Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun

Menntavísindasvið Háskóla Íslands
 

Grein birt 30. desember 2010

Greinar 2010

Helgi Skúli Kjartansson

Veginn og léttvægur fundinn?

Íslenski framhaldsskólinn í evrópskum samanburðartölum

Í greininni rýnir höfundur í ýmsar og ólíkar tölur sem tíðkast að vitna í til marks um það hve algengt sé að ungir Íslendingar ljúki framhaldsskólanámi seint eða aldrei. Misræmi í tölum reynist eiga sér ýmsar skýringar, en vandinn er mjög raunverulegur, alvarleg áskorun sem íslenskt skólakerfi verður að svara. Helgi Skúli Kjartansson er prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.


Á liðnu sumri, föstudaginn 23. júlí 2010, las ég í Fréttablaðinu aðsenda grein (bls. 16, má líka sjá á visir.is) þar sem vísað er í frétt sama blaðs 3. júlí – ég kem nánar að henni síðar – „um nýja íslenska rannsókn sem enn undirstrikar það sem áður hefur fram komið í erlendum könnunum“ um „menntunarstig þjóðar okkar“, og megi af niðurstöðunum ráða að „helmingur Íslendinga mun … ekki stunda neitt frekara skólanám eftir u.þ.b. 16–17 ára aldur sem er allt annað og verra hlutfall en í helstu löndum okkar heimsálfu“.

Íslenski framhaldsskólinn er vissulega hálfgert vandræðabarn, eins og mjög hefur verið til umræðu síðustu árin, meðal annars fyrir það hve margir unglingar hefja þar að vísu nám (aldrei eins margir og einmitt nú) en ljúka seint eða aldrei. En að helmingur ungs fólks hætti í skóla 16–17 ára, það er með svartari lýsingum á þessu ástandi. Ef sú er niðurstaðan úr nýrri könnun, þá er engu líkara en skólasókn sé beinlínis á undanhaldi. Hér er því full ástæða til að skyggnast á bakvið umrædda frétt.

Samtök atvinnulífsins kveðja sér hljóðs

Fyrr um sumarið, nánar til tekið á morgunverðarfundi hinn 16. júní, höfðu Samtök atvinnulífsins kynnt nýútkomið rit sitt: Nauðsynlegar umbætur í fjármálum hins opinbera. Tillögur Samtaka atvinnulífsins (ekki lengur á netinu en textann, sem hér skiptir máli, má finna í yngri gerð skýrslunnar (hér) á sömu blaðsíðum).

Skólamál eru ekki meginatriði í þessari gagnorðu skýrslu en koma þar þó við sögu, meðal annars málefni framhaldsskólans (bls. 25–28). „Brottfall nemenda í framhaldsskóla er allt of mikið og menntunarstig landsmanna 25–64 ára er töluvert undir meðaltali OECD ríkja,“ er haft eftir skýrslu OECD um Ísland 2006 (bls. 25), og er þetta vel þekkt úr umræðu liðinna ára. „Nauðsynlegt er að taka á brotthvarfi nemenda,“ segir síðar, „en um þriðjungur árganga lýkur ekki námi á framhaldsskólastigi“ (bls. 27).

Þetta hlutfall, um þriðjungur, sem lýkur ekki framhaldsskólanámi, styðst væntanlega við OECD-skýrsluna: Economic Survey of Iceland 2006. Menntamálakafli hennar er byggður á sérstakri skýrslu eftir Hannes Suppanz, Adapting the Icelandic Education System to a Changing Environment (Economics Department Working Papers nr. 516 – ECO/WKP(2006)44), OECD september 2006 – sjá hér). Um framhaldsskólastigið er meginniðurstaða Suppanz að „the major issues … are high drop-out rates entailing low attainment rates generally, and for vocational qualifications in particular“ (bls. 17). Hann bregður upp með súluriti (bls. 8) samanburði við OECD-lönd sem sýnir að „those with only compulsory education (more than one-third)“ séu hlutfallslega fleiri á Íslandi en í flestum OECD-löndum, og er þá miðað við fólk 25–64 ára árin 2002 (Ísland) og 2003 (hin). Ísland er á þennan mælikvarða talsvert verr sett en Norðurlöndin, aðeins lakar en meðaltal OECD-landa og þó heldur skár en sum Evrópulönd eins og Holland, Belgía, Frakkland og Austurríki.

Í skýrslu Samtaka atvinnulífsins (bls. 28) er teflt fram áþekku súluriti sem þó sýnir Ísland í talsvert óhagstæðara ljósi. Fyrirsögnin er: „Hlutfall Evrópubúa á aldrinum 20–24 ára sem lokið hafa að minnsta kosti prófi úr framhaldsskóla árin 2000 og 2007.“ Hér er heimildin ekki OECD heldur ESB, Ísland borið saman við 30 önnur Evrópulönd og er á þennan mælikvarða næstlægst, aðeins Tyrkland hóti lægra, en Malta og Portúgal höfðu farið fram úr Íslandi síðan 2000. Hér er það ekki þriðjungur íslenskra ungmenna sem aldrei hefur lokið framhaldsskólaprófi heldur fullur helmingur.

Fjölmiðlar taka undir

Þessi samanburður kom ekki fram í fyrstu fréttum af tillögum Samtaka atvinnulífsins en vakti bráðlega athygli fjölmiðlamanna. Um hann er til dæmis fjallað í útvarpsfrétt 20. júní sem á vef Ríkisútvarpsins (ruv.is) fær fyrirsögnina „Lágt menntunarstig á Íslandi“. Þar segir meðal annars þetta, sem allt má lesa beint út úr súluritinu:

Innan við helmingur Íslendinga á aldrinum 20 til 24 ára hefur lokið framhaldsskólaprófi. Hlutfallið er hvergi lægra á meðal Evrópuþjóða, nema í Tyrklandi.

Opinberar tölur sýna að í einungis fimm Evrópulöndum hafi innan við 70% fólks á aldrinum 20 til 24 ára lokið framhaldsskólanámi. Þetta eru Spánn, Malta, Portúgal, Ísland og Tyrkland. Hlutfallið er innan við 50% hjá Íslandi og Tyrklandi.

Hjá helmingi þjóðanna er hlutfallið yfir 80% og hjá sex þjóðum yfir 90%. Efst á listanum er Króatía, þá koma Noregur, Tékkland, Pólland, Slóvenía og Slóvakía.

Ég heyrði ekki þessa frétt í fyrstu gerð en næstu daga varð ég var við talsverðar umræður á grundvelli hennar, bæði í fjölmiðlum og á vinnustað mínum (Menntavísindasviði Háskóla Íslands), án þess að það fylgdi endilega sögunni hvaða aldursflokka tölurnar tækju til. Mátti fólk þá skilja svo að helmingur íslenskra ungmenna lyki alls ekki framhaldsskólanámi, og væri Ísland á þann mælikvarða verst sett allra Evrópulanda, nema ef telja skyldi Tyrkland. Þetta er þó ekki sú túlkun sem Samtök atvinnulífsins héldu fram, samanber fyrrnefnda staðhæfingu að „um þriðjungur árganga lýkur ekki námi á framhaldsskólastigi“.

Fréttablaðið tók málið til umræðu 3. júlí í fréttinni sem vikið var að hér í upphafi greinar. Reyndar meira en frétt; það var heilsíðu fréttaskýring Kolbeins Óttarssonar Proppé undir fyrirsögninni „Minna menntuð en við héldum“ (bls. 18 – má lesa án myndrita á visir.is). Þar er súlurit Samtaka atvinnulífsins birt (í nýrri grafískri útfærslu en skýringar óbreyttar) og talað við tvo heimildarmenn, menntamálaráðherra og fræðimanninn Kristjönu Stellu Blöndal. Stella greinir þarna frá rannsóknum, sem hún átti hlut að, á námsgengi þriggja árganga, fæddra 1969, 1975 og 1982, sem fylgt var eftir til 24 ára aldurs, það er til ársloka 1993, 1999 og 2006. Það að ljúka ekki prófi úr framhaldsskóla (sem hún nefnir „brotthvarf“ og nær jafnt til fólks sem innritaðist aldrei í framhaldsskóla og hinna sem hurfu frá námi óloknu) segir hún hafa verið „á þessu 13 ára tímabili … mjög svipað eða í kringum 40 prósent nemenda“. Þetta bendir hún á að sé „í mótsögn við þróunina hjá OECD-löndunum þar sem brotthvarf fer minnkandi með árunum. Hér helst það hins vegar stöðugt“. Blaðamaðurinn bætir þó við gagnstæðri athugun sem virðist lesin úr súluritinu góða: „Þó virðist það fara minnkandi, hefur minnkað um 5 prósent frá árinu 2000.“ (Af línuritinu að dæma er breytingin úr tæpum 55% í rúm 50%.)

Ólíkir mælikvarðar

Hér hafa komið við sögu þrír ólíkir mælikvarðar á það hve stór hluti Íslendinga lýkur framhaldsskólanámi:

  1. Hve hátt hlutfall af ungu fólki, 20–24 ára, hafi lokið slíku námi: tæp 50% 2007, rúm 45% 2000.

  2. Hve hátt hlutfall ljúki slíku námi til 24 ára aldurs: um 60% 1993–2006.

  3. Hve hátt hlutfall fólks ljúki einhvern tíma slíku námi: um 2/3. Eða hve hátt hlutfall fullorðinna (25–64 ára) hafi lokið slíku námi: innan við 2/3 2002. Sem sagt nálægt 65%.

Hér eru mælikvarðarnir ólíkir og þess vegna engin furða að tölurnar séu svolítið mismunandi.

Fyrsti mælikvarðinn, sá sem Samtök atvinnulífsins brugðu upp í súluriti sínu og þvílíka athygli vakti í fjölmiðlunum í vor, sýnir Ísland í óhagstæðustu ljósi því að hann speglar í senn tvær takmarkanir framhaldsskólans íslenska, þ.e. hve margir ljúka þar alls engu námi og hve margir ljúka því ekki fyrr en eftir tvítugt. Ólíkt flestum Evrópulöndum, þar sem stúdentsaldurinn er 18 eða 19 ár og sjaldgæft að framhaldsskólanám dragist verulega fram yfir tvítugt, eru algengustu námsbrautir íslenska framhaldsskólans svo langar að fólk lýkur þeim ekki á eðlilegum hraða fyrr en stór minnihluti – þeir sem fæddir eru á fyrstu mánuðum ársins – er orðinn tvítugur. (Þess vegna skiptir máli hvenær ársins könnun er gerð; meira um það síðar). Auk þess er óvenjulega títt á Íslandi að framhaldsskólanemar tefjist í námi, geri hlé á námi eða skipti um námsbraut. Allt þetta veldur því að af 20–24 ára fólki eru óvenju margir á Íslandi sem eiga enn eftir að ljúka sínu framhaldsskólanámi.

Tölurnar fyrir árið 2007, sem súluritið er byggt á, birtust í ritinu Key Data on Education in Europe – 2009 edition sem Hagstofa ESB, Eurostat, gaf út 11. janúar 2010 og nálgast má hér. Þær koma þar í upphafi kaflans „Graduates and Qualification Levels“, bls. 241. Þar segir:

Over 78% of young people in Europe aged 20–24 have successfully completed upper secondary education. In the Czech Republic, Poland, Slovenia and Slovakia this proportion rises to more than 90%. Only Malta, Portugal, Iceland and Turkey have recorded a qualification rate of less than 60%.

Nánar til tekið er hlutfallið fyrir Ísland 49,3%, borið saman við 78,1 fyrir meðaltal 27 ESB-landa, og er sá munur vissulega sláandi. Fram kemur að byggt er á tölum úr samræmdum vinnumarkaðskönnunum, yfirleitt könnunum annars ársfjórðungs, og eru íslensku tölurnar frá 2006 en tölur ESB-landa frá 2007.

Vinnumarkaðskannanir eru úrtakskannanir sem Hagstofan hefur gert lengi, til og með 2002 tvisvar á ári (í fyrra skiptið í apríl, áður en framhaldsskólar útskrifa nemendur sína), en frá 2003 samfellt, tölur þó jafnan flokkaðar eftir ársfjórðungum. Úrtakið er tekið úr aldursflokkunum 16–74 ára, öllum sem lögheimili eiga á Íslandi samkvæmt þjóðskrá, og spurningar lagðar fyrir í síma eftir því sem til næst. Spurt er meðal annars hvaða námi fólk hafi lokið og eru þau svör flokkuð á samræmdan hátt allt frá 1997 eftir staðli sem UNESCO, OECD og Eurostat halda utan um í sameiningu. Réttindanámskeið, sem taka minna en eitt skólaár, teljast ekki með, til dæmis ekki „pungapróf“ fiskimanna, meirapróf bifreiðarstjóra eða réttindanám fyrir stjórnendur þungavinnuvéla. Um vinnumarkaðskannanir gaf Hagstofan út rækilega skýrslu: Vinnumarkaður 2002 (hér) og síðan styttri skýrslur í Hagtíðindum, til dæmis yfirlitsheftið Vinnumarkaður 1991–2009 (Hagtíðindi 95. árg. nr. 31 – Laun, tekjur og vinnumarkaður nr. 8/2010 – stafræn útgáfa hér).

Samanburðartölurnar frá 2000, sem fram koma hjá Samtökum iðnaðarins, þekki ég ekki, en sams konar tölur fyrir 2002 birtust í ESB-skýrslunni Key Data on Education in Europe 2005 (hér). Þar (bls. 309) kemur fram að á Íslandi höfðu 50,1% af aldursflokknum 20–24 ára lokið framhaldsskólanámi borið saman við 76,6% í 25 ESB-löndum. Samkvæmt því hefur hlutfall Íslands síður en svo lagast frá 2002 til 2006, bilið hins vegar breikkað frá hinum Evrópulöndunum. Sú framför, sem Kolbeinn Proppé les úr margnefndu súluriti, ætti þá öll að hafa orðið milli 2000 og 2002. En meira um það síðar.

Til 24 ára eða 20–24 ára

Brotthvarfstölurnar sem Stella Blöndal vísar til eru annars eðlis en þær sem lesa má úr vinnumarkaðskönnunum. Þær eru ekki úrtakstölur heldur er heilu árgöngunum fylgt eftir frá 15 ára aldri (þá teknir með allir sem lögheimili eiga á Íslandi) og til ársloka þegar hópurinn er 24 ára. Unnið er að mestu úr gögnum frá skólunum sjálfum þannig að upplýsingar hljóta að vera sem næst tæmandi, nema helst um þau próf sem einn og einn kann að hafa lokið erlendis. Síðasta árgangskönnunin var unnin á vegum Hagstofunnar og birt í Hagtíðindum: Nemendur og námslok við 24 ára aldur (Hagtíðindi 93. árg. nr. 37 – Skólamál nr. 3/2008 – hér).

Af árganginum 1982, 4352 manns sem fylgt var til ársloka 2006, höfðu 62,1% þá lokið einhverju námi umfram skyldu (og þá yfirleitt einhverju á framhaldsskólastigi; lítill hópur hafði þó lokið námi á viðbótar- eða háskólastigi, til dæmis listnámi, án prófs úr framhaldsskóla). Þetta er sama árið og vinnumarkaðskönnun hafði sýnt sams konar hlutfall sem 49,3% fyrir aldursflokkinn 20–24 ára. Fyrir elsta árganginn, 24 ára, hefði vinnumarkaðskönnunin átt að gefa mjög svipaða niðurstöðu og árgangsrannsóknin og eitthvað lægri fyrir hina. En hefði munurinn átt að vera svona mikill?

Í árgangsrannsókninni (bls. 5) kemur fram á hvaða ári fólk lauk sínu fyrsta framhaldsnámi. Þannig má sjá hve hátt hlutfall hafði lokið námi við 23 ára aldur (í árslok 2005), 22 ára o.s.frv.:

Af meðaltalinu, 53,4%, má strax sjá að reynsla árgangsins 1982 er ekki fjarri niðurstöðu vinnumarkaðskönnunarinnar 2006 um menntunarstig árganganna 20–24 ára. Þar við bætist mikilvægur fyrirvari í árgangsrannsókninni (bls. 6):

Að ljúka námi á framhaldsskólastigi er ekki það sama og að teljast hafa lokið framhaldsskólastiginu … Almennt gildir að við námslok … sem veita aðgang að háskólastigi teljist framhaldsskólastigi vera lokið. Styttri námsleiðir í starfsnámi þykja of stuttar til þess að geta talist til námsloka á framhaldsskólastigi þegar menntunarstaða er metin. Í alþjóðlegum samanburði á menntunarstöðu eru því undanskildar þær námsleiðir í starfsnámi á framhaldsskólastigi sem eru meira en einu ári styttri en námsleiðir til stúdentsprófs í viðkomandi landi. Miðað við fjögurra ára nám til stúdentsprófs hér á landi telst framhaldsskólastigi því ekki lokið eftir námslok af starfsnámsleiðum sem eru styttri en þrjú ár …

Þessi samræmingarregla felur í sér að eins og tveggja vetra námsbrautir teljast ýmist nægja til að „ljúka framhaldsskólastiginu“ eða ekki, allt eftir því hvort nám til stúdentsprófs í sama landi myndi taka tvö eða þrjú ár – eins og í næstum öllum samanburðarlöndunum – eða fjögur eins og á Íslandi. Segja má að þetta skekki samanburðinn Íslandi í óhag. Hins vegar má kalla eðlilegt, í landi þar sem meirihluti ungmenna lýkur námi af fjögurra ára námsbrautum (með stúdentsprófi eða sveinsprófi), að miklu styttra nám teljist frekar áfangi að venjulegum námslokum – að verslunarpróf frá Verzlunarskóla Íslands teljist til dæmis fyrri helmingur af stúdentsnámi frekar en framhaldsskólanám út af fyrir sig.

Hvað um það, einhvern veginn þarf að höggva á svona hnúta til að bera tölur saman milli landa, og af árganginum reynast 164, eða 3,8%, að vísu hafa lokið framhaldsskólanámi en aðeins af námsbraut sem er of stutt til að teljast með „í alþjóðlegum samanburði á menntunarstöðu“ – og þá væntanlega sleppt í tölum Íslands í evrópska samanburðinum. Þar með eru það aðeins tæp 50% af árganginum sem hefðu verið búin að ljúka framhaldsskólastiginu ef athuganir hefðu dreifst á aldursbilið 20–24 ára, rétt eins og vinnumarkaðskönnunin 2006 sýnir.

Auk þess gæti ákveðinn munur stafað af því hvenær ársins athugun er gerð. Þeir sem eru tvítugir við áramót hafa allir fengið eitt tækifæri til að ljúka fjögurra ára námsbrautum, til dæmis með stúdentsprófi, á reglulegum námshraða. Af þeim sem eru hins vegar tvítugir þegar hringt er í þá einhvern tíma á öðrum ársfjórðungi, hafa nokkrir ekkert slíkt tækifæri fengið (hafa átt afmæli eftir áramót og síðan hringt í þá áður en skólum er lokið í maí), margir eitt en sumir líka tvö (hringt í þá eftir að skólum lauk og eiga afmæli síðar á árinu). Áhrifin af þessu velta meðal annars á útskriftartíma skólanna og skal ekki reynt að áætla þau hér en þau gætu væntanlega skýrt eitt prósentustig til eða frá.

Hér er sem sagt hið besta samræmi á milli ólíkra talna. Af 20–24 ára Íslendingum hefur kringum helmingur lokið framhaldsskólanámi (rúmur helmingur ef stystu námsbrautirnar teljast með). Ef aðeins er litið á 24 ára árganginn hækkar hlutfallið upp í 60% (rúmlega eða tæplega eftir því hvaða námsbrautir teljast). Svona var þetta að minnsta kosti á árunum 2002 til 2006 og ekki annað líklegra en að svo sé það enn.

Fullorðnir

Ekki er öll nótt úti þótt fólk sé orðið 24 ára. Af árganginum 1982 voru 334 skráðir í skóla þegar rannsókninni lauk (fyrrnefnd skýrsla, bls. 11), þ.e. 7,7%, og hljóta margir þeirra að hafa lokið námi síðan, auk þess sem einhverjir hafa innritast að nýju eða eiga það jafnvel eftir þótt þeir séu nú að nálgast þrítugt. Sé litið á allar brautskráningar framhaldsskólanna skólaárin 2000–2008 (á vef Hagstofunnar, www.hagstofa.is > Hagtölur > 12. Skólamál > Framhaldsskólar > Brautskráningar á framhaldsskólastigi …), þá eru 28% brautskráðra 25 ára og eldri. Hér er að vísu ekki gerður greinarmunur á þeim sem ljúka sínu fyrsta framhaldsskólanámi og hinum sem bæta við sig hærra prófi eða nýrri námsbraut (til dæmis sveinsprófi en höfðu iðnskólapróf fyrir og jafnvel stúdentspróf). Ef aðeins væri litið á fyrstu brautskráningar væri hlutfallið miklu lægra en þó umtalsvert, sennilega mun hærra en í flestum Evrópulöndum, og á þá menntunarbilið, sem er svo tilfinnanlegt þegar litið er á fólk um og eftir tvítugt, eftir að þrengjast nokkuð þegar á ævina líður.

Um þetta má styðjast við rækilega sundurliðun í fyrrnefndum skýrslum hagstofu ESB, Key Data on Education in Europe, bæði útgáfunni 2005 (bls. 307 og 309) og 2009 (bls. 241 og 242). Þaðan eru  eftirfarandi tölur:

* Ómarktæk tala, sbr. umræðu í meginmáli

Lítum fyrst á tölurnar um Evrópusambandið. Þar er greinilegt, bæði 2002 og 2007, að tölur hækka með hækkandi aldri sem þýðir að það er fremur eldra fólk en yngra sem á sínum tíma hefur ekki fengið menntun á framhaldsskólastigi. Hins gætir minna þótt eldra fólkið hafi haft lengri tíma til að bæta upp menntun sína með skólagöngu á fullorðinsaldri.

Samanburður dálkanna tveggja sýnir breytinguna á fimm árum, frá 2002 til 2007. Allar tölur lækka sem þýðir hærra menntunarstig. Sú breyting skýrist ekki alfarið af því að unga fólkið hafi fengið meiri skólagöngu en það gamla naut á sama aldri. Það er aðeins yngsti aldursflokkurinn 2007 sem er nýr í töflunni; hinir aldursflokkarnir fjórir eru skipaðir fólki sem einnig birtist í tölunum frá 2002. Lítum til dæmis á hópinn 35–44 ára þar sem 25,7% hafa aðeins grunnmenntun. Sá sami hópur birtist líka í dálkinum á undan en var þá fimm árum yngri, 30–39 ára, og skiptist á tvo aldursflokka í töflunni. Menntunarstig hans hefur verið nálægt meðaltali 25–44 ára fólks þannig að 27 eða 28% hafi einungis lokið grunnnámi. En fimm árum seinna hefur þetta hlutfall lækkað í 25,7%. Reyndar fyrir 27 lönd í stað 25; Búlgaría og Rúmenía hafa bæst í hóp ESB-landanna og hafa mjög hátt hlutfall framhaldsskólagenginna (eins og fleiri Austur-Evrópulönd) en aðeins 1/17 af samanlögðum fólksfjölda; án þeirra væri hlutfallið um 25%. Er þá svo að sjá sem 1–2% af aldursflokknum hafi lokið sínu fyrsta framhaldsnámi á þessum virðulega aldri. Hugsanlegt er þó að inn- og útflytjendur breyti hér nokkru, annaðhvort um hlutfallið sjálft (það varðar þá flutning fólks milli ESB og annarra landa) eða mælingu þess (ef spyrjendur kunna ekki nákvæmlega skil á menntun sem innflytjendur hafa tekið með sér úr ólíku menntakerfi).

Dálkarnir fyrir Ísland líta allt öðru vísi út.

Í fyrsta lagi skera þeir sig úr fyrir þrjár mjög háar tölur. Það eru tölurnar sem fyrr var rætt um fyrir aldurflokkinn 20–24 ára, háar vegna þess hve margir Íslendingar ljúka ekki framhaldsskóla fyrr en tvítugir og eldri. Og svo 49,3% fyrir elsta hópinn 2006 en sú tala fær engan veginn staðist. Í þessum hópi eru tíu árgangar, sex sem voru í sama aldursflokki 2002 en fjórir í aldursflokknum fyrir neðan, og hafa þá í mesta lagi um 40% af þessum árgöngum haft ekki meira en grunnmenntun. Nú tapar fólk ekki prófum sem það hefur einu sinni lokið og því á þessi tala ekki að geta hækkað til neinna muna. Hvorki landflótti menntamanna (sem ekki var um að ræða á þessum árum sérstaklega) né aðstreymi ómenntaðra útlendinga gæti hugsanlega haft svo stórfelld áhrif sem einungis kæmu fram hjá fólki kringum sextugt. Misræmi í flokkun eða aðferð gæti varla heldur takmarkast við þennan eina aldursflokk. Líklegasta skýringin er þá einfaldlega prentvilla.

Að þessu slepptu er áberandi hvað tölurnar fyrir Ísland hækka lítið með aldri fólks, miklu minna en fyrir Evrópusambandið. Menntunarstigið um fertugt er ekkert lægra en um þrítugt, og munurinn á fertugum og fimmtugum er varla helmingur af því sem hann er í ESB-löndunum. Hér hljóta tvær skýringar að spila saman: annars vegar að hlutfall þeirra sem ljúka framhaldsskólanámi hafi ekki hækkað eins ört á Íslandi; hins vegar að það sé frekar á Íslandi sem fullorðið fólk drífur sig í nám.

Gjarna vildi maður að síðari skýringin vægi sem þyngst. Hún dygði til þess að skýra hvernig tölurnar haga sér í hvorum dálki fyrir sig. En hvað breytingin frá 2002 til 2006 er lítil, miklu minni en frá 2002 til 2007 í Evrópusambandinu, það er einungis hægt að skýra með því að á Íslandi hafi þeim lítið fjölgað sem luku framhaldsskóla – einmitt eins og Stella Blöndal benti á í Fréttablaðinu. Sjáum til dæmis aldursflokkinn 35–44 ára 2006. Af honum hafa 33,1% aðeins lokið grunnnámi. Fjórum árum áður, þegar sama fólk var 31–40 ára, skiptist það á tvo aldursflokka þar sem 32,6% mældust á sama menntunarstigi. Þarna er engu líkara en 0,5% af fólki á þessum aldri hafi á fjórum árum tapað sinni fyrri framhaldsskólamenntun! Auðvitað hefur það ekki gerst. Hugsanlega kemur hér til greina ólíkt menntunarstig innfluttra og útfluttra. En í þessum tölum þurfa að vera einhverjar skekkjur eða ósamræmi til að þær gefi svigrúm fyrir að umtalsverður fjöldi hafi aukið menntun sína eftir þrítugt, og enn síður eftir fertugt ef aldursflokkurinn 45–54 ára 2006 er borinn saman við 35–54 ára 2002. Það er aðeins í aldursflokknum 25–34 ára sem margir hljóta að hafa lokið framhaldsskólanámi eftir 24 ára aldur. Í þessum aldursflokki er fólk sem hefur orðið 25 ára á árunum 1996 til 2006, og þá líklega (ef marka má árganginn 1982 og svipaðar niðurstöður tveggja eldri árganga) allt að 40% af því sem aðeins hafði lokið grunnnámi. En 2006, þegar þessi hópur var að meðaltali um þrítugt, höfðu lauslega reiknað 5–7% hans verið búin að bæta við sig sínu fyrsta framhaldsskólaprófi, talsvert hærra hlutfall en lesa má úr sams konar tölum ESB-landanna.

Hin skýringin var hér að ofan orðuð þannig „að hlutfall þeirra sem ljúka framhaldsskólanámi hafi ekki hækkað eins ört á Íslandi“ og í ESB-löndum. En hefur það yfirleitt hækkað nokkurn skapaðan hlut?

Jú, einhvern tíma hefur það hækkað. Í tölunum frá 2002 er menntunarstigið heldur lægra hjá þeim sem orðnir eru 45 ára, þ.e. fæddir í síðasta lagi 1957, en ekki er víst að munurinn nái til yngstu árganganna í þeim aldursflokki. Fjórum árum seinna er sami munur sjáanlegur en minni, líklega einkum bundinn við þá sem komnir eru yfir fimmtugt. Stella Blöndal hafði séð lítinn mun á árgöngunum 1969 og 1982. En samkvæmt þessum tölum gætum við þurft að leita miklu lengra til baka til að finna árganga þar sem mun fleiri fóru á mis við framhaldsskólamenntun.

Hér hefur verið fjölyrt um tölur úr vinnumarkaðskönnunum tveggja stakra ársfjórðunga af því að svo vill til að þær hafa verið gefnar út með þessari sundurliðun eftir aldursflokkum. En ef ekki er hirt um aldursskiptinguna, þá má fletta upp á vef Hagstofunnar samfelldum tölum um menntunarstig samkvæmt vinnumarkaðskönnunum í nær tvo áratugi:


Fjöldatölur af vef Hagstofunnar, www.hagstofa.is > Hagtölur > 3. Laun, tekjur og vinnumarkaður >
Vinnumarkaður > Vinnumarkaðurinn eftir kyni, aldri, búsetu og menntun

 

Hér sést þó ákveðin þróun, frá því að 54% höfðu að minnsta kosti framhaldsskólamenntun fyrstu þrjú árin og upp í 63% síðustu þrjú árin. Þróunin felst í því, ef enn er litið á þessi fyrstu og síðustu ár, að fjöldi þeirra sem einungis hafa grunnmenntun stendur í stað en fjölgunin kemur fram meðal hinna sem hafa framhaldsskóla- eða háskólamenntun. Þessi þróun er þó dálítið skrykkjótt, lang-örust frá 2000 (53,6%) til 2003 (61,2%). Á þeim árum á fólki, sem aðeins hefur grunnmenntun, að hafa fækkað um ekki minna en þrettán þúsund, eða sem nemur þremur heilum árgöngum. Fjölgunin kemur hins vegar fram hjá þeim háskólamenntuðu og nemur 16 600 eða 65% fjölgun á þremur árum.

Til þess að þetta gæti gerst hefðu miklu fleiri en venjulega þurft að ljúka prófum, bæði á framhaldsskóla- og háskólastigi, einmitt þessi ár. Auk þess byggist maður við að stúdentsútskriftum fjölgaði þrem–fjórum árum áður en háskólaútskriftum. En engu af þessu er að heilsa, sbr. eftirfarandi Hagstofutölur:


Af vef Hagstofunnar, www.hagstofa.is > Hagtölur > 12. Skólamál > Framhaldsskólar >
Brautskráningar á framhaldsskólastigi …; 12. Skólamál > Háskólar >
Brautskráningar á háskólastigi … eftir prófgráðu … og ári.

 

Þannig virðist óhjákvæmilegt að álykta að hinar skyndilegu breytingar á menntunarstigi, sem lesa má úr vinnumarkaðskönnunum á árunum 2000 til 2003, séu ekki að öllu leyti raunverulegar heldur tengist einhvers konar ósamfellu í gögnum eða úrvinnslu. Þá er ekki heldur að marka þótt súlurit Samtaka atvinnulífsins sýndi nokkra hækkun á menntunarstigi frá 2000.

Auk þess sem tölurnar í töflu 3 eru tortryggilegar í sjálfu sér eru þær í litlu samræmi við aldursflokkuðu tölurnar í töflu 2 sem þó eru runnar frá sömu vinnumarkaðskönnunum. Þar verður ekki séð að neinn verulegur munur sé á menntunarstigi Íslendinga 2002 og 2006 en hér á hlutfall fólks með að minnsta kosti framhaldsskólamenntun að hafa hækkað á þeim árum úr 57,9 í 63,3%. Verður þá að ætla að sú hækkun tengist einkum roskna fólkinu, 55–74 ára, sem í töflu 2 kemur ekki fram eða ekki á marktækan hátt. Þá er hugsanlegt, þó ekki verði það lesið með vissu út úr þessum tölum, að eitthvert ósamræmi sé í meðhöndlun á styttri námsbrautunum, þeim sem eru meira en ári styttri en nám til stúdentsprófs.

Ályktunin er þá sú að niðurstöður vinnumarkaðskannana um menntunarstig gefi ekki traustar og samfelldar upplýsingar yfir lengri tíma, líklega aðeins frá 2003 til 2009. Á þeim tíma hefur háskólamenntuðum vissulega fjölgað. En hlutfall þeirra sem lokið hafa námi að minnsta kosti á framhaldsskólastigi, það hefur hækkað óverulega, um aðeins tvö prósentustig, og þarf sú hækkun ekki að tákna mikið umfram það að af elstu árgöngunum, fæddum um og eftir 1930, sem færast út úr mælingunni við 75 ára aldur, hafi fáir haft slíka menntun.

Niðurstöður

Að það sé fullur helmingur ungra Íslendinga sem aldrei lýkur prófi úr framhaldsskóla, það er oftúlkun á fyrirliggjandi tölum. Nær lagi er u.þ.b. þriðjungur. Af hinum tveim þriðjungunum eru hins vegar býsna margir sem ljúka ekki framhaldsskólanámi fyrr en eftir tvítugt (þar er að nokkru leyti löngum námsbrautum um að kenna, einkum fjögurra ára stúdentsnámi sem er nánast einsdæmi í Evrópu), jafnvel hálfþrítugir eða meir.

Þessi niðurstaða byggist á tölum frá 2006 eða fyrr. Yngri tölur liggja ekki fyrir aldursgreindar. Vinnumarkaðskannanir (tafla 3) benda ekki til umtalsverðrar breytingar á þessu fram til 2009. Vissulega hefur brautskráningum úr framhaldsskólum farið fjölgandi frá því um aldamót, að minnsta kosti fram til 2008 (tafla 4). Slíkar brautskráningar hafa meira að segja verið fleiri en nemur fjölda tvítugra á hverju ári; þar munar 1000–1500 á ári 2004 til 2008 (Hagstofutölur: www.hagstofa.is > Hagtölur > 2. Mannfjöldi > Yfirlit > Miðársmannfjöldi eftir kyni og aldri …). En það hlýtur að liggja í því að æ fleiri ljúki prófi af tveimur námsbrautum (eða fleiri), ekki að þeim fækki sem engu námi ljúka. Skaði er að hafa ekki aðgreindar tölur um fyrstu útskrift (eða fyrstu af að minnsta kosti þriggja ára námsbraut ef menn vilja sleppa stuttu brautunum) nema fyrir einstaka árgang.

Að þriðjungur ungmenna ljúki aldrei framhaldsskólanámi, það hlutfall hefur ekki aðeins haldist óbreytt eða lítt breytt fram á allra síðustu ár, það hafði líka haldist svipað áratugum saman (gæti náð til árganganna sem fæddust kringum 1960 og jafnvel fyrr). Þessi kyrrstaða er í hróplegri mótsögn við þróun flestra ef ekki allra samanburðarlanda, hvort sem miðað er við Evrópu eða OECD. Ástæður þess geta verið ýmsar og ekki allar óhagstæðar fyrir Ísland. Það er til dæmis – eða var að minnsta kosti fram að hruni – kostur en ekki galli við íslenskan vinnumarkað að unglingar, sem á annað borð langaði að hætta í skóla, gátu yfirleitt fengið vinnu, jafnvel mikla vinnu og sæmilega borgaða. Þó er þessi langa kyrrstaða grafalvarleg vísbending um að breytinga sé þörf.

Sú þróun er hins vegar skýr að æ fleiri ljúka háskólanámi og æ stærri hluti fullorðins fólks býr að slíkri menntun (töflur 3 og 4). Af hinum, sem ekki fara í háskóla (eða ekki með árangri), virðist það þá beinlínis vera minnkandi hluti sem lýkur þó að minnsta kosti framhaldsskólanámi, hvort heldur almennu eða sérhæfðu. Íslenski framhaldsskólinn er sem sagt æ meira að sérhæfast sem undirbúningsskóli fyrir háskólanám. Ég kann því illa þegar nemendum mínum, verðandi kennurum, hættir til á síðari árum að tala á víxl um „framhaldsskóla“ og „menntaskóla“ eins og það sé nánast eitt og það sama. En í fullri alvöru er munurinn á þessu tvennu að dofna ár frá ári, framhaldsskólinn að breytast í lítið annað en menntaskóla. Sem er auðvitað hin argasta öfugþróun og í fullri andstöðu við anda fjölbrautakerfisins.

Og hvað þá?

Nú verður framhaldsskólinn styttur, það er að segja bóknámsbrautirnar til stúdentsprófs, þó að styttingin eigi væntanlega eftir að nema eitthvað minna en heilu ári að jafnaði. Sú stytting myndi sjálfkrafa laga eitthvað svolítið þá tölfræði sem nú kemur verst út fyrir Ísland, því að allmargir munu ljúka framhaldsskóla ári yngri en nú. En ekki er líklegt að hún muni ein og sér breyta miklu um þann fjölda sem aldrei lýkur framhaldsskóla. Hún stöðvar ekki þá þróun sem er að breyta framhaldsskólanum í lítið annað en menntaskóla.

Það sem þarf – eins og allir hafa séð lengi og fjölmargir bent á – það er fjölbreyttari framhaldsskóli. Skóli sem hefur verðuga kosti að bjóða, líka þeim nemendum sem eru ekki til þess fallnir að ljúka háskólanámi, eða hafa í bili ekki áhuga á því, eða eru komnir í strand með bóknám unglingastigsins og því ekki líklegir til árangurs í námi sem er beint framhald af því sama nema kröfuharðara. Raunar þyrfti stúdentsnámið að búa við heilbrigða samkeppni, líka um þá nemendur sem út af fyrir sig gætu lokið því vandræðalaust, frá námsbrautum sem gerðu ekki síður kröfur um árangur en höfðuðu til annarra áhugamála og reyndu á aðra hæfileika.

Þetta hafa nú, eins og ég sagði, allir meira og minna vitað og skólarnir vissulega ýmislegt gert til þess að koma til móts við fjölbreyttan nemendahóp. Fram á síðustu ár hefur það þó bersýnilega ekki nægt til þess að hækka útskriftarhlutfall þeirra nemenda sem ekki ljúka stúdentsprófi. Vera má að aðgerðir skólanna nú allra síðustu misseri séu farin að snúa þróuninni við. Auk þess má vera, þegar stytting stúdentsnámsins birtist sem fækkun nemenda á bóknámsbrautum og gerir að minnsta kosti sumum skólunum torvelt að fullnýta aðstöðu sína og kennaralið, að þeir gerist þá enn hugmyndaríkari um þjónustuna við aðra en verðandi háskólaborgara.

Hvernig á sú þjónusta að vera? Verknám?

Verknám er auðvitað ein af þessum lausnum sem allir hafa verið að benda á allan tímann. Raunar svo lengi að sjálft orðið hefur kannski fengið vonleysisblæ. Og þá er bara að finna nýtt. Líkt og Bandaríkjamenn fundu upp CTE – career and technical education eftir að „vocational training“ taldist útjaskað hugtak eftir að mæta svo lengi litlum skilningi (um viðleitnina sem býr að baki CTE sjá til dæmis hér). Verknámi í fjölbrautakerfi vill fylgja sá galli að áfangar, sem sameiginlegir eru mörgum námsbrautum, séu teknir snemma í náminu – en þeir eru einmitt í þeim sömu bóklegu greinum sem svo margir hafa staðfest áhugaleysi sitt á og vangetu í áður en að framhaldsskólanum kemur. Það var þó einn kosturinn við gamla iðnskólakerfið að þar gátu nemendur, sem ekki hafði gengið vel í námi áður, byrjað á að njóta sín við verklegt nám og vinnustaðaþjálfun án þess að láta bóknámsloturnar trufla sig alltof mikið. En fengu þó tækifæri til að skipta um síðar og fara tækniskólaleiðina ef árangur í verknámi glæddi þeim þann áhuga og sjálfstraust að vilja freista framhaldsnáms á tengdu sviði.

Vinnustaðaþjálfun, er það lausnin? Það má skilja á þeim sem halda fram fordæmi Þjóðverja. Víst getur maður til dæmis hugsað sér, nú þegar fjöldinn allur af unglingum vinnur hvort sem er með skóla við ýmiss konar afgreiðslustörf, að þeir ættu kost á námi sem tengdist vinnunni og vinnustaðnum og þar sem allt bóklegt nám væri, að minnsta kosti fyrsta kastið, nátengt daglegri reynslu. Tungumála- og móðurmálsnám tengdist til dæmis umbúðatextum, vöruheitum og vörulýsingum; stærðfræðinámið snerist um verðsamanburð, afslætti og álagningu; samfélagsfræðin um vinnuskipulag, afköst og verkstjórn (síðar kannski kjarasamninga og stéttarfélög); og þar fram eftir götunum.

Eða er lausnin sú að finna og rækta styrkleika hvers og eins? Þá ætti framhaldsskólinn að byrja á stuttum lotum þar sem nemendur mættu leggja til hliðar allt sem þeim hefði að staðaldri gengið illa í. Þess í stað væri þess afdráttarlaust krafist að hver og einn fyndi sér viðfangsefni sem hann hefði áhuga á, gæti einbeitt sér að og sannað fyrir sér og öðrum að hann tæki framförum í. Þegar búið væri að sanna það nokkrum sinnum, þá kæmi kannski að því að bæta sig líka í einhverjum gömlum námsgreinum. Í þess háttar skipulagi þyrfti að opna mikið svigrúm fyrir listir og íþróttir, andlegar og líkamlegar.

Ég veit það ekki. En svo mikið er víst að lausnin er ekki sú, eins og Háskóli Íslands eða málsvarar hans virtust helst boða í sumar þegar þeir höfðu áhyggjur af því hve margir gefist upp í háskólanámi, að gera framhaldsskólann einsleitari, að bóknámsbrautirnar, sem flestir sækja í, séu sem líkastar hver annarri. Nei, framhaldsskólinn þarf að leggja kapp á fjölbreytni, á námsbrautir sem einmitt í upphafi eru eins ólíkar og þarfir og aðstæður nemendanna eru ólíkar. Þarfir samfélags og atvinnulífs, þar á meðal þörfin fyrir undirbúning undir frekara nám, mega ráða meiru þegar á námið líður og nemendur hafa fengið tækifæri til að staðfesta áhuga sinn með því að ná árangri og taka framförum. Af því hvað það er ríkt sjónarmið í námsvali unglinga (eða aðstandenda þeirra) að loka ekki leiðinni að hugsanlegu stúdentsprófi, er nauðsynlegt að sem allra fjölbreyttastar námsbrautir geti verið áfangi að stúdentsprófi (eða ígildi þess; orðið sjálft er kannski varhugavert, og þá af alveg gagnstæðri ástæðu við þá sem fyrr var nefnd um hugtakið verknám). Jafnframt er nauðsynlegt að stúdentsprófið feli í sér dýpkun, knýi nemanda til að velja sér námsgrein eða greinasvið til að læra verulega mikið í. Og þá er bara ekki mikið pláss eftir til að fylla með skylduáföngum í ólíkum námsgreinum. Enda fylgir skylduáföngum sá óhjákvæmilegi galli að í þeim er óraunhæft að krefjast áhuga, einbeitingar og árangurs af stórum hópi ólíkra nemenda. Framhaldsskólinn á einmitt að hafa það umfram skyldunámið að geta krafist áhuga, einbeitingar og framfara. En það verða þá að vera framfarir af ólíku tagi á forsendum ólíkra nemenda. Hitt, að allir verði að taka sömu framförunum, það er ekki framhaldsskóli, það er gamli menntaskólinn.


Prentútgáfa     Viðbrögð