Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun

Menntavísindasvið Háskóla Íslands

Prentútgáfa greinar birt 31. desember 2010

Greinar 2010

Birna Sigurjónsdóttir

Heildarmat í grunnskólum Reykjavíkur 2007–2010

Í þessari grein verður fjallað um verkefnið Heildarmat á skólastarfi sem hófst fyrir þremur árum á Menntasviði Reykjavíkur. Sagt verður frá undirbúningi matsins í starfshópi sem stofnaður var 2006 og samstarfi við skólastjórnendur í borginni sem tóku þátt í að móta verkefnið. Framkvæmd matsins er lýst og greint frá því hvert þekking og fyrirmyndir hafa verið sóttar. Heildarmatinu er fyrst og fremst ætlað að styrkja og efla skólastarf og stuðla að umbótum. Í kjölfar matsins gera skólastjórar umbótaáætlun sem byggist á niðurstöðum þess og skila henni til fræðslustjóra sem síðan fylgist með framgangi umbótaverkefna í eitt ár á eftir. Greint er frá skólaheimsókn og gagnaöflun í skólanum, mati á gæðum kennslustunda og hvernig það birtist í matsskýrslu skólans. Loks er fjallað um helstu takmarkanir matsins sem felast m.a. í því að heildarmatið er framkvæmt af starfsmönnum aðalskrifstofu Menntasviðs undir stjórn og á ábyrgð fræðslustjóra í Reykjavík.

Birna Sigurjónsdóttir er verkefnisstjóri hjá Menntasviði Reykjavíkur.

Undirbúningur

Haustið 2006 var stofnaður á Menntasviði starfshópur til að undirbúa ytra mat á skólastarfi í grunnskólum Reykjavíkur með þátttöku úr hópi skólastjórnenda í Reykjavík. Í hópnum voru Arthur Morthens, ábyrgðarmaður sérkennslu, Birna Sigurjónsdóttir, verkefnisstjóri grunnskólaskrifstofu sem stýrði starfshópnum, Guðrún Edda Bentsdóttir, verkefnisstjóri grunnskólaskrifstofu, Gunnlaugur Sigurðsson, ráðgjafi um foreldrasamstarf og Hildur Björk Svavarsdóttir, deildarstjóri gagnadeildar. Fulltrúar Skólastjórafélags Reykjavíkur voru tilnefndir Inga Þóra Guðlaugsdóttir, deildarstjóri, Hólabrekkuskóla, Inga Þórunn Halldórsdóttir, skólastjóri Borgaskóla, Guðni Kjartansson, aðstoðarskólastjóri Rimaskóla og Sigríður Heiða Bragadóttir, aðstoðarskólastjóri Ölduselsskóla. Fulltrúar skólastjórnenda unnu mismikið með starfshópnum en allir tóku einhvern þátt.

Gerður G. Óskarsdóttir, þáverandi sviðsstjóri, setti verkefnið af stað enda hafði mat á skólastarfi verið áhersluþáttur í hennar starfi. Má nefna að haldið var námskeið um mat á skólastarfi á Fræðslumiðstöð 1998 og var það hluti af átaki á vegum borgarinnar í bættum stjórnunarháttum í anda gæða- og árangursstjórnunar auk þess sem skólar fengu tilboð um fyrirlestra og ráðgjöf. Í kjölfar þessara námskeiða kom út bæklingurinn Mat á skólastarfi, hvað og hvernig (Gerður G. Óskarsdóttir, 1999).

Starfshópurinn lagði til grundvallar vinnunni samanlagða þekkingu sína á skólastarfi og þá sýn að með mati á skólastarfi megi stuðla að enn betri skóla fyrir öll börn. Fulltrúar Félags grunnskólakennara komu á einn vinnufund hópsins og höfðu þá fengið til yfirlestrar drög að verkferli matsins, komu þeir með ábendingar sem tekið var tillit til, m.a. um kynningu á matinu fyrir öllum starfsmönnum skóla áður en að matsheimsókn kæmi.

Meðal þeirra gagna sem hópurinn sótti þekkingu í var Ofsted – A New Relationship with Schools (2005). Þar er m.a. lögð áhersla á aukna samvinnu við skólastjórnendur við framkvæmd matsins og á tengsl ytra mats við sjálfsmat skólans. Nánar verður vikið að þekkingaröflun hópsins síðar í greininni.

Menntasvið, undir forystu nýs fræðslustjóra, Ragnars Þorsteinssonar, hóf undirbúning að öflugu heildarmati á skólastarfi vorið 2007. Stofnaður var stýrihópur á Menntasviði til að halda utan um verkefnið undir stjórn verkefnisstjóra um mat á skólastarfi, Birnu Sigurjónsdóttur. Í hópnum sitja sérfræðingar sem starfa á aðalskrifstofu Menntasviðs, þeir eru Guðrún Edda Bentsdóttir frá grunnskólaskrifstofu þar sem starfa kennaramenntaðir verkefnisstjórar sem vinna að faglegum stuðningi við grunnskóla, Hildur Björk Svavarsdóttir og Ásgeir Björgvinsson frá tölfræði- og rannsóknarþjónustu Menntasviðs en þar er unnið að könnunum og upplýsingaöflun um skólastarf í borginni og Hildur Sigurðardóttir frá mannauðsþjónustu sem sér um stuðning við skóla í starfsmannamálum. Í hópnum er einnig Una B. Bjarnadóttir kennsluráðgjafi frá Þjónustumiðstöð Laugardals og Háaleitis sem kom inn í hópinn í stað Gunnlaugs Sigurðssonar, ráðgjafa heimilis og skóla.

Matsferlið var prófað í einum grunnskóla borgarinnar sem bauð sig fram til samstarfs. Byggt var á tillögum starfshóps um ytra mat og unnið í samræmi við stefnumótun í starfsáætlun Menntasviðs 2007. Þessi tilraun þótti gefast svo vel að ákveðið var að heildarmat færi fram í sex til sjö grunnskólum á skólaárinu 2007–2008. Markmið matsins hefur frá upphafi verið tvíþætt, annars vegar að efla skólastarf í borginni og hins vegar að veita yfirsýn yfir sterka og veika þætti í framkvæmd menntastefnu borgarinnar.

Lögð hefur verið áhersla á að heildarmatið sé styðjandi við skólastarfið og að dregnir séu fram jákvæðir og sterkir þættir í skólastarfinu um leið og bent er á það sem má gera enn betur. Matið er þannig fyrst og fremst leiðsagnarmat enda aðaltilgangur þess að veita upplýsingar til að bæta þá þjónustu sem skólinn veitir nemendum sínum (Sigurlína Davíðsdóttir, 2008).

Ytra mat sveitarfélaga

Ákvæði um ytra mat sveitarfélaga kemur nýtt inn í lög um grunnskóla 2008. Um það er fjallað í 37. gr., en þar segir: „Sveitarfélög sinna mati og eftirliti með gæðum skólastarfs, sbr. 5. og 6. gr., og láta ráðuneyti í té upplýsingar um framkvæmd skólahalds, innra mat skóla, ytra mat sveitarfélaga, framgang skólastefnu sinnar og áætlanir um umbætur. Sveitarfélög skulu leitast við að fylgja eftir innra og ytra mati þannig að slíkt mat leiði til umbóta í skólastarfi.“

Ytra matið eða heildarmatið, eins og það hefur verið kallað, hófst í borginni áður en þetta ákvæði laganna tók gildi en framkvæmdin er í samræmi við það sem kveðið er á um í lögunum. Reykjavík er fyrsta sveitarfélagið sem tekur upp reglubundið heildstætt mat á grunnskólum, en á fimm árum er áætlað að heildarmat hafi farið fram í öllum grunnskólum borgarinnar.

Framkvæmd heildarmats á skólastarfi

Stefnt er að því að heildarmat fari fram í sex til sjö grunnskólum Reykjavíkur hvert skólaár. Við val á skólum þar sem mat fer fram hverju sinni er kappkostað að þeir dreifist á hverfin og séu ólíkir að stærð og gerð til að þeir endurspegli fjölbreytta skóla borgarinnar.

Stýrihópur um heildarmat undirbýr og framkvæmir matið og fær með sér starfsfólk af Menntasviði eftir samkomulagi hverju sinni. Unnið er eftir ferli heildarmats sem mótað var í starfshópi um mat á skólastarfi sem skipaður var á árinu 2006 og notað var við tilraunaúttekt í skóla á skólaárinu 2006–2007.

Hlutverk stýrihópsins samkvæmt erindisbréfi er að framkvæma ytra mat á skólastarfi. Hópurinn skiptir með sér verkum í gagnaöflun þannig að reyndir kennarar og kennsluráðgjafar sjá um vettvangsathuganir og mat á kennslustundum en aðrir sjá um rýnihópaviðtöl. Stýrihópurinn hittist á vikulegum fundum til að fara yfir verkefnin fram undan og framkvæmd matsins. Auk þess hafa þátttakendur í stýrihópi unnið að þróun matsaðferða og ritað hluta skýrslu og fylgigagna.

Leiðarljós matsins eins og alls skólastarfs í borginni er að: Börnum í borginni líði vel, fari stöðugt fram og þau öðlist uppeldi og menntun fyrir líf og starf.

Stefna Reykjavíkurborgar í menntamálum eins og hún birtist í starfsáætlun Menntasviðs (Stefna og starfsáætlun Menntasviðs Reykjavíkurborgar, 2010) er höfð til viðmiðunar í matinu auk annarra ramma um skólastarf; laga, reglugerða, aðalnámskrár og stefnumótunar borgarinnar í starfsmannamálum og mannréttindamálum.

Markmið matsins er að:

 • Aðstoða skóla í ljósi eigin sjálfsmats til að efla skólastarfið og styrkja innviði skólans

 • Styrkja skólabrag og búa til samhljóm í skólanum

 • Gera góðan skóla betri með markvissri hvatningu í starfi

 • Veita skólayfirvöldum upplýsingar um gæði skólastarfs og hvernig skólar framfylgja stefnu borgarinnar í menntamálum

Fyrst og fremst er lögð áhersla á að matið leiði til umbóta og þess gætt að draga fram styrkleika skólans en hvetja jafnframt til þess að unnið sé með veika þætti. Matinu er ætlað að styrkja skólastarfið og stuðla að því að allir starfsmenn séu að vinna að stefnu skólans, eins og hún hefur verið sett fram í skólanámskrá, og samræmi sé í því hvernig tekið er á málum sem upp koma í samskiptum eða búa til samhljóm í skólanum eins og það er orðað í markmiðum matsins. Jafnframt er skýrt tekið fram þegar matsferlið er kynnt í skólum að matinu er ætlað að veita upplýsingar um hvernig skólarnir standa sig í því að uppfylla þá ytri ramma sem lög og reglugerðir og stefna borgarinnar setur þeim.

Gert er ráð fyrir að allt matsferlið í hverjum skóla taki sex til sjö vikur og viðtöl og vettvangsathuganir fari fram á einni til tveimur vikum innan þess tíma. Þegar komið er að heildarmati í skóla er skólastjóri boðaður á fund með fræðslustjóra og stjórnanda heildarmats. Þar er farið yfir ferlið og framkvæmdina og fyrstu fundir í skóla ákveðnir. Kynning á matinu fer fram á starfsmannafundi í skólanum og er fulltrúum foreldra og þjónustumiðstöðva boðið að sitja fundinn. Þar er sömuleiðis farið yfir ferli matsins, markmið og tilgang og tilhögun skólaheimsóknar.

Skýrslu er skilað til skólastjóra innan tveggja mánaða frá fyrsta fundi með skólastjóra. Mikilvægt þykir að ekki líði langur tími frá skólaheimsókninni þar til skýrsla liggur fyrir og er það til að auka á trúverðugleika og draga úr tilhneigingu til að vísa frá niðurstöðum vegna breyttra aðstæðna á nýrri önn eða nýju skólaári.

Aðferðir við gagnaöflun eru þessar:

 • Viðtöl við stjórnendur og fulltrúa kennara

 • Fundur með stjórn nemendafélags

 • Rýnihópar með millistjórnendum, kennurum, sérkennurum, öðru starfsfólki, fulltrúum foreldra og nemenda

 • Vettvangsathuganir; athugun í skólastofu með gátlista [1]

Farið er yfir gögn frá skólanum, mörg hver með gátlista:

 • Skólanámskrá og starfsáætlun skólaársins

 • Sjálfsmatsskýrslu og umbótaáætlun

 • Heimasíðu skólans

 • Stundaskrár bekkja/árganga fyrir skólaárið

 • Yfirlit yfir valgreinar (kenndar á skólaárinu)

 • Kennsluáætlanir – sýnishorn af yngra, mið- og elsta stigi

 • Sýnishorn af námsmatsblöðum fyrir öll stig

 • Símenntunaráætlun skólans

 • Upplýsingar um öryggisþætti og áhættumat

 • Önnur þau gögn sem skólinn vill leggja fram og varpa ljósi á gæði skólastarfsins.

Gerð er ítarleg skýrsla um hvern skóla þar sem lögð er áhersla á jákvæða þætti og styrkleika skólans. Jafnframt er bent á veikleika. Þess er vænst að skýrslan skapi umræður innan skólans en hún er síðan afhent skólastjórnendum á fundi með fræðslustjóra og fá þeir tækifæri til að lesa hana yfir og koma með sínar athugasemdir áður en gengið er frá lokagerð. Niðurstöður eru kynntar á fundi starfsmanna og er fulltrúum foreldra og fulltrúum frá þjónustumiðstöð boðið að sækja þann fund eins og kynningarfundinn áður. Skýrslan er hugsuð sem vinnuskjal skólans, en jafnframt hefur verið hvatt til þess að hún sé birt á heimasíðu skóla.

Eftir að skýrslu er skilað hefst ferli umbóta og eftirfylgdar sem er nánar lýst síðar í greininni.

Skólaheimsókn

Stýrihópur kemur í skólaheimsókn til að safna gögnum fyrir matið. Í upphafi heimsóknarinnar er kynningarfundur með öllu starfsfólki og einnig fær stýrihópurinn kynningu á skólanum, m.a. með því að gengið er um skólahúsnæðið með skólastjóra. Miðað er við að heimsóknin standi ekki lengur en í viku til tíu daga en á þeim tíma er farið í vettvangsathuganir, tekin viðtöl og haldnir fundir með rýnihópum.

Viðtöl og rýnihópar

Viðtöl eru tekin við skólastjóra og aðstoðarskólastjóra og einn kennara. Um er að ræða hálfopin viðtöl, þar sem spurningarammi liggur til grundvallar. Viðtölin eru tekin upp og afrituð efnislega.

Á sama hátt liggur til grundvallar spurningarammi fyrir rýnihópana. Fjöldi rýnihópa er mismunandi eftir stærð og aðstæðum skóla, einn rýnihópur er með millistjórnendum, tveir til þrír með kennurum, einn með þeim sem starfa að sérkennslu, einn með öðru starfsfólki og einn með fulltrúum foreldra í skólaráði og fulltrúum úr stjórn foreldrafélags. Í stöku tilvikum hefur verið settur upp viðbótarrýnihópur foreldra valinn með tilviljunarúrtaki. Rýnihópar nemenda eru oftast þrír, einn af hverju aldursstigi, yngsta, mið- og unglingastigi. Leitast er við að hafa sem jöfnust kynjahlutföll í rýnihópum nemenda og þeir valdir í samráði við bekkjarkennara.

Í rýnihópum eru sex þátttakendur og stjórnandi og ritari koma frá Menntasviði. Ritari tekur niður helstu niðurstöður sem fram koma í rýnihópnum. Kennarar og starfsmenn eru beðnir að gefa kost á sér í rýnihóp með því að skrá sig til þátttöku. Ef ekki næst að fylla hópinn er skólastjóri beðinn um að leita til kennara eða annarra starfsmanna um að taka þátt. Gögn úr rýnihópum eru m.a. notuð með því að bera þau saman við ýmsar aðrar upplýsingar er sviðið safnar, s.s. viðhorfakannanir starfsmanna, nemenda og foreldra. Leggur þetta grunn að nokkrum köflum skýrslunnar, m.a. um mannauð.

Vettvangsathuganir fara þannig fram að þrír athugendur úr stýrihópi, allt reyndir kennarar og kennsluráðgjafar, skipta með sér að heimsækja skólastofur og bekki eða námshópa eftir stigum. Farið er í heimsókn í alla bekki og reynt að tryggja að fylgst hafi verið með kennslu í öllum námsgreinum a.m.k. í einum árgangi, með þeirri undantekningu að ekki hefur reglulega verið fylgst með íþrótta- og sundkennslu. Í vettvangsheimsóknum er stuðst við gátlista og vettvangslýsingar ritaðar svo fljótt sem auðið er að heimsókn lokinni. Lagt er mat á gæði kennslustunda samkvæmt viðmiðum sem þýdd hafa verið úr ensku og eru notuð af breskum matsyfirvöldum (Ofsted) við mat á kennslustundum. Við ritun vettvangslýsinga er þess gætt að ekki komi fram persónugreinanlegar upplýsingar né viðkvæmar persónuupplýsingar um nemendur eða kennara. Vettvangslýsingar eru afhentar skólastjórnendum sem trúnaðarskjal og bera þeir ábyrgð á að kynna niðurstöður fyrir viðkomandi kennara. Þannig er leitast við að uppfylla skilyrði um meðferð upplýsinga sem fram koma í lögum nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

Mat á gæðum kennslustundar

Viðmiðin sem notuð eru til að meta kennslustundir koma frá bresku matsstofnuninni Ofsted (Office for Standards in Education, Children’s Services and Skills). Voru þau þýdd og staðfærð af stýrihópi um heildarmat.

Tafla 1 – Viðmið um mat á gæðum kennslustundar
Frábær

Kennslustundin telst a.m.k. góð í öllum meginatriðum og til fyrirmyndar í
ákveðnum þáttum sem sést á því að allir nemendur taka greinilegum framförum.

Góð

Flestir nemendur ná árangri vegna góðrar kennslu.

Hegðun er almennt góð og nemendur áhugasamir. Þeir vinna í öruggu og vinsamlegu umhverfi.

Kennslan byggir á öruggri þekkingu á námsgreininni ásamt vel skipulögðum verkefnum sem nemendur fást við.

Verkefnin mæta vel ólíkum þörfum nemenda svo flestir fá verkefni við hæfi.

Kennsluaðferðir eru í samræmi við markmið kennslustundarinnar og þarfir nemenda.

Stuðningsfulltrúar og aðrar bjargir eru vel nýttar og tími vel nýttur.

Mat á verkum nemenda er stöðugt, samræmt og styður við framfarir.

Viðunandi

Kennslustundin telst ekki óviðunandi í neinum meginþáttum og kann að vera góð í sumum þáttum sem kemur fram í því að flestir nemendur njóta stundarinnar og ná fullnægjandi árangri.

Óviðunandi

Kennslustund getur ekki talist viðunandi ef:

Flestir nemendur, eða ákveðinn hluti nemendahópsins, taka ekki nægum framförum.

Almenn hegðun nemenda eða viðhorf eru óviðunandi og ekki virðist vera stuðlað að alhliða þroska nemenda.

Heilsa eða öryggi nemenda er ekki tryggt.

Kennslan er óviðunandi. Óviðunandi kennsla einkennist að öllum líkindum af einu eða fleiru af eftirfarandi:

 • Lítil þekking á námskrá sem leiðir af sér ónákvæmni í kennslu og litlar kröfur til nemenda.

 • Verkefni ríma ekki við fyrri þekkingu nemenda.

 • Bekkjarstjórnun er ábótavant.

 • Aðferðir henta ekki námsmarkmiðum eða ná ekki að vekja áhuga nemenda.

 • Óviðunandi nýting bjarga, þ.m.t. aðstoðarmanna og tímans sem til ráðstöfunar er.

 • Slakt námsmat.


Viðmiðin hafa nýlega verið endurskoðuð með tilliti til helstu athugasemda sem skólafólk hefur gert við þau.

Á Mynd 1 má sjá hvernig upplýsingar um mat á kennslustundum birtast í matsskýrslu skóla.

Mynd 1 Mat á kennslustundum.

Bláa súlan sýnir hvernig kennslustundir í einum skóla skiptast eftir viðmiðum í frábærar (9%), góðar (57%), viðunandi (30%) og óviðunandi (4%). Rauða súlan sýnir niðurstöður í öllum þeim skólum þar sem kennslustundir hafa verið metnar eftir þessum viðmiðum. Vorið 2010 hafa verið metnar rúmlega 320 kennslustundir í tólf grunnskólum í borginni. [2] Þær skiptast þannig að 10% hafa verið metnar frábærar, góðar 54%, viðunandi 32% og óviðunandi 4%.

Vettvangslýsingar og upplýsingarnar um mat á gæðum kennslustunda fara til skólastjóra sem ber ábyrgð á því að kynna kennurum niðurstöðuna og bregðast við ef þörf krefur. Sé kennslustund metin óviðunandi fær skólastjóri upplýsingar um það við fyrsta tækifæri eftir að heimsókn fer fram.

Skýrsla um heildarmat

Til grundvallar skýrslu um heildarmat í skóla liggja þrenns konar gögn. Í fyrsta lagi þau gögn sem verða til við skólaheimsóknina, þ.e. viðtöl, niðurstöður rýnihópa og lýsingar á vettvangsheimsóknum í kennslustundir. Í öðru lagi skrifleg gögn frá skólanum, þ.m.t. skólanámskrá og starfsáætlun skólans sem metnar eru með gátlistum. Þriðja gagnasafnið eru síðan niðurstöður skólans í könnunum, miðlægum skimunum og rannsóknum sem reglulega eru gerðar á skólastarfi í Reykjavík.

Út frá þessum gögnum er skrifaður texti sem lýsir skólastarfinu og lagt mat á starfið samkvæmt viðmiðum um skólastarf, lögum, reglugerðum og stefnu borgarinnar. Niðurstöður eru settar fram í fjórum víddum [3] sem eru þær sömu og í stefnukorti Menntasviðs. Efnisyfirlit lítur þá þannig út:

Skólastarf

 • Nám og kennsla – árangur

 • Stjórnun og skipulag

 • Nemendur og líðan

 • Viðhorf foreldra og þátttaka í skólastarfi

Verklag

 • Fjölbreyttar leiðir í námi

 • Skólaþróun og mat

 • Virk upplýsingamiðlun

 • Öruggt, heilnæmt og vistvænt skólaumhverfi

Mannauður

 • Starfsmenn og líðan

 • Símenntun og starfsþróun

 • Viðhorf starfsmanna til stjórnunar

Fjármál

 • Úthlutun fjármagns og rekstraráætlun

 • Fjárhagsleg staða skólans

Í lok hvers kafla eru ábendingar um stöðu skólans, hvernig hann er að uppfylla markmið og stefnu og hvar þarf að gera betur. Þessar ábendingar eru teknar saman í lok skýrslunnar og út frá þeim birt stutt greining á skólanum, styrkleikum, veikleikum, ögrunum og tækifærum.

Eins og áður hefur komið fram er skýrslunni ætlað að skapa umræður innan skólans og benda á styrkleika skólans en jafnframt eru dregnir fram þættir sem þarfnast úrbóta.

Niðurstöður skýrslunnar eru kynntar skólastjóra þegar þær liggja fyrir og gefst honum tækifæri á að lesa skýrsluna yfir og gera athugasemdir áður en hún er afhent í lokagerð. Skýrslan er síðan kynnt á starfsmannafundi í skólanum og er sömu aðilum boðið að sitja fundinn og áður þegar heildarmatið var kynnt.

Tengsl við sjálfsmat skóla

Heildarmat tengist sjálfsmati skólanna þannig að það tekur til allra sömu þátta skólastarfsins. Í báðum tilvikum er verið að meta hvernig skólinn vinnur eftir markmiðssetningu laga, aðalnámskrár og stefnumótun borgarinnar.

Mynd 2 Tengsl sjálfsmats og heildarmats (Birna Sigurjónsdóttir).

Í skóla þar sem sjálfsmat er formlegt, reglulegt og tekur til allra þátta skólastarfsins er hægt að byggja heildarmatið á niðurstöðum sjálfsmats skólans og velja úr þá þætti sem skoðaðir eru í heildarmatinu. Á sama hátt getur starfsfólk skólans nýtt sér heildarmatið inn í sjálfsmat sitt. Heildarmatið byggist þannig á sjálfsmati skólans og niðurstöður þess nýtast síðan aftur í endurteknu sjálfsmati skólans. Í báðum tilvikum er matið umbótamiðað og gerð er umbótaáætlun þar sem greint er frá hvernig unnið skal með veika þætti og þá þætti sem skólinn vill styrkja enn frekar.

Þetta er þó ekki eins einfalt og það hljómar, skólastjórar hafa haft sjálfsvald til að velja sjálfsmatsaðferðir og þá þætti sem metnir eru hverju sinni. Eitt af því sem bent hefur verið á til að tengja betur sjálfsmat skólans og ytra mat er að matshópur sé samsettur þannig að hluti hans komi úr skólanum og taki þátt í matinu (MacBeath, 1999). Í Essex í Englandi er því t.d. þannig farið að skólastjórnandi úr öðrum skóla í sveitarfélaginu er þátttakandi í matinu og skólaheimsókninni (school review) og matið er unnið í nánu samstarfi við skólann. Sömuleiðis er lögð áhersla á tengsl ytra mats við sjálfsmat skólans í Ofsted – A New Relationship with Schools (2005). Þar segir m.a. að sjálfsmat skólans sé vitnisburður um gæði skólastarfsins sem myndi grunn að ytra mati. Þeir sem vinna við skólann vita meira um starfið en utanaðkomandi aðilar, þeir vita hvernig boðskiptum er háttað og hvernig ákvarðanir eru teknar (Sigurlína Davíðsdóttir, 2008).

Umbætur og eftirfylgd

Skólinn gerir umbótaáætlun sem byggist á niðurstöðum matsins og skilar til fræðslustjóra. Matsþátturinn er þannig á ábyrgð fræðslustjóra en umbótaþátturinn á ábyrgð skólastjóra.

Eftirfylgd felst í því að skóli gerir sér umbótaáætlun á grundvelli niðurstaðna matsins, en umfang og tilhögun eftirfylgdar ræðst að öðru leyti af niðurstöðum matsins. Skólinn getur t.d. fengið ráðgjöf reynds skólastjóra við að koma á breytingum eða komið er á samstarfsneti við styrkan skóla á því sviði sem umbóta er þörf.

Skólinn gerir umbótaáætlun á grundvelli skýrslunnar þar sem gerð er grein fyrir umbótaþáttum, markmiðum, aðgerðum og aðföngum sem til þarf ásamt því hver ber ábyrgð á framkvæmd. Jafnframt eru settir fram mælikvarðar á umbæturnar og árangursviðmið til að meta hvernig til hefur tekist við umbætur og innleiðingu þeirra.

Mynd 3 Gæðahringur, umbótaáætlun (Ragnar Þorsteinsson).

Umbótaáætlun er skilað til fræðslustjóra sex til sjö vikum eftir að niðurstöður heildarmatsins liggja fyrir. Þá er farið yfir það á sameiginlegum fundi skólastjórnenda og stjórnenda á Menntasviði hvort umbætur taka til þeirra þátta sem matsskýrslan bendir á að þurfi að bæta eða efla. Fræðslustjóri samþykkir umbótaþætti í umbótaáætlun og getur óskað eftir nánari útfærslu ef skólinn hefur ekki tekið á þáttum sem koma fram í skýrslunni. Um það bil hálfu ári síðar fara fræðslustjóri og fleiri stjórnendur á Menntasviði í heimsókn í skólann þar sem skólastjóri gerir grein fyrir hvernig umbótaáform hafa gengið eftir. Loks er aftur farið í heimsókn í skólann eftir um það bil ár og þá fyrst lýkur mats- og umbótaferli heildarmatsins. Gert er ráð fyrir að hver skóli sé tekinn út í heildarmati á fimm ára fresti. Þess á milli gera skólar umbótaáætlanir á grundvelli sjálfsmats.

Ráðgjöf – eftirfylgni frá Menntasviði

Eftir að mati er lokið og skýrslan hefur verið afhent skólastjóra er það á ábyrgð hans að leita leiða til úrbóta í veikum þáttum. Flestir skólar vinna að umbótum á þeim þáttum sem gerðar eru athugasemdir við í matinu í samstarfi þeirra sérfræðinga sem í skólanum starfa og þurfa litla eða enga aðstoð utan veggja skólans. Skólinn á kost á ráðgjöf frá sérfræðingum á Menntasviði í kjölfar heildarmatsins, hvað varðar fagleg, fjárhagsleg eða mannauðsmál, óski hann eftir því. Hann getur einnig leitað til þjónustumiðstöðvar hverfisins eftir ráðgjöf. Leitast hefur verið við að kynna matsferlið fyrir deildarstjórum skólaþjónustunnar til að þeir viti hvað í matinu felst og séu tilbúnir að bregðast við beiðni skólans um ráðgjöf, ef til þess kemur. Skólinn getur einnig leitað sér utanaðkomandi ráðgjafar ef hann kýs.

Nokkur dæmi eru um að stjórnendur hafa fengið til liðs við sig skólastjóra sem látið hafa af störfum og fengið frá þeim reglulega ráðgjöf um ákveðin málefni. Skólum hefur einnig verið bent á að nýta sér verkefni, s.s. Byrjendalæsi ef lestrarskimun hefur sýnt slakan árangur nemenda í lestri og mannauðsráðgjafar Menntasviðs hafa stutt markvisst við nokkra skóla í starfsmannamálum að þeirra ósk. Frumkvæði að því að leita sér ráðgjafar, ef með þarf, liggur hjá skólastjóra en því er fylgt eftir af hálfu Menntasviðs að tekið sé á veikum þáttum með því að fylgjast með umbótaverkefnum og framgangi þeirra í ákveðinn tíma eftir að matið fer fram.

Samantekt kynnt í menntaráði

Verkefnisstjóri matsverkefnisins ber ábyrgð á því að kynna niðurstöður mats fyrir skólastjórum og samstarfsaðilum skólans svo og fyrir menntaráði, fræðslustjóra og framkvæmdastjórn Menntasviðs.

Tvisvar á ári er samantekt um niðurstöður tveggja til þriggja skóla kynnt í menntaráði og þá sem trúnaðarmál. Tilgangur kynningarinnar er að upplýsa menntaráð um stöðu skólanna og hvernig þeir framfylgja stefnumótun ríkis og borgar en ekki að ýta undir samanburð milli grunnskólanna.

Þróun ytra mats sveitarfélagsins

Það er án efa mikil breyting í því fólgin fyrir stjórnendur og starfsmenn grunnskólanna í borginni að eiga von á utanaðkomandi matsmönnum í heimsókn til að meta alla þætti skólastarfsins. Óhætt er að segja að viðtökur hafa almennt verið góðar, skólafólkið hefur séð kosti matsins og tekið þá fram yfir gallana eða óþægindin. Ætla má að meðal þess sem hjálpað hefur til að gera innleiðinguna auðveldari sé að áhersla á mat á skólastarfi hafði verið nokkur í símenntun skólastjóra árin áður en heildarmat var tekið upp og þeir því nokkuð vel upplýstir og tilbúnir að taka þátt í þessu verkefni.

Sem dæmi má nefna að í námsferð skólastjóra úr grunnskólum Reykjavíkur til Stokkhólms vorið 2005 heimsótti hluti hópsins matsdeild borgarinnar (Enheten for inspektion og tillsyn), sem er hluti af Menntaskrifstofu hennar, og fékk kynningu á því hvernig staðið er að ytra mati í leik-, grunn- og framhaldsskólum. Þar kom m.a. fram að matsmenn (inspektörer) heimsækja hvern skóla tveir til fjórir saman og dvelja þar í nokkra daga til að kanna hvernig skólar fylgja aðalnámskrá og stefnumörkun borgarinnar. Þeir fara yfir gögn frá skólanum, skoða niðurstöður prófa, leggja spurningalista fyrir nemendur og kennara, gera vettvangsathuganir og eiga samtöl við starfsfólk. Um þetta er fjallað nánar í skýrslu um námsferðina (Birna Sigurjónsdóttir, 2006). Í skólaheimsóknum í sömu námsferð gafst einnig tækifæri til að spyrja skólastjórnendur um reynslu þeirra af matinu og skoða sýnishorn af nýlegum matsskýrslum og umbótaáætlunum skóla.

Vorið 2006 fór hópur skólastjóra úr grunnskólum Reykjavíkur á námskeið til Cambridge á vegum Eastern Leadership Centre. Þar var fjallað um netverk skóla og hvernig samvinna milli skóla getur stutt við skólaþróun. Aðalkennari á námskeiðinu var dr. Dave Anderson, ráðgjafi hjá ELC. Meðal þess sem um var fjallað á námskeiðinu var ráðgjöf, handleiðsla og stuðningur við skóla með það að markmiði að ná fram breytingum. Í framhaldi af námskeiðinu hefur Dave Anderson haldið áfram ráðgjöf við skólastjóra í Reykjavík og jafnframt við þann hóp sem stýrir heildarmati í grunnskólum borgarinnar. Vorið 2007 fór hópur skólastjóra í námsferð til Kaupmannahafnar þar sem m.a. var fræðst um mat á skólastarfi í Helsingjaborg og sérstaklega kynnt fyrir hópnum matstæki sem nefnist Qualis og hefur verið í notkun frá 1997. Matstækið var hannað sérstaklega með skólastarf í huga og nær bæði til starfsfólks, nemenda og foreldra. Ellefu svið skólastarfs eru metin, en þau eru öryggi og vellíðan, ábyrgð nemenda á eigin námi, kennsluaðferðir og hlutverk kennara, þekking og færni, áhrif og þátttaka, skipulag, stjórnun, samskipti, hæfni og gæði, bjargráð og ímynd. Hver skóli fær matsskýrslu og samantekt um sína stöðu á öllum sviðunum og dregnir eru fram styrkleikar og veikleikar og bent á hvaða svið þarfnast úrbóta (Guðrún E. Bentsdóttir, 2007).

Þannig hafa bæði þátttakendur og einnig þeir sem kynnt hafa sér þessar skýrslur fengið grunnupplýsingar um hvernig staðið er að mati á skólum í nágrannalöndum okkar.

Stöðug þekkingaröflun

Þátttakendur í stýrihópnum hafa nýtt tækifæri til símenntunar til þess að afla sér þekkingar sem nýtist í matinu. Áður var nefnt að dr. Dave Anderson hefur verið hópnum til ráðgjafar frá upphafi. Stýrihópurinn fékk síðan tækifæri til þess haustið 2008 að taka þátt í mati á skólastarfi í skóla í Essex á Suður-Englandi dagana 6.–8. október 2008. Um var að ræða blandaðan unglingaskóla (mixed comprehensive school) fyrir nemendur á aldrinum 12–18 ára. Sjálfsmatsskýrsla skólans var notuð sem útgangspunktur matsins og áhersla lögð á að meta hvort starfið í skólanum væri í samræmi við það sem kom fram í sjálfsmatsskýrslunni. Ráðgjafi hafði yfirfarið sjálfsmatsskýrsluna fyrir matsheimsóknina og útbúið samantekt (pre-inspection briefing) um stöðu skólans. Búið var að setja saman matsteymi sem samanstóð af Dave Anderson, sem er leiðbeinandi og ráðgjafi skólans (school improvement partner), aðstoðarskólastjóra skólans, tveimur vönum matsmönnum (annar þeirra yfirmaður skólaþróunardeildar svæðisins) og aðstoðarskólastjóra úr nágrannaskóla.

Hver og einn úr stýrihópi okkar tók þátt í starfi eins matsmanns úr matsteyminu þá tvo daga sem heimsóknin stóð yfir. Hvert matspar fór í bekkjarathuganir að morgninum þar sem gert var ráð fyrir um 30 mínútum í hverja bekkjarathugun. Í hádeginu voru viðtöl við nemendur og starfsfólk og í síðustu kennslulotu dagsins var farið í þrjár bekkjarathuganir. Að lokinni kennslu voru viðtöl við ýmsa starfsmenn skólans og þá gátu kennararnir einnig fengið stuttan fund með matsmanni þar sem farið var yfir mat á kennslu viðkomandi. Við lok fyrri dagsins hittist matshópurinn allur og fór yfir helstu niðurstöður dagsins og lagði línur fyrir næsta dag. Hvert matspar skoðaði ákveðna þætti skólastarfsins, þar á meðal sérhæfingu skólans varðandi kennslu í tæknimennt, stjórnun og hlutverk fagstjóra, hvort nemendur væru öruggir í skólanum, hvort hlustað væri á þá og hvort þeim fyndist gaman í skólanum: einnig var athygli beint að námi og kennslu í stærðfræði og þjónustu við bráðger börn. Í lok heimsóknar sátu matsmenn fund með öllum stjórnendum skólans þar sem fyrstu niðurstöður voru kynntar. Þetta tækifæri sem stýrihópurinn fékk til að vinna með reyndum matsmönnum hefur verið hópnum styrkur í starfi og ómetanleg reynsla. Einnig hefur það leitt til þróunar á matsferlinu, en það var einmitt eftir þessa heimsókn sem tekið var upp markvisst mat á gæðum kennslustunda.

Þrír úr stýrihópnum hafa farið í námsheimsóknir á vegum CEDEFOP [4] sem er Evrópusamstarfsverkefni. Hildur B. Svavarsdóttir fór til Wales í september 2008 í heimsókn þar sem skoðað var mat Estyn (mats- og eftirlitsstofnun Wales) á sérstöku verkefni til að styðja við og bæta gæði skólastarfs á svæðum þar sem félagsleg og efnahagsleg staða nemenda er slæm. Birna Sigurjónsdóttir tók þátt í námsheimsókninni; Monitoring and evaluating education í Brüssel vorið 2009. Markmið heimsóknarinnar var að miðla upplýsingum um hvernig unnið er að mati og eftirliti á skólastarfi í löndum Evrópu og efla samstarf milli þeirra sem starfa á þessu sviði. Þátttakendur voru skólastjórnendur og starfsmenn mats- og eftirlitsstofnana frá átta löndum í Evrópu. Menntaskrifstofa flæmska hluta Belgíu (Department of Education & Training in Flanders) skipulagði dagskrána. Nýendurskoðað matskerfi skóla í flæmska hluta Belgíu var meginefni heimsóknarinnar og fengu þátttakendur ítarlegar kynningar á því. Einnig kynntu þátttakendur fyrirkomulag mats á skólastarfi hver í sínu landi. Hildur Sigurðardóttir tók þátt í námsheimsókn til Frakklands í janúar 2010. Markmið heimsóknarinnar var að kynnast aðferðum við mat og mælingar á framkvæmd skólastefnu og verkefnum í skólastarfi. Kynntar voru sérstaklega nýjar áherslur í franska héraðinu Nantes þar sem yfirvöld gera árangurssamninga við skóla auk þess sem þátttakendur kynntu matsaðferðir frá öðrum löndum Evrópu.

Stefnt að auknum árangri

Heildarmat á starfi grunnskólanna í borginni er eitt af mörgum verkefnum sem unnið er að á Menntasviði með það að markmiði að stuðla að auknum gæðum og árangri. Viðmið um gæði kennslustunda eru væntanlega til þess fallin að auka umræðu og vitund kennara um kennsluhætti og hvað það er sem einkennir góða kennslu.

Unnið er að því á Menntasviði að móta viðmið út frá heildarmatinu um helstu þætti skólastarfsins sem gætu verið skólunum til leiðsagnar um starfshætti og skipulag. Viðmiðin verða unnin út frá lögum um skólastarf, reglugerðum og stefnu borgarinnar.

Fræðslustjóri Reykjavíkur, Ragnar Þorsteinsson, hefur á fundum sínum með stjórnendum grunnskóla í borginni rætt um mikilvægi þess að skilgreina árangur skólastarfs og markvissar leiðir að því að ná auknum árangri. Þar skiptir mestu máli skuldbinding skólastjórans við gæði og árangur, fræðsla og þjálfun kennara í því að mæta þörfum og væntingum nemenda og einnig að foreldrum sé veitt aukin hlutdeild í skólastarfinu. Stefnumótun, skýrir verkferlar og árangursmælingar mynda grunn að stöðugu umbótastarfi. Grunnskólar borgarinnar skila þannig árlega umbótaáætlunum á grundvelli sjálfsmats og heildarmats þar sem skilgreind eru markmið, aðgerðir, mælikvarðar og árangursviðmið sem stefnt er að (Ragnar Þorsteinsson, 2010).

Siðfræði og helstu takmarkanir

Það að heildarmatið er framkvæmt af starfsmönnum aðalskrifstofu Menntasviðs undir stjórn og á ábyrgð fræðslustjóra er bæði kostur og galli. Kostur er að matsmenn þekkja vel til skólanna og skólastarfsins og skólastjórar og starfsmenn skóla þekkja þá. Aftur á móti er galli að stjórnendur og starfsmenn koma væntanlega síður fram með gagnrýni sína á skrifstofuna og samskipti skólanna við skólayfirvöld í Reykjavík. Þetta er þó þáttur sem stundum kemur upp og er þá reynt að gera grein fyrir sjónarmiðum starfsmanna á hlutlausan hátt í matsskýrslu.

Þess er ávallt gætt að matsmenn stígi til hliðar í matinu ef um er að ræða sérstök starfs- eða persónuleg tengsl við skóla eða einstaka starfsmenn hans.

Áhersla er lögð á fyllsta trúnað í allri meðferð gagna og upplýsinga. Einnig er þess gætt eins og kostur er að upplýsingar í matsskýrslu, sem fram koma í rýnihópum, séu ekki rekjanlegar til einstaklinga.

Eins og áður hefur komið fram eru vettvangslýsingar ritaðar þannig að ekki komi fram persónugreinanlegar upplýsingar né viðkvæmar persónuupplýsingar um nemendur eða kennara. Auk þess eru vettvangslýsingar úr skólastofum afhentar skólastjórnendum sem trúnaðarskjal og bera þeir ábyrgð á að kynna niðurstöður fyrir viðkomandi kennara.

Gögnum sem verða til í rýnihópum og viðtölum er eytt að ári liðnu frá því að matið fer fram og meðan á úrvinnslu stendur eru þau geymd á öruggan hátt og aðeins aðgengileg matshópnum.

Lokaorð
Haustið 2010 hefur heildarmat farið fram í tuttugu grunnskólum Reykjavíkur. Hægt er að fullyrða að það hefur almennt mælst vel fyrir og skólastjórnendur nýta niðurstöður til að skapa markvissar umræður meðal starfsmanna um styrkleika og veikleika skólastarfsins. Niðurstöður í matsskýrslu hafa þannig verið nýttar til að gera umbótaverkefni skólanna enn markvissari en áður.

Fræðslustjóri hefur kynnt matsferlið reglulega á fundum með skólastjórum og var það undirbúið í upphafi í samráði við skólastjórnendur í Reykjavík. Skólastjórnendur eru því vel upplýstir um markmið, tilgang og kosti matsins fyrir umbætur í skólastarfi. Mikilvægt er líka að þeir sem vinna að matinu þekkja skólana og milli matsmanna og skólafólksins ríkir almennt gagnkvæmt traust.

Mesta nýjungin fyrir kennara er að fá til sín matsmenn í vettvangsheimsókn til að fylgjast með námi og kennslu í kennslustund og síðan að mat sé lagt á kennslustundina. Kennarar hafa nær undantekningarlaust tekið vel á móti þeim sem koma í vettvangsathuganir enda langflestir stoltir af vinnu sinni með nemendum. Í örfáum tilvikum hafa orðið hnökrar á þessum samskiptum sem síðan hafa verið leystir í samráði við skólastjórnendur á hverjum stað.

Þess er vænst að á fimm árum náist að fara með heildarmat í alla grunnskóla borgarinnar og þar með fáist mikilvæg heildarsýn yfir stöðu skólanna í borginni og hvernig þeim gengur að laga starfið að stefnumótun borgarinnar og viðmiðum um skólastarf sem birtast í lögum og reglugerðum.

Aftanmálsgreinar

 1. Gátlista og fleiri skjöl varðandi heildarmatið er hægt að skoða á heimasíðu Menntasviðs Reykjavíkur undir yfirskriftinni: Mat á gæðum skólastarfs.

 2. Ofangreind viðmið um gæði kennslustunda voru fyrst notuð í lok árs 2008.

 3. Víddir (e. perspectives) eru umgjörð um þá meginþætti sem lögð er áhersla á í stefnumiðuðu árangursmati (e. Balanced Scorecard) sem notað er í Reykjavíkurborg til að setja fram stefnukort og skorkort fyrir starfsemina.

 4. CEDEFOP – the European Centre for the Development of Vocational Training, stofnað árið 1975 – er stofnun á vegum Evrópusambandsins sem hefur það að markmiði að efla og þróa starfsnám í Evrópulöndunum. Á hverju ári býður stofnunin til fjölbreyttra námsheimsókna þar sem móttökulandið kynnir nýbreytni eða fyrirmyndarvinnubrögð og þátttakendur kynna hvernig staðið er að framkvæmd í þeirra heimalöndum í sama verkefni.

Heimildir

A New Relationship with Schools: Improving Performance through School Self-Evaluation. (2005). Ofsted, Department for Education and Skills. Sótt á þessa slóð: http://www.education.gov.uk/publications/eOrderingDownload/1290-2005PDF-EN-01.pdf 

Birna Sigurjónsdóttir (ritstj.). (2006). Ein borg 18 borgarhlutar. Skýrsla um námsferð skólastjóra og starfsmanna Menntasviðs Reykjavíkurborgar til Stokkhólms. Reykjavík: Menntasvið Reykjavíkur.

Gerður G. Óskarsdóttir. (1999). Mat á skólastarfi, hvað og hvernig. Reykjavík: Fræðslumiðstöð Reykjavíkur.

Guðrún E. Bentsdóttir (ritstj.). (2007). Einstaklingsmiðað nám og mat á skólastarfi í Danmörku og Svíþjóð. Námsferð skólastjóra og starfsmanna Menntasviðs til Kaupmannahafnar og Helsingjaborgar 26.–31. mars 2007. Reykjavík: Menntasvið Reykjavíkur.

Lög um grunnskóla nr. 91/2008.

Lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 77/2000.

MacBeath, John. (1999). Schools must speak for themselves. The case for school self-evaluation. London: Routledge.

Menntamálaráðuneytið. (2007). Aðalnámskrá grunnskóla: Almennur hluti. Reykjavík: Menntamálaráðuneytið.

Ragnar Þorsteinsson. (2010). Grundvöllur aukins árangurs. Úr erindi sem flutt var á haustfundi skólastjóra grunnskóla Reykjavíkur í ágúst 2010.

Sigurlína Davíðsdóttir. (2008). Mat á skólastarfi: Handbók um matsfræði. Reykjavík: Hólar.

Stefna og starfsáætlun Menntasviðs Reykjavíkurborgar 2010. (2010). Reykjavík: Menntasvið Reykjavíkur.