Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun

Menntavísindasvið Háskóla Íslands
 

Ritrýnd grein birt 1. september 2010

Greinar 2010

Guðrún Ragnarsdóttir, Ásrún Matthíasdóttir og Jón Friðrik Sigurðsson

Velferð kennara er lykillinn
að öflugum framhaldsskóla

Rannsókn á starfsánægju og
starfsumhverfi framhaldsskólakennara

Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna starfsánægju, líðan og starfsumhverfi á meðal framhaldsskólakennara á Íslandi. Rannsóknin byggist á gögnum sem safnað var árið 2008 í tengslum við meistaraprófsverkefni Guðrúnar Ragnarsdóttur við Háskólann í Reykjavík. Rannsóknin er megindleg og var gagna aflað með spurningalista um líðan, lífsstíl, starfsánægju, starfsumhverfi og vinnuaðstöðu sem lagður var fyrir framhaldsskólakennara í janúar og febrúar 2008. Svarhlutfall var 87%. Helstu niðurstöður voru að stærstum hluta þátttakenda leið vel og var ánægður í starfi. Flestir voru ánægðir með stjórnunarhætti stjórnenda og nokkuð ánægðir með vinnuaðstöðuna. Tæpur fimmtungur þeirra taldi þó vinnuaðstöðuna ófullnægjandi og um fjórðungur sagðist finna fyrir stoðkerfisvandamálum við eða eftir kennslu. Þeir þátttakendur sem voru óánægðir í starfi voru marktækt óánægðari með laun sín og stjórnunarhætti stjórnenda en þeir sem voru ánægðir. Um helmingur þátttakenda taldi sig vera undir miklu starfstengdu álagi og voru þeir óánægðari í starfi en þeir sem ekki töldu sig vera undir starfstengdu álagi. Tæpur helmingur sagði starf sitt andlega erfitt og voru þeir óánægðari í starfi en þeir sem sögðu það andlega létt. Ekki reyndist vera marktækur munur á starfsánægju þeirra sem fannst starf sitt líkamlega erfitt og þeirra sem fannst það líkamlega létt. Þótt mikill meirihluti þátttakenda segðist vera ánægður í starfi taldi um helmingur þeirra sig vera undir töluverðu starfstengdu álagi sem reyndist hafa áhrif á starfsánægju þeirra. Því er mikilvægt að finna gagnleg úrræði fyrir kennara til að draga úr og vinna gegn streitu í starfi því rannsóknir sýna að andlegt vinnuálag geti leitt til heilsubrests og kulnunar í starfi.

Guðrún Ragnarsdóttir er framhaldsskólakennari og kennslustjóri við Borgarholtsskóla. Ásrún Matthíasdóttir er lektor við Háskólann í Reykjavík og Jón Friðrik Sigurðsson prófessor við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík.
 

Teachers‘ wellbeing is the key to a potent secondary school
A study of job satisfaction and work environment of secondary school teachers

The aim of the study was to look into the job satisfaction, well being and working environment of upper secondary school teachers in Iceland. This study is based on data that was collected in conjunction with a master project by Guðrún Ragnarsdóttir at Reykjavik University. This is a quantitative study using a questionnaire with 145 questions. This represents 87% of the teachers who attended faculty meetings in January and February in 2008 and answered the questionnaire about their well being, job satisfaction, working environment and facilities. Most of the participants reported good job satisfaction, claimed to be content with administrative practices in their schools, and said they were reasonably content with their working facilities. Almost one fifth claimed their working facilities were unsatisfactory and about a quarter reported experiencing muscular-skeletal problems while or after teaching. Participants who reported low job satisfaction appeared to be significantly more discontented with their salaries and the administrative practices in their schools than those who reported good job satisfaction. Almost half of the participants claimed that their job was mentally difficult and they were less satisfied in their job than those who said it was not difficult. About half of the participants reported work related stress and most of the participants worked on job related projects at home. There were not significant differences between the participants who found the job physically difficult and those who did not. Although the majority of the participants reported good job satisfaction, about half of them claimed to be under considerable stress at work. Therefore, it is important to find efficient resources for teachers to minimise and prevent stress. Research has indicated that job related mental strain can result in health problems and burnout.

Guðrún Ragnarsdóttir is an upper secondary school teacher and director of curriculum in Borgarholtsskóli in Reykjavík. Ásrún Matthíasdóttir is an assistant professor at The University of Reykjavík and Jón Friðrik Sigurðsson is a professor at The University of Iceland and The University of Reykjavík.

Inngangur

Kennarar gegna mikilvægu hlutverki í samfélaginu og líðan þeirra, starfsánægja, starfshættir og starfsumhverfi skipta miklu, bæði fyrir þá sjálfa og nemendur. Mikilvægt er að huga vel að þessum þáttum til að efla fagmennsku kennara og innra starf skólanna en þannig má bæta nám og námsumhverfi nemenda.

Tilgangur þeirrar megindlegu rannsóknar sem um verður fjallað í þessari grein var að afla upplýsinga um líðan og starfsumhverfi framhaldsskólakennara og viðhorf þeirra til kennarastarfsins. Markmiðið var ekki síst að afla upplýsinga sem nýta mætti til að bæta starfsumhverfi kennara, líðan þeirra og starfsánægju. Leitast var við að svara eftirfarandi spurningum:

 • Hvernig líður íslenskum framhaldsskólakennurum?

 • Eru framhaldsskólakennarar ánægðir í starfi og hvaða þættir geta haft þar áhrif á?

 • Hvaða þættir í framhaldsskólastarfinu valda framhaldsskólakennurum álagi?

 • Hefur starfstengt álag áhrif á starfsánægju?

Starfsánægja

Hugtakið starfsánægja felur í sér upplifun starfsmanns á því starfi sem hann sinnir, viðhorf hans til starfsins og jákvæðar og neikvæðar tilfinningar gagnvart starfinu. Starfsánægja skiptir augljóslega miklu máli fyrir bæði starfsmenn og vinnuveitendur og margir þættir geta haft áhrif á hana. Einn af þeim er streita. Streita hefur verið skilgreind sem líkamleg eða andleg viðbrögð við skynjaðri ógnun eða atburði sem veldur álagi (Riggio, 2003). Mikilvægt er að bæta líðan einstaklinga og draga úr álagseinkennum með því að hanna vinnustaði og skipuleggja störf þannig að þeir skili sem mestri framleiðni og valdi starfsmönnum eins litlum óþægindum og mögulegt er (Vinnuvistfræðifélag Íslands, 2009).

Starf og líðan

Starfsumhverfi, samskipti á vinnustað og skipulag starfs hafa bein og óbein áhrif á líðan einstaklinga (Herdís Sveinsdóttir, Hólmfríður K. Gunnarsdóttir og Hildur Friðriksdóttir, 2003). Starfstengd streita getur m.a. stafað af (1) skipulagi á vinnustað en þar má nefna umbunakerfi, stjórnun og spennu vegna stöðuhækkana, (2) eiginleikum starfsins eins og vinnuálagi, vinnustaðnum sjálfum, stjórnun og líkamlegum aðbúnaði, (3) menningu á borð við starfsþróun, nýbreytni, traust og heiðarleika og að lokum (4) samskiptum á vinnustað, t.a.m. við yfirmenn og aðra samstarfsmenn (Murphy, 2002). Samkvæmt Evrópsku vinnuverndarstofnuninni, European Agency for Safety and Health at Work (EASHW) er starfstengd streita annað algengasta heilsufarsvandamálið í Evrópu og hrjáir hún um 22% starfsmanna á vinnumarkaði. Ástæðurnar geta m.a. verið félagslegt og andlegt álag vegna starfs, starfsaðstæðna og skipulags á vinnustað. Afleiðingar starfstengdrar streitu geta verið þunglyndi, kvíði, svefnraskanir, þreyta, stoðkerfisvandamál, hjarta- og æðasjúkdómar og minni starfsgeta (Milquet, 2009).

Starfstengd streita getur einnig dregið úr framleiðni fyrirtækja (Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, 2008). Árið 2002 var kostnaðurinn í Evrópu vegna starfstengdrar streitu áætlaður um 20 billjón evra. Áætlað vinnutap vegna streitu er 50–60% af heildarvinnutapi Evrópubúa og talið að streita dragi um 5–10% úr árlegri þjóðarframleiðslu í Evrópu (Milquet, 2009; Milczarek, Schneider og Gonzalez, 2009). Rannsókn sem unnin var af Gallup sýndi að 27% Íslendinga á vinnumarkaði fundu fyrir starfstengdri streitu og 42% sögðust hafa of mikið að gera (Lýðheilsustöð og Vinnueftirlitið, 2008).

Samkvæmt EASHW (Riso, 2007) eru stoðkerfisvandamál algengustu starfstengdu heilsufarsvandamálin í Evrópu og um fjórðungur starfsmanna kvartar undan bakverkjum og 23% undan verkjum í vöðvum. Stoðkerfisvandamál hafa víðtæk áhrif á líkamann og tengjast m.a. vöðvum, beinum, liðamótum og taugum. Flest stoðkerfisvandamál stafa af starfi einstaklinga og starfsumhverfi en skipulag á vinnustöðum hefur mikið að segja um þróun þeirra. Má nefna miklar kröfur í starfi, litla starfsánægju, einhæfni í starfi, tímaskort, lélega stjórnun og lítinn stuðning frá samstarfsmönnum og stjórnendum. Stoðkerfisvandamál geta leitt til fjarveru frá vinnu og læknishjálpar með tilheyrandi kostnaði, lægri tekna starfsmanns, minni framlegðar fyrirtækisins og meiri sjúkrakostnaðar fyrir þjóðfélagið svo eitthvað sé nefnt.

Erlendar rannsóknir á kennarastarfinu

Bresk rannsókn Sheffield, Dobbie og Carroll (1994) á kennurum sem kenna á efri stigum grunnskóla sýndi mikla fylgni á milli starfstengdrar streitu og andlegrar líðanar kennara. Jákvætt samband var á milli streitu í einkalífinu og starfstengdrar streitu. Rannsóknin sýndi jafnframt fram á fylgni milli starfstengdrar streitu og kvíða og svefnleysis og milli starfstengdrar streitu og fjarveru frá vinnu vegna skammtímaveikinda. Rannsókn Pullis árið 1992 sýndi að 2/3 kennara höfðu tekið sér dags leyfi til þess að ráða betur við starfstengda streitu (sjá Sheffield, Dobbie og Carroll, 1994). Einnig hefur komið í ljós að kennarar eru tæplega þrefalt líklegri en aðrir starfshópar til að finna fyrir þunglyndi að teknu tilliti til félags- og lýðfræðilegra breyta (Eaton, Anthony, Mandel og Garrison, 1990).

Samkvæmt rannsókn Dunlop og Macdonald (2004), sem gerð var á leik-, grunn- og framhaldsskólakennurum, kom fram að um 13% þátttakenda sögðu heilsu sína slæma. Þeir kennarar sem sögðu heilsu sína góða voru flestir að hefja starfsferil sinn. Um 30% þátttakenda voru óánægðir í starfi og voru karlar óánægðari en konur. Þeir sem sinntu stjórnunarstarfi voru ánægðari í starfi en almennir kennarar. Um helmingur þátttakenda hafði íhugað að hætta kennarastarfinu. Þeir kennarar sem voru með meiri starfsreynslu voru samkvæmt Dunlop og Macdonald (2004) óánægðari en þeir sem voru búnir að vinna skemur og þeir sem voru óánægðir í starfi voru líklegri til að meta heilsu sína slæma. Tæplega helmingur (44%) þátttakenda taldi kennarastarfið mjög streituvaldandi. Þeir sem fundu fyrir starfstengdri streitu voru líklegri til að vera óánægðari í starfi en þeir sem ekki fundu fyrir henni og þeir sem fundu fyrir mikilli streitu í starfi voru líklegri til að vera heilsulitlir. Einnig var fylgni á milli þess hvort kennarar þjáðust af sjúkdómum og hversu mikla streitu þeir upplifðu í starfi. Rúmlega þrír fjórðu hlutar kennara töldu andlega streitu hafa áhrif á vellíðan og 90% þátttakenda sem starfað höfðu lengur en fimm ár töldu starfstengda streitu hafa aukist með árunum (Dunlop og Macdonald, 2004).

Íslenskar rannsóknir á kennarastarfinu

Fáar rannsóknir hafa verið gerðar á starfsánægju og starfsumhverfi framhaldsskólakennara á Íslandi. Meira er um rannsóknir á líðan leik- og grunnskólakennara. Í skýrslu um könnun á líðan og vinnuumhverfi 320 starfsmanna í leikskólum Reykjavíkur árið 2000 kom fram að þátttakendur voru flestir ánægðir með starf sitt en fannst það líkamlega og andlega erfitt. Nánast allir þátttakendur (94%) fundu fyrir óþægindum frá stoðkerfi og tengdu það vinnuálagi í 70% tilfella, í 60% tilfella eigin líkamsbeitingu og í 43% tilfella vinnuaðstöðunni (Berglind Helgadóttir, Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, Hólmfríður K. Gunnarsdóttir, Kolbrún Ósk Hrafnsdóttir, Kristinn Tómasson, Svava Jónsdóttir og Þórunn Sveinsdóttir, 2000). Herdís Sveinsdóttir, Hólmfríður K. Gunnarsdóttir og Hildur Friðriksdóttir (2003) gerðu rannsókn á heilsufari, líðan og vinnuumhverfi 600 kvenkennara í Félagi grunnskólakennara árið 2001. Meginniðurstöður þeirrar rannsóknar voru þær að almennt virtust konurnar ánægðar í starfi og töldu sig heilsuhraustar. Þær sögðu flestar andlega og líkamlega líðan sína mjög góða. Tveimur þriðju fannst kennarastarfið líkamlega fjölbreytt og einum þriðja fannst það líkamlega erfitt. Um 11% þátttakenda voru líkamlega úrvinda eftir vinnudaginn og rúmlega fjórðungur (27%) kennara taldi sig sjaldan eða aldrei geta ráðið vinnuhraða sínum. Kennurum fannst almennt auðvelt að samræma einkalíf (fjölskylduna) og kröfur vinnunnar en þeim fannst kröfur vinnunnar stangast á við kröfur einkalífsins í 40% tilvika. Í nýlegum rannsóknum á íslenskum grunnskólakennurum (Anna Þóra Baldursdóttir, 2002; Anna Þóra Baldursdóttir og Valgerður Magnúsdóttir, 2007a; Anna Þóra Baldursdóttir og Valgerður Magnúsdóttir, 2007b) sögðust kennarar finna fyrir miklu vinnuálagi. Í rannsókn Önnu Þóru Baldursdóttur (2002) hugðust 65% þátttakenda ætla að hætta kennslu og töldu aga- og hegðunarvandamál nemenda vera aðalálagsþáttinn í kennarastarfinu. Rannsóknin sýndi jafnframt fram á að áhugi, árangur og vellíðan nemenda væri helsti hvatinn í kennarastarfinu. Rannsókn Önnu Þóru Baldursdóttur og Valgerðar Magnúsdóttur (2007a) sýndi að vinnugleði hafði aukist frá rannsókn Önnu Þóru (2002) og að mat kennara á þeim þáttum sem ollu mesta álaginu í kennarastarfinu hafði breyst á milli ára, frá vinnuálagi og kjörum yfir í tímaskort, en rúmlega 70% þátttakenda hugðust þó ætla að hætta kennslu. Í grein Önnu Þóru og Valgerðar (2007b) um sömu rannsókn kom fram að stærstum hluta þátttakenda fannst skilgreindur vinnutími ekki duga fyrir þá vinnu sem þeir þurftu að leggja fram. Niðurstöðurnar bentu einnig til þess að góð samskipti, umbun, vinnuálag í hófi og samræmt gildismat kennara og skóla leiddi af sér betra starfsumhverfi.

Rannsókn sem gerð var á meðal tæplega 10.000 ríkisstarfsmanna árið 2006 sýndi að um 80% svarenda voru ánægðir í starfi og var munurinn lítill eftir kyni, aldri, menntun og stofnun (Ómar Hlynur Kristmundsson, 2007a). Starfsánægja virtist tengjast þáttum í starfsumhverfi, eins og góðri aðstöðu til að þroskast í starfi, að yfirmenn meti starfið að verðleikum auk ánægju með vinnuaðstöðu, og góðum starfsanda. Framhaldsskólakennarar voru almennt jákvæðir gagnvart starfsumhverfi sínu samanborið við aðra ríkisstarfsmenn þegar horft var á þætti eins og starfsánægju, starfsanda, stjórnun, þátttöku, áhrif og starfsþróun. Í heildina virtust um 88% framhaldsskólakennara ánægðir í starfi og 82% þeirra fannst starfsandi innan skólanna góður. Langstærsti hluti framhaldsskólakennara, eða 68%, áleit gott jafnvægi ríkja milli vinnu og einkalífs, 64% fannst þeir ráða miklu um það hvernig kennarastarfið var unnið, 63% töldu sig almennt vera undir miklu vinnuálagi og 35% fundu fyrir streitu í starfi (Ómar Hlynur Kristmundsson, 2007b).

Aðferð

Þátttakendur: Leitað var eftir þátttöku allra kennara í 30 framhaldsskólum á Íslandi, þ.e. skólum sem brautskrá nemendur með stúdentspróf. Tveir skólameistarar höfnuðu því að könnunin yrði lögð fyrir og því tóku kennarar í 28 skólum úr öllum landshlutum þátt. Samtals svaraði 901 kennari könnuninni, þar af voru 400 (44,4%) karlar og 473 (52,5%) konur en 28 (3,1%) þátttakendur gáfu ekki upp kyn sitt.

Svarhlutfallið var 87% þeirra kennara sem mættu á kennarafund daginn sem könnunin var lögð fyrir eða um 53% af skráðum félagsmönnum í Félagi framhaldsskólakennara (FF) (2009). Tafla 1 sýnir aldursdreifingu þátttakenda í rannsókninni og aldursdreifingu íslenskra framhaldsskólakennara (Hagstofa Íslands, 2008).
 

Mælitæki: Spurningalisti var saminn sérstaklega fyrir þessa rannsókn með hliðsjón af þremur innlendum spurningalistum (Guðrún Ragnarsdóttir, 2008) og var hann forprófaður af átta framhaldsskólakennurum. Spurningalistinn samanstóð af 145 spurningum sem var ætlað að spanna flesta þætti er snerta líðan, viðhorf, starfsumhverfi og starf framhaldsskólakennara. Spurningalistinn var mjög viðamikill og er fjallað ítarlega um hann og þá lista sem stuðst var við í meistararitgerð Guðrúnar Ragnarsdóttur (2008) við Háskólann í Reykjavík. Í þessari grein verður fjallað um svör þátttakenda við átta spurningum; um starfsánægju, vinnuaðstöðu, álag og erfiðleikastig kennarastarfsins, sjá viðauka.

Framkvæmd: Félag framhaldsskólakennara lagði rannsókninni lið með því að veita aðgang að tengslaneti sínu við trúnaðarmenn skólanna og fara þess á leit við þá bréfleiðis að leggja spurningarlistann fyrir á kennarafundi og safna þeim saman að útfyllingu lokinni. Rannsakandi hafði samband, bréfleiðis og símleiðis, við trúnaðarmenn um fyrirlögn.

Spurningalistinn var í flestum tilvikum lagður fyrir þátttakendur á kennarafundi á starfsdögum skólanna í upphafi vorannar 2008. Í fjórum skólum var ekki hægt að nýta kennarafund til að svara listanum og var honum þá dreift með öðrum hætti, s.s. í hólf kennara. Fyrirlögn átti sér stað frá 4. janúar til 15. febrúar 2008. Lögð var áhersla á að hafa spurningalistann ópersónugreinanlegan og litið var á hvert svar sem samþykki fyrir þátttöku. Rannsóknin var samþykkt af Vísindasiðanefnd (nr. 07–148) og tilkynnt til Persónuverndar.

Niðurstöður

Langstærstur hluti þátttakenda sagði líðan sína góða. Alls töldu 775 (89%) þátttakendur líkamlega líðan sína góða, 794 (91%) andlega líðan sína góða og 793 (92%) félagslega líðan sína góða. Að meðaltali gáfu þátttakendur starfsánægju sinni einkunnina 8,0 (sf=1,4) þar sem 1 er mjög lítil starfsánægja og 10 mjög mikil starfsánægja, en 55 (6%) þátttakendur gáfu starfsánægju sinni einkunnina 5 eða lægri.

Flestum (695, 82%) þátttakendum líkaði vel við stjórnunarhætti stjórnenda skólans sem þeir störfuðu við og reyndist starfsánægja þeirra marktækt meiri en þeirra sem ekki líkaði við stjórnunarhætti stjórnenda (8,2 stig að meðaltali á móti 7,1 stigi (t (185,3) =7,6, p<0,001)).

Flestir þátttakenda (789, 94%) töldu vinnuandann á vinnustaðnum góðan og reyndist starfsánægja þeirra marktækt meiri en þeirra sem ekki töldu hann góðan (8,1 stig að meðaltali á móti 6,5 stigum (t (51,0) =6,2, p<0,001)).

Einn af hverjum tíu (103, 11,9%) þátttakendum sagðist hafa verið áreittur í vinnunni og starfsánægja þeirra reyndist vera marktækt minni en þeirra sem ekki höfðu verið áreittir í vinnunni (7,4 stig að meðaltali á móti 8,1 stigum (t (114,0) = –3,5, p<0,001)).

Um fjórðungur þátttakenda (220, 26%) sagðist vera ánægður með laun sín og reyndist starfsánægja þeirra marktækt meiri en þeirra sem ekki voru ánægðir með laun sín (8,4 stig að meðaltali á móti 7,8 stigum (t (466,6) =6,5, p<0,001)).

Þátttakendur gáfu vinnuaðstöðunni einkunnina 7,1 (sf=2,0) að meðaltali á kvarðanum frá einum og upp í tíu og tæpur fimmtungur (165, 19%) gaf vinnuaðstöðunni einkunnina 5 eða lægri. Fylgni á milli starfsánægju þátttakenda og ánægju þeirra með vinnuaðstöðuna reyndist vera 0,4 (p<0,001).

Eins og sjá má í töflu 2 þá fannst flestum (766, 88%) þátttakendum oft eða alltaf hægt að vinna í þægilegum vinnustellingum við störf sín. Um fjórðungur (204, 23%) þátttakenda fann þó oft eða alltaf fyrir stoðkerfisvandamálum við eða eftir kennslu.
 

Af þeim 204 (23%) sem fann oft eða alltaf fyrir stoðkerfisvandamálum við eða eftir kennslu taldi tæpur helmingur (86, 42%) ástæðuna vera eigin líkamsbeitingu og venjur. Um þriðjungur (67, 33%) taldi ástæðuna andlegt vinnuálag og aðeins færri (57, 28%) merktu við líkamlegt vinnuálag, 38 (17%) þátttakendur töldu vinnuaðstöðuna vera ástæðuna og um einn fimmti (45, 22%) merkti við valmöguleikann annað. Hver þátttakandi gat merkt við fleiri en eitt atriði.

Tafla 3 sýnir að þátttakendum fannst framhaldsskólakennarastarfið mun erfiðara andlega en félagslega og líkamlega. Um tíunda hverjum þátttakanda fannst starf sitt vera erfitt líkamlega (91, 10%) og félagslega (96, 11%). Tæplega helmingi þátttakenda (373, 43%) fannst kennarastarfið andlega erfitt. Starfsánægja þeirra sem fannst framhaldsskólakennarastarfið erfitt andlega reyndist vera marktækt minni en þeirra sem fannst það andlega létt (7,6 stig að meðaltali á móti 8,4 stigum (t (613) = 6,7, p<0,001)) og starfsánægja þeirra framhaldsskólakennara sem fannst kennarastarfið félagslega erfitt var marktækt minni en þeirra sem fannst það félagslega létt (7,2 stig að meðaltali á móti 8,2 stigum (t (113,7) = 4,9, p<0,001)). Ekki reyndist marktækur munur á starfsánægju þeirra þátttakenda sem fannst framhaldsskólakennarastarfið líkamlega erfitt og þeirra sem fannst það líkamlega létt.
 

Mikill meirihluti (763, 87%) þátttakenda vann vinnutengd verkefni heima. Tafla 4 sýnir að rúmur helmingur (463, 53%) fann fyrir álagi við yfirferð verkefna og álíka mikill fjöldi (473, 54%) fann fyrir álagi við úrvinnslu námsmats. Tæplega helmingur (432, 49%) þátttakenda fann fyrir álagi í kennslustundum, rúmlega helmingur fann fyrir álagi við yfirferð verkefna (463, 53%) og tæplega helmingi þátttakanda fannst vinnuálagið vera ójafnt og verkefnin hlaðast upp (378, 44%). Í öllum tilvikum er marktækur munur á milli meðaltala þegar skoðað er hvort neðangreindir álagsþættir í starfi kennarans hafi áhrif á starfsánægju kennara, (sjá töflu 4). Þeir kennarar sem eru sammála því að finna fyrir fyrrgreindum álagsþáttum við vinnu sína eru óánægðari í starfi en þeir sem eru því ósammála.

Umræða

Megintilgangur þessa hluta rannsóknarinnar var að kanna þætti í starfsumhverfi framhaldsskólakennara, líðan þeirra og starfsánægju. Niðurstöðurnar gefa vísbendingar um á hvern hátt álagsþættir í starfi framhaldsskólakennara hafi áhrif á starfsánægju þeirra. Góð svörun framhaldsskólakennara og góð dreifing skólanna á landsvísu gerir það að verkum að hægt er að alhæfa niðurstöðurnar yfir á þýðið.

Líðan

Niðurstöðurnar leiddu í ljós að langflestum framhaldsskólakennurum líður vel andlega, líkamlega og félagslega, eða níu af hverjum tíu sem tóku þátt. Í könnun Herdísar Sveinsdóttur o.fl. (2003) á kvengrunnskólakennurum komu fram svipaðar niðurstöður þar sem flestir þátttakendur sögðu andlega (81%) og líkamlega líðan (76%) sína mjög góða.

Starfsánægja, starfsandi og stjórnunarhættir

Þátttakendur voru almennt ánægðir í starfi og einungis innan við 10% þátttakenda gáfu starfsánægju sinni einkunnina 5 og undir. Rannsókn Dunlop og Macdonald (2004) á breskum leik-, grunn- og framhaldsskólakennurum sýndi fram á að þriðjungur þátttakenda reyndist vera óánægður í starfi, ólíkt því sem kemur fram í þessari rannsókn, en hafa ber í huga að í þessari rannsókn er einungis framhaldsskólastigið til umfjöllunar. Mikil starfsánægja framhaldsskólakennara í þessari rannsókn er í samræmi við niðurstöður nýlegrar rannsóknar Ómars Kristmundssonar (2007a) á ríkisstarfsmönnum, en í þeirri rannsókn reyndust langflestir framhaldsskólakennarar ánægðir í starfi, eða tæplega níu af hverjum tíu. Niðurstöður þessara tveggja rannsókna hljóta því að teljast góðar fyrir íslenska framhaldsskólakerfið og í raun merkilegar í ljósi þess að aðeins um fjórðungur þátttakenda hér á landi sagðist vera ánægður með laun sín og fjórir af hverjum tíu sögðu kröfur kennarastarfsins stangast á við kröfur einkalífsins.

Í rannsókn þessari um líðan og starfsumhverfi framhaldsskólakennara kom fram að þátttakendur, sem töldu vinnuandann slakan, höfðu orðið fyrir neikvæðu áreiti og voru óánægðir með laun sín og stjórnunarhætti stjórnenda, voru ekki eins ánægðir í starfi og hinir sem sáttari voru við þessa þætti í starfsumhverfi sínu. Þetta er í samræmi við hugmyndir Riggio (2003) um áhrif streitu á starfsánægju. Mikilvægt er að viðhafa jákvæða og uppbyggjandi stjórnunarhætti, draga úr neikvæðu áreiti á vinnustöðum og efla starfsanda til að viðhalda og bæta starfsánægju framhaldsskólakennara.

Starfsánægja og starfstengt álag

Í þessari rannsókn fannst tíunda hverjum þátttakanda kennarastarfið líkamlega erfitt og starfsánægja þeirra var sú sama og hjá þeim þátttakendum sem fannst kennarastarfið líkamlega auðvelt. Svipuðu hlutfalli framhaldsskólakennara fannst sjaldan eða aldrei hægt að vinna í þægilegum vinnustellingum. Þrátt fyrir þetta fann tæplega fjórðungur þátttakenda fyrir stoðkerfisvandamálum við eða eftir kennslu. Tæpur helmingur þess hóps taldi það stafa af eigin líkamsbeitingu eða venjum. Þetta sýnir að mikilvægt er að huga vel að ráðgjöf um líkamsbeitingu og vinnustellingar framhaldsskólakennara. Einnig töldu mjög margir ástæðuna vera andlegt og líkamlegt vinnuálag. Þátttakendur voru ekki eins ánægðir með vinnuaðstöðuna og þeir voru ánægðir í starfi og reyndist sterk fylgni milli starfsánægju þátttakenda og ánægju þeirra með vinnuaðstöðuna.

Mikill munur er á upplifun grunn- og framhaldsskólakennara á því hvort þeim finnst kennarastarfið líkamlega erfitt. Niðurstöður Herdísar og félaga (2003) sýndu að um þriðjungur grunnskólakennara taldi kennarastarfið vera líkamlega erfitt á móti tíundahluta í þessari rannsókn um framhaldsskólakennara. Þessar niðurstöður gefa því til kynna að störf grunnskólakennara séu líkamlega erfiðari en störf framhaldsskólakennara. Áhugavert væri að gera frekari rannsóknir á starfsumhverfi kennara og bera saman skólastigin því mikilvægt er að hlúa vel að starfsumhverfi kennara til að draga úr starfstengdum heilsufarsvandamálum (Milquet, 2009; Milczarek, Schneider og Gonzalez, 2009).

Í þessari rannsókn kom einnig fram að tæpum helmingi þátttakenda fannst starfið andlega erfitt og svipaður fjöldi fann fyrir álagi í starfi. Starfsánægja þeirra sem fannst kennarastarfið andlega erfitt og þeirra sem fundu frekar fyrir álagi við kennslu var lakari en hjá þeim framhaldsskólakennurum sem fannst starfið andlega létt og fundu ekki fyrir álagi við kennslu. Þetta eru svipaðar niðurstöður og komu fram í rannsókn Dunlop og Macdonald (2004) á breskum leik-, grunn- og framhaldsskólakennurum. Í þeirri rannsókn reyndust þó mun fleiri eða þriðjungur þátttakenda óánægður í starfi.

Um helmingur þátttakenda í þessari rannsókn taldi sig vera undir töluverðu álagi við vinnu sína eins og fram hefur komið. Álagið tengdist fyrst og fremst yfirferð verkefna og úrvinnslu námsmats, en einnig fundu þátttakendur fyrir miklu álagi í kennslustundum og við undirbúning kennslu. Rannsóknin sýndi jafnframt fram á að þessir álagsþættir hafa áhrif á starfsánægju framhaldsskólakennara. Þeir kennarar sem fundu fyrir þessum álagsþáttum voru marktækt óánægðari í starfi en þeir sem töldu sig ekki finna fyrir þeim. Rannsókn Ómars Kristmundssonar (2007a) á íslenskum framhaldsskólakennurum leiddi í ljós að rúmur þriðjungur þátttakenda fann fyrir streitu í starfi. Huga þarf að þeim þáttum í starfsumhverfi kennara sem auka á vellíðan þeirra og starfsánægju til þess að bæta gæði kennslunnar. Mikilvægt er að finna gagnleg úrræði fyrir kennara til að draga úr og vinna gegn streitu í starfi því rannsóknir sýna að andlegt vinnuálag getur leitt til heilsubrests og kulnunar í starfi (Dunlop og Macdonald, 2004; Eaton o.fl., 1990; Milquet, 2009; Murphy, 2002; Milczarek, Schneider og Gonzalez, 2009; Sheffield, Dobbie og Carroll, 1994).

Tæplega helmingi þátttakenda fannst vinnuálagið ójafnt og verkefnin hlaðast upp og svipuðu hlutfalli fannst kröfur vinnunnar stangast á við kröfur einkalífsins sem samræmist könnun Herdísar Sveinsdóttur o.fl. (2003) á kvengrunnskólakennurum. Þar kom fram að 44% þátttakenda fannst kröfur vinnunnar stangast á við kröfur fjölskyldunnar. Gagnlegt væri að fá upplýsingar um hvernig kennarar glíma við andstæðar kröfur starfs og einkalífs og eru ánægðir í starfi á sama tíma.

Lokaorð

Umræða um skólaþróun snýst oft um nemendur með áherslu á nám þeirra og líðan. Mikilvægt er að efla þann þátt enn frekar en um leið að hlúa vel að kennurum og starfsumhverfi þeirra. Upphaf þess er upplýst og fagleg umræða um kennarastarfið í takt við nýjar kröfur og breytt hlutverk kennara. Kennarar sjá um menntun ungs fólks og uppeldi ósjálfráða nemenda í samvinnu við heimili þeirra og í því felst mikil ábyrgð og áskorun. Starf þeirra er flókið, margbreytilegt og ögrandi og hefur víðtæk samfélagsleg áhrif. Starfsánægja kennara er ein af forsendum árangursríks skólastarfs og ætti því starfsánægja að skila sér á jákvæðan hátt út í samfélagið. Mikilvægt er því að gefa gaum að vinnuálagi kennara, sérstaklega þeirra sem ekki líður vel í starfi.

Helstu veikleikar þessarar rannsóknar felast í því að um spurningalistakönnun er að ræða sem aðeins var lögð fyrir kennara sem mættu á kennarafund í sínum skóla. Hugsanlegt er að óánægðir kennarar mæti síður á kennarafundi en þeir sem ánægðir eru. Þá sá rannsakandi sjálfur ekki um fyrirlögn listanna heldur tengiliðir í hverjum skóla eftir leiðbeiningum rannsakanda. Styrkleikar rannsóknarinnar felast aftur á móti í háu svarhlutfalli, góðri dreifingu á staðsetningu framhaldsskólanna á landsvísu og hversu vel aldursdreifing þátttakenda endurspeglar aldursdreifingu allra framhaldsskólakennara samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands (2008).

Heimildir

Anna Þóra Baldursdóttir. (2002). Kennarar og kulnun. Uppeldi og menntun 11, 171–190.

Anna Þóra Baldursdóttir og Valgerður Magnúsdóttir. (2007a). Líðan kennara í starfi – vinnugleði eða kulnun. Uppeldi og menntun, 16(1), 73–92.

Anna Þóra Baldursdóttir og Valgerður Magnúsdóttir. (2007b). Jákvætt starfsumhverfi kennara – aukin vinnugleði. Uppeldi og menntun, 16(2), 29–44.

Berglind Helgadóttir, Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, Hólmfríður K. Gunnarsdóttir, Kolbrún Ósk Hrafnsdóttir, Kristinn Tómasson, Svava Jónsdóttir og Þórunn Sveinsdóttir. (2000). Könnun á heilsufari, líðan og vinnuumhverfi starfsfólks á leikskólum í Reykjavík [skýrsla]. Reykjavík: Vinnueftirlitið.

Dunlop, C. A. og Macdonald, E. B. (2004). The teachers health and wellbeing study Scotland. Glasgow: University of Glasgow.

Eaton, W. W., Anthony, J. C., Mandel, W. og Garrison, R. (1990). Occupations and the prevalence of major depressive disorder. Journal of Occupational Medicine, 32, 1079–1087.

Félag framhaldsskólakennara. (2009). Félag framhaldsskólakennara. Sótt 10. nóvember 2009 af http://ff.ki.is/?PageID=196.

Guðbjörg Linda Rafnsdóttir. (2008). Staðreyndir um vinnustreitu. Reykjavík: Vinnueftirlitið. Sótt 27. apríl 2008 af http://www.vinnueftirlit.is/vinnueftirlit/is/flytileidir/frettir/?ew_0_a_id=205517.

Guðrún Ragnarsdóttir. (2008). Líðan og starfsumhverfi framhaldsskólakennara. Óbirt meistararitgerð: Háskólinn í Reykjavík, Kennslufræði- og lýðheilsudeild.

Hagstofa Íslands. (2008). Hagtölur. Sótt 15. mars 2008 af http://hagstofan.is/Hagtolur/Skolamal/Framhaldsskolar.

Herdís Sveinsdóttir, Hólmfríður K. Gunnarsdóttir og Hildur Friðriksdóttir. (2003). Heilsufar, líðan og vinnuumhverfi kvenkennara. Reykjavík: Rannsóknarstofnun í hjúkrunarfræði.

Lýðheilsustöð og Vinnueftirlitið. (2008). Ráðleggingar um heilsueflingu á vinnustöðum. Reykjavík: Prentmet ehf.

Milczarek, M., Schneider, E. og Gonzalez, E. R. (2009). OSH in figures: stress at work — facts and figures (European risk observatory report nr. 9). [Vefútgáfa]. Luxembourg: European Agency for Safety and Health at Work.

Milquet, J. (2009). National strategy for well-being at work 2008–2012. An initiative from Deputy Prime Minister and Minister for Employment. Sótt 24. október 2009, af http://osha.europa.eu/en/organisations/EN%20Strategie%20nationale%20DEF%2024-11-08%20Belgium.pdf.

Murphy, L. R. (2002). Stress Management. Í O‘Donell, M. P. (ritstj.) Health promotion in the Workplace (3. útg.), 389–414. Albany: Delmar Thomson Learning.

Ómar Hlynur Kristmundsson. (2007a). Könnun á starfsumhverfi ríkisstarfsmanna. Reykjavík: Fjármálaráðuneyti.

Ómar Hlynur Kristmundsson. (2007b). Vinnuumhverfi framhaldsskóla. Könnun á starfsumhverfi ríkisstarfsmanna 2006. Fyrirlestur fluttur í tilefni formannafundar Félags framhaldsskólakennara 14. september 2007.

Riggio, R. E. (2003). Introduction to industrial/organizational psychology (4. útg.). Upper Saddle River, New Jersey: Pearson Education.

Riso, S. (2007). The impact of work changes on the resurgence of musculoskelital problems. Magazine of the European Agency for Safety and Health at Work. Ligthen the load, 10, 3–7. Sótt 15. mars 2010 af http://osha.europa.eu/en/publications/magazine/10.

Sheffield, D., Dobbie, D. og Carroll, D. (1994). Stress, social support, and psychological and physical wellbeing in secondary school teachers. Work and stress, 8(3), 235–243.

Vinnuvistfræðifélag Íslands. (2009). Vinnuvistfræði. Sótt 10. október 2009 af http://vinnis.is/Forsida/UmVinnIs/Vinnuvistfraedi/.
 

Viðauki

Þær spurningar sem notaðar voru úr spurningalistanum um líðan og starfsumhverfi framhaldsskólakennara:

 1. Hver er starfsánægja þín á skalanum 1–10 þar sem 1 er lítil starfsánægja og 10 er mikil starfsánægja?

 2. Hversu ánægð/ur ertu með vinnuaðstöðu þína á skalanum 1–10 þar sem 1 er lítil ánægja og 10 er mikil ánægja?

 3. Er aðstaðan í starfi þínu þannig að hægt er að vinna í þægilegum vinnustellingum? Aldrei, Mjög sjaldan, Sjaldan, Oft, Mjög oft, Alltaf.

 4. Finnur þú fyrir stoðkerfisvandamálum við eða eftir kennslu? Aldrei, Mjög sjaldan, Sjaldan, Oft, Mjög oft, Alltaf.

 5. Ef þú finnur fyrir stoðkerfisvandamálum, heldur þú að það tengist einhverju af eftirfarandi? (Krossaðu við allt sem við á). Vinnuaðstöðu, Andlegu vinnuálagi, Líkamlegu vinnuálagi, Eigin líkamsbeitingu og venjum, Öðru.

 6. Hversu létt eða erfitt finnst þér starfið þitt vera? Krossaðu við þann möguleika sem best á við að þínu mati. A) Líkamlega: B) Andlega: C) Félagslega (hér er átt við félagslegt samneyti og samskipti): Mjög létt, Létt, Fremur létt, Hvorki létt né erfitt, Fremur erfitt, Erfitt, Mjög erfitt.

 7. Hefur þú verið áreitt/ur í vinnunni? Já, Nei.

 8. Hversu sammála eða ósammála ertu eftirfarandi fullyrðingum? Krossaðu við þann möguleika sem best á við að þínu mati. Mjög sammála, Sammála, Frekar sammála, Frekar ósammála, Ósammála, Mjög ósammála.

 1. Kröfur vinnunnar stangast á við kröfur einkalífsins.

 2. Ég vinn vinnutengd verkefni heima.

 3. Vinnuálagið er ójafnt og verkefnin hlaðast upp.

 4. Ég finn fyrir streitu áður en ég byrja kennslustund.

 5. Ég finn fyrir álagi við undirbúning kennslustunda.

 6. Ég finn fyrir álagi í kennslustund.

 7. Ég finn fyrir álagi við yfirferð verkefna.

 8. Ég finn fyrir álagi við úrvinnslu námsmats.

 9. Mér líkar vel við stjórnunarhætti stjórnenda skólans.

 10. Ég er ánægð/ur með laun mín.

 11. Vinnuandinn á vinnustaðnum mínum er góður.


Prentútgáfa     Viðbrögð