Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun

Menntavísindasvið Háskóla Íslands
 

Grein birt 1 mars 2010

Greinar 2010

Benedikt Jóhannsson

Málshættir, íslenskt uppeldi
og sígildar dygðir

Í greininni leitast höfundur við að tengja íslenska málshætti og orðtök við sex höfuðdygðir. Dygðirnar eru sóttar til klassískrar heimspeki og helstu trúarbragða heims og er hér m.a. fylgt hugmyndum bandaríska sálfræðingsins Martin Seligman (2002). Dygðirnar eru viska og þekking, hófsemi, hugprýði, réttlæti, kærleikur og mildi og andríki.  Benedikt Jóhannsson er sálfræðingur og starfar hjá Fjölskylduþjónustu kirkjunnar og Reykjavíkurborg auk þess að reka eigin sálfræðistofu.

Eftir fjármálahrunið er oft talað um að rifja þurfi upp hin gömlu íslensku gildi sem við misstum sjónar af í ákafa ofþenslunnar sem leiddi til hrunsins. Raunar má færa rök fyrir því að á undan falli verð- og hlutabréfa og fjármálamarkaðarins í heild hafi komið annað fall sem minna bar á, því það gerðist hægar og náði yfir lengri tíma. Það fall má nefna „gildisfallið“, það er fall hinna gömlu góðu klassísku gilda sem eru samgróin kristni og vestrænni menningararfleifð. Ég held því fram að það sé í grunninn þetta gildisfall sem leiddi til fjármálahrunsins.

Í þessum stutta pistli langar mig að rifja upp þessi klassísku gildi eins ég kynntist þeim á sjötta og sjöunda áratug tuttugustu aldar sem sveitadrengur á mannmörgum bæ. Ég veit að þetta er nokkuð djarft, því í seinni tíð hefur „sveitó“ verið sama og „halló“, en það er jú einmitt merki um hvernig sveitamenningin hefur verið vanmetin. Þessa upprifjun byggi ég á málsháttum og orðatiltækjum, sem oft var vísað til í minni æsku, og miðla í rauninni aldagamalli lífsspeki sem mótuð er af reynslu kynslóðanna. [1] Með tilvísun í Þórberg Þórðarson rithöfund má segja að þegar menn hlusta eftir boðskap þessara málshátta heyri menn „nið aldanna“.

Þessi speki er þó ekki afdráttarlaus eða einhlít og stundum kallast spekingarnir á í gegnum málshættina. Þannig má svara málshættinum „best er illu aflokið“ með málshættinum „frestur er á illu bestur“. Sumir þessa málshátta fjalla beinlínis um uppeldi eins og: „Það læra börnin sem fyrir þeim er haft. Ungur nemur gamall temur. Barnið vex en brókin ekki. Lítið er barns gaman. Sjaldan launar kálfur ofeldið“.

Sálfræðingurinn Martin Seligman (2002) hefur á grundvelli klassískrar heimspeki og helstu trúarbragða heimsins sett fram sex höfuðdygðir, með tilheyrandi styrkleikum. Þess má geta að ég fjallaði um kenningar Seligmans og uppeldi barna í tímaritinu Uppeldi (Benedikt Jóhannsson, 2006). Dygðirnar eru: Viska og þekking, hófsemi, hugprýði, réttlæti, kærleikur og mildi og að síðustu andríki. Ég ætla að fjalla um sígilda íslenska málshætti með hliðsjón af þessum dygðum. Auk rits Seligmans Authentic Happiness styðst ég við rit Vilhjálms Árnasonar (2008) heimspekings: Farsælt líf, réttlátt samfélag – kenningar í siðfræði.

Viska og þekking

Viska var í hávegum höfð í grískri heimspeki. Hún birtist meðal annars sem góð dómgreind og víðsýni. Seligman vill líka telja verklega færni eða verksvit til þessarar dygðar.

Fjölmargir íslenskir málshættir vísa til þessarar dygðar. Þar má nefna: „Glöggt er gests augað. Ekki er allt gull sem glóir. Sá vægir sem vitið hefur meira. Best er sígandi lukka. Brennt barn forðast eldinn. Oft er lán í óláni.“ Og í Hávamálum segir „Vits er þörf þeim sem víða ratar.“

Í mínu uppeldi var einnig talsverð áhersla lögð á fyrirhyggju: „Í upphafi skal endinn skoða. Best er kapp með forsjá. Best er að byrgja brunninn áður en barnið dettur ofan í hann“. Verkleg færni var einnig í hávegum höfð, samanber: „Æfingin skapar meistarann.“

Fjölmargir málshættir og orðatiltæki fjalla einnig um Vinnusemi og dugnað sem Íslendingar hafa löngum lagt mikla áherslu á: „Vinnan göfgar manninn. Láttu verkin tala. Þeir fiska sem róa. Morgunstund gefur gull í mund. Guð hjálpar þeim sem hjálpar sér sjálfur“. Á hippa-árunum var þessu snúið upp í: „Guð hjálpar þeim sem hjálpast að“.

Hófsemi

Önnur höfuðdygðin er hófsemi, sem sumir hafa viljað kalla dygð dygðanna. Hófsemi einkennist einkum af hógværð, varfærni og sjálfstjórn. Mjög marga málshætti sem fólk hafði á takteinum í mínum uppvexti má tengja þessari dygð.

Hófsemi og nægjusemi var í hávegum höfð, og það „daglega smáa“ metið að verðleikum: „Allt er best í hófi. Margt smátt gerir eitt stórt. Hafa skal það sem hendi er næst og hugsa ekki um það sem ekki fæst. Oft veltir lítil þúfa þungu hlassi. Græddur er geymdur eyrir“. Á verðbólguárunum var reyndar sagt í hálfkæringi: „Glötuð er geymd króna“.

Varfærni var einnig brýnd fyrir fólki: „Ekki er sopið kálið þó í ausuna sé komið. Lengi skal manninn reyna. Lofa skal dag að kveldi – og mey að morgni.“

Þolinmæði var í hávegum höfð: „Þolinmæði þrautir vinnur allar. Hefst þó hægt fari. Sá hlær best sem síðast hlær. Dropinn holar steininn.“ Í seinni tíð hafa menn einnig sagt: „Góðir hlutir gerast hægt“ og bæta mætti við „en hið illa með offorsi“.

Einnig var varað við ágirnd og hroka, en að margra mati voru það ekki síst þessir lestir sem leiddu til fjármálahrunsins: „Margur verður af aurum api. Hátt hreykir heimskur sér. Bylur hæst í tómri tunnu. Dramb er falli næst. Peningar eru ekki allt.“

Hugprýði

Hugprýði er ein hinna fornu höfuðdygða. Hún sýnir sig einkum í hugrekki og dirfsku, sem sannarlega var hampað í Íslendingasögunum. Hugprýði birtist einnig sem þolgæði og athafnasemi. Fjöldi íslenskra málshátta fjalla um að þrauka og harka af sér sem má tengja þessum eiginleikum: „Það er að duga eða drepast. Bíttu á jaxlinn og bölvaðu í hljóði. Það er engin miskunn hjá Magnúsi. Flest er hey í harðindum. Svo má illu venjast að gott þyki. Hver hefur sinn djöful að draga. Mörg er búmanns raunin. Enginn verður óbarinn biskup.“

Það má einnig telja til hugprýði að þora að vera hreinskilinn og þá kemur í hug: „Sannleikurinn er sagna bestur. Vinur er sá sem til vamms segir“.

Réttlæti

Réttlæti er ein hinna fornu höfuðdygða. Mér koma ekki í hug margir íslenskir málshættir sem fjalla um félagslegt réttlæti. Kannski kemur það til af því að jöfnuður var lengi vel fremur mikill meðal þjóðarinnar. Þó var oft sagt af vandlætingu: „Það er ekki sama Jón og séra Jón.“ Samvinnu má telja til þessarar dygðar og oft var sagt: „Margar hendur vinna létt verk“.

Einnig má færa rök fyrir því að það að taka ábyrgð á gerðum sínum tengist réttlæti í samskiptum manna og nokkrir málshættir fjalla um það: „Svo uppsker sem sáir. Árinni kennir illur ræðari. Margur heldur mig sig. Af ávöxtunum skuluð þið þekkja þá. Hver er sinnar gæfu smiður. Geldur sá er veldur.“

Sanngirni stuðlar einnig að réttlæti og oft var sagt þegar menn eða börn áttu í deilum: „Vægir sá sem vitið hefur meira“.

Kærleikur og mildi

Kristni og önnur trúarbrögð hafa lagt mikla áherslu á að kærleikur og mildi megi ríkja í samskiptum manna. Í mínu uppeldi var oft vísað beint í Krist sjálfan og sagt: „Komdu fram við aðra eins og þú vilt að þeir komi fram við þig. Dæmið ekki svo að þið verðið ekki dæmdir. Sá ykkar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum.“ Einnig var oft sagt: „Batnandi manni er best að lifa. Milt er móður hjarta.“ Og af nokkurri kímni: „Hverjum þykir sinn fugl fagur“.

Nærgætni felur í sér mildi í framkomu við aðra og oft var sagt: „Aðgát skal höfð í nærveru sálar. Oft má satt kyrrt liggja.“

Margir málshættir fjalla einnig um samhjálp og vináttu, sem mikil áhersla var lögð á: „Ber er hver að baki nema sér bróður eigi. Betur sjá augu en auga. Margar hendur vinna létt verk. Sælla er að gefa en þiggja. Æ sér gjöf til gjalda“. Á hátíðarstundum var jafnvel vísað í Njálu og sagt: „Góðar þykja mér gjafir þínar, en betri þykir mér vinátta þín og sona þinna“.

Andríki

Síðustu höfuðdygðina sem Seligman fjallar um kalla ég andríki á íslensku, en hún felur í sér ýmsa andlega þætti, sem lögð er áhersla á í trúarbrögðum og listum.

Það kom mér nokkuð á óvart að ég minnist ekki málshátta úr mínu uppeldi sem hvetja til andagiftar og tengist það sjálfsagt hinni miklu áherslu Íslendinga á að harka af sér, vera duglegur og bjarga sér. Við eigum þó ríka bókmenntahefð og vísur og kviðlingar gengu manna á milli. Við höfum átt skáld góð, sem þó var einkum hampað eftir dauða sinn. Reyndar þótti lengstum ógæfumerki að hneigjast til skáldskapar og lista og varað var við slíkri hneigð eins og freistingu sem þyrfti að varast, samanber: „Ekki verður bókvitið í askana látið“. Þessu freistast ég til að svara með vísu:

Ei verður bókvit í aska látið
augljóst það vera má,
það breytir þeim í dúka og diska
með dýrindis krásum á.

Ég geri ráð fyrir að flestum sé í dag ljóst mikilvægi andlegu hliðarinnar og sting ég því upp á að við tökum upp málsháttinn: „Aumur er andlaus maður“. Þessi málsháttur er ekki í bókinni Íslenskir málshættir (Bjarni og Óskar, 1966) og þegar ég leitaði að honum á Veraldarvefnum spurði tölvan hvort ég ætti við: „Aumur er hundlaus maður“.

Eftir að hafa leitað djúpt í fylgsnum hugans fann ég þó að lokum einn algengan málshátt sem vísar til orðheppni og andagiftar: “Seint verður góð vísa of oft kveðin“.

Von og bjartsýni telur Seligman til andríkis og þessir eiginleikar hafa löngum verið sterkir í þjóðarsálinni samanber: “Öll él birtir upp um síðir. Allt er gott sem endar vel. Koma dagar koma ráð. Við skulum vona það besta, en vera viðbúin því vesta“. Trú má einnig telja til styrkleika á andlega sviðinu. Þó ekki hafi borið mikið á beinni trúrækni í daglegu lífi fólks í mínu uppeldi var oft sagt: „Trúin flytur fjöll“.

Áhugi og eldmóður felur einnig í sér andríki. Nátengdur þessum styrkleikum er röskleiki, sem var einnig í hávegum hafður samanber: „Hamra skal járnið meðan það er heitt. Ekki er ráð nema í tíma sé tekið. Hálfnað er verk þá hafið er“. Þótt mikil áhersla væri lögð á að standa vel að verki var einnig sagt: „Orð eru til alls fyrst“. Kátína tengist andríki. Oft var vísað í Hávamál og sagt: „Maður er manns gaman“.

Lokaorð

Þá hef ég fjallað um hinar sígildu höfuðdygðir og rifjað upp gamla íslenska málshætti sem tengjast þeim. Eins og rætt var hér í upphafi þá er ég, eins og fleiri, þeirrar skoðunar að sú fjármálakreppa sem við göngum nú í gegnum eigi sér rætur í siðferðiskreppu í viðskiptalífinu, þar sem hinum klassísku gildum var ýtt til hliðar með hörmulegum afleiðingum. Einkum var áberandi að hófsemi og réttlætiskennd viku fyrir græðgi og hroka ásamt skefjalausri eigingirni, þar sem hagsmunum heillar þjóðar var stefnt í hættu í eiginhagsmunaskyni. Það skorti reyndar ekki á hugrekki í viðskiptum, en minna má á það fornkveðna að hugrekki án visku snýst upp í fífldirfsku, jafnvel með skelfilegum afleiðingum.

Reyndar held ég að í íslensku útrásinni hafi menn verið „andríkir“ í merkingunni hugmyndaríkir. Menn voru „athafnaskáld“ eins og stundum er sagt, en sumt var líka kannski bara eintómur skáldskapur. Þótt útrás viðskiptamanna sé kannski lokið í bili, þá heldur útrás íslenskra listamanna, rithöfunda, tónlistarmanna og fræðimanna áfram af talsverðum krafti. Þar sannast enn einu sinni að „bókvitið“ verður í askana látið.

Á útrásartímanum villtumst við af leið í siðferðilegum skilningi. Til að ná áttum á ný er nauðsynlegt að rifja upp hin gömlu góðu gildi, sem byggjast á okkar kristnu arfleifð, og stunda skynsama rökræðu um siðferðileg málefni. Hinn siðferðilegi grunnur sem sérhver einstaklingur byggir á er einkum lagður af foreldrum í uppeldi barna. Siðferðileg félagsmótun fer síðan einnig fram í skólum og ýmiss konar æskulýðsstarfi. Vert er að kynna og nota gamla málshætti í slíku starfi ekki síður en sígild ljóð, söngva og sögur. Þannig miðlum við margreyndri visku genginna kynslóða til barnanna okkar og þau læra vonandi að leggja hlustir við „nið aldanna“. Ef það tekst er minni hætta á að við gerum aftur eins barnalegar skyssur og leiddu til hrunsins.

Aftanmálsgrein

  1. Um eðli málshátta, sjá nánar í bókinni Íslenskir málshættir (Bjarni Vilhjálmsson og Óskar Halldórsson, 1996).

Heimildir

Benedikt Jóhannsson. (2006). Jákvæð sálfræði og börn. Uppeldi 19(4), 42–44.

Bjarni Vilhjálmsson og Óskar Halldórsson. (1996). Íslenskir málshættir. Reykjavík: Almenna bókafélagið.

Seligman, Martin. (2002). Authentic Happiness. London: Nicholas Brealey Publishing.

Vilhjálmur Árnason. (2008). Farsælt líf, réttlátt samfélag – kenningar í siðfræði. Reykjavík: Heimskringla / Mál og menning.


Prentútgáfa
     Viðbrögð