar sem eru unglingar:

Safnarinn

Ég veit að þú segir sálfræðingnum þínum
allar ljótu sögurnar um mig, sagði mamma,
þar sem ég lít út fyrir að vera frekar
ömurleg. En ef hún kæmi einhvern tíma
hingað heim & skoðaði herbergið þitt,
myndi hún líka ætlast til að þú þrifir það.
Synir annarra safna frímerkjum & mynt,
en ég þurfti auðvitað að eignast ryksafnara.
Það hefði ekki verið sem verst ef þú hefðir
geymt safnið þitt undir rúminu, en þú
dreifðir því um allt hús í hvert sinn sem
þú fórst út úr herberginu þínu.

                     (Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson íslenskaði)

Lokaorð

Það er mikilvægt að börn séu leidd inn í ljóðaheim undir leiðsögn kennara sem sjálfir njóta þess að dvelja þar og eru vel að sér um ljóð. Val á ljóðum til kennslu þarf til að byrja með að taka tillit til áhuga nemenda og kennslan á að miðast við að nemendum finnist gaman. Nemendur þurfa leiðsögn um ljóðaheiminn, skref fyrir skref. Þegar líður á skólagönguna eiga þeir svo að kynnast fjölbreyttari ljóðformum og formlegri einkennum ljóða. Börn sem heyra mikið af ljóðum vilja líka mörg hver búa til sín eigin ljóð og það er ekki síður góð leið til að ljúka upp ýmsum leyndardómum og einstökum eiginleikum ljóða. Gleymum því ekki skapandi mætti tungumálsins í þessum efnum, hvetjum börn og gefum þeim góðar og fjölbreyttar fyrirmyndir.
 

Aftanmálsgrein

  1. Þessar þrjár ljóðabækur, Óðfluga, Heimskringla og Halastjarna, voru allar endurútgefnar í einni bók Óðhalaringla árið 2004.


Heimildir

Böðvar Guðmundsson. (2003). Krakkakvæði. Áslaug Jónsdóttir myndlýsti. Reykjavík: Mál og menning.

Cullinan, Bernice E. og Galda, Lee. (1994). Literature and the Child. Fort Worth: Hartcourt Brace College Publishers.

Davíð Þór Jónsson. (2004). Vísur fyrir vonda krakka. Lilja Gunnarsdóttir myndskreytti. Reykjavík: 21 12 kúltúr kompaní.

Eysteinn Þorvaldsson. (1988). Ljóðalærdómur. Athugun á skólaljóðum handa skyldunámsskólum 1901–1979. Rit Kennaraháskóla Íslands. A-flokkur: Rannsóknarritgerðir og skýrslur.

Fisher, Carol J. og Natarella, Margaret A. (1982, desember). „Young Children´s Preferences in Poetry: A National Survey of First, Second and Third Graders.“ Research in the Teaching of English 16: 339–353.

Ingibjörg B. Frímannsdóttir. (2006). Slysaskot í Palestínu – Könnun á ljóðavali keppenda í Stóru upplestrarkeppninni. Hrafnaþing 3: 105–129.

Kolbrún Sigurðardóttir, Sverrir Guðjónsson og Þórdís Mósesdóttir. (1989). Ljóðspeglar. Reykjavík: Námsgagnastofnun.

Kolbrún Sigurðardóttir, Sverrir Guðjónsson og Þórdís Mósesdóttir. (1988). Ljóðspor. Reykjavík: Námsgagnastofnun.

Kolbrún Sigurðardóttir, Sverrir Guðjónsson og Þórdís Mósesdóttir. (1990). Ljóðsprotar. Reykjavík: Námsgagnastofnun.

Kutiper, Karen S. (1985). A survey of the Adolecent Poetry Preferences of Seventh, Eighth and Ninth Graders. Doktorsritgerð í menntunarfræðum (Ed.D). Háskólinn í Houston.

McClure, Amy; Harrison, Peggy og Reed, Sheryl. (1990). Sunrises and Songs: Reading and Writing Poetry in an Elementary Classroom. Portsmouth N. H: Heinemann.

Menntamálaráðuneytið. (2007). Aðalnámskrá grunnskóla. Íslenska. Menntamálaráðuneytið: Reykjavík.

Sirowitz, Hal. (2006). Sagði mamma. Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson þýddi. Reykjavík: Dimma.

Símon Jóh. Ágústsson. (1972). Börn og bækur. Reykjavík: Bókaútgáfa Menningarsjóðs.

Terry, Ann. (1974). Children´s Poetry Preferences. A National Survey of Upper Elementary Grades. Urbana, Illinois: National Council of Teachers of English.

Thorstein, Thomsen. (2004). Græna slumman og önnur ljóð. Þórður Helgason og Michael Dal þýddu. Reykjavík: Iða.

Þórarinn Eldjárn. (2002). Grannmeti og átvextir. Sigrún Eldjárn gerði myndirnar. Reykjavík: Vaka-Helgafell.

Prentútgáfa     Viðbrögð