Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun

Menntavísindasvið Háskóla Íslands
 

Ritrýnd grein birt 30. desember 2009

Greinar 2009

Brynjar Ólafsson

„... að mennta þá í orðsins
sanna skilningi“

Um sögu, þróun og stöðu handmennta
í grunnskólum á Íslandi 1970–2007

Í greininni er fjallað um sögu og þróun handmenntakennslu frá 1970 til 2007 sem og stöðu greinarinnar í skólakerfinu um þessar mundir. Viðfangsefni greinarinnar er þríþætt: Í fyrsta lagi er lögð áhersla á sögulega umfjöllun tímabilsins. Þar er fjallað um hvernig handmenntir hafa þróast í lögum og námskrám og leitast er við að draga fram hugmyndir um gildi handmennta úr umræðu og aðalnámskrám grunnskóla eftir því sem við á. Með umræðu er einkum vísað til þess sem fram kom í blöðum og bókum á þessu tímabili og eru helstu áherslur dregnar fram. Í öðru lagi er fjallað um stöðu handmennta, hlut þeirra í skólastarfi og hvernig áherslur menntayfirvalda hafa birtst í framkvæmd. Menntayfirvöld hafa ítrekað lagt áherslu á aukinn hlut list- og verkgreina í starfi grunnskólans en því hefur ekki verið fylgt eftir með markvissum hætti. Í því sambandi er stuðst við viðmiðunarstundaskrár og önnur tölfræðileg gögn. Í þriðja lagi er unnið úr gögnum frá Hagstofu Íslands um kenndar stundir í grunnskólum. Þar sést hver raunveruleg staða námsgreina er hvað kennslutíma snertir en allir grunnskólar landsins skila upplýsingum um kenndar stundir. Höfundur er aðjúnkt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.
 

The History and Development of Craft Education
in Icelandic Compulsory Schools 1970–2007

This article deals with the history and development of craft education from 1970 until 2007 and the status of the subject in the current Icelandic educational system. Three elements are in focus in the article. The first part is a historical survey, showing how the teaching of craft has developed in legal and curriculum terms, seeking to highlight ideas about the value of craft education in the primary school curriculum. The article reviews the discussion in the educational literature of this period. Secondly, the status of craft and its part in the school system will be discussed, showing to what extent the intentions of the educational authorities were actually realized. Educational authorities have repeatedly placed emphasis on increasing the role of creative and practical subjects in primary schools, but have not followed this through in specific ways. Official guidelines about time devoted to different school subjects and other relevant data are analysed. Thirdly, the article explores and compares the time devoted to different primary school subjects based on data from the Statistics Iceland. This reveals the actual status of the subjects relative to teaching time, since all primary schools in Iceland report the number of hours taught in each subject. The author is a lecturer at the School of Education in the University of Iceland.

Inngangur

Markmið greinarinnar er að draga upp mynd af þróun handmennta, einkum í námskrám og lögum, skoða umfang þeirra innan skólakerfisins og hvort áherslur fræðsluyfirvalda um aukinn hlut þeirra hafi gengið eftir.

Innihald og framkvæmd handmenntakennslu hefur breyst talsvert með tímanum. Þegar rætt var um kennslu í handmenntum á fyrri hluta 20. aldar var hún oft tengd heimilisiðnaði, þ.e. gerð nytjahluta, og miðaðist við hagnýt störf. Einnig var talað um skólaiðnað og hafði hann uppeldi og þroska barnsins að meginmarkmiði. Handmenntum var áður fyrr skipt í handavinnu drengja og handavinnu stúlkna og lærðu stúlkur þá aðallega handavinnu og drengir smíðar. Þessi kynjaskipting greinarinnar hvarf með Aðalnámskrá grunnskóla 1977 (Menntamálaráðuneytið, 1977). Í Aðalnámskrá grunnskóla 1999 (Menntamálaráðuneytið, 1999a) var handavinnu breytt í textílmennt sem flokkaðist undir listgreinar og smíði breytt í hönnun og smíði sem flokkaðist undir upplýsinga- og tæknimennt. Í núgildandi námskrá, sem tók gildi 2007, varð upplýsingatækni og hönnun og smíði aðskilin og er hönnun og smíði nú sjálfstætt námssvið.

Fræðsluyfirvöld hafa ítrekað lýst yfir vilja til að auka hlut list- og verkgreina í starfi grunnskólans. Ekki er að sjá að þessar áherslur hafi gengið eftir þegar viðmiðunarstundaskrá grunnskólans er skoðuð og því síður þegar skoðuð eru gögn frá grunnskólum um kenndar stundir. Ekki eru ástæður þessa augljósar en velta má fyrir sér orsökum.

Hugtök

Mörg hugtök eða nöfn hafa verið notuð yfir verklega kennslu í grunnskólum og hafa þau breyst í tímans rás. Í þessari grein verður hugtakið handmenntir notað þar sem það er mjög lýsandi fyrir viðfangsefnið. Hugtakið handmenntir er skylt skandinavíska hugtakinu slöjd. Slöjd sem kennslugrein og hugmyndafræði á rætur sínar að rekja til Finnlands og var fljótt tekin upp í öðrum skandinavískum löndum, þá sérstaklega Danmörku og Svíþjóð. Náði það upphaflega yfir verklega vinnu, t.a.m. trésmíði, málmsmíði, bókband og hannyrðir. Forsprakkar slöjd-stefnunnar lögðu megináherslu á uppeldisleg gildi kennslugreinarinnar frekar en að öðlast þekkingu og færni í verklegri vinnu. Orðið handmenntir er hér notað í fleirtölu til að undirstrika að það er notað yfir fleiri en eina námsgrein (sjá einnig Menntamálaráðuneytið (skólarannsóknardeild), 1973). Í Aðalnámskrá grunnskóla 2007 heita þessar greinar hönnun og smíði og textílmennt. Má segja að gerð nytjahluta sé meginviðfangsefni handmennta. Hugtakið nytjalist hefur einnig verið notað í þessu samhengi. Handmenntir eru aðgreindar frá listgreinum þótt fagurfræði og jafnvel listir fléttist óhjákvæmilega þar inn.

Kringum aldamótin 1900 voru hugtökin skólaiðnaður og heimilisiðnaður notuð í umræðu um handmenntir í skólastarfi. Merking þeirra og innihald var ólíkt. Skólaiðnaður var í raun annað orð yfir handmenntir enda tengist hugtakið beint umfjöllun um hið skandinavíska handmenntakerfi slöjd sem nefnt var hér að ofan (Jón Þórarinsson, 1891). Meginmarkið skólaiðnaðar var að efla ákveðna eiginleika og stuðla að almennum þroska nemenda. Meginmarkmið heimilisiðnaðar var aftur á móti að kunna til verka, verða sjálfbjarga og geta aflað heimilinu tekna (Halldóra Bjarnadóttir, 1912).

Þegar litið er á þær aðalnámskrár grunnskóla sem út komu á því tímabili sem fjallað er um hér þá sést að breyting verður með námskránni 1999. Í Aðalnámskrá grunnskóla 1977 var búið til námssvið sem fékk nafnið mynd- og handmennt. Þar undir voru námsgreinarnar hannyrðir, smíði og teiknun (Menntamálaráðuneytið, 1977). Upphaflega var stungið uppá hugtakinu myndíð en það þótti of lýsandi fyrir eina greinina, þ.e. myndlist (Menntamálaráðuneytið, 1973). Hannyrðir og smíði falla undir hugtakið handmenntir. Í fyrri námskrá frá árinu 1960 hétu handmenntagreinarnar handavinna stúlkna og handavinna drengja (Menntamálaráðuneytið, 1960). Breytingin árið 1977 fól m.a. í sér að horfið var frá kynjaskiptingu greinanna þannig að bæði drengir og stúlkur stunduðu nú hannyrðir og smíði. Heiti greinanna breyttist ekki í námskránni 1989. Í Aðalnámskrá grunnskóla 1999 var gerð talsverð breyting á skipulagi handmenntagreinanna. Námssviðið listir var búið til og undir það féllu námsgreinarnar myndlist, textílmennt, tónmennt, leikræn tjáning og dans (Menntamálaráðuneytið, 1999b). Einnig var búið til námssvið sem fékk nafnið upplýsinga- og tæknimennt sem innihélt námsgreinarnar hönnun og smíði, nýsköpun og hagnýtingu þekkingar og upplýsingatækni (Menntamálaráðuneytið, 1999c). Það sem áður var kallað handavinna drengja og síðar smíði fékk nú nafnið hönnun og smíði og breyttust áherslur greinarinnar talsvert eins og fjallað verður um síðar. Það sem áður var kallað handavinna stúlkna og síðar hannyrðir var nú kallað textílmennt og varð árið 1999 hluti af námssviði listgreina í Aðalnámskrá grunnskóla. Út frá þeirri flokkun má segja að hönnun og smíði sé um þessar mundir eina handmenntagrein grunnskólans.

Viðfangsefni og efnistök

Viðfangsefni greinarinnar má skipta í þrennt:

 • Lýst er sögulegri þróun handmennta á tímabilinu 1970–2007.

 • Skoðaður er hlutur handmennta í heildarkennslustundum grunnskólans og sú þróun
  sem þar hefur orðið.

 • Metið er hve stór hlutur handmennta er í raun og veru af heildarkennslustundum grunnskólans.

Til að gera sögu handmennta skil er einkum stuðst við aðalnámskrár grunnskóla og lög um grunnskólann. Grunnskólinn starfar eftir þeim og ef um verulegar áherslu- og stefnubreytingar er að ræða í skólastarfi koma þær helst fram þar. Ýmist virðast námskrár vera stefnumótandi eða taka upp áherslur sveitarfélaga og eða skóla. Einnig eru önnur rit, s.s. skýrslur og tímaritsgreinar, teknar með í umfjöllunina eftir því sem við á. Við athugun á lykiltímaritum kemur í ljós að umræða um námskrár og þróun þeirra er mis mikil eftir tímabilum og virðist hún hafa verið mest áberandi í aðdraganda námskrár sem út kom 1976–1977.

Þegar skoðuð er þróun handmennta í ljósi loforða menntayfirvalda um aukinn hlut list- og verkgreina í grunnskólum er gerður samanburður á skiptingu kennslustunda á námsgreinar eins og hún er hverju sinni. Þessi gögn er að finna í námskrám og Stjórnartíðindum. Til að skoða hvernig stundir skiptast í raun í grunnskólum voru tekin til úrvinnslu gögn frá Hagstofunni sem spanna árin 2002–2003. Um er að ræða gögn frá öllum grunnskólum landsins en þeir senda árlega inn yfirlit yfir kenndar stundir í hinum ýmsu námsgreinum.

Stiklað á stóru í sögu handmennta 1970–2007

Tilurð handmennta

Til að skilja þá þróun sem orðið hefur er ekki hjá því komist að fjalla um hugmyndafræði handmennta og tilurð þeirra hér á landi. Handmenntir eða slöjd, eins og námssviðið heitir víða í Skandinavíu enn þann dag í dag, komu fram á sjónarsviðið þar eftir miðja nítjándu öld. Áherslur handmennta voru mismunandi eftir löndum en einkennandi fyrir greinina var að alls staðar var lögð mikil áhersla á þátt hennar í uppeldi barna. Námsgreinin á uppruna sinn að rekja til finnska uppeldisfrömuðarins dr. Uno Cygnæus en hann stofnaði alþýðuskólann í Finnlandi (Jón Þórarinsson, 1891; Kantola, Nikkanen, Kari og Kanonja, 1999). Otto Salomon, sem var frumkvöðull á þessu sviði í Svíþjóð, notaði hugtakið pedagogisk slöjd. Námsgreinin átti að þroska áhuga á líkamlegri vinnu, sjálfstæði, frumkvæði, skipulögðum vinnubrögðum, athygli, iðni og viljastyrk (Jón Þórarinsson, 1891). Var jafnvel talað um að nám í greininni væri sérstaklega gott fyrir klunnalega og klaufalega nemendur. Einnig var lögð áhersla á að styrkja vöðvana og voru nemendur stundum látnir saga eða negla í takt til að hita upp fyrir tímann. Til að gæta jafnvægis í þjálfun vöðva líkamans var sagað jafnt með vinstri sem hægri hendi (Kjosavik, 2001).

Jón Þórarinsson og Guðmundur Finnbogason sýndu handmenntum mikinn áhuga eftir að hafa ferðast um Norðurlönd og kynnt sér skólamál um aldamótin 1900 (Guðmundur Finnbogason, 1903; Jón Þórarinsson, 1891). „Jón Þórarinsson er upphafsmaður skólaiðnaðar sem uppeldismeðals hér á landi“, segir Gunnar M. Magnúss í bók sinni Saga alþýðufræðslunnar (Gunnar M. Magnúss, 1939, bls. 259). Bæði Jón og Guðmundur lögðu áherslu á uppeldislegt gildi handmenntakennslu í ritum sínum og gerðu skýran greinarmun á skólaiðnaði og heimilisiðnaði. Markmið skólaiðnaðar var að „... veita unglingum andlegt og líkamlegt uppeldi, að mennta þá í orðsins sanna skilningi“ (Jón Þórarinsson, 1891, bls. 8). Afleiðingar of mikils bóknáms samkvæmt Jóni voru „ ... blóðleysi, taugaveiklun, fjörleysi, ófullkomin líkamsþroski og óeðlilegar náttúruhvatir“ (Jón Þórarinsson, 1891, bls. 15) auk annarra kvilla. Í skólaiðnaði átti að leggja áherslu á uppeldisfræðilegt gildi kennslunnar. Einnig var rætt um kennslu í heimilisiðnaði á þessum tíma en markmið Jóns var að innræta börnum nýtni og gera þeim jafnvel kleift að afla heimilinu tekna með vinnu sinni (Halldóra Bjarnadóttir, 1912). Jón leggur áherslu á að mennta kennara sérstaklega til verksins þar sem trésmiðir skilji ekki þýðingu vinnunnar fyrir uppeldið (Jón Þórarinsson, 1891).

Með lögum um barnafræðslu sem sett voru árið 1936 varð kennsla í handmenntum fyrst lögboðinn hluti af kennslu barna. Í lögunum segir að hvert barn sem er fullra 14 ára sé fullnaðarprófsskylt og til fullnaðarprófs er m.a. krafist að barnið hafi „... fengið nokkra tilsögn í handiðju“ (nr. 94/1936, 5. grein). Það var þó ekki fyrr en með lögum um barnafræðslu árið 1946 (nr. 34/1946) og drögum að námskrám sem út komu 1948 (Fræðslumálastjórnin, 1948) að inntak handmennta var skilgreint. Var þá handmenntum skipt í skólasmíði pilta og handavinnu stúlkna. Stúlkurnar áttu að sauma en drengirnir að vinna með tré. Námskráin festir í sessi kynskiptingu handmennta sem þegar var við lýði enda var víða farið að kenna handmenntir mun fyrr og þegar í upphafi aldarinnar í einstökum skólum (Ólafur Rastrick, 2008). Af fjölda blaða- og tímaritsgreina að dæma virðist umræðan um handmenntir í skólastarfi aukast talsvert á áttunda áratugnum. Snýst hún ekki einungis um tilvist greinarinnar heldur útfærslu og litast af aukinni umræðu í þjóðfélaginu um stöðu og jafnrétti kynjanna. Námsgreinin tók talsverðum breytingum með Aðalnámskrá grunnskóla sem tók gildi 1977 (Menntamálaráðuneytið, 1977).

Handmenntir í lögum um grunnskóla 1974 og Aðalnámskrá grunnskóla 1977

Ný grunnskólalög litu dagsins ljós árið 1974. Voru þá gerðar nokkrar grundvallarbreytingar á skipulagi skyldunámsins. Löggjöfin „... skilgreindi uppeldis- og fræðslumarkmið grunnskólans og skapaði starfsemi hans nútímalegan skipulagsgrundvöll, þar með talin ákvæði um innri skipan, endurnýjun og stjórn skólastarfsins. Þessa löggjöf má hiklaust telja eina merkustu fræðslulöggjöf um víða veröld.“ (Wolfgang Edelstein, 1988, bls. 111).

Sá hluti laganna sem fjallar um hlutverk grunnskólans er lítið eitt ýtarlegri í lögunum frá 1974 en frá 1946. Eftirfarandi málsgreinarhluti er eins í báðum lögunum: „Grunnskólinn skal leitast við að haga störfum sínum í sem fyllstu samræmi við eðli og þarfir nemenda ...“ (Lög um fræðslu barna, nr. 34/1946, 1. grein; Lög um grunnskóla, nr. 63/1974, 2. grein). Kemur hér fram það grundvallaratriði í lögum um grunnskóla að þarfir nemenda séu í brennidepli.

Í ljósi þessa er athyglisvert að skoða þær greinar laganna sem fjalla um kennsluskipan með tilliti til list- og verkgreina. Fjallað er um ellefu svið sem ákvæði skulu sett um í aðalnámskrá. Tvö sviðanna tengjast handmenntum:

 • þroskun fagurskyns, listhneigðar og hagleiks, með kennslu í tónmennt, myndlist og handíðum,

 • verklegt nám (Lög um grunnskóla, nr. 63/1974, 42. grein).

Einnig kemur fram að: „… í 7.–9. bekk verði val námsgreina frjálst að hluta, og skal þar við það miðað, að verklegt skyldu- og valnám geti samanlagt numið helmingi námstímans að hámarki, en fimmtungi hans að lágmarki“ (Lög um grunnskóla, nr. 63/1974, 42. grein). Þátttöku í atvinnulífinu um takmarkaðan tíma mátti meta að nokkru sem verklegt nám. Var í fyrsta skipti í grunnskólalögum kveðið á um að verklegu námi skuli tryggð lágmarkshlutdeild í skyldunámi. Annað sem vekur athygli er ákvæði 43. gr. sem hljóðar svona: „Við setningu námskrár og skipulagningu námsefnis fyrir grunnskóla skal þess sérstaklega gætt, í samræmi við markmið skólans, sbr. 2. gr., að öllum nemendum séu gefin sem jöfnust tækifæri til náms, jafnframt því sem skólinn komi til móts við og viðurkenni mismunandi persónugerð, þroska, getu og áhugasvið nemenda“ (Lög um grunnskóla, nr. 63/1974, 43. grein). Má því til sanns vegar færa að ákvæði um einstaklingsmiðað nám í einhverri mynd hafi verið í lögum um grunnskóla allt frá 1974, þótt annað orðfæri sé notað í seinni tíð.

Handmenntir í ljósi jafnréttis kynja

Árið 1970 rituðu Gerður G. Óskarsdóttir og Ásdís Skúladóttir greinar um samkennslu drengja og stúlkna í handmenntum. Gerður telur að sú skipting sem hafi verið við lýði, þ.e. að drengir læri smíðar og stúlkur að sauma, sé úrelt vegna breyttra þjóðfélagsaðstæðna. Konur fara í auknum mæli út á vinnumarkaðinn og fæstar þeirra fara í störf tengd saumaskap. Að mati Gerðar á að kenna stúlkum og drengjum handavinnu saman frá byrjun (Gerður G. Óskarsdóttir, 1970). Ásdís tekur í sama streng og gagnrýnir kynjaskiptingu í handmenntakennslu. Hún segir m.a.; „Markmið og verkefnaval handavinnunnar byggist greinilega á hefðbundinni verkaskiptingu karla og kvenna, verkaskiptingu sem óðum er að hverfa, enda á hún ekki rétt á sér sem regla né markmið í nútímasamfélagi.“ (Ásdís Skúladóttir, 1970, bls. 176). Hún gagnrýnir einnig markmiðin með handavinnu drengja og stúlkna og segir þau endurspegla óréttlátan mismun. Hún segir að í markmiðum með kennslu stúlkna sé lögð áhersla á hópinn og hópkennslu en í markmiðum með handavinnu drengja sé áherslan á einstaklinginn og að hann finni verkefni við hæfi. Einnig bendir hún á að í Noregi og Svíþjóð sé kynjaskipting í handmenntum ekki við lýði lengur.

Þetta sama ár var haldin ráðstefna um myndlistarkennslu í skólum í Myndlista- og handíðaskóla Íslands. Þegar rætt er um kennslu í myndlist er erfitt að komast hjá því að tala um handmenntir þar sem viðfangsefni þessara greina skarast. Gunnar Friðriksson, formaður Félags íslenskra iðnrekenda, ræddi m.a. um „... þörf framleiðslunnar fyrir sérmenntað fólk á sviði formgjafar.“ (Gunnar J. Friðriksson, 1970, bls. 25). Hann segir að iðnaðurinn þurfi á fólki að halda sem geti unnið skapandi í mismunandi efni, s.s. tré, málma, gler og leir. Í fundargerð ráðstefnunnar kemur fram að í umræðum hafi verið rætt um aðskilnað kynja í handmenntum í grunnskóla og lýstu margir þeirri skoðun að hefðbundinn aðskilnaður væri úreltur. Einnig kom fram í umræðum að aðbúnaður í grunnskólum til handmenntakennslu væri ekki nægjanlega góður. Almennt voru þátttakendur sammála um að efla þyrfti mynd- og handmenntakennslu á öllum skólastigum (Hörður Ágústsson, 1970).

Myndíðanefnd

Í desember 1971 var myndíðanefnd skipuð af menntamálaráðuneytinu. Var nefndinni falið að semja drög að námskrá í myndíð og átti tillögugerð nefndarinnar að byggjast á tilraun með samræmda námskrá og kennslu myndlista og handíða í barna- og gagnfræðaskólum (Menntamálaráðuneytið, 1973). Nefndin var kölluð myndíðanefnd og átti myndíð að vera heiti greinarinnar. Nefndin breytti nafninu í mynd- og handmenntir þar sem fyrra nafnið þótti vera of lýsandi fyrir aðra greinina, þ.e. myndmennt.

Nefndinni var gert að koma með tillögur að öllu er sneri að mynd- og handmenntakennslu í grunnskóla, s.s. markmiðum, kennslumagni, tengslum við aðrar greinar, námsmati, vinnuaðstöðu og menntun kennara. Nefndina skipuðu fagkennarar og aðrir sem tengdust kennslu í greininni. Voru einnig skipaðar undirnefndir henni til aðstoðar. Skilaði nefndin metnaðarfullri skýrslu upp á tæplega 150 síður sem gefin var út í ágúst 1973. Í skýrslunni var í fyrsta sinn settur fram ítarlegur listi yfir búnað og aðstöðu í kennslustofum mynd- og handmennta. Einnig var sett fram framkvæmdaáætlun sem tók til kennaranámskeiða, samningu námskrár og námsefnis, námsmats og kynningar á námsefni, forprófunar og kennslueftirlits (Menntamálaráðuneytið, 1973).

Gert var ráð fyrir að ný námskrá fyrir grunnskólann yrði gefin út árið 1974. Við gerð aðalnámskrár í mynd- og handmennt, sem út kom 1977, var ofangreind skýrsla höfð til hliðsjónar en þó kemur margt fram í henni sem aldrei komst í framkvæmd.

Handmenntir í Aðalnámskrá grunnskóla 1976–1977

Í lögum um grunnskóla frá 1974 segir að menntamálaráðuneytið setji grunnskólum aðalnámskrá „... þar sem m.a. skal kveðið á um uppeldishlutverk skólans og meginstefnu varðandi kennslufræði og kennsluskipan ...“ (Lög um grunnskóla, nr. 63/1974, 42. grein). Auk þess átti samkvæmt lögunum að setja ákvæði um ýmsar sérgreinar og var þar m.a. fjallað um mikilvægi „... þroskun fagurskyns, listhneigðar og hagleiks, með kennslu í tónmennt, myndlist og handíðum ...“ (Lög um grunnskóla, nr. 63/1974, 42. grein). Í kjölfar laganna var gefin út Aðalnámskrá grunnskóla. Almennur hluti hennar kom út 1976 og námskrá í mynd- og handmennt 1977.

Andri Ísaksson var ráðinn til menntamálaráðuneytisins árið 1966 til að sinna skólarannsóknum og markar það upphaf að skólarannsóknardeild. Starfsfólk skólarannsóknardeildar hóf síðan ásamt fleirum að semja almennan hluta aðalnámskrár fyrir grunnskóla árin 1975–1976. „Í almennum hluta námskrárinnar er megináhersla lögð á að lýsa þroskasálfræðilegum forsendum náms, breyttum félagslegum aðstæðum, breyttu hlutverki kennarans í samræmi við þær og nýja þekkingu á námi og námssamskiptum.“ (Menntamálaráðuneytið (skólarannsóknardeild), 1979, bls. 9). Voru ýmsir hræddir um að nákvæmar lýsingar á markmiðum myndu binda hendur kennarans um of og auk þess yrði hætta á að mikilvæg markmið yrðu útundan. Var því horfið frá því að líta á námskrána sem nákvæma lýsingu á því efni sem kennurum bæri að kenna heldur varð hún meira leiðbeinandi með almennum markmiðum.

Í skýrslu um starfsemi skólarannsóknardeildar árin 1967–1978 eru birtir fimm meginþættir þeirrar stefnu sem sett var með grunnskólalögum 1974. Eins og segir í lögunum þá er aðalnámskrá nánari útfærsla á þeim.

 • Stefnt verði að sem fjölbreytilegustu námsframboði í grunnskóla og skal í því skyni gefa nemendum kost á valgreinum í efstu bekkjum skólans og aukin áhersla lögð á verklegt nám.

 • Stefnt verði að auknum sveigjanleika í starfi skóla þannig að unnt verði að mæta mismunandi þörfum og áhugamálum nemenda.

 • Stefnt verði að aukinni samvinnu kennara við skipulagningu og framkvæmd skólastarfs.

 • Nemendum verði ekki skipað í deildir eða hópa eftir námsárangri og námsgetu.

 • Með námsmati skal afla sem öruggastrar og víðtækastrar vitneskju um framvindu skólastarfs. (Menntamálaráðuneytið (skólarannsóknardeild), 1979)

Í þessari upptalningu er tvennt sem vekur sérstaka athygli. Í fyrsta lagi að aukin áhersla skuli lögð á verklegt nám og í öðru lagi að stefna eigi að auknum sveigjanleika. Ekki er hægt að sjá að í viðmiðunarstundaskrám, sem gefnar voru út eftir 1977, að valgreinum hafi verið gefið aukið svigrúm eða áhersla á mynd- og handmennt sé meiri en áður (Stjórnartíðindi B, nr. 173/1979, nr. 184/1977, nr. 212/1984).

Handmenntir í Aðalnámskrá grunnskóla 1989

Í grunnskólalögum frá 1974 er kveðið á um að endurskoða skuli námskrá reglulega og eigi sjaldnar en fimmta hvert ár (Lög um grunnskóla, nr. 63/1974, 42. grein). Hlýtur slík endurskoðun að taka mið af þjóðfélagsbreytingum, þróun í uppeldis- og kennslufræði og þróun einstakra námsgreina. Útgáfa Aðalnámskrár grunnskóla 1989 átti sér langan aðdraganda og byggði á grunnskólalögunum frá 1974. Endurskoðun námskrárinnar hófst í kringum 1980 og í apríl 1983 gaf skólaþróunardeild menntamálaráðuneytisins út drög að almennum hluta. Drögin voru send til umsagnar ýmissa aðila og leiddu þær til verulegra breytinga. Vinnan fór síðan af stað aftur árið 1987 og var í kjölfarið stofnuð samstarfsnefnd með foreldrum, kennaramenntastofnunum og kennarasamtökum (Elín G. Ólafsdóttir, 1989).

Í Aðalnámskrá grunnskóla 1989 er lögð áhersla á rétt nemanda á námi við hæfi og rétt hans til menntunar og þroska á öllum sviðum. Áherslan á einstaklinginn er því meira áberandi en í fyrri námskrá. Þetta kemur einnig fram á námssviði handmennta, sem heitir sem fyrr mynd- og handmennt, en handmenntagreinarnar heita hannyrðir og smíði. Þar segir að með kennslunni sé „... leitast við að koma til móts við það markmið grunnskólans að gefa öllum einstaklingum tækifæri til að uppgötva og þroska þá hæfileika sem þeir búa yfir.“ (Menntamálaráðuneytið, 1989, bls. 88). Flest meginmarkmið námssviðsins sem talin eru upp lúta að mótun og þroska einstaklingsins, s.s. að þroska og þjálfa hug og hendur, efla hugmyndaflug og sjálfstraust, rækta samstarfsvilja og leggja grunn að sjálfstæðu gildismati (Menntamálaráðuneytið, 1989).

Það vekur sérstaka athygli að námskráin frá 1989 er einungis 196 bls. að lengd miðað við samtals 465 bls. árið 1976–1977. Námskráin gefur einungis almennan ramma fyrir einstaka námsgreinar og gerir ráð fyrir nánari útfærslu í skólanámskrá. Síðar var gagnrýnt að námsmarkmið væru ekki nógu skýr og var úr því bætt í námskránni 1999 (Rúnar Sigþórsson og Rósa Eggertsdóttir, 2008).

Frá mynd- og handmennt til listgreina og upplýsinga- og tæknimenntar

Árið 1992 var sett á laggirnar nefnd til að móta menntastefnu og endurskoða gildandi lög um grunn- og framhaldsskóla. Skilaði nefndin áliti sínu árið 1994 og voru í kjölfarið samþykkt frá Alþingi ný grunnskólalög árið 1995. Sú grein laganna sem fjallar um kennsluskipan breyttist talsvert frá eldri lögum. Líkt og í lögunum frá 1974 kemur fram að taka eigi tillit til mismunandi persónugerðar, þroska, getu og áhugasviða nemenda en nú eru talin upp námssvið og námsgreinar sem kenna á. Segir einnig að menntamálaráðuneytið setji grunnskólum aðalnámskrá og í henni skuli m.a. vera nánari útfærsla á 2. gr. laganna þar sem kveðið er á um: „ ... uppeldishlutverk grunnskólans og meginstefnu í kennslu og kennsluskipan í samræmi við hlutverk grunnskólans ...“ (Lög um grunnskóla, nr. 66/1995, 29. grein). Síðan eru taldir upp tíu þættir sem áhersla skal lögð á í starfi skólans. Einn þeirra er „ – skilningur og frjótt, skapandi starf og jafnvægi milli bóklegs og verklegs náms“ (Lög um grunnskóla, nr. 66/1995, 29. grein). Ekki er þó minnst á hve stór hlutur verklegs náms eigi að vera eins og gert var í lögunum frá 1974.

Endurskoðun aðalnámskrár grunn- og framhaldsskóla hófst ári eftir setningu laganna. Ekki virðist umræða um handmenntagreinarnar vera fyrirferðamikil á þessum tíma, a.m.k. ekki í þeim blöðum og tímaritum sem skoðuð voru. Í mars 1997 skipaði menntamálaráðherra forvinnuhópa vegna endurskoðunar aðalnámskrár grunnskóla. Hópunum var falið að vinna að tillögum um faglega stefnumótun menntamálaráðuneytisins á námssviðinu (Menntamálaráðuneytið, 1997). Einn hópur vann tillögu að námskrá í upplýsinga- og tæknimennt og skilaði tillögum í júlí 1997. Var þetta nýtt svið og var námsgreininni, sem áður hét smíði og þar áður handavinna drengja, gefið heitið hönnun og smíði. Það sem áður hét hannyrðir fékk nafnið textílmennt og féll undir námssviðið listgreinar.

Nýjar áherslur í smíði

Sú þróun, að leggja aukna áherslu á tæknimennt í smíðakennslu er í takt við þróunina m.a. í Englandi, Nýja Sjálandi og víða á Norðurlöndum. Gerði vinnuhópurinn grein fyrir þessari tilfærslu og segir í skýrslu hópsins að eitt af meginmarkmiðum með námssviðinu sé að nemandinn verði læs á tækniumhverfið. Lagt var til að hönnun og smíði skiptist í fjóra meginþætti: verkskipulag, iðnhönnun/sköpun, handverk, mótunarþætti og stuðningsþætti. Átti þetta að hvetja nemandann til að nýta sér þekkingu sína á skapandi hátt til að búa til úr henni hagnýta hluti (Menntamálaráðuneytið, 1997).

Í námskrá í hönnun og smíði, sem gefin var út árið 1999, er lítið fjallað um uppeldisleg markmið. Meira fer fyrir öðrum markmiðum, s.s. að kunna skil á byggingarefnum, hönnunarferlum og að nemendur skilji umhverfi sitt. Svo virðist sem fleiri uppeldisleg markmið komi fram í fyrrnefndri skýrslu undirbúningsnefndar en í námskránni sjálfri. Í inngangi námskrár í textílmennt koma bæði fram uppeldis- og þroskamarkmið sem og áhersla á handverk, hönnun og framleiðslu. Ekki urðu miklar breytingar á megináherslum textílmenntar og var greinin enn handverksmiðuð þrátt fyrir færslu yfir á námssvið listgreina.

Fyrirmyndirnar að námskránni í hönnun og smíði komu frá Nýja Sjálandi, Ástralíu og Kanada. Hugmyndin var að smíðin og tölvu- og upplýsingatæknin gætu stutt hvor aðra í tæknimenntinni. Þó var lögð áhersla á að halda áherslum handverksins í greininni. Einnig var hugmyndin að nemendur öðluðust skilning á atvinnulífinu gegnum verklega framkvæmd, þroskuðu sköpunarmátt, tæknilæsi, samfélagslega ábyrgð og frumkvöðlahugsun (Menntamálaráðuneytið, 1999c). Það má því segja að námsgreinin hafi tekið miklum breytingum með þessari námskrá.

Handmenntir í Aðalnámskrá grunnskóla 2007

Árið 2005 voru skipaðir vinnuhópar til að endurskoða aðalnámskrár grunnskóla. Markmiðið var að fara yfir markmiðssetningu og endurskoða námskrár í ljósi reynslunnar. Var þeirri vinnu hrundið af stað með styttingu framhaldsskólans í huga en fallið var frá því áður en námskrár komu út (Menntamálaráðuneytið, 2004).

Lítil opinber umræða virðist hafa átt sér stað í kjölfar útgáfu Aðalnámskrár í upplýsinga- og tæknimennt 1999. Opinber umræða nú á tímum er ekki bundin við dagblöð og tímarit heldur notar fólk netmiðla í auknum mæli til að koma skoðunum sínum á framfæri. Einhver umræða um hönnun og smíði hefur farið fram á vef smíðakennarafélagsins. Sú umræða hefur þó ekki snúist um rökstuðning fyrir tilvist hennar heldur um útfærslur, innihald námskrár og áhyggjur af þróuninni í grunnskólum. Mjög skiptar skoðanir voru um áherslu á tæknimennt og tölvustudda hönnun. Kennarar töldu sig ekki hafa þekkingu til að takast á við marga þætti sem þar komu fram og einnig var tekist á um hvort ákveðnir þættir tæknimenntar ættu að vera hluti af kennslu í grunnskólum (Félag íslenskra smíðakennara, e.d.).

Námskrá í hönnun og smíði tók talsverðum breytingum árið 2007. Í fyrsta lagi var hönnun og smíði aðgreind frá upplýsingatækni og varð nú sjálfstætt námssvið. Þótt einstaklingsmiðað nám hafi ætið verið ríkur hluti af kennslu í hönnun og smíði þá var sú áhersla gerð enn sýnilegri en áður. Dregið var verulega úr áherslum á tæknimennt en inn komu nýjar áherslur, s.s. ferskar viðarnytjar, útikennsla, vinnuvernd og sjálfbær þróun. Námsgreinin styrkti stöðu sína sem handverksgrein og var markmiðum sem lutu að þekkingu sem ekki tengdist handverkinu beint fækkað (Menntamálaráðuneytið, 2007). Óverulegar breytingar voru gerðar á námskrá í textílmennt.

Hlutdeild handmennta í kennslustundum grunnskólans

Margt annað en hugmyndir manna um gildi kennslu einstakra námsgreina hefur áhrif á hvaða stöðu þær hafa í skólakerfinu. Það getur t.d. verið þrýstingur hagsmunahópa og óhætt er að fullyrða að bóknámsáherslur skólakerfisins hafa sín áhrif á stöðu handmennta. En á meðan við búum við skólaskyldu bera yfirvöld ábyrgð á því að allir nemendur fái nám við hæfi og að það sé fjölbreytt. Mikil áhersla hefur verið lögð á einstaklingsmiðað nám og má sjá þá áherslu á heimasíðum margra grunnskóla (Ingunnarskóli, e.d.; Korpuskóli, e.d.). Misjafnt er hvernig einstaklingsmiðað nám er skilgreint og „... kennsluhættir, tengdir einstaklingsmiðun, geta hvílt á gjörólíkri hugmyndafræði.“ (Ingvar Sigurgeirsson, 2005). Ef koma á til móts við ólíkar þarfir og hæfileika nemenda þá hlýtur nám í handmenntum, eða í það minnsta einhvers konar verklegt nám, að vera mikilvægur þáttur.

Ásetningur og framkvæmd

Það virðist hafa verið ásetningur yfirvalda nú í seinni tíð að auka hlut handmennta og lista eða það sem oft er kallað list- og verkgreinar í grunnskólanum. Oft er talað um eflingu þeirra á „hátíðis- og tyllidögum“ og forvitnilegt getur verið að skoða hvernig því hefur verið fylgt eftir.

Í gildi er viðmiðunarstundaskrá frá 1999. Í töflu 1 sést hversu stórt hlutfall handmenntakennsla hefur verið gegnum tíðina af heildarkennslu 11 ára barna í grunnskólum. Miðað er við þau ár sem námskrár voru gefnar út. Svo virðist sem viðmiðunarstundaskrár hafi ekki verið gefnar út fyrir 1948 en í Lögum um fræðslu barna frá 1936 er kveðið á um lágmarksnámstíma á ári. Hlutur handmennta af heildarkennslu er lítið eitt minni nú en 1977. Stafar það einkum af því að heildarvikustundafjöldi hefur verið aukinn um 6% án þess að handmenntir hafi fengið aukna hlutdeild (Fræðslumálastjórnin, 1948; Menntamálaráðuneytið, 1960, 1999a, 2006; Stjórnartíðindi B, nr. 184/1977). Valtímar voru engir árið 1977 en eru fjórir frá og með árinu 1999.

Árið 1991 gaf menntamálaráðuneytið út framkvæmdaáætlun í skólamálum undir heitinu Til nýrrar aldar (Menntamálaráðuneytið, 1991). Þar er ágætur kafli um aukinn hlut lista, verkmennta og skólaíþrótta í grunnskólanum og í honum er rökstuðningur fyrir þeirri áherslu. Segir þar að lengja eigi skóladaginn og verja viðbótartímanum í þessar greinar. Skipting náms í námsgreinar átti því að verða þrískipt að frádregnum þeim tíma sem fer í skólaíþróttir en þær áttu að fá 10% tímans.

Meginmarkmiðið með þessari skiptingu átti að vera að auka hlut list- og verkgreina í heildarstarfi grunnskólans. Ekki var gert ráð fyrir að heildartími í bóklegum greinum minnkaði heldur átti viðbótartími, sem áætlað var að bættist við grunnskólann á næstu árum, að fara að mestu leyti í þessar greinar. List- og verkgreinar voru skilgreindar sem listgreinar, smíði og heimilisfræði. Þessar greinar áttu með öðrum orðum að fá 1/3 af skólatímanum að frádregnum íþróttum. Ef skoðuð er skipting tímans í námsgreinar árið 1999 sést berlega að þessum áherslum hefur ekki verið fylgt eftir (sjá töflur 2 og 3).

(Byggt á: Menntamálaráðuneytið, 1999a)

Í töflu 2 má sjá hlutfall þessara þriggja flokka sem hlutfall af þeim stundum sem bundnar eru ákveðnum greinum. Valgreinar eru ekki teknar með en þeim mega skólar ráðstafa að vild.

(Byggt á: Menntamálaráðuneytið, 1999a)

Í töflu 3 má sjá hlutfall þessara þriggja flokka sem hlutfall af heildarstundum þegar valgreinar eru teknar með. Má sjá að list- og verkgreinar fá alls 17% af heildarstundum (að lágmarki) en aðrar greinar en íslenska og stærðfræði 33%.

Sú tímaskipting sem liggur til grundvallar þessum útreikningum er enn í gildi. Vikulegum kennslustundum fjölgaði um 12,4% frá árinu 1991 til ársins 1999 (Menntamálaráðuneytið, 1999a; Stjórnartíðindi B, nr. 154/1991). Auk þessa hefur skólaárið verið lengt til muna en sá tími hefur ekki skilað sér til list- og verkgreina. Í töflu 3 má sjá að list- og verkgreinar fá einungis um 22% af heildarstundum í 1.–8. bekk hvert ár og ekkert eftir það. Við þetta geta skólar þó bætt óráðstöfuðu vali en sérstaklega í efri bekkjum virðist tilhneigingin vera að hvetja nemendur til að velja bóknámsgreinar sem lið í undirbúningi undir samræmd próf (Brynjar Ólafsson, 2008).

(Byggt á: Menntamálaráðuneytið, 1999a)

Í töflu 4 má sjá hvert hlutfall list- og verkgreina gæti verið ef allt frjálst val færi í þær öll skólaárin. Með því mætti nálgast markmið um 33,3% hlut verknáms en það getur varla talist raunhæft í framkvæmd. Í versta falli (frá sjónarhóli þessara greina), eins og fram kom í töflu 3, getur nemandi útskrifast úr grunnskóla með einungis 17% af námi sínu á sviði list- og verkgreina að frátöldum íþróttum. Það er langt frá því að vera þriðjungur náms eins og hugmyndir voru uppi um.

Eins og fram kom er heimilisfræði flokkuð með list- og verkgreinum í þessum töflum og allt reiknað út að frádregnum íþróttum til að skoða hvernig áherslum framkvæmdaáætlunarinnar Til nýrrar aldar hefur verið fylgt eftir. Heimilisfræði er ekki talin til list- og verkgreina í aðalnámskrá. Ef íþróttir eru ekki dregnar frá í útreikningunum og heimilisfræðin ekki flokkuð með list- og verkgreinum kemur í ljós að list- og verkgreinar (samanlagt) fá alls 12% af heildarstundum eins og staðan er núna.

Annað dæmi um ásetning yfirvalda er samkomulag menntamálaráðuneytisins og Kennarasambands Íslands sem undirritað var 2. febrúar 2006. „Samkomulagið felur í sér mörg verkefni sem þörf er á að vinna í sameiningu og sátt skólasamfélaginu til heilla.“ (Menntamálaráðuneytið og Kennarasamband Íslands, 2006). Sjötta skrefið er svohljóðandi: „Verk- og starfsnám í grunn- og framhaldsskólum verður eflt, skipulag einfaldað og hvatt til aukinnar aðsóknar í slíkt nám.“ (Menntamálaráðuneytið og Kennarasamband Íslands, 2006). Síðan þetta samkomulag var undirritað hefur vinnu við endurskoðun aðalnámskrár grunnskólans verið lokið og var almennur hluti hennar gefinn út í desember 2006. Ekki er að sjá, t.d. í viðmiðunarstundatöflu eða öðrum hugmyndum sem fram hafa komið, að þessu hafi verið fylgt eftir þar. Fleiri dæmi væri hægt að taka úr opinberum skjölum og umræðu um menntamál.

Kenndar stundir í listum og handmenntum

Þótt menntamálaráðuneytið setji ákveðnar reglur um hvað skuli kennt þá getur verið misbrestur á að því sé fylgt eftir. Það kann að vera að annað hvort sé kennt meira eða minna. Ástæður geta verið t.d. skortur á faggreinakennurum, ónóg eða mjög góð kennsluaðstaða, skipulag skólastarfs og áherslur einstakra skóla. Hér á eftir er samantekt úr gögnum frá Hagstofu um kenndar stundir í listum fyrir árin 2000–2003. Samkvæmt Aðalnámskrá grunnskóla, sem tók gildi 1999, eru listgreinar eftirfarandi: myndmennt, textílmennt, tónmennt, leikræn tjáning og dans. Eiga þessar greinar að fá fjóra tíma á viku, eins og áður sagði. Hönnun og smíði flokkast undir upplýsinga- og tæknimennt frá og með Aðalnámskrá grunnskóla frá 1999. Samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar er hönnun og smíði nánast undantekningarlaust flokkuð með listum á þessu tímabili. Hér hefði þurft að skoða ítarlega skilgreiningu á listum annars vegar og upplýsinga- og tæknimennt hins vegar hjá þeim skólum sem skiluðu gögnum til Hagstofunnar. Til þess þyrfti að hafa samband við alla skólana og fá nánari upplýsingar um hvernig þeir hafi flokkað list- og verkgreinar. Þar sem hönnun og smíði er með tveimur öðrum greinum á námssviði og tímarnir ekki flokkaðir eftir greinum þá er ekki hægt að skera úr um það nákvæmlega hve mikið er kennt í hönnun og smíði. Hér er það látið liggja á milli hluta. Þótt það skipti máli fyrir þá rannsókn sem hér er unnin þá duga gögnin ekki til að svara þessu, en þau duga til að svara spurningu um hina grófari flokka.

Mynd 1. Meðaltal vikulegra kennslustunda í listum eftir bekkjum árin 2000–2003 (allt landið).
Heimild: Hagstofa Íslands, mars 2005.

Á mynd 1 sést meðaltal kenndra stunda í listum yfir allt landið árin 2000–2003. Þótt tölurnar séu ekki alveg nýjar af nálinni er engin sérstök ástæða til að ætla að meðaltalið hafi breyst mikið. Ekki var mikill munur milli ára. Það sem vekur mesta athygli er að meðaltal kenndra stunda fer að lækka strax í sjöunda bekk. Þar er kennsla list- og verkgreina skylda og ætti að vera a.m.k. fjórar stundir. Í áttunda bekk ætti meðaltalið einnig að vera fjórar stundir en er undir tveimur og hálfri stund. Ef uppgefnar tölur frá grunnskólunum eru einungis listgreinar án hönnunar og smíði þá er kennslan nokkurn veginn miðuð við kröfur Aðalnámskrár grunnskóla fyrstu sex ár grunnskólans. Ef hönnun og smíði er með í þessum tölum, eins og Hagstofan telur, þá ætti meðaltalið að vera fimm stundir.

Í níunda og tíunda bekk eru hvorki listgreinar né hönnun og smíði skyldunámsgreinar. Skólarnir hafa þó þann möguleika að bjóða upp á þær sem valgreinar. Í níunda bekk hafa skólarnir ellefu valstundir til umráða og tíu í tíunda bekk. Ekki eru margar þessara stunda nýttar í listgreinar samkvæmt þessu. Einungis er að meðaltali um ein stund nýtt til kennslu í listum í níunda bekk og eitthvað minna í tíunda bekk. Annað, sem er kannski ennþá athyglisverðara, er að þær óbundnu stundir sem eru til ráðstöfunar í yngri bekkjum virðast engar skila sér í list- og verkgreinar að meðaltali. Meðaltalið gæti verið mun hærra þar sem óbundnar stundir sem nota má í hvaða námsgrein sem er eru að meðaltali 3,5 í 1.–8. bekk.

Umræða

Handmenntakennsla í grunnskólum hefur tekið umtalsverðum breytingum í tímans rás eins og hér hefur verið sýnt fram á. Talsverð breyting varð með samkennslu drengja og stúlkna á áttunda áratugnum og virðist talsverð umræða hafa átt sér stað. Mikil breyting varð með aðalnámskrá í hönnun og smíði 1999 þegar nýjar áherslur í tæknimennt komu fram í dagsljósið. Er sú breyting í takt við þróun kennslu í smíði í átt að tæknimennt í mörgum löndum, þar á meðal Finnlandi, Englandi, Ástralíu og Kanada. Mikilvægt er að handmenntagreinar séu í sífelldri þróun og í takt við samfélagið. Þegar hugmyndir um gildi handmennta eru skoðaðar kemur í ljós að rökin fyrir mikilvægi þeirra hafa einnig breyst með tímanum. Sem dæmi má nefna að lítið fer fyrir uppeldisfræðilegum rökum í námskrá í hönnun og smíði 1999. Það þýðir þó ekki að rök fyrri tíma séu úrelt. Þegar bornar eru saman nokkrar áherslur frá Jóni Þórarinssyni frá aldamótunum 1900 við nútíma skólaumræðu virðist engu að síður vera með þeim ákveðinn samhljómur. En það virðist vera eitthvað í umræðu samfélagsins sem gerir það að verkum að ákveðnar hugmyndir fá ekki hljómgrunn strax og jafnvel að sömu hugmyndir komi upp aftur og aftur undir öðrum formerkjum. Jón Þórarinsson talaði t.d. um að kenna ætti piltum og stúlkum sömu handmenntir. Einnig má segja að hann tali fyrir einstaklingsmiðuðu námi þegar hann leggur áherslu á mikilvægi þess að uppgötva hæfileika hvers og eins (Jón Þórarinsson, 1891). Samkennsla kynjanna í handavinnu varð að veruleika á áttunda áratugnum og umræða um einstaklingsmiðað nám ekki verulega áberandi fyrr en á tíunda áratugnum þótt hugmyndir af þeim toga hafi komið fram áður í lögum og námskrám eins og sjá má t.d. í lögum um grunnskóla frá 1974.

Eins og sjá má í töflu 5 er áhugaverður samhljómur á milli þeirra hugmynda sem fram komu í grein Jóns Þórarinssonar (1891) og margra þeirra sem efstar eru á baugi nú á tímum. Þessi tengsl má sjá þegar hugað er að eftirfarandi atriðum:

a) Lögð er megináhersla á skapandi vinnu í handmenntum og kennsla í nýsköpun er eitt af markmiðum í Aðalnámskrá grunnskóla í hönnun og smíði.

b) Í Lögum um grunnskóla frá 1995 (nr. 66, 29. grein) er einn af tíu áhersluþáttum að gætt skuli jafnvægis milli bóklegs og verklegs náms. Þessi áhersla er enn í lögum um grunnskóla (Lög um grunnskóla nr. 91/2008, 24. grein).

c) Markmið einstaklingsmiðaðs náms er að koma til móts við þarfir og hæfileika einstaklingsins. Sérstök áhersla hefur verið lögð á einstaklingsmiðað nám hjá Reykjavíkurborg og víðar (sjá t.d. Reykjavíkurborg, 2007).

d) Mikið er rætt um fjölgreindakenningu Howard Gardners og hvernig hún geti mótað skólastarf í grunnskólum hér á landi (sjá t.d. Gardner, 1993, 1999; Armstrong, 2001).

e) Í Lækjarskóla hefur verið sett á stofn fjölgreinadeild sem er einkum fyrir þá sem eiga erfitt með að fóta sig í almennu námi. Er þar lögð áhersla á verklega kennslu. Í fjölgreinadeild Lækjarskóla hefur nemendum fjölgað um allt að 30% milli ára undanfarin ár (Lækjarskóli, e.d.)

Í lögum um grunnskóla 1974 var kveðið á um að hlutdeild verklegs náms skyldi vera einn fimmti að lágmarki en helmingur að hámarki. Í skýrslu skólarannsóknardeildar frá 1979 koma fram fimm meginþættir þeirrar stefnu sem sett var með lögum um grunnskóla 1974. Fjölbreytt námsframboð og aukin áhersla á verknám er ein af fimm megináherslum. Einnig komu fram metnaðarfull markmið í skýrslu menntamálaráðuneytisins Til nýrrar aldar frá 1991 um þriðjungshlut lista og verkmennta. Í lögum um grunnskóla 1995 er síðan kveðið á um að jafnvægis skuli gætt milli bóklegs og verklegs náms en ekki er það útlistað nánar. Þessi áhersla er enn í grunnskólalögum. Mjög ákveðinn ásetningur um aukna hlutdeild handmennta og lista í skólastarfi hefur ekki orðið að veruleika. Það hlýtur að teljast mjög umhugsunarvert og jafnvel áhyggjuefni enda mæla mörg rök með aukinni áherslu á handmenntir í skólum. Samkvæmt gögnum frá Hagstofu eru ekki kenndar eins margar stundir í listum og verkgreinum eins og kveðið er á um í aðalnámskrá. Sérstaka athygli vekur að þessum stundum fækkar verulega í sjöunda og áttunda bekk og að óbundnum stundum virðist ekki vera ráðstafað í list- eða verkgreinar en þar hafa skólar talsvert svigrúm en nýta það ekki.

Ekki verður betur séð en að yfirvöld menntamála vilji leggja kapp á að efla þetta svið skólastarfsins umfram önnur. Það er eins og enginn þori að taka af skarið eða að greinina vanti öflugri þrýstihóp. Hugsanlega er þrýstingur frá öðrum hagsmunahópum sterkari. „Það er við mörg vandamál að glíma bæði í umræðu um gildi verklegs náms og eins við allar tilraunir til að efla það“, segir Jón Torfi Jónasson (2001, bls. 320) þegar hann fjallar um vanda handmennta í almennri menntun. Hann nefnir sex atriði máli sínu til stuðnings:

 • skilgreiningar eru á reiki

 • röksemdir eru margvíslegar og ósamstæðar

 • ekki virðist vera að finna margar haldbærar rannsóknir sem sýna fram á gildi verknáms

 • hefð bóklegs náms er sterk

 • það vantar öfluga málsvara verklegs náms

 • verkleg kennsla er iðulega dýrari en bókleg (Jón Torfi Jónasson, 2001, bls. 320–322).

Eflaust eiga allir þessir þættir og fleiri þátt í því að handmenntir skipa ekki eins fastan sess í skólakerfinu og bóknámsgreinar. Einhverjar rannsóknir hafa verið gerðar og bækur gefnar út sem rökstyðja mikilvægi list- og verkgreina í grunn- og leikskólum en þær eru ekki fyrirferðarmiklar (Haabesland og Vavik, 2000; Trageton, 1980, 1992, 1997). Meira hefur verið skrifað um gildi listnáms en verknáms og hefur listnám átt öflugri málsvara (Eisner, 1998, 2002).

Almennt jafnvægi í námi og almenn þekking og skilningur eru mikilvæg hverjum einstaklingi. Þá gildir einu hvort þekkingin er verklegs eðlis eða ekki. En vegna hinnar miklu bóknámshneigðar í grunnskólanum verða list- og verkgreinar nokkurs konar mótvægi við hið bóklega nám og stuðla að fjölbreytni í skólastarfi. Þannig koma þær til móts við þarfir og áhuga margra. Í lögum um grunnskóla er kveðið á um að jafnvægis skuli gætt og nám skuli mæta þörfum einstaklingsins. Mörgum finnst agavandamál og þörf fyrir sérúrræði vera að aukast í skólum. Sitt sýnist hverjum um ástæður þess en niðurstöður rannsóknar Ingvars Sigurgeirssonar og Ingibjargar Kaldalóns (2006) um þetta efni vekur athygli. Einn skólastjórinn sagði: „Við þurfum að gera miklu meira af þessu að leyfa þeim sem ekki finna sig í þessu bóklega að vera bara miklu meira í list- og verkgreinum“. Annar tók í sama streng: „… ég er í þeim hópi sem að horfir hreinlega með hryllingi til þess að allir skyldu vera stilltir í nákvæmlega sama farið … Aðalnámskráin steypir okkur svolítið í þetta. List- og verkgreinar eiga undir högg að sækja og þetta höfum við oft talað um ... Þarf að gefa fólki kost á að fara í gegnum grunnskóla með miklu stærri pakka í list- og verkmenntagreinum.“ Í rannsókninni kom einnig fram í viðtali við einn skólastjóra að honum fannst agavandamál minnka til muna þegar kennsla í list- og verkgreinum var aukin. Það virðist því nokkurt samhengi milli kennsluhátta og líðanar nemenda í skólunum. Varhugavert er að draga of miklar ályktanir af þessari rannsókn þar sem þetta var ekki meginviðfangsefni hennar en þetta er verðugt rannsóknarefni.

Hægt er að velta rökunum fyrir kennslu ýmissa greina fyrir sér á margvíslegan hátt en margt bendir til þess að verklegt nám þurfi að efla ef skólinn á að ná markmiðum sínum um fjölbreytt nám og koma til móts við þarfir ólíkra nemenda. Það hefur verið ásetningur yfirvalda að efla verklegt nám en framkvæmd skortir. Ekki þarf að réttlæta handmenntir eingöngu með almennum rökum um þroska og að nemendum gangi betur í bóknámi vegna verknámsins eins og stundum er haldið fram. Sú þekking og skilningur sem nemendur öðlast við nám í handmenntum er nægjanleg til að rökstyðja kennslu í þeim. Það þarf að hlúa að verklegri kennslu og veita nemendum ríkuleg tækifæri innan hennar – leyfa þeim að njóta fjölbreytni og koma til móts við ólíkar þarfir þeirra.

Heimildir

Armstrong, T. (2001). Fjölgreindir í skólastofunni. Reykjavík: JPV útgáfa.

Ásdís Skúladóttir. (1970). Verkleg kennsla á skyldunámsstiginu. Menntamál, 43(5), 174–180.

Brynjar Ólafsson. (2008). Staða handmennta í grunnskólum. Óbirt MA-ritgerð: Háskóli Íslands, Reykjavík.

Eisner, E. W. (1998). The kind of schools we need: Personal essays. Portsmouth, NH: Heinemann.

Eisner, E. W. (2002). The arts and creation of mind. New Haven: Yale University Press.

Elín G. Ólafsdóttir. (1989). Að starfa í anda og sannleika samkvæmt aðalnámskrá. Ný menntamál, 7(3), 12–16.

Félag íslenskra smíðakennara. (e.d.). Umræðan. Sótt 20. nóvember 2009, af http://www.smidakennari.is/Grein.asp?id=8.

Fræðslumálastjórnin. (1948). Drög að námsskrám fyrir barnaskóla og gagnfræðaskóla. Reykjavík: Fræðslumálastjórnin.

Gardner, H. (1993). Multiple Intelligences. The Theory in Practice. New York: BasicBooks.

Gardner, H. (1999). Intelligence Reframed. Multiple Intelligences for the 21st Century. New York: BasicBooks.

Gerður G. Óskarsdóttir. (1970). Eiga stúlkur og drengir að læra sömu handavinnu? Foreldrablaðið, 20(1), 23–24.

Guðmundur Finnbogason. (1903). Lýðmenntun: Hugleiðingar og tillögur. Akureyri: Kolbeinn Árnason og Ásgeir Pétursson.

Gunnar J. Friðriksson. (1970). Um myndlistarkennslu í skólum. Birtist í Ráðstefna um myndlistarkennslu í skólum 12.–13. október 1970, 1. bindi. Reykjavík: Myndlista- og handíðaskóli Íslands.

Gunnar M. Magnúss. (1939). Saga alþýðufræðslunnar á Íslandi: Hátíðarrit SÍB. Reykjavík: Samband íslenskra barnakennara.

Haabesland, A. A. og Vavik, R. (2000). Kunst og håndverk – hva og hvorfor. Bergen: Fagbokforlaget.

Halldóra Bjarnadóttir. (1912). Handavinnukennsla í skólunum. Skólablaðið, 6(1), 6–10.

Hörður Ágústsson. (1970). Fundargerð. Birtist í Ráðstefna um myndlistarkennslu í skólum 12.–13. október 1970, 2. bindi. Reykjavík: Myndlista- og handíðaskóli Íslands.

Ingunnarskóli. (e.d.). Hvað felst í einstaklingsmiðuðu námi? Sótt 15. október 2009, af http://ingunnarskoli.is/index.php?option=com_content&task=view&id=134&Itemid=301.

Ingvar Sigurgeirsson. (2005). Um einstaklingsmiðað nám, opinn skóla og enn fleiri hugtök ... Uppeldi og menntun, 14(2), 9–31.

Ingvar Sigurgeirsson og Ingibjörg Kaldalóns. (2006). „Gullkista við enda regnbogans“: Rannsókn á hegðunarvanda í grunnskólum Reykjavíkur skólaárið 2005–2006. Reykjavík: Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands.

Jón Torfi Jónasson. (2001). Um gildi verk- og listgreina í almennri menntun. Birtist í Safn greina og bókarkafla frá árunum 1990–1999 um menntamál, einkum um þróun íslenska skólakerfisins. Reykjavík: Höfundur.

Jón Þórarinsson. (1891). Um kennslu í skóla-iðnaði: Fyrirlestur haldinn í hinu íslenska kennarafélagi laugardaginn 6. desember 1890. Tímarit um uppeldis- og menntamál, 4(1), 3–20.

Kantola, J., Nikkanen, P., Kari, J., og Kanonja, T. (1999). Through education into the world of work. Uno Cygnæus, the Father of Technology Education. Jyvaskyla: Institute for Educational Research, University of Jyvaskyla.

Kjosavik, S. (2001). Fra tegning, sløyd og håndarbeid til kunst og håndverk: En faghistorie gjennom 150 år. Vollen: Tell Forlag.

Korpuskóli. (e.d.). Hvað er einstaklingsmiðað nám? Sótt 15. október 2009, af http://www.korpuskoli.is/images/stories/skjoel/annad/hva%20er%20einstaklingsmia%20nm%20haust%202009.pdf

Lækjarskóli. (e.d.). Fjölgreinadeild. Sótt 20. nóvember 2009, af http://www.laekjarskoli.is/index.php?option=com_content&task=view&id=37&Itemid=88.

Lög um fræðslu barna (nr. 34/1946).

Lög um fræðslu barna (nr. 94/1936).

Lög um grunnskóla (nr. 63/1974).

Lög um grunnskóla (nr. 66/1995).

Lög um grunnskóla (nr. 91/2008).

Menntamálaráðuneytið. (1960). Námsskrá fyrir nemendur á fræðsluskyldualdri. Reykjavík: Menntamálaráðuneytið.

Menntamálaráðuneytið. (1973). Mynd- og handmenntir í íslenzka skólakerfinu: Nefndarálit. Reykjavík: Menntamálaráðuneytið, skólarannsóknardeild.

Menntamálaráðuneytið. (1977). Aðalnámskrá grunnskóla: Mynd- og handmennt. Reykjavík: Menntamálaráðuneytið, skólarannsóknardeild.

Menntamálaráðuneytið. (1989). Aðalámskrá grunnskóla. Reykjavík: Menntamálaráðuneytið.

Menntamálaráðuneytið. (1991). Til nýrrar aldar: Framkvæmdaáætlun menntamálaráðuneytisins í skólamálum til ársins 2000. Reykjavík: Menntamálaráðuneytið.

Menntamálaráðuneytið. (1997). Markmið upplýsinga- og tæknimennta í grunnskólum og framhaldsskólum: Skýrsla forvinnuhóps á námssviði upplýsinga- og tæknimennta. Reykjavík: Menntamálaráðuneytið.

Menntamálaráðuneytið. (1999a). Aðalnámskrá grunnskóla: Almennur hluti. Reykjavík: Menntamálaráðuneytið.

Menntamálaráðuneytið. (1999b). Aðalnámskrá grunnskóla: Listgreinar. Reykjavík: Menntamálaráðuneytið.

Menntamálaráðuneytið. (1999c). Aðalnámskrá grunnskóla: Upplýsinga- og tæknimennt. Reykjavík: Menntamálaráðuneytið.

Menntamálaráðuneytið. (2004). Breytt námsskipan til stúdentsprófs – aukin samfella í skólastarfi. Reykjavík: Menntamálaráðuneytið.

Menntamálaráðuneytið. (2006). Aðalnámskrá grunnskóla: Almennur hluti. Sótt 19. nóvember 2009, af http://bella.mrn.stjr.is/utgafur/agalmennurhluti_2006.pdf

Menntamálaráðuneytið. (2007). Aðalnámskrá grunnskóla: Hönnun og smíði. Sótt 19. nóvember 2009, af http://bella.mrn.stjr.is/utgafur/adalnamskra_grsk_honnunsmidi.pdf

Menntamálaráðuneytið og Kennarasamband Íslands. (2006). Skólastarf og skólaumbætur – 10 skref til sóknar. Sótt 19. nóvember 2009, af http://www.ki.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=1943

Menntamálaráðuneytið (skólarannsóknardeild). (1979). Endurskoðun námsefnis á grunnskólastigi: Skýrsla um starfsemi skólarannsóknardeildar menntamálaráðuneytisins 1967–1978. Reykjavík: Menntamálaráðuneytið.

Ólafur Rastrick. (2008). Nýjar skyldunámsgreinar. Í Loftur Guttormsson (ritstj.), Almenningsfræðsla á Íslandi 1880–2007. Fyrra bindi. Skólahald í bæ og sveit 1880–1945 (bls. 196–209). Reykjavík: Háskólaútgáfan.

Reykjavíkurborg. (2007). Stefna Reykjavíkurborgar í menntamálum 2007: 10 ára framtíðarsýn. Reykjavík: Reykjavíkurborg.

Rúnar Sigþórsson og Rósa Eggertsdóttir. (2008). Skólaþróun og skólamenning. Í Loftur Guttormsson (ritstj.), Almenningsfræðsla á Íslandi 1880–2007. Síðara bindi. Skóli fyrir alla 1946–2007. Reykjavík: Háskólaútgáfan.

Stjórnartíðindi B (nr. 154/1991). Auglýsing um fjölda kennslustunda í 1.–10. bekk grunnskóla og skiptingu þeirra milli námsgreina. Reykjavík: Stjórnarráð Íslands.

Stjórnartíðindi B (nr. 173/1979). Auglýsing um skiptingu kennslustunda milli námsgreina í 1.–9. bekk grunnskóla. Reykjavík: Stjórnarráð Íslands.

Stjórnartíðindi B (nr. 184/1977). Auglýsing um skiptingu kennslustunda milli námsgreina í 1.–9. bekk grunnskóla skólaárið 1977–1978. Reykjavík: Stjórnarráð Íslands.

Stjórnartíðindi B (nr. 212/1984). Auglýsing um skiptingu kennslustunda milli námsgreina í 1.–9. bekk grunnskóla. Reykjavík: Stjórnarráð Íslands.

Trageton, A. (1980). Barns skarande leik 2–7 år. Stord: Stord Lærarhøgskole.

Trageton, A. (1992). Verkstadpedagogikk 6–10 år. Stord: Stord Lærarhøgskole.

Trageton, A. (1997). Leik med materiale, konstruksjonsleik 1\7 år. Bergen: Fagbokforlaget.

Wolfgang Edelstein. (1988). Skóli – nám – samfélag. Reykjavík: Iðunn.

Prentútgáfa     Viðbrögð