Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun

Menntavísindasvið Háskóla Íslands
 

Grein birt 20. mars 2010

Greinar 2010

Guðmundur Sæmundsson

Orð sem aldrei gleymast

Skapandi nám í kennslufræði

Í þessari grein segir frá nýstárlegu verkefni sem höfundur vann með nemendum sínum á námskeiði á íþrótta- og heilsubraut. Verkefnið fólst í því að yrkja ljóð um einelti, en slíkt verkefni hafði höfundur aldrei áður lagt fyrir háskólanema. Markmiðið var meðal annars að fá nemendur til að lifa sig inn í aðstæður og tilfinningar þeirra sem verða fyrir einelti. Árangurinn varð sérstaklega áhugaverður eins og lesa má um í greininni. Guðmundur Sæmundsson er aðjunkt við Íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeild Háskóla Íslands.

Það er engin ástæða til að þegja um það sem vel tekst. Nú á vorönn tók ég að mér kennslu á námskeiðinu Kennarinn og skólastarfið – ÍÞH402G - á íþrótta- og heilsubraut sem ég hafði raunar áður tekið þátt í að kenna. Ég tók að mér að kenna námsþáttinn Sérkenni og frávik sem gilda skyldi 25% af námskeiðinu sem er tíu einingar. Aðrir námsþættir þess eru Vettvangsnám (50%) og Útikennsla (25%) en námskeiðið sjálft er hugsað sem beint framhald af öðru námskeiði, Kennslufræði íþrótta – ÍÞH 302G. Þessi tvö námskeið eru skyldunámskeið fyrir þá sem hafa hugsað sér að fá kennsluréttindi að loknu BS-námi í íþróttafræði.

Innihald þessa námskeiðshluta er einkum fræðilegt. Nemendur fá að kynnast helstu frávikum meðal nemenda og hæfnimarkmiðin eru að þeir kunni að bregðast við slíkum úrræðum í skólastarfinu á faglegan hátt. Nemendur eru fræddir um lesblindu og aðra lestrarörðugleika, athyglisbrest með og án ofvirkni, misþroska, einhverfu og Asperger-heilkenni, helstu einkenni þessara frávika og úrræði í námi. Einkum er reynt að tengja þessi frávik væntanlegu starfi nemendanna, íþróttakennslunni. Auk þessara frávika er fjallað ítarlega um einelti og úrræði gegn því. Þar er markmiðið að nemendur verði færir um að uppgötva einelti og bregðast við því. Loks er kennarastarfið sjálft tekið til sérstakrar skoðunar með tilliti til eiginleika starfsins, starfshæfni kennara og samstarfs milli kennara.

Lesefnið sem nemendum er bent á að kynna sér varðandi frávikin er einkum sótt á Netið, t.d. greinar á  Vísindavefnum, Lesvefnum, vefnum Doktor.is, í Læknablaðinu og Netlu. Þá er vísað í vefi félagasamtaka, til dæmis vef ADHD-samtakanna og vef Umsjónarfélags einhverfra. Vísað er í bækur eftir Guðrúnu Kristinsdóttur (1998), Matthías Kristiansen (2002), Ragnhildi Bjarnadóttur (1993), S. Jhoanna Robledo (2008) og Rósu Eggertsdóttur og Þóru Björk Jónsdóttur (2006). Um einelti og Olweus-áætlunina er bent á efni Regnbogabarna, Rauðakrossins og Landlæknis á Netinu, auk bæklingsins um Olweus-áætlunina. Um kennarastarfið eru tvær greinar lagðar til grundvallar, önnur eftir Ragnhildi Bjarnadóttur (2008), hin eftir Ásdísi Hrefnu Haraldsdóttur og Sigrúnu Aðalbjarnardóttur (2008).

Samkennarar mínir, Ann-Helen Odberg lektor og umsjónarmaður námskeiðsins og Örn Ólafsson lektor og umsjónarmaður vettvangsnáms, ákváðu að fylgja þessari umfjöllun eftir í vettvangsnámi nemenda sem tekur við skömmu eftir að þessum námsþætti lýkur. Þar eiga nemendur að fylgjast með tveimur til þremur nemendum með sérþarfir eða sem eru greindir með frávik, og lýsa því í vettvangsskýrslu sinni hvernig skóladagurinn er hjá þeim og hvaða úrræði og skipulag séu fyrir þessa nemendur í almennu skólastarfi og íþróttum. Einnig eiga þeir að gera grein fyrir stefnu viðkomandi skóla fyrir þennan hóp nemenda, lýsa úrræðum, kennsluaðferðum og skipulagsrömmum sem þeir notuðu við kennslu í vettvangsnáminu fyrir þennan hóp. Loks eiga þeir að gera grein fyrir því hvernig þeim gekk að koma til móts við nemendur með sérþarfir og hvernig þeim gekk að vinna með viðkomandi hópa eða bekki.

Þessi námskeiðshluti minn var skipulagður nokkuð öðruvísi en ég hafði áður gert og verkefni talsvert ólík. Tilraunin tókst vel og því finnst mér rétt að segja aðeins frá henni, ef vera kynni að aðrir kennarar gætu nýtt sér þessar hugmyndir. Leiðarhnoðað var sköpun. Til þess að nám verði vel heppnað og líklegt til að festa sig til langframa í sálarlífi nemenda er sköpunin sem náms- og kennsluaðferð áreiðanlega vænlegasti kosturinn (Berglind Rós Magnúsdóttir, 2009).

Skipulag námsþáttarins

Námsþátturinn var þannig skipulagður að haldnir voru sex fyrirlestrar og verkefni lögð fyrir að loknum hverjum þeirra. Fyrsti fyrirlesturinn fjallaði um frávik og var námsþátturinn kynntur. Verkefnið sem fylgdi þeim fyrirlestri var stutt ritgerð um einstakling úr eigin lífi (sjálfan sig, vin eða skyldmenni) sem nemandinn taldi hafa haft einhverjar þær sérþarfir sem um yrði fjallað á námskeiðinu. Þetta fyrsta verkefni gaf tóninn í þessum námsþætti, þ.e. að gera efnið persónulegt og nákomið nemendunum sjálfum.

Næsti fyrirlestur fjallaði um dyslexíu og aðra lestrarörðugleika. Tveir og tveir nemendur unnu saman verkefni þar sem rætt var við skólafélaga eða vin sem taldi sig vera haldinn dyslexíu, frávik hans metin og þeim lýst, ásamt því að setja fram hugmyndir um möguleg úrræði. Markmiðið var að reyna að setja sig í spor einstaklinga sem glíma við lestrarörðugleika

Þriðji fyrirlesturinn var síðan um athyglisbrest með eða án ofvirkni og um misþroska. Þar var verkefnið einnig tveggja manna og fólst í því að skrifa stutta smásögu um dag í lífi einstaklings með athyglisbrest með ofvirkni, athyglisbrest án ofvirkni eða misþroska einstaklings. Tilgangurinn með því að nota smásöguformið var að reyna að þoka nemendum nær einstaklingunum með þessar sérþarfir frekar en að fjalla ópersónulega um einkenni eða úrræði sem lesefni þeirra var fullt af.

Í fjórða fyrirlestrinum var fjallað um einhverfu og Asperger-heilkenni. Enn var verkefnið tveggja manna en nú fólst það í því að finna kvikmynd, myndaþátt eða skáldsögu þar sem fjallað væri um einstaklinga með einhverfu eða Asperger og lýsa einkennum þeirra. Tilgangurinn með þessu verkefni var að sjá viðfangsefnið frá nýrri hlið með því að tengja það menningu okkar og umhverfi.

Skemmst er frá því að segja að þessi fjögur verkefni skiluðu mjög vönduðum úrlausnum sem sýndu ekki aðeins þekkingu heldur skilning og talsverða innlifun. Nú fannst mér þau tilbúin til að reyna sig við enn erfiðara verkefni og meira krefjandi.

Ljóðaverkefni

Fimmta verkefnið reyndist hápunkturinn á þessum námskeiðshluta. Fyrst var fluttur fyrirlestur um einelti og úrræði gegn því, meðal annars Olweus-áætlunina. Að því loknu var eftirfarandi verkefni lagt fyrir:

Einstaklingsverkefni (3%)
Skrifið ljóð (200–300 orð) um einelti.
Veljið það sjónarhorn sem ykkur sýnist, sjónarhorn þolenda, gerenda, meðreiðarsveina eða áhorfenda, sjónarhorn foreldra, kennara, skólafólks, íþróttamanna, þjálfara o.s.frv. (Sjá hér.)

Þetta var í aðra röndina tilraun sem óvíst var hvernig tækist. Markmiðið með því að leggja þetta verkefni fyrir nemendur var að fá þá til að lifa sig inn í aðstæður og tilfinningar þeirra sem verða fyrir einelti. Og hvaða tjáningartæki er betra en ljóðformið til þess að tjá tilfinningar? Það er í fullu samræmi við reynslu mína og fleiri kennara sem kennt hafa í framhaldsskólum að ljóðagerð virðist oft opna fyrir flóðgáttir tilfinninga og innlifunar í það efni sem til umræðu er. Það má því vel segja að ég hafi farið út í þessa tilraun á grundvelli þeirrar reynslu. Ég hef ekki reynt þetta áður á háskólastigi en veit til þess að aðrir kennarar hafi notað ljóðagerð sem hluta af námi.

Niðurstaðan varð sú að háskólanemarnir virtust njóta þess að fá að reyna sig við þetta form. Það gaf þeim svigrúm til að lifa sig inn í viðfangsefnið af virðingu, innlifun og einlægni. Einmitt þessi mikla einlægni hreif mig svo þegar ég hafði fengið verkefnin í hendur að ég sendi nemendum bréf og bað þá leyfis að mega birta ljóðin þeirra nafnlaust á opinberum vettvangi innan skólans. Langflestir svöruðu mér játandi, örfáir sýndu því ekki áhuga eða töldu ljóðin of persónuleg til að vilja birta þau. En hér birtist 21 ljóð úr safninu.

Það kom einnig í ljós að nemendur þekktu almennt vel til eineltis og virtust flestir hafa upplifað það í einhverri mynd. Það er í samræmi við rannsóknir sem gerðar hafa verið á einelti í framhaldsskólum á Íslandi (Arnheiður Gígja Guðmundsdóttir, Sif Einarsdóttir og Vanda Sigurgeirsdóttir, 2007).

Ýmislegt fleira athyglisvert má lesa úr ljóðum nemendanna án þess að ég vilji túlka þau of mikið og hugsanlega skemma fyrir væntanlegum lesendum. Ég get þó ekki á mér setið að minnast á tvennt: Í fyrsta lagi hinar djúpu tilfinningar reiði, heiftar og hefndar sem víða brjótast fram. Kannski tengist það því að í framhaldsskólum virðist eineltið vera andlegra og félagslegra en í grunnskólum og því e.t.v. líklegra til að vekja slíkar tilfinningar (Arnheiður Gígja Guðmundsdóttir, Sif Einarsdóttir og Vanda Sigurgeirsdóttir 2007, bls. 15–16, 25). Í öðru lagi það mikla úrræðaleysi skóla og kennara gagnvart einelti sem víða skín í gegn og einnig á sér stoð í rannsóknum (sömu, bls. 21–24). Skyldi það gefa rétta mynd af ástandinu í íslenskum skólum? Eða er þetta aðeins lýsing á veröld sem var? Miðað við rannsóknir virðist einelti síður en svo horfið úr skólum (sömu, bls. 10 og 25). Athyglisverð dæmi eru um að framhaldsskólar séu í þann mund að taka upp Olweus-áætlunina gegn einelti, en til þessa hefur henni fyrst og fremst verið hrundið af stað í grunnskólum.

Að loknu þessu verkefni var einn fyrirlestur í viðbót, um kennarastarfið. Honum fylgdi ekkert verkefni heldur var ætlunin að prófa úr því efni á prófi nokkrum dögum síðar.

Lokaorð – heimaprófið

Eftir ljóðaverkefnið taldi ég nemendur loks tilbúna til að þreyta próf úr efninu, að minnsta kosti þess háttar próf sem ég hafði áhuga á að leggja fyrir þá. Prófið var heimapróf og engir fengu sama prófið. Öll prófin voru þannig upp byggð að nemendur fengu þrjú verkefni til að leysa. Fyrsta verkefnið fjallaði um að þeir settu sig í spor (íþrótta)kennara eða leiðbeinanda (jafnvel þjálfara) sem þyrfti að koma til móts við nemendur með einhverjar þær sérþarfir sem um var fjallað í námsþættinum. Annað verkefni var fólgið í því að setja sig í spor einhverra þátttakenda eineltis (þolenda, gerenda, meðreiðarsveina) og skrifa út frá því um líðan, orsakir og úrræði. Þriðja spurningin var úr námsefninu um kennarastarfið og fjallaði gjarnan um einstök hugtök eins og starfshæfni eða starfskenningu.

Um það þarf ekki að fjölyrða að niðurstaðan úr þessu heimaprófi var með eindæmum góð og betri en ég hef áður reynt í kennslu minni í háskóla. Auðvitað á nemendahópurinn þar stærstan hlut að máli en ég vil þó halda því fram að sú tilraun sem hér var gerð og byggðist á því að flétta sköpun inn í námið, eins og hér hefur verið lýst, hafi einnig átt þátt í þessum góða árangri. Ég tel því fulla ástæðu fyrir okkur kennara að skoða þennan möguleika þegar við veljum verkefni fyrir nemendur okkar. Munum að próf og verkefni til námsmats eru ekki fyrst og fremst til að komast að þekkingu (eða þekkingarskorti) nemendanna, heldur miklu fremur til að þeir bæti enn við þekkingu sína. Á því hef ég byggt og mun byggja.

Heimildir

Arnheiður Gígja Guðmundsdóttir, Sif Einarsdóttir og Vanda Sigurgeirsdóttir. (2007). „Hægist mein þá um er rætt“ Birtingarmyndir eineltis í framhaldsskólum og líðan þolenda. Uppeldi og menntun 16(1), 9–32.

Ásdís Hrefna Haraldsdóttir og Sigrún Aðalbjarnardóttir. (2008). Góður kennari. Sjónarhorn grunnskólanemenda. Uppeldi og menntun 17(2), 31–54.

Berglind Rós Magnúsdóttir. (2009).Where is the space for creativity in Icelandic society? Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun. Sprotagrein 12. desember 2009. Skoðað 9. mars 2010 á slóðinni: http://netla.khi.is/sprotar/2009/001/index.htm.

Guðrún Kristinsdóttir. (1998) Ótroðnar slóðir. Reykjavík: Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands.

Matthías Kristiansen. (2002). Þroski og hegðunarvandi barna. Reykjavík: höfundur.

Mig langar að vera glaður ... (2010) – Ljóðabók, hér á pdf-skjali.

Ragnhildur Bjarnadóttir. (1993). Leiðsögn – liður í starfsmenntun kennara. Reykjavík: Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands.

Ragnhildur Bjarnadóttir. (2008). Markmið kennaranáms: Starfshæfni og fagmennska. Tímarit um menntarannsóknir 5, 93–106.

Robledo, S. Jhoanna. (2008). Bókin um einhverfu. Reykjavík og Garðabær: Umsjónarfélag einhverfra og Græna húsið.

Rósa Eggertsdóttir og Þóra Björk Jónsdóttir. (2006). Lexía. Akureyri: Háskólinn á Akureyri.

Verkefni Kennarinn og skólastarfið – tekin af Uglunni, hér á pdf-skjali.


Prentútgáfa
     Viðbrögð