Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun

Menntavísindasvið Háskóla Íslands
 

Grein birt 20. maí 2010

Greinar 2010


Ingvar Sigurgeirsson, Ágúst Ólason, Björn Gunnlaugsson,
Hildur Jóhannesdóttir og Sif Vígþórsdóttir

List- og verkgreinar í öndvegi

Sagt frá þróunarverkefninu Smiðjur í Norðlingaskóla

Í þessari grein er sagt frá þróunarverkefninu Smiðjur í Norðlingaskóla. Smiðjurnar eru nokkurs konar verkstæði þar sem nemendur vinna að samþættum viðfangsefnum í aldursblönduðum hópum. Markmiðum verkefnisins er lýst, fjallað um undirbúning þess og framkvæmd, gefin eru dæmi um nokkrar smiðjur, gerð grein fyrir tilhögun námsmats og mat lagt á starfið. Ingvar Sigurgeirsson er prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og ráðgjafi við verkefnið. Ágúst Ólason og Hildur Jóhannesdóttir eru deildarstjórar við Norðlingaskóla, Björn Gunnlaugsson kennari og Sif Vígþórsdóttir skólastjóri. [1]

Inngangur

Norðlingaskóli, yngsti grunnskólinn í Reykjavík, tók til starfa haustið 2005. Skólinn hefur frá upphafi starfað í bráðabirgðahúsnæði, á þessu skólaári í 32 lausum kennslustofum en stefnt er að því að taka fyrsta áfanga nýbyggingar í notkun í haust. Við undirbúning að stofnun skólans var gert ráð fyrir því að áhersla yrði lögð á einstaklingsmiðað nám og samvinnu nemenda, skóla án aðgreiningar og náin tengsl við foreldra og grenndarsamfélag. [2]

Við þróun starfsins í skólanum hefur áhersla verið lögð á teymisvinnu starfsfólks og samkennslu nemenda í aldursblönduðum hópum. Leitað hefur verið leiða til að auka ábyrgð nemenda á eigin námi, meðal annars með því að þeir leggi niður fyrir sér áform (námsáætlanir) í samvinnu við kennara sína og taki virkan þátt í mati á því hvernig gengur. Í hverri viku er nemendum gefinn kostur á að fást við verkefni á eigin áhugasviði og gera þeir námssamninga við kennara sína um það hvernig staðið er að verki.

Hugmyndafræðina hafa starfsmenn skólans einkum sótt til skrifa bandaríska kennslufræðingsins Carol Ann Tomlinson (1999, 2001, 2003; Tomlinson, Brimijoin og Narvaez, 2008). Tomlinson og samstarfsmenn hennar hafa lagt mikla áherslu á að kennarar leitist við að koma sem best til móts við ólíkar þarfir nemenda, meðal annars með því að huga að því hvar nemandinn stendur í náminu, hvernig honum hentar best að læra, hver áhugi hans er og hver viðhorf hans og áform eru. Skólastarfið hefur einnig orðið fyrir áhrifum af hugmyndum Howards Gardner um fjölgreindir (Armstrong, 2001), en þar er sjónum beint að mikilvægi þess að koma sem best til móts við ólíka hæfileika nemenda. Meðal viðfangsefna sem mótuð hafa verið í skólanum undir þessum áhrifum eru svokallaðir Norðlingaleikar sem haldnir eru á hverju vori en þar er keppt í ýmsum greinum sem valdar eru með það í huga að þær höfði til mismunandi greinda. Nefna má skák, orðaþrautir, ratleiki, jafnvægisþrautir og tónlistargetraun, svo fátt eitt sé talið.

Auk einstaklingsmiðaðra kennsluhátta hefur í skólanum verið unnið að þróun einstaklingsmiðaðs námsmats og tóku starfsmenn skólans, í samvinnu við Ingunnarskóla, þátt í þriggja ára þróunarverkefni sem beindist að því að skipuleggja og þróa fjölbreytt námsmat þar sem meðal annars var byggt á frammistöðumati, námsmöppum (portfolio), sjálfsmati nemenda, jafningjamati og matssamtölum. Starfsfólk Norðlingaskóla lagði ekki hvað síst áherslu á að þróa samtöl nemenda, kennara og foreldra sem kölluð eru matssamtöl og byggjast m.a. á virkri þátttöku nemenda þar sem þeir eru hvattir til að taka ábyrgð á eigin námi. Um þetta þróunarstarf má vísa til lokaskýrslu um verkefnið sem ber heitið Námsmat – í þágu hvers? (Ingvar Sigurgeirsson, Ágúst Ólason og Guðlaug Erla Gunnarsdóttir, 2009).

Frá upphafi hafa starfshættir skólans byggst á mikilli samþættingu námsgreina, bóklegra og verklegra, meðal annars í svokölluðum smiðjum. Á fjórða starfsári skólans var ákveðið að gera smiðjurnar að sérstöku þróunarverkefni og leggja mat á hvernig til tækist. Styrkur til verkefnisins fékkst frá Þróunarsjóði grunnskóla Reykjavíkur. Verkefnið gekk svo vel að ástæða þykir til að miðla reynslunni af því til annarra. Fyrst verður vikið að nokkrum meginatriðum í starfi skólans, síðan gerð grein fyrir markmiðum með smiðjunum, undirbúningi þeirra og framkvæmd og gefin þrjú dæmi um útfærslur. Þá er stuttlega fjallað um námsmat í smiðjum og loks um mat á því hvernig til hefur tekist.

Kennsluhættir í Norðlingaskóla

Í Norðlingaskóla vinnur allt starfsfólk í teymum. Þannig nýtist margbreytileiki í hópi starfsfólks nemendum vel, einangrun kennara er rofin, undirbúningur dreifist á fleiri hendur og oftar en ekki nýtist fagmennska hvers og eins betur fyrir heildina. Með þessu móti er aldrei einn kennari með nemendahópi en það eykur sveigjanleika í starfinu og skapar um leið stuðning þegar þörf er á. Hvert teymi hefur samráðstíma í hverri viku en þá er ákveðið hvernig skipuleggja skuli námið og kennsluna fram undan og glímt sameiginlega við þau úrlausnarefni sem fyrir liggja. Í teymi fyrir aldurshóp eru að jafnaði umsjónarkennarar ásamt stuðningsfulltrúa og sérkennara, list- og verkgreinakennarar mynda eitt teymi, íþrótta- og danskennarar annað, tónmenntakennarar enn eitt og sérkennarar mynda sérstakt teymi. Í teymi um yngsta aldurshópinn er líka einn þroskaþjálfi.

Annað megineinkenni á starfi Norðlingaskóla er samkennsla aldurshópa. Nemendur stunda nám sitt í aldursblönduðum hópum þar sem tveimur eða fleiri árgöngum er kennt samam. Markmiðið er að hver nemandi fái nám og kennslu við sitt hæfi jafnframt því að nemendahópurinn eigi samleið sem hópur eða bekkjarheild. Nemendur í samkennsluhópi eru á misjöfnum aldri, búa yfir misjöfnum þroska og getu og læra að það er eðlilegt að vinna misjafnlega hratt og hafa margvísleg áhugasvið og fjölbreytta færni. Nemendur eiga að fást við mismunandi námsmarkmið samkvæmt námskrá og verða að læra að vinna sjálfstætt og hjálpast að. Mikil áhersla er lögð á að skapa góðan starfsanda.

Í Norðlingaskóla gera allir nemendur skólans einstaklingsbundnar námsáætlanir sem kallaðar eru áform. Það er mismunandi eftir námshópum hvort þær eru gerðar vikulega eða hálfsmánaðarlega. Einnig er mismunandi í námshópunum hvaða dagar vikunnar eru áformsdagar.

Í flestum hópum í 1.–7. bekk fara áformsdagar þannig fram að nemendur hitta umsjónarkennara sína og meta hvernig gekk í síðustu viku og ákveða hvað þeir ætla að gera í komandi viku. Farið er yfir hvaða markmiðum nemendur ætla að ná og skoðað hvort það eru einhver atriði sem þarfnast útskýringa. Til að þetta megi verða sem markvissast hafa nemendur aðgang að námsáætlunum í greinunum þar sem fram koma markmið og leiðir og hvaða námsefni megi nota til að ná þeim. Nemandinn getur unnið bæði heima og í skólanum, en ef hann leggur sig fram getur hann minnkað heimanámið til muna.
 


Í skólanum er lögð áhersla á að nemendum gefist tími til að rækta sterkar hliðar sínar. Sem dæmi má nefna að í hverri viku fá nemendur tíma til að vinna verkefni á áhugasviði, ýmist einir eða í litlum hópum eftir löngun hvers og eins. Reynslan af þessari tilhögun er góð, enda leggja nemendur sig fram við það sem þeir hafa áhuga á.

Nemendur og kennarar gera sérstaka samninga um áhugasviðsverkefnin, svokallaða áhugasviðssamninga. Þar setur nemandinn fram hvaða markmiðum hann ætlar sér að ná og með hvaða leiðum hann hyggst gera það. Þá er og samið um hvaða bjargir kennarinn þarf að tryggja honum og einnig hvenær og með hvaða hætti nemandinn ætlar sér að skila verkefninu. Oftar en ekki er gert ráð fyrir því að nemandi kynni áhugasviðsvinnu sína fyrir öðrum nemendum, starfsfólki eða foreldrum og eru dæmi um að nemendur hafi skilað vinnu sinni með kynningu fyrir börn á Leikskólanum Rauðhóli. Þannig nýtist verkefnið einnig til að þjálfa nemendur í jafningjafræðslu.
 


 

Námssamningur

Viðfangsefni á áhugasviði gæti til að mynda verið að móta dans, hanna föt á hunda, læra um torfæruakstur á vélhjólum, lesa um líffræði sjávardýra, gera úttekt á íþróttahetjum, fást við skuggaleikhús og leika á hljóðfæri tónlist eftir vinsæla tónlistarmenn.

Markmið smiðjanna

Markmið þróunarverkefnisins Smiðjur í Norðlingaskóla var að móta heildstætt skipulag um samþættingu verk- og listgreina við samfélags- og náttúrufræði. Í smiðjunum hefur megináhersla verið lögð á verklega og skapandi vinnu þar sem list- og verkgreinar eru samþættar við aðrar námsgreinar, einkum náttúrufræði og samfélagsgreinar, en einnig íslensku og stærðfræði og ekki síst lífsleikni.

Hugmyndin að baki smiðjunum byggist meðal annars á því að móta samþætt nám sem felur í sér að nemendur nái markmiðum Aðalnámskrár í þessum greinum á þriggja ára tímabili. Námið er byggt á námseiningum; í fyrsta lagi fyrir 1.4. bekk, í öðru lagi fyrir 5.7. bekk og í þriðja lagi 8.10. bekk.

Smiðjunum er ætlað að styrkja stefnu skólans um einstaklingsmiðað nám en með því er átt við að starf skólans taki mið af því að börn eru misjafnlega þroskuð, af margbreytilegum uppruna og hafa öðlast margháttaða og misjafna leikni, reynslu og þekkingu áður en þau hefja nám í grunnskóla. Einnig er mjög misjafnt hverjar eru sterkar og veikar hliðar þeirra. Smiðjurnar eru mikilvægur þáttur í viðleitni starfsmanna skólans til að búa nemendum skilyrði til að læra og þroskast á eigin forsendum, veita þeim öryggiskennd, sjálfstraust og stuðla að því að þeir öðlist jákvæða sjálfsmynd.

Hugmyndafræði smiðjanna byggist ekki hvað síst á hugmyndum sálfræðingsins Mihaly Csikszentmihalyi (1990) sem m.a. er kunnur fyrir rannsóknir sínar á sköpun og sköpunargáfu. Csikszentmihalyi hefur m.a. mótað hugmyndir um flæði (e. flow), þ.e. það eftirsóknarverða ástand þegar manneskja getur sökkt sér niður í viðfangsefnið. Smiðjum er einmitt ætlað að skapa þau skilyrði að nemendur fái ráðrúm til að einbeita sér að ögrandi viðfangsefnum.

Þróunarverkefninu var ætlað að renna styrkari stoðum undir smiðjurnar, skapa svigrúm til að útfæra þær betur og tengja þær markmiðum Aðalnámskrár. Þá var stefnt að því að taka saman lýsingar á sem flestum smiðjum með markmiðum, skipulagi, kennsluaðferðum, verkefnum og mati. Þegar hefur verið hafist handa við að birta þetta efni á vef skólans (sjá hér), bæði til almennrar kynningar fyrir foreldra og skólafólk, en einnig til að efnið geti nýst kennurum í öðrum skólum sem áhuga kunna að hafa á að þróa þessi vinnubrögð.

Undirbúningur

Ákvarðanir um hvaða smiðjur eru í boði hverju sinni eru teknar af öllum starfshópnum sameiginlega. Kennarar setja fram hugmyndir, þær eru ræddar og lokaákvarðanir teknar. Oft er líka leitað eftir hugmyndum frá nemendum. Hópar kennara taka síðan að sér útfærslu á hverri smiðju, þ.e. að setja smiðjunum markmið, ákveða inntak þeirra og fyrirkomulag og huga að námsmati.

Sérstaklega er gætt að tengslum hverrar smiðju við Aðalnámskrá grunnskóla. Þá skoðar teymið hvernig smiðjan getur til dæmis tengst útikennslu, tónlist, myndlist, leiklist, lífsleikni, heimilisfræði, kvikmyndagerð, upplýsinga- og tæknimennt, hönnun, dansi og íþróttum. Við undirbúning er stuðst við þessa forskrift:

 1. Tímafjöldi

 2. Innihaldslýsing:
  a. Hvert er þemað?
  b. Tenging við námsefni
  c. Tenging við Aðalnámskrá grunnskóla
  d. Markmið smiðjunnar
  e. Kennsluaðferðir
  f. Samþætting – þverfaglegar tengingar
  g. Þáttur verkgreina

 3. Gögn
  a. Efni og áhöld

 4. Mat á smiðjum
  a. Hvað á að meta?
  b. Frammistaða nemenda og mat á því hvernig til tókst í smiðjunni sjálfri
  c. Hvernig verður nám nemenda metið, til dæmis:
       i. einstaklingsmat
       ii. námsmappa
       iii. jafningjamat
       iv. sjálfsmat

Framkvæmd

Skólaárinu er skipt niður í fjögur til sex tímabil sem starfsmenn í Norðlingaskóla kalla sín á milli smiðjutímabil. Hvert tímabil tekur fjórar til sex vikur og í hverri viku eru smiðjur í boði tvo daga, tvær sjötíu mínútna kennslulotur hvorn dag, sem jafngilda sjö kennslustundum á viku. Rök fyrir því að hafa loturnar af þessari lengd eru þau að líkur eru á að nemendur geti sökkt sér niður í viðfangsefni sín. Hér má sjá dæmigerða stundatöflu 6. bekkjar:
 Stundatafla 6. bekkjar (vika í janúar 2009)

Smiðjurnar eru alltaf aldursblandaðar en misjafnt er eftir tímabilum hvaða árgangar vinna saman hverju sinni. Þá er mismunandi hversu margar smiðjur eru í boði í einu. Ekki er fjarri lagi að ætla að nemandi fari á hverju skólaári í fimm til tíu smiðjur. Í hverri smiðju geta verið nokkrar ólíkar stöðvar eða verkstæði.

Á skólaárinu 2008–2009 voru tvær smiðjur í boði sameiginlegar fyrir alla aldurshópa; jólasmiðja og jafnréttissmiðja. Í jólasmiðjunni var fengist við fjölbreytt verkefni sem tengdust jólunum. Nemendur gerðu jólakort, bjuggu til jólaskraut, sungu jólalög, sendu hver öðrum jólakveðjur og þar fram eftir götunum. Eldri nemendur leiðbeindu oft þeim yngri og myndaðist þannig skemmtileg stemning í hópunum. Í jafnréttissmiðjunni var fjallað um jafnrétti kynja og kynþátta og jafnrétti með tilliti til fötlunar. Sem dæmi um verkefni sem nemendur glímdu við má nefna að greina myndir af konum og körlum í auglýsingum og kannanir á því hverjir vinna heimilisverk.

Tafla 1 sýnir þær smiðjur sem voru í boði á síðasta skólaári fyrir aldursstigin þrjú.

Tafla 1
Smiðjur í boði skólaárið 2008–2009 (auk jólasmiðju og jafnréttissmiðju)
1.–4. bekkur 5.–7. bekkur 8.–10. bekkur
 • Vísindasmiðja
  • Vatn – Tilraunir
  • Vatn Bátagerð
  • Loft Flugdrekar
  • Loft Svif
 • Land – Myndlist
 • Land – Smíði
 • Enskusmiðja
 • Vináttan
 • Heimilisfræði
 • Leiklist
 • Rauðhetta
 • Tákn með tali
 • Páskasmiðja
 • Umhverfis- og ferðasmiðja
 • Umhverfið og fuglabjargið
 • Ævintýrasmiðja
 • Árshátíðin – Eniga, meniga
 • Landnámssmiðja
 • Landafræði Íslands
 • Sjálfsþekkingarsmiðja
 • Þjóðir á tímamótum
 • Skapandi hugur
  og hönd
  • Tálgun og útskurður
  • Prjón og hekl
  • Ljósmyndun
  • Tónsmíðar og upptaka
  • Kvikmyndagerð
  • Textíl
 • Ritunarsmiðja


Til að gefa gleggri hugmynd um uppbyggingu smiðjanna verða tekin þrjú dæmi: umhverfið og fuglabjargið sem var ætluð nemendum í 3. og 4. bekk, landnámssmiðja sem var skipulögð fyrir 5.–7. bekk og ritunarsmiðja sem ætluð var unglingum.

Umhverfið og fuglabjargið (3.–4. bekkur)

Þessari smiðju var ætlað að vekja áhuga nemenda á líffræði, bjargfuglum og vistkerfi fuglabjargsins. Nemendur settu sig í spor vitavarða og tileinkuðu sér ýmsa þekkingu sem vitaverðir þurfa að búa yfir til þess að geta leyst starf sitt vel af hendi.

Nemendur fengu 42 kennslustundir í þessa smiðju. Notaður var sögurammi [3] þar sem kveikjan var að bréf barst til nemenda frá vitaverði sem vantaði góða fjölskyldu til afleysinga á komandi sumri. Fjölskyldan þyrfti að hafa góða þekkingu á veðurfræði, á fuglafræði og að kunna skyndihjálp. Auk þess þyrfti fjölskyldan að kunna þá rafmagnsfræði sem gæti nýst vitaverði, geta útbúið sig til mánaðardvalar án þess að komast af bæ og síðast en ekki síst þyrfti hún að kunna að hafa það gaman saman.

Nú fóru í hönd skemmtilegir tímar. Nemendur settu sig í spor fjölskyldna sem voru að undirbúa langa dvöl í vita. Fyrsta vikan var helguð kveikju fyrir allan hópinn, sem fólst meðal annars í því að lesa upp úr dagbókum vitavarða, skoða landakort, undirbúa upplýsingaleit, setja sig í spor fjölskyldu og búa hana til. Síðan var nemendum skipt í svokallaða hringekjuhópa og fór hver nemandi á fimm stöðvar (sjá hér á eftir). Að hringekjunni lokinni var ein vika nýtt til mats og ígrundunar, auk þess sem nemendur fóru í vettvangsferð og heimsóttu vitavörð. Stöðvunum fimm er lýst hér á eftir.


Fuglinn minn
Fjölskyldan lærði um nokkra bjargfugla og valdi í kjölfarið einn fugl til að afla sér sérfræðiþekkingar um. Fjölskyldan kynnti sér fæðuval, fengitíma, fjölda eggja, hve margir ungar kæmust á legg, búsvæði, ógnir o.fl.

Bjargið
Allar fjölskyldurnar bjuggu saman til listaverk þar sem bjarg rís úr sæ. Bjargið var gert úr kubbum úr ýmsu efni sem var raðað upp og þeir síðan málaðir. Viti var ofan á bjarginu sem lýsti á haf út. Fuglar voru mótaðir úr leir og áttu þeir sér hreiður í berginu. Fuglar á stöngum flugu í fæðuleit og það grillti í fiska í sjó. Veiðiskip lágu í vari við klettinn.

Á vondum veðurdegi
Fjölskyldur huguðu að margs konar afþreyingu. Ein fjölskyldan útbjó samstæðunámsspil með fuglum, önnur bjó til spil í anda slönguspils þar sem leikmenn þurftu að komast upp að perustæði og skipta um peru. Þriðja fjölskyldan bjó til karamellur og lýsti lífinu í vitanum með því að skrifa bréf til annarra fjölskyldna. Fjórða fjölskyldan bjó til stórt lærdómsspil þar sem reyndi á margs konar þekkingu og fékk spilið nafnið Kapphlaup vitavarðanna. Fimmta fjölskyldan málaði stóra veggmynd um hringrás vatnsins og ferðalag vatnsdropans. Öll þessi spil voru notuð í námsmati til upprifjunar á þeirri þekkingu sem nemendur höfðu tileinkað sér.
 

       


Veðurfræði
Fjölskyldurnar lærðu um vindáttir, áttavitann og veðurtákn. Þær lýstu veðri með táknum, ýmist eftir upplestri eða samkvæmt eigin mælingum. Nemendur gerðu vönduð veðurkort fyrir landið og fyrir það svæði sem þeir ætluðu að verða vitaverðir á.

Vistkerfið, rafkerfið og skyndihjálp
Nemendur skoðuðu fuglabjargið sem vistkerfi, fengu egg bjargfugla í hendur, mældu þau og greindu, æfðu sig í að hnýta hnúta, lærðu um ýmsar hættur og hvernig bregðast skuli við þeim. Nemendur lærðu líka að tengja rafrás og huguðu að því hvernig þeir gætu séð sér farborða ef vistir þryti.

Lok smiðjunnar

Öllum námsverkefnum hverrar fjölskyldu var safnað saman í þar til gerða vitavarðarbók sem jafnframt var umsóknarbréf til vitavarðarins. Hver fjölskylda skipti með sér verkum og undirbjó kynningar á því sem hún hafði lært. Síðan var haldið út í Gróttu til fundar við vitaverði. Hver fjölskylda fór í atvinnuviðtal á meðan aðrar fjölskyldur undu sér við leik og störf utandyra. Að endingu söfnuðust allir saman þar sem í ljós kom að vitaverðirnir ákváðu að nota tækifærið og fara í fimm mánaða leyfi og skipta mánuðunum á milli fjölskyldnanna. Áður en heim var haldið sungu nemendur hátt og snjallt með vitavörðunum lag Bjarna Þorsteinssonar, Brennið þið vitar.

Þegar allt var um garð gengið var sett upp sýning á afrakstrinum og litu foreldrar við og fræddust um vitavarðarstarfið.

Landnámssmiðja (5.–7. bekkur)

Meginmarkmið landnámssmiðjunnar, sem tók fimm vikur, var að kenna nemendum um landnám Íslands samkvæmt markmiðum Aðalnámskrár grunnskóla. Að smiðjunni komu bæði umsjónarkennarar nemenda og list- og verkgreinakennarar. Meðan á vinnunni stóð var sagan Vítahringur eftir Kristínu Steinsdóttur (2004) lesin fyrir nemendur í sérstökum bókmenntatímum.

Með hliðsjón af Aðalnámskrá var efninu skipt í fjóra flokka: stjórnarfar, vopn og deilur, daglegt líf og trú og tákn. Nemendum var skipt í fjóra aldursblandaða hópa. Hver smiðjueining var tvískipt. Í fyrri hluta var fyrirlestur með umræðum en í þeim seinni var fengist við fjölbreytt verkefni.

Stjórnarfar
Áhersla var m.a. lögð á frásagnir af landnámi Ingólfs Arnarsonar, stéttaskiptingu í landinu, skiptingu landsins í goðorð, hvernig Alþingi kom til sögunnar og hvernig því var stjórnað. Mikil áhersla var lögð á að tengja fræðsluna og umræðuna við stétt og stöðu sögupersóna í bókinni Vítahringur sem lesin var samhliða smiðjunum. Í seinni hlutanum unnu nemendur stóra veggmynd af sögupersónum úr Vítahring og áttu að hafa eigin stærð að viðmiði. Nemendum voru kenndar nýjar aðferðir við notkun lita og verklag sem hentar þegar stór veggmynd er búin til.

Vopn og deilur
Rætt var um landnámið – af hverju landnámsmenn komu hingað og hvaðan og hvernig menn helguðu sér land og leystu ýmis mál sín á milli, um Alþingi og Lögréttu. Nemendur lærðu um fóstbræðralag (lýsing í Gísla sögu Súrssonar) og nokkrir nemendur voru fengnir til að sýna með leikrænni tjáningu hvernig að því var staðið. Því næst var rætt um hefndir og sagan Hvalrekinn lesin fyrir nemendur [4]. Eftir umræðurnar kynnti smíðakennari þau verkefni sem í boði voru. Gátu nemendur valið um að smíða sverð eða skjöld. Þeir sem völdu að búa til skjöld lærðu aðferð við að teikna hring með bandspotta og nagla en hún var notuð fyrr á öldum. Sverðið var búið til úr tveimur bútum, límt saman og bundið. Vopnin voru skreytt með brennipenna og nýttu nemendur vitneskju sína um rúnaletur sem þeir höfðu aflað sérí smiðjunni um trú og tákn.

Daglegt líf
Eftir samræður var verkum skipt. Nemendur tóku til við byggingarvinnu annars vegar og eldamennsku hins vegar. Sá hópur sem eldaði hlóð hlóðir og kveikti eld. Á stórri pönnu steikti hópurinn brauðmeti og í keðju hékk ketill sem í var soðið vatn. Byggingarhópurinn safnaði timbri og þurfti sjálfur að finna leiðir til að flytja það á staðinn. Reyndi það mjög á útsjónarsemi. Sumir hópar báru níðþunga stofna í fanginu og hjálpuðust þá allir að, aðrir drógu timbrið með köðlum og einn hópur fleytti því áfram á tilhöggnum bútum. Því næst súrraði hópurinn saman þrjá og þrjá stofna og reisti turna. Utan á turnana voru settar þverspýtur og strigi settur utan á allt. Þessi smiðja fór að mestu fram í Björnslundi, útikennslustofu skólans. 

Trú og tákn
Fyrstu tvær loturnar voru notaðar til að fjalla um trúarbrögð á landnámsöld. Stuðst var við myndir úr bókinni Huginn og Muninn (Nielsen,1994) sem settar höfðu verið á glærur. Þeim var varpað upp á vegg og kennari sagði sögur af ásunum með hliðsjón af myndunum. Miklar umræður sköpuðust og var lagt upp úr að nemendur tækju þátt í frásögninni. Í lok seinni lotunnar fengu nemendur kynningu á rúnaletrinu Fúþark. Þá var kynnt verkefni sem fólst í því að búa til merkispjald úr tré með nafninu sínu bæði með rúnaletri og venjulegum stöfum. Einnig var spjaldið skreytt með táknum og myndum í víkingaaldarstíl. Þeir sem kláruðu snemma gátu gert skartgripi í anda víkinga úr vír, leðri, perlum og ýmsu tilfallandi efni.

Námsmat byggðist á skrifum nemenda, virkni, sjálfstæði í vinnubrögðum og hópvinnu (sjálfsmat, kennaramat). Þá var farið í spurningaleik (Landnámsleik) í Björnslundi sem einnig gilti til mats [5].


Ritunarsmiðja (8.–10. bekkur)

Meginmarkmið smiðjunnar var að efla færni nemenda í ritun á sem fjölbreyttastan hátt. Meðal viðfangsefna voru skapandi skrif, formleg og óformleg bréf, listrýni og myndasögur. Þá bjuggu nemendur til bókarkápur utan um verk sín og bundu þau inn. Þannig eignaðist hver og einn lítið ritsafn eftir sjálfan sig.

Smiðjutímabilið að þessu sinni var óvenjulangt, eða sjö vikur á vordögum. Verkefnunum var skipt á vikurnar og voru þrjú unnin með öllum hópnum í einu en fjögur í kynjaskiptum hópum sem skiptust á stöðvum í hringekju. Í hverri viku voru þrjár sjötíu mínútna lotur nýttar í smiðjur. Smiðjutímabilið hjá dæmigerðum nemanda leit út þannig:

1. vika, bíóhúsið
Í fyrstu lotu kynnti kennari ákveðin bókmennta- og kvikmyndarýnihugtök og í þeirri næstu horfðu nemendur á kvikmynd með þau hugtök í huga. Hver og einn nemandi ritaði síðan gagnrýni um kvikmyndina í þriðju lotunni og skilaði til kennara.

2. vika, listasafnið
Fyrri smiðjudaginn fóru nemendur í vettvangsferð og skoðuðu myndlistarsýningu. Sumir sáu samsýningu í Hafnarhúsinu en aðrir sýningu á verkum Errós á Kjarvalsstöðum. Seinni daginn unnu nemendur að ritunarverkefni og máttu velja um að skrifa um eigin upplifun af sýningunni í heild, um listamann eða verk sem höfðaði sérstaklega til þeirra.

3. vika, hús skáldsins
N
emendur æfðu sig í skapandi skrifum og skrifuðu stuttar sögur um efni að eigin vali.

4. vika, pósthúsið
Kennari kynnti nemendum mismunandi gerðir af bréfum – formleg og óformleg bréf, mótmælabréf og þar fram eftir götunum. Til hliðsjónar var notuð bókin Bréf Vestur-Íslendinga eftir Böðvar Guðmundsson (2002). Einnig gátu nemendur skoðað vef Vesturfaraseturs til að leita sér innblásturs. Hver og einn skrifaði síðan bréf þar sem listrænir hæfileikar fengu að njóta sín. Nemendur spreyttu sig á skrautskrift, á að búa til innsigli og skrifuðu bréf af ýmsum gerðum.

5. vika, bókargerð
Nemendur bjuggu til kápur utan um ritunarverkefni sín með aðstoð list- og verkgreinakennara auk umsjónarkennara. Nemendur lærðu ákveðnar aðferðir við bókargerðina en höfðu að mestu frjálsar hendur varðandi stærð og útlit bókanna.

6. vika, myndasögur
Nemendur teiknuðu myndasögur. Áhersla var lögð á að þeir notuðu ímyndunarafl sitt og myndræna hugsun en kennarar voru þeim innan handar og aðstoðuðu við val á umfjöllunarefni sagnanna.

7. vika. Draumalandið
Hópurinn fór saman í Smárabíó og horfði á kvikmyndina Draumalandið. Í framhaldi af því var lagt fyrir ritunarverkefni sem reyndi á færni nemenda í gagnrýni, skapandi framsetningu, persónulegum stíl, túlkun á upplifun og myndrænni hugsun.

Námsmat í smiðjunni byggðist á ýmsum færniþáttum sem reynt hafði á í vinnu nemenda, s.s. tjáningu, gagnrýninni hugsun, ögun, vandvirkni og handverki.

Námsmat í smiðjum

Mikil umræða hefur verið í starfsmannahópnum um fyrirkomulag námsmats í smiðjum. Áhersla hefur verið lögð á að það sé fjölbreytt og áreiðanlegt. Í upphafi var leitast við að samræma námsmatið en fljótlega kom í ljós að smiðjurnar voru innbyrðis það ólíkar að það reyndist erfitt og óæskilegt. Því var farin sú leið að þróa hugmyndabanka með fjölbreyttum námsmatsaðferðum sem henta ólíkum smiðjum. Á næstu misserum verður hugað sérstaklega að fjölbreyttara námsmati í smiðjunum.

Mat á því hvernig til hefur tekist

Mat starfsfólks Norðlingaskóla á námi og starfi í smiðjum er í heild mjög jákvætt. Enginn vafi leikur á að smiðjurnar veita nemendum kærkomið tækifæri til að nálgast námsefni á fjölbreyttan og skemmtilegan hátt og vekja áhuga þeirra með ýmsu móti. Smiðjurnar eru að verða einn af meginþáttum skólastarfsins og hafa vakið athygli utan skólans.

Benda má á að námið í smiðjunum höfðar til mismunandi hæfileika nemenda og oft hefur mátt sjá nemendur verða gagntekna af viðfangsefnum sínum og bókstaflega gleyma stund og stað.

Aldursblöndun nemenda í smiðjunum hefur sérstakt gildi, m.a. félagslegt vegna þess að nemendur kynnast vel þvert á aldurshópa. Þá má oft sjá nemendur á mismunandi aldri læra hver af öðrum, þeir eldri kenna þeim yngri og öfugt. Í þessu felst ákveðin lífsleiknikennsla en í skólanum er lögð áhersla á að hún sé samofin öllu starfi.

Starfsmenn hafa verið beðnir um að leggja mat á hvernig til hefur tekist við þróun smiðjanna og er afstaða þeirra mjög jákvæð. Þeir nefna m.a. að í smiðjunum kynnist þeir mjög mörgum nemendum og hitti jafnvel alla nemendur skólans. Þá auka smiðjurnar fjölbreytni í náminu. Kennararnir telja að smiðjurnar hafi haft mjög jákvæð áhrif á skólabrag. Fyrirkomulagið leiði til þess að á einu skólaári fá allir starfsmenn skólans tækifæri til að vinna saman í smiðju. Þessi samvinna sé líka þýðingarmikil fyrir skólamenninguna. Þá eru starfsmenn í smiðjum oft að fást við viðfangsefni sem þeir hafa sjálfir mikinn áhuga á sem vitaskuld smitar út frá sér. Aðspurður um þýðingu smiðjanna svaraði einn starfsmaður á eftirfarandi hátt:

Sú djörfung að leggja fimmtung kennsluvikunnar í Norðlingaskóla undir smiðjur, allt árið, finnst mér aðdáunarverð og er ein aðalástæða þess hvað mér finnst gaman að vinna í þessum skóla. Mér hefur virst starfsfólki skólans vaxa ásmegin með hverju árinu sem líður að skipuleggja skemmtilegar, markvissar og árangursríkar smiðjur. Að sama skapi uppfylla smiðjurnar fleiri og fleiri markmið aðalnámskrár með hverju árinu. Í unglingadeild hefur orðið kúvending á viðhorfi nemenda til smiðjuvinnunnar. Fyrir aðeins tveimur árum var ríkjandi sú skoðun að smiðjur væru ekki „alvöru" kennslustundir heldur frekar eins konar leikur, uppbrot eða tilbreyting. Þetta hefur nú breyst og má sjá mikinn metnað lagðan í alla vinnu nemenda í smiðjutímum á þessum vetri.

Viðhorf nemenda til smiðjanna eru mjög jákvæð. Haldnir hafa verið fundir með öllum aldurshópum þar sem þeir hafa verið beðnir um að leggja mat á smiðjurnar. Nemendur í öllum árgöngum voru sammála um að smiðjurnar væru sérstaklega skemmtilegar og gæfu þeim tækifæri til að læra á annan hátt en úr bókunum. Ráðgjafi verkefnisins hefur spurt nemendur um uppáhalds viðfangsefni þeirra í Norðlingaskóla og eru smiðjurnar lang oftast nefndar. Í svörum þeirra kemur fram að verkefnin séu áhugavekjandi og að þau fái svo margt „skemmtilegt að gera“.

Mat foreldra hefur einnig verið mjög jákvætt og hafa þeir látið í ljós ánægju með ýmsum hætti, bæði í samtölum og í tölvupósti.

Lokaorð

Eins og fram hefur komið í þessari grein eru starfsmenn og nemendur Norðlingaskóla mjög sáttir við hvernig til hefur tekist með smiðjurnar. Erfitt er að taka eitt atriði fram yfir annað þegar litið er til jákvæðra þátta en nefna má fjölbreytni, sköpun, virkni og áhuga nemenda og samstarf starfsfólks við undirbúning og framkvæmd smiðjanna.

Smiðjurnar hafa öðlast sess sem eitt af því sem öðru fremur einkennir starf skólans. Starfsfólk skólans er á einu máli um að halda starfsemi þeirra áfram. Lögð verður áhersla á að safna saman gögnum um smiðjurnar og gera þau aðgengileg svo auðveldara verði að þróa starfið áfram. Gengið verður frá lýsingum og skýrslum um hverja smiðju þar sem öllum gögnum (skjásýningum, verkefnum, leiðbeiningum, námsmatsgögnum og eyðublöðum) er haldið til haga (sjá hér). Með þessum hætti er stefnt að því að byggja upp hugmyndabanka sem nýst getur kennurum skólans, en vonandi einnig kennurum í öðrum skólum. Þá verður aukin áhersla lögð á að kynna smiðjustarfið betur fyrir foreldrum, m.a. með kynningarbæklingum, með því að bjóða þeim að koma í skólann og fylgjast með starfinu og með því að hluti af smiðjuvinnunni fari fram á heimilunum.

Þeim sem áhuga hafa á að kynna sér smiðjustarfið nánar og fylgjast með þróun þess á næstu misserum er bent á heimasíðu skólans, sjá hér.

Aftanmálsgreinar

 1. Fleiri starfsmenn skólans lögðu af mörkum til greinarinnar með efni (m.a. ljósmyndum) eða yfirlestri og skal þeim öllum þakkað.

 2. Auglýsing um stöðu skólastjóra og kennara í nýjum grunnskóla í Norðlingaholti frá Fræðslumiðstöð Reykjavíkur 13. mars 2005. 

 3. Þeim sem ekki þekkja söguramma er bent á vef Bjargar Eiríksdóttur um söguaðferðina á slóðinni http://frontpage.simnet.is/storyline/bjorg04.htm.

 4. Sagan er í bókinni Landnám Íslands (Ingvar Sigurgeirsson, Ragnar Gíslason, Sigþór Magnússon, Guðmundur Ingi Leifsson og Ólafur H. Jóhannsson, 1982).

 5. Sjá nánar um þetta verkefni á slóðinni http://www.nordlingaskoli.is/images/stories/pdf/
  starfshaettir/smidjur/landnamssmidja.pdf.

Heimildir

Armstrong, Thomas. (2001). Fjölgreindir í skólastofunni. Reykjavík: JPV útgáfa.

Böðvar Guðmundsson. (2002). Bréf Vestur-Íslendinga. Reykjavík: Mál og menning.

Csikszentmihalyi, Mihaly. (1990). Flow: The psychology of optimal experience. New York: Harper and Row.

Ingvar Sigurgeirsson, Ragnar Gíslason, Sigþór Magnússon, Guðmundur Ingi Leifsson og Ólafur H. Jóhannsson. (1982). Landnám Íslands. Reykjavík: Námsgagnastofnun.

Ingvar Sigurgeirsson, Ágúst Ólason og Guðlaug Erla Gunnarsdóttir. (2009). Námsmat – í þágu hvers? Skýrsla um þróunarverkefni um einstaklingsmiðað námsmat í Ingunnarskóla og Norðlingaskóla 2006–2009. Reykjavík: Símenntun – rannsóknir – ráðgjöf. [Sjá á þessari slóð: http://starfsfolk.khi.is/ingvar/namsmat/Modurskolar/lokaskyrsla_I_og_N_24_okt09.pdf]

Kristín Steinsdóttir. (2004). Vítahringur: Helgusona saga. Reykjavík: Vaka-Helgafell.

Nielsen, E. H. (1994). Huginn og Muninn segja frá ásum. Reykjavík: Mál og menning.

Tomlinson, Carol Ann. (1999). The differentiated classroom. Responding to the needs of all learners. Alexandria, Va: Association for Supervision and Curriculum Development.

Tomlinson, Carol Ann. (2001). How to differentiate instruction in mixed-ability classrooms (2. útgáfa). Alexandria, Va: Association for Supervision and Curriculum Development.

Tomlinson, Carol Ann. (2003). Fulfilling the promise of the differentiated classroom: Strategies and tools for responsive teaching. Alexandria, Va: Association for Supervision and Curriculum Development.

Tomlinson, Carol Ann, Brimijoin, Kay og Narvaez, Lane. (2008). The differentiated school: making revolutionary changes in teaching and learning. Alexandria, VA: Association for Supervision and Curriculum Development.

Prentútgáfa     Viðbrögð