Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun

Menntavísindasvið Háskóla Íslands
 

Grein birt 20. maí 2010

Greinar 2010


Ingibjörg E. Jónsdóttir

Fjörulallarnir á Bakka

Grein þessi segir frá þróunarverkefninu Fjörulallar, það erum við! sem var unnið í leikskólanum Bakka veturinn 2008–2009. Verkefnið byggðist á útinámi og var aðalhugmyndin að áhugi og forvitni barnanna réði ferðinni. Hlustað var á raddir barnanna sem leiddi verkefnið inn á nýjar brautir og til spennandi viðfangsefna. Ingibjörg E. Jónsdóttir er leikskólastjóri í leikskólanum Bakka sem er í útjaðri Reykjavíkurborgar. Ljósmyndirnar í greininni eru teknar af starfsfólki á Bakka, nema tvær sem teknar eru af börnunum sjálfum!

Inngangur

Leikskólinn Bakki er í mjög fallegu umhverfi þar sem stutt er út í náttúruna. Fjaran er hér um bil við lóðarmörkin, ekki þarf að fara langt til að koma að sprellfjörugri á, mikið fuglalíf er allt um kring og fögur fjallasýn í allar áttir. Um er að ræða kjöraðstæður fyrir útivist og þar af leiðandi útinám.

Allt frá því að leikskólinn hóf störf haustið 2003 var oft farið í fjöruna með börnin og fylltist leikskólinn af efniviði þaðan. Áhuginn dofnaði þó fljótt hjá kennurunum þar sem ferðirnar voru ómarkvissar og höfðu lítinn tilgang.

Vorið 2006 var leikskólanum boðið að taka þátt í tilraun með Náttúruskóla Reykjavíkur þar sem Helena Óladóttir kynnti útinám og benti jafnframt á möguleika á að færa starf leikskólans niður í fjöru. Þetta fannst okkur áhugavert og fórum við aftur að tölta með börnin niður í fjöru. Nú var aftur á móti markvisst pakkað niður í bakpoka; víðsjá, stækkunarglerjum, fötum, skóflum, glærum dollum, pokum, vasaljósum, söngtextum og mörgu fleiru, allt eftir því hvað gera átti í fjörunni. Síðan var ómissandi að hafa nesti með.

Þegar horft er yfir barnahópinn niðri í fjöru má sjá áhugann skína úr hverju andliti. Börnin eru önnum kafin við að rannsaka og skoða, spyrja og spjalla, sýna og sjá. Allir eru glaðir, hjálpsamir og forvitnir. Þessi vinna er hreint út sagt ótrúleg. Börnin hafa mikinn áhuga á fjörunni og sérstaklega íbúum hennar, svo sem selum, kröbbum, fuglum, marflóm og skeljum.

Gerður var formlegur samningur við Náttúruskóla Reykjavíkur veturinn 2006–2007 og síðan aftur 2007–2008 um þátttöku okkar í verkefninu Flóð og fjara. Þar sem vinna barnanna í fjörunni vakti athygli ákváðum við að fara af stað með þróunarverkefni og gera vinnu þeirra enn sýnilegri og boða jafnframt fagnaðarerindið um það hvað útinám á vel heima í leikskólanum. Ráðinn var verkefnisstjóri, Valdís Edda Hreinsdóttir. Verkefnið kölluðum við Fjörulalla, það erum við!

Hvers vegna nám úti í náttúrunni?

Í leikskólum borgarinnar Reggio Emilia á Norður-Ítalíu er litið á menntun sem rannsókn þar sem barnið notar mismunandi rannsóknaraðferðir í uppgötvunum sínum og námi. Lögð er áhersla á að barnið nálgist viðfangsefni sitt á sem fjölbreyttastan hátt og hafi tækifæri til að nota margbreytilegan efnivið og tækni í nálgun sinni. Í leikskólunum er litið á umhverfið sem einn af kennurunum og þá oft talað um það sem þriðja kennarann. Lögð er áhersla á að menning og umhverfi endurspeglist í skólaumhverfinu. Í hverjum leikskóla í Reggio Emilia er torg í miðjum skólanum og byggir það á þeirri hefð á Ítalíu að fólk hittist á torgum bæja og borga til að rabba saman (Guðrún Alda Harðardóttir, 2001).

Hvað er það sem einkennir menningu og umhverfi hér á landi? Er svarið ekki; stórbrotin náttúra, hreint vatn, hreint loft, ferskleiki, fjölbreytt veðrátta, kyrrð? Þetta er það sem ferðamenn sækja hingað og við erum svo stolt af. Þetta eru rökin fyrir því að hafa útinám, með áherslu á náttúru- og umhverfisvernd, í hávegum í íslenskum skólum.

Ísland er draumastaður náttúruunnandans. Mikilvægt er að ganga vel um náttúruna og læra að lifa í sátt og samlyndi við hana. Ísland er ungt land og náttúra landsins viðkvæm. Því er mikilvægt að bera virðingu fyrir henni. Besta leiðin til að læra að umgangast náttúruna er fræðsla og það að íbúar landsins og gestir fái að kynnast henni í sinni stórbrotnustu mynd.

Það er þannig með okkur mannfólkið að við verndum helst það sem okkur þykir vænt um og þekkjum. Því er mikilvægt að byrja snemma að kynna börnunum náttúruna og leyfa þeim að fá að upplifa hana í sínu nánasta umhverfi. Þau þurfa að fá að kynnast henni með öllum sínum skynfærum, bæði því fagra og hreina, en einnig þeim umhverfisvandamálum sem steðja að til að geta greint þær hættur sem ber að varast (Þorvaldur Örn Árnason, 1998).

Útinám

Útinám er það kallað þegar nám og leikur er fært út fyrir veggi skólans með skipulögðum hætti. Börnin komast þannig í snertingu við umhverfið og náttúruna og fá að upplifa hlutina í raunverulegum aðstæðum með öllum sínum skilningarvitum.

Námssvið leikskólans eru hreyfing, málrækt, myndsköpun, tónlist, náttúra og umhverfi, menning og samfélag. Útinám fléttast inn í öll námssviðin og er því góður grundvöllur fyrir því að leikskólar hafi það markvisst inni í skipulagi. Í Aðalnámskrá leikskóla kemur fram að námssviðin eru áhersluþættir í leikskólauppeldi og samofin undirstöðuþáttum leikskólastarfsins sem eru leikur, dagleg umönnun og lífsleikni (1999). Í fjörunni á sér stað margskonar hreyfing, bæði hlaup og klettaklifur, stökk á steinum og stapp í pollum, einnig er verið að beygja sig, moka, tína og sýna. Málræktin er mjög öflug þar sem börnin setja nöfn á allt sem tengist fjörunni, veðráttunni, umgengninni og því sem efst er á baugi hverju sinni. Myndsköpunin er m.a. fólgin í því að teikna í sandinn, móta með steinum, skeljum og þangi; skoða litadýrðina, fegurðina og auðga þannig hugmyndaflug barnanna. Tónlistin er aldrei langt undan þar sem börnin hlusta á hljóðin í fjörunni, prófa að búa til hljóð með því að klappa saman steinum og öðrum efniviði, syngja kvæði um íbúa fjörunnar, veðráttuna og önnur leikskólalög. Í fjörunni kynnast börnin vel náttúrunni og umhverfi hennar af eigin raun og fá að skoða, rannsaka og prófa sjálf. Menning og samfélag er undirstaða alls þess sem er gert og það mótar gerðir og hegðun og þar af leiðandi nám barna í náttúrunni.

Útinám er ekki bara það að allir fari út, heldur er hópurinn markvisst að vinna og upplifa saman. Joseph Cornell, sem hefur mikla reynslu af kennslu úti í náttúrunni, bendir á fjögur stig sem gott er að styðjast við.

1. stig
Það þarf að kveikja áhuga og árvekni, ef þetta er ekki til staðar verður lítið um nám. Hlutverk kennarans er því að vekja áhugann.

2. stig
Nám þarfnast einbeitingar og athygli. Það er ekki nóg að hafa áhuga ef við erum ekki með einbeitinguna í lagi. Hlutverk kennarans er að vekja athygli.

3. stig
Við þurfum að halda athyglinni vakandi; hvað erum við að sjá, heyra, snerta, bragða og upplifa. Þannig upplifum við taktinn og flæðið í náttúrunni allt í kringum okkur. Hlutverk kennarans er að leiðbeina og spyrja.

4. stig
Reynslan í náttúrunni opnar fyrir dýpri skilning. Hlutverk kennarans er að hvetja börnin til að deila reynslunni og miðla henni.

Ef þessi fjögur stig eru höfð til hliðsjónar er þess að vænta að börn verði fyrir margvíslegri og eftirminnilegri reynslu úti í náttúrunni (Cornell, 1989).

Hin fræga setning uppeldisfrömuðarins John Dewey; „Learning by doing“ á vel við þegar rætt er um útinám. Útinám byggist á því að börn læri með því að framkvæma og upplifa raunverulega hluti í raunverulegu umhverfi. Námið verður þannig ljóslifandi og hluti af reynslu barnsins.

Könnunaraðferðin er ákveðin kennsluaðferð sem tekur meðal annars mið af hugmyndum Deweys. Í henni er hlutverk kennarans að leiðbeina börnum í gegnum rannsóknarvinnu sína. Það viðfangsefni sem er tekið fyrir byggir á reynslu barnanna og það er áhugi og forvitni þeirra sem ræður ferðinni. Þannig veit enginn hvert rannsóknarvinnan leiðir hópinn. Könnunaraðferðin er eins og góð saga; með upphaf, miðju og endi. Þannig er ferlinu skipt upp í þrjú stig.

1. stig – að hefjast handa
Lykilatriðið er að velja viðfangsefni sem byggir á sameiginlegri reynslu barnanna, fá fram hugmyndir barnanna (hugflæði) og setja þær upp í hugmyndavef. Af þessu leiða vangaveltur barnanna, m.a. um það hvað þau vilja vita meira.

2. stig – að rannsaka, skoða og kanna
Á þessu stigi fer fram aðalvinnan og rannsóknin sjálf. Farið er í vettvangsferðir til að fá tækifæri til að upplifa viðfangsefnið í raunverulegum aðstæðum. Síðan vinna börnin úr ferðinni, leita sér jafnvel nánari upplýsinga í bókum, á vefnum eða með því að tala við einhvern sem er fróður um málið. Bætt er í hugmyndavefinn jafnóðum og þekking bætist við. Börnin rannsaka, teikna athugasemdir, búa til fyrirmyndir (líkön), gera athuganir og skrá niðurstöður. Þau kanna, spá, fjalla um og leika nýja upplifun sína.

3. stig – að meta, túlka og miðla
Kennarinn skoðar með börnunum hvað þau hafa lært í gegnum rannsóknarvinnuna. Síðan ákveða börnin hvort þau vilja deila þessari reynslu sinni með öðrum, til dæmis með því að hafa sýningu fyrir foreldrana. Mikilvægt er að börnin fái tækifæri til að skýra nánar frá því hvað þau hafa lært í gegnum allt ferlið, svo það verði merkingarbært fyrir þeim. Þannig eiga þau auðveldara með að sameina og samþætta upplýsingar sem þau fengu í gegnum mismunandi reynslu af viðfangsefninu. Á þessu stigi er ákvarðanataka barnanna jafn mikilvæg og á hinum tveim stigunum; þau þurfa að taka ákvörðun um hvað þau lærðu í raun og hvernig og hverju af reynslu sinni þau vilja koma á framfæri (Helm and Katz, 2001; Jóhanna Einarsdóttir, 2007).

Fjörulallarnir á Bakka

Fjörulallarnir á Bakka eru þrír elstu árgangarnir og fer hver árgangur saman einu sinni í viku niður í fjöru með nesti og margskonar búnað til notkunar í rannsóknarvinnu. Við lögðum þá línu strax að vera mjög opin fyrir því að fylgja áhuga barnanna og láta þau leiða verkefnið áfram. Þó var ákveðið að setja niður þrjú markmið til að ramma verkefnið inn og vísa leiðina í upphafi.

Markmiðin eru eftirfarandi:

  • Þróa útinám út frá áhuga og forvitni barnanna

  • Gera hugmyndabanka með barnahópnum sem önnur börn geta nýtt sér

  • Vera með öflugt upplýsingaflæði á heimasíðu leikskólans

Hver fjöruferð byrjar á samverustund inni í sal. Þar er fyrst rifjað upp hvaða dagur er og mánuður, hvernig veður er úti og hvernig börnin þurfi að klæða sig til að geta farið í fjöruferð. Síðan er upprifjun úr síðustu ferð, bætt í hugmyndavefinn og tekin ákvörðun um hvað á að kanna í sjálfri ferðinni. Með hliðsjón af þeirri ákvörðun er tekinn saman sá búnaður sem þarf að hafa með. Þegar þessari stund er lokið er farið að klæða sig og síðan er tölt niður í fjöru og allir halda í vinabandið (snærisband með lykkjum til að halda í).

Í sjálfri fjörunni fer rannsóknarvinna barnanna fram. Oft er einnig farið í leiki. Frjálsi leikurinn er í hávegum hafður og nestisstundin er ómissandi. Á meðan börnin borða nestið er spjallað saman um upplifanir þeirra í fjörunni og rifjað upp í sameiningu hvað þau hafa fundið og séð.

Nestisstund

Stundum vinna hóparnir heima í leikskólanum að ýmsum verkefnum er tengjast fjörunni; lesnar eru bækur um fjöruna og íbúa hennar, farið í spil þar sem fjaran kemur við sögu, ýmsa leiki og myndsköpun þar sem börnin túlka reynslu sína.

Stærsti hlutinn af þessu verkefni er að hlusta á börnin; hvað vekur áhuga þeirra, hvað vilja þau kanna og hvaða hugmyndir hafa þau um fjöruna og íbúa hennar? Það sem hefur einkennt þetta verkefni er fyrst og fremst óþrjótandi áhugi barnanna og mátti verkefnisstjóri hafa sig allan við að verða sér úti um fróðleik til að geta hjálpað börnunum að fá svör við spurningum sínum.

Útinámið hefur þróast út frá áhuga og forvitni barnanna. Má segja að áður hafi útinámið verið í formi þess að skoða lífríki fjörunnar og njóta útiverunnar. Þessi atriði eru enn í hávegum höfð, en hafa breyst í þá átt að nú er meira um náttúru- og umhverfisvernd. Börnin eru mjög meðvituð um að þau eru í heimsókn í fjörunni og þar búi fullt af öðrum lífverum. Því verði þau að ganga varlega og vel um.

Rannsóknir barnanna í fjörunni

Margt vekur athygli barnanna í fjörunni og þá mest það sem er lifandi en einnig allar skeljarnar. Velt er við steinum og skoðað undir þá með stækkunargler við hönd. Marflærnar og þanglýsnar eru alltaf mjög áhugaverðar.


Sjór er settur í glæra fötu og kannað hvort eitthvað finnist lifandi þar og viti menn, oft eru pínulítil smádýr í sjónum. Þetta eru mordýr sem hoppa á sjónum í fötunni. Þangið er skoðað og því velt við. Þar leynast bæði marflær og þanglýs. Stundum finnast einnig krabbar og eru það litlir bogakrabbar. Sandur er settur á pappír og kannað hvort eitthvað kvikt finnist þar.

Áhuginn er mikill á skeljum og kuðungum og oft mikið týnt af þeim. Bækur eru skoðaðar um skeljar og sjá börnin þá fleiri tegundir og fara þá markvisst að leita þeirra í fjörunni, t.d. að olnbogaskel og sandskel.

Fljótlega taka börnin eftir því að fjaran er mismunandi mikil. Í framhaldi af því velta þau fyrir sér flóði og fjöru og gera tilraunir í fjöruferðunum með því að setja niður tvær spýtur við sjávarborðið og strekkja band á milli. Út frá þessu sjá þau hvort flæðir að eða frá á meðan þau eru í fjörunni. Þannig gera þau sér grein fyrir því hvort það er flóð eða fjara. Í litlum hólma í fjörunni eru yfirleitt nestisstundir, en það getur verið fljótt að flæða að honum og þurfa börnin því að vera vel á verði, hvort það sé nú örugglega í lagi að vera þar.

Selirnir vekja alltaf gleði og virðist það oft vera gagnkvæmt. Þeir dorma oft á skerjunum þegar börnin koma, en vakna og fylgjast með þeim af forvitni. Stundum synda þeir meira að segja á eftir barnahópnum þegar hann færir sig til.


Horft á selina

Selirnir eru alltaf taldir og mikið spáð í það hver sé brimillinn, hver urtan og hvort það sé ekki lítill kópur á skerinu. Í hugum barnanna eru selirnir vinir þeirra.

Nokkurt fuglalíf er í fjörunni og vekja fuglarnir athygli barnanna, en þeir eru fljótir að flögra í burtu þegar hópurinn nálgast. Þó geta börnin aðeins fylgst með þeim þegar þeir svamla í sjónum eða sitja á skerjum. Fjörupollar eru skoðaðir og þá er gott að vera með glærar fötur. Hverjir búa í pollunum? Það eru helst marflær sem finnast þar, en einnig hefur sprettfiskur fundist.

Steinar og klettar vekja athygli barnanna. Þau leita oft að óskasteinum og þeim finnst gaman að klifra í klettunum – margt leynist á steinum og klettum. Þau finna mikið af hrúðurkörlum sem sitja fastir á klettum og á mörgum steininum eru litlir hvítir hringir sem eru hús kalkpípuorma. Á sumum steinum er svampur og stundum er meira að segja þöngulhaus fastur á steini. Þangið festir sig einnig oft á steinum og klettum. Litlu kræklingarnir eru víða í raufum klettanna. Þar leynast einnig klettadoppur.

Þegar kólnar í veðri og komið er frost fær klakinn í fjörunni óskipta athygli. Börnin eru mjög upptekin af því að skoða hann, renna sér á honum og safna í hrúgur.

Oft verður uppi fótur og fit í fjöruferðunum þegar börnin finna eitthvað skrítið. Í einni ferðinni fundu börnin til dæmis risastórt skrímsli. Kjarkurinn var ekki mikill til að skoða það mjög náið en að lokum tók eitt barnið sig til og lyfti skrímslinu upp með priki. Við nánari athugun kom í ljós að þetta var burstaormur eða svokallaður risaskeri. Þetta vakti mikla athygli og þurftu bæði börn og fullorðnir að tjá sig um þennan atburð.

Stundum er hlustað á hljóðin í fjörunni og eru börnin þá mest upptekin af því hvað heyrist í sjónum. Börnin kynnast því í fjöruferðunum hvernig sjórinn og fjaran í heild sinni líta út á mismunandi árstíðum, eftir veðráttu og dagsbirtu. Oft ræða þau sín á milli hvort selunum sé ekki kalt eða hvar marflærnar séu þegar allt er frosið. Þau taka einnig eftir því að það er mismunandi af hvaða skeljum er mest eftir árstíðum; stundum er enga hjartaskel að finna en stundum er allt fullt af þeim, þetta á við um allar gerðirnar.

Klettaklifur og að hoppa á steinum er ögrandi og vinsælt

Vinsælir leikir í fjörunni

Börnunum finnst spennandi og gaman að moka í fjörunni. Þau gera langa læki og djúpar holur sem fyllast oft af sjó. Stundum moka þau eftir fjársjóði og stundum til að kanna hvort þau finni eitthvert dýr.

Börnunum finnst gaman að leika sér við öldurnar. Þá ganga þau að fjöruborðinu og hlaupa í burtu þegar aldan kemur. Þessi leikur vekur alltaf gleði og kátínu og stundum verða þau blaut í fæturna. Oft færist fjör í leikinn þegar veður verður það gott að hægt er að draga af sér stígvélin og bretta upp buxnaskálmarnar og vaða út í sjó. Þó sjórinn sé glettilega kaldur þá er þetta spennandi og skemmtilegt.


Þegar sjórinn er lygn dunda börnin sér oft við að láta skeljarnar fljóta á honum. Þau komast yfirleitt fljótt að því að kræklingurinn er bestur. Hann flýtur lengi og stundum mjög langt út á meðan kúskelin sekkur strax.

Litaleikurinn, þar sem börnin fá litaspjöld og leita að einhverju sem hefur sama lit, er skemmtilegur. Þeim finnst oft alveg ótrúlega mikið af litum í fjörunni, enda mjög dugleg að finna réttu litina.

Marfætluleikurinn er sívinsæll. Þá fara börnin í röð og halda í axlirnar hvert á öðru. Allir loka augunum nema sá sem er fremstur. Hann er augu allra og stjórnar ferðinni. Þannig hlykkjast röðin áfram, alveg eins og marfætla.

Stundum eru búin til listaverk í fjörunni úr hlutum sem þar finnast. Þá er til dæmis steinum raðað til að gera útlínur og fyllt upp í með skeljum og þara.

Vinsælt er að teikna og skrifa í sandinn. Í einni ferðinni kom upp sú hugmynd að búa til stafinn sinn eða nafnið sitt með því að raða steinum. Þetta hefur verið gert oftar.

Stundum er sett upp hljómsveit í fjörunni. Þá velja börnin sér tvo steina eða skeljar og slá taktinn. Síðan er sungið og trallað.


 


Kjörið er að fara í gömlu góðu hópleikina; leiki eins og eltingaleik, Fram, fram fylking og kapphlaup svo eitthvað sé nefnt. Síðan má útfæra þá í samræmi við umhverfi fjörunnar. Í staðinn fyrir að syngja „Í grænni lautu“ mætti syngja „Í fjörunni minni þar geymi ég gullið sem mér var gefið …“ Gullið væri síðan einhver fjörugersemi.

Börnin fara í ýmsa flokkunar- og stærðfræðileiki. Þá er til dæmis leitað að einhverju sem er lifandi og öðru sem er ekki lifandi – eins má leita að lítilli skel, annarri stærri og að þeirri þriðju sem er enn stærri. Börnin tína stundum þó nokkuð af skeljum og setja í hrúgu. Síðan flokka þau skeljarnar eftir tegundum og telja hvað þær eru margar af hverri tegund. Stundum þegar börnin hafa tínt í fjársjóð, eru þau beðin að flokka hann í tvennt, annars vegar í það sem á heima í fjörunni og hins vegar það sem ekki á heima þar.

Börnin fara í flestum veðrum niður í fjöru og kynnast henni þannig á mismunandi vegu. Stundum er hlýtt og gott þannig að hægt er að vera berfættur. Á veturna er oft mjög mikið rok og ýfist þá sjórinn upp. Einnig getur verið beljandi rigning og allt dökkt og erfitt að finna nokkuð. Síðan getur verið snjór yfir öllu og þá er lítið að sjá annað en mishæðótt landslag. Í frostum klæðir klakinn klettana í hálan búning. Börnin eru hugmyndarík og alltaf er stutt í leikinn þannig að þau láta veðrið ekki hamla, heldur leika sér og rannsaka í samræmi við það. Þannig finnst þeim mjög gaman að renna sér á klakanum, gera engla í snjóinn og láta vindinn feykja sér.

Á leiðinni heim úr fjöruferð er á brattann að sækja og skrefin því oft þung og erfið. Þá skiptast börnin á að segja einhverja tölu, síðan tekur allur hópurinn jafn mörg skref. Þessi einfaldi leikur auðveldar heimferðina.

Umhverfisvernd og Grænfáninn

Börnin eru fljót að taka þá afstöðu að rusl eigi ekki heima í fjörunni. Þau tína allt rusl sem verður á vegi þeirra og taka það með sér heim í leikskóla. Stærri hluti, eins og spýtur og járnarusl, setja þau upp á göngustíginn þannig að starfsmenn borgarinnar, sem sjá um að halda borginni hreinni, geti tekið þá með sér.

Börnin eru mjög athugul á umhverfi fjörunnar. Einn daginn var til dæmis mikil froða í fjörunni og þá fóru þau að velta fyrir sér hvort þetta væri sápufroða. Ákveðið var að hafa samband við Mengunarvarnir Umhverfissviðs. Þar var okkur sagt að þörungarnir gefi frá sér slím sem verður að froðu við að veltast í sjónum.

Einn daginn fundu börnin stóra svarta fötu og tóku þau hana með sér þar sem hún átti ekki heima í fjörunni. Eitt barnið fékk þá góðu hugmynd að þetta yrði ruslafata Fjörulalla og þá þyrftu þeir ekki að vera með ruslapoka.

Þar sem áhugi barnanna á að vernda umhverfi fjörunnar er mikill, var ákveðið að nýta hann með því að leikskólinn gerðist Skóli á grænni grein sem hann varð formlega á fimm ára afmæli skólans 2. desember 2008. Þegar Bakki var orðinn Skóli á grænni grein og umhverfisvernd æ ríkari þáttur í starfinu, jókst áhugi barnanna enn frekar á slíkum verkefnum. Því var ákveðið að sækja um Grænfánann. Formleg afhending hans var á sumarhátíð leikskólans þann 24. júní 2009. Eins og sjá má af þessu er alveg ótrúlegt hvað hægt er að gera þegar áhugi barnanna leiðir okkur áfram. Þau eru ekkert að tvínóna við hlutina.

Stuttmynd gerð með börnunum

Margir sem fást við umhverfisvernd með börnum hafa umhverfisálf eða einhverja aðra veru sem einkennistákn. Á Bakka kom ekkert annað til greina en að vera með sel.

Börnin gerðu risastóran sel úr dagblöðum og hænsnaneti. Þau lögðu öll hönd á plóginn, þar sem selurinn átti að vera umhverfistáknið okkar. Þessi vinna tók nokkrar vikur og var mikið skrafað saman á meðan. Rætt var hvort við gætum gert sögu um það hvernig selurinn kom til okkar og það var nú lítið mál. Í stuttu máli var sagan eftirfarandi: Einu sinni þegar fjörulallar voru á ferð niðri í fjöru sáu þeir stóran sel, sem hét Snorri, fastan í neti. Þeir björguðu honum og þar sem hann var særður þá fóru þeir með hann upp í leikskóla. Snorra leið svo vel þar að hann ætlaði bara að búa þar og passa að við göngum vel um.

Hugmyndin þótti það góð að ákveðið var að gera stuttmynd með hliðsjón af sögunni. Næst elsti árgangurinn, sem er umhverfisnefndin okkar, lék aðalhlutverkið en einnig tóku öll hin börnin einhvern þátt í myndinni. Myndin, Selnum Snorra bjargað, hefur verið sýnd á opnu húsi leikskólans og víðar, meðal annars á eTwinning-ráðstefnunni í Sevilla á Spáni (febrúar 2010) og vekur hún hvarvetna mikla athygli. Með því að smella á tengilinn hér að neðan má horfa á myndina.
 

Stuttmynd  (WMV 6,4 MB – 6:30 mín)

Selnum Snorra bjargað

Fjörulallanámskeið

Þegar þróunarverkefnið hófst var hugmyndin meðal annars sú að börnin á Bakka myndu kenna öðrum börnum um lífríki fjörunnar. Því var ákveðið að bjóða tveim elstu árgöngunum í leikskólum Grafarvogs á Fjörulallanámskeið. Við vorum ekkert of viss um að nokkur myndi þiggja þetta boð, en viti menn, raunin varð önnur. Það mættu tæplega 180 börn á námskeið hjá Bakkabörnum. Við meira að segja urðum að neita nokkrum leikskólum þar sem við fundum að Bakkabörnin voru að þreytast á kennarahlutverkinu. Það getur verið lýjandi að kenna jafnvel tuttugu börnum á viku og vera bara 4–6 ára.

Fjörulallarnir, það er Bakkabörnin, tóku kennarahlutverkið mjög alvarlega og voru duglegir að leiðbeina hinum börnunum. Þetta námskeið gekk mjög vel og gerum við ráð fyrir að bjóða upp á það aftur. Við munum aftur á móti bara senda tveimur til þremur leikskólum boð í einu um námskeið, þannig að börnin okkar hafi ánægju af þessu án þess að verða þreytt.

Fjörulallarnir hafa einnig tekið á móti kennurum, bæði íslenskum og erlendum, farið með þá niður í fjöru og kennt þeim hvernig á að umgangast hana og hvað flest þar heitir. Þetta hefur alltaf vakið mikla athygli, sérstaklega fannst erlendu kennurunum gaman að læra íslensk heiti á skeljunum.

Með augum barna – ljósmyndaverkefni

Að undanförnu hefur mikið verið rætt um mikilvægi þess að hlusta á raddir barna. Rannsóknir á þroska og námi leikskólabarna hafa leitt í ljós að börn eru fær um að láta í ljós skoðanir sínar á málefnum sem eru þeim viðkomandi og sýna þá meiri hæfni og þekkingu á viðfangsefninu (Jóhanna Einarsdóttir, 2008). Með hliðsjón af þessu var ákveðið að kaupa góða myndavél sem eingöngu er fyrir börnin. Þar sem börnin eru í fjöruferðum í mismunandi veðri var einnig keyptur vatnsheldur kassi utan um myndavélina. Þessi kassi kom á óvart. Börnin áttu mun auðveldara með að taka myndir þegar myndavélin var í kassanum ef þau voru með þykka vettlinga á höndunum. Í íslenskri vetrarveðráttu er þessi vatnsheldi kassi mjög góður og í raun alveg nauðsynlegur.

Farið var með myndavélina niður í fjöru og börnunum kennt að umgangast hana og hvernig hún virkaði. Síðan fengu þau að prófa myndavélina og læra um muninn á nærmyndatöku og fjærmyndatöku. Þá tóku börnin ljósmyndir í fjörunni og var það nærmyndataka. Útkoman var hreint út sagt frábær og heilluðust allir af myndum barnanna.

Þar sem börnin höfðu sýnt fram á að þau eru snjallir myndasmiðir var ákváðið að fara af stað með annað verkefni sem nefnt var Með augum barna. Leikskólinn hefur verið þátttakandi í eTwinning, sem er rafrænt samstarfsverkefni skóla í Evrópu, og hefur ofangreint ljósmyndaverkefni verið framlag Bakka í því samstarfi. Verkefnið hefur vakið verðskuldaða athygli og var meðal annars styrkt af Barnavinafélaginu Sumargjöf á vordögum 2009. Á haustfagnaði Landsskrifstofu eTwinning sama ár fékk verkefnið viðurkenningu.

Hér má líta tvær af myndum barnanna.
 

Vangaveltur að verki loknu

Þó að þróunarverkefni þessu sé formlega lokið mun Fjörulallaverkefnið lifa áfram. Það fer ekki á milli mála að það hefur haft mikil áhrif á skólastarfið í heild og náð að fléttast inn í flesta þætti starfsins og skapa ný og áhugaverð verkefni. Það fer ekki fram hjá neinum sem kemur inn í leikskólann Bakka að þar er fengist við fjöruverkefni. Verk barnanna eru sýnileg, bæði ljósmyndir, leirverk og myndverk. Selurinn Snorri, þetta stóra samvinnuverkefni barnanna, liggur makindalega í miðrými skólans og fylgist með hvort allir gangi ekki vel um. Ljósaseríur eru skreyttar með skeljum og í raun flæðir verkefnið um allan leikskólann, bæði huglægt og hlutlægt.

Það sem stendur upp úr eftir vinnu vetrarins er hve áhugasöm börnin eru og hvað þau eru frjó og hugmyndarík. Margt kom á óvart, sérstaklega þegar önnur verkefni fóru að kvikna út frá eljusemi barnanna. Í raun má segja að það sem við leikskólakennararnir lærðum af þessu verkefni er að samhliða því að hlusta á hvað börnin segja er mikilvægt að lesa í margbreytilega tjáningu þeirra. Það felur í sér að sjá hvað þau gera; hvernig þau bera sig að, skapa og túlka. Þá fyrst erum við að hlusta og fáum þannig betri innsýn í reynslu þeirra, hugmyndir og styrkleika. Það er örugglega margt sem við fullorðna fólkið eigum eftir að læra um börnin og af þeim. Þá var áhugavert að sjá hvað börnin tóku hlutverk sitt sem kennarar alvarlega og hvað hin börnin hlustuðu á þau.
 

Og hvað svo?

Bakki er meðal fyrstu leikskólanna sem þróar útinám og er mikill áhugi í skólanum á að halda áfram starfi í þeim anda. Börnin hafa mikinn áhuga á fuglum í nánasta umhverfi leikskólans en hafa lítið náð að kynnast þeim þar sem þeir fljúga gjarnan í burtu. Því var ákveðið að skoða þá nánar. Markmiðið er að börnin kynnist hátterni fuglanna, greini litina á þeim, velti fyrir sér hvað þeir éta og hvort veðráttan og árstíminn hafi einhver áhrif á þá. Hugmyndin er í raun sú að börnin kynnist fuglunum, fóðri þá þegar þurfa þykir og gerist verndarar þeirra. Áhugi barnanna og virkni á sem fyrr að leiða verkefnið og þá er aldrei að vita hvar við endum.

Svo vel vill til að leikskólanum var boðið að taka þátt í Comeniusar-verkefni sem ber nafnið Vængjaðir vinir okkar. Það verkefni er mjög skemmtilegt og fellur vel að útináminu á Bakka. Leikskólinn á mikinn efnivið úr fjörunni. Einnig hefur skólinn fengið lánaða uppstoppaða fugla; egg, fjaðrir og fuglabein. Fjöldi fugla flögrar nú upp um veggi og loft leikskólans, fuglar sem börnin hafa búið til standa á borðum og hillum. Úti í garði eru fóðurskálar sem börnin hafa gert úr leir, könglar sem búið er að velta upp úr feiti og fuglamat, epli hangandi í trjánum og brauðbitar á hólnum bak við skólann. Börnin eru að kynnast fuglunum. Þau uppgötvuðu að með því að gefa þeim mat þá kæmu þeir til þeirra. Því má segja að Fjörulallar séu enn á ferð, kátir og hressir, forvitnir og áhugasamir um lífið og tilveruna.

Heimildir

Cornell, Joseph. (1989). Sharing nature with children II. Nevada City, CA: Dawn Publications.

Guðrún Alda Harðardóttir. (2001). Í leikskóla lífsins. Akureyri: Textasmiðjan Akureyri.

Helm, Judy Harris og Katz, Lilian. (2001). Young investigators. The project approach in the early years. New York og London: Teachers College, Columbia University.

Ingibjörg E. Jónsdóttir og V. Edda Hreinsdóttir. (2009). Fjörulallar, það erum við! Reykjavík: Leikskólinn Bakki. [Vefútgáfa á þessari slóð: http://www.leikskolinn-bakki.is/images/stories/file/pdf/fjorulalla_lokaskyrsla.pdf.

Jóhanna Einarsdóttir. (2007). Lítil börn með skólatöskur. Tengsl leikskóla og grunnskóla. Reykjavík: Háskólaútgáfan.

Jóhanna Einarsdóttir. (2008). Þátttaka barna. Í Jóhanna Einarsdóttir og Bryndís Garðarsdóttir (ritstj.) Sjónarmið barna og lýðræði í leikskólastarfi (bls. 115–130). Reykjavík: Háskólaútgáfan, Rannsóknarstofa í menntunarfræðum ungra barna.

Menntamálaráðuneytið. (1999). Aðalnámskrá leikskóla. Reykjavík: Höfundur.

Þorvaldur Örn Árnason. 1998. Umhverfismennt fyrir foreldra, stjórnendur, fagmenn og áhugafólk um umhverfismál. Reykjanesbær: Aðstoð sf.

Prentútgáfa     Viðbrögð