Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun

Menntavísindasvið Háskóla Íslands
 

Ritrýnd grein birt 15. desember 2009

Greinar 2009

Amalía Björnsdóttir, Baldur Kristjánsson og Börkur Hansen

Tíminn eftir skólann skiptir líka máli

Um tómstundir og frítíma nemenda
í 1., 3., 6. og 9. bekk grunnskóla

Í greininni er fjallað um tómstundaiðkun og frístundir barna í 1., 3., 6. og 9. bekk grunnskóla. Gagna var aflað með spurningalista sem lagður var fyrir nemendur og foreldra þeirra skólaárið 2007–2008. Alls svöruðu 1.002 nemendur og 1.066 foreldrar spurningalistunum. Meirihluti barnanna tók þátt í skipulögðum tómstundum og mikill meirihluti foreldra taldi mikilvægt að börn þeirra tækju þátt í slíku starfi. Ekki var munur á íþróttaiðkun eftir kyni en stúlkur voru líklegri til að vera í listnámi. Í frístundum sínum horfðu drengir meira á sjónvarp en stúlkur í öllum bekkjum nema 3. bekk. Tengsl fundust milli sjónvarpsáhorfs og menntunar; lengri menntun foreldra tengdist minna áhorfi hjá börnum og því að þau voru síður með sjónvarp í eigin herbergi. Í 1. og 3. bekk voru drengir líklegri en stúlkur til að vera með sjónvarp í eigin herbergi, t.d. voru 40% drengja í 1. bekk með sjónvarp í eigin herbergi en 17% stúlkna. Tölvunotkun var talsverð og var hún meiri hjá piltum en stúlkum. Tölvueign var ekki tengd menntun foreldra en hún jókst talsvert eftir því sem leið á skólagönguna. Stórnotendur tölvu voru flestir meðal drengja í 9. bekk þar sem 11% notuðu tölvu sjö klukkustundir á dag eða lengur. Talsvert algengt var að nemendur ynnu með námi í 9. bekk eða 26% nemenda.

Amalía Björnsdóttir er dósent í aðferðafræði, Baldur Kristjánsson er dósent í sálfræði og Börkur Hansen prófessor í stjórnunarfræði. Höfundar starfa allir við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Extracurricular Activities of Basic School Children in Iceland

Extracurricular activities and use of spare time play a significant role in the development and motivation of school children (Feldman and Matjasko, 2005). The purpose of this paper is to document the findings of a study conducted in Grades 1, 3, 6 and 9 in eight Basic Schools (age: 6–16) in Iceland. Data was collected during the school year of 2007–2008 by questionnaires to students and their parents. 1.002 students and 1.066 parents answered the questionnaires. The findings suggest that parents prefer that their children participate in organized extracurricular activities. They also claim that the majority of their children engage in such activities. Participation in sports was independent of gender, but more girls participated in arts. In their spare time, boys watched TV more than girls in all grades, except in Grade 3. Significant relationship was found between the educational level of parents and how much time their children spent watching TV; i.e. longer education was negatively correlated with their children’s TV watching. Furthermore, the children of more educated parents were less likely to have a TV in their bedroom. In Grades 1 and 3, boys were much more likely than girls to have a TV in their bedroom. Thus, 40% of the boys in Grade 1 had TV in the bedroom but 17% of the girls. Children in all grades used computers to a great extent, but boys more than girls. The ownership of computers increased with student age irrespective of their parents’ education. Great users of computers were mostly boys in Grade 9; 11% of them used computes 7 hours or more per day. An additional finding was that 26% of students in Grade 9 worked part-time along with their studies.

Amalía Björnsdóttir is associate professor in research methodology, Baldur Kristjánsson is associate professor in psychology and Börkur Hansen is professor in school administration. The authors are all with The School of Education, University of Iceland.

Inngangur

Skólanum sem stofnun er ætlað það hlutverk að stuðla að því að sem flest börn og ungmenni verði að hæfum fullorðnum einstaklingum, færum um að takast á við þau verkefni sem þátttaka í samfélagi krefst af þeim. Skólinn er þó langt í frá eini áhrifavaldurinn í daglegu lífi nemenda. Næg vísbending í því efni er að vikulegur tími nemenda í skólanum er langtum skemmri en sá tími sem þeir eiga aflögu til annarra athafna og ekki er sjálfgefið að reynsluheimur nemenda utan skólans falli vel að hlutverki hans. Upplýsingar um tómstundaiðkun og frístundir barna og unglinga varpa ljósi á hvað þau taka sér fyrir hendur en margar rannsóknir benda á mikilvægi markvissrar notkunar þess tíma fyrir þroska og velgengni nemenda í námi og starfi (sjá t.a.m. samantekt Feldman og Matjasko, 2005).

Í þessari grein er fjallað um venjur og athafnir nemenda í 1., 3., 6. og 9. bekk utan skólatíma og á hvern hátt þær eru breytilegar eftir aldri, skóla, kyni og félagslegri stöðu sem metin er út frá menntun foreldra. Þau rannsóknargögn sem stuðst verður við eru úr rannsókninni Námsáhugi og námsumhverfi nemenda (Amalía Björnsdóttir, Baldur Kristjánsson og Börkur Hansen, 2008).

Umfjöllunin afmarkast einkum við tvenns konar athafnir, þ.e. tómstundir, sem hér ber að skilja sem þátttöku í tómstundastarfi, íþróttum eða listum sem skipulagðar eru á vegum félaga eða samtaka utan skólatíma. Hins vegar eru frístundir, sem hér merkja afþreyingu sem börn eða unglingar stunda utan skólatíma, eins og að horfa á sjónvarp eða vera í tölvunni. Enn fremur verður fjallað um atvinnuþátttöku nemenda í 9. bekk en kannanir meðal unglinga benda til að það sé talsvert algengt að þeir noti hluta af tíma sínum utan skólans til að stunda launaða vinnu (Álfgeir Logi Kristjánsson, Inga Dóra Sigfúsdóttir og Jón Sigfússon, 2006).

Fræðilegur bakgrunnur

Það eru margir aðilar og margs konar reynsla sem móta líf og framtíðaráform barna og unglinga. Fyrsti áhrifavaldurinn í þessum efnum er alla jafna fjölskyldan þar sem börnin tileinka sér, á grundvelli daglegra samskipta við foreldra og systkini, þau viðhorf og það gildismat sem samfélagsleg þátttaka leggur þeim á herðar. Rannsóknir sýna enn fremur að foreldrar gegna afgerandi hlutverki í að skapa viðhorf barnsins til skólagöngu og til menntunar almennt, og jafnframt að þessi foreldraáhrif byrja strax á forskólaaldri (Boyer, 1991). Það gera foreldrarnir t.d. með því að vera almennt virkir í samskiptum sínum við börnin; með því að vekja athygli þeirra og forvitni um hvers kyns hluti í hversdagslífi þeirra; með því að svara ágengum spurningum sem þau kunna að spyrja og síðast en ekki síst með því að kenna þeim að meta hið ritaða orð, þ.e. lesa fyrir þau (Berns, 2009). Við upphaf formlegrar skólagöngu barnsins þarf skólinn svo að útvíkka og byggja áfram á þeim undirbúningi til náms sem barnið hefur fengið heiman að frá sér og úr leikskólanum.

Samkvæmt McLeod og Yates (2006) er það ekki bara skólaumhverfið og reynsla og athafnir nemandans þar sem móta hann sem einstakling og sýn hans á sjálfan sig, viðhorf og framtíðaráform, heldur einnig það sem hann gerir utan skólans, þ.e. að loknum skóladegi eða um helgar.

Í þessari grein verður aðallega fjallað um þrenns konar skiptingu á tíma nemenda utan skólans, þ.e. í fyrsta lagi þær frístundir sem nemendur eiga; í öðru lagi tómstundir og í þriðja lagi launaða vinnu nemenda í efstu bekkjum grunnskólans.

Hvað frítímann áhrærir þá er hann tiltölulega frjáls. Hann er m.ö.o. sá tími þar sem nemendur hafa svigrúm til að leika sér eða gera nokkurn veginn það sem hugurinn girnist án teljandi eftirlits eða afskipta af hálfu hinna fullorðnu, þó yfirleitt setji þeir einhver mörk um t.d. tíma, hvað sé leyfilegt og hvað aðgengilegt. Foreldrar geta t.d. sett tímamörk á tölvunotkun, lokað fyrir ákveðnar vefsíður og haft nokkra stjórn á því hvaða leikir eru aðgengilegir fyrir börnin. Tómstundum er aftur á móti frekar stýrt af hinum fullorðnu auk þess sem oft eru gerðar kröfur til barnanna um afköst, lágmarksárangur eða um að þau einbeiti sér að verkefnum, líkt og tíðkast í skólastofunni. Sem dæmi um tómstundir má nefna iðkun alls kyns íþrótta eða listnám. Frá þessum sjónarhóli eru frístundir andstæða tímans í skólanum, þ.e. utan frímínútna, og þess starfs sem þar fer fram. Tómstundirnar eru þar mitt á milli.

Í þriðja lagi verður hér fjallað um launaða vinnu nemenda utan skólans sem ætla má að flestir í efstu bekkjum grunnskólans stundi. Þessi tegund tímanotkunar verður ekki staðsett á sama hátt og gert var hér að ofan með frístundir eða tómstundir m.t.t. kennslustunda grunnskólans. Aftur á móti er ástæða til að ætla að launuð vinna nemenda utan skólans samræmist ekki vel náminu.

Það er auðvelt að sýna fram á að sá frjálsi tími sem börn og unglingar hafa til eigin afnota hefur styst verulega á síðustu árum og áratugum. Í fyrsta lagi hefur skóladagurinn lengst, sérstaklega fyrir þá nemendur sem eru í skóladagvist. Í öðru lagi hefur skólaárið verið lengt um nokkrar vikur. Og að lokum hefur skólaskylda nýlega verið lengd um eitt ár.

Þess má geta að þessi þróun virðist ekki einskorðast við grunnskólanemendur; árið 2006 voru 97,5% allra fimm ára barna innrituð í leikskóla og skráður daglegur dvalartími fyrir 76% barnanna var átta klst. eða lengur. Samsvarandi tölur árið 1998 voru 88% og 40% (Hagstofa Íslands, 2009).

Af framansögðu leiðir að frístundir barna og unglinga eru aðklemmdari en verið hefur og því má ætla að helgarnar, hinir eiginlegu frídagar, hafi öðlast aukið vægi. Önnur líkleg afleiðing þess hve skipulagðir dagar margra nemenda eru er að frístundir nemenda hafa breyst frá því að vera virkur og skapandi tími, t.d. til leikja, í að vera afþreyingar- og hvíldartími.

Listir og íþróttir

Samkvæmt því sem áður hefur verið nefnt hefur umhverfi nemenda innan sem utan skóla mikið að segja fyrir börn og unglinga. Feldman og Matjasko (2005) benda á, í yfirgripsmikilli samantekt á rannsóknum á áhrifum tómstunda á nemendur, að þau viðfangsefni sem nemendur taka sér fyrir hendur tengist því félagslega umhverfi sem þeir koma úr. Þær segja talsverða flóru rannsókna til um þessi tengsl en merkilega lítið sé til af rannsóknum um hlutverk tómstunda í félagsmótun barna og unglinga. Telja þær vandann m.a. liggja í því hve erfitt sé að einangra þá þætti sem þar hafa áhrif, s.s. skólann, félagahópinn, fjölskyldugerðina, skólaumhverfið, o.s.frv., en áhrif þeirra geti skarast og fléttast saman. Aftur á móti sé talsvert til af rannsóknum um hlutdeild barna og unglinga í tómstundastörfum ýmiss konar. Segja þær að rannsóknir bendi til að um 75% fjórtán ára bandarískra unglinga taki þátt í formlegu skipulögðu starfi utan skólatíma. Þá benda Feldman og Matjasko (2005) á að um 25% framhaldsskólanemenda séu í námsmannafélögum (e. academic clubs), 43% í íþróttum, 8% í áhangendahópum í tengslum við íþróttir, 19% í skólatengdri blaðamennsku, 28% í tón- og leiklistarstarfsemi og 18% í ýmiss konar öðru félagastarfi.

Feldman og Matjasko (2005) segja rannsóknir sýna að þátttaka stúlkna sé almennt meiri en drengja í tómstundum. Undantekning sé þó íþróttir en drengir stundi þær í meiri mæli en stúlkur. Þær segja aftur á móti engar rannsóknir tiltækar er sýni hvernig tómstundaiðkun breytist eftir aldri, kyni og kynþætti. Á hinn bóginn séu til fjölmargar rannsóknir sem sýna breytingar á námsárangri, félagslegri hegðun og á ýmiss konar sálfræðilegum þáttum eftir aldri, kyni og kynþætti. Niðurstaða samantektar þeirra undirstrikar að þátttaka barna og unglinga í margs konar tómstundum hefur jákvæð áhrif á viðhorf þeirra til náms og námsárangurs.

Þær stöllur Feldman og Matjasko (2005) telja að tómstundaiðkun stuðli að myndun tengslaneta sem geti komið sér vel síðar meir og örvi jafnframt félagslegan þroska; iðkendurnir kynnist innbyrðis, læri að taka tilliti til annarra, myndi traust og byggi upp vináttutengsl sem geta haldist út ævina. Þátttaka í tómstundastörfum sé m.ö.o. mikilvægur liður í mótun viðhorfa barna og unglinga og leggi drög að gildismati þeirra og sýn á samfélagslegt hlutverk sitt.

Vincent og Ball (2007) benda á að vitund um mikilvægi hvers kyns tómstunda og íþróttaiðkunar fyrir hegðun og þroska barna sé útbreidd meðal foreldra og hafi mótandi áhrif á viðhorf þeirra og uppeldishætti. Enn fremur fullyrða þau að foreldrar almennt telji þátttöku barna sinna í skipulögðum tómstundum ýta undir miðstéttargildi (e. middle class values) hjá þeim. Þau telja að með heimsóknum á söfn, ferðum á tónleika, myndlistasýningar o.fl. (e. enrichment activities) myndi börnin sér skoðanir á hvers konar gildi skipti meira máli í lífinu en önnur.

Hér á landi hafa verið gerðar margar kannanir á þátttöku barna og unglinga í margvíslegu tómstundastarfi. Inga Dóra Sigfúsdóttir og Bryndís Björk Ásgeirsdóttir (2004) benda á að í könnun meðal nemenda í 9. og 10. bekk árið 2000 hafi komið í ljós að 17% voru í tónlistarnámi einu sinni í viku eða oftar. Mikill munur var milli kynjanna; 21% stúlknanna lagði stund á tónlistarnám en aðeins 12% drengjanna. Segja þær niðurstöðurnar svipaðar og í sambærilegri könnun frá 1997. Þær fundu fylgni milli tónlistariðkunar og jákvæðs námsárangur, þ.e. eftir að búið var að taka tillit til menntunar foreldra. Einnig fundu þær tengsl milli tónlistariðkunar og þess að nemendum fyndist skólanámið skipta máli, að þeir kæmu vel undirbúnir í skólann og að þeim fyndist þeir leggja næga rækt við skólanámið. Þær telja því að tónlistarnám hafi mikið gildi fyrir unglinga en benda jafnframt á að ýmsir aðrir þættir í umhverfi unglinganna hafi þar einnig áhrif.

Í skýrslunni Ungt fólk 2007 – Grunnskólanemar: Niðurstöður rannsókna meðal nemenda í 5., 6. og 7. bekk er að finna nýlegar upplýsingar um tómstundir svo sem íþróttaiðkun o.fl. (Margrét Lilja Guðmundsdóttir, Álfgeir Logi Kristjánsson, Inga Dóra Sigfúsdóttir og Jón Sigfússon, 2007). Fram kemur að algengt er að nemendur í þessum árgöngum iðki íþróttir utan skólatíma. Í 5., 6. og 7. bekk segjast 35–40% nemenda stunda íþróttir einu sinni til þrisvar í viku og á bilinu 24–38% segjast stunda íþróttir (æfa eða keppa) með íþróttafélagi a.m.k. fjórum sinnum í viku. Þá kemur fram að flestir sem hætta íþróttaiðkun segjast hafa misst áhugann.

Í framangreindri skýrslu er einnig tilgreint að um helmingur nemenda í fyrrnefndum árgöngum tekur þátt í tómstundum á vegum skóla sinna. Algengast er að þeir taki þátt í félags- og tómstundastarfi í félagsmiðstöðvum eða 18–23% nemenda. Þá er þátttaka talsverð á öðrum sviðum og vekur athygli að 23–26% stelpna eru í dansi einu sinni í viku eða oftar en hlutfall drengja er 3–4%. Þá segir í skýrslunni að um og yfir 33% nemenda í 5., 6. og 7. bekk stundi nám í tónlist eða söng sem nemur einu til þremur skiptum í viku.

Sjónvarpsnotkun

Að mati fjölmargra rannsakenda hefur sjónvarpsmiðillinn lengi vel verið álitinn einn allra mikilvægasti mótunarþátturinn í daglegu lífi barna (Shin, 2004). Sjónvarpið stýrir svefnvenjum barna og unglinga og hefur áhrif á hvernig þeir ráðstafa frítíma sínum, jafnframt því sem samskiptamynstrið í fjölskyldum þeirra hefur breyst (Andreasen, 2001). Í mörgum barnafjölskyldum gegnir tímasetning sjónvarpsdagskrárliða hlutverki klukkunnar; hvenær t.d. kvöldmáltíðin getur hafist og hvenær henni verður að vera lokið. Í norrænni rannsókn á högum og aðbúnaði fimm ára barna frá níunda áratug síðustu aldar kom m.a. fram að dagskrárliðir virka oft líkt og eins konar „tímaverðir“ á börnin, t.d. um hvenær er mál að fara í háttinn (Baldur Kristjánsson, 2001). Í sömu rannsókn kom einnig fram að íslensku börnin höfðu frjálsari aðgang að sjónvarpi en jafnaldrar þeirra á hinum Norðurlöndunum og horfðu oftar ein á sjónvarpið, þ.e. án nærveru foreldra, auk þess sem þau horfðu oftar á efni sem ekki var ætlað ungum börnum (Baldur Kristjánsson, 1990).

Því hefur verið haldið fram að börn verji meiri tíma í að horfa á sjónvarp en til nokkurrar annarrar iðju, að svefni frátöldum (Singer og Singer, 1983). Líklegt er að eitthvað hafi dregið úr sjónvarpsnotkun síðari árin með tilkomu nýrra skjámiðla og afþreyingartækja á borð við vídeó og DVD-tæki, leikjatölvur og venjulegar tölvur. Allt bendir þó til að samanlagður tími barna fyrir framan skjámiðil af einhverju tagi hafi aukist.

Í skýrslunni Ungt fólk 2007 – Grunnskólanemar voru nemendur í 5., 6. og 7. bekk m.a. spurðir hversu miklum tíma þeir verðu að jafnaði til að horfa á sjónvarp/vídeó/DVD dag hvern. Um eða yfir helmingur allra sagðist verja til þess á bilinu hálfri til einni klukkustund. Í 5. bekk var talsverður munur á áhorfi eftir kynjum, þ.e. drengir horfðu meira en stúlkur. Þessi kynjamunur var horfinn í 7. bekk, en í þeim árgangi hafði áhorf aukist bæði hjá piltum og stúlkum, þar sem 48% drengjanna á móti 45% stúlknanna sögðust horfa tvær klukkustundir eða lengur á sjónvarpið á dag (Margrét Lilja Guðmundsdóttir o.fl., 2007).

Úr framangreindum gögnum má lesa að drengirnir virðast fyrri til en stúlkurnar að nýta sér sjónvarpið og myndmiðla til afþreyingar en þær hafa náð þeim í 7. bekk. Þá er ljóst að sjónvarps- og myndmiðlanotkun er umtalsverð, sérstaklega í 7. bekk. Áhorf hér á landi virðist þó ekki komast nálægt því sem er hjá börnum og unglingum í Bandaríkjunum sem er talið vera á bilinu þrjár til fimm klukkustundir dag hvern (Comstock og Sharrer, 2001).

Roberts og Foehr (2004) benda á að rannsóknir dragi fram mun á sjónvarpsáhorfi eftir samfélagsstöðu, þ.e. að börn sem búa við fátækt og eiga foreldra með litla menntun horfi meira en börn sem lifa við betri aðbúnað. Vísbendingar í sömu átt er að finna í rannsókn Baldurs Kristjánssonar (1990) þar sem fram kom m.a. mikill munur á áhorfi fimm ára barna á morgunsjónvarp eftir menntun mæðra þeirra.

Samkvæmt skýrslunni Ungt fólk 2007 – Grunnskólanemar átti meirihluti drengja í 5., 6. og 7. bekk eigið sjónvarp sem þeir hafa væntanlega í herbergi sínu. Af drengjum í 5. bekk áttu 60% sjónvarp en 75% í 7. bekk. Hlutfall þeirra sem áttu eigið DVD- eða vídeótæki var öllu lægra; 45% í 5. bekk en 60% í 7. bekk (Margrét Lilja Guðmundsdóttir o.fl., 2007). Líklegt má telja að í hópi þeirra sem eiga báðar gerðir tækja sé að finna fleiri „stórneytendur“ myndræns afþreyingarefnis en meðal þeirra sem eiga aðeins sjónvarp. Vert er að benda á að leikjatölvur eru ekki inni í þessum útreikningum.

Mun minna var um að stúlkurnar í sömu rannsókn ættu sjálfar sjónvarp þótt litlu munaði á þeim og drengjunum þegar í 7. bekk var komið (Margrét Lilja Guðmundsdóttir o.fl., 2007). Það liggur í hlutarins eðli að þessi einkaumráð yfir sjónvarpi ýta undir sjónvarpsnotkun enda geta börnin/unglingarnir þá frekar horft ein og óáreitt á það sem þau langar til. Einnig má telja víst að þessi sjónvarpsnotkun hafi áhrif á svefntíma barna. Ísraelsk rannsókn á nemendum á svipuðum aldri styður þá ályktun en samkvæmt henni sváfu nemendur sem höfðu sjónvarp hjá sér í svefnherberginu að jafnaði því sem næst hálfri klukkustund skemur en aðrir jafnaldrar þeirra (University of Haifa, 2008). Leiða má að því líkur að svefnskerðingin ein og sér bitni á náminu vegna aukinnar þreytu auk sem þessar þrjátíu mínútur eru líklega að einhverju leyti teknar frá heimanáminu.

Tengsl sjónvarpsáhorfs barna og vitræns þroska hafa verið mikið rannsökuð en án þess að tekist hafi svo einhlítt sé að sýna fram á skaðsemi þess eða hið gagnstæða (Shin, 2004), enda spannar það sjónvarpsefni sem börn og unglingar horfa á margar víddir, svo sem afþreyingarefni af ýmsu tagi og hvers kyns fræðandi efni. Annað sem torveldar einhlít svör um þetta er að erfitt er að aðskilja sjónvarpsáhorfið frá öðrum þáttum í umhverfi barnsins. Metnaðarfullir foreldrar eru t.d. líklegri til að vilja sjá til þess að börnin þeirra horfi á vandað og fræðandi sjónvarpsefni en foreldrar sem eru ekki eins meðvitaðir um mikilvægi uppbyggilegrar örvunar fyrir þroska barna. Rannsóknir sýna að raunveruleikatengt og fræðandi sjónvarpsefni fyrir börn stuðlar að aukinni þekkingu og styrkir bæði mál- og félagsþroska hjá ungum börnum (Van Evra, 2004).

Miklu máli virðist skipta hve mikið foreldrar fylgjast með eða jafnvel horfa á sjónvarpsefni með börnum sínum. Í því sambandi má benda á nýlega bandaríska rannsókn þar sem borin voru saman áhrif þess að vera með sjónvarp eða tölvu í herberginu sínu (Johns Hopkins, Bloomberg School of Public Health, 2005). Í rannsókninni var hópi 3. bekkinga fylgt eftir í eitt skólaár. Tvisvar á tímabilinu voru börnin prófuð með Stanford Achievement-prófinu í stærðfræði, lestri og málþroska. Niðurstöðurnar voru á þá leið að þeir nemendur sem höfðu eigið sjónvarp til umráða skoruðu lægra á öllum þremur sviðum í samanburði við hina nemendurna. Rannsakendur fundu einnig að þeim nemendum sem fengu eigið sjónvarp til umráða á tímabilinu hrakaði á fyrrnefndum prófum, en nemendum sem sjónvarpið var fjarlægt frá fór fram. Í fjölmiðlarannsókn Þorbjörns Broddasonar frá 2003 voru 66% barna 10 til 15 ára með eigið sjónvarp (Þorbjörn Broddason, 2006) sem er nokkuð hátt hlutfall. Önnur athyglisverð niðurstaða í rannsókn Johns Hopkins, Bloomberg School of Public Health (2005) var að útkoma nemenda sem höfðu tölvu inni á herberginu sínu en ekkert sjónvarp var allt önnur og hagstæðari: Þau börn skoruðu hærra en önnur börn á þeim þremur sviðum sem þau voru prófuð í.

Í rannsókn Shin (2004) á orsakatengslum sjónvarpsnotkunar barna og námsárangurs taldi hún sig geta aðgreint eftirfarandi: Því meiri tíma sem börn á skólaskyldualdri verja í að horfa á sjónvarp þeim mun minni tíma nota þau til heimanáms og lesturs sér til ánægju sem leiðir til lakari námsárangurs; því meiri tíma sem börn verja í að horfa á sjónvarp þeim mun eirðarlausari og hvatvísari verða þau sem síðan dregur úr námsárangri þeirra.

Metnaðarfull langsniðsrannsókn á þessu sviði náði til 570 barna sem í upphafi rannsóknar voru á forskólaaldri. Markmið hennar var að meta áhrif sjónvarpsnotkunar barna til langs tíma (Anderson, Huston, Schmitt, Linebarger og Wright, 2001). Í ljós kom, þegar börnin voru prófuð á unglingsaldri, að þau sem höfðu aðallega horft á fræðsluefni á forskólaárunum komu í veigamiklum atriðum betur út en þau sem höfðu aðallega horft á hvers kyns afþreyingarefni. Börnin í fyrrnefnda hópnum stóðu sig betur í námi og höfðu meiri metnað til að bera; þau lásu meira bækur sér til skemmtunar; þau voru meira skapandi og síður árásarhneigð. Fram kom kynjamunur á þessum þáttum; áhrifin voru meira áberandi hjá drengjum en stúlkum. Aftur á móti var ekki hægt að greina mun á börnunum út frá því hversu mikið þau höfðu horft á sjónvarp hvað framangreind eða önnur atriði varðar.

Ein tegund rannsókna á sjónvarpsáhorfi og þroska byggist með einum eða öðrum hætti á vitþroskakenningu Jean Piaget og/eða upplýsingavinnslukenningum. Rannsóknir af þessum toga hafa leitt í ljós að framan af grunnskólaárunum skortir börn vitsmunalega getu og lífsreynslu til að geta ályktað rétt, þ.e. á sama hátt og fullorðnir gera, um það sem þau sjá á skjánum, svo sem skilið á milli þess sem er raunverulegt og hvað ekki (Huston, Wright, Alvarez, Truglio, Fitch og Piemyat, 1995). Samkvæmt Flavell, Flavell, Green og Korfmacher (1990) hafa börn ekki náð slíkri færni til jafns við fullorðna fyrr en um 12 ára aldur.

Af framansögðu má vera ljóst að börn í yngstu bekkjum grunnskólans, og í einhverjum mæli allt upp í 6. bekk, hafa tilhneigingu til að trúa því sem þau sjá í sjónvarpinu. Þau viðhorf eða ranghugmyndir, sem það getur leitt af sér, geta birst sem hræðsla eða kvíði; geta haft áhrif á hvernig talið er eðlilegt að leysa úr ágreiningi eða koma fram við aðra; geta litað hugmyndir barnanna um samskipti kynjanna og til þess hvað teljist gott eða eðlilegt fjölskyldulíf; og síðast en ekki síst til náms og að hverju skuli stefnt í framtíðinni.

Tölvunotkun

Samfara aukinni tölvu- og netvæðingu samfélagsins alls hefur tölvunotkun barna og unglinga í frístundum aukist mjög mikið og orðið margbreytilegri en áður. Þannig virtust t.d. miklar breytingar verða á tölvunotkun unglinga á árunum 2001–2005 en þá varð blogg og spjall á netinu hluti af venjubundnu lífi þeirra, ekki síst hjá stúlkum (Sólveig Jakobsdóttir, Hrund Gautadóttir og Sigurbjörg Jóhannesdóttir, 2005). Í könnun Capacent frá 2007 meðal tæplega þúsund nemenda í 4.–10. bekk kom fram að algengasta tölvunotkunin fólst í að börnin væru í tölvuleikjum (81%), sendu smáskilaboð (71%) og væru að vinna heimaverkefni (49%) (Capacent, 2007a). Í sömu rannsókn kom einnig fram að mörg börn komast snemma í kynni við netið; tæp 30% sögðust hafa byrjað að nota netið fyrir sjö ára aldur.

Í rannsókn Sólveigar Jakobsdóttur frá 1999 sögðust u.þ.b. 50% stúlkna í 8.–10. bekk nota tölvu heima hjá sér í meira en tvo tíma á viku en um 75% pilta (Sólveig Jakobsdóttir, 1999). Árið 2004 sögðust 78% nemenda í 9. og 10. bekk nota tölvur í meira en tvo tíma á viku (Sólveig Jakobsdóttir, 2006). Árið 2002 var tölvunotkun í skólum svipuð milli kynjanna en algengara var að stúlkur segðust mjög lítið eða ekkert nota tölvuna heima (Sólveig Jakobsdóttir og Torfi Hjartarson, 2003).

Útbreiðsla tölvu- og nettenginga á heimilum virðist samkvæmt fyrrgreindri könnun Capacent (Capacent, 2007a) vera orðin gríðarleg, þannig sögðust 97% nemenda í 4.–7. bekk vera með nettengingu heima hjá sér. Samkvæmt þessu virðist mega fullyrða að tölvan sé orðin jafnmikið þarfaþing á heimilum og allra nauðsynlegustu heimilistæki.

Í annarri könnun Capacent, líka frá 2007 (Capacent, 2007b), sem náði til fullorðinna á aldrinum 34–75 ára, sögðu 93% þeirra sem áttu barn á aldrinum 6–16 ára að barnið notaði netið; meðal þeirra yngstu (6–8 ára) notuðu um 80% netið en 100% barna 15–16 ára. Töldu 59% foreldra að börnin spiluðu tölvuleiki og 31% þeirra að þau sendu smáskilaboð. Í sömu könnun sögðust 88% foreldra hafa mjög eða frekar mikið eftirlit með netnotkun barna sinna og 85% sögðu það sama um sjónvarpsnotkun þeirra. Í könnuninni kom einnig fram að 53% barnanna áttu eigið sjónvarp og 25% eigin tölvu.

Af framansögðu er ljóst að tölvunotkun hefur aukist mikið hjá börnum og ungmennum á síðasta áratug. Í kjölfarið er hugtakið tölvufíkn farið að skjóta upp kollinum, en það táknar að einstaklingur hefur ekki lengur fulla stjórn á tölvunotkun sinni sem er þá farin að trufla daglegt líf hans. Bitnar hún t.d. oft á skólasókn eða svefni unglinga, eða hvorutveggja (Björn Harðarson, 2004).

Tölvufíkn er einkum af tvennum toga; fíkn í tölvuleiki annars vegar og netfíkn hins vegar, þ.e. í að vera með og taka þátt í hvers kyns samskiptum á Internetinu. Þetta tvennt þarf ekki að útiloka hvort annað; margir tölvuleikir eru hópleikir þar sem jafnvel heilu liðin geta leikið saman gegn einu eða fleiri öðrum liðum. Hvað netfíkn varðar sýna rannsóknir að drengjum er hættara við netfíkn en stúlkum (Chou, Condron og Belland, 2005).

Vinna unglinga

Vinna unglinga með námi hér á landi á sér sögulegar rætur í atvinnuháttum þjóðarinnar en þrátt fyrir breytta atvinnuhætti og samfélagsmynstur virðist enn talsvert algengt að börn og unglingar leggi stund á vinnu samhliða námi. Í rannsókninni Ungt fólk 2006. Menntun, menning, tómstundir og íþróttaiðkun ungmenna á Íslandi. Rannsókn meðal nemenda í 9. og 10. bekk grunnskóla vorið 2006 (Álfgeir Logi Kristjánsson, o.fl., 2006) kemur t.a.m. fram að um 36% nemenda í þessum bekkjum virðist stunda vinnu með námi og er það lítil sem engin breyting frá árinu 1997. Aftur á móti virðist vikulegur vinnutími nemenda hafa lengst yfir tímabilið. Þannig hækkaði hlutfall þeirra sem unnu 10–14 klst. á viku úr 4,2% 1997 í 6,6% árið 2006 og þeirra sem unnu 15 klst. eða meira úr 4,4% í 7,7%.

Þegar í framhaldsskóla kemur eykst vinna með námi verulega. Samkvæmt skýrslunni Vinna framhaldsskólanema með námi. Könnun á vinnu framhaldsskólanema á höfuðborgarsvæðinu, gerð 2005 í þremur framhaldsskólum, unnu um 62% framhaldsskólanema með námi (Hannes Í. Ólafsson, Björk Þorgeirsdóttir og Garðar Gíslason, 2006).

Rannsóknir á tengslum milli atvinnuþátttöku unglinga og námsárangurs þeirra eru ekki algengar. Þó eru þrjár viðamiklar bandarískar rannsóknir tiltækar um tengsl atvinnuþátttöku unglinga í 9.–12. bekk (Bachman, Safron, Sy og Schulenberg, 2003; Mortimer, Vuolo, Staff, Wakefield og Xie, 2008; Steinberg, 1996). Samhljóma útkoma úr þessum rannsóknum er að vinnutími umfram tíu klst. á viku tengist margvíslegum neikvæðum þáttum hjá unglingum, svo sem lægri einkunnum, minna heimanámi, aukinni sálrænni vanlíðan og skemmri svefntíma. Á hinn bóginn fundust engin tengsl af þessum toga þegar vinnutími var undir tíu klukkustundum. Hafa ber í huga að framangreindar niðurstöður gefa ekki vísbendingar um orsakatengsl, þannig er ekki hægt að draga þá ályktun að atvinnuþátttaka unglinganna (umfram tíu klst. á viku) hafi slæm áhrif á nám þeirra. Allt eins er líklegt að nemendur sem eru áhugalitlir um nám sækist frekar eftir vinnu með skólanum. Áhugaleysið mætti rekja til mikillar neysluþarfar eða til þess að nám liggi ekki fyrir nemandanum. Engu að síður virðist mega álykta að nemendum sem vinna mikið með skólanum vegni síður vel í námi. Athuga ber einnig í þessu sambandi að vatnaskilin um tíu vinnustundir á viku eru varla náttúrulögmál; fremur til vísbendingar um hve miklar kröfur skólinn gerir til nemandans og hversu mikið eða lítið heimanám hann kemst af með á venjulegum skóladegi (Mortimer, o.fl., 2008).

Samantekt og markmið

Hér að framan er dregin upp mynd af þáttum er móta umhverfi barna og unglinga. Þótt daglegur skólatími þeirra sé langur benda rannsóknir til þess að það sem börn og unglingar gera utan skólatíma skipti miklu máli fyrir þroska þeirra, nám og störf. Erfitt er að meta bein áhrif mismunandi þátta á nemendur en fyrirliggjandi rannsóknir benda jafnan á hlutdeild barna og unglinga í tómstunda- og frítímastörfum ýmiss konar. Þær vísbendingar sem fyrir liggja benda til þess að þátttaka í íþróttum og listum og vinna með námi skipti miklu máli fyrir nám, sem og sjónvarps- og tölvunotkun. Það er því áhugavert að kanna þessi atriði meðal barna og unglinga hér á landi og leita svara við eftirfarandi spurningum:

  • Hver er þátttaka nemenda í tómstundum, íþróttum og listnámi? Hvert er mat foreldra barna á gildi þess að börn þeirra taki þátt í þessum verkefnum?

  • Hversu mikið horfa börn og unglingar á sjónvarp og hvernig er tölvunotkun þeirra háttað?

  • Hversu mikið vinna eldri nemendur grunnskóla með námi?

Aðferð

Þátttakendur: Haustið 2007 voru spurningalistar lagðir fyrir nemendur og foreldra í 1., 3., 6. og 9. bekk í átta grunnskólum til að kanna námsáhuga og námsumhverfi nemenda. Valdir voru heildstæðir skólar, þ.e. með 1.–10. bekk, sem höfðu starfað í að minnsta kosti tíu ár og mátti skoða sem fulltrúa skóla á ólíkum svæðum. Skólar voru valdir með hentugleikaúrtaki. Tveir skólanna eru í Reykjavík, tveir á höfuðborgarsvæðinu utan Reykjavíkur, tveir í stærri kaupstöðum, einn í sjávarþorpi og einn í sveitahéraði. Í töflu 1 eru upplýsingar um þátttöku nemenda og foreldra, flokkaðar eftir bekkjum.

Tafla 1
Hlutfall og fjöldi nemenda og foreldra sem
tóku þátt í rannsókninni, flokkað eftir bekkjum
 

Úrtak

Svöruðu

Hlutfall

Úrtak

Svöruðu

Hlutfall
1. bekkur

275

213 77,5 275 230 83,6
3. bekkur 324 253 78,1 324 269 83,0
6. bekkur 344 271 78,8 344 297 86,3
9. bekkur 367 265 72,2 367 270 73,6
  1310 1002 76,5 1310 1066 81,4


Eins og sést á töflunni voru 1.310 nemendur valdir til þátttöku og svöruðu 1.002. Af þeim sem svöruðu voru 51% stúlkur og 49% drengir. Tæp 77% nemenda tóku þátt í rannsókninni en hlutfall foreldra er nokkuð hærra, eða um 81%. Í 72% tilfella svöruðu mæður barnanna spurningalistunum, í 19% tilfella foreldrar saman, í 8% tilfella feður og í 0,5% tilfella aðrir forráðamenn.

Munur á svarhlutfalli barna og foreldra skýrist einkum af því að í nokkrum tilvikum voru nemendur veikir eða forfallaðir af öðrum ástæðum þegar gagnasöfnunin fór fram og tóku þá ekki þátt í könnuninni þó að foreldrar hefðu svarað og veitt skriflegt leyfi fyrir þátttöku barna sinna. Annað atriði sem skýrir brottfall nemenda er að sumir þeirra sem skráðir voru í bekkina sem lentu í úrtakinu gátu ekki tekið þátt í könnuninni vegna fötlunar.

Mælitæki. Spurningalistarnir sem voru lagðir fyrir nemendur og foreldra voru samdir af rannsakendum með hliðsjón af nokkrum erlendum spurningalistum. Engir heildstæðir spurningalistar fundust sem hægt var að nota fyrir alla þá hópa sem könnunin tók til. Í spurningalistunum var spurt um þætti sem tengdust félagslegum bakgrunni nemenda, viðhorfum til skólans og námsins og daglegum högum.

Spurningalistar til foreldra tóku til upplýsinga um heimilisaðstæður og viðhorfa foreldra til ýmissa atriða í tengslum við nám og kennslu barna sinna, auk atriða sem tengdust tómstundaiðkun og frístundum. Sami spurningalisti var sendur til allra foreldra nemenda í öllum bekkjunum en þó með smávægilegum breytingum á einstaka spurningu eftir því á hvaða aldri börn þeirra voru.

Framkvæmd. Haft var samband við alla þátttökuskólana og gerður við þá samningur um þátttöku í rannsókninni. Þetta var gert til að stuðla að sem mestri þátttöku en umsjónarkennarar í viðkomandi árgöngum voru rannsakendum innan handar við að senda spurningalista heim til foreldra, við að afla skriflegra leyfa frá þeim um þátttöku barna þeirra og að lokum við að ítreka skil á listum. Foreldrar fengu jafnframt upplýsingablað um rannsóknina og framkvæmd hennar og þeim var heitið trúnaði.

Rannsakendur fóru í þátttökuskólana og lögðu spurningalistana fyrir þá nemendur í 3., 6. og 9. bekk sem foreldrar höfðu gefið leyfi fyrir. Rætt var við nemendur, áður en spurningalistar voru lagðir fyrir, um að þeir þyrftu ekki að taka þátt í könnuninni og að farið yrði með allar upplýsingar sem trúnaðarmál. Spurningalistar fyrir alla foreldra voru sendir heim með nemendum og sáu umsjónarkennarar um að innheimta þá. Söfnun upplýsinga frá nemendum í 1. bekk fór öðruvísi fram, en sérstakur starfsmaður aðstoðaði nemendur við að fylla út spurningalista. Gagnasöfnun fór fram í október til desember 2007, nema í einum skólanna þar sem hún fór fram í mars 2008. Unnið var úr spurningalistum í SPSS 17.0.

Niðurstöður

Upplýsinga um tómstundaiðkun og frítíma barnanna var aflað frá foreldrum þeirra en einnig frá börnunum sjálfum í 6. og 9. bekk. Auk þess var aflað upplýsinga um vinnu nemenda í 9. bekk með námi og viðhorf foreldra til slíkrar vinnu. Skoðuð var tækjaeign barnanna; hvort þau væru með eigið sjónvarp, nettengda tölvu og hljómflutningstæki í herbergjum sínum. Einnig var kannað hversu mikinn tíma börnin notuðu við tölvuna og hvort unglingarnir í 9. bekk væru í launaðri vinnu.

Tómstundir – íþróttir og listnám

Mikill meirihluti foreldra taldi mikilvægt að börn þeirra tækju þátt í tómstundastarfi en tæp 92% foreldra voru frekar eða mjög sammála því. Ekki var munur á svörum eftir kyni barnanna (χ2 (5, N=1058)=5,09, p=0,41) eða skóla (χ2 (35, N=1058)=40,36, p=0,25). Aftur á móti skipti menntun foreldra máli (χ2 (4, N=1058)=12,92, p=0,01). Ef bornir eru saman þeir hópar sem voru með minnstu og mestu menntunina kemur í ljós að 85% foreldra sem báðir höfðu einungis lokið grunnskólanámi töldu slíka þátttöku frekar eða mjög mikilvæga en 95% foreldra sem báðir voru með háskólapróf. Aldur barna skipti einnig máli eins og sést á mynd 1 (χ2 (15, N=1058)=25,17, p=0,048). Tengslin milli aldurs og viðhorfa virtust vera á þá leið að foreldrar barna í 3. og 6. bekk töldu tómstundastarf skipta mestu máli en foreldrar barna í 1. bekk lögðu minnsta áherslu á það.

Mynd 1 Mat foreldra á mikilvægi þess að börn þeirra taki þátt í tómstundum, íþróttum eða listnámi.

Foreldrar barna í 1. og 3. bekk voru spurðir út í þann tíma sem börn þeirra verðu í íþróttir, tómstundir eða listnám en börnin sjálf svöruðu sambærilegum spurningum í 6. og 9. bekk. Ef skoðuð eru svör foreldra í töflu 2 sést að þátttaka barna í íþróttum og tómstundum var meiri í 3. bekk en 1. bekk og marktæk tengsl voru milli aldurs og þátttöku (χ2 (3, N=476)=55,01, p=0,001). Tæp 19% barna í 1. bekk tóku ekki þátt í íþróttum eða tómstundum en tæp 12% í 3. bekk. Einnig nota nemendur í 3. bekk meiri tíma í íþróttir og tómstundir, t.d. er tæplega þriðjungur í fjórar klst. á viku eða meira í einhverju slíku, en aðeins 8% nemenda í 1. bekk nota svo mikinn tíma í þess háttar iðju.

Tengsl voru milli aldurs og þátttöku í listnámi (χ2 (3, N=405)=35,41, p=0,001) en af nemendum í 1. bekk voru 30% í listnámi, að sögn foreldra, og 57% barna í 3. bekk. Nemendur í 3. bekk notuðu líka meiri tíma en nemendur í 1. bekk í listnám en tæp 19% þeirra notuðu þrjár klst. á viku eða meira í listnám en tæp 6% 1. bekkinga notuðu svo mikinn tíma.

Tafla 2
Mat foreldra á tíma sem börn þeirra í 1. og 3. bekk vörðu í íþróttir, tómstundastarf og listnám
  Íþróttir og tómstundastarf Listnám
Tími á viku 1. bekkur
N=214
%
3. bekkur
N=262
%
1. bekkur
N=182
%
3. bekkur
N=223
%
Enginn tími 18,7 11,5 69,8 42,6
1–2 klst 36,9 17,6 24,7 38,6
3–4 klst 36,9 38,9 5,5 13,9
4 klst eða meira 7,5 32,1 0 4,9
Alls 100 100 100 100


Skoðað var hvaða bakgrunnsþættir höfðu áhrif á þátttöku í tómstundum og listnámi, sjá yfirlit í töflu 3. Skoðuð er þátttaka en ekki hversu mikill tími fer í þessar tómstundir. Ekki var munur eftir kyni á þátttöku í íþróttum og tómstundastarfi í 1. og 3. bekk, en stúlkur voru líklegri til að vera í listnámi en drengir í báðum þessum hópum. Í 1. bekk voru t.d. 17% drengja í listnámi en 43% stúlkna og í 3. bekk voru 47% drengja og 65% stúlkna í listnámi. Enginn munur fannst eftir skólum eða menntun foreldra nema hvað tengsl fundust milli menntunar móður og listnáms í 3. bekk. Þar voru 38% barna sem áttu móður með grunnskólapróf í listnámi en á bilinu 60–63% ef menntun móður var meiri.

Jákvæð tengsl voru milli viðhorfa, þ.e. hversu mikilvægt foreldrar töldu að börnin tækju þátt í tómstundastarfi, íþróttum og listnámi, og þátttöku barnanna í íþróttum. Tengslin voru sterkari í 3. bekk en 1. bekk. Einnig voru tengsl á milli viðhorfa og þátttöku í listnámi í 3. bekk og eins og áður í þá átt að börn þeirra foreldra sem töldu þátttöku mikilvæga tóku frekar þátt.

Tafla 3
Tengsl bakgrunnsþátta við þátttöku barna í 1. og 3. bekk í íþróttum, tómstundastarfi og listnámi
  Íþróttir og tómstundastarf Listnám
 

1. bekkur

3. bekkur

1. bekkur

3. bekkur

Kynjamunur Nei Nei 2 2
  χ2 (1, N=214)
=0,16, p=0,69
χ2 (1, N=262)=0,13, p=0,71 χ2 (1, N=182)=14,02, p=0,001 χ2 (1, N=223)=7,82, p=0,005
Skóli Nei Nei Nei Nei
  χ2 (7, N=214) =1,45, p=0,98 χ2 (7, N=262) =8,96, p=0,27 χ2 (7, N=182) =4,13, p=0,77 χ2 (7, N=223) =6,79, p=0,45
Menntun móður Nei Nei Nei Já
  χ2 (3, N=211) =4,63, p=0,20 χ2 (3, N=257) =1,87, p=0,60 χ2 (3, N=179) =1,22, p=0,75 χ2 (3, N=218) =8,00, p=0,046
Menntun föður Nei Nei Nei Nei
  χ2 (3, N=200) =4,70, p=0,20 χ2 (3, N=249) =0,90, p=0,83 χ2 (3, N=169) =1,96, p=0,58 χ2 (3, N=212) =4,48, p=0,21
Menntun foreldra1 Nei Nei Nei Nei
  χ2 (1, N=79)
=0,19, p=0,66
χ2 (1, N=87) =0,46, p=0,50 χ2 (1, N=66)
=0,42, p=0,52
χ2 (1, N=73) =1,15, p=0,28
Viðhorf foreldra3 Já Já Nei Já
  rs(214)=0,38, p=0,001 rs(260)=0,41, p=0,001 rs(214)=0,14, p=0,06 rs(260)=0,20, p=0,003


1) Hópar þar sem báðir foreldrar voru með háskólaprófi á móti hópi þar sem báðir foreldrar voru með grunnskólapróf.
2) Stúlkur í meiri mæli en piltar.
3) Reiknuð fylgni milli viðhorfa og hversu mikil þátttakan er.

Upplýsinga um þátttöku barnanna í 6. og 9. bekk í íþróttum og listnámi var aflað frá þeim sjálfum en ekki foreldrum. Niðurstöðurnar má sjá í töflu 4. Munur er á þátttöku eftir bekk bæði í íþróttum (χ2 (4, N=524)=20,76, p=0,001) og listnámi (χ2 (4, N=485)=12,74, p=0,01).

Um 22% nemenda í 9. bekk tóku ekki þátt í íþróttum utan skóla og sama á við um 15% nemenda í 6. bekk. Um 36% barna í 9. bekk vörðu sjö klst. eða fleiri í íþróttir eða skipulagt tómstundastarf en rúmlega 25% barna í 6. bekk notuðu svo mikinn tíma í slíkt. Hlutfallslega færri voru í listnámi í 9. bekk en í 6. bekk og munar um tíu prósentustigum þar á. Sama mynstur kemur fram og í ástundun íþrótta; hópur sem notar mikinn tíma í listnám er stærri í 9. bekk en í 6. bekk.

Tafla 4
Mat barna í 6. og 9. bekk á tíma sem þau vörðu í íþróttir, tómstundastarf og listnám
  Íþróttir og tómstundastarf Listnám
Tími á viku 6. bekkur
N=264
%
9. bekkur
N=260
%
6. bekkur
N=241
%
9. bekkur
N=266
%
Enginn tími 15,2 21,9 58,9 69,3
1–3 klst. 30,3 16,2 33,2 19,7
4–6 klst. 29,2 25,8 6,2 7,8
7–9 klst. 13,6 21,9 1,2 1,6
10 klst. eða meira 11,7 14,2 0,4 1,6
Alls 100 100 100 100


Í töflu 5 má sjá tengsl bakgrunnsþátta við þátttöku í íþróttum og listnámi. Í 6. bekk voru stúlkur frekar í listnámi en piltar; eða 51% stúlkna á móti 30% drengja, en í 9. bekk voru hlutföllin 39 og 23% stúlkunum í vil. Menntun foreldra hefur einhver áhrif en hjá nemendum í 9. bekk voru marktæk tengsl milli listnáms og menntunar föður; 46% nemenda sem áttu föður með háskólapróf voru í listnámi en 19–28% þeirra sem áttu föður með minni menntun. Ef borinn er saman sá hópur 9. bekkinga sem á foreldra sem voru báðir með háskólapróf við þann hóp þar sem báðir foreldrar voru með grunnskólapróf komu fram marktæk tengsl; í fyrri hópnum voru 46% í listnámi en 11% í þeim síðari.

Ekki var munur á þátttöku í íþróttum í 6. bekk eftir skólum en í 9. bekk kemur fram munur; þar taka um 80% barna þátt í íþróttum en í skóla í sjávarþorpi um 45% og um 67% í skóla í úthverfi Reykjavíkur.

Þegar kemur að listnámi var munur eftir skólum bæði í 6. og 9. bekk. Tæpt 41% barna í 6. bekk í þátttökuskólunum stundar listnám en það gera aðeins 17% í skólanum í sjávarþorpi og 25% í skóla í úthverfi Reykjavíkur og skóla í kaupstað. Í 9. bekk stundar um 31% listnám en í sjávarþorpinu enginn og tæp 15% í skólanum í stórum bæ utan Reykjavíkur.

Tafla 5
Tengsl bakgrunnsþátta við þátttöku barna í 6. og 9. bekk
í íþróttum, tómstundastarfi og listnámi
  Íþróttir og tómstundastarf Listnám
 

6. bekkur

9. bekkur

6. bekkur

9. bekkur

Kynjamunur Nei Nei 2 2
  χ2 (1, N=258)=0,04, p=0,84 χ2 (1, N=239)=0,14, p=0,71 χ2 (1, N=234)
=10,7, p=0,001
χ2 (1, N=224)
=6,60, p=0,001
Skóli Nei Já Já Já
  χ2 (7, N=258)=7,03, p=0,43 χ2 (7, N=239)=15,62, p=0,03 χ2 (7, N=234)
=15,81, p=0,03
χ2 (7, N=224)
=14,94, p=0,04
Menntun móður Nei Nei Nei Nei
  χ2 (3, N=253)=7,35, p=0,06 χ2 (3, N=231)=4,99, p=0,17 χ2 (3, N=230)
=2,06, p=0,56
χ2 (3, N=217)
=4,77, p=0,19
Menntun föður Nei Nei Nei Já
  χ2 (3, N=252)=3,50, p=0,32 χ2 (3, N=233)=2,00, p=0,57 χ2 (3, N=230)
=2,41, p=0,49
χ2 (3, N=219)
=9,04, p=0,03
Menntun foreldra1 Já Nei Nei Já
  χ2 (1, N=78)=6,35, p=0,01 χ2 (1, N=68)=0,75, p=0,39 χ2 (1, N=73)
=0,01, p=0,90
χ2 (1, N=63)
=7,13, p=0,01
Viðhorf foreldra3 Já Já Já Já
  rs(257)=0,20, p=0,001 rs(236)=0,35, p=0,001  rs(233)=0,19
p=0,003
rs(222)=0,17,
p=0,01

1) Hópar þar sem báðir foreldrar voru með háskólapróf á móti hópi þar sem báðir foreldrar voru með grunnskólapróf.
2) Stúlkur í meiri mæli en piltar.
3) Reiknuð fylgni milli viðhorfa og hversu mikil þátttakan er.

Ef skoðaðar voru breytingar á þátttöku í íþróttum annars vegar og listnámi hins vegar sést að þátttaka í íþróttum og listnámi er mest á miðstigi, t.d. taka tæp 89% barna í 3. bekk þátt og 85% í 6. bekk. Við upphaf grunnskólans taka 81% þátt og í 9. bekk 78%. Svipað mynstur sást í þátttöku í listnámi en hún náði hámarki í 3. bekk. Þá stunda 57% barna slíkt nám, í 6. bekk er talan komin niður í 41% og við upphaf grunnskólans og í 9. bekk eru um 30% barna í listnámi.

Sjónvarp og tölvur

Í töflu 6 sést hversu mikið börnin horfðu á sjónvarp. Í 1. og 3. bekk er byggt á svörum foreldra en barnanna sjálfra í 6. og 9. bekk. Meirihluti barna í 1. bekk horfði skemur en klukkustund á sjónvarp og 43% barna í 3. bekk falla í sama flokk. Sjónvarpsáhorf eykst með aldrinum og í 9. bekk segjast 45% barnanna horfa tvær klst. eða lengur á sjónvarp. Hafa skal í huga að mat foreldra og barna getur verið mismunandi (sbr. hér að framan).

Tafla 6
Sjónvarpsáhorf barna á dag að mati foreldra í 1. og 3. bekk
en barnanna sjálfra í 6. og 9. bekk
Tími á dag 1. bekkur
N=229
%
3. bekkur
N=267
%
6. bekkur
N=271
%
9. bekkur
N=264
%
Ekkert eða minna
en hálf klst.
13,5 9,3 5,2 5,3
Minna en ein klst. 44,1 33,6 20,7 16,7
1–2 klst. 38,0 45,5 44,3 33,0
2–3 klst. 3,1 9,7 19,2 29,2
3–4 klst. 0,9 1,1 5,9 9,5
4 klst. eða meira 0,4 0,8 4,8 6,4


Talsverð tengsl voru milli ýmissa bakgrunnsþátta og þess hversu mikið börnin horfðu á sjónvarp (sjá töflu 7). Piltar horfa meira á sjónvarp en stúlkur í öllum bekkjum nema 3. bekk. Einnig kom fram munur eftir skólum í 1. og 3. bekk en börn í skóla í sjávarþorpi, úthverfi Reykjavíkur og stórum bæ utan Reykjavíkur horfðu meira á sjónvarp en börn í öðrum skólum. Einnig virðist vera tilhneiging í þá átt að börn foreldra með minni menntun horfi meira á sjónvarp. Ef sérstaklega var skoðað mat nemenda í 6. og 9. bekk sem áttu annaðhvort foreldra sem voru bæði með háskólapróf eða foreldra sem ekki höfðu lokið námi eftir grunnskólapróf þá kemur fram mikill munur. Í 6. bekk horfðu 58% barna sem áttu foreldra með grunnskólapróf á sjónvarp tvær klst. eða lengur á dag en 21% í hópi þeirra sem áttu foreldra með háskólapróf. Í 9. bekk voru sambærilegar tölur 74% og 38%, en einnig í þeim hópi horfa þeir sem eiga foreldra með minni menntun meira á sjónvarp.

Tafla 7
Áhrif bakgrunnsþátta á sjónvarpsáhorf
 

1. bekkur

3.  bekkur

6. bekkur

9. bekkur

Kynjamunur 1 Nei 1 1
 

χ2 (3, N=229)
=13,33, p=0,004

χ2 (3, N=267)
=6,20, p=0,10

 χ2 (4, N=264)
=13,46, p=0,009

χ2 (4, N=242)
=10,91, p=0,02
Skóli 2 2 Nei Nei
  χ2 (21, N=229)=32,87, p=0,04 χ2 (21, N=267)=51,10, p=0,001 χ2 (28, N=264)=24,97, p=0,63 χ2 (28, N=242)=39,94, p=0,07
Menntun móður 3 Nei Nei 4
  χ2 (9, N=213)=17,52, p=0,04 χ2 (9, N=262)=11,16, p=0,2 χ2 (12, N=259)=13,03, p=0,367 χ2 (12, N=234)=41,79, p=0,001
Menntun föður 4 Nei 4 4
 

χ2 (9, N=226)=24,44, p=0,004

χ2 (9, N=254)=11,26, p=0,26

χ2 (12, N=258)=25,91, p=0,011

χ2 (12, N=236)=23,17, p=0,01

1) Piltar í meiri mæli en stúlkur.
2) Börn í skóla í úthverfi Reykjavíkur, sjávarþorpi og stórum bæ utan Reykjavíkur horfa meira.
3) Börn kvenna með iðn- og háskólamenntun horfa minna.
4)
Meiri menntun, minna áhorf.

Í töflu 8 sést hlutfall barna sem voru með sjónvarp inni í eigin herbergi, skoðað eftir kyni og aldri. Í öllum aldurshópum var algengara að piltar væru með eigið sjónvarpstæki en stúlkur. Til að mynda voru 40% pilta í 1. bekk með eigið sjónvarpstæki en 17% stúlkna. Í eldri aldurshópunum munaði þó yfirleitt minna en 10 prósentustigum. Lítið var um að börn í 1. og 3. bekk væru með nettengda tölvu í eigin herbergjum en um helmingur barna í 9. bekk féll í þann flokk.

Tafla 8
Hlutfall barna sem voru með sjónvarp eða nettengda tölvu í eigin herbergi, skoðað eftir aldri og kyni
 

1. bekkur
N=209
%

3. bekkur
N=268
%
6. bekkur
N=296
%
9. bekkur
N=270
%
  Piltar Stúlkur Piltar Stúlkur Piltar Stúlkur Piltar Stúlkur
Sjónvarp 40 17 46 36 57 47 73 62
Tölva 2 3 5 6 22 14 54 50


Ýmsir þættir í bakgrunni barnanna virtust hafa áhrif á það hvort börnin voru með eigið sjónvarp en þessir þættir höfðu ekki áhrif á það að börnin væru með nettengda tölvu. Þannig voru piltar í öllum árgöngum oftar með eigið sjónvarp en stúlkur og var munurinn þeim mun meiri sem börnin voru yngri.

Í sjávarþorpi voru 73% barna í 3. bekk með eigið sjónvarp en hlutfallið fór ekki yfir 45% í öðrum skólum og var lægst 10%. Menntun móður skipti máli í öllum bekkjum nema 9. bekk. Ef móðir hafði lokið grunnskólaprófi eingöngu voru 48% barna í 1. bekk með sjónvarp inni hjá sér en 21% ef hún var með stúdentspróf og 24% ef hún var með háskólapróf.

Tafla 9
Áhrif bakgrunnsþátta á hlutfall barna sem voru með sjónvarp eða nettengda tölvu í eigin herbergi, skoðað eftir aldri og kyni
  Sjónvarp í herbergi Nettengd tölva
  1. b.
3. b.
6. b.
9. b.
1. b.
3. b.
6. b.
9. b.
  Nei Nei Nei Nei Nei Nei
Kynjamunur χ2 (1, N=209)
=11,94, p=0,001
χ2 (1, N=268)
=4,00, p=0,046
χ2 (1, N=296)
=3,80, p=0,051
χ2 (1, N=270)
=1,87, p=0,171
χ2 (1, N=209)
=0,16, p=0,691
χ2 (1, N=268)
=0,042, p=0,838
χ2 (1, N=296)
=2,045, p=0,177
χ2 (1, N=270)
=0,277, p=0,599
  Nei Nei Nei Nei Nei
Skóli χ2 (7, N=209)=10,735, p=0,151 χ2 (7, N=268)=21,39, p=0,003 χ2 (7, N=296)=44,63, p=0,001 χ2 (7, N=270)=23,50, p=0,001 χ2 (7, N=209)=4,11, p=0,767 χ2 (7, N=268)=8,11, p=0,323 χ2 (7, N=296)=1,32, p=0,988 χ2 (7, N=270)=4,63, p=0,705
  Nei Nei Nei Nei Nei
Menntun móður χ2 (3, N=206)=9,621, p=0,022 χ2 (3, N=263)=16,34, p=0,001 χ2 (3, N=291)=14,29, p=0,003 χ2 (3, N=262)=2,49, p=0,478 χ2 (3, N=206)=1,78, p=0,620 χ2 (3, N=263)=2,48, p=0,478 χ2 (3, N=291)=2,17, p=0,539 χ2 (3, N=262)=2,60, p=0,463
  Nei Nei Nei Nei Nei Nei
  χ2 (3, N=193)=10,24, p=0,017 χ2 (3, N=255)=5,57, p=0,134 χ2 (3, N=289)=4,562, p=0,207 χ2 (3, N=262)=9,449, p=0,024 χ2 (3, N=193)=0,85, p=0,837 χ2 (3, N=255)=1,56, p=0,669 χ2 (3, N=289)=6,11, p=0,102 χ2 (3, N=262)=0,89, p=0,829


Foreldrar barna í 1. og 3. bekk voru spurðir um tölvunotkun barna sinna (sjá mynd 2). Marktæk tengsl voru milli aldurs barns og þess hversu mikið foreldrar töldu það nota tölvu (χ2 (3, N=476) =23,47, p=0,001). Í 1. bekk töldu 20% foreldra að börnin notuðu ekki tölvu en tæp 7% töldu svo vera um 3. bekkinga. Um 12% foreldra í 1. bekk töldu börnin verja meira en fjórum klst. á viku í tölvunni. Hliðstætt hlutfall foreldra barna í 3. bekk var 21%.

Ekki var munur á tölvunotkun eftir menntun foreldra eða skóla sem börnin gengu í, en foreldrar mátu að piltar væru mun meira í tölvunni en stúlkur (χ2 (3, N=476) =53,24, p=0,001). Þennan mikla kynjamun má sjá á mynd 2. Í 1. bekk töldu t.d. foreldrar 21% pilta að þeir væru meira en fjórar klst. á viku í tölvunni en sambærileg tala fyrir stúlkur er 1%. Hliðstæðar tölur í 3. bekk voru 38% pilta og 9% stúlkna.

Mynd 2 Mat foreldra á tölvunotkun barna í 1. og 3. bekk eftir kyni.

Upplýsinga um tölvu- og netnotkun barna í 6. og 9. bekk var aflað frá foreldrum og börnunum sjálfum. Foreldrar voru spurðir um daglega netnotkun og má sjá niðurstöður á mynd 3. Ekki var munur á svörum eftir skólum eða menntun foreldra. Aftur á móti var munur eftir bekkjum á mati foreldra. Þeir töldu 9. bekkinga vera meira á netinu (χ2 (5, N=562) =102,43, p=0,001) en 6. bekkinga. Tæp 16% foreldra í 9. bekk töldu börn sín vera fjórar klst. eða lengur á netinu á dag, en í 6. bekk taldi aðeins rúmt 1% foreldra netnotkun barna sinna þetta mikla.

Í 6. og 9. bekk mældist kynjamunur einnig, þ.e. foreldrar drengja töldu þá nota netið meira en foreldrar stúlkna (χ2 (5, N=562) =12,53, p=0,028). Um 12% drengja voru, að sögn foreldra sinna, fjórar klst. eða lengur á netinu en ekki nema tæp 5% stúlkna. Ef þetta er skoðað nánar eftir árgöngum þá töldu 25% foreldra pilta í 9. bekk að þeir verðu daglega fjórum klst. eða meira á netinu en hliðstætt hlutfall fyrir stúlkurnar var 8% (sjá mynd 3).

Mynd 3 Mat foreldra á daglegri netnotkun barna sinna í 6. og 9. bekk eftir kyni.

Nemendur í 6. og 9. bekk voru einnig spurðir um daglega tölvunotkun sína. Um 3,5% þeirra, eða 19 einstaklingar, sögðust nota tölvuna í sjö klst. eða lengur. Af þeim voru 18 piltar; langflestir, eða 15, úr 9. bekk. Þetta þýðir að rúm 11% pilta í 9. bekk falla í hóp stórnotenda tölvunnar en setja má innan við 1% stúlkna í 9. bekk í sama flokk. Svör barnanna í 6. og 9. bekk má sjá á mynd 4. Börn í 6. bekk nota tölvuna minna en börn í 9. bekk (χ2 (5, N=530) =68,11, p=0,001) og einnig voru tengsl milli kyns og tölvunotkunar. Piltar í 6. og 9. bekk notuðu tölvurnar meira að eigin mati (χ2 (5, N=530) =25,17, p=0,001). Ekki fundust tengsl milli tölvunotkunar og menntunar foreldra eða skóla sem börnin ganga í.

Mynd 4 Mat barnanna á daglegri tölvunotkun sinni, skoðað eftir kyni og aldri.

Atvinnuþátttaka

Að lokum var spurt um atvinnuþátttöku nemenda í 9. bekk, það er hvort þeir væru í launaðri vinnu. Tæp 26% stunduðu launaða vinnu með skólanum og var meðalvinnutími á viku 5,5 stundir, þar af sögðust 13% vinna tíu klst. eða lengur. Ekki var munur eftir kyni, skóla eða menntun foreldra. Þó virðist tilhneiging vera í þá átt að stelpur vinni frekar og einnig fleiri tíma á viku.

Umræða

Tómstundir – íþróttir og listnám mikilvæg leið við félagsmótun

Niðurstöðurnar sem hér greinir frá benda til þess að foreldrar telji mikilvægt að börn þeirra taki þátt í skipulögðu tómstundastarfi en 92% foreldra barna sem tóku þátt í þessari rannsókn voru frekar eða mjög sammála þeirri fullyrðingu. Þetta er í samræmi við staðhæfingu Vincent og Ball (2007) að vitneskja um mikilvægi tómstunda og íþróttaiðkunar á hegðun og þroska barna sé útbreidd og hafi mikil áhrif á viðhorf foreldra. Íslenskir foreldrar virðast m.ö.o. hafa tileinkað sér þessi viðhorf en lítill munur er á þeim eftir menntun.

Þátttaka barna í tómstundastarfi, íþróttum og listum var mikil en stór hluti þeirra barna sem tók þátt í rannsókninni varði tíma í slíkt starf utan skólatíma. Um 80% barna í 1. bekk og um 89% í 3. bekk taka þátt í tómstundum og íþróttum, í 6. bekk er þátttakan um 85% nemenda og um 80% í 9. bekk taka þátt í íþróttum utan skólatíma.

Það vekur athygli að 10–20% nemenda í rannsókninni virðast ekki taka þátt í neinum tómstundum eða íþróttum utan skólatíma. Erfitt er að bera niðurstöður þessarar rannsóknar beint saman við aðrar íslenskrar rannsóknir en það veldur áhyggjum ef einhver hópur barna og unglinga fer á mis við þátttöku í starfsemi af því tagi sem hér um ræðir.

Í niðurstöðunum kom fram að þátttaka nemenda í listum var talsverð og virtist hvað mest hjá nemendum í 3. bekk þar sem hún var um 57%. Eftir það fór hún lækkandi; í 6. bekk niður í um 40% og um 30% í 9. bekk. Niðurstöðurnar sýna einnig að þátttaka í listum er meiri hjá stúlkum en drengjum. Miðað við niðurstöður Ingu Dóru Sigfúsdóttur og Bryndísar Bjarkar Ásgeirsdóttur (2004) um þátttöku barna í listnámi um aldamótin virðast hlutfallslega fleiri börn hafa stundað listnám í þessari rannsókn en gerðu þá, þótt haft skuli í huga að aldurshóparnir voru ögn ólíkir. Feldman og Matjasko (2005) og Inga Dóra og Bryndís Björk (2004) telja þátttöku stúlkna almennt meiri en pilta í tómstundum sem er í samræmi við niðurstöðu þessarar rannsóknar því í öllum aldurshópunum eru stúlkur frekar í listnámi en piltar.

Niðurstöður þessarar rannsóknar sýna að stúlkur og piltar virðast taka svipaðan þátt í íþróttum og öðrum tómstundum. Þetta samræmist ekki alls kostar niðurstöðum Feldman og Matjasko (2005) um að þátttaka stúlkna sé almennt meiri en drengja á þessum sviðum, að frátöldum íþróttum. Einnig virtist almenn þátttaka í íþróttum vera meiri en niðurstöður Margrétar Lilju Guðmundsdóttur o.fl. (2007) gáfu til kynna en hafa skal í huga að í þessari rannsókn var spurt um þátttöku í íþróttum og skipulögðu tómstundastarfi í 1. og 3. bekk í sömu spurningu.

Mikil áhersla foreldra á þátttöku barna þeirra í íþróttum, tómstundum og listnámi skýrist líklega að verulegu leyti af því að þeir telja, svipað og McLeod og Yates (2006), að umhverfi barna utan skólans gegni einnig mikilvægu hlutverki í þroska þeirra. Almennt má segja að niðurstöður þessarar rannsóknar bendi til að þátttaka barna í tómstundum og íþróttum sé mikil og óháð félagslegri stöðu þeirra, þ.e. millistéttarviðhorf foreldra virðast ríkjandi um gildi íþrótta, tómstunda og listnáms við félagsmótun barna og unglinga.

Áhorf nemenda á sjónvarpsefni

Rannsóknin leiddi í ljós að sjónvarpsáhorf var snar þáttur í lífi langflestra barnanna og jókst með aldrinum. Þetta þarf ekki að koma á óvart því Shin (2004) hefur bent á sjónvarpið sem einn af mikilvægustu mótunarþáttum í daglegu lífi barna og samkvæmt Singer og Singer (1983) verja börn meiri tíma í að horfa á sjónvarp en til nokkurrar annarrar iðju, að svefni frátöldum. Þannig horfðu 42% nemenda í 1. bekk daglega á sjónvarp í eina klst. eða lengur en 57% 3. bekkinga. Í 6. og 9. bekk voru samsvarandi hlutföll 72% og 74%. Munurinn á 6. og 9. bekkingum var þó talsvert meiri en þessar tölur gefa vísbendingar um, 45% 9. bekkinga sögðust horfa a.m.k. tvær klst. á dag en ekki nema 30% 6. bekkinga. Meðal nemenda í þessum tveimur bekkjardeildum var einnig að finna einstaklinga sem horfðu mikið á sjónvarp, þannig sögðust 5% nemenda í 6. bekk horfa að jafnaði fjórar klst. á sjónvarp daglega en 6,5% nemenda í 9. bekk.

Rétt er að vekja athygli á að framangreindar upplýsingar um sjónvarpsnotkun 1. og 3. bekkinga eru frá foreldum komnar en í 6. og 9. bekk frá nemendunum sjálfum. Hugsanlegt er að margir foreldrar hafi vanmetið sjónvarpsnotkun barna sinna, sérstaklega þeir fjölmörgu foreldrar sem leyfa börnum sínum að vera með eigið sjónvarp í herbergi sínu. Þannig var háttað hjá rétt tæpum 30% nemenda í 1. bekk en 40% nemenda í 3. bekk.

Að baki þessum tölum leynist verulegur kynjamunar rétt eins og kom fram í skýrslu Margrétar Lilju Guðmundsdóttur o.fl. (2007). Drengir voru mun oftar en stúlkur með sjónvarp í herberginu sínu, sérstaklega munaði miklu framan af skólagöngu. Þannig voru 40% drengja í 1. bekk með sjónvarp inni hjá sér en aðeins 17% stúlkna; í 3. bekk voru hliðstæð hlutföll 46% og 36%; í 6. bekk voru hlutföllin 57% og 47% og í 9. bekk voru hlutföllin 73% og 62%.

Hlutfallslega fleiri börn foreldra með litla menntun voru með sjónvarp á herbergjum sínum auk þess sem þau horfðu meira á sjónvarp. Þótt eingöngu væri spurt um menntun en ekki fjárhagslega stöðu má benda á að niðurstöður Roberts og Foehr (2004) eru svipaðar en þeir segja að börn sem búa við fátækt og eiga foreldra með litla menntun horfi meira á sjónvarp en hinir þar sem menntun er meiri og fjárhagur betri. Svo virðist því vera að foreldrar með lengri skólagöngu stýri frekar sjónvarpsnotkun barna sinna. Um getur verið að ræða beina stýringu, svo sem takmarkanir á þeim tíma sem börnin mega horfa, eða óbeina stýringu, þar sem börnunum er boðið upp á aðra frístunda- eða tómstundamöguleika. Eins og fram hefur komið nær þessi stýring foreldranna ekki til tölvunotkunar en engin tengsl eru milli menntunar foreldra og aðgengis eða notkunar barnanna á tölvu.

Í umfjöllun um sjónvarpsnotkun nemenda hér að framan er getið tveggja rannsókna sem hvor á sinn hátt gáfu til kynna að það hefði neikvæð áhrif á börn að hafa sjónvarp til einkaafnota. Samkvæmt annarri rannsókninni (University of Haifa, 2008) var nætursvefn þessara barna að jafnaði hálftíma skemmri sem eflaust gerði flest þeirra verr í stakk búin en ella til að takast á við skóladaginn. Hin rannsóknin (Johns Hopkins, Bloomberg School of Public Health, 2005) leiddi í ljós að nemendur sem höfðu sjónvarp til einkaafnota stóðu sig verr en aðrir nemendur í þeim prófum í stærðfræði, lestri og málþroska sem lögð voru fyrir þau tvisvar yfir skólaárið. Rannsóknin sýndi einnig að árangur þeirra nemenda sem fengu sjónvarp inn til sín á rannsóknartímabilinu dalaði við það og að sama skapi bættu þeir nemendur sig sem urðu af einkasjónvarpinu á tímabilinu.

Samkvæmt niðurstöðum þessarar íslensku rannsóknar höfðu hlutfallslega mörg börn sjónvarp inni í herbergi sínu. Á grundvelli núverandi vitneskju telst slíkt líklegt til að draga úr árangri þeirra í námi. Hverjar eru skýringarnar? Margir foreldrar barna sem eru með sjónvarp inni hjá sér hljóta að eiga erfitt með að fylgjast með sjónvarpsnotkun barna sinna og að fylgja eftir reglum þar að lútandi. Reyndar má spyrja hvort þeir foreldrar sem leyfa börnum sínum að hafa eigið sjónvarp telji að reglur um sjónvarpsáhorf skipti einhverju máli fyrir börn þeirra. Þessu til viðbótar ber að hafa í huga að þegar börn horfa ein á sjónvarp eru foreldrar ekki fyrirmyndir um val á sjónvarpsefni; líklegra er að vinirnir eða skólafélagarnir verði það í staðinn.

Að lokum skal staldrað við hve algengt það var strax í 1. og 3. bekk að nemendur, sérstaklega drengir, hefðu eigið sjónvarp til umráða. Eins og áður hefur komið fram í þessari grein eru rannsakendur almennt því sammála að sex ára börn og átta ára börn, eins og hér um ræðir, hafi ekki forsendur til að túlka það sem þau sjá í sjónvarpi á sama hátt og fullorðnir og geti t.d. fyllst ótta við að sjá atriði sem í augum fullorðinna kynnu að teljast fremur sakleysisleg. Að sama skapi kunna atvik á skjánum að framkalla hjá þeim ranghugmyndir um lífið og tilveruna, sem auðvelt væri að leiðrétta væru fullorðnir til staðar til að róa og sefa eða útskýra. Sé ungum börnum ætlað einum að finna út úr atburðum á skjánum, sem í raun er þeim ofviða, má búast við að það hafi neikvæð áhrif á bæði vit- og tilfinningaþroska þeirra, og það til frambúðar.

Í þessu ljósi er viðeigandi að skoða langsniðsrannsókn Andersons o.fl. (2001) þar sem sýnt var fram á að sjónvarpsvenjur ungra barna hafa áhrif til langs tíma á þroska þeirra. Börn sem höfðu aðallega horft á afþreyingarefni á meðan þau voru ung komu verr út á unglingsárum varðandi fjölmarga þroskaþætti, þar á meðal námsárangur og námsáhuga, en börn sem einkum höfðu horft á fræðandi sjónvarpsefni. Það lítur því út fyrir að það sé visst áhyggjuefni hversu mikið er um það að börn á yngsta stigi grunnskólans séu með sjónvarpstæki til einkaafnota.

Tölvunotkun nemenda

Síðustu áratugina hefur tölvan haldið innreið sína á nánast öll svið þjóðlífsins með slíkum krafti að líkja mætti við samfélagsbyltingu. Hefur hún nú burði til að leysa af hólmi flesta aðra fjölmiðla, svo sem sjónvarp, vídeó, dagblöð og jafnvel bækur. Meðal annarra notkunarsviða tölvunnar má nefna hana sem náms- og kennslutæki og einnig til leikja. Það ætti því að vera ljóst að tölvan keppir í sívaxandi mæli um hylli barna og unglinga bæði til afþreyingar en einnig til að þeir geti innt af hendi alls kyns námsverkefni í skólanum og heima.

Í könnun Gallup frá 2007 kom í ljós að algengasta tölvunotkun íslenskra nemenda í 4.–10. bekk fólst í að þeir voru í tölvuleikjum (81%), sendu smáskilaboð (71%) og voru að vinna heimaverkefni (49%) (Capacent, 2007a). Tölvan virðist samkvæmt þessu ekki mikið notuð af börnum og unglingum til að horfa á sjónvarpssendingar eða mynddiska, þótt líklegt sé að hún dragi einhverja til sín og þá frá sjónvarpinu. Rannsóknin sýndi engan mun á tölvunotkun eftir skólum eða menntun foreldra. Hið síðara bendir til þess að tölvan þyki orðið sjálfsagður hluti af grunnbúnaði heimilisins og notkun hennar minna stýrt af foreldrum en t.d. sjónvarpsáhorfi.

Líkt og var með sjónvarpið þá fóru börnin nokkuð snemma að notfæra sér tölvuna; sérstaklega drengirnir sem, að sögn foreldra sinna, eyddu mun meiri tíma til tölvunotkunar en stúlkurnar. Þannig notuðu rétt tæp 50% drengja í 1. bekk tölvur í 3–4 klst. vikulega, hið minnsta, en tæp 25% stúlkna og rúm 65% drengja í 3. bekk á móti 35% stúlknanna. Tölvunotkun 6. og 9. bekkinga var mæld út frá daglegri notkun auk þess sem tímum er öðruvísi skipt upp en áður, því er erfitt um samanburð. Hvað sem því líður sögðust 67% drengja í 6. bekk nota tölvu í u.þ.b. tvær klst. á dag hið minnsta; samsvarandi tala fyrir stúlkurnar var 48%. Meðal 9. bekkinga voru hlutföllin þessi: rétt tæp 90% drengja sögðust nota tölvu í u.þ.b. tvær klst. á dag hið minnsta en 81% stúlknanna.

Kynjamynstri um tölvunotkun svipar til sjónvarpsáhorfs að því leyti að það dregur saman með kynjunum með hækkandi aldri. Drengir eru mun fleiri í þeim hópi sem notar tölvuna mikið. Í 6. og 9. bekk er lítill hópur, 3,5%, sem notar tölvuna í sjö klst. á dag eða meira. Ástæða er til að hafa nokkrar áhyggjur af þessum hópi. Björn Harðarson (2004) talaði um tölvufíkn, sem algengust væri hjá unglingspiltum, og styðja niðurstöður okkar staðhæfingu hans því 11,5% pilta í 9. bekk féllu í hóp stórnotenda tölvunnar. Þótt mikil tölvunotkun geti haft slæm áhrif bendir rannsókn Johns Hopkins, Bloomberg School of Public Health (2005) til að það hafi góð áhrif á námsframmistöðu nemenda hafi þeir aðgang að tölvu í herbergi sínu. Að mati rannsakendanna gat frjáls aðgangur að eigin tölvu virkað gegn skaðlegum áhrifum sjónvarps. Ef það er rétt þá er ánægjulegt að sjá að aðgengi að tölvu í eigin herbergi tengist ekki menntun foreldra.

Þátttaka í atvinnulífinu

Atvinnuþátttaka unglinga í 9. bekk, samkvæmt þessari rannsókn, virðist vera talsverð eða um 26%. Þetta er heldur minni þátttaka en fram kom meðal 10. bekkinga í rannsókninni Ungt fólk 2006 (Álfgeir Logi Kristjánsson o.fl., 2006). Meðalvinnutími þessara 9. bekkinga var 5,5 tímar á viku. Ef litið er á námið í skólanum sem fullt starf má túlka þessa viðbót þannig að við það bætist 22 „yfirvinnutímar“ á mánuði. Hjá 12% nemenda var vinnutíminn lengri en tíu klst. á viku.

Hér á landi hefur vinna meðal unglinga jafnan verið litin jákvæðum augum. Í ljósi bandarískra rannsókna, sem sýna að vinnutími umfram tíu klst. á viku tengist ýmsum neikvæðum þáttum (Bachman o.fl, 2003; Mortimer o.fl., 2008; Steinberg, 1996), er þetta viðhorf ákveðið áhyggjuefni. Minni vinna hjá unglingum virtist ekki hafa sömu afleiðingar. Það er athyglisvert að vísbendingar eru um að stúlkur vinni meira með námi í 9. bekk en drengir þótt munurinn sé ekki tölfræðilega marktækur. Það vekur upp spurningar, s.s. hvort neysluþörf stúlkna sé meiri en drengja á þessum aldri eða hvort það sé eitthvað annað sem veldur þessu. Samkvæmt Mortimer o.fl. (2008) getur það til að mynda verið vegna áhugaleysis. Það má eigi að síður líta á það sem gott veganesti að hafa reynslu af vinnumarkaðnum sem unglingur svo framarlega sem vinnunni er stillt í hóf.

Lokaorð

Hvað nemendur gera innan sem utan skólatíma hefur mikið að segja um þroska þeirra á mörgum sviðum. Tómstundir og frístundir, auk skóla og heimilis, eru mikilvægir liðir í að móta sjálfsmynd barna, viðhorf þeirra, vonir og framtíðaráform. Í þessari grein var greint frá helstu niðurstöðum um tómstundir og frístundir nemenda í 1., 3., 6. og 9. bekk og á hvern hátt þær eru breytilegar eftir aldri, skóla, kyni og félagslegri stöðu þeirra.

Almennt má segja að þessar niðurstöður bendi til að þátttaka barna í tómstundum, íþróttum og listnámi sé að mestu óháð félagslegri stöðu þeirra sem hér er metin á grundvelli menntunar foreldra. Það virðist m.ö.o. vera ríkjandi viðhorf meðal foreldra að tómstundir og íþróttaiðkun hafi jákvæð áhrif á börn og unglinga. Félagsleg staða foreldra hefur aftur á móti áhrif á tækjaeign, sérstaklega hvort sjónvarp er í herbergjum barnanna og hversu mikið þau horfa á það. Minni menntun foreldra þýðir að sjónvarp er frekar í herbergjum barna þeirra og þau horfa meira á það. Þessi munur kemur ekki fram í tölvueign og tölvunotkun.

Vinna barnanna með námi er talsverð og hjá hluta þeirra meiri en æskilegt má telja. Vinna með námi virðist ekki tengjast félagslegri stöðu en tilhneiging er í þá átt að stúlkur vinni meira en drengir.

Segja má að meginniðurstöður rannsóknarinnar bendi til að íslenskir foreldrar, óháð félagslegri stöðu, skynji mikilvægi uppbyggilegs tómstundastarfs fyrir börn sín en mikil umræða um jákvæð áhrif íþrótta og tómstunda virðist hafa skilað sér til foreldra. Aftur á móti er greinilegur munur eftir menntun foreldra á því hversu mikið þeir stýra sjónvarpsáhorfi barna sinna. Ein ástæða getur verið að minni áróður hefur verið rekinn fyrir uppbyggilegri notkun þessa miðils. Þá vekur athygli að enginn munur virðist vera eftir menntun foreldra á aðgengi að tölvu í eigin herbergi eða tíma sem varið er við hana. Tölvueign er vissulega mun minni en sjónvarpseign en kallar ekki síður á markvissa stýringu og stjórnun foreldra á notkun.

Einnig má velta fyrir sér hvort skipulögð dagskrá, skóli, tómstundir og vinna, sé ekki nokkuð löng hjá allstórum hópi nemenda. Þetta merkir að þeir eru komnir í þá stöðu, sem margir fullorðnir finna fyrir, að nánast allur þeirra tími er skipulagður og lítill tími er eftir til að njóta frístunda.

Heimildir

Amalía Björnsdóttir, Baldur Kristjánsson og Börkur Hansen. (2008). Námsáhugi nemenda í grunnskólum: Hver er hann að mati nemenda og foreldra? Hvernig breytist hann eftir aldri og kyni? Tímarit um menntarannsóknir, 5, 7–26.

Anderson, D. R., Huston, A. C., Schmitt, K. L., Linebarger, D. L. og Wright, J. C. (2001). Monographs of the society for research in child development, 66(1), 1–158.

Andreasen, M. (2001). Evolution in the family’s use of television: an overview. Í J. Bryant og J. A. Bryant (ritstjórar), Television and the American family (2. útgáfa) (bls. 3–32). Mahwah, NJ: Erlbaum.

Álfgeir Logi Kristjánsson, Inga Dóra Sigfúsdóttir og Jón Sigfússon. (2006). Ungt fólk 2006. Menntun, menning, tómstundir og íþróttaiðkun ungmenna á Íslandi. Rannsókn meðal nemenda í 9. og 10. bekk grunnskóla vorið 2006. Reykjavík: Rannsóknir og greining. Sótt 19. febrúar 2009 af http://www.rannsoknir.is/ungt_folk_2006_loka.pdf.

Bachman, J. G., Safron, D. J., Sy, S. R., og Schulenberg, J. E. (2003). Wishing to work: New perspectives on how adolescents' part-time work intensity is linked to educational disengagement, substance use, and other problem behaviours. International Journal of Behavioral Development, 27(4), 301–315.

Baldur Kristjánsson. (1990). Börn á fjölmiðlaöld. Ný menntamál, 8(4), 6–12.

Baldur Kristjánsson. (2001). Barndomen och den sociala moderniseringen. Om att växa upp på tröskeln till ett nytt millennium. Stockholm: HLS förlag.

Berns, R. (2009). Child, family, school, community: Socialization and support (8. útgáfa). Belmont, CA: Wadsworth.

Björn Harðarson. (2004, 5. september). Vandamál víðar en margan grunar. Morgunblaðið. Sótt 14. júlí 2008 af http://www.mbl.is/mm/gagnasafn.

Boyer, E. L. (1991). Ready to learn: A mandate for the nation. Princeton, NJ: Carnegie Foundation for the Advancement of Technology.

Capacent. (2007a). Heimili og skóli. SAFT viðhorfskönnun (barnakönnun). Sótt 4. júlí 2008 af http://www.saft.is/media/files/1195728922/born_2007.pdf.

Capacent. (2007b). Heimili og skóli. Örugg Internetnotkun hjá barnafjölskyldum. Viðhorfskönnun. Sótt 4. júlí 2008 af http://www.saft.is/media/files/1195728922/foreldrar2007.pdf.

Chou, C., Condron, L., og Belland, J. C. (2005). A review of the research on internet addiction. Educational Psychology Review, 17(4), 363–388.

Comstock, G. og Sharrer, E. (2001). The use of television and other film-related media. Í D. G. Singer og J. L. Singer (ritstjórar), Handbook of children and the media (bls. 47–72). Thousand Oaks, CA: Sage.

Feldman, A. F. og Matjasko, J. L. (2005). The role of school-based extracurricular activities in adolescent development: A comprehensive review and future directions. Review of Educational Research, 75(2), 159–210.

Flavell, J. H., Flavell, E. R., Green, F. L. og Korfmacher, J. E. (1990). Do young children think of television images as pictures or real objects? Journal of Broadcasting and Electronic Media, 34(4), 399–419.

Hagstofa Íslands. (2009). Leikskólar. Sótt 5. febrúar 2009 af http://www.hagstofa.is/Hagtolur/Skolamal/Leikskolar.

Hannes Í. Ólafsson, Björk Þorgeirsdóttir og Garðar Gíslason. (2006). Vinna framhaldsskólanema með námi. Könnun á vinnu framhaldsskólanema á höfuðborgarsvæðinu gerð 2005. Fjölbrautaskólinn við Ármúla, Kvennaskólinn í Reykjavík og Menntaskólinn í Kópavogi. Sótt 18. febrúar 2009 af http://starfsfolk.khi.is/ingvar/namskeid/hi/Skil/Brottfall.pdf.

Huston, A. C., Wright, J. C., Alvarez, M., Truglio, R., Fitch, M. og Piemyat, S. (1995). Perceived television reality and children’s emotional and cognitive responses to its social content. Journal of Applied Developmental Psychology, 16(2), 231–251.

Inga Dóra Sigfúsdóttir og Bryndís Björk Ásgeirsdóttir. (2004). Um gildi tónlistarnáms fyrir
íslensk ungmenni. Niðurstöður rannsókna meðal nemenda í 9. og 10. bekk
grunnskóla á Íslandi
. Reykjavík: Rannsóknir og greining. Sótt 18. febrúar 2009 af http://www.rannsoknir.is/Tonlist-skyrsla2.pdf.

Johns Hopkins, Bloomberg School of Public Health. (2005, 5. júlí). Television in the bedroom may hurt child's school performance. Sótt 5. febrúar 2009 af http://www.jhsph.edu/publichealthnews/press_releases/2005/borzekowski_tv.html.

Margrét Lilja Guðmundsdóttir, Álfgeir Logi Kristjánsson, Inga Dóra Sigfúsdóttir og Jón Sigfússon. (2007). Ungt fólk 2007 – Grunnskólanemar: Niðurstöður rannsókna meðal nemenda í 5., 6. og 7. bekk. Reykjavík: Rannsóknir og greining. Sótt 18. febrúar 2009 af http://www.rannsoknir.is/ungt_folk_2007_loka.pdf.

McLeod, J. og Yates, L. (2006). Making modern lives: Subjectivity, schooling, and social change. New York: State University of New York Press.

Mortimer, J. T., Vuolo, M., Staff, J., Wakefield, S. og Xie, W. (2008). Tracing the timing of "career" acquisition in a contemporary youth cohort. Work and Occupations, 35(1), 44–84.

Roberts, D. F. og Foehr, U. G. (2004). Kids and the media in America. New York: Cambridge University Press.

Shin, N. (2004). Exploring pathways from television viewing to academic achievement in school age children. The Journal of Genetic Psychology, 165(4), 367–382.

Singer, J. L. og Singer, D. G. (1983). Psychologists look at television. American Psychologist, 38(7), 826–834.

Sólveig Jakobsdóttir. (1999). Tölvumenning íslenskra skóla. Kynjamunur og aldursmunur nemenda í tölvutengdri færni, viðhorfum og notkun. Uppeldi og menntun, 9, 119–143.

Sólveig Jakobsdóttir. (2006). Up on a straight line? ICT-related skill development of Icelandic students. Í E. Pearson og P. Bohman (ritstjórar), Edmedia – World conference on educational multimedia, hypermedia and telecommunications (bls. 67–74). Chesapeake, VA: AACE.

Sólveig Jakobsdóttir, Hrund Gautadóttir og Sigurbjörg Jóhannesdóttir. (2005). Life was bacalao – life is Internet. Should we develop a fishing culture mentality in schools? Í A. M. Vilas, B. G. Pereira, J. M. González og J. A. M. González (ritstjórar), Recent research developments in learning technologies. III International Conference on Multimedia and ICTs in Education (mICTE2005). Caceres, Spain, June 7–10th 2005 (3. bindi, bls. 1205–1210). Badajoz, Spain: Formatex. Sótt 5. júlí 2008 af http://www.formatex.org/micte2005/235.pdf.

Sólveig Jakobsdóttir og Torfi Hjartarson. (2003). Information and communications technology (ICT) use among Icelandic students. Í D. Lassner og C. McNaught (ritstjórar), Proceedings of World Conference on Educational Multimedia, Hypermedia and Telecommunications 2003 (bls. 2841–2844). Chesapeake, VA: AACE.

Steinberg, L. (1996). Beyond the classroom: Why school reform has failed and what parents need to do. New York: Simon & Schuster.

University of Haifa. (2008, 5. september). Children with TVs or computers in their room sleep less. ScienceDaily. Sótt 23. febrúar 2009 af http://www.sciencedaily.com/releases/2008/09/080902102536.htm.

Van Evra, J. P. (2004). Television and child development (3. útg.). London: Routledge.

Vincent, C. og Ball, S. J. (2007). ´Making up´ the middle class child: Families, activities and class dispoditions. Sociology, 41(6), 1061–1077.

Þorbjörn Broddason. (2006). Youth and new media in the new millennium. Nordicom Review, 27, 105–108.

Prentútgáfa     Viðbrögð