Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun

Menntavísindasvið Háskóla Íslands
 

Ritrýnd grein birt 30. desember 2009

Greinar 2009

Kristín Norðdahl

Menntun til sjálfbærrar þróunar
– í hverju felst hún?

Um gerð og notkun greiningarlykils
til að greina slíka menntun

Tilgangur þessarar greinar er að auka skilning á markmiðum og inntaki menntunar til sjálfbærrar þróunar. Í rannsóknar- og þróunarverkefninu GETA til sjálfbærni – menntun til aðgerða, sem unnið er að á tímabilinu 2007–2010 af fræðafólki við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri, voru námskrár og önnur menntastefnuskjöl greind til að finna í þeim ákvæði um menntun til sjálfbærrar þróunar. Við þetta starf var þróað verkfæri, greiningarlykill, sem byggir á sjö skilgreindum þáttum. Þeir eru: gildi, viðhorf og tilfinningar gagnvart náttúru; þekking sem nýtist til skynsamlegrar nýtingar náttúrunnar; velferð og lýðheilsa; lýðræði og þátttaka í samfélaginu, geta til aðgerða; jafnrétti og fjölmenning; alþjóðavitund og hnattrænn skilningur; efnahagsþróun og framtíðarsýn. Lykillinn er túlkun, þeirra sem standa að fyrrgreindu rannsóknarverkefni, á stefnumótun opinberra aðila um hvað felst í menntun til sjálfbærrar þróunar. Í greininni er gerð grein fyrir hugmyndafræðinni á bak við greiningarlykilinn. Einnig er fjallað um hvernig hann hefur gagnast og hvernig hann gæti nýst áfram til að ýta undir menntun sem hjálpar fólki að tileinka sér sjálfbæra lífshætti og framtíðarsýn. Kristín Norðdahl er lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.
 

Education for sustainable development – what does it mean?
The development and use of a tool for analyzing policy

The purpose of this article is to enhance an understanding of the objectives and content of education for sustainable development. In a research and development project entitled ActionESD (Educational Action for Sustainable Development) scholars from the University of Iceland and the University of Akureyri analyzed curriculum and other educational policy documents for statements on education for sustainable development. A tool was created for the analysis, built on seven components: Values, opinions and emotions about nature and environment; knowledge contributing to a sensible use of nature; welfare and public health; democracy and participation; action competence; equality and multicultural issues; global awareness; and economic development and future prospects. The tool is based on an interpretation of policy, as expressed by the relevant authorities, on what education for sustainable development should involve. The article outlines the underlying ideas upon which the analytic tool is based and discusses possible uses of the tool. Furthermore, the article discusses prospects for using the tool to promote educational policy that can help people to develop a sustainable way of life and vision. Kristín Norðdahl is an assistant professor at the School of Education, University of Iceland.

Inngangur

Sameinuðu þjóðirnar (SÞ) hafa haft frumkvæði að því að þjóðir heims sameinist um að bregðast við umhverfisvanda og misskiptingu manna á meðal á jörðinni. Í skýrslu sem nefnd á vegum SÞ skrifaði, Sameiginleg framtíð okkar (United Nations, 1987), eru settar fram hugmyndir um sjálfbæra þróun samfélaga. Þar er hún skilgreind sem þróun sem uppfyllir þarfir núlifandi kynslóða án þess að draga úr möguleikum komandi kynslóða til að uppfylla sínar. Í skýrslunni kemur einnig fram að sjálfbær þróun hvíli á þremur stoðum: umhverfisvernd, efnahagsþróun og félagslegri velferð og jöfnuði. Í umræðunni um sjálfbæra þróun er sá skilningur áberandi að hún feli í sér að koma á jafnvægi milli verndunar umhverfis, efnahagsþróunar og félagslegrar velferðar. Róttækari skilningur er sá að sjálfbær þróun feli í sér að efnahagslegri velferð og samfélagslegu réttlæti beri að ná innan vistfræðilegra takmarka jarðarinnar (Huckle, 2006).

Íslensk yfirvöld hafa sett sér stefnu um sjálfbæra þróun sem lesa má um í ritum sem kennd eru við velferð til framtíðar (Umhverfisráðuneytið, 2002; Umhverfisráðuneytið, 2007). Í rannsóknar- og þróunarverkefninu GETA til sjálfbærni – menntun til aðgerða, þar sem menntun til sjálfbærrar þróunar var til rannsóknar, var meðal annars athugað hvort menntamálayfirvöld ætluðust til að börn menntuðust á þessu sviði (Ingólfur Ásgeir Jóhannesson o.fl., 2008). Í því samhengi voru námskrár ólíkra skólastiga athugaðar, einnig menntastefnuskjöl sveitarfélaga og kennarasamtaka, svo og stefnuskjöl er varða fræðslu til almennings. Orðin sjálfbær þróun, sjálfbærni og sjálfbært samfélag komu sjaldan fyrir í námskránum, þannig að til að finna merki um að ætlast væri til að börn og unglingar menntuðust á þessu sviði varð fyrst að skilgreina í hverju slík menntun felst.

Í vinnu GETU-rannsóknarhópsins átti greinarhöfundur frumkvæði að því að móta sérstakan greiningarlykil sem felur í sér skilgreiningu á menntun til sjálfbærrar þróunar. Lykillinn var síðan þróaður af samstarfshópnum og notaður til að greina stefnuskjölin sem valin voru til umfjöllunar. Umfjöllun um greiningarlykilinn, ásamt niðurstöðum greiningar á námskrám og stefnu sveitarfélaga og félagasamtaka, er birt í skýrslunni Andi sjálfbærrar þróunar í námskrám og menntastefnu – náum honum til jarðar (Ingólfur Ásgeir Jóhannesson o.fl., 2008). Um lykilinn hefur einnig verið skrifað í Rannísblaðið (GETU-rannsóknarhópurinn, 2008), Skólavörðuna (Auður Pálsdóttir og GETU-rannsóknarhópurinn, 2008), ráðstefnurit Þjóðarspegilsins (Auður Pálsdóttir, Björg Pétursdóttir, Gunnhildur Óskarsdóttir, Ingólfur Ásgeir Jóhannesson og Kristín Norðdahl, 2009) og Netlu (Auður Pálsdóttir, Allyson Macdonald og Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 2009). Hér verður gerð grein fyrir tilurð greiningarlykilsins og einstökum þáttum hans, en þeir eru alls sjö.

Í þessari grein er leitast við að útskýra þessa þætti og gera grein fyrir þeirri menntun sem áhersla er lögð á í hverjum þeirra. Auk þess verður dregið saman hvernig greiningarlykillinn hefur nýst og gæti nýst í framtíðinni.

Tilurð greiningarlykils

Fyrstu hugmyndir um greiningarlykilinn voru lagðar fram á fundi í GETU-rannsóknarhópnum snemma hausts 2007. Þær byggðust einkum á reynslu minni af kennslu í náttúrufræði og umhverfismennt svo og kennslufræði þessara greina. Skömmu áður en þessi vinna hófst sat ég alþjóðlegan fund þar sem fulltrúar sautján landa fjölluðu um menntun til sjálfbærrar þróunar á leikskólastigi. Þátttakan í fundinum hafði töluverð áhrif á hugmyndir mínar um hvað slík menntun gæti falið í sér (sjá má afrakstur þessarar ráðstefnu í Pramling Samuelsson og Kaga, 2008). Á þessum fundi kom berlega í ljós með hve ólíkum hætti menn hugsa um menntun til sjálfbærrar þróunar, allt eftir því hvaðan þeir koma og við hvaða aðstæður þeir búa. Meðan við Vesturlandabúar vildum ræða um útfærslu slíkrar menntunar, vildi fólk frá Afríku og Suður-Ameríku ræða um rétt barna til menntunar yfirleitt, í samræmi við Dakar-yfirlýsinguna um menntun fyrir alla frá árinu 2000 (Menntamálaráðuneytið, 2002). Að mínu mati tengir fólk á Vesturlöndum sjálfbæra þróun mjög við umhverfismál en þar sem fátækt og misrétti er ríkjandi, tengja menn sjálfbæra þróun frekar við velferðarmál og mannréttindi. Þannig eru áherslurnar misjafnar eftir heimshlutum og löndum og jafnvel svæðum innan einstakra ríkja. Mikilvægt er að hafa í huga að sjálfbær þróun fjallar bæði um velferð fólks og náttúru.

Í fyrstu drögum að lyklinum gekk ég út frá að menntun til sjálfbærrar þróunar þyrfti að fela í sér fjóra þætti. Í fyrsta lagi að slík menntun fæli í sér umfjöllun um gildi, viðhorf og tilfinningar gagnvart náttúru og umhverfi. Í öðru lagi að fjallað væri um þekkingu sem hjálpaði fólki við að nota náttúruna skynsamlega. Í þriðja lagi að menntunin ýtti undir lýðræði og þátttöku í samfélaginu, eða getu til aðgerða, eins og það hefur stundum verið nefnt. Segja má að þessir þrír þættir eigi sér rætur í umhverfismennt þar sem áhersla hefur verið lögð á þessa þætti (sjá t.d. Breiting, Hedegaard, Mogensen, Nielsen og Schnack, 1999; Louv, 2005). Síðastnefndi þátturinn á sér einnig stoð í kennslu um lífsleikni og borgaravitund. Í fjórða lagi þótti mér mikilvægt að í menntun til sjálfbærrar þróunar væri gætt að jafnrétti og fjölmenningu. Í fyrstu tillögum að greiningarlyklinum leit ég ekki á efnahagsstoð sjálfbærrar þróunar sem sjálfstæðan þátt heldur að hann væri innifalinn í hinum þáttunum, svo sem að skynsamleg nýting náttúruauðlinda hefði góð áhrif á efnahagsþróun.

Lykillinn var síðan þróaður áfram af GETU-rannsóknarhópnum. Í hópnum er fólk með mjög fjölbreyttan bakgrunn, s.s. í náttúrufræðimennt, umhverfismennt, nýsköpunarmennt, menntastefnufræði, stjórnun, kennslufræði og samfélagsfræði. [1] Til að kynna okkur stefnu stjórnvalda um sjálfbæra þróun athugaði hópurinn tvö grundvallarrit sem gefin hafa verið út: Velferð til framtíðar. Sjálfbær þróun í íslensku samfélagi. Stefnumörkun til 2020, (Umhverfisráðuneytið, 2002) og Velferð til framtíðar. Sjálfbær þróun í íslensku samfélagi. Áherslur 2006–2009 (Umhverfisráðuneytið, 2007). Þar kemur fram að ríkisstjórnin hefur skilgreint að sjálfbær þróun grundvallist á efnahagsvexti, félagslegri velferð og jöfnuði og vernd umhverfisins, eins og hún skilgreinir stoðirnar þrjár. Einnig athuguðum við hvernig fjallað er um menntun til sjálfbærrar þróunar á vef Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO, e.d.) sem hefur umsjón með áratug menntunar til sjálfbærrar þróunar árin 2005–2014. Þá var einnig hugað sérstaklega að þáttum sem hafa verið áberandi í umfjöllun um menntun á þessu sviði og felast í hugtökunum geta til aðgerða (e. action competence) og alþjóðavitund (e. global awareness) (Ingólfur Ásgeir Jóhannesson o.fl., 2008).

Í þessari vinnu kom í ljós að þeir fjórir þættir sem lagt var upp með í greiningarlykilinn féllu mjög vel að áherslunum í þessum ritum. Engu að síður töldum við þörf á að athuga betur hvort þekking úr fleiri fræðigreinum en náttúrufræði nýttist til skynsamlegrar nýtingar náttúrunnar. Samkvæmt stoðunum þremur og áherslum áratugar menntunar til sjálfbærrar þróunar þarf slík menntun að taka til fleiri þátta. Þá bættust við tveir þættir, annars vegar um mikilvægi þess að ýta undir velferð og lýðheilsu og hins vegar þáttur sem tengist alþjóðavitund og hnattrænum skilningi (í upphaflegri gerð var notað orðið alheimsvitund í stað hnattræns skilnings). Á síðustu stigum greiningarvinnunnar, og við nánari skoðun á gögnum um áratug Sameinuðu þjóðanna, var sérstaklega bætt við þætti sem tengist efnahagsþróun og framtíðarsýn (Ingólfur Ásgeir Jóhannesson o.fl., 2008). Þannig urðu þættir greiningarlykilsins sjö talsins. Þessir þættir eru:

  • Gildi, viðhorf og tilfinningar gagnvart náttúru og umhverfi

  • Þekking sem nýtist til skynsamlegrar nýtingar náttúrunnar

  • Velferð og lýðheilsa

  • Lýðræði og þátttaka í samfélaginu, geta til aðgerða

  • Jafnrétti og fjölmenning

  • Alþjóðavitund og hnattrænn skilningur

  • Efnahagsþróun og framtíðarsýn.

Innihald menntunar til sjálfbærrar þróunar

Í þessum kafla verður gerð grein fyrir þeim hugmyndum sem hver þáttur greiningarlykilsins byggist á og hvernig hver þáttur getur ýtt undir sjálfbæra þróun.

1. Gildi, viðhorf og tilfinningar gagnvart náttúru og umhverfi

Þátturinn um gildi, viðhorf og tilfinningar gagnvart náttúru og umhverfi felur það í sér að gera börn og unglinga meðvitaða um þau viðhorf og gildi að verndun náttúrunnar sé eftirsóknarverð. Áhersla er lögð á að vekja og viðhalda áhuga barna og unglinga á náttúru og umhverfi og að rækta með börnum ábyrgðarkennd og virðingu fyrir lífverum og náttúrunni yfirleitt. Í þessu sambandi hafa fræðimenn, sem hafa látið sig umhverfismennt varða, lagt áherslu á að börn fái tækifæri til að kynnast náttúrunni og tengjast henni tilfinningalega. Þannig læri þau að meta gildi hennar. Margir telja þetta forsendu þess að börn vilji vernda náttúruna og verði fús til að leggja eitthvað á sig til að ganga vel um hana (Chawla, 1999; Louv, 2005; Wilson, 1995).

Við þessa áherslu hafa fræðimenn (Breiting o.fl., 1999; Rickinson o.fl., 2004) sett þann fyrirvara að þótt börn verði tilfinningalega tengd náttúrunni auki það ekki eitt og sér færni þeirra til að gera eitthvað til að vernda hana, fleira þurfi að koma til. Hjálpa þurfi börnum að sjá hvernig þeirra eigin hegðun getur haft áhrif á umhverfið. Þetta megi gera með því að kynna þeim leiðir til að umgangast náttúruna skynsamlega, gera þau meðvituð um gildi hennar fyrir allt líf og auka færni þeirra til að fylgja eftir hugmyndum sínum með markvissum aðgerðum.

2. Þekking sem nýtist til skynsamlegrar nýtingar náttúrunnar

Í menntun til sjálfbærrar þróunar er mikilvægt að koma á framfæri þekkingu sem hjálpar fólki við að nota náttúruna skynsamlega. Í fyrstu horfðum við einkum til náttúrufræðilegrar þekkingar og er þar af mörgu að taka. Mikilvægt er að þekkja til hringrása í náttúrunni, þekkingar sem má nota sem fyrirmynd við endurnotkun eða endurvinnslu, t.d. varðandi safnhaugsgerð. Einnig er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að líf mannkyns er háð náttúruauðlindum (t.d. fæða, orkugjafar, vatn og andrúmsloft). Þá er oft talað um þá þjónustu sem náttúran veitir okkur (t.d. hreinsun vatns, myndun súrefnis og flóðavarnir) og því sé mikilvægt að vernda vistkerfi jarðar (UNESCO, e.d. Environment). Í þessu samhengi er rétt að taka fram að ekki er átt við að börn tileinki sér gagnrýnislaust ákveðin viðhorf til náttúru, umhverfis og umhverfisvandamála. Sandell, Öhman og Östman (2003) fullyrða að slík nálgun sé innræting en tengist því ekki að fá fólk til að nota þekkingu gagnrýnið og mynda sér eigin viðhorf. Þeir leggja áherslu á að mikilvægt sé að gefa börnum tækifæri til að skilja og ræða forsendur þess að þau hagi sér á ákveðinn hátt, svo sem að flokka rusl, kaupa umhverfisvænar vörur og spara orku. Oft er börnum kennd ein leið að lausn einhvers vanda sem getur gefið þeim þá takmörkuðu hugmynd að hlutverk þeirra í samfélaginu felist eingöngu í því að fara eftir settum reglum en ekki að velta fyrir sér hvernig þessar reglur eru tilkomnar.

Við nánari athugun og umræður í rannsóknarhópnum kom í ljós að þekking af fleiri sviðum en náttúrufræði nýttist til að hjálpa börnum að umgangast náttúruna af skynsemi (Ingólfur Ásgeir Jóhannesson o.fl., 2008). Samfélagsfræði býður upp á leiðir til að skoða samskipti manns og náttúru fyrr og nú, ásamt því að efla skilning á mismunandi samfélögum manna og lífsháttum. Einnig býður lífsleikni upp á leiðir til að þjálfa færni barna í að greina eigin líðan og setja sig í spor annarra sem gæti nýst við að leysa ágreining og leita samkomulags. Tæknileg þekking er einnig mikilvæg til að útfæra lausnir á ýmsum vandamálum sem við stöndum frammi fyrir. Nýsköpunarmennt er vel til þess fallin að leita slíkra lausna og vinna þannig að því að bæta umhverfið. Einnig býður nýsköpunarmennt upp á leiðir til að þjálfa börn í aðferðum við að útfæra hugmyndir sínar. Þá er í nýsköpunarmennt stefnt að því að efla siðvit barna með því að auka skilning þeirra á þeim afleiðingum sem lausnir þeirra gætu mögulega haft í för með sér (Stefán Bergmann o.fl., 2008).

3. Velferð og lýðheilsa

Ein af stoðunum þremur sem sjálfbær þróun hvílir á fjallar um félagslega velferð og jöfnuð. Hungur, vannæring, sjúkdómar, ótímabær þungun, eiturlyfja- og áfengisneysla og ofbeldi eru dæmi um vandamál sem hafa mikil áhrif á heilsu og líðan fólks. Góð heilsa íbúa og öruggt og heilsusamlegt umhverfi, eða lýðheilsa, er forsenda sjálfbærrar þróunar samkvæmt áherslum áratugar menntunar til sjálfbærrar þróunar (UNESCO, e.d. Health). Þess vegna ætti menntun til sjálfbærrar þróunar að fjalla um þætti sem lúta að því að efla heilbrigði og heilbrigða lífshætti, undirstrika mikilvægi hollrar fæðu og hreyfingar og að fólk axli ábyrgð á eigin heilsu og lífi (Ingólfur Ásgeir Jóhannesson o.fl., 2008). Ástæða er til að ætla að hér á landi megi ýmislegt bæta í þessum efnum. Nýlegar rannsóknir á líkamlegri og andlegri heilsu barna sýna að mörg börn eru of þung (Erlingur Jóhannsson, Sigurbjörn Arngrímsson og Inga Þórsdóttir, 2006) og sjálfsmynd þeirra oft ekki í samræmi við raunveruleikann, líkt og títt er meðal lystarstolssjúklinga (Andrea Hjálmsdóttir, Stefán Hrafn Jónsson og Þóroddur Bjarnason, 2006). Þannig lýtur lýðheilsa bæði að líkamlegri og andlegri líðan og áherslur menntunar til sjálfbærrar þróunar ættu því einnig að beinast að því að byggja upp heilbrigða sjálfsmynd barna.

Lýðheilsa felur einnig í sér félagslegt heilbrigði. Því ætti menntun til sjálfbærrar þróunar að efla sjálfsstjórn barna og sjálfsaga og einnig að hjálpa þeim til að læra að lifa í sátt og samlyndi við aðra. Mikilvægt er að ýta undir getu barna til að setja sig í spor annarra, að þau geti tekið málstað þeirra sem halloka fara í lífinu og séu þess reiðubúin að leggja sitt af mörkum til að aðstoða aðra í nauð.
Í greiningarvinnunni kom í ljós að oft mátti flokka ákveðin markmið eða ákvæði á fleiri en einn veg. Dæmi um slíkt eru ákvæði um eflingu sjálfstrausts barna og hæfni þeirra í tjáningu og samskiptum við aðra. Að koma hugsun sinni í orð og vinna hugmyndum sínum fylgi töldum við vera forsendu þess að geta tekið virkan þátt í lýðræðisþjóðfélagi. Því ákváðum við að telja þessi atriði til þáttarins Lýðræði og þátttaka í samfélaginu, geta til aðgerða, þótt þau hefðu allt eins átt heima undir þættinum Velferð og lýðheilsa (Ingólfur Ásgeir Jóhannesson o.fl., 2008).

4. Lýðræði og þátttaka í samfélaginu, geta til aðgerða

Í lögum um leikskóla (1994, 2008), grunnskóla (1995, 2008) og framhaldsskóla (1996, 2008) kemur fram að það sé hlutverk skólanna að búa börn undir þátttöku í lýðræðisþjóðfélagi. Þetta er eitt mikilvægasta markmið menntunar og felur í sér að hver og einn fái notið hæfileika sinna, öðlist trú á sjálfum sér til að vera virkur í samfélaginu og hafi áhrif á ákvarðanir sem teknar eru um eigið líf, líf annarra og einnig umhverfið. Því var sérstaklega horft til þátta sem tengjast því að auka færni nemenda til að taka þátt í samfélaginu og þar með að móta framtíðarsamfélag okkar.

Sandell og félagar (2003) telja að í skólastarfi eigi að ræða og rannsaka gagnrýnið ólík viðhorf til málefna og hvetja til ígrundunar um hvernig útfæra megi mismunandi lausnir. Þannig verði lýðræði hluti af námi barna. Dönsku fræðimennirnir Breiting o.fl. (1999) settu í þessu samhengi fram hugtakið action competence sem Ingólfur Ásgeir Jóhannesson (2007) þýddi á íslensku sem geta til aðgerða. Í skilgreiningu á hugtakinu segir að geta (e. competence) vísi gjarnan í getu og vilja og það að vera hæfur þátttakandi. Aðgerðir (e. action) vísi í eitthvað sem gert er meðvitað og markvisst eftir gagnrýna umhugsun um hvert viðfangsefni (Breiting o.fl., 1999). Dönsku fræðimennirnir segja að hugtakið feli í sér áskorun um að leggja grunn að langtímafærni og vilja barna til að taka þátt í lýðræðislegum vinnubrögðum sem varða átök manna á milli, t.d. um nýtingu náttúrunnar. Þeir segja einnig að hugtakið sjálft vísi ekki til ákveðinna aðgerða eða sýnar á framtíðarsamfélagið. Það tengist þó skyldu til að taka á vandamálum á ábyrgan hátt og ákveða aðgerðir á grundvelli rannsóknar á vandanum. Þannig geti þessi færni ýtt undir þátttöku í þróun sjálfbærs samfélags.

Hvers konar menntun eykur getu nemenda til aðgerða? Breiting o.fl. (1999) segja að geta nemenda til aðgerða þroskist fái þau tækifæri til að rannsaka og íhuga gagnrýnið mismunandi sjónarmið þeirra sem eiga hagsmuna að gæta varðandi nýtingu náttúrunnar. Þannig geta nemendur betur velt fyrir sér hvaða lausnir séu mögulegar og hvernig maður, einn eða með öðrum, geti lagt sitt af mörkum til að draga úr aðsteðjandi vanda. Þetta felur í sér að viðkomandi öðlast innsýn í, og beina reynslu af því, hvaða leikreglur gilda í lýðræðislegum og ábyrgum aðgerðum. Segja má að forsenda þessa sé góð sjálfsmynd og færni til að tjá hug sinn og fylgja hugmyndum sínum eftir. Í menntun til sjálfbærrar þróunar þarf því að leggja mikla áherslu á tjáningu og samskipti og ýta þar með undir sterkar hliðar barna til að efla sjálfstraust þeirra (Breiting o.fl., 1999).

Ætíð skal þó hafa í huga að markmiðið með slíkum áherslum í námi og kennslu er ekki að gera börn ábyrg fyrir vandamálunum – sú ábyrgð hvílir á fullorðnum. Sem fyrr segir lúta markmiðin að menntun barna og unglinga að því að tengja saman þekkingu, viðhorf, reynslu og sjálfstæða hugsun í þeim tilgangi að þau geti af ábyrgð lagt sitt af mörkum við lausn vanda í samskiptum manna á milli og í umgengni við náttúruna.

5. Jafnrétti og fjölmenning

Það að allir hafi jafnan rétt, óháð efnahag, litarhætti, kyni, heimkynnum, aldri og fleiru sem aðgreinir fólk, til að hafa áhrif á líf sitt og annarra, svo og umhverfi sitt, er mikilvægt til að styðja við sjálfbæra þróun. Einnig skiptir miklu máli að fjölbreyttri menningu mismunandi hópa sé gert jafnhátt undir höfði. Skortur á umburðarlyndi og skilningi á menningu annarra kemur oft í veg fyrir að fólk fái menntun við hæfi og geti notið hæfileika sinna. Lykilatriði í fjölmenningu er að bera virðingu fyrir og sýna umburðarlyndi gagnvart siðum og venjum annarra menningarheima. Þetta er einnig eitt af grundvallaratriðum varðandi frið í heiminum. Því er mikilvægt í almennri menntun að nýta þau tækifæri sem gefast til að kynnast margbreytileikanum; að fólk geri sér grein fyrir því að margbreytileikinn er styrkur og að hann gerir heiminn og líf okkar allra ríkara (UNESCO, e.d., Cultural Diversity).

Á tímum mikilla fólksflutninga milli landa og heimshluta er gagnkvæmur skilningur mikilvægur. Á vef UNESCO (e.d., Gender Equality) kemur fram að nauðsynlegt sé að allir taki þátt í þróun samfélaga og er sérstök áhersla lögð á kynjajafnrétti, að reynsla og þekking kvenna nýtist og í uppeldi barna sé lögð áhersla á þátttöku allra. Í ritinu Sterkari saman – Jafnrétti og sjálfbær þróun sem Umhverfisráðuneytið gaf út árið 2006 (Umhverfisráðuneytið, 2006) kemur hið sama fram. Þörf sé á þekkingu og sjónarmiðum kvenna til jafns við karla til að snúa af braut ofnýtingar auðlinda jarðar og til að leita skynsamlegra leiða til að byggja upp sjálfbært samfélag. Í ritinu kemur fram það athyglisverða sjónarmið að konur hafi ekki einungis rétt á að taka þátt í þessari vinnu heldur beri þeim skylda til þess, því einungis þannig aukist líkur á því að ákvarðanir séu teknar með hagsmuni allra að leiðarljósi.

Á vef UNESCO (e.d.) er einnig lögð áhersla á að við þróun samfélaga sé gætt að hag þeirra sem búa í dreifbýli en það gera um 60% íbúa í þróunarlöndum og um helmingur allra jarðarbúa. Í dreifbýli er oft minni velmegun og aðgangur að menntun erfiðari. Þar segir einnig að menntun og þjálfun séu mikilvægustu vopnin gegn fátækt, menntaðir bændur séu mun líklegri til að taka upp nýja tækni sem auki framleiðslu og menntun hjálpi þeim til að taka þátt í að byggja upp sjálfbær samfélög. Þannig ætti menntun til sjálfbærrar þróunar að undirstrika mikilvægi þess að reynsla og þekking allra sé nauðsynleg. Seint verður lögð nægjanleg áhersla á að jafnrétti verði virkt í skólastarfinu og uppeldisleg áhrif þess að fullu metin.

6. Alþjóðavitund og hnattrænn skilningur

Þátturinn alþjóðavitund og hnattrænn skilningur vísar til þess að menn geri sér grein fyrir að aðgerðir þeirra geti haft áhrif annars staðar á jörðinni og þar með mikilvægi þess að við tökum öll sameiginlega ábyrgð á jörðinni og íbúum hennar. Þarna eru þættir sem tengjast umhverfismálum á heimsvísu, svo sem loftslagsbreytingar, mengun í sjó og þynning ósonlagsins. Þetta skiptir einnig máli fyrir skilning okkar á aðstæðum á ólíkum svæðum og mikilvægi aðstoðar við þróunarlönd, hvernig við í okkar daglega lífi getum stuðlað að meiri jöfnuði í heiminum. Skilningur á alþjóðamálefnum er einnig mikilvægur til mótunar á heildstæðri framtíðarsýn (Ingólfur Ásgeir Jóhannesson o.fl., 2008). Brasilíski fræðimaðurinn Gadotti (2008) segir að sú efnahagslega hnattvæðing sem við upplifum í dag, og tengist gjarnan samkeppni í viðskiptum, sé ekki eina formið á alþjóðlegum áhrifum. Hann segir að hnattvæðing geti einnig verið á samvinnu- og samstöðugrundvelli þar sem siðfræðileg gildi séu viðfangsefnið. Menntun til sjálfbærrar þróunar geti haft áhrif til slíkrar hnattvæðingar og hljóti í sjálfu sér að vera mikilvægt framlag til hennar. Það fellur því vel að markmiði áratugar menntunar til sjálfbærrar þróunar að ýta undir myndun sambanda og samskipta milli þeirra sem beita sér fyrir menntun á því sviðinu (UNESCO, e.d.).

7. Efnahagsþróun og framtíðarsýn

Efnahagsþróun er ein af grundvallarstoðum sjálfbærrar þróunar. Við í GETU-rannsóknarhópnum völdum að tala frekar um efnahagsþróun í stað efnahagsvaxtar (sbr. Umhverfisráðuneytið, 2002 og 2006). Við töldum það í betra samræmi við enska orðið viability (lífvænleiki) sem notað er um þessa stoð í skjölum Sameinuðu þjóðanna (Ingólfur Ásgeir Jóhannesson o.fl., 2008; UNESCO, e.d.). Í menntun til sjálfbærrar þróunar ætti að leggja áherslu á mikilvægi þess að fara vel með náttúruauðlindir með sparnaði, endurnýtingu og endurnotkun. Að börn og unglingar velti fyrir sér hverjar séu raunverulegar þarfir okkar til að lifa góðu og innihaldsríku lífi og hvort allir eigi ekki rétt á því sama bæði nú og í framtíðinni. Efnahagsmálin tengjast flestum öðrum þáttum í greiningarlyklinum. Þannig hafa ýmsar aðgerðir til að bæta lýðheilsu sparnað í för með sér til lengri tíma litið og þar með góð áhrif á efnahagsþróun. Sama má segja um aukinn skilning og umburðarlyndi gagnvart ólíkum menningarheimum sem skilar sér í minni árekstrum manna á milli og dregur úr styrjöldum sem gjarnan leggja efnahagslíf viðkomandi þjóða í rúst. Aðgerðir byggðar á þekkingu á því hvernig sjálfbærri nýtingu væri best háttað myndu spara mikla fjármuni og koma í veg fyrir stórfellda sóun verðmæta.

Lögð var sérstök áhersla á neytendafræðslu undir þessum þætti lykilsins. Sjálfbær neysla er eitt af lykilaðgerðastefjum Sameinuðu þjóðanna (UNESCO, e.d.). Í neytendafræðslu gefast góð tækifæri til að vinna með börnum og unglingum að því að skoða hverjar séu þarfir okkar nú á tímum og meta hvernig þær geti breyst í framtíðinni (Ingólfur Ásgeir Jóhannesson o.fl., 2008; Auður Pálsdóttir, Björg Pétursdóttir Gunnhildur Óskarsdóttir, Ingólfur Ásgeir Jóhannesson og Kristín Norðdahl, 2009).

Eitt af aðalviðfangsefnum menntunar til sjálfbærrar þróunar er að nemendur móti sér sýn til framtíðar. Á vef UNESCO (e.d.) er vísað í Sáttmála jarðar (The Earth Charter Initative, e.d.) sem eitt af þeim skjölum sem unnt er að nota við skipulagningu menntunar til sjálfbærrar þróunar. Áhrifa sáttmálans gætir í áherslum áratugar menntunar til sjálfbærrar þróunar. Sáttmáli jarðar er skjal sem hefur orðið til í samstarfi margra, s.s. frjálsra félagasamtaka, opinberra stofnana og einstaklinga. Hann felur í sér ákveðna framtíðarsýn sem þjóðir jarðar gætu sameinast um. Margir einstaklingar, stofnarnir og sveitarfélög hafa samþykkt sáttmálann og unnið er að því að fá hann samþykktan á vegum Sameinuðu þjóðanna sem alþjóðlegan samning um framtíðarsýn ríkja heims. Sáttmálinn er til í íslenskri þýðingu (Sáttmáli jarðar, e.d.). Í honum er fjallað um þau grunngildi sem hafa ber í huga þegar byggja skal heim þar sem borin er virðing fyrir náttúru og mannfólki í allri sinni fjölbreytilegu mynd og tekin sameiginleg ábyrgð á þessari framtíðarsýn.

Hvernig nýttist greiningarlykilinn og hvernig gæti hann nýst?

Þættirnir sem taldir eru í greiningarlyklinum hér að framan tengjast allir innbyrðis og hafa áhrif hver á annan í útfærslu á skólastarfi. Einmitt þannig er menntun til sjálfbærrar þróunar, hún er margbreytileg og á að snerta margt í skólastarfi. Eins og fyrr segir var greiningarlykillinn gerður til að reyna að finna hvort ákvæði sem vörðuðu menntun til sjálfbærrar þróunar væru í námskrám leik-, grunn- og framhaldsskóla. Á óvart kom hversu margar vísbendingar um slíkt komu fram í greiningunni miðað við hve sjaldan orðasambandið sjálfbær þróun kemur þar fyrir. Niðurstöðurnar í heild má lesa í skýrslunni Andi sjálfbærrar þróunar í námskrám og menntastefnu – náum honum til jarðar (Ingólfur Ásgeir Jóhannesson o.fl., 2008). Meðal þeirra helstu eru að slík ákvæði er að finna í námskrám allra skólastiga og varða alla þætti greiningarlykilsins, en í mismiklum mæli. Markmið sem falla undir þáttinn Gildi, viðhorf og tilfinningar gagnvart náttúru og umhverfi voru fyrirferðarmest, sérstaklega í námskrám leik- og grunnskóla. Einnig tengdust mörg markmið þættinum Þekking sem nýtist til skynsamlegrar nýtingar náttúrunnar. Markmið sem flokkast undir þáttinn Lýðræði og þátttaka í samfélaginu, geta til aðgerða voru sett fram sem fremur almenn ákvæði um að efla getu barnanna til að tjá sig og hafa samskipti við aðra, fremur en sem róttæk lýðræðismarkmið. Á heildina litið voru fæst markmið sem féllu undir þrjá síðustu þætti greiningarlykilsins, þ.e. Jafnrétti og fjölmenningu, Alþjóðavitund og hnattrænan skilning og Efnahagsþróun og framtíðarsýn.

Eins og fyrr sagði voru einnig athuguð stefnuskjöl nokkurra sveitarfélaga og félagasamtaka til að greina stefnu þeirra varðandi menntun til sjálfbærrar þróunar. Fram kom að í stefnumörkun sveitarfélaganna er fjallað um efnisatriði sem tengjast öllum þáttum greiningarlykilsins en í mismiklum mæli og á mismunandi hátt. Sjá má að það er talsverður vilji innan sveitarfélaga til að styðja við þennan þátt menntunar (Ingólfur Ásgeir Jóhannesson o.fl., 2008). Við athuguðum einnig stefnu Kennarasambands Íslands (KÍ) og ýmissa náttúruverndarsamtaka. Í stefnu KÍ eru ákvæði sem falla undir þætti 3–5 í greiningarlyklinum, þ.e. samtökin hafa sett sér stefnu varðandi Velferð og lýðheilsu, Lýðræði og þátttöku í samfélaginu, getu til aðgerða og Jafnrétti og fjölmenningu. Stefna umhverfisverndarsamtakanna beinist aðallega að þeim þætti greiningarlykilsins sem lýtur að þekkingu sem nýtist til skynsamlegrar nýtingar náttúrunnar og þá út frá náttúruverndarsjónarmiði. Eins er lögð töluverð áhersla á að hvetja til umræðu um umhverfismál og efla fólk til að koma meira að ákvörðunum um nýtingu náttúrunnar sem flokka má undir þáttinn Lýðræði og þátttaka í samfélaginu, geta til aðgerða. Ein samtök beita sér sérstaklega í málum sem tengjast Efnahagsþróun og framtíðarsýn og er þar um að ræða Framtíðarlandið – félag áhugafólks um framtíð Íslands sem leggja sérstaka áherslu á skapandi atvinnustefnu sem gangi ekki á auðlindir landsins (Ingólfur Ásgeir Jóhannesson o.fl., 2008).

Af þessu má sjá að bæði sveitarfélög og ýmis félagasamtök hafa þessi mál á stefnuskrá sinni. Sama má segja um ýmsar stofnanir í íslensku samfélagi, eins og sagt er frá í annarri skýrslu GETU-verkefnisins Teikn til sjálfbærni – menntun byggð á reynslu skóla og samfélags (Stefán Bergmann o.fl., 2008). Þangað má sækja stuðning við menntun til sjálfbærrar þróunar.

Eins og komið hefur fram er greiningarlykillinn tæki sem varð til í þeim tilgangi að athuga hvort áherslur sem mætti tengja við menntun til sjálfbærrar þróunar væri að finna í námskrám og fleiri stefnumarkandi skjölum. Í heildina má segja að greiningarlykillinn hafi nýst vel til að finna markmið sem tengja má við slíka menntun. Oft þurfti að túlka ýmislegt sem þarna kom fram sem skírskotun til slíkrar menntunar sem var ef til vill ekki hugsuð með sjálfbæra þróun í huga. Þetta segir okkur að námskrárnar eru ekki skýrar hvað þetta varðar. En einmitt þannig gæti greiningarlykillinn nýst til að endurbæta námskrárnar. Nú þegar hefur hann verið notaður við markmiðssetningu í kafla um menntun til sjálfbærrar þróunar í nýrri stefnumörkun stjórnvalda um sjálfbæra þróun (Umhverfisráðuneytið, 2009). Sömu sögu má segja af reynslu okkar af notkun greiningarlykilsins við skoðun á stefnuyfirlýsingum annarra aðila, svo sem sveitarfélaga og félagasamtaka. Að greina í sundur hvað menntun til sjálfbærrar þróunar felur í sér, eins og gert var í greiningarlyklinum, má nota til að marka skýra stefnu sem endurspeglar áherslur

Sameinuðu þjóðanna varðandi áratug menntunar til sjálfbærrar þróunar.

Greiningarlykillinn varpar einnig ljósi á þann mun sem er á viðfangsefnum umhverfismenntar og menntunar til sjálfbærrar þróunar. Umhverfismennt fæst við margt af því sem fjallað er um í greiningarlyklinum en í umhverfismennt er oftast ekki fjallað um velferð fólks, jafnrétti eða fjölmenningu. Umhverfismennt hefur tilhneigingu til að snúast að megninu til um samskipti manns og umhverfis þótt þar hafi einnig verið lögð áhersla á að umhverfisvandamál séu samfélagsleg vandamál og þurfi að leysa sem slík (Stefán Bergmann o.fl., 2008). Menntun til sjálfbærrar þróunar fjallar vissulega um umhverfismál en leggur meiri áherslu á samskipti manna á milli og jafnan rétt fólks til mannsæmandi lífs.

Lokaorð

Greiningarlykillinn og áherslurnar sem hann byggist á endurspeglar hugmyndir okkar í GETU-rannsóknarhópnum um menntun til sjálfbærrar þróunar nú og miðað við aðstæður hér á landi (Ingólfur Ásgeir Jóhannesson o.fl., 2008). Hann er þó ekki okkar hugarsmíð frá grunni, heldur er hann byggður á opinberri stefnu íslenskra yfirvalda og áherslum sem Sameinuðu þjóðirnar hafa sett fram í tilefni af áratugi menntunar til sjálfbærrar þróunar. Reynsla úr kennslufræði ýmissa greina nýttist einnig. Lykillinn er ekki endanleg eða óbreytanleg afurð heldur verður að reikna með að hann taki breytingum miðað við aðstæður hverju sinni, eftir því hvernig skilningur á sjálfbærri þróun og menntun á því sviði breytist.
Við þróun lykilsins kom fram að menntun til sjálfbærrar þróunar er víðtæk, enda tekur hún mið af að þroska með fólki vilja og getu til að breyta þeim samfélögum sem við flest byggjum. Þessi viðfangsefni eru að jafnaði ekki nýlunda í skólastarfi en það mætti leggja enn meiri áherslu á þau og tengja betur sjálfbærri þróun. Þannig yrði frekar ýtt undir þekkingu, færni og hæfni barna til að móta með sér þau viðhorf sem nauðsynleg eru til að taka ábyrgar og réttlátar ákvarðanir varðandi menn og umhverfi. Jafnframt öðluðust þau getu til að fylgja þessum ákvörðunum eftir.

Markmið þessarar greinar er að auka skilning á menntun til sjálfbærrar þróunar og hvað í henni felst. Ef tilvist greiningarlykilsins getur ýtt undir umræðu um þessa þætti meðal ólíkra aðila sem koma að menntun barna og unglinga hefur mikið unnist. Skiptar skoðanir geta verið um hvort leggja hefði átt meiri áherslu á einhver atriði í greiningarlyklinum en gert var, bæta einhverju við eða draga úr áherslu á annað. Friður og öryggi eru meðal áhersluatriða áratugar menntunar til sjálfbærrar þróunar (UNESCO, e.d.). Um þau mál er fjallað í þáttunum velferð og lýðheilsa og einnig í tengslum við jafnrétti og fjölmenningu. Vel kemur til greina að draga umfjöllun um frið skýrar fram og hafa sem áttunda þáttinn í greiningarlyklinum. Einnig mætti sameina einhverja þætti eða skipta öðrum upp. Þannig færi e.t.v. betur á að framtíðarsýn væri sérstakur þáttur því hann tengist í raun öllum hinum þáttunum, ekki einungis efnahagsþróun. Aðalatriðið er þó að reyna að skilja betur hvers konar menntun ýtir undir skynsamleg samskipti manna og náttúru, og þá ekki síður manna á milli, í þeim tilgangi að búa til betri heim fyrir alla jarðarbúa, bæði í nútíð og framtíð.

Aftanmálsgrein

1. Verkefnið GETA til sjálfbærni – menntun til aðgerða nýtur rannsóknarstyrks frá Umhverfis- og orkurannsóknasjóði Orkuveitu Reykjavíkur. Í framhaldi af greiningu námskrárinnar var unnið með átta leik- og grunnskólum að þróunarstarfi veturinn 2008–2009. Auk höfundar voru í rannsóknarhópnum haustið 2007, þegar unnið var að mótun lykilsins, þau Allyson Macdonald, Auður Pálsdóttir, Björg Pétursdóttir, Erla Kristjánsdóttir, Eygló Björnsdóttir, Gunnhildur Óskarsdóttir, Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, Stefán Bergmann, Steinunn Geirdal, Svanborg Rannveig Jónsdóttir og Þórunn Reykdal. Framsetning efnis og sjónarmið sem koma fram í greininni eru á ábyrgð höfundar. Höfundur þakkar ónefndum ritrýnum Netlu og öðrum sem lásu handrit að greininni fyrir gagnlegar ábendingar.

Heimildir

Andrea Hjálmsdóttir, Stefán Hrafn Jónsson og Þóroddur Bjarnason. (2006). HBSC. Heilsa og lífskjör skólanema. Lýðheilsustöð og Háskólinn á Akureyri. Sótt 7. júlí 2008 af http://www.lydheilsustod.is/media/lydheilsa//Fyrstu_nidurstodur.pdf.

Auður Pálsdóttir og GETU-rannsóknarhópurinn. (2008). Spor til framtíðar – menntun til sjálfbærni. Er íslenskt skólakerfi tilbúið. Skólavarðan, 2 (8),16. Sótt 30. desember 2009 af http://www.ki.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=4505.

Auður Pálsdóttir, Allyson Macdonald og Ingólfur Ásgeir Jóhannesson. (2009). Hvað græðum við á því að gera sjálfbæra þróun að sýnilegu viðmiði í grunnskólastarfi? Í Ingvar Sigurgeirsson, Heiðrún Kristjánsdóttir og Torfi Hjartarson (ritstj.), Ráðstefnurit Netlu: Rannsóknir – Nýbreytni – Þróun 2009. Sótt á þessa slóð: http://netla.khi.is/greinar/2009/007/03/index.htm.

Auður Pálsdóttir, Björg Pétursdóttir, Gunnhildur Óskarsdóttir, Ingólfur Ásgeir Jóhannesson og Kristín Norðdahl. (2009). Hvað þurfa einstaklingar að geta í sjálfbæru samfélagi framtíðarinnar? Í Gunnar Þór Jóhannesson og Helga Björnsdóttir (ritstj.), Rannsóknir í Félagsvísindum X, Félags- og mannvísindadeild. Erindi flutt á ráðstefnu í október 2009 (bls. 17–27). Reykjavík: Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands.

Breiting, S., Hedegaard, K., Mogensen, F., Nielsen, K. og Schnack, K. (1999). Handlekompetence, intressekonflikter og miljöundervisning. Odense: Odense Universitetsforlag.

Chawla, L. (1999). Life paths into effective environmental action. The Journal of Environmental education, 31(1), 15–26.

Erlingur Jóhannsson, Sigurbjörn Arngrímsson og Inga Þórsdóttir. (2006). Tracking of overweight from early childhood to adolescence in cohorts born 1988 and 1994. Overweight in a high birth weight population. International Journal of Obesity, 30, 1265–1271.

Gadotti, M. (2008). Education for Sustainability: A Critical Contribution to the Decade of Education for Sustainable Development. Green Theory and Praxis: The Journal of Ecopedagogy, 4(1),15–64.

GETU-rannsóknarhópurinn. (2008). GETA til sjálfbærni – menntun til aðgerða. Rannísblaðið, 1(5), 13. Sótt 30. desember 2009 á http://rannis.is/files/rannis_bladid_1_2008_1653675109.pdf.

Huckle, J. (2006). Education for sustainable development. A briefing paper for the Training and Development Agency for Schools. Endurskoðuð útg. Bedford: Training and Development Agency for Schools.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson. (2007). Fjölmenning eða sjálfbær þróun. Lykilatriði skólastarfs? Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun. Grein birt 30. desember. Sótt á þessa slóð: http://netla.khi.is/greinar/2007/018/index.htm.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, Kristín Norðdahl, Auður Pálsdóttir, Björg Pétursdóttir, Eygló Björnsdóttir, Gunnhildur Óskarsdóttir og Þórunn Reykdal. (2008). Andi sjálfbærrar þróunar í námskrám og menntastefnu – náum honum til jarðar. Reykjavík: Kennaraháskóli Íslands. Sótt 30. desember 2009 af http://skrif.hi.is/geta/files/2009/02/p4_300408.pdf.

Louv, R. (2005). Last child in the woods: Saving our children from nature – deficit disorder. North Carolina: Algonquin Books of Chapel Hill.

Lög um grunnskóla nr. 66/1995.

Lög um grunnskóla nr. 91/2008.

Lög um leikskóla nr. 78/1994.

Lög um leikskóla nr. 90/2008.

Lög um framhaldsskóla nr. 80/1996.

Lög um framhaldsskóla nr. 92/2008.

Menntamálaráðuneytið. (2002). Menntun fyrir alla: Yfirlýsing sett fram á alþjóðaráðstefnu UNESCO í Dakar árið 2000: Ísland: Skýrsla nefndar. Sótt 30. desember 2009 af http://bella.mrn.stjr.is/utgafur/Dakarskyrsla.pdf

Pramling Samuelsson, I. og Kaga, Y. (2008). The contribution of early childhood education to a sustainable society. Paris: UNESCO. Sótt 30. desember 2009 af http://unesdoc.unesco.org/images/0015/001593/159355E.pdf.

Rickinson, M., Dillon, J., Teamey, K., Morris, M., Choi, M. Y., Sanders, D. og Benefield P. (2004). A review of research on outdoor learning. London: National Foundation for Educational Research og King’s College London.

Sandell, K., Öhman, J. og Östman, L. (2003). Education for Sustainable Development, Natur, School and Democracy. Lund: Studentlitteratur.

Sáttmáli jarðar. (e.d.). Sáttmáli jarðar. Sótt 30. desember 2009 af http://www.hafnarfjordur.is/hafnarfjordur/upload/files/pdf/skolaskrifstofa/
hugmyndablod/sattmali_jardar.pdf

Stefán Bergmann, Auður Pálsdóttir, Erla Kristjánsdóttir, Eygló Björnsdóttir, Gunnhildur Óskarsdóttir, Kristín Norðdahl, Svanborg Rannveig Jónsdóttir og Þórunn Reykdal. (2008). Teikn um sjálfbærni – menntun byggð á reynslu skóla og samfélags. Reykjavík: Kennaraháskóli Íslands. Sótt 30. maí 2009 af http://skrif.hi.is/geta/files/2009/02/teikn_um_sjalfbaerni1.pdf.

The Earth Charter Initative. (e.d.). The Earth Charter in Action. Sótt 30. desember 2009 af http://www.earthcharter.org/

Umhverfisráðuneytið. (2002). Velferð til framtíðar. Sjálfbær þróun í íslensku samfélagi. Stefnumörkun til 2020. Sótt 30. desember 2009 af http://www.umhverfisraduneyti.is/media/PDF_skrar/Velfer%F0%20til%20framt%ED%F0ar%20allt%20skjali%F0.pdf.

Umhverfisráðuneytið. (2006). Sterkari saman – Jafnrétti og sjálfbær þróun. Sótt 30. desember 2009 af http://www.umhverfisraduneyti.is/media/PDF_skrar/Sterkari_saman.pdf

Umhverfisráðuneytið. (2007). Velferð til framtíðar. Sjálfbær þróun í íslensku samfélagi. Áherslur 2006–2009. Reykjavík: Umhverfisráðuneytið.

Umhverfisráðuneytið. (2009). Velferð til framtíðar: Megináherslur 2010–2013, Drög til kynningar á VI. Umhverfisþingi 9.–10. október 2009. Sótt 18. desember af http://www.umhverfisraduneyti.is/media/PDF_skrar/Velferdtilframtidar2010-2013drog.pdf

UNESCO (United Nation Educational, Scientific and Cultural Organization). (e.d.). United Nations decade of education for sustainable development. Sótt 19. júní 2008 af http://portal.unesco.org/education/en/ev.php-URL_ID=27234&URL_DO=DO_TOPIC&URL_SECTION=201.html

United Nations. (1987). Report of the World Commission on Environment and Development: Our common future. Sótt 10. júní 2009 af http://worldinbalance.net/pdf/1987-brundtland.pdf

Wilson, R. (1995). Teacher as Guide – The Rachel Carson Way. Early Childhood Education Journal, 23(1), 49–51.

Prentútgáfa     Viðbrögð