Ráðstefnurit Netlu: Rannsóknir – Nýbreytni – Þróun

Menntavísindasvið Háskóla Íslands

Ráðstefnugrein birt 15. desember 2009

Ráðstefna 2009

Hafdís Ingvarsdóttir og Brynhildur Anna Ragnarsdóttir

EUROPROF-verkefnið

Veruleiki kennaranema í Evrópu

Kennarar og nemendur í kennslufræði við félagsvísindadeild Háskóla Íslands hafa sl. þrjú ár tekið þátt í Sókrates-þróunarverkefni sem lauk í september 2009. Í greininni er gefið yfirlit yfir helstu þætti þróunarverkefnisins. Meginmarkmið þess var að efla þekkingu og skilning verðandi tungumálakennara í Evrópu á menntun tungumálakennara og uppbyggingu skólakerfisins. Ólík skólamenning grunn- og framhaldsskóla og kennaramenntunarstofnana í þátttökulöndunum var einnig í brennidepli. Undirmarkmið var að gera tungumálakennara hæfari til að starfa í fjölmenningarlegu samfélagi. Alls tóku átta Evrópulönd þátt í verkefninu. Kennaranemarnir dvöldust í tvær vikur sem skiptinemar í einu landanna. Þeir kynntu sér skólastarf, bæði á grunn- og framhaldsskólastigi, kenndu og öfluðu ýmissa gagna um land og þjóð. Hér verða dregnar saman helstu niðurstöður úr þeim gögnum sem aflað var í tengslum við verkefnið, þ.e. viðtölum við kennaranemana, ígrundunum þeirra og formlegum verkefnum. Dvölin virðist hafa opnað kennaranemunum nýja sýn og aukið skilning á mikilvægi fjölmenningarlegrar vitundar tungumálakennara og varpað ljósi á ólíka uppbyggingu kennaranáms í mismunandi löndum. Kennaranemunum fannst þeir enn fremur verða meðvitaðri um kosti íslenskra skóla og um leið hvað mætti betur fara. Þá fannst þeim þessi reynsla efla sjálfstraust sitt sem einstaklinga og verðandi kennara.

Hafdís Ingvarsdóttir er dósent við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Brynhildur Anna Ragnarsdóttir er stundakennari við sömu stofnun.

Inngangur

Kennarar og nemendur í kennslufræði við félagsvísindadeild hafa sl. þrjú ár tekið þátt í Sókrates-verkefni sem lauk í september 2009. Meginmarkmið þess var að efla þekkingu og skilning verðandi tungumálakennara í Evrópu á menntun og menningu ólíkra landa og gera þá hæfari til að starfa í fjölmenningarlegu samfélagi. Alls tóku sjö Evrópulönd þátt í verkefninu auk Íslands. Þungamiðja þess voru nemendaskipti. Nemendur dvöldust í tvær vikur sem skiptinemar í einu landanna. Þeir þurftu að kynna sér skólastarf, kenna og afla ýmissa gagna um land og þjóð.

Gefin verður yfirlitsmynd af þessu umfangsmikla verkefni en ekki er rými til að fara ítarlega í einstaka liði þess. Greint verður frá tildrögum verkefnisins, markmiðum og hugmyndafræði. Fjallað verður um handbókina og ferilmöppuna, hinn sýnilega afrakstur verkefnisins. Loks verða dregnir saman meginþræðir persónulegrar reynslu nemenda af því að taka þátt í verkefninu.

Forsaga

Árið 2006 var Háskóla Íslands boðið að taka þátt í þriggja ára samstarfsverkefni um menntun tungumálakennara í Evrópu. Verkefnið sem nefnist EUROPROF (European Professionals) var þróunarverkefni styrkt af Evrópusambandinu. Háskólarnir sem þátt tóku voru eftirtaldir: Austurríki, Pädagogische Akademie, Innsbruck, Tyrol; Danmörk, Center for Videregaaende Uddannelse, CVU Sønder-Jylland; England, The University of Cumbria; Frakkland, Institut Universitaire de Formation des Maîtres; Ítalía, Scuola di Specializzazione per l’Insegnamento Secondairo della Toscana; Litháen, Vilniaus Pedagoginis Universitetas; Pólland, Nauczycielskie Kolegium Języków Obcych w Puławach, auk Háskóla Íslands. Samráðs- og vinnufundir voru haldnir á Ítalíu og Bretlandi 2006, Póllandi og Danmörku 2007, Íslandi og Litháen 2008 og lokafundurinn var haldinn á Ítalíu vorið 2009. Verkefninu lauk síðan formlega í september 2009. Hver háskóli átti tvo fulltrúa í samstarfshópnum en innan hópsins störfuðu einnig leiðsagnarkennarar (mentorar) sem leiðbeindu kennaranemum á vettvangi. Þeir báru hitann og þungann af veru þessara nema í skólunum meðan á heimsókninni stóð og sóttu samstarfsfundi þegar því var við komið. Að verkefninu komu þannig þrír aðilar í hverju landi; kennarar við háskólana, leiðsagnarkennarar í skólum og kennaranemar. Verkefnið er gott dæmi um hvernig háskólar, grunn- og framhaldsskólar geta starfað saman að menntun kennara.

Markmið

Væntingar til verkefnisins voru þær að með því að heimsækja önnur lönd og kynnast bæði starfsháttum í háskólum, grunn- og framhaldsskólum í nýju umhverfi mætti auka víðsýni kennaranemanna og veita þeim og háskólum þeirra mikilvægar upplýsingar um stöðu, áherslur og starfshætti í tungumálakennslu í háskólum annarra Evrópulanda. Jafnframt var þess vænst að verkefnið veitti samstarfsskólum háskólanna innsýn í hvernig tungumálakennaranemar eru menntaðir í öðrum löndum og undirbúnir fyrir kennarastarfið. Verkefnið hafði þríþætt yfirmarkmið:

 • Að safna gögnum um kennaramenntun og skólastarf grunnskóla og framhaldsskóla í hinum ólíku Evrópulöndum til að nemendur gerðu sér betur grein fyrir umgjörð kerfisins í því landi sem þeir myndu heimsækja (yrði þeirra gestgjafaland) og fá yfirlit yfir uppbyggingu kennaranáms í því landi.

 • Að þróa starfslíkan fyrir nemendaskipti sem aðrar kennaramenntunarstofnanir í öðrum löndum gætu nýtt sér.

 • Að búa til ramma að ferilmöppu (e. portfolio) fyrir tungumálakennara svo þeir geti lagt grundvöll að starfsþróun sinni strax í kennaranámi.

EUROPROF-verkefnið er einnig vettvangur tengsla- og netmyndunar. Þar er lagður grunnur að samstarfi kennaranema, kennara í grunn- og framhaldsskólum og kennara í háskólum, byggður á persónulegri reynslu og gagnkvæmum skilningi sem nýtist öllum aðilum í starfi á evrópskum vettvangi.

Hugmyndafræðin

EUROPROF-verkefnið er í góðum samhljómi við Hvítbók Evrópuráðsins um samræður ólíkra menningarsvæða: White Paper on Intercultural Dialogue “Living together as equals in dignity“ (Council of Europe, 2008). Þeir sem kynnast öðrum þjóðum og menningu þeirra í starfi og leik verða aldrei samir. Kynnin krefjast þess af þeim sem í hlut eiga að þeir leggi mat á eigin gildi, venjur og starfshætti. Leiða má að því líkum að innsýn í líf og starf annarra sem hafa sömu störf með höndum dragi úr fordómum, komi í veg fyrir tortryggni og stuðli að umburðarlyndi og skilningi.

Fjölmenningarleg reynsla kennaranema víkkar sjóndeildarhring þeirra – veitir þeim innsýn í og skilning á öðrum menningarsvæðum. Samhliða því styrkir reynslan starfskenningu þeirra og veitir þeim tækifæri til að ígrunda starfshætti í tungumálakennslu og -námi í heimalandi og bera saman við önnur lönd. Þetta gerir kennaranema meðvitaðri um að væntanlegir nemendur þeirra geti haft ólíkan bakgrunn sem helgast m.a. af trú þeirra, viðhorfi fjölskyldu þeirra til menntunar, félagslegri stöðu og fjölda annarra þátta (Guðrún Pétursdóttir, 2009). Það skiptir máli fyrir verðandi tungumálakennara að þeir séu sér meðvitaðir um að sá sem er að læra nýtt tungumál er ekki aðeins að læra nýja leið til samskipta; hann er um leið að þróa með sér menningarfærni (e. interculturality) (Council of Europe, 2001). Að kynnast ólíkri menningu í návígi í starfsnáminu er því ómetanlegt veganesti. En snúum okkar að nánari lýsingu á tilhögun nemendaskiptanna.

Nemendaskiptin

Hingað til lands komu á vegum kennslufræðinnar í félagsvísindadeild Háskóla Íslands tveir hópar verðandi tungumálakennara. Í hvorum hópi voru þrettán kennaranemar frá sjö Evrópulöndum sem dvöldu hér í tvær vikur í janúar 2008 og 2009. Erlendu kennaranemarnir kynntust kennaramenntun við félagsvísindadeild, skólastarfi og kennsluháttum í þeim framhaldsskólum sem voru sérstakir samstarfsskólar félagsvísindadeildar (nú Menntavísindasviðs) um menntun kennara á framhaldsskólastigi. Þessir skólar eru: Borgarholtsskóli, Fjölbrautaskólinn við Ármúla, Fjölbrautaskólinn í Garðabæ, Menntaskólinn við Hamrahlíð, Menntaskólinn í Kópavogi og Kvennaskólinn í Reykjavík. Gestunum var skipt niður á þessa samstarfsskóla. Margir nemanna óskuðu einnig eftir að fá tækifæri til að heimsækja grunnskóla meðan á dvölinni stóð og var orðið við því.

Á sama tíma voru sjö íslenskir kennaranemar í nemendaskiptum í jafnmörgum Evrópulöndum. Frá hverju landi fóru fjórtán nemar, tveir til hvers lands nema frá Íslandi, þaðan fór einn til hvers lands. Samanlagt voru þrettán nemar frá löndunum átta í hverju landi samtímis. Nemendur bjuggu saman á farfuglaheimilum eða heimavistum (nema í Englandi þar sem þeir bjuggu á einkaheimilum). Nemarnir kynntust því nokkuð vel innbyrðis og gátu borið saman bækur sínar um áherslur í eigin kennaramenntun og tungumálakennslu í löndunum átta auk þess að reyna á eigin skinni hvernig tungumálakennsla fór fram í því landi sem heimsótt var, bæði í háskólum, grunn- og framhaldsskólum. Að auki var gert ráð fyrir að þessi mikla samvera tengdi kennaranema persónulegum böndum. Dvölin hafði þannig bæði faglegan og persónulegan tilgang og fól í sér væntingar um að nemarnir eignuðust faglegt tengslanet sem gæti nýst þeim í framtíðinni.

Handbókin

Sem fyrr segir var þungamiðja verkefnisins nemendaskipti – gagnkvæmar heimsóknir meðan á námstíma stóð. Háskólakennararnir í samvinnu við leiðsagnarkennara höfðu útbúið handbók, eins konar leiðarvísi sem innihélt lýsingu á þeim verkefnum sem nemar áttu að vinna áður en þeir færu af stað, meðan þeir væru í heimsókn í öðru landi og eftir heimkomu. Handbókin var síðan endurskoðuð og endurbætt eftir fyrri heimsóknina.

Handbókinni var ætlað að tryggja að nemar færu undirbúnir til námsdvalarinnar, hefðu ákveðin leiðarljós þegar komið væri á staðinn og leiðbeiningar um hvernig þeir ættu að vinna úr reynslunni og nýta til þess faglegar áherslur úr kennaranáminu. Meðal verkefna sem nemar áttu að vinna áður en lagt var af stað var að kynna sér staðhætti, tungumál og menningu þess lands sem stefnan var tekin á. Jafnframt áttu þeir að líta í eigin barm og reyna að átta sig á því hvernig þeir og land þeirra liti út í augum gesta sem sækja þá heim. Þeir áttu að geta útskýrt helstu þætti í eigin menntakerfi, kynnt sjálfa sig og land og þjóð fyrir samnemendum og fyrir nemendum í grunn- og framhaldsskólum sem þeir heimsóttu. Að auki áttu nemarnir að hafa undirbúið kennslustundir með áherslu á að kynna mál sitt og menningu fyrir þeim nemendahópi sem beið þeirra í nýju landi, sjá dæmi um undirbúningsverkefni:

Verkefni 1

Á samskiptasíðu EUROPROF-verkefnisins er að finna nokkrar lykilfræðigreinar um menningarvitund. Tímaritsgreinarnar hafa verið valdar af starfsmönnum háskólanna sem taka þátt í verkefninu. Þú átt að velja þá fræðigrein sem best höfðar til þín og lesa hana. Valverkefni: Bættu efni við listann á síðunni; titlum á fræðigreinum eða öðrum ritum og höfundum sem þú hefur áhuga á og telur að geti gagnast öðrum.

Verkefni 3

Glöggt er gests augað. Það er alltaf hressandi að fá álit og sjónarhorn utanaðkomandi aðila/útlendinga. Lestu bók (eða grein) sem vísað er til á samskiptasíðu EUROPROF og fjallar um þitt eigið land en er skrifuð af útlendingi (http://www.europrof.ning.com).
 

Í handbókinni er að finna verkefni sem eiga að stuðla að því að nemarnir haldi helstu áherslum nemendaskiptanna í brennidepli; hvað er líkt og ólíkt í menningu þjóðar nemandans og þeirrar þjóðar sem heimsótt var; hver er munurinn á áherslum í tungumálakennslu og skólakerfinu heima og í landinu sem þeir heimsóttu. Meðan á dvölinni stóð þurftu nemar m.a. að halda nákvæma dagbók, sitja í ýmsum kennslustundum, fylgja kennara úr grunn- eða framhaldsskóla eftir í heilan dag, taka viðtöl við ýmsa aðila: skólastjórnendur, starfsmenn skólanna og svo einnig fólk sem þeir hittu á förnum vegi. Þeir fengu margs konar gátlista og efni til að styðjast við sem ekki er rými til að gera grein fyrir hér en verður aðgengilegt í handbókinni sem er væntanleg á haustmánuðum (mun liggja frammi á bókasafni Menntavísindasviðs Háskóla Íslands).

Í handbókinni eru enn fremur verkefni sem ætlað var að styðja nemana og gera þá meðvitaðri um það sem þeir sáu og upplifðu. Eitt slíkt fylgir hér:

 1. Það sem mér fannst aðdáunarverðast / féll best við gistilandið var ...

 2. Það sem olli mér vonbrigðum við gistilandið var ...

 3. Ég varð hissa á ...

 4. Það sem mér fannst líkast mínu landi og þjóð ... / frábrugðið mínu landi og þjóð ...

Nemar okkar höfðu síðan frumkvæði að því að gera ýmis samanburðarverkefni og er hér eitt slíkt dæmi:

Tafla 1
Samanburður á ýmsum þáttum kennslu í fimm löndum

 

Austria Denmark France Lithuania Poland
Teaching methods Traditional methods Very varied and free / open methods learner centered Traditional in primary

Communication and a lot of cooperative learning in secondary
Very traditional and following the textbook Traditional and following the book
Teacher – pupil relationship Good but still some distance Relaxed, not much distance A great distance in primary school Relaxed

Mutual respect
Teachers are highly respected

Formal

Discipline

Some discipline Rather little discipline Strong discipline Good discipline Good discipline
Classroom setup Generally two and two together in rows Generally in groups

Sometimes rows

Chairs and tables were adjustable
Different between classrooms

Language classrooms were set up in a U
Generally two and two together in rows Traditional rows
Technology in classrooms
 
Barely any technology

At most an overhead

Colourful and decorated classrooms

Blackboards
Generally neither a lot nor very good technology

Computers and projectors in some classrooms

Overheads

Colourful and decorated classrooms
An overhead and a whiteboard Only a blackboard Whiteboard and a blackboard

Computers in computer rooms
IT usage
Not much

Saw laptops only used once by a very small group of students

An interactive whiteboard used in two classrooms

Otherwise not much used
Limited None Not much
Special needs kids Special classes for students with needs in one school

Integrated in the other subjects
Inclusion
Children with needs are kept separated Denial
Special needs classes but not much of it
Teacher room Good space, some technology

Good atmosphere
Good space, some technology

Good atmosphere
Not spacious, but everyone’s happy

Wine with lunch!
Very good atmosphere Very good atmosphere

Not much technology and not spacious

 

Öll þessi gögn áttu síðan að fara í ferilmöppu sem yrði vísir að frekari starfsþróun þeirra. Á Íslandi voru verkefnin metin sem hluti af hinni almennu ferilmöppu nemenda í kennaranáminu en allir kennaranemarnir við félagsvísindadeild héldu ferilmöppu yfir nám sitt.

Ferilmappan

Markmið EUROPROF-ferilmöppunnar, sem nemar unnu í tengslum við EUROPROF-verkefnið, er að leggja grunn að ákveðnum vinnubrögðum í kennaranámi, m.a. að safna gögnum um starf sitt og halda því áfram þegar út í kennarastarfið er komið. Ferilmappan á að stuðla að því að kennaranemarnir verði fagmenn sem stöðugt ígrunda og þróa starf sitt (Pollard, 2005). Annað sem gerir þessa möppu sérstaka er hversu mjög hún beinir sjónum að menningarþættinum í tungumálakennslu. Mappan er rammi sem hjálpar nemanum/kennaranum að verða meðvitaður um hugsanlega menningarlega fordóma og efla vitund kennara um mikilvægi þess að geta sett sig í spor annarra og séð sjálfa sig eins og aðrir sjá þá. Með því að safna gögnum í slíka möppu frá upphafi má segja að kennari hefji þegar starfendarannsókn, þ.e. safni gögnum um eigin kennslu og vinni úr þeim (Hafþór Guðjónsson, 2008; Ívar Rafn Jónsson, 2008).

EUROPROF-ferilmöppunni er skipt í eftirfarandi þætti:

 • Kynning á höfundi. Nokkurs konar ferilskrá en persónulegri með áherslu á reynslu nemans af tungumálum og tungumálanámi, formlegu og óformlegu og fagmennsku nemans sem verðandi tungumálakennari.

 • Hæfni í tungumálum almennt. Ekki bara sérgrein með áherslu á að greina styrk sinn í ólíkum færniþáttum tungumálanna.

 • Kennsla. Alls konar verkefni, dagbækur og ígrundanir sem tengjast kennslu sem verður grunnurinn að vaxandi vitund um starfskenningu nemans.

 • Menningarhluti. Allt sem sýnir að verið sé að vinna með fjölþjóðlegri menningarfærni (e. intercultural competence) og menningarvitund.

Mappan dregur dám af Evrópsku tungumálamöppunni sem verðandi kennarar munu vinna með nemendum og er ferilmappa nemandans. EUROPROF-mappan er ferilmappa kennarans.

Valverkefni

Í þessum kafla er gerð grein fyrir niðurstöðum úr verkefni um nemendaskiptin sem íslensku nemarnir unnu í námskeiðinu Inngangur að kennslufræði.

Íslensku nemendurnir unnu viðamikið samanburðarverkefni eftir heimkomu um reynslu sína sem byggð var á þeim gögnum sem þeir höfðu safnað í nemendaskiptunum. Hópurinn sem fór í janúar 2009 vann verkefnið innan námskeiðsins Inngangur að kennslufræði. Hann skilgreindi fyrirfram eftirfarandi þemu og greindi reynslu sína í ljósi þeirra: Væntingar, Kennsluhættir, Tengsl kennara og nemenda, Aðstæður í skólum, bæði kennara og nemenda, Andrúmsloft, Óvænt atvik og Hvað kom á óvart í menningunni? Af því verki má sjá að þetta hefur verið sterk persónuleg upplifun auk hinnar faglegu reynslu og segja má að ýmsir gluggar hafi opnast fyrir nemendum. Hér þarf þó að slá varnagla. Þetta er persónuleg reynsla örfárra einstaklinga og það sem þeir segja hefur ekkert alhæfingargildi um menningu viðkomandi lands, enda tilgangurinn að nemar læri að sjá, skynja og viðurkenna fjölbreytileikann án þess að dæma. Frekar eru þetta eins og augnabliksmyndir en þær gefa áhugaverða innsýn í hvað þessum nemum fannst eftirtektarvert. Í umfjöllun um menningu kom á óvart hvaða atriði vöktu athygli þeirra og hversu fjölbreytt og margþætt þau voru, svo sem staða kynjanna, eigin fordómar og ýmsir þættir tengdir menningu.

Dæmi 1

Það sem kom mér mest á óvart við ítalska menningu er að þar er enn litið á konur sem húsmæður; þær eru heimavinnandi; elda, þrífa, þvo og annast uppeldi barnanna á meðan eiginmaðurinn aflar sér menntunar, vel launaðrar stöðu og það er allt sem hann gerir.

Dæmi 2

Ég varð kannski mest hissa á hversu vingjarnlegir og hjálpsamir Austurríkismennirnir sem við kynntumst í Innsbruck voru. Ég hafði einhvern veginn ímyndað mér að Austurríkismenn væru stífari og íhaldssamari en þeir eru þegar maður kynnist þeim.

Dæmi 3

Danmörk er land sem er mjög líkt Íslandi á margan hátt; sumt er þó öðruvísi þar. Eitt af því er að Danir helga Helförinni einn dag í janúar. Þetta er alþjóðlegur dagur sem einhverra hluta vegna er ekki minnst á Íslandi. Á þessum degi var í skólanum sýnd heimildarmynd um misþyrmingar á 21. öldinni. Áður en myndin var sýnd hélt einn kennarinn fyrirlestur um Helförina og fræddi nemendur um fjölda einstaklinga sem létu lífið í henni.

Dæmi 4

Ég tók eftir því að í matstofu kennaranna í framhaldsskólanum sem ég heimsótti voru vínflöskur á borðunum í hádeginu. Ég spurði kennara hvernig á þessu stæði og var sagt að kennarar hefðu sjálfir flöskurnar með sér. Ég varð mjög undrandi að sjá kennara drekka vín í vinnunni (Frakkland).

Mat á reynslu

Umsjónarmenn verkefnisins tóku hópviðtal við nemana eftir að þeir komu heim en höfðu að auki aðgang að öllum verkefnum og gögnum í ferilmöppum þeirra. Þetta eru mun meiri og ítarlegri gögn en hægt er að gera grein fyrir hér. Því verður stiklað á stóru. Reynsla einstaklinganna var mismunandi eins og við mátti búast en samt komu fram áberandi rauðir þræðir í máli nemanna: Aukið sjálfstraust, mikið álag, ánægja, ómetanleg reynsla, lærðu að meta eigið land og þjóð betur. Þeim fannst það auka sjálfstraust sitt að standa á eigin fótum í erlendum skólum og þurfa að spjara sig og finna að þeir réðu við það. Vert er að ítreka að aðeins einn nemi var frá Íslandi á hverjum stað en tveir frá hinum löndunum. Íslensku nemarnir fengu því aldrei hvíld frá áreiti erlendu málanna eins og þeir sem voru í félagi við samlanda. Eftir á að hyggja töldu þeir að það hefði bara verið betra því það var ekki á neinn annan að treysta og þeir kynntust hinum nemunum betur. Nemarnir sóttu styrk til samlanda sinna með því að setja upp sameiginlega bloggsíðu svo þeir gætu „létt á sér“. Álagið var mikið áður en lagt var upp í ferðina og meðan á dvölinni stóð – að vera „að taka svona mikið inn allan daginn,“ eins og einn orðaði það, en ekki síður eftir að þeir komu heim vegna hinna mörgu verkefna sem þeir þurftu að vinna.

Öllum bar aftur á móti saman um að þetta hefði verið mjög jákvæð reynsla sem þeir hefðu ekki viljað missa af fyrir nokkurn mun: „Ég er bara svo þakklát fyrir að hafa fengið að taka þátt í þessu,“ sagði ein og hin tóku undir. Kennaranemarnir sáu að ýmislegt má betur fara í skólum hér á landi og nefndu sérstaklega agann í því sambandi. Þrátt fyrir það fannst þeim að þeir sæju nú betur hvað margt væri gott á Íslandi, bæði í skólunum sjálfum, skólakerfinu og í þjóðfélaginu. Þeim varð tíðrætt um kennslu, ólíkar aðstæður kennara og kröfur til þeirra. Kennaranemunum sem fóru til Englands kom á óvart sú mikla áhersla sem lögð var á starfsþróun kennara, þ.e. það sem þeir nefndu „professional teaching development“. Nefnt var í því sambandi að árlega færi fram ítarleg úttekt á kennsluháttum í skólum (ekki bara nemendakannanir), að það væri sérstök þróunardeild kennara innan skólans og kennarar ættu sífellt að vinna með spurninguna: Hvernig get ég orðið betri kennari?

Markmiðssetningar voru mjög áberandi, kennarar skólanna setja sér markmið og áhersla lögð á að unnið sé eftir þeim. Nemarnir sáu ýmis dæmi um kennsluhætti sem að þeirra mati stóðu framar þeim sem tíðkast á Íslandi. Hér er eitt dæmi frá Austurríki:

Í efnafræðitímanum fékk ég tækifæri til að kynnast því hvernig einföld sprengja er búin til. Ég efast um að nokkur nemandi muni gleyma þessari kennslustund, þetta var hreinræktuð learning by doing. Ég tel að við þurfum fleiri kennslustundir af þessu tagi um allan heim.

Neminn ræddi svo ítarlegar um kennsluhætti og viðfangsefni og taldi að nemendur væru mun betur virkjaðir í austurríska skólanum en í íslenskum skólum. En nemarnir sáu einnig kennsluaðferðir sem þeim þóttu gamaldags og ekki í takt við tímann:

Í enskutímanum voru nemendur beðnir um að þýða textabút upphátt fyrir allan bekkinn. Mér fannst athyglisvert að verða vitni að þessu þar sem ég hélt að þessari kennsluaðferð væri ekki beitt lengur.

Kennaranemarnir voru sífellt að tengja, bera saman og uppgötva. Eftir að hafa horft á kennslustundir í tungumálum í erlendum framhaldsskóla opnast augu: „Ég sé eftir allt áhorfið hérna heima að íslenskir kennarar útskýra allt of mikið á íslensku.“ Nemarnir eru meðvitaðir um og taka skýrt fram að það sem þeim finnst rétt og gott þurfi ekki að vera það í augum annarra og að kennari sé alltaf undir áhrifum þess menningarheims sem hann starfar í. Þeir leggja áherslu á að skrif þeirra og ummæli grundvallist ekki á formlegri gagnasöfnun heldur sé um að ræða ígrundanir sem „byggjast á persónulegum viðmiðunum okkar og þekkingu á nútíma kennsluaðferðum“.

Samantekt

Sýnilegur afrakstur verkefnisins Handbók kennarans er í höfn. Einnig liggja fyrir gögn um samanburð á kennaramenntun og skólakerfi í þessum átta löndum eins og staðan var á þeim tíma sem þau voru tekin saman. Líkan að nemendaskiptum og rammi að ferilmöppu sem starfsþróunartæki fyrir tungumálakennara er nú hvort tveggja tiltækt.

Ráða má af ummælum og verkefnum kennaranemanna að þau markmið hafi náðst að skapa vettvang fyrir kynni og aukinn skilning landa í milli og að efla vitund kennaranemanna um ólíka menningu og skólamenningu í gestgjafalöndunum. Samvinna nemanna við undirbúning og úrvinnslu nemendaskiptanna veitti þeim sem þátt tóku innsýn í fleiri menningarheima en þess lands sem þeir heimsóttu hver um sig. Með því að heimsækja ólík lönd og taka þátt í skólastarfi sáu nemarnir dæmi um menningu sem var þeim um margt framandi en þessi reynsla hefur að þeirra áliti víkkað sjóndeildarhringinn og eflt menningarvitund. Eins og þau komust sjálf að orði: „[Að taka þátt í þessu verkefni] hjálpaði okkur að takast á við fjölbreytileikann á jákvæðan hátt.“
 

Þakkarorð

Við viljum þakka kennaranemum sem tóku þátt í EUROPROF-verkefninu fyrir að heimila okkur að nýta okkur gögnin þeirra í þessa grein. Enn fremur viljum við þakka leiðsagnarkennurum úr samstarfsskólunum fyrir einkar ánægjulegt samstarf við þetta verkefni.

Heimildir

Council of Europe. (2001). The Common European Framework of Reference for Languages. Cambridge: University Press.

Council of Europe. (2008). White Paper on Intercultural Dialogue “Living together as equals in dignity“. Launched by the Council of Europe Ministers of Foreign Affairs at their 118th Ministerial Session. Strasbourg, 7 May 2008.

Guðrún Pétursdóttir. (2009). Intercultural Education. Better Education for Everyone? Goals identified by the International Commission on Education for the Twenty-first Century. Sótt 12. september 2009. http://www.ici.is.

Hafþór Guðjónsson. (2008). Starfendarannsóknir í Menntaskólanum við Sund. Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun. Grein birt 4. apríl: http://netla.khi.is/greinar/2008/002/index.htm.

Ívar Rafn Jónsson. (2008). „Að virkja sjálfstæða hugsun nemenda.“ Sálfræðikennari rýnir í sjálfan sig. Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun. Grein birt 26. nóvember: http://netla.khi.is/greinar/2008/008/index.htm.

Pollard, A., ásamt Collins, J., Maddock, M., Simco, N., Swaffield, S., Warin, J. og Warwick, P. (2005). Reflective Teaching. London: Continuum.