Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun

Menntavísindasvið Háskóla Íslands
 

Grein birt 15. ágúst 2009

Greinar 2009


Þorgerður Hlöðversdóttir

Listgreinar í skólastarfi
– krydd eða kjarni?

Menntun er ferli þar sem við lærum að verða arkitektar eigin reynslu
og þannig lærum við að skapa okkur sjálf (Elliott Eisner, 2002).


Í þessari grein ræðir Þorgerður Hlöðversdóttir um stöðu listgreina, m.a. í ljósi ákvæða nýrra laga um grunnskóla sem hún telur gefa listgreinakennurum mörg sóknarfæri. Niðurstaða hennar er m.a. sú að listgreinakennarar þurfi að verða meðvitaðri um stöðu sína og það sé ekki síst þeirra að sannfæra aðra um nauðsyn þess að listgreinakennsla verði efld til muna. Höfundur er listgreinakennari við Ingunnarskóla.

 

 

List- og verkgreinar hjálpa okkur að efla skynjun okkar og hugsun. Þær eru ekki síður nauðsynlegar en aðrar greinar sem oft eru þó álitnar mikilvægari. Þær eru ekki einungis „krydd“ í tilveruna heldur kjarninn í menningu okkar.

Í 7. kafla grunnskólalaga er fjallað um inntak náms, námsskipan, námsframboð, námsmat og starfstíma. Þar segir í 24. grein:

Ráðherra setur grunnskólum aðalnámskrá sem er endurskoðuð reglulega. Í henni er m.a. kveðið nánar á um uppeldishlutverk grunnskólans og meginstefnu í kennslu og kennsluskipan í samræmi við hlutverk grunnskólans, sbr. 2. gr. Í aðalnámskrá skal m.a. leggja áherslu á:

 1. sjálfsvitund, siðgæðisvitund, félagsvitund og vitund nemenda um borgaralega ábyrgð og skyldur,

 2. líkamlega og andlega velferð, heilbrigða lífshætti og ábyrga umgengni við líf og umhverfi,

 3. þjálfun í íslensku í öllu námi,

 4. leikræna og listræna tjáningu,

 5. hæfni nemenda til að skilja orsakasamhengi og draga rökréttar ályktanir,

 6. skilning og frjótt og skapandi starf, nýsköpun og frumkvöðlanám,

 7. jafnvægi milli bóklegs og verklegs náms,

 8. leik barna sem náms- og þroskaleið,

 9. nám sem nýtist nemendum í daglegu lífi og við frekara nám og starf,

 10. undirbúning beggja kynja jafnt undir virka þátttöku í samfélaginu, fjölskyldulífi og atvinnulífi,

 11. margvíslegar leiðir við öflun þekkingar með notkun tæknimiðla, upplýsingatækni og safna- og heimildavinnu,

 12. náms- og starfsfræðslu og kynningu á atvinnulífi og námsleiðum til undirbúnings náms- og starfsvali.

Í aðalnámskrá og við skipulagningu náms og kennslu og við gerð og val námsgagna skal þess sérstaklega gætt að allir nemendur fái jöfn tækifæri til náms og eigi þess kost að velja sér viðfangsefni og nálgun í eigin námi.

Markmið náms og kennslu og starfshættir grunnskóla skulu vera þannig að komið sé í veg fyrir mismunun vegna uppruna, kyns, kynhneigðar, búsetu, stéttar, trúarbragða, heilsufars, fötlunar eða stöðu að öðru leyti.

Í öllu skólastarfi skal stuðla að heilbrigðum lífsháttum og taka mið af persónugerð, þroska, hæfileikum, getu og áhugasviðum hvers og eins.

Sem listgreinakennari í grunnskóla er ég sérstaklega ánægð að sjá þessa auknu áherslu í lögunum á list- og verkgreinar. Ég tel að í nýju lögunum felist meiri viðurkenning af hálfu stjórnvalda á margþættu hlutverki skólanna. Þetta ætti að hvetja og styrkja skólafólk til að halda áfram því mikla umbótastarfi sem víða hefur verið stundað á undanförnum árum. Ég sé í þessu samhengi mikla möguleika á breytingum á skólastarfi og vænti þess að lögin verði ekki einungis orðin tóm heldur gefi bæði nemendum og kennurum svigrúm fyrir fjölbreytileika og mismunandi áherslur í verkefnavali og kennsluháttum.

Jafnvægi milli bóklegs og verklegs náms

Skoðum möguleika grunnskóla landsins og reynum að sjá fyrir okkur hversu vel þeir eru í stakk búnir til að takast á við þessi nýju ákvæði og hvers konar stuðningur er nauðsynlegur til að unnt sé að sinna þeim. Í 26. grein nýju laganna, lið g, er kveðið á um jafnvægi milli bóklegra og verklegra greina. Hvað þýðir þetta? Að skólum verði gert skylt að efla verklegt nám og fái til þess fjárhagslegan og faglegan stuðning? Getum við treyst því að list- og verkgreinar verði ekki bara skrautfjaðrir sem gripið er til á tyllidögum og lítils metnar á öðrum tímum, til dæmis þegar nemendur fara á milli skólastiga? Að skólastundir í list- og verkgreinum verði jafn margar og í bóklegu námi? Hvert verður vægi þeirra á viðmiðunarstundaskrá? Er líklegt að listgreinakennurum fjölgi og samþætting aukist?

Menntunar- og námskrárfræðingurinn Elliot Eisner (1994) leggur áherslu á að nemandinn, samfélagið og fagið eigi að vera jafngild þegar við tökum ákvarðanir um námskrá. Aftur á móti segir hann að ekki sé alltaf mögulegt eða æskilegt að hafa markmiðin afdráttarlaus og sýna beri varkárni við forgangsröðun, hefðir megi ekki negla okkur niður og við þurfum að vera vakandi yfir því sem ekki er sett í námskrána ekki síður en því sem sett er í hana. Í þessu samhengi talar hann um núllnámskrána, það sem við kennum ekki í skólum. Það sem við kennum eða kennum ekki gefur nemendum skilaboð um hvað okkur þykir mikilvægt í menntun og reynslu í þjóðfélaginu. Og Eisner heldur áfram:

Skólar hafa vald til að ákveða hvað þeir kenna, en þeir bera ekki síður ábyrgð á því hvað þeir vanrækja að kenna. Það sem nemendur kynnast ekki geta þeir ekki íhugað og það sem þeir fá ekki tækifæri til að vinna með geta þeir ekki notað. Þetta getur haft mikil áhrif á hvaða afstöðu nemendur taka til mismunandi aðstæðna og verkefna og hvers konar lífi þeir hafa möguleika á að lifa.

Þarna víkur Eisner að mjög mikilvægum þætti sem vert er að gefa gaum. Ef nemendur okkar fá ekki að kynnast listum og verklegum greinum í skóla þá er hætt við að þeir líti svo á að þær greinar geti varla verið mjög mikilvægar eða merkilegar og ekki er líklegt að þeir leiti starfsvettvangs á því sviði. Ef við gerum bóklegum greinum umtalsvert hærra undir höfði en list- og verkgreinum og gefum þannig til kynna að þær síðarnefndu séu ekki jafn nauðsynlegar þá beinum við nemendum frá ákveðnum sviðum samfélagsins. Við sviptum þá þeim sjálfsagða rétti að kynnast ólíkum þáttum samfélags og menningar og þeim fjölmörgu tækifærum sem þar felast.

Hlutverk listgreina

En hver er raunverulegur tilgangur menntunar? Hvað viljum við bjóða nemendum og hvernig ætlum við að velja hvað hentar og hvað ekki? Viljum við fyrst og fremst mata nemendur á upplýsingum og þjálfa tiltekna færni eða viljum við að hver og einn þroskist á eigin forsendum?

Í bók sinni The Arts and the Creation of Mind fjallar Eisner um þau áhrif sem listin getur haft á mótun manneskjunnar sem hugsandi veru (Eisner, 2002). Eisner telur að tilgang menntunar og uppeldis megi greina í tvo meginþætti. Annars vegar er það sköpun, túlkun og tjáning sem vísar til notkunar okkar á fjölbreyttu úrvali efniviðar og miðla til þess að tjá á einstaklingsbundinn hátt tilfinningar, hugsanir og hugmyndir og finna nýjar og skapandi lausnir á viðfangsefnum. Hins vegar talar hann um skynjun, greiningu og mat og vísar til skilnings á innihaldi, hugtökum og færni og því menningarlega samhengi sem þau eru sprottin úr og hæfni til að skynja og skilgreina verkefni og meta þau á rökstuddan hátt.

Til þess að hugmyndir okkar og hugsanir geti haft áhrif á samfélag og menningu verðum við að geta tjáð þær eða lýst á einhvern hátt fyrir öðrum. En menning og umhverfi hafa líka áhrif á okkur og þannig fléttast allir þessir þættir saman og hafa áhrif hver á annan í því ferli sem á sér stað og við köllum menntun. Þetta á ekki bara við um listir og listmenntun heldur um öll þau viðfangsefni sem við viljum að nemendur fáist við. Þeir þurfa að fá tíma til að vinna með og meðtaka það sem á borð er borið, fá að velja og hafna og útfæra á persónulegan hátt.

En hvaða hlutverki skyldi listin gegna í þessu samhengi? Eisner heldur því fram að hún virkji skynfæri okkar svo að við verðum næmari fyrir umhverfinu, hún hafi áhrif á ímyndunaraflið svo við eigum auðveldara með að ímynda okkur það sem við getum ekki séð, heyrt eða bragðað á í raunveruleikanum, hún gefi okkur fyrirmyndir sem hjálpa okkur að sjá heiminn á nýjan hátt og hún veiti okkur tækifæri og efnivið til að fást við margvísleg verkefni á listrænan hátt. Í gegnum listina lærum við að sjá það sem við hefðum annars ekki tekið eftir, finna fyrir því sem annars hefði ekki snert okkur og tileinka okkur listrænan hugsunarhátt sem leiðir til endursköpunar á okkur sjálfum. Megintilgangur listmenntunar á að vera að auka hæfni og þroska nemenda í gegnum þá reynslu að skapa og skynja á áhrifaríkan hátt. Þetta ætti að sjálfsögðu líka að vera tilgangurinn með allri menntun og skólastarfi.

Samfélagið og þar með skólinn þarf því að taka afstöðu til þess hvað á að leggja áherslu á og hvað nemendur eiga að fá út úr veru sinni í skólanum. Á að gera þá meðvitaða um sjálfa sig og að þeir séu gerendur í eigin lífi en ekki bara þiggjendur tilbúinnar þekkingar? Á að hjálpa þeim að gera sér grein fyrir stöðu sinni og ábyrgð í samfélaginu og þeim möguleikum sem það býður upp á? Við verðum að kenna nemendum þá list að njóta, segir Eisner; gefa þeim tíma til að upplifa og skynja heiminn á eigin forsendum og njóta þess að sökkva sér ofan í viðfangsefnin. Í okkar vestrænu menningu gengur allt út á hraða, við drífum okkur í leikhús, skreppum á listasöfn og gleypum í okkur matinn á skyndibitastöðum. Listin kennir okkur að veita því athygli sem er hér og nú og skólinn þarf að hvetja nemendur til að staldra við, njóta augnabliksins og skynja umhverfi sitt.

Eisner (2002) setur fram fimm meginviðmið sem hann segir efla listgreinakennslu og auka og bæta menntun nemenda:

 • Listgreinakennarar eiga að vera stoltir af því sem aðgreinir listgreinar frá öðrum greinum.

 • Listgreinakennsla á að auka listrænan vitsmunaþroska nemenda.

 • Listgreinakennsla á að hjálpa nemendum að skapa og skynja fagurfræði listarinnar og skilja sambandið við menninguna sem þeir eru hluti af.

 • Listgreinakennsla á að hjálpa nemendum að skilja hvað er persónulegt, einkennandi og jafnvel einstakt við þá sjálfa og verk þeirra.

 • Listgreinakennsla á að víkka sjóndeildarhring nemenda og gera þeim kleift að sjá heiminn á mismunandi vegu eftir því hverjar aðstæðurnar eru.

Þessi viðmið er gott að hafa sem leiðarljós í öllu skólastarfi en það er ekki síður áhersla Eisners á að það sé ekki til einhver ein rétt sýn á markmið listgreinakennslu sem heillar mig og veitir mér kraft til að halda áfram að leita og þræða enn fleiri krákustíga í starfi mínu sem listgreinakennari. Hann talar um nauðsyn þess að vera sveigjanlegur en hafa þó ákveðna stefnu svo hægt sé að skapa aðstæður sem henta stað og stund. Þetta er hollt fyrir okkur að hafa í huga þegar við skipuleggjum skólastarf og leggjum þar með grunninn að lífi ungmenna. Við eigum ekki að steypa þau í fyrirfram ákveðið mót heldur hjálpa þeim og treysta til að skapa sitt eigið líf. Því fylgir mikil ábyrgð sem samfélagið allt verður að taka á sig. Heimurinn er ekki bara eitthvað eitt heldur eigum við að fagna fjölbreytninni og nýta hana til að þroska okkur sjálf.

Að velja sér viðfangsefni

Margir fræðimenn telja að ná megi betri árangri í skólastarfi ef nemendur fá að velja viðfangsefni og ákveða hvernig þeir vinna úr þeim og að frjálsræði sé einnig nauðsynlegt til að auka sköpunargáfu og gagnrýna hugsun (Tomlinson og Allan, 2000).

Í 26. grein nýju grunnskólalaganna er fjallað um mikilvægi þess að nemendur geti valið sér viðfangsefni. Þar segir:

Frá upphafi grunnskóla skulu nemendur eiga val í námi sínu, svo sem um viðfangsefni, námsaðferðir og námsgreinar, í samræmi við viðmið í aðalnámskrá grunnskóla og skipulag skóla. Markmiðið með því er að gera nemendur ábyrga fyrir eigin námi og skapa sveigjanleika í skólastarfi.

Aukið val fyrir nemendur innan grunnskólans er tímabært en ekki síður það sem því fylgir, að gera nemendur ábyrga og skapa sveigjanleika í skólastarfi. En hvað þýðir þetta í raun og veru? Jú, það er boðið upp á val og sveigjanleika en eftir sem áður þá verður það að vera „í samræmi við viðmið í aðalnámskrá“. Sem sagt, allir verða þegar upp er staðið að læra það sama, eða með öðrum orðum, allir verða að læra allt og þá er ekki lengur um raunverulegt val að ræða. Kanadíski heimspekingurinn Nel Noddings (2008) veltir fyrir sér spurningunni hvers vegna öll börn eigi að læra algebru og segir svarið venjulega vera á þá leið að við lifum á öld upplýsinga og því verði nemendur að vera reiðubúnir í alþjóðlega efnahagssamkeppni og þurfi því að kunna meiri stærðfræði en fyrri kynslóðir. En hvaða gagn er að því að „læra“ algebru, eða hvaða annað fag sem er, ef námið hvetur ekki til ígrundunar og tengist ekki þeim veruleika sem við lifum í? Takmarkið með allri kennslu ætti að vera að flétta saman mismunandi námsgreinar og hvetja nemendur til að hugsa um og tengja þessar greinar við daglegt líf. Aukið val ætti að hafa að markmiði að ýta undir fjölbreytni og gefa nemendum tækifæri til að velja sér viðfangsefni við hæfi frekar en að steypa alla í sama mót. Ég tel að með þessu móti opnist möguleikar á að hleypa nýju lífi í skólastarf og gera það meira nemendamiðað.

Spyrja má hvort allt það starf sem fram fer innan veggja skólans eigi að vera á hendi kennara eða hvort opna eigi skólana í ríkari mæli fyrir samfélaginu og veita þannig nýjustu straumum og stefnum þangað inn. Er ekki kominn tími til að leyfa nemendum að kynnast samfélaginu betur af eigin raun? Það mætti til dæmis fá starfandi listamenn til að vinna með nemendum að ákveðnum verkefnum í ákveðinn tíma. Ég tel að margskonar ávinningur geti verið af slíku samstarfi, nemendur fengju innsýn í raunverulegan heim listarinnar og listamennirnir kæmu með nýjar hugmyndir og viðhorf inn í skólann og kynntust því fjölbreytta starfi sem þar fer fram. Þannig væri hægt að vinna með fleiri starfsgreinum og víkka um leið sjóndeildarhring nemenda og hvetja þá til ígrundunar um eigið líf og starf.

Menntun til framtíðar

Oft er talað um nauðsyn þess að mennta fólk fyrir framtíðina. En hvernig verður þessi framtíð og hvers konar hæfni þarf fólk mest á að halda? Flestir eru sammála því að sveigjanleiki, þjálfun í samvinnu, þrautseigja, hæfni til að leysa fjölbreytt verkefni og gagnrýnin skapandi hugsun séu meðal þeirra eiginleika sem best gagnast fólki, ásamt vilja og áhuga til símenntunar. Við megum ekki vera of upptekin við að undirbúa nemendur fyrir framtíð, sem í þeirra huga er í órafjarlægð og enginn veit hver verður, heldur leyfa þeim að fást við verkefni dagsins í dag. Það eru þau verkefni sem standa þeim næst og ættu því að höfða til þeirra og hjálpa þeim að átta sig á hvað þau vilja og hvert þau vilja stefna. Verkefni sem tengja saman hug og hönd og snúast um þeirra eigin áhugamál og opna fyrir þeim nýjar leiðir og tækifæri. Þannig gefum við nemendum möguleika á að upplifa þá innri ánægju sem fylgir því að sjá árangur af vinnu sem þeir hafa sjálfir mótað. Í skólum er allt of mikil áhersla lögð á ytri umbun, einkunnir skipta öllu máli og skólinn einkennist meira af striti en vinnu, þ.e. nemendur strita til að fá góðar einkunnir en njóta ekki vinnunnar við að leysa verkefni. Þeir fá oft ekki tíma til að sökkva sér ofan í verkefni vegna þess að stöðugt er skipt um viðfangsefni og reynt að komast yfir sem mest námsefni á sem skemmstum tíma. Listin getur kennt okkur að veita því athygli sem er hér og nú, hægja á og njóta augnabliksins.

Mikilvægasti ávöxtur skólastarfs ætti að birtast í áhuga nemenda og vilja þeirra til að takast á við ný verkefni og löngun til að menntast.

Noddings (2008) fjallar um nauðsyn þess að efla gagnrýna hugsun með nemendum og heldur því fram að við gerum nemendum og samfélaginu óleik þegar við göngum út frá því að greinar sem tengjast færni í daglegu lífi, eins og til dæmis heimilisfræði, lífsleikni og upplýsingatækni, séu nokkurs konar afþreying en efli ekki vitsmuni nemenda. Við verðum að læra að meta þessar greinar og hvetja til gagnrýninnar hugsunar á öllum sviðum. En hvernig getum við kennt gagnrýna hugsun? Í þessu samhengi er vert að nefna aðferð sem kallast Visual Thinking og þróuð hefur verið af fræðimönnum innan Project Zero-hópsins við kennaradeild Harvardháskóla í samvinnu við kennara í fjölmörgum skólum, allt frá grunnskólum til háskóla, meðal annars í Bandaríkjunum, Svíþjóð og Ástralíu (Ritchhart og Perkins, 2008). Eins og nafnið gefur til kynna felst verkefnið í að nota ákveðnar leiðir til að skýra hugsun nemenda og gera hana sýnilegri, meðal annars með opnum, gagnrýnum umræðum og skrásetningu á hugmyndum þeirra um margvísleg viðfangsefni. Byggt er á því viðhorfi að nám sé afleiðing hugsunar og að gagnrýnin hugsun felist í hæfileikum til að undrast, vera forvitinn og hafa gott ímyndunarafl frekar en hæfileika til að læra utanbókar. En hugsun þarf að gera sýnilega til að hún geti þroskast og það hjálpar listin okkur að gera. Að koma hugsunum okkar í mynd eða orð getur verið erfitt en þegar við höfum tekist á við það og lagt okkur fram þá höfum við fengið ný verkfæri til að vinna með og nýjar leiðir hafa opnast. Við verðum að gefa svigrúm fyrir hið óvænta og vera tilbúin til að leyfa nemendum og okkur sjálfum að gera mistök. Ég tel að við verðum að treysta nemendum betur og bæði leyfa þeim og láta þá hugsa en ákveða ekki allt fyrir þá og hanna verkefni með fyrirfram ákveðinni útkomu. Jerome Bruner (1996) hvetur okkur til að líta á barnið sem virkan þekkingarsmið og athafnamanneskju og bendir á að nemendur séu fullfærir um að ígrunda eigin hugsanir og hugmyndir. Hann segir að nútíma uppeldisfræði sé að færast nær því sjónarmiði að nemandi eigi að vera meðvitaður um hvernig hugsun hans þróast og að það sé hlutverk kennara að hjálpa honum til þess – til dæmis með því að láta hann gera áætlanir um eigið nám út frá sínum forsendum.

Lokaorð

Kveikjan að þessari grein var útgáfa nýrra grunnskólalaga og þær áherslur sem þar eru lagðar. Ég er þeirrar skoðunar, og tel mig hafa rennt stoðum undir þá skoðun í þessari grein, að lögin feli í sér tækifæri til að gefa listgreinum aukið vægi í skólastarfi og efla um leið gæði menntunar. Ég tel að ef við viljum gefa listgreinum þann sess í skólakerfinu sem þær eiga skilið þurfi listgreinakennarar að verða meðvitaðri um stöðu sína og vita hvert þeir vilja stefna. Þeir mega ekki láta þessar greinar hverfa heldur finna fjölbreyttar leiðir til að stefna að og sannfæra aðra um nauðsyn þess að listgreinakennsla verði efld til muna í íslenskum skólum.

List- og verkgreinar hjálpa okkur að efla skynjun okkar og hugsun. Þær eru ekki síður nauðsynlegar en aðrar greinar sem oft eru þó álitnar mikilvægari. Þær eru ekki einungis „krydd“ í tilveruna heldur kjarninn í menningu okkar.

Heimildir

Bruner, J. (1996). The culture of education. London: Harvard University Press.

Eisner, E. W. (2002). The arts and the creation of mind. New Haven: Yale University Press.

Eisner, E. W. (1994). The educational imagination: On design and evaluation of school programs. New York: Macmillan.

Menntamálaráðuneytið. (2008). Lög nr. 91/2008 um grunnskóla. Sótt 15. september 2008 af http://www.nymenntastefna.is/grunnskolar/log/

Noddings, N. (2008). All our students thinking. Educational Leadership, 65(5), 813.

Ritchhart, R. og Perkins, D. (2008). Making thinking visible. Educational Leadership, 65(5), 5761.

Tomlinson, C. A. og Allan, S. D. (2000). Leadership for differentiating schools & classrooms. Alexandria: ASCD.
 

Prentútgáfa     Viðbrögð