Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun

Menntavísindasvið Háskóla Íslands
 

Grein birt 31. desember 2010

Greinar 2010

Ragnar Ingi Aðalsteinsson, Ingibjörg B. Frímannsdóttir
og Sigurður Konráðsson

Hverjir kenna íslensku, hver er menntun þeirra og hver eru tengsl menntunar og starfsöryggis?

Spurningalisti var sendur til allra grunnskólakennara og þeir beðnir að tilgreina hver væri menntunarlegur bakgrunnur starfsréttinda þeirra. Þá voru þeir spurðir hvort þeir hefðu kennt íslensku sem bekkjarkennarar og í framhaldi af því hvort þeir hefðu kennt íslensku sem greinakennarar. Einnig voru kennararnir beðnir að meta getu sína til að kenna íslensku með því að gefa sér einkunn á skalanum 1–10. Svör bárust frá 1033 grunnskólakennurum. Þegar niðurstöðurnar voru skoðaðar kom í ljós að 83,9% allra kennara höfðu kennt íslensku sem bekkjarkennarar og 37,3% allra kennara höfðu kennt íslensku sem greinakennarar. Þegar niðurstöðurnar voru bornar saman kom í ljós að marktækur munur var á milli kennara þegar þeir mátu getu sína til að kenna íslensku; hélst það í hendur við þá menntun sem þeir höfðu fengið. Þeir sem höfðu haft íslensku sem kjörsvið í kennaranámi eða fengið hliðstæða menntun í íslensku treystu sér marktækt betur til að kenna íslensku en aðrir. Þegar skoðað var hverjir höfðu kennt íslensku kom í ljós að stór hluti þeirra sem síst treystu sér til að kenna íslensku, þ.e. gáfu sér lægstar einkunnir, höfðu kennt íslensku.

Höfundar eru kennarar við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Ragnar Ingi Aðalsteinsson er aðjúnkt, Ingibjörg B. Frímannsdóttir lektor og Sigurður Konráðsson prófessor.

Inngangur

Í grein þessari segir frá rannsókn sem gerð var vorið 2009. Sendur var spurningalisti til grunn- og leikskólakennara þar sem reifuð voru nokkur atriði sem oft hefur borið á góma í skólamálaumræðu undanfarinna ára. Hér verður reyndar eingöngu fjallað um grunnskólann; ekki vegna þess að sú umræða hafi á neinn hátt forgang fram yfir umræðu um leikskólann heldur þótti hagræðing í því að beina athyglinni að öðru skólastiginu í einu. Svör leikskólakennara skiluðu gagnmerkum upplýsingum sem fjallað verður um á öðrum vettvangi.

Umræða um skólamál síðastliðin ár hefur verið af margvíslegum toga. Þar má nefna vangaveltur um sjálfsöryggi kennara og trú þeirra á eigin getu sem ótvírætt tengist líðan þeirra í starfi og hefur þar með að öllum líkindum áhrif á kennsluna. Mikið hefur einnig verið rætt um menntun kennara og hvort og þá hvernig sá þáttur hafi áhrif á getu þeirra til að sinna starfinu. Spurningar þær sem hér eru til umræðu beindust meðal annars að þessum þáttum.

Könnunin sneri að íslenskukennslu eingöngu. Kennarar voru meðal annars beðnir að meta eigin hæfni til að kenna íslensku og niðurstöður úr þeim lið bornar saman við upplýsingar um menntunarlegan bakgrunn. Tilgangurinn með þeim þætti könnunarinnar var að leita svara við því hvort menntun kennara tengdist afstöðu þeirra til eigin getu, þ.e. að hve miklu leyti sjálfsöryggi í starfi þeirra sem kenna íslensku í grunnskólum tengist því námi sem þeir hafa að baki. Umfjöllunarefni þessarar greinar er öðru fremur spurningin um tengsl menntunar og starfsöryggis og jafnframt er leitað svara við því hverjir það eru sem kenna móðurmálið og hver menntun þeirra er.

Aðferð

Framkvæmd

Spurningalisti var búinn til með forritinu SurveyMonkey (án ártals). Þetta er forrit sem notað er til að senda spurningalista rafrænt og með því er hægt að fá gögnin inn á formi tölfræðiforritsins Excel, eins og hér var gert. Spurningalistinn var sendur í tölvupósti til félagsmanna í Kennarasambandi Íslands samkvæmt netfangalista þeirra. Fjórum vikum síðar var beiðni um svörun ítrekuð og bárust þá fleiri svör.

Þátttakendur

Spurningalistinn var sendur til u.þ.b. 5000 félagsmanna annars vegar í Félagi leikskólakennara og hins vegar í Félagi grunnskólakennara. Þar er um að ræða alla þá einstaklinga sem eru á netfangalista félagsins. Samkvæmt viðtali við Sesselju Sigurðardóttur hjá Kennarasambandi Íslands er þó nokkur hluti netfanganna óvirkur. Hér verður, eins og fyrr var nefnt, sjónum eingöngu beint að grunnskólakennurum.

Svör bárust frá 1033 grunnskólakennurum, 116 körlum og 912 konum. Fimm svöruðu ekki til um kyn. Þar sem ekki var ljóst hve mörg netföng sem sent var á væru virk, er ekki ljóst hvert svarhlutfallið er, en ef reiknað er út frá heildarfjölda útsendra lista er svarhlutfall 20%. Þar sem þetta er lágt svarhlutfall, var athugað hvort úrtakið væri í aðalatriðum frábrugðið þýðinu. Aldur þátttakenda var borinn saman við upplýsingar frá Hagstofu Íslands (2010) um aldur íslenskra grunnskólakennara. Eins og sést í Töflu 1 er munurinn óverulegur í flestum aldursflokkum. Enginn svaraði úr yngsta og elsta flokknum, en í þýðinu eru mjög fáir í þeim yngsta. Meðalaldur fellur á sama aldursbilið bæði í þýði og úrtaki, eða á bilið 40–49 ára. Bæði í þýði og úrtaki eru mun færri karlar en konur, munur á svörun eftir kyni í þýði og úrtaki var einnig óverulegur.

Langflestir þátttakendur höfðu kennsluréttindi, eða 93,5%. Í þýðinu öllu höfðu 91,2% kennsluréttindi (Hagstofa Íslands, 2010). Munurinn er óverulegur, eða 2,3%. Flestir þátttakenda í úrtaki höfðu fengið réttindi sín frá Kennaraháskóla Íslands, eða 69,6%.

Þar sem úrtakið virðist samhljóma þýðinu í veigamiklum atriðum og er það stórt að staðalvilla verður mjög lítil í útreikningum, var ákveðið að nota það þrátt fyrir lágt svarhlutfall.

Mælitæki

Í könnuninni var spurt um fjölmargt sem viðkemur starfi grunn- og leikskólakennara svo og afstöðu þeirra til eigin starfs og menntunar. Í þessari grein verður aðeins fjallað um nokkra þætti, einkum er snerta undirbúning kennara til að kenna íslensku. Allir þátttakendur voru spurðir um hvert kjörsvið þeirra í náminu hefði verið og á hvaða aldursstigi þeir kenndu. Einnig voru þeir spurðir hvort þeir hefðu kennt íslensku sem grein og hvort þeir hefðu kennt íslensku sem bekkjarkennarar. Þá voru kennararnir beðnir að meta hæfni sína til að kenna hina ýmsu þætti íslenskunnar. Það var gert í formi einkunnar sem kennarar gáfu sér á skalanum 1–10.

Niðurstöður

Í Töflu 2 kemur fram hvaða menntun þeir kennarar hafa sem kennt hafa íslensku sem bekkjarkennarar.


Hér sést að það kemur í hlut kennara af öllum kjörsviðum að kenna íslensku sem bekkjarkennarar. Fram kemur að 87,4% þeirra sem valið höfðu íslensku sem aðalgrein hafa kennt íslensku. Vakin skal athygli á að samkvæmt Töflu 2 hafa 81,9% list- og verkgreinakennara kennt íslensku og sömu sögu er að segja um 68,2% íþróttakennara og 72% heimilisfræðikennara.

Næst var athugað hverjir kenndu íslensku sem greinakennarar, þ.e. í elstu bekkjum grunnskóla. Niðurstöður eru sýndar í Töflu 3.

Hér kemur fram að kennarar af öllum kjörsviðum kenna íslensku sem greinakennarar. Hlutfallið er eðlilega hæst í íslensku, 64,4%, en hitt kemur á óvart hve hlutdeild kennara af öðrum kjörsviðum er mikil. Aftur skal bent á hlut list- og verkgreinakennara, 27,9%, íþróttakennara, 28,9% og heimilisfræðikennara, 12%. Hér eru tölur að vísu lægri en í Töflu 2 enda verið að tala um greinakennslu þar sem verulega reynir á fagþekkingu kennarans.

Kennarar meta eigin kunnáttu

Kennarar voru beðnir að meta kunnáttu sína og færni til að kenna íslensku sem kennslugrein, á kvarðanum 1–10 fyrir hvern undirþátt í íslenskukennslu. Svörin voru greind eftir kjörsviðum þeirra í náminu. Meðaltölin eru sýnd í Töflu 4.

Tafla 3 sýnir að tölfræðilega marktækur munur kom fram þegar spurt var um hæfni til að kenna bókmenntir. Þeir sem töldu sig hæfasta til að kenna bókmenntir voru þeir sem höfðu íslensku sem kjörsvið og þeir sem ekki höfðu getað valið kjörsvið í náminu. [1] Þeir sem töldu sig síst hæfa til að kenna bókmenntir voru þeir sem höfðu íþróttir og heimilisfræði sem kjörsvið. Þegar spurt var um kunnáttu og færni til að kenna íslenska málfræði, kom einnig fram marktækur munur. Munurinn var nákvæmlega eins og fyrr, þeir sem höfðu íslensku sem kjörsvið og hópurinn án kjörsviðs töldu sig hæfasta til slíkrar kennslu, en þeir sem höfðu heimilisfræði og íþróttir töldu sig síst hæfa. Þá var spurt um kunnáttu og færni til að kenna stafsetningu. Munurinn var einnig marktækur þar. Kennarar af almennu sviði og íslenskukennarar töldu sig hæfasta til þessa, en íþrótta- og heimilisfræðikennarar síst hæfa. Þegar spurt var um færni til að kenna ritun, kom enn fram marktækur munur. Enn töldu heimilisfræðikennarar og íþróttakennarar sig síst hæfa, en kennarar af almennu sviði og íslenskukennarar töldu sig best hæfa. Síðast var spurt um talað mál. Munurinn var marktækur. Nú töldu íslenskukennarar og þeir sem höfðu ekki getað valið kjörsvið í námi sínu sig hæfasta en íþróttafræðingar töldu sig síst hæfa. Heimilisfræðikennarar eru í fjórða neðsta sætinu; þar hafa list- og verkgreinakennarar komist niður fyrir þá og raungreinakennarar skotist í næstneðsta sætið. Þannig er svipaður munur eftir kjörsviðum á mati kennara á kunnáttu sinni og færni til að kenna íslensku sem kennslugrein, þegar litið er til allra þátta íslenskunnar samkvæmt hefðbundinni skiptingu.

Umræða

Þegar meðaltöl hvers hóps eru skoðuð kemur í ljós að allir hóparnir gefa sér fremur háa einkunn þegar spurt er um kunnáttu þeirra og færni til að kenna íslensku sem kennslugrein. Freistandi er að líta svo á að ekki sé ástæða til að horfa á tölurnar sjálfar heldur mismuninn milli hópanna. Á skalanum 1–10 er einkunnin 8,0 í hærri kantinum og þykir vel viðunandi tala þegar nemendum er gefin einkunn á prófi. Aftur á móti er ekki víst, svo dæmi sé tekið, þó að kennari gefi sjálfum sér 8,0 í einkunn, þegar hann er beðinn að meta eigin hæfni, að talan gefi rétta mynd af raunverulegri trú hans á eigin getu. Þar getur sitthvað haft áhrif. Munurinn á meðaltölum af þeim einkunnum sem hóparnir gefa sér sýnir miklu fremur raunsanna mynd af því hvort menntun og fagþekking skiptir máli þegar um er að ræða sjálfsmynd kennara.

Þegar gerður er samanburður á Töflu 2 og 3 annars vegar og Töflu 4 hins vegar kemur í ljós að stór hluti þeirra sem síst treysta sér til að kenna íslensku gera það samt. Íþróttakennarar, heimilisfræðikennarar og list- og verkgreinakennarar, svo dæmi séu tekin um þá hópa sem skera sig mest úr, gefa sér miklum mun lægri einkunn en þeir sem hafa íslensku sem kjörsvið. Munurinn er tölfræðilega marktækur. Þeir sem hafa útskrifast af íslenskukjörsviði gefa sér hærri einkunn. Hvað sú einkunn merkir í raun vitum við ekki en ólíklegt er að allir þeir sem hafa útskrifast af kjörsviði íslenskunnar hafi mikla trú á eigin getu. Miklu líklegra er að þar sé trú á eigin getu misjöfn, rétt eins og gengur og gerist og eðlilegt er í hverjum hópi. Þeir sem nefndir voru fyrr, íþrótta-, heimilsfræði- og list- og verkgreinakennarar, gefa sér marktækt lægri einkunn. Af þessu má draga þá ályktun að stærstur hluti þessa síðarnefnda hóps telji sig lítt hæfan til kennslunnar.

Þó svo að tölur um list- og verkgreinakennara, íþróttakennara og heimilisfræðikennara hafi verið dregnar út og skoðaðar sérstaklega skal á það bent að þegar litið er yfir Töflur 2 og 3 kemur í ljós að 83,9% allra kennara kenna íslensku sem bekkjarkennarar og 37,3% kenna hana sem greinakennarar. Af því má ætla að fleiri kennarar en þeir sem tilheyra fyrrnefndum þremur hópum telji sig lítt hæfa til að kenna íslensku, þó að þeir verði að taka það að sér.

Öllum þeim sem þetta lesa ætti að vera ljóst að hér er um alvarlegt mál að ræða. Það skiptir afar miklu máli fyrir skólastarfið að kennarar séu vissir um eigin getu og gangi að starfi sínu fullir sjálfsöryggis og starfsgleði. Kennarar sem taka að sér að kenna fag sem þeir kunna sjálfir ekki til neinnar hlítar og treysta sér misjafnlega til að takast á við eiga á hættu að þreytast og gefast upp að einhverju eða öllu leyti vegna álagsins. Sú staða sem fylgir því fyrir kennarann að eiga að leiðbeina um fag eða fræðigrein sem hann kann illa eða ekki sjálfur er sennilega heldur ekki holl fyrir sjálfsmynd þeirra, með þeim afleiðingum sem það getur haft. Getur hver sem vill ímyndað sér hvaða áhrif það hefur á skólastarf í heild ef mikið er um slíkt innan grunnskólanna auk þess sem benda má á hvernig slíkt orkar á líðan þeirra sem í hlut eiga, bæði kennara og nemenda. Að öllu jöfnu eru kenndar fleiri stundir í íslensku en öðrum námsgreinum. Þeir sem taka að sér íslenskukennslu eyða því lengri tíma með hverjum nemendahópi en kennarar annarra greina, sem þýðir fleiri stundir í vanlíðan báðum megin kennaraborðsins ef sjálfsmyndin er slæm og kennarinn óöruggur um getu sína.

Lokaorð

Í þessari grein hafa verið leidd að því nokkur rök að í grunnskólum hér á landi starfi hópur kennara sem hefur takmarkaða trú á eigin getu. Ekki þarf að eyða löngum tíma í að útskýra hvaða afleiðingar slíkt getur haft fyrir skólastarfið. Í framhaldi af þeim ályktunum sem hér hafa verið dregnar er rökrétt að beina sjónum að þeim stofnunum sem eru í lykilstöðu þegar menntun grunnskólakennara er annars vegar, svo sem Háskólanum á Akureyri og Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Hvernig er hægt að bregðast við þessum alvarlegu vísbendingum? Við því kunna að vera ýmis svör en það mikilvægasta hlýtur þó að vera að halda áfram rannsóknum á þessu sviði og skoða nánar hvort það sem hér hefur verið sett fram eigi við rök að styðjast. Ef sú er raunin, að stór hópur kennara, sem kennir móðurmálið í grunnskólum, hafi veika trú á eigin getu til að skila starfi sínu sómasamlega, hlýtur sú spurning að vakna hvort ein ástæðan sé ekki of lítil áhersla á fagið íslensku, fag sem er þungamiðjugrein í grunnskólum, þegar grunnskólakennarar eru menntaðir til starfs síns. Eðlilegt er að draga þá ályktun að aukin þjálfun og bætt menntun hljóti að skila auknu starfsöryggi og sterkari trú á eigin getu til að inna starfið sómasamlega af hendi.
 

Aftanmálsgrein

  1. Þetta eru trúlega þeir kennarar sem stunduðu nám í Kennaraskólanum þegar námið var á framhaldsskólastigi og ekki boðið upp á val á kjörsviðum.

Heimildir

Hagstofa Íslands. (2010). Grunnskólar. Sótt 27. júlí á slóðina: http://www.hagstofa.is/Pages/79

SurveyMonkey. (Án ártals). SurveyMonkey – The easiest way to get the answers you need. Sótt 21. janúar 2009 á slóðina: http://www.surveymonkey.com

Prentútgáfa     Viðbrögð