Ráðstefnurit Netlu: Rannsóknir – Nýbreytni – Þróun

Menntavísindasvið Háskóla Íslands

Ráðstefnugrein birt 15. desember 2009

Ráðstefna 2009

Auður Pálsdóttir, Allyson Macdonald og Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Hvað græðum við á því að gera
sjálfbæra þróun að sýnilegu viðmiði
í grunnskólastarfi?

Í nútíma samfélögum er lögð vaxandi áhersla á sjálfbærni og samkvæmt stefnu Sameinuðu þjóðanna um menntun til sjálfbærrar þróunar gegna fjöldi stofnana og samtaka mikilvægu hlutverki, þar á meðal skólar. Þegar aðalnámskrá grunnskóla á Íslandi er athuguð með tilliti til sjálfbærrar þróunar koma í ljós mörg teikn. Í greininni er rætt hvernig hægt er að þróa skólastarf þannig að það þjóni markmiðum sjálfbærni. Menntun til sjálfbærrar þróunar dafnar ekki þegar viðfangsefni eru slitin í sundur eftir margskiptri stundaskrá eða þar sem þröng sjónarmið einstakra fræðigreina ráða ferðinni. Þegar einkenni sjálfbærrar þróunar eru gerð að viðmiðum við val á viðfangsefnum í mörgum námsgreinum og í skólastarfi er mögulegt að árangur náist. Markmiðið er að skapa heildstæða sýn á menntun sem er til sjálfbærrar þróunar, menntun sem skapar réttlátara samfélag, menntun sem leiðir til þekkingar, virðingar og ábyrgðar, ekki bara einhvern tíma í framtíðinni heldur strax í dag. Auður Pálsdóttir er aðjúnkt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Allyson Macdonald er prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og Ingólfur Ásgeir Jóhannesson er prófessor við kennaradeild Háskólans á Akureyri.

„... að við látum okkur varða hvað er að gerast“

Hvað dettur okkur í hug þegar við heyrum orðin sjálfbær þróun? Einhverjum kemur í hug endurvinnsla, aðrir hugsa um stefnumótun sveitarfélaga og Staðardagskrá 21 og enn öðrum detta umhverfismál í hug.

Fyrirsögnin hér fyrir ofan er svar kennara við spurningunni um hvað sjálfbær þróun sé eftir eins árs þátttöku í GETU-verkefninu, rannsóknar- og þróunarstarfi um menntun til sjálfbærrar þróunar. Hjá öðrum kennurum sem þátt tóku í verkefninu kom fram það sjónarmið að sjálfbær þróun „snúist í raun um virðingu fyrir náunganum og virðingu fyrir umhverfinu“ og „að sýna varúð og varkárni við allt sem við umgöngumst“. Í opinberum skilgreiningum á hugtakinu sjálfbær þróun er átt við að við högum athöfnum okkar þannig að þær dragi sem minnst úr möguleikum fólks í framtíðinni (sjá t.d. Brundtland, 1987).

Í einfaldasta skilningi má líta á menntun til sjálfbærrar þróunar sem útvíkkun á hefðbundinni umhverfismennt með því að leggja sérstaka áherslu á þátttöku nemenda og getu þeirra til aðgerða (Ingólfur Ásgeir Jóhannesson o.fl., 2008). Munurinn á umhverfismenntinni í árdaga hennar og hugsuninni á bak við menntun til sjálfbærrar þróunar er sá að umhverfismenntin byggðist á róttækri umhverfispólitík, en róttæknin í menntun til sjálfbærrar þróunar felst fremur í heildarhugsunarhætti um menntun. McKeown og Hopkins (2007) benda í þessu samhengi á að menntun til sjálfbærrar þróunar beini sjónum miklu fremur að manninum og möguleikum hans en umhverfismenntin hafi litið á manninn sem hluta af náttúrunni. Gadotti (2008) gengur enn lengra og bendir á að ekki sé nóg að tala um menntun til sjálfbærrar þróunar heldur verðum við að tala um menntun til sjálfbærra lífshátta. Sjálfbærir lífshættir feli í sér hvaða möguleika einstaklingar þurfi að vega og meta í daglegu lífi en sjálfbær þróun, eins og hún hefur verið skilgreind, snúist um hvernig aðstæður samfélagið skapar einstaklingnum nú og til framtíðar. Gruenewald (2004) horfir til baka og tilgreinir ástæður þess að umhverfismenntin hafi ekki náð þeirri fótfestu í almennu skólastarfi sem stefnt var að. Hann bendir meðal annars á að ef sjálfbær þróun verði gerð að sérstakri námsgrein geti farið fyrir henni eins og umhverfismenntinni – að verða sett undir hatt náttúrufræða og gleymast nema þar sem einstaka hugsjónakennari man eftir henni.

Á níunda áratugnum var fyrst talað um stoðir sjálfbærrar þróunar sem þrjá aðskilda þætti eða víddir (Brundtland, 1987). Hugtakið stoðir, sem er þýðing á enska hugtakinu pillars, er að einhverju marki afvegaleiðandi á íslensku því það vísar í sjálfstæðar einingar sem skapa nauðsynlega undirstöðu en ekki endilega samtengdar. Flestar skilgreiningar á sjálfbærri þróun eiga það sameiginlegt að taka mið af efnahagsmálum og þróun þeirra, velferð einstaklinga og samfélagsins sem þeir mynda og umhverfinu og hvernig við nýtum það (Huckle, 2005). Í riti frá Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO, 2006) eru kynntar áherslur SÞ um framkvæmd menntunar til sjálfbærrar þróunar sem aðildarlöndin hafa unnið að og samþykkt. Tilgreindar eru áherslur sem eiga að endurspeglast í námi og kennslu er stuðla að menntun til sjálfbærrar þróunar. Í ritinu segir að eftirfarandi atriði eigi að einkenna skólastarf:

  • Samþætt og heildstæð viðfangsefni frekar en nám í einstökum námsgreinum.

  • Umfjöllun um gildi og gildismat sem liggja sjálfbærri þróun til grundvallar.

  • Áhersla á gagnrýna hugsun og þrautalausnir, frekar en að læra utan að, og að styrkja sjálfstraust til að takast á við álitamál og áskoranir er tengjast sjálfbærri þróun.

  • Fjölbreyttar aðferðir sem byggjast t.d. á rituðu og töluðu máli, myndlist, leiklist, upplifun og skoðanaskiptum.

  • Þátttaka nemenda í ákvörðunum um hvað og hvernig þeir læra.

  • Viðfangsefni sem tengjast daglegu lífi nemenda (bæði í skóla og heima).

  • Málefni sem hafa þýðingu á heimsvísu eða heima fyrir en eru þó tengd reynsluheimi og nærumhverfi nemenda.

Með ofangreind atriði í huga verður í greininni rætt um hvaða ávinningur getur verið af því fyrir grunnskólastarf að hafa sjálfbæra þróun að leiðarljósi, eða gera hana að sýnilegu viðmiði eins og við höfum kosið að orða það. Við munum útskýra það sem við teljum grundvallarforsendur menntunar til sjálfbærrar þróunar. Þá verður sagt frá greiningarlykli sem var þróaður til að meta stefnumarkandi skjöl og helstu niðurstöðum greiningar á aðalnámskrá grunnskóla. Við ræðum hvaða áhrif við teljum að hugsunarháttur sjálfbærrar þróunar hafi á skólastarf og að lokum hvernig unnt er að gera sjálfbæra þróun að viðmiði í skólastarfinu.

Hvernig birtist sjálfbær þróun í skólastarfi?

Rannsóknar- og þróunarverkefnið GETA til sjálfbærni – menntun til aðgerða er þriggja ára verkefni sem unnið er að á vegum fræðafólks á Menntavísindasviði Háskóla Íslands og í Háskólanum á Akureyri og í samvinnu við átta leik- og grunnskóla. [1] Markmið verkefnisins eru annars vegar að efla rannsóknir á menntun til sjálfbærni og hins vegar að finna leiðir til að efla menntun til sjálfbærni á Íslandi.

Rannsóknarhópurinn sem undirbjó GETU-verkefnið skilgreindi þrjár forsendur sem menntun til sjálfbærrar þróunar byggist á (GETA, 2008). Þær eru að skapa og nýta þekkingu til stuðnings sjálfbærri þróun, skapa virðingu fyrir náttúru og manneskjum og efla ábyrgð á sameiginlegri framtíð okkar. Vinnan í skólum ætti því að byggjast á þessum þremur forsendum sem í raun beinast hver að ákveðnum vettvangi. Sú fyrsta, að efla þekkingu nemenda og kennara með námstækifærum, vísar í nám og kennslu, val á viðfangsefnum o.fl. Framkvæmdin birtist í formlegum sem óformlegum aðstæðum er auðvelda kennurum og nemendum að byggja upp þekkingu, t.d. um náttúruauðlindir og sjálfbæra þróun. Önnur forsenda er að hvetja til virðingar fyrir náttúru og samfélagi innan skólans. Hér er vísað í aðgerðir innan skólans sem efla virðingu fyrir mikilvægum gildum, lýðræðislegum starfsháttum og félagslegri þátttöku til að þróa sjálfbært verklag á Íslandi og annars staðar. Framkvæmdin birtist í stefnu skólans sem stofnunar, starfsháttum hvers konar og stjórnunarfyrirkomulagi. Þriðja forsendan, að hlúa að ábyrgðartilfinningu og hvetja til samstarfs milli stofnana, sérstaklega innan sveitarfélagsins á hverjum stað, vísar í það sem fer fram í nærumhverfinu. Framkvæmdin birtist í samvinnu skóla og annarra stofnana samfélagsins. Auk þess er víxlverkun milli forsendnanna mikilvæg. Áhersluna á þetta þrennt – námsumhverfi, stofnun og nærsamfélag – er að finna víðar (Rogan og Grayson, 2003; Scott, 2009).

Eru teikn um menntun til sjálfbærrar þróunar
í aðalnámskrá grunnskóla?

Einn fyrsti þáttur rannsóknarverkefnisins var að skoða og greina námskrár og önnur stefnumarkandi skjöl á þessu sviði (Ingólfur Ásgeir Jóhannesson o.fl., 2008; Auður Pálsdóttir, Björg Pétursdóttir, Gunnhildur Óskarsdóttir, Ingólfur Ásgeir Jóhannesson og Kristín Norðdahl, 2009). Mótaður var sjö þátta greiningarlykill út frá þremur sviðum sjálfbærrar þróunar eins og íslensk stjórnvöld útskýra hana í ritinu Velferð til framtíðar (Umhverfisráðuneytið, 2002, 2007), þ.e. efnahagsvexti, félagslegri velferð og jöfnuði, og vernd umhverfisins. Einnig voru markmið og ákvæði SÞ um áratug menntunar til sjálfbærrar þróunar notuð sem og kennslureynsla höfunda, t.d. í náttúrufræði, umhverfismennt, lífsleikni og samfélagsgreinum (Ingólfur Ásgeir Jóhannesson o.fl., 2008). Þættirnir sjö eru stuttlega skýrðir í 1. töflu (sjá einnig Auði Pálsdóttur o.fl., 2009; Kristínu Norðdahl, í prentun).

Tafla 1
Sjö þátta greiningarlykill um menntun til sjálfbærrar þróunar

1

Gildi, viðhorf og tilfinningar gagnvart náttúru og umhverfi
Talin vera kjarni umhverfisverndar og umhverfisvitundar fólks.

2

Þekking sem hjálpar til við að nota náttúruna skynsamlega
Náttúrufræðileg, félagsvísindaleg og tæknileg þekking til að vega og meta áhrif
af nýtingu á náttúrunni.

3 Velferð og lýðheilsa
Hugtök sem ná yfir almenna líðan fólks; fjalla um félagslega velferð, jöfnuð og lýðheilsu – eitt af þremur meginsviðum sjálfbærrar þróunar.
4 Lýðræði, þátttaka í samfélaginu, geta til aðgerða
Eflir sjálfstraust barna og færni í samskiptum, stuðlar að betri velferð, andlegri heilsu
og þátttöku í samfélaginu.
5 Jafnrétti og fjölmenning
Kynjajafnrétti og margbreytileiki mannlífs eru talin meðal forsendna menntunar
til sjálfbærrar þróunar.
6 Alþjóðavitund, hnattrænn skilningur
Eykur skilning á alþjóðlegum málefnum og hvetur til sameiginlegrar ábyrgðar
á jörðinni allri og íbúum hennar.
7 Efnahagsþróun og framtíðarsýn
Skilningur á efnahagsþróun og samhengi nútíðar og framtíðar.
Fræðsla um neytendamál í nútíð og framtíð.


Aðalnámskrá grunnskóla er það stefnuskjal sem móta á íslenskt grunnskólastarf öðrum fremur um hvað er kennt og hvernig starfshættir skulu viðhafðir (Menntamálaráðuneytið, 2006, 2007a, 2007b, 2007c, 2007d, 2007e, 2007f, 2007g, 2007h, 2007i, 2007j, 2007k, 2007l). Rannsóknarhópurinn greindi fá bein ákvæði um sjálfbæra þróun eða menntun til sjálfbærrar þróunar í námskránum. Hugtakið sjálfbær þróun kemur sjaldan fyrir en helst í námskrá í lífsleikni og í námskrám í hönnun og smíði og náttúrufræði og umhverfismennt. Niðurstöður greiningarinnar eru í skýrslu GETU-verkefnisins (Ingólfur Ásgeir Jóhannesson o.fl., 2008; Auður Pálsdóttir o.fl., 2009). Samantekt á helstu niðurstöðum fer hér á eftir.

1. Gildi, viðhorf og tilfinningar gagnvart náttúru og umhverfi

Greiningin á aðalnámskrá grunnskóla bendir til þess að töluverð áhersla sé lögð á gildi, viðhorf og tilfinningar gagnvart náttúru og umhverfi. Áherslan birtist þannig að nemendur eiga að læra að bera ábyrgð, njóta og virða náttúruna og efla siðferðisvitund. Einnig kemur fram áhersla á umburðarlyndi fyrir öllu lífi og umhverfi og siðferðisvitund sem stuðlar að ábyrgri umgengni. Nemendur eiga að þroska með sér skilning á hugtakinu sjálfbær þróun, gera sér grein fyrir gildi umhverfisverndar og verða þannig meðvitaðir um mikilvægi eigin framlags til að koma í veg fyrir og takast á við umhverfisspjöll. Einnig er tekið fram að mikilvægt sé að nemendur öðlist vilja til að lifa samkvæmt þessum áherslum.

2. Þekking sem hjálpar til við að nota náttúruna skynsamlega

Þekking er í aðalnámskrá grunnskóla talin forsenda þess að geta tekið ábyrgar ákvarðanir er varða náttúruna. Fram kemur að sjálfbær þróun tengist þeirri viðleitni að viðhalda vistfræðilegu jafnvægi. Athygli er beint að vísindalæsi nemenda og að nemendur geti lesið texta um náttúruvísindi og þannig mótað afstöðu til málefna líðandi stundar, ekki síst málefna sem tengjast nýtingu náttúruauðlinda, náttúruvernd og sjálfbærri þróun. Nemendur skulu læra um hvernig náttúra, samfélag og menning eru samofin heild sem taka verður tillit til við tæknilega hagnýtingu umhverfisins. Hlutverk þekkingar á hvers konar lífshættir stuðli að góðri umgengni við náttúruna er dregið fram, auk þáttar náttúruvísinda í menningu þjóða og nýtingu auðlinda og umhverfis.

3. Velferð og lýðheilsa

Fram kemur í námskránni að börn eigi að temja sér heilbrigða lífshætti og lífsviðhorf. Leggja beri, í samvinnu við heimilin, rækt við heilbrigði og hollar lífsvenjur. Lögð er áhersla á að nemendur öðlist jákvætt viðhorf til heilbrigðra neyslu- og lífshátta og átti sig á þeirri ábyrgð sem hver einstaklingur ber á eigin lífi og heilsu.

4. Lýðræði, þátttaka í samfélaginu, geta til aðgerða

Fjöldi markmiða beinist að því að börn og unglingar efli sjálfsmynd sína, sjálfstraust og félags- og samskiptafærni og að þau læri að tjá skoðanir sínar. Áhersla er á gagnrýna hugsun, umburðarlyndi og virkan þátt barna og unglinga í lýðræðislegum vinnuháttum. Eftir því sem ofar dregur í skólakerfinu eykst áhersla á skilning og færni nemenda á þessu sviði. Nemendur skulu öðlast færni í að takast á við siðferðileg álitamál, efla félagsþroska sinn og borgaravitund, siðvit og virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum. Einnig eiga nemendur að öðlast víðsýni og samfélagslega yfirsýn sem gerir þeim kleift að skilja og virða reglur samfélagsins, fóta sig og beita sér í mannlegu samfélagi og náttúru.

5. Jafnrétti og fjölmenning

Jafnrétti er almennt áhersluatriði í aðalnámskrá grunnskóla. Tekið er fram að ekki sé ástæða til að allir vinni það sama heldur að nemendur fái jafngild tækifæri. Í mörgum heftum aðalnámskrárinnar segir að í grunnskólum beri að efla menningarvitund Íslendinga og virðingu fyrir menningu annarra þjóða, siðum og venjum. Eftir því sem ofar dregur í grunnskólanum er áréttað mikilvægi þess að þekkja til kynþáttafordóma og annarrar mismununar. Þá má nefna að í námskránni er komið inn á að innflytjendur þurfi að geta haldið tengslum við menningu sína og tungumál. Þótt ákvæðin séu ekki róttæk á þessu sviði gefa þau færi á að fást við viðfangsefni sem stuðla að jafnrétti og fjölmenningu.

6. Alþjóðavitund, hnattrænn skilningur

Ákvæði um alþjóðavitund eða hnattrænan skilning eru frekar fá en mikilvæg og birtast flest í námskrám um lífsleikni og samfélagsgreinar. Þar kemur fram að nemendur eigi að þroska með sér alþjóðavitund og skilning á grundvallarmannréttindum, öðlast vilja til að lifa samkvæmt áherslum af þessum toga og taka þátt í að móta vistvænan heim. Enn fremur er fjallað um nauðsyn á aðstoð við þróunarlönd og skilning á mannréttindum og virðingu fyrir skoðunum og lífsgildum annarra. Íslendingar eru hluti af samfélagi þjóða og eiga að vera meðvitaðir um mannlegar ákvarðanir og gjörðir sem hafa áhrif á sameign allra jarðarbúa. Einnig er fjallað um úrlausnarefni samtímans og mikilvægi þess að auka skilning nemenda á gildi umhverfisverndar heima og á heimsvísu og að tengja sögu heimabyggðar við sögu Íslands og sögu Íslands við heiminn í heild. Þá eiga nemendur að kynnast alþjóðlegum sáttmálum og skuldbindingum sem Íslendingar hafa samþykkt og fjalla á um íslenskt samfélag í alþjóðlegu samhengi með tilliti til fjölmenningar og alþjóðavæðingar.

7. Efnahagsþróun og framtíðarsýn

Vísbendingar um áherslu á að þroska framtíðarsýn barna og unglinga eru ekki skýrar í aðalnámskrá grunnskóla en lesa má sitthvað á milli línanna. Í henni segir að nemendur eigi að þekkja og hafa innsýn í það að vera neytendur í flóknu og margbreytilegu samfélagi, auk þess að þekkja og hafa innsýn í fjármálaumhverfi einstaklinga og samfélags og að þeir eigi að verða færir um að taka ábyrga afstöðu í eigin fjármálum. Þannig eigi þeir t.d. að öðlast innsýn í áhrif tækni á samfélagið og umhverfið og hvernig upplýsingatækni og sjálfvirkni geti breytt störfum, skapað ný tækifæri, minnkað tilkostnað, aukið þjónustu og bætt aðstæður fólks. Nemendur eiga m.a. að öðlast skilning á menningu, hugarfari, efnahagslífi, tækni og stjórnmálum. Þeir eiga að gera sér grein fyrir mikilvægi samskipta Íslands við útlönd og leitast við að túlka fortíð, skilja nútíð og mæta og móta framtíð. Enn fremur eiga nemendur að skoða möguleika Íslands í alþjóðlegu samstarfi.

Þarf að hugsa skólastarfið á annan hátt?

Eins og fram er komið eru ákvæði um menntun til sjálfbærrar þróunar í aðalnámskrá grunnskóla fá, sé litið til beinna ákvæða, en mun fleiri sé námskráin skoðuð með hliðsjón af greiningarlyklinum. Því er óhætt að túlka námskrána þannig að hún veiti kennurum nokkra leiðbeiningu á þessu sviði (Auður Pálsdóttir o.fl., 2009), leiðbeiningu sem þó er háð því að skólarnir og kennararnir túlki námskrána með hliðstæðum hætti og við gerum hér. En hvaða viðmið getum við sett okkur til að fá skýrari leiðbeiningu um þetta víðfeðma viðfangsefni, sjálfbæra þróun, í skólastarfi? Hvað viljum við sjá í skóla sem leggur grunn að skólastarfi í anda sjálfbærni, því að skapa og nýta þekkingu til stuðnings sjálfbærri þróun, skapa virðingu fyrir náttúru og manneskjum og efla ábyrgð fyrir sameiginlegri framtíð okkar? [2]

Skólastarf sem miðar að því að þróa þekkingu fyrir og um sjálfbæra þróun fer fram bæði í formlegum og óformlegum aðstæðum. Ef rifjaðar eru upp áherslur SÞ, sem gerð er grein fyrir framar í greininni, ætti þekkingaröflunin ekki síst að byggjast á samþættum viðfangsefnum, þar sem beitt er fjölbreyttum aðferðum, og virkri þátttöku nemenda um hvað og hvernig þeir læra. Þrautalausnir og viðfangsefni úr daglegu lífi barnanna ættu að hafa forgang sem svo yrði grunnur að samanburði við það sem er að gerast í heimabyggð, á landsvísu og á fjarlægari stöðum. Þekking í vistfræði og um hringrásir náttúrunnar og mikilvægi þeirra fyrir umhverfið eru dæmi sem hjálpa til við að greina samhengi mannlegra athafna og náttúru. Áhersla yrði á að nemendur kynnist náttúru og umhverfi skólans af eigin raun, upplifi umhverfi sitt og beri á því ábyrgð á einhvern hátt. Nemendur lærðu um heilsusamlega lífshætti, vönduð samskipti og jafnan rétt allra til að láta sér líða vel. Framkvæmdin gæti falið í sér gróðursetningu trjáa og aðra ræktun á skólalóðinni, almenna umhirðu og hreinsun skólalóðarinnar eða nálægra svæða, uppgræðslu og jarðvegsgerð. Einnig mætti skoða vatnsverndarsvæði í heimabyggð og finna leiðir til vatnssparnaðar í skólanum. Fjalla yrði um forsendur líkamlegs og andlegs heilbrigðis og þjálfa færni sem styrkir sjálfsmynd og getu í samskiptum við aðra.

Skólastarf sem stuðlar að virðingu fyrir náttúru og samfélagi byggist á lýðræðislegum vinnubrögðum og því að sköpuð sé félagsleg heild án aðgreiningar. Virðingin ætti að birtast í skýrri stefnu skólans, öllum starfsháttum og stjórnun. Þannig er mikilvægt að fjallað verði um eldfim mál og ágreiningsmál tekin til skoðunar þar sem tækifæri gefast á að vega og meta ýmis sjónarhorn um náttúru og samfélag. Einnig er mikilvægt að nemendur hafi val um viðfangsefni sín og vinnulag, taki þátt í ákvörðunum um stefnu skólans og vali á leiðum við framkvæmd. Framkoma nemenda og starfsmanna þarf t.d. að stuðla að því að nemendur finni til öryggis og þeir tileinki sér öruggt háttalag. Framkvæmd gæti falið í sér starfshætti sem byggjast á lýðræðislegum vinnubrögðum þar sem rödd nemenda hefði vægi í stjórnun skólans, við gerð skólareglna og bekkjarreglna. Daglegt skólastarf þyrfti að einkennast af virðingu fyrir umhverfinu, t.d. með endurnýtingu hluta, flokkun sorps og öðrum aðgerðum sem vinna gegn sóun. Einnig er mikilvægt að nemendum sé auðveldað að taka upp heilsusamlega neyslu- og lífshætti, svo sem með hollum skólamáltíðum fyrir alla og reglulegri daglegri hreyfingu.

Aðgerðir sem stuðla að tilfinningu fyrir sameiginlegri ábyrgð á framtíð okkar hljóta að felast í samstarfi milli stofnana í nærumhverfinu og hvatningu skóla og annarra stofnana til að deila ábyrgð á sjálfbærum lífsgæðum. Skoða mætti áhrif og samhengi mannlegra athafna og náttúru, t.d. hvernig atvinnulíf hefur valdið röskun í umhverfinu, birtingarmyndir mengunar og úrræði til bóta. Til að kynnast líðan fólks og aðstæðum bæði nær og fjær má t.d. bera saman aðstæður barna á Íslandi og í þróunarríkjum. Framkvæmd gæti falið í sér heimsóknir í fyrirtæki þar sem skoðað er hvernig umhverfismálum er sinnt, s.s. meðferð skaðlegra efna, flokkun á sorpi og frárennsli, en það eru hagnýt viðfangsefni sem tengja reynsluheim barnanna við atvinnulíf. Einnig gætu nemendur kynnt sér og tekið þátt í starfi stofnana og samtaka, t.d. Rauða krossins og Mæðrastyrksnefndar, eða starfi SOS-barnaþorpa og ABC-hjálparstarfsins sem snýst um að bæta hag bágstaddra barna víða um heim. Yfirsýn af þessum toga fæst varla öðruvísi en að flest viðfangsefnin verði samþætt þvert á námsgreinar.

Sjálfbær þróun sem viðmið í skólastarfi

Menntun til sjálfbærni er í senn nýtt viðfangsefni fyrir skóla en einnig samofin úr fjölmörgu sem er í aðalnámskrá grunnskóla eins og greiningin leiddi í ljós. Spyrja mætti hvers vegna það sé ekki nóg að fengist sé við viðfangsefnin – af hverju sjálfbær þróun þurfi að verða sýnileg sem viðmið í námskrám og skólastarfi. Við teljum að það sé vegna mikilvægis málsins, vegna þess að þegar litið er til opinberra stefnuskjala stjórnvalda, bæði íslenskra stjórnvalda og alþjóðlegra samtaka, sjáist að sjálfbær þróun er eitt af forgangsmálum sem mannkyn þarf að beita sér fyrir. Markmiðið er að breyta viðhorfum og hegðun fólks þannig að samfélög verði sjálfbærari og réttlátari fyrir alla (UNESCO, e.d.). Mikilvægt er að átta sig á að menntun til sjálfbærrar þróunar er þess eðlis að henni verður ekki sinnt með viðunandi hætti þar sem viðfangsefnin eru slitin í sundur eftir margskiptri stundaskrá eða þar sem þröng sjónarmið einstakra fræðigreina ráða ferðinni. Ef sjálfbær þróun er aftur á móti gerð að viðmiði við val á viðfangsefnum í mörgum námsgreinum er líklegt að árangur náist og heildarsýn skapist. Þannig væri hægt að þróa námsferli innan skólans sem byggjast á stíganda og samfellu, bæði fyrir nemendur og allt starfsfólk (Wheeler, 2007).

Ef gera á sjálfbæra þróun að viðmiði og byggja skólaþróun á slíkri hugsun verður að móta sjálfsmatsaðferðir skólans í samræmi við það. Hvað merkir þetta fyrir skipulag og viðfangsefni sjálfsmats í skólum? Í fyrsta lagi þarf í sjálfsmati skólans að beina sjónum að inntaki náms og kennslu, t.d. hvað og hvernig er kennt, hvernig námsmat er unnið og hvernig námsaðstæður eru skipulagðar. Spyrja þarf hvort viðfangsefni nemenda byggist á því að auka þekkingu um sjálfbæra þróun. Í öðru lagi þarf í sjálfsmati skólans að skoða stefnu skólans, starfshætti hans og stjórnun. Spyrja þarf hvort í skólanum í heild sé stuðlað að virðingu gagnvart náttúru og samfélagi. Í þriðja lagi þarf að skoða hvort raunverulega sé hvatt til samstarfs við stofnanir og fyrirtæki í nærumhverfi skólans sem stuðlað geti að tilfinningu fyrir sameiginlegri ábyrgð á stöðu og þróun mála. Scott (2009) tekur undir þessi sjónarmið en bætir við að hlutverk menntunar til sjálfbærni felist í að virkja gagnrýna hugsun þar sem fengist er við ýmiss konar álitamál.

En hvar á að hefjast handa og hvernig? Lögbundin verkefni skóla eru að semja skólanámskrá, stunda sjálfsmat og gera símenntunaráætlun. Þetta þrennt á að vera samtengt en það er val hvers skóla á hverju hann byrjar. Mikilvægt er við endurskoðun skólanámskrár að draga fram það fjölmarga sem vel er gert í skólum. Einnig væri hægt að vinna að símenntunaráætlun starfsfólksins til að styrkja skólana til að fást við menntun til sjálfbærrar þróunar, svo breytt viðhorf og hegðun komi sem fyrst fram í daglegu starfi skólanna. Með tíð og tíma er þannig þörf á að leggja mælistiku menntunar til sjálfbærrar þróunar á alla þætti skólastarfsins, endurskoða nám og kennslu, starfshætti og stjórnun og tengsl við nærumhverfið.

Viðráðanleg skref í endurskoðun skólanámskrár um nám og kennslu gætu t.d. falist í að máta greiningarlykilinn með þáttunum sjö við inntak og uppbyggingu skólanámskrárinnar. Eins mætti standa á sjónarhóli þekkingar, virðingar og ábyrgðar og sjá hvað er vel gert og hvar má bæta í námsumhverfi, í skólanum sem stofnun og í samvinnu við nærsamfélagið. Markmiðið er ekki að kollsteypa skólastarfinu heldur þróa það og skapa heildstæða sýn á menntun sem er til sjálfbærrar þróunar, menntun sem skapar réttlátara samfélag, ekki bara einhvern tíma í framtíðinni heldur strax í dag.

Aftanmálsgreinar

  1. Verkefnið GETA til sjálfbærni – menntun til aðgerða nýtur rannsóknarstyrks frá Umhverfis- og orkurannsóknasjóði Orkuveitu Reykjavíkur. Unnið var með átta leik- og grunnskólum að þróunarstarfi veturinn 2008–2009. Vorið 2009 voru enn fremur tekin rannsóknarviðtöl við 25 skólastjórnendur og kennara sem tóku þátt í verkefninu. Auk höfundanna þriggja eru í rannsóknarhópnum Björg Pétursdóttir, Caitlin Wilson, Erla Kristjánsdóttir, Eygló Björnsdóttir, Gunnhildur Óskarsdóttir, Karólína Einarsdóttir, Kristín Norðdahl, Mary Frances Davidson, Stefán Bergmann, Steinunn Geirdal, Svanborg Rannveig Jónsdóttir, Þóra Bryndís Þórisdóttir og Þórunn Reykdal. Framsetning efnis og sjónarmið sem eru sett fram í greininni eru á ábyrgð höfunda.

  2. Hugmyndir að framkvæmd sem kynntar eru hér á eftir byggjast á reynslu höfunda en einnig var leitað fanga í ritinu Umhverfismennt (Þorvaldur Örn Árnason, 1998) og handbókinni Ein jörð fyrir alla um ókomna tíð (Margrét Júlía Rafnsdóttir, 2005).

 

Heimildir

Auður Pálsdóttir, Björg Pétursdóttir, Gunnhildur Óskarsdóttir, Ingólfur Ásgeir Jóhannesson og Kristín Norðdahl. (2009). Hvað þurfa einstaklingar að geta í sjálfbæru samfélagi framtíðarinnar? Í Gunnar Þór Jóhannesson og Helga Björnsdóttir (ritstj.), Rannsóknir í félagsvísindum X. Félags- og mannvísindadeild. Erindi flutt á ráðstefnu í október 2009 (bls. 17–27). Reykjavík: Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands.

Brundtland, Gro Harlem (ritstjóri). (1987). Our Common Future. New York: Oxford University Press and World Commission on Environment and Development.

Gadotti, Moacir. (2008). What We Need to Learn to Save the Planet. Journal of Education for Sustainable Development, 2, 21–30.

[GETA]. (2008). Upplýsingar um rannsóknar- og þróunarverkefni GETU 2007–2010. Sótt 23. september 2009 af http://skrif.hi.is/geta/files/2009/02/p0_300408.pdf.

Gruenewald, David A. (2004). A Foucauldian analysis of environmental education: Toward the socioecological challenge of the Earth Charter. Curriculum Inquiry, 34, 71–107.

Huckle, John. (2005). Education for sustainable development. A briefing paper for the Teacher Training Agency. Sótt 1. september 2009 af http://www.ttrb.ac.uk/attachments/5ecda376-6e78-43b1-a39b-230817b68aa4.doc.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, Kristín Norðdahl, Auður Pálsdóttir, Björg Pétursdóttir, Eygló Björnsdóttir, Gunnhildur Óskarsdóttir og Þórunn Reykdal. (2008). Andi sjálfbærrar þróunar í námskrám og menntastefnu — náum honum til jarðar. Reykjavík: Kennaraháskóli Íslands. Sótt 10. ágúst 2009 af http://skrif.hi.is/geta/files/2008/05/p4_300408.pdf.

Kristín Norðdahl. (Í prentun). Menntun til sjálfbærrar þróunar – í hverju felst hún? Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun.

Margrét Júlía Rafnsdóttir. (2005). Ein jörð fyrir alla um ókomna tíð. Vegvísir í umhverfismennt fyrir grunnskóla. Reykjavík: Námsgagnastofnun.

McKeown, Rosalyn og Hopkins, Charles. (2007). Moving beyond the EE and ESD disciplinary debate in formal education. Journal of Education for Sustainable Development, 1, 17–26.

Menntamálaráðuneytið. (2006). Aðalnámskrá grunnskóla. Almennur hluti. Reykjavík: Höfundur.

Menntamálaráðuneytið. (2007a). Aðalnámskrá grunnskóla. Erlend mál. Reykjavík: Höfundur.

Menntamálaráðuneytið. (2007b). Aðalnámskrá grunnskóla. Heimilisfræði. Reykjavík: Höfundur.

Menntamálaráðuneytið. (2007c). Aðalnámskrá grunnskóla. Hönnun og smíði. Reykjavík: Höfundur.

Menntamálaráðuneytið. (2007d). Aðalnámskrá grunnskóla. Íslenska. Reykjavík: Höfundur.

Menntamálaráðuneytið. (2007e). Aðalnámskrá grunnskóla, Íþróttir, líkams- og heilsurækt. Reykjavík: Höfundur.

Menntamálaráðuneytið. (2007f). Aðalnámskrá grunnskóla. Kristin fræði, siðfræði og trúarbragðafræði. Reykjavík: Höfundur.

Menntamálaráðuneytið. (2007g). Aðalnámskrá grunnskóla. Listgreinar. Reykjavík: Höfundur.

Menntamálaráðuneytið. (2007h). Aðalnámskrá grunnskóla. Lífsleikni. Reykjavík: Höfundur.

Menntamálaráðuneytið. (2007i). Aðalnámskrá grunnskóla. Náttúrufræði og umhverfismennt. Reykjavík: Höfundur.

Menntamálaráðuneytið. (2007j). Aðalnámskrá grunnskóla. Samfélagsgreinar. Reykjavík: Höfundur.

Menntamálaráðuneytið. (2007k). Aðalnámskrá grunnskóla. Stærðfræði. Reykjavík: Höfundur.

Menntamálaráðuneytið. (2007l). Aðalnámskrá grunnskóla. Upplýsinga- og tæknimennt. Reykjavík: Höfundur.

Rogan, John M. og Grayson, Diane J. (2003). Towards a theory of curriculum implementation with particular reference to science education in developing countries. International Journal of Science Education, 25, 1171–1204.

Scott, William. (2009). Judging the effectiveness of a sustainable school: A brief exploration of issues. Journal of Education for Sustainable Development, 3, 33–39.

Umhverfisráðuneytið. (2002). Velferð til framtíðar. Sjálfbær þróun í íslensku samfélagi. Stefnumörkun til 2020. Reykjavík: Höfundur.

Umhverfisráðuneytið. (2007). Velferð til framtíðar. Sjálfbær þróun í íslensku samfélagi. Áherslur 2006–2009. Reykjavík: Höfundur.

UNESCO (United Nations Educational, Scientific and Cultural Organization). (2006). Framework for the UNDESD. International Implementation Scheme. París: UNESCO Education Sector.

UNESCO (United Nations Educational, Scientific and Cultural Organization). (e.d.). UN Decade of Education for Sustainable Development. Sótt 20. september 2009 af http://cms01.unesco.org/en/esd/decade-of-esd/.

Wheeler, Keith A. (2007). Learning for deep change. Journal of Education for Sustainable Development, 1, 45–50.

Þorvaldur Örn Árnason. (1998). Umhverfismennt. [Án útgáfustaðar]: Aðstoð.