Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun

Menntavísindasvið Háskóla Íslands
 

Ritrýnd grein birt 1. desember 2009

Greinar 2009

Jóhanna Einarsdóttir

„Frábær skólaföt á hressa krakka!“

Rannsókn á umfjöllun fjölmiðla um börn
við upphaf grunnskólagöngu

Markmið rannsóknarinnar var að varpa ljósi á hverjir fjalla um grunnskólabyrjun og flutning úr leikskóla í grunnskóla í fjölmiðlum, hvernig grunnskólabyrjunin er kynnt og hvaða sýn á börn endurspeglast í fjölmiðlum. Fréttaflutningi, umræðum og textum um grunnskólabyrjunina var safnað úr fréttum og fréttatengdum þáttum í Ríkissjónvarpi, Stöð 2, hljóðvarpi, dagblöðum og tímaritum haustið 2008. Orðræðugreiningu var beitt til að rannsaka og greina gögnin. Niðurstöður sýna að auglýsendur taka mikið rúm í fjölmiðlum, umfjöllun um skólaföt, skólatöskur og skólavörur ýmiskonar var áberandi. Fjölmiðlafólk er jafnframt áhrifamikið og velur það sem fjallað er um. Raddir barna, foreldra og skólafólks heyrðust sjaldan. Undantekning var umfjöllun um skort á plássi á frístundaheimilum sem foreldrar settu svip sinn á. Litið var á foreldra sem mikilvæga stuðningsaðila fyrir börn sín. Þeir voru hvattir til að undirbúa börnin fyrir grunnskólagönguna m.a. með því að þjálfa þau til sjálfsbjargar og í að fara eftir fyrirmælum. Ekki var lögð áhersla á stuðning félaga eða á samfellu og tengsl skólastiganna. Greina mátti fjölbreytt viðhorf til barna en mest áberandi var sýn á börn sem saklaus og varnarlaus. Þetta viðhorf endurspeglaðist í myndefni, ráðleggingum til foreldra, umfjöllun um þær hættur, sem stafa af umferðinni og umfjöllun um gæslu barna á frístundaheimilum eftir að skóla lýkur.

Jóhanna Einarsdóttir er prófessor í menntunarfræði ungra barna og eigindlegri aðferðafræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

"Great school clothes for lively childrenl"
Study on media discussion about children starting primary school

The aim of the study was to shed light on what groups discuss children starting primary school and the transition from playschool to primary school in Icelandic mass media. The study also seeks to explore how starting primary school is presented and what views of children are reflected in the media. News coverage, discussions, and texts about starting school were generated from the following sources: television news and news related programs at two of the major television channels; radio news and news related programs on the radio; three major national newspapers; as well as in magazines and local papers. Content analysis was used to systematic categorize and analyze the data. The results show that advertisers take a great deal of space in the media, such as in discussions about school clothes, school bags, and school supplies. Media personnel were influential as they choose what is covered in the media. The voices of children, parents, and school professionals were seldom heard. Exceptions were discussions about shortage of spaces in after- school centers, a discussion that parents were active in. Parents were seen as important supporters of their children. They were encouraged to prepare them to start primary school by training them for self-reliance and following instructions. No emphasis was placed on support of peers or on continuity between the two school levels. Diverse views on children were noted with the most notable the view of children as innocent and in need of protection. This view was noted in photos, in advice given to parents, in discussions about the danger in traffic, as well as in discussions about looking after children in after-school centers.

Dr. Jóhanna Einarsdóttir is a Professor of Early Childhood Education at School of Education, University of Iceland.


Inngangur

Upphaf grunnskólagöngunnar markar mikilvæg tímamót í lífi ungra barna og fjölskyldna þeirra. Þótt flest börn hafi verið í leikskólum um árabil er grunnskólabyrjunin í hugum barna og foreldra tími breytinga og verulegra umskipta og upphafið á nýju tímabili í lífi þeirra. Töluverðar breytingar verða á högum fjölskyldna er börnin hefja grunnskólagöngu og þurfa margir foreldrar að skipuleggja daglegar venjur sínar að nýju (Sigurborg Sturludóttir og Jóhanna Einarsdóttir, 2008). Rannsóknir benda til þess að blendnar tilfinningar bærist í brjósti foreldra þegar barn þeirra hættir í leikskóla og byrjar í grunnskóla. Þótt margir foreldar finni fyrir stolti og tilhlökkun á þessum tímamótum eru einnig margir áhyggjufullir og kvíða því að barnið þeirra muni eiga erfitt með að aðlagast þeim breytingum sem fylgja því að byrja í grunnskóla og þeim kröfum sem þar eru gerðar (Jóhanna Einarsdóttir, 2007; Sigurborg Sturludóttir og Jóhanna Einarsdóttir, 2008).

Rannsóknir benda til þess að börn hafi í mörgum tilvikum mótað sér fyrir fram ákveðna mynd af því sem gerist í grunnskólanum (Jóhanna Einarsdóttir, 2003, 2007). Þau gera ráð fyrir hefðbundnu kennslufyrirkomulagi þar sem kennarinn miðlar þekkingu til nemenda og börnin sitja hljóð við borð. Þau reikna með að lítið sé um leik og frjálsræði eins og í leikskólanum heldur sé áhersla lögð á kennslu í lestri, skrift og reikningi. Þegar leikskólabörn hafa verið spurð um væntanlega grunnskólagöngu má greina bæði eftirvæntingu og kvíða í svörum þeirra. Sum eru full eftirvæntingar að takast á við ný viðfangsefni og kynnast nýju fólki en önnur hafa áhyggjur af því að takast á við óþekkta hluti, m.a. af samskiptum við önnur börn og skólastjórann, eða að kunna ekki það sem til er ætlast. Leiða má líkur að því að þessi viðhorf og væntingar barnanna mótist í samspili þeirra við mikilvæga aðila í umhverfi þeirra, svo sem foreldra, eldri systkini, önnur börn, afa og ömmur. Áhrif fjölmiðla á viðhorf og væntingar barnanna til skólagöngunnar verða heldur ekki undanskilin.

Fjölmiðlar eru mikilvægur þáttur í tilveru barna nú um stundir og partur af félagslegu umhverfi þeirra. Berns (2004) lítur á fjölmiðla sem hluta af nærkerfi (e. microsystem) barna og mikilvægan þátt í félagsmótun þeirra. Aðrir hafa beint athyglinni að fjölmiðlum sem félagslegu fyrirbæri sem hvort tveggja í senn er orsök og afleiðing félagslegra breytinga. Fjölmiðlar endurspegla menningarbundnar hugmyndir, norm og ríkjandi orðræðu í samfélaginu og viðhalda þannig ríkjandi viðhorfum. Jafnframt er þáttur þeirra í mótun skoðana og viðhorfa viðurkenndur (McLuhan, 2002). Stundum er jafnvel talað um fjölmiðla sem fjórða valdið sem getur haft áhrif á skoðana- og viðhorfamótun í samfélaginu sem með tíð og tíma leiðir til breytinga á samfélaginu sjálfu (Menntamálaráðuneytið, 2001). Tilgangur þeirrar rannsóknar, sem um er fjallað í þessari grein, var að varpa ljósi á hvernig fjölmiðlar fjalla um þau mikilvægu tímamót í lífi barna og fjölskyldna þeirra þegar börn hætta í leikskóla og byrja í grunnskóla.

Mikilvægir þættir við upphaf grunnskólagöngu

Líf barna verður ekki skilið nema í samhengi við félagslegt umhverfi þeirra. Graue og Walsh (1998) hafa bent á að börn séu hluti af umhverfi sínu og verði fyrir áhrifum af því á sama hátt og umhverfið verður fyrir áhrifum af návist þeirra. Börn og umhverfi þeirra móta hvert annað. Bronfenbrenner lagði áherslu á að litið væri á barnið út frá heildrænu samhengi (Bronfenbrenner, 1977; Bronfenbrenner og Morris, 1998). Hann skilgreindi nærkerfi sem það svæði sem næst er einstaklingnum, þ.e. heimilið, nágrennið, grunnskólinn og leikskólinn, og millikerfi sem felur í sér samskipti og tengsl milli þessara nærkerfa. Tengsl og samspil þessara kerfa er talið hafa áhrif á hvernig til tekst með flutning barna úr leikskóla í grunnskóla (Dunlop og Fabian, 2002; Rimm-Kaufman og Pianta, 2000).

Flestar rannsóknir, sem gerðar hafa verið á því hvernig til tekst við upphaf grunnskólagöngu og flutning barna frá leikskóla í grunnskóla, benda til þess að samvinna einstaklinganna í hverju kerfi geti skipt sköpum. Fyrst má nefna að félagar og félagsleg tengsl eru börnum mjög mikilvæg á þessu tímabili. Börn sem byrja grunnskólagönguna með vinum sínum eða þekkja einhvern í skólanum hafa jákvæðari mynd af skólanum og aðlagast skólaumhverfinu betur en börn sem hafa ekki slík tengsl. Félagar veita stuðning og umhverfi grunnskólans verður ekki eins ógnvekjandi. Einnig hefur komið fram að börn sem mynda vinatengsl við upphaf grunnskólagöngunnar og halda þeim aðlagast betur en þau sem gera það ekki eða er hafnað af skólafélögum.

Í öðru lagi má nefna þátt foreldranna, en niðurstöður rannsókna benda til þess að jákvæð viðhorf og afstaða foreldra gagnvart skólanum, þátttaka þeirra í skólastarfinu og jákvæð samskipti við skólann hafi áhrif á velgengni barna og vellíðan í skólanum (Eldridge, 2001; Epstein, 2001; Whalley, 2006). Á þeim tímamótum, þegar börn hefja grunnskólagönguna, er þáttur foreldra jafnvel enn þýðingarmeiri. Foreldrarnir eru mikilvægir stuðningsaðilar fyrir börn sín auk þess sem þeir skapa samfellu milli leikskólans, heimilis og grunnskólans. Þeir veita kennurum upplýsingar um reynslu barnsins, þroska og þarfir og þeir verða meðvitaðri en ella um kröfur skólans og geta miðlað þeim til barna sinna (Dockett og Perry, 2007; Jóhanna Einarsdóttir, 2007).

Þriðji þátturinn, sem virðist skipta máli til að vel takist til við upphaf grunnskólagöngunnar, er tengsl og samfella milli skólastiganna. Börn sem hefja grunnskólagöngu sína nú um stundir hafa þegar töluverða reynslu af leikskólanum sem samkvæmt íslenskum lögum er skilgreint sem fyrsta skólastigið. Nær öll íslensk börn hafa verið í leikskóla, þegar þau byrja í grunnskóla, og sum hver í sjö til átta tíma á dag í allt að fjögur ár (Hagstofa Íslands, 2009). John Dewey (2000a; 2000b) taldi að allt nám ætti sér stað með tilstyrk reynslu og talaði um „frumregluna um óslitinn þráð reynslunnar“ (Dewey, 2000b, bls. 38) sem þýðir að samfella þarf að vera í reynslu barna þannig að athafnir og upplifanir byggi á því sem börnin hafa áður fengist við og reynt. Þannig þurfi skólastarf að taka mið að þeirri reynslu sem börnin komi með í skólann til að þau geti byggt upp reynslu sem sé þeim einhvers virði. Í samræmi við þessi sjónarmið hefur Efnahags- og framfarastofnun Evrópu (OECD) í nýlegum skýrslum um menntun ungra barna lagt áherslu á mikilvægi samfellu í námi barna frá fæðingu til átta ára aldurs (OECD, 2001, 2006). Þannig skuli það sem barn hefur lært heima eða í leikskóla gagnast því í grunnskólanum þar sem byggt sé ofan á reynslu og þekkingu barnsins.

Viðhorf til barna

Hugmyndir um börn og bernskuna hafa tekið breytingum í áranna rás samfara nýrri þekkingu (sjá Jóhönnu Einarsdóttur, 2008). Það viðhorf að börn séu góð í eðli sínu á rætur sínar að rekja til Rousseaus sem leit svo á að börn væru fædd saklaus og góð og það sem þau gerðu rangt væri hinum fullorðnu og umhverfinu að kenna. Hann leit svo á að barnið væri hluti af náttúrunni og myndi vaxa og þroska með sér gleði, hreinleika og gæsku ef það yrði ekki fyrir óhollum áhrifum (Lowe, 2004; Myhre, 2001). Andstætt þessari sýn er það viðhorf sem gerir ráð fyrir að barnið sé við fæðingu í eðli sínu slæmt eða að minnsta kosti í þörf fyrir breytingu til batnaðar. Það sé því skylda foreldra og kennara að berja niður slæma eiginleika barnsins og aga það. John Locke notaði myndlíkinguna „óskrifað blað“ (tabula rasa) um nýfætt barnið sem síðan er mótað af umhverfi sínu (Myhre, 2001). Ef þessi líking er tekin bókstaflega þá er litið svo á að barnið byrji lífið með ekkert í pokahorninu, hugur barnsins er eins og óskrifað blað sem bíður eftir að vera fyllt af þekkingu og staðreyndum lífsins.

Kenningar í þróunarsálfræði sem fram komu á fyrri hluta 20. aldar hafa verið lífseigar og haft mikil áhrif á hvernig litið er á börn, einkum kenningar Gesells og síðar Piagets. Samkvæmt þessum kenningum er litið svo á að þroski barna sé áskapaður og að barnið vaxi og þroskist samkvæmt fyrir fram ákveðnum lögmálum eða stigum. Á undanförnum áratugum hefur komið fram töluverð gagnrýni á þær hugmyndir að börn þroskist eftir ákveðnum líffræðilegum stigum og feti sig smám saman í átt að fullum þroska, í stað þess að gera einnig ráð fyrir áhrifum náms á þroska og áhrifum umhverfis og samskipta í námi barna. Þessi sýn er einnig talin þeim takmörkunum háð að litið sé á ung börn sem óþroskuð og að þau hafi hvorki forsendur eða þroska til að láta í ljósi skoðanir sínar á umhverfi sínu. Sjónarmið ungra barna hafi þar af leiðandi verið hundsuð vegna þess að gert sé ráð fyrir að þau séu ekki fær um að mynda sér skoðanir eða láta þær í ljósi (Dahlberg, Moss og Pence, 1999; Lee og Johnson, 2007; Smith og Taylor, 2000; Walsh, 2005).

Flestir geta tekið undir það sjónarmið að börn séu saklaus og varnarlaus og hafi þörf fyrir vernd og leiðsögn fullorðinna. Í Samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins (1989) er lögð áhersla á öryggi barna og rétt þeirra til að njóta verndar og leiðsagnar fullorðinna. Opin umræða um misnotkun á börnum hefur beint augum fólks að varnarleysi barna og hættunum sem víða leynast. Hefur það haft í för með sér að fólk er orðið mjög meðvitað um allt hið skaðlega sem getur hent börn og varúðarráðstafanir eru gerðar til að fyrirbyggja að börn verði fyrir slysum eða að eitthvað annað slæmt hendi þau (Mills, 2000). Að undanförnu hefur verið sett spurningarmerki við hvernig þessi sýn á bernskuna og börn sem saklaus í þörf fyrir vernd hefur verið túlkuð. Bent hefur verið á að þekkingarskortur barna, varnarleysi og sakleysi geti komið þeim í vanda, t.d. varðandi kynferðislega misnotkun. Einnig hefur því verið haldið fram að með því að halda frá börnum öllu því sem gæti reynst þeim hættulegt og forða þeim frá að takast á við erfiðar aðstæður sé gengið á rétt þeirra og möguleika á að takast á við lífið og leysa vandamál sem upp koma (Cuffaro, 1995; James og Prout, 1990).

Síðtímahugmyndir leggja áherslu á réttindi barna og styrkleika þeirra. Litið er svo á að ung börn séu vel að sér og öflugir meðlimir samfélagsins sem taki virkan þátt í sköpun menningar og þekkingar. Mannleg samskipti (e. human encounter) eru þungamiðjan, þ.e. samskipti milli barna, foreldra, kennara og samfélagsins. Í samræmi við Barnasáttmálann (Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, 1989) eru börn viðurkennd sem sjálfstæðir einstaklingar með eigin réttindi, áhugamál og sjónarhorn (Dahlberg, Moss og Pence, 1999; James, Jenks og Prout, 1998; James og Prout, 1990; Jenks, 2004). Í síðtímahugmyndum er lögð áhersla á margbreytileika og einstaklingsmun og því hafnað að tilteknir algildir eiginleikar eigi við um öll börn á öllum tímum alls staðar í heiminum. Raddir barna séu margar og mismunandi og viðhorf þeirra margbreytileg, eins og fullorðinna, og börnin hafi ólíka hæfni og styrk. Ekki er talað um börn og þarfir þeirra almennt heldur litið á hvert og eitt barn sem einstakt (Elkind, 1997; Graue og Walsh, 1998).

Í þessari rannsókn var skoðað hvernig fjölmiðlar fjalla um börn og grunnskólabyrjunina. Eftirfarandi rannsóknarspurningar voru lagðar til grundvallar.

 1. Hverjir fjalla um grunnskólabyrjunina og flutninginn úr leikskóla í grunnskóla í fjölmiðlum?

 2. Hvernig er grunnskólabyrjunin kynnt í fjölmiðlum og flutningurinn úr leikskóla í grunnskóla?

 3. Hvaða sýn á börn endurspeglast í fjölmiðlum?

Aðferð

Haustið 2008, þegar gögnum fyrir þessa rannsókn var safnað, hófu 4.100 börn nám í 1. bekk í grunnskólum landsins. Fréttum, umræðum og textum um grunnskólabyrjunina og flutninginn úr leikskóla í grunnskóla var safnað á tímabilinu 10. ágúst til 13. september 2008 úr eftirfarandi fjölmiðlum:

 1. Fjórum dagblöðum.

 2. Ríkissjónvarpi og Stöð 2 – úr fréttum og fréttatengdum þáttum.

 3. Fréttum og fréttatengdum þáttum í hljóðvarpi.

 4. Öðrum fjölmiðlum svo sem tímaritum og svæðis- og hverfisblöðum.

Öllum útgefnum textum og greinum, sem á einhvern hátt minntust á grunnskólabyrjunina og flutninginn úr leikskóla í grunnskóla, var safnað saman, einnig auglýsingum og fréttum sem beindust að börnum, foreldrum og kennurum á þessum tímamótum. Jafnframt voru umræður og fréttir í ljósvakamiðlum afritaðar, ljósmyndum safnað og þær flokkaðar og greindar.

Orðræðugreiningu var beitt til að rannsaka og greina gögnin. Hugtakið orðræðugreining er eins konar regnhlífarhugtak sem hefur verið notað til að lýsa fjölbreyttum hugmyndum og aðferðum við að rannsaka og greina tungumálið og samskipti, þar með talið samræður, viðtöl og ritaðan texta. Taylor (2001) hefur flokkað orðræðugreiningu í fernt; fyrsta nálgunin beinir einkum sjónum að tungumálinu sjálfu, önnur leiðin beinir sjónum að notkun málsins og samskiptum, þriðja nálgunin beinir sjónum að hugtökum og mynstrum í tungumálinu sem tengjast ákveðnu efni eða sviði, fjórði möguleikinn er nátengdur þeim þriðja en beinir jafnframt sjónum að stærra samhengi, svo sem samfélaginu og þjóðmenningunni. Þá er athyglinni beint að þeim viðhorfum sem liggja að baki notkun tungumálsins. Sjónarhornið er gagnrýnið – þar sem skoðað er hvernig vald, andóf, deilur og barátta birtist í tungumálinu. Hvernig talað er um hlutina er talið hafa áhrif á samfélagið í heild. Það er í gegnum tungumálið sem ákveðnir hópar eða einstaklingar eru flokkaðir saman eða sundur og það er í gegnum tungumálið sem gildismat mótast.

Í þessari rannsókn var ekki litið á tungumálið sem óháðan samskiptamiðil sem sendir út og tekur við upplýsingum. Málið er alltaf notað í ákveðnu samhengi þar sem félags- og menningarlegir þættir hafa gagnvirk áhrif. Skilningur og frásagnir fólks mótast af hinum sögulega, menningarlega og félagslega veruleika sem þær urðu til í. Hvernig rætt er um börn og hvernig skólagangan er kynnt í fjölmiðlum endurspeglar gildismat samfélagsins og hefur jafnframt mótandi áhrif á samfélagið í heild. Litið er svo á að þekking sé ekki algild heldur félagslega mótuð og nátengd athöfnum og starfsháttum. Markmið orðræðugreiningar er ekki að veita ákveðin svör eða lýsa hlutunum nákvæmlega eins og þeir eru heldur víkka sjóndeildarhringinn með því að skyggnast á bak við tjöldin og kanna hvað liggur að baki athöfnum og orðum fólks (Gill, 2005; Kristín Björnsdóttir, 2003).

Umræður og umfjöllun í sjónvarpi og hljóðvarpi voru afrituð orðrétt og breytt í ritaðan texta. Meðan á gagnasöfnuninni stóð voru gögnin flokkuð í samræmi við fyrstu rannsóknarspurninguna, þ.e. eftir því hvaða hópar fjölluðu um efnið, og merkt við hversu oft hver hópur tjáði sig. Eftir að textarnir höfðu verið marglesnir var efnið flokkað og kóðað í samræmi við aðra og þriðju rannsóknarspurningu, þ.e. á hvern hátt grunnskólabyrjunin og flutningurinn úr leikskóla í grunnskóla var kynntur í fjölmiðlum og hvaða sýn á börn endurspeglaðist í umfjöllun fjölmiðla. Leitað var að þrástefjum í gögnunum (Ingólfur Á. Jóhannesson, 2006), þ.e. röksemdum og hugmyndum sem eru endurtekin og ríkjandi í fjölmiðlaumræðunni. Tveir rannsakendur sáu um að safna gögnunum og greina þau hvor í sínu lagi.

Rannsóknin var unnin á afmörkuðum tíma í ákveðnu félags- og menningarlegu samhengi. Niðurstöðurnar endurspegla það sem rannsakandinn uppgötvaði á þessum ákveðna tíma í þessu tiltekna samhengi. Líta má á orðræðugreiningu sem frásögn þess sem orðræðuna greinir (Ingólfur Á. Jóhannesson, 2006). Hún byggist á túlkunum og því er áreiðanleiki og réttmæti háð röksemdafærslu rannsakandans (Gill, 2005). Niðurstöður verða kynntar með dæmum og ljósmyndum úr fjölmiðlagögnunum sem styðja túlkanir og röksemdarfærslu rannsakandans svo lesandinn geti sjálfur séð og lagt mat á trúverðugleika rannsóknarinnar.

Niðurstöður

Hverjir fjalla um grunnskólabyrjunina í fjölmiðlum?

Þegar farið var yfir auglýsingar, greinar, viðtöl og annað efni, þar sem fjallað var um flutninginn úr leikskólanum og grunnskólabyrjunina, og skoðað hverjir höfðu orðið voru auglýsendur efst á blaði eins og fram kemur á mynd 1. Næsthæsta súlan, sem á myndinni er merkt fjölmiðlafólk, sýnir það efni sem fjölmiðlafólk skrifar og þýðir úr erlendum tungumálum. Þetta segir þó ekki alla söguna um áhrif fjölmiðlafólksins því að það velur einnig fólk í viðtöl og hefur þannig áhrif á við hverja er talað, um hvað og hversu mikið rými viðmælendur fá.
 

Mynd 1

Mynd 1 –  Hverjir hafa orðið?

Raddir skólafólks og sérfræðinga, t.d. úr háskólunum, heyrðust sjaldan. Einungis tvö viðtöl voru við sérfræðinga frá Háskóla Íslands. Talað var við skólastjóra einkaskóla um fjölgun nemenda við skólann, skólastjóra í grunnskóla um fyrsta skóladaginn, kennara í Waldorfskóla um skólastefnu þess skóla, grunnskólakennara um breytingarnar þegar börn fara úr leikskóla í grunnskóla, sameiginleg námsgagnakaup fyrir bekki og undirbúning skólaársins. Aðrir sérfræðingar, sem skrifuðu greinar eða talað var við, voru: verkefnisstjóri Umferðarstofu, tveir sálfræðingar – annar ræddi um skólafærninámskeið fyrir foreldra en hinn um að grunnskólagangan yki kröfur til foreldra, tveir námsráðgjafar í grunnskóla – annar ræddi um mikilvægi þess að koma reglu á hlutina við grunnskólabyrjun og hinn um blendnar tilfinningar barna við upphaf skólagöngu. Fulltrúi Heimilis og skóla fjallaði um þátt foreldra við grunnskólabyrjunina, verkefnisstjóri Lýðheilsustöðvar um átakið Göngum í skólann og iðjuþjálfi um rétta notkun skólatöskunnar. Enda þótt börnin, sem voru að hefja grunnskólagöngu, hafi verið í leikskóla um árabil var sjaldan leitað eftir áliti leikskólakennara og þeir höfðu sig lítið í frammi í fjölmiðlum. Einungis var talað við einn leikskólastjóra þar sem m.a. kom fram að nám færi einnig fram í leikskólum.

Greinum, skrifuðum af foreldrum eða byggðum á viðtölum við foreldra, fjölgaði eftir því sem leið á athugunartímabilið; fjölluðu þær flestar um frístundaheimilin og skort á plássi fyrir börnin. Einnig skrifuðu foreldrar um umferðina og kostnað við skólavörur. Stjórnmálamenn sem skrifuðu um skólabyrjunina fjölluðu um skort á plássi á frístundaheimilum. Í fjórum tilvikum var talað við börn um grunnskólabyrjunina.

Hvernig er grunnskólabyrjunin kynnt í fjölmiðlum?

Farið var ítarlega í gegnum hvaða þætti fjölmiðlar fjölluðu um sem vörðuðu börn og skólastarf á þessu tímabili. Þegar gögnin voru flokkuð og greind með tilliti til innihalds komu eftirfarandi þemu í ljós:

 1. Undirbúningur og upphaf grunnskólagöngu

 2. Skólavörur

 3. Öryggi og líkamlegt heilbrigði

 4. Gæsla

Undirbúningur og upphaf grunnskólagöngu

Nokkuð var um fréttir og greinar sem vöktu athygli á að skólarnir væru að hefjast og gefnar voru upp tölulegar upplýsingar um fjölda barna sem voru að hefja grunnskólagönguna. Sagt var frá nýrri menntastefnu sem m.a. var kynnt á Menntaþingi, en þar var m.a. lögð áhersla á að brúa bil milli skólastiga. Töluvert var fjallað um skóla utan hins hefðbundna kerfis. Flestir fjölmiðlar sögðu t.d. fréttir af nýjum Hjallastefnuskóla í Reykjavík. Rætt var við borgarstjórann, sem leit á skólann sem nýjan valmöguleika fyrir foreldra, og framkvæmdastjóra Hjallastefnunnar sem leit á þetta sem stóran áfanga fyrir Hjallastefnuna og nýjan möguleika í samvinnu grunn- og leikskóla. Rætt var við skólastjóra Ísaksskóla um mikla fjölgun nýrra nemenda við skólann og sókn einkaskóla á höfuðborgarsvæðinu. Einnig var sagt frá Waldorfskólanum Sólstöfum og rætt við kennara skólans um áherslur á handverk, listgreinar og frjálsan leik jafnhliða bóknámi.

Töluvert var rætt um undirbúning og aðlögun barna að grunnskólanum. Blaðamenn og sérfræðingar höfðuðu til foreldra og aðstandenda og fjölluðu um mikilvægi þess að börn væru orðin sjálfbjarga þegar þau hefja nám í fyrsta bekk; kunni að klæða sig í og úr, reima skóna og fara hjálparlaust á salernið; einnig að börn kunni að fara eftir reglum og fyrirmælum, rétta upp hönd og hlýða bjöllunni þegar hún hringir. Jafnframt var vakin athygli á því að tilhlökkun og eftirvænting er í huga margra barna sem eru að hefja grunnskólagöngu sína en jafnframt getur henni fylgt ákveðinn óróleiki og kvíði fyrir nýju skólaumhverfi. Vísað var til þess hvað foreldrar gætu gert til að aðstoða börn sín. Tvær greinar fjölluðu um ósætti milli barna og hugsanlegt einelti og hvernig mætti bregðast við því. Nokkuð var um þýddar greinar og ráðleggingar fjölmiðlamanna til foreldra um hagnýta þætti, svo sem um að mikilvægt væri að kaupa rétta skóstærð, að merkja föt barnanna, hafa reglu á svefni og heimanámi og hafa ritföng tiltæk heima.

Í einni grein fjallaði blaðamaður um hvað foreldrar geta gert til að hjálpa barninu að aðlagast skólanum og lagði áherslu á að mikilvægt væri að ræða breytingarnar við börnin og heimsækja nýja skólann. Greinin gæti verið þýðing úr erlendu blaði og myndin, sem fylgir, er af börnum í stuttbuxum á leið í skólann (mynd 2).
 

Mynd 2

Mynd 2 – Aðlögun að grunnskólanum (24 stundir, miðvikudaginn 13. ágúst)

Tvö bókaforlög auglýstu bækur til að kenna börnum bókstafi og tölustafi. Í annarri auglýsingunni var fyrirsögnin „Gefðu barninu þínu forskot“ og bent á að bókunum væri ætlað að örva þriggja til fimm ára börn og búa þau undir skólagöngu (mynd 3).
 

Mynd 3

Mynd 3 – Undirbúningur fyrir grunnskólann
(Auglýsing frá bókaforlaginu JPV)

Sálfræðingur sem bauð foreldrum upp á skólafærninámskeið, þar sem hún undirbjó foreldra og börn fyrir grunnskólagönguna, skrifaði greinar í dagblöðin. Ein greinin ber titilinn „Búningsklefafærni 6 ára barna“. Höfundur leggur áherslu á sterka sjálfsmynd, kurteisi, að koma vel fram við önnur börn og hlíta fyrirmælum, auk þess sem hún bendir á mikilvægi þess að börn séu sjálfbjarga. Fjallar hún m.a. um að þjálfa þurfi börnin í að klæða sig og halda eigum sínum til haga (Kolbrún Baldursdóttir, 2008). Annar sálfræðingur fjallar um að kröfur um sjálfstæði barna aukist mjög við að byrja í grunnskóla og einnig aukist kröfur til foreldra. Hún segir það reyna á foreldra að undirbúa börnin enda sé þetta mikil breyting fyrir þá. Þeir séu vanir því að passað sé vel upp á börnin í leikskólanum en nú þurfi þau að sjá um fleiri hluti sjálf (Auður A. Ketilsdóttir, 2008).

Fjölmiðlafólk ræddi við sálfræðinga, námsráðgjafa, grunnskólakennara, leikskólakennara og skólastjóra um aðlögun barna að grunnskólanum. Námsráðgjafi sagði í viðtali í dagblaði að það tæki alltaf tíma að koma sex ára börnunum inn í skólastarfið því ekki giltu sömu reglur þar og í leikskóla. Fyrstu dagarnir í skólanum geti verið erfiðir fyrir sex ára börnin, segir hún. Hún mælir með því við foreldra að koma svefnvenjum í lag áður en skólinn hefst, og bendir á að góður morgunverður og ró á morgnana, áður en tekist er á við erilsaman dag, séu afar mikilvæg (Börnin hlakka oft til haustsins, 2008). Í dagblaði birtist viðtal við skólastjóra Melaskóla um fyrsta skóladaginn og mikilvægi fyrsta bekkjarins. Hann telur aðalatriðið að börnunum líði vel í skólanum, andrúmsloftið sé afslappað og ekki of miklar kröfur gerðar til barnanna fyrstu vikurnar „Best er að stilla væntingum í hóf og leggja áherslu á að umhverfið sé jákvætt og að krökkunum líði vel. Það er aðalatriðið,“ sagði hann (Fyrsti bekkurinn sá mikilvægasti, 2008).

Í grein í tímaritinu Vikunni var rætt við leikskólakennara og grunnskólakennara um grunnskólabyrjunina og hvernig hægt væri að undirbúa börnin fyrir grunnskólagönguna. Grunnskólakennarinn benti á að það væri mjög mikilvægt að börnin væru sjálfbjarga á salerninu, gætu reimað skóna sína og klætt sig sjálf; jafnframt að gott sé að hafa kennt barninu á pennaveskið og að opna nestisboxið. Leikskólakennarinn benti aftur á móti á mikilvægi málörvunar og málþroska sem undirbúnings fyrir grunnskólagönguna. Einnig benti hún á að börnin væru látin æfa sig í sjálfshjálp eftir áramót á lokaári leikskólans þannig að þau væru fær um að fara hjálparlaust á salerni og þess háttar þegar þau byrja í grunnskóla (Björk Eiðsdóttir, 2008). Í annarri grein var rætt við leikskólastjóra og þar var fyrirsögnin „Ekki aðalmálið að kunna að reima“. Hún segir frá samvinnu við grunnskólann og leggur áherslu á að leikskólavistin sé skipulagt nám og að síðasta árið sé mikilvægt. Elstu börnin í leikskólanum hennar eru kölluð meistarar; þau ljúki brátt námi sínu í leikskólanum og séu fyrirmyndir yngri barnanna (Kristjana Guðbrandsdóttir, 2008)

Sérfræðingur frá Menntavísindasviði Háskóla Íslands fjallaði í viðtali í Morgunblaðinu um þá þætti sem eru mikilvægir á þeim tímamótum þegar börn hefja skólagönguna, svo sem að börn hafi stuðning af vinum sínum og foreldrum. Hún segir að rannsóknir bendi til þess að flest börn hlakki til að byrja í grunnskólanum en beri jafnframt nokkurn kvíða í brjósti og eftirsjá eftir leikskólanum (Unnur H. Jóhannsdóttir, 2008). Í sama streng tók sálfræðingur sem lagði áherslu á mikilvægi þess að foreldrar undirbyggju barnið fyrir breytingarnar sem í vændum væru. Börnin þyrftu að vita að það væri í lagi að vera hræddur og finnast eitthvað erfitt. Jákvætt viðhorf foreldra skipti miklu máli (Auður A. Ketilsdóttir, 2008).

Skólavörur

Ýmiss konar skólavörur, skólatöskur, skólaföt og námsgögn, sem öll tengdust grunnskólabyrjuninni, fengu mikla umfjöllun og athygli í fjölmiðlunum. Auglýsingar voru áberandi en fjölmiðlafólkið sjálft lá heldur ekki á liði sínu. Fréttamenn fjölluðu um „skóladót“ sem börn þurfa að eiga þegar þau byrja í skólanum og birtar voru myndir af skrautlegum skólavörum. Eins og segir í einni grein í Morgunblaðinu þá þarf allt af vera klappað og klárt fyrir fyrsta skóladaginn. „Hvort sem ungir námsmenn hlakka til eða kvíða vetrinum fram undan kemst enginn hjá því að „græja“ sig upp“. Vitnað er í starfsmenn verslana sem segja krakkana „komna með tískuvit á unga aldri og þannig velji margir allt skóladótið úr sömu línunni til að vera „í stíl““ (Guðrún Hulda Pálsdóttir, 2008). Einnig var fjallað um að ritfangaverslunin Office 1 hafi opið allan sólarhringinn til hagræðis fyrir foreldra og nemendur. Fréttamenn fjölluðu um kostnað við að byrja í skóla og voru skilaboðin þau að það væri kostnaðarsamt. Birtar voru myndir og gefið upp verð á ýmsum nauðsynjavörum (mynd 4).

 Mynd 4

 Mynd 4 Skólavörur (Fréttablaðið, 12. ágúst 2008)

Í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins þann 20. ágúst 2008 fór fréttamaður í ritfangaverslun og fylgdist með mæðgum sem voru að kaupa fyrir skólabyrjunina. Talið var upp hvað börn þyrftu að kaupa og skoðað hver heildarkostnaðurinn væri. Móðirin sem talað var við sagðist fremur myndu kjósa að skólarnir útveguðu skólavörurnar og foreldrar greiddu fyrir. Í Fréttablaðinu var á hinn bóginn rætt við föður sem var ósáttur við að skólarnir rukkuðu aukalega fyrir ritföngin og spurði hvort þetta ætti ekki að vera innifalið í sköttum. Þá var viðtal við aðstoðarskólastjóra í Vesturbæjarskóla sem sagði frá hvernig námsgagnakaupum var hagað hjá þeim. Í Vesturbæjarskóla var bekkjarsjóður, sem foreldrar greiddu í, og sáu kennarar um að kaupa allt sem börnin þurftu fyrir utan töskuna; þetta hefði gefið góða raun. Ávinningurinn væri margþættur, taldi aðstoðarskólastjórinn: „Fyrirkomulagið dregur meðal annars úr samanburði, kennir börnunum samábyrgð og er að öllum líkindum ódýrara fyrir foreldra“ (Dregið úr samanburði, 2008).

Skólatöskur voru mikið auglýstar og jafnframt fjallað um þær af blaðamönnum og sérfræðingum. Blaðamenn gáfu ráðleggingar um verð, gæði og hvað sé í tísku. Blaðamaður skrifaði grein undir heitinu „Að velja góða tösku: Ekki of breiðar og ekki of síðar” (2008) þar sem fjallað er um mikilvægi þess að bera saman verð og gæði þegar skólatöskur séu keyptar. Iðjuþjálfi skrifaði um mikilvægi þess fyrir líkamlega heilsu barna að þau noti skólatöskuna rétt og raði rétt í hana. Auglýsingar um skólavörur og skólatöskur skiptu tugum þá daga sem gagnasöfnunin stóð yfir (mynd 5).

Mynd 5

Mynd 5 – Skólatöskur (Auglýsing frá Eymundsson)


Öryggi og líkamlegt heilbrigði

Undir þennan flokk fellur umfjöllun um umferðina, hreyfingu og holla næringu. Mikið var fjallað um aukna umferð, þegar skólarnir byrjuðu, og hættuna fyrir börn í umferðinni. Fulltrúar frá Lýðheilsustöð kynntu alþjóðlegt verkefni, „Göngum í skólann“. Verkefninu var ætlað að hvetja til meiri hreyfingar og auka færni barna til að ganga í skólann og bæta aðstæður þeirra við gönguferðina í skólann. Þeim tilmælum var beint til foreldra að ganga með börnum sínum í skólann frekar en að keyra þau og kenna þeim að fara öruggustu leiðina (mynd 6).
 

Mynd 6

Mynd 6 –  Átakið Göngum í skólann
(Morgunblaðið, 27. ágúst 2008)

Fulltrúar Umferðarráðs hvöttu einnig til þess að börn gengju í skólann því meira umferðaröryggi fælist í minni umferð ökutækja í kringum skólana. Þeir vöruðu við hraðakstri við skólana og mæltu á móti því að börn í 1.–4. bekk færu hjólandi í skólann. Fréttamenn fjölluðu um hert eftirlit lögreglu og viðbrögð við hraðakstri við skólana. Ein frétt fjallaði um yfirmenn lögreglunnar á Suðurnesjum sem aðstoðuðu börn við skólana á morgnana (Yfirmenn aðstoða nýliða í umferðinni, 2008). Einnig var til umfjöllunar átak í Reykjavík gegn stöðubrotum bíla á gangstéttum. Þá skrifaði formaður foreldraráðs eins grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu greinina „Hvers virði eru börnin okkar?“, þar sem fjallað er um umferðarþunga við skólann og skorað á bæjaryfirvöld að bregðast við (Svandís Jóhannsdóttir, 2008).

Fjallað var um hollan mat og skólanesti í sérblaði um skólamál. Blaðamaður skrifaði um hversu mikilvægt það væri að hafa nesti fyrir börnin girnilegt, ódýrt og hollt og mælti með því að foreldrar bökuðu litlar bollur, keyptu litlar gulrætur en slepptu mjólkurvörum og hvítu brauði (Sparaðu með því að undirbúa nesti fyrir barnið í skólann: Ódýrt nesti fyrir börnin, 2008). Rætt var við umsjónarmann skólamötuneyta um hollar máltíðir og það sem börnin vilja helst borða. Einnig var talað um Bento-nesti sem nefnt var „nýjasta æðið í nestisframleiðslu foreldra“ en það er ættað frá Japan og samanstendur af hollum fjölbreyttum mat sem pakkað er í box með mörgum hólfum þar sem mismunandi matur er í hverju hólfi (Bento-nesti!, 2008).

Gæsla

Eftir að skólar hófust tók við aukin umræða og blaðaskrif um frístundaheimilin. Ýmsar tölur voru nefndar um fjölda barna sem biðu eftir að komast á frístundaheimili, frá 900 til 1.700 börn. Blaðamenn jafnt sem foreldrar og stjórnmálamenn skrifuðu um þann vanda sem fjölskyldur standa frammi fyrir þegar börnin fá ekki pláss á frístundaheimilum. Auk foreldra voru það einkum ungar konur í stétt blaðamanna og stjórnmálamanna, sem jafnframt voru mæður ungra barna, sem létu að sér kveða.

Vandinn í hnotskurn var sá að það vantaði fólk til starfa á frístundaheimilin og foreldrar voru í vandræðum þegar börn þeirra voru búin í skólanum á miðjum degi. Þetta ástand virtist koma fólki í opna skjöldu. Eins og segir í einni grein: „Fjölskyldan vaknaði við vondan draum þegar skólinn byrjaði. Honum lýkur alla jafna klukkan tvö eftir hádegi og þá tekur ekkert við” (Ragnhildur Sverrisdóttir, 2008). Önnur fyrirsögn í dagblaði var „Lyklabörn vegna manneklunnar“. Þar var rætt um slæmt húsnæði frístundaheimilis og vöntun á starfsfólki og talað um að skortur á plássum á frístundaheimilum valdi því að börnum verði gert að sjá um sig sjálf og fá lykil um hálsinn (Ása Baldursdóttir, 2008). Í svipuðum dúr voru fleiri viðtöl og greinar eftir foreldra.

Stjórnmálamenn voru gagnrýndir fyrir skort á plássum á frístundaheimilum og vísað var til loforða stjórnmálaflokkanna í borgarstjórn Reykjavíkur sem höfðu það á stefnuskrá sinni fyrir síðustu kosningar að fella í meira mæli saman skólastarf og tómstundastarf undir kjörorðinu „minna skutl.“ Móðir skrifaði í Morgunblaðið grein með titlinum „Borgin og börnin hennar“. Hún gagnrýnir stjórnmálamenn og skrifar:

Í öllum þessum bitlingaskiptum og stólabrölti virðist þó eitt og annað hafa gleymst. Til dæmis börnin í borginni. Sex ára krakkar skulu nú fá lykla um hálsinn, eða búa við að úttaugaðir foreldrar skjóti sér úr vinnunni til þess að sækja þau í skólann um tvöleytið á daginn. Þeim skal bjóðast að ganga sjálfala eða híma á vinnustöðum foreldra sinna (Elva Björk Sverrisdóttir, 2008, bls. 22).

Sagt var frá starfshópi sem borgarstjóri skipaði til að gera tillögur um hvernig leysa mætti manneklu og aðstöðuvanda frístundaheimila í borginni (mynd 7).
 

Mynd 7

Mynd 7 –  Frétt um frístundaheimili
(Morgunblaðið, 29. ágúst 2008)

Ýmsar hugmyndir komu fram um hvernig leysa mætti vandann, svo sem að skólabörn færu til dagmæðra eða eldri borgarar eða skólaliðar kæmu í auknum mæli inn á frístundaheimilin. Fjallað var um hvaða möguleikar væru á að samþætta frístundir og skólastarf yngstu barnanna. Rætt var við langömmu sem starfar á frístundaheimili og hafði valið starfið vegna þess að þegar langömmubarnið byrjaði í grunnskóla komst það ekki að á frístundaheimili. Einungis var talað við einn sérfræðing frá Menntavísindasviði Háskóla Íslands sem lagði áherslu á að á Íslandi þyrfti að efla umræðu um gildi þess starfs sem börn sinna eftir að hefðbundnum skóladegi lyki. Hún sagði „að spyrja þurfi hvert eigi að vera eðli starfsins, til dæmis hversu mikill hluti tímans eigi að fara í frjálsan leik og hversu mikill hluti í skipulagt starf “ og telur að ekki ríki sami metnaður þegar kemur að því að skipuleggja tíma barna eftir að hefðbundnu skólastarfi er lokið (Vanda Sigurgeirsdóttir, 2008, bls. 21).

Hvaða sýn á börn endurspeglast í fjölmiðlum?

Farið var í gegnum umfjöllun og myndir af börnum og skólabyrjuninni og reynt að greina hvaða viðhorf til barna endurspeglast í þeim. Tekið var mið af eftirfarandi flokkun á ólíkum viðhorfum til barna (Jóhanna Einarsdóttir, 2008):

 1. Börn sem saklaus og góð

 2. Börn sem slæm

 3. Börn sem óskrifað blað

 4. Börn þroskast eftir ásköpuðum stigum

 5. Börn sem saklaus og varnarlaus

 6. Börn sem sterk og mikils megnug

Oft mátti greina fleiri en eitt viðhorf til barna í einni og sömu greininni eða fréttinni. Börn sem saklaus og varnarlaus var algengt viðhorf. Greina mátti í gögnunum þörf barna fyrir umönnun, vernd og leiðsögn fullorðinna. Mikið var rætt um hætturnar í umferðinni þegar skólarnir byrja á haustin og foreldrar hvattir til að passa upp á börn sín, ganga með þeim í skólann og kenna þeim reglurnar og öruggustu leiðina (mynd 8).
 

Mynd 8 Börn og umferðin (Morgunblaðið, 26. ágúst 2008)

Sakleysi barna, varnarleysi og þörf þeirra fyrir stuðning og vernd fullorðinna kom einnig fram í greinum um fyrstu skóladagana þar sem foreldrar voru hvattir til að styðja vel við börn sín. Í grein eftir fulltrúa Heimilis og skóla var gert að umtalsefni ákvæði í Samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins þar sem áhersla er lögð á skyldur foreldra til að veita börnum sínum stuðning, kjölfestu, leiðsögn og viðurkenningu (Helga Margrét Guðmundsdóttir, 2008). Í þeim fjölmörgu greinum, sem skrifaðar voru vegna skorts á plássum fyrir börn á frístundaheimilum, kom sterkt fram það sjónarmið að börn þyrftu á gæslu og vernd hinna fullorðnu að halda og það væri ábyrgðarlaust að hafa þau eftirlitslaus eftir að skóla lýkur á daginn. Starfshættir og innra starf frístundaheimilanna voru ekki til umræðu nema í einu viðtali við sérfræðing frá Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Ein móðir sagði t.d. í viðtali: „Ég hef engan tíma til að gera aðrar ráðstafanir, börn á þessum aldri geta ekki verið ein heima“ (Ása Baldursdóttir, 2008).
 

Mynd 9

Mynd 9 – Skóladrengur (Morgunblaðið, 22. ágúst 2008)

Annað viðhorf til barna, sem mátti greina í umfjöllun fjölmiðla, var sú sýn að börn þroskist samkvæmt fyrir fram ákveðnum stigum. Blaðamenn og sálfræðingar, sem skrifuðu greinar og ræddu um grunnskólabyrjunina, töluðu gjarnan um þroska barna og hvað þau væru tilbúin til og fær um að gera á þessum aldri. Fyrirsagnir blaðamanns Vikunnar í grein byggðri á viðtölum við grunnskóla- og leikskólakennara endurspegla þessi viðhorf. Þar kemur fram að eingöngu ætti að gera kröfur til barna eftir þroska þeirra (Björk Eiðsdóttir, 2008).

Þegar myndefni fjölmiðlanna var skoðað var áberandi sýn á börn sem saklaus og góð. Algengastar voru myndir af brosandi, ljósum og heilbrigðum börnum (myndir 10–12). Í tveimur tilvikum voru myndir af börnum með dökka húð, í báðum tilvikum í auglýsingu frá versluninni Benetton (mynd 13). Í einu tilviki var mynd af einhverfum dreng með móður sinni. Myndin fylgdi viðtali við hana sem tekið var vegna þess að barnið fékk ekki pláss á frístundaheimili (Ása Baldursdóttir, 2008). Ein mynd fylgdi viðtali við námsráðgjafa sem m.a. fjallaði um kvíða barna í skólabyrjun. Myndin sýndi dreng, sem virtist áhyggjufullur, sitjandi á gangstétt með skólatöskuna sér við hlið (mynd 14).
 

Mynd 10

Mynd 10 – 24. stundir, 13. ágúst 2008

Mynd 11

Mynd 11 –  Morgunblaðið, 17. ágúst 2008

Mynd 12

Mynd 12 –  Morgunblaðið, 15. ágúst 2008

Mynd 13

Mynd 13 – Auglýsing frá versluninni Benetton

Mynd 14

Mynd 14 –  Áhyggjufullur skóladrengur? (Morgunblaðið, 18. ágúst 2008)

Það viðhorf að börn séu slæm eða að nauðsynlegt sé að refsa þeim mátti vart greina í gögnunum. Einungis í einni grein, skrifuð af móðir barns sem lent hafði í einelti, kom fram hugmynd um að refsa börnum sem eru gerendur í slíkum málum. Í nokkrum tilvikum var rætt við börn um skólabyrjunina. Þá voru börnin kynnt sem mikilvægar persónur með skoðun á lífi sínu. Athyglisvert er að í einu viðtali við börn kemur fram atriði sem að öðru leyti var ekkert fjallað um í fjölmiðlum á þessum tíma, þ.e. að mikilvægt sé að þekkja einhvern í skólanum og hafa stuðning af öðrum börnum. Viðtalið endar á eftirfarandi hátt: „Ég á stóra frænku sem er tíu ára og ratar um allan skólann,“ segir Marta María Sæberg, full sjálfstraust og hvergi bangin. „Hún hjálpar mér líka stundum ef strákar eru að stríða mér,“ bætir hún við (Full eftirvæntingar, 2008). Í öðru viðtali við dreng, sem var að fara í 3. bekk, kom mikilvægi félaganna einnig fram. Hann segir að honum hafi fundist skemmtilegast að kynnast krökkunum þegar hann byrjaði í skólanum. „Ég kynntist Ágústi, hann er núna besti vinur minn,“ sagði hann (Skemmtilegast að hitta krakkana, 2008). Í viðtali við leikskólastjóra kemur einnig fram sýn á börn sem sterk og mikils megnug. Þar nefnir hún fjölbreytt viðfangsefni sem elstu leikskólabörnin fást við (Kristjana Guðbrandsdóttir, 2008).

Samantekt og umræða

Markmið rannsóknarinnar var að varpa ljósi á hvernig grunnskólabyrjunin og flutningurinn úr leikskóla í grunnskóla eru kynnt í fjölmiðlum, hverjir fjalla um þennan málaflokk og hvaða sýn á börn endurspeglast í fjölmiðlaumfjölluninni. Safnað var fréttum, umræðum, textum og myndum um grunnskólabyrjunina úr fjórum dagblöðum. Einnig voru skráðar fréttir og efni úr fréttatengdum þáttum í Ríkissjónvarpi, hljóðvarpi og Stöð 2. Loks var safnað efni úr öðrum fjölmiðlum, svo sem tímaritum, svæðis- og hverfisblöðum. Þetta efni var flokkað, greint og túlkað.

Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að auglýsendur sjái ung börn og foreldra þeirra sem mikilvægan markhóp því auglýsingar tóku mikið rúm í fjölmiðlum þann tíma sem gagnaöflunin stóð yfir. Fjölmiðlafólk er einnig áhrifamikið. Það skrifar greinar og þýðir erlent efni, velur það sem fjallað er um og ákveður við hverja er talað. Foreldrar létu lítið í sér heyra og sjaldan var rætt við þá. Það var ekki fyrr en kom að því að skortur var á plássi fyrir börnin á frístundaheimilum að sjónarmið foreldra fóru að heyrast í fjölmiðlum. Raddir skólafólks og sérfræðinga, t.d. úr háskólunum, heyrðust sjaldan og fátítt var að leitað væri eftir sjónarmiðum barna. Því má draga þá ályktun að auglýsendur og fjölmiðlafólk hafi haldið um valdataumana og þeirra sjónarmið um hvað er mikilvægt og nauðsynlegt varðandi grunnskólabyrjunina hafi náð eyrum almennings.

Niðurstöður benda til þess að þeir sem höfðu áhrif á umræðuna um skólabyrjunina í fjölmiðlum á þeim tíma sem gagnaöflun fór fram líti svo á að skólavörur, skólatöskur og ný föt séu afar mikilvæg. Mikill fjöldi auglýsinga og umfjöllun fjölmiðlafólks er til marks um það. Bent hefur verið á að líta megi svo á að auglýsingar endurspegli gildismat auglýsenda og samfélagið eins og það er hverju sinni. Auglýsingar hvetja jafnframt til ákveðins lífsstíls, stuðla að tiltekinni neyslu og skapa ákveðnar þarfir (Menntamálaráðuneytið, 2001). Hér er því um gagnvirkt ferli að ræða. Niðurstöðurnar sýna að efnislegir þættir voru fyrirferðarmiklir í umfjöllun fjölmiðla á þessum tíma og gefa tilefni til að álykta að þeir þættir séu taldir mikilvægir börnum og fjölskyldum þeirra á þessum tímamótum. Í þessari rannsókn var athygli ekki beint að því hvernig foreldarar og börn brugðust við þessum skilaboðum fjölmiðla. Það þyrfti að gera með annarri rannsókn. Rannsókn þessi var gerð á uppgangstímum í íslensku þjóðfélagi og lauk gagnaöflun aðeins mánuði fyrir hrun bankanna. Athyglisvert væri að gera sambærilega rannsókn að nokkrum árum liðnum og skoða hvort sömu áherslur verða ríkjandi.

Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að fjölmiðlar vekja upp miklar væntingar til grunnskólagöngunnar hjá börnum og foreldrum. Rannsóknir benda til að á þessu breytingaskeiði í lífi barna sé mikilvægt að þau fái stuðning og leiðsögn frá foreldrum sínum og öðrum börnum (Dockett og Perry, 2007; Jóhanna Einarsdóttir, 2007). Í fjölmiðlunum kom glögglega fram það viðhorf að foreldrum beri að styðja börn sín á þessum tímamótum. Þetta kom fram bæði hjá fjölmiðlafólki og þeim sérfræðingum sem rætt var við. Fjallað var um kvíða barna og eftirvæntingu og þær breytingar sem verða hjá börnum þegar þau hefja grunnskólagönguna, m.a. auknar kröfur sem gerðar eru til þeirra. Áhersla var lögð á þátt foreldra og hvernig þeir geta undirbúið börnin fyrir skólagönguna. Auk hagnýtra ráðlegginga um réttar skóstærðir, heimanám, ritföng og svefnvenjur var lögð áhersla á að þjálfa þyrfti börn til sjálfsbjargar og að fara eftir fyrirmælum. Skólafólk sem talað var við lagði áherslu á að stilla væntingum í hóf og bókaforlög auglýstu bækur til að undirbúa börn fyrir lestrar- og stærðfræðinám. Sjaldan var minnst á mikilvægi þess að börn hefðu stuðning hvert af öðru á þessum tímamótum en þegar það var gert voru það börnin sjálf sem bentu á það.

Mikilvægi þess að skólastarf taki mið af fyrri reynslu og þekkingu barna er löngu viðurkennt (Dewey, 2000a, 2000b; OECD, 2001, 2006). Í umfjöllun fjölmiðla var í mörgum tilvikum látið eins og börn væru að fara í fyrsta sinn frá foreldrum sínum þegar þau setjast í grunnskóla, þótt staðreyndin sé sú að flest börn hafa verið í leikskóla a.m.k. sjö tíma á dag frá tveggja ára aldri (Hagstofa Íslands, 2009). Leikskólinn hefur verið viðurkenndur sem fyrsta skólastigið samkvæmt lögum í á annan áratug (Lög um leikskóla nr. 78/1994). Þrátt fyrir það var sjaldan minnst á leikskólann eða leitað eftir áliti leikskólakennara og þeir höfðu sig jafnframt lítið í frammi. Samfella í skólagöngu barna og tengsl skólastiganna virtust ekki vera mikilvæg í hugum fjölmiðlafólks á þessum tíma.

Þegar umfjöllun fjölmiðla var skoðuð með tilliti til þess hvaða viðhorf til barna væru ríkjandi komu í ljós fjölbreytt viðhorf. Oft mátti greina fleiri en eitt sjónarmið í einni og sömu umfjölluninni – enda má gera ráð fyrir því að fólk hafi fleiri en eitt viðhorf til barna og að þau geti verið ómeðvituð og dulin (Jóhanna Einarsdóttir, 2008). Mest áberandi var sýn á börn sem saklaus og varnarlaus og á þörf þeirra fyrir leiðsögn og vernd fullorðinna. Þetta viðhorf mátti m.a. lesa úr ráðleggingum til foreldra og þeim fjölmörgu greinum sem fjölluðu um hættur sem börnum á leið í skóla stafa af umferðinni og bílum. Í umfjöllun um frístundaheimilin var svo til eingöngu fjallað um gæsluhlutverk þeirra og mikilvægi þess að börn séu í umsjón fullorðinna eftir að skóla lýkur á daginn. Fátítt var að rætt væri um innra starf frístundaheimilanna.

Viðhorf til barna sem saklausra og varnarlausra er í samræmi við annað meginsjónarmið gagnvart börnum sem birtist í Barnasáttmálanum (Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, 1989) en þar er lögð áhersla á öryggi barna og rétt þeirra til að njóta verndar og leiðsagnar fullorðinna gegn hugsanlegri skaðlegri reynslu. Hitt sjónarmiðið, sem einkennir sáttmálann, er áhersla á hæfni barna, rétt þeirra til að láta í ljós skoðanir sínar, taka ákvarðanir og vera virkir þátttakendur í samfélaginu. Þetta viðhorf var mun sjaldgæfara í fjölmiðlunum. Á því tímabili, sem gögnum fyrir þessa rannsókn var aflað, var aðeins í fjórum tilvikum talað við börn um grunnskólabyrjunina. Í viðtölunum lýstu börnin því m.a. hversu mikilvægt það væri að þekkja einhvern í skólanum og eignast vini. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að vissulega er þörf á því að hlusta á sjónarmið barna. Þau eru fólkið sem málið snýst um. Við grunnskólabyrjunina eru þau að takast á við breytingar í sínu lífi sem þau hafa skoðanir á, áhyggjur af og þau hafa lausnir sem þurfa að ná eyrum fólks.

Annað viðhorf, sem var áberandi, sérstaklega í myndefni fjölmiðlanna, var sjónarmið Rousseaus um hið saklausa góða barn (Lowe, 2004; Myhre, 2001). Myndir af börnum fylgdu oft greinum í dagblöðum og umfjöllun í sjónvarpi. Undantekningarlítið voru þetta glöð og heilbrigð börn með ljósa húð og hár. Margbreytileiki mannlífsins og fjölmenningarlegt samfélag endurspeglaðist ekki í fjölmiðlaumræðu um skólabyrjunina. Fötluð börn og börn með annan litarhátt sáust sjaldan. Ein undantekning var auglýsing frá erlendu fatafyrirtæki sem sýndi börn með dökkan húðlit og í einni grein var fjallað um og birt mynd af fötluðu barni. Þetta má túlka á þann veg að fjölmiðlar líti svo á að börn séu til skrauts, þau geti lítið lagt til málanna en séu saklaus og falleg.

Lokaorð

Fjölmiðlar eru veigamikill þáttur í tilveru nútímamannsins og hluti af nærkerfi barna (Berns, 2004). Rannsóknir hafa sýnt að foreldrar og börn hafa myndað sér skoðanir á grunnskólanum áður en þau kynnast honum af eigin raun (Jóhanna Einarsdóttir, 2003, 2007). Fjölmiðlar eiga sinn þátt í að móta þau viðhorf. Í þessari rannsókn var skyggnst undir yfirborðið og rýnt í hvernig fjölmiðlar túlka og kynna grunnskólabyrjunina. Skoðað var hvað þeir fjalla um og telja mikilvægt, hvað þeir fjalla ekki um og hvaða skilaboð þeir senda almenningi. Jafnframt var skoðað hvernig börn voru kynnt í fjölmiðlum á þessum tímamótum og hvaða sýn á börn og gildismat liggja þar að baki.

Fjölmiðlar eru valdatæki sem hafa áhrif á það á hvern hátt raunveruleikinn er túlkaður og kynntur og hverjir eru sýnilegir og hverjir ósýnilegir. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að fjölmiðlafólk og auglýsendur séu þeir sem hafa valdið. Þeir túlka raunveruleikann og koma honum á framfæri við almenning í gegnum fjölmiðla. Raddir barna, kennara og foreldra heyrðust sjaldan. Fjölmiðlar byggja upp væntingar barna og foreldra til grunnskólabyrjunarinnar og þeir skapa þarfir. Nokkuð einsleit mynd af börnum var kynnt í fjölmiðlum á þessum tíma.

Niðurstöðurnar eru umhugsunarefni ekki einungis fyrir fjölmiðlafólk heldur ekki síður fyrir kennara og sérfræðinga í menntamálum sem hafa sig lítið í frammi í fjölmiðlum og vinna störf sín í hljóði. Brýnt er að þessir aðilar láti í sér heyra í fjölmiðlum, hafi áhrif á umræðuna og komi fram sem málsvarar barna og sérfræðingar í skólamálum. Hvernig rætt er um börn og hvernig grunnskólabyrjunin er kynnt í fjölmiðlum endurspeglar ekki einungis gildismat samfélagsins heldur hefur umfjöllunin jafnframt mótandi áhrif í samfélaginu.

Heimildir

Berns, R. M. (2004). Child, family, school, community: Socialization and support (6. útgáfa). Belmont, Kaliforníu: Thomson/Wadsworth.

Bronfenbrenner, U. (1977). Toward an experimental ecology of human development. American Psychologist, 32, 513–530.

Bronfenbrenner, U. og Morris, P. A. (1998). The ecology of developmental processes. Í W. Damon og R. M. Lerner (ritstjórar), Handbook of child psychology: Theoretical models of human development (bls. 993–1029). New York: Wiley.

Cuffaro, H. K. (1995). Experimenting with the world: John Dewey and the early childhood classroom. New York: Teachers College Press.

Dahlberg, G., Moss, P. og Pence, A. R. (1999). Beyond quality in early childhood education and care: Postmodern perspectives. London, Philadelphia, PA: Falmer Press.

Dewey, J. (2000a). Hugsun og menntun (Gunnar Ragnarsson þýddi). Reykjavík: Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands. (Upphaflega kom verkið út 1910).

Dewey, J. (2000b). Reynsla og menntun (Gunnar Ragnarsson þýddi). Reykjavík: Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands. (Upphaflega kom verkið út 1938).

Dockett, S. og Perry, B. (2007). Transitions to school: Perceptions, expectations, experiences. New South Wales, Ástralíu: UNSW Press.

Dunlop, A.-W. og Fabian, H. (2002). Transitions in the early years: Debating continuity and progression for children in early education. London: Routledge/Falmer.

Eldridge, D. (2001). Parent involvement: It´s worth the effort. Young Children, 56(2), 65–69.

Elkind, D. (1997). The death of child nature: Education in the postmodern world. Phi Delta Kappan, 79(3), 241–245.

Epstein, J. L. (2001). School, family, and community partnerships: Preparing educators and improving schools. Boulder, Colorado: Westview Press.

Gill, R. (2005). Discourse analysis. Í M. W. Bauer og G. Gaskell (ritstjórar), Qualitative researching with text, image and sound (bls. 172–190). London: Sage.

Graue, E. M. og Walsh, D. J. (1998). Studying children in context: Theories, methods and ethics. Thousand Oaks, Kaliforníu: SAGE.

Hagstofa Íslands. (2009). Sótt 15. júní 2009 af http://www.hagstofa.is/.

Ingólfur Á. Jóhannesson. (2006). Leitað að mótsögnum: Um verklag við orðræðugreiningu. Í Rannveig Traustadóttir (ritstjóri), Fötlun: Hugmyndir og aðferðir á nýju fræðasviði (bls. 178–195). Reykjavík: Háskólaútgáfan.

James, A., Jenks, C. og Prout, A. (1998). Theorizing childhood. Cambridge: Polity press.

James, A. og Prout, A. (ritstjórar). (1990). Constructing and reconstructing childhood: Contemporary issues in sociological study of childhood. London: Falmer.

Jenks, C. (2004). Constructing childhood sociologically. Í M. J. Kehily (ritstjóri), An introduction to childhood studies (bls. 77–94). Berkshire, Englandi: Open University Press.

Jóhanna Einarsdóttir. (2003). Þegar bjallan hringir þá eigum við að fara inn: Viðhorf leikskólabarna til leik- og grunnskóla. Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun. Sótt 10. júní 2009 af http://netla.khi.is/.

Jóhanna Einarsdóttir. (2007). Lítil börn með skólatöskur: Tengsl leikskóla og grunnskóla. Reykjavík: Háskólaútgáfan, Rannsóknarstofa í menntunarfræðum ungra barna.

Jóhanna Einarsdóttir. (2008). Viðhorf til barna og áhrif á leikskólastarf. Í Jóhanna Einarsdóttir og Bryndís Garðarsdóttir (ritstjórar), Sjónarmið barna og lýðræði í leikskólastarfi (bls. 17–31). Reykjavík: Háskólaútgáfan og RannUng.

Kristín Björnsdóttir. (2003). Orðræðugreining. Í Sigríður Halldórsdóttir og Kristján Kristjánsson (ritstjórar), Handbók í aðferðafræði og rannsóknum í heilbrigðisvísindum (bls. 37–48). Akureyri: Háskólinn á Akureyri.

Lee, K. og Johnson, A. S. (2007). Child development in cultural contexts: Implications of cultural psychology for early childhood teacher education. Early Childhood Education Journal, 35, 233–243.

Lowe, A. R. (2004). Childhood through the ages. Í T. Maynard og N. Thomas (ritstjórar), An introduction to early childhood studies (bls. 65–74). Thousand Oaks, Kaliforníu: Sage.

Lög um leikskóla nr. 78/1994.

McLuhan, M. (2002). The medium is the message. Í K. Askew og R. W. Richard (ritstjórar), The anthropology of media (bls. 18–27). New Jersey: Blackwell.

Menntamálaráðuneytið. (2001). Nefnd um konur og fjölmiðla: Álit og tillögur. Sótt 20. október 2008 af http://bella.mrn.stjr.is/utgafur/fjolmidla2.pdf.

Mills, R. (2000). Perspectives of childhood. Í J. Mills og R. Mills (ritstjórar), Childhood studies: A reader in perspectives of childhood (bls. 7–38). New York: Routledge.

Myhre, R. (2001). Stefnur og straumar í uppeldissögu (Bjarni Bjarnason þýddi). Reykjavík: Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands.

OECD. (2001). Starting strong: Early education and care. París: OECD.

OECD. (2006). Starting strong II: Early childhood education and care. París: OECD.

Rimm-Kaufman, S. E. og Pianta, R. C. (2000). An ecological perspective on the transition to kindergarten: A theoretical framework to guide empirical research. Journal of Applied Developmental Psychology, 21(5), 491–511.

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. (1989). Sótt 10. september 2008 af http://www.barn.is/adalsida/barnasattmalinn/barnasattmalinn_i_heild/.

Sigurborg Sturludóttir og Jóhanna Einarsdóttir. (2008). Reynsla foreldra af grunnskólabyrjun barna sinna. Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun. Sótt 5. janúar 2009 af http://netla.khi.is/.

Smith, A. B. og Taylor, N. J. (2000). The sociocultural context of childhood: Balancing dependency and agency. Í B. S. Anne, N. J. Taylor og M. M. Golllop (ritstjórar), Children's voices: Research, policy and practice (bls. 1–17). Auckland, Nýja Sjálandi: Pearson.

Taylor, S. (2001). Locating and conducting discourse analytic research. Í M. Wetherell, S. Taylor og S. J. Yates (ritstjórar), Discourse as data: A guide for analysis (bls. 5–48). London: Sage.

Walsh, D. J. (2005). Developmental theory and early childhood education: Necessary but not sufficient. Í N. J. Yelland (ritstjóri), Critical issues in early childhood education (bls. 40–48). Berkshire, Englandi: Open University Press.

Whalley, M. (2006). Involving parents in their children's learning. London: SAGE.

Gögn

Að velja góða tösku: Ekki of breiðar og ekki of síðar. (2008, 13. ágúst). 24 stundir, bls. 21.

Auður A. Ketilsdóttir. (2008, 19. ágúst). Skólaganga eykur kröfur til foreldra. 24 stundir, bls. 32.

Ása Baldursdóttir. (2008, 28. ágúst). Lyklabörn vegna manneklunnar. 24 stundir, bls. 13.

Bento-nesti! (2008, 13. ágúst). 24 stundir, bls. 23.

Björk Eiðsdóttir. (2008). Kanntu á leikskólakríli en ekki skólakrakka? Vikan, 70(35), 32–33.

Börnin hlakka oft til haustsins. (2008, 10. september). 24 stundir, bls. 17.

Dregið úr samanburði. (2008, 14. ágúst). Fréttablaðið, bls. 9.

Elva Björk Sverrisdóttir. (2008, 10. september). Borgin og börnin hennar. Morgunblaðið, bls. 22.

Full eftirvæntingar. (2008, 13. ágúst). 24 stundir, bls. 15.

Fyrsti bekkurinn sá mikilvægasti. (2008, 13. ágúst). 24 stundir, bls. 14.

Guðrún Hulda Pálsdóttir. (2008, 14. ágúst). Skrautlegt skóladót úr öllum áttum. Morgunblaðið, bls. 19.

Helga Margrét Guðmundsdóttir. (2008, 20. ágúst). Aukin foreldrahæfni. 24 stundir, bls. 13.

Kolbrún Baldursdóttir. (2008, 12. ágúst). Búningsklefafærni 6 ára barna. 24 stundir, bls. 15.

Kristjana Guðbrandsdóttir. (2008, 13. ágúst). Ekki aðalmálið að kunna að reima. 24 stundir, bls. 15.

Ragnhildur Sverrisdóttir. (2008). Börnin okkar í borginni. Morgunblaðið, bls. 20.

Skemmtilegast að hitta krakkana. (2008, 13. ágúst). 24 stundir, bls.16.

Sparaðu með því að undirbúa nesti fyrir barnið í skólann: Ódýrt nesti fyrir börnin. (2008, 13. ágúst). 24 stundir, bls. 13.

Svandís Jóhannsdóttir. (2008, 26. ágúst). Hvers virði eru börnin okkar? 24 stundir, bls. 18.

Unnur H. Jóhannsdóttir. (2008, 22. ágúst). Tímar alvöru og fræðslu framundan. Morgunblaðið, bls. 22.

Vanda Sigurgeirsdóttir. (2008, 29. ágúst). Frjáls leikur eða stíft skipulag. Morgunblaðið, bls. 21.

Yfirmenn aðstoða nýliða í umferðinni. (2008, 4. sept.). Víkurfréttir, bls. 8.
 

Prentútgáfa    Viðbrögð