Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun

Menntavísindasvið Háskóla Íslands
 

Grein birt 30. maí 2009

Greinar 2009

Oddrun Hallås og Torunn Herfindal

Aukin hreyfing með skrefateljara

Samstarf milli grunnskóla og háskóla

Í greininni er fjallað um áhugavert rannsóknarverkefni þar sem nemendur í 6. bekk grunnskóla í Bergen í Noregi tóku virkan þátt í rannsókninni en hún beindist að því að auka hreyfingu þeirra. Verkefnið vakti mikla athygli í Noregi. Oddrun Hallås og Torunn Herfindal eru lektorar í íþróttafræðum við kennaradeild Høgskolen i Bergen. Þær hafa verið ráðgefandi við þróun útikennslu hér á landi, m.a. í Norðlingaskóla.


 

 


 

Oft getur reynst erfitt að sameina rannsóknarverkefni þörfum rannsakenda og þeirra sem eru rannsóknarefnið. Í þessari grein kynnum við verkefni þar sem þetta var gert. Við sem unnum að rannsókninni söfnuðum gögnum á sama tíma og nemendurnir, sem tóku þátt í verkefninu, fengu tækifæri til að rannsaka sjálfa sig, vera meira á hreyfingu og læra ýmislegt í fleiri en einni námsgrein. Þetta rannsóknarverkefni tengdist Rannsóknardögum 2008 í Bergen, http://www.forskningsdagene.no en þema daganna var umhverfisvæn orka. Verkefnið var lagt fyrir nemendur í 6. bekk grunnskóla og áttu þeir að fá að kynnast því hvernig vísindamenn vinna. Verkefnið fékk mikla umfjöllun í fjölmiðlum; í dagblöðum, útvarpi og sjónvarpi. Það var hvetjandi fyrir alla sem unnu að verkefninu og um leið mikilvæg upplýsingamiðlun til almennings um gildi hreyfingar.

Að nota líkamann – umhverfisvænt val

Hugtökin hreyfing og heilsurækt eru gjarnan notuð um ýmiss konar líkamlega hreyfingu sem eykur orkunotkun (Bouchard, 1993). Þegar sífellt fleiri hreyfa sig æ minna, getur skortur á hreyfingu leitt til almenns heilsufarsvanda í þjóðfélaginu. Það skiptir því miklu máli að hvetja ungt fólk til að hreyfa sig daglega (WHO, 2006). Hvernig er hægt að auka hreyfingu og vera um leið umhverfisvænn? Þessi spurning var viðfangsefni verkefnisins og notuð sem heiti á verkefninu.

Börn og unglingar þurfa að hreyfa sig í að minnsta kosti sextíu mínútur daglega (Departementene, 2004). Aðeins þriðjungur barna í OECD-löndunum ná þessu markmiði. Í Noregi hreyfa 11 ára börn sig að meðaltali einungis annan hvern dag (3½ dag í hverri viku) (Unicef, 2007). Tölvunotkun í frístundum norskra barna hefur aukist á tímabilinu 2001–2005 frá tíu til sautján klukkustundum hjá drengjum og frá fimm til þrettán klukkustundir hjá stúlkum (Helsedirektoratet, 2008). Allt sem stuðlar að aukinni hreyfingu skiptir því máli, ekki síst í skólunum þar sem hægt er að ná til allra.

Samstarfsaðilar

Tveir kennarar vid Høgskolen i Bergen tóku þátt í verkefninu ásamt skólastjórnendum, kennurum og nemendum við grunnskóla í Bergen. Að auki unnu nemar á íþróttabraut háskólans að verkefninu, sem var hluti af vettvangsnámi þeirra, með áherslu á hvernig hægt er að vinna þverfagleg verkefni. Í verkefninu kynntust háskólanemarnir því hvernig hægt er að auka hreyfingu nemenda í skólanum. Nemar á fyrsta ári á lýðheilsubraut háskólans tóku þátt í þeim hluta verkefnisins sem sneri að grunnskólanum og nemendum hans.

Hausten 2008 058

Háskólanemar hjálpuðu grunnskólanemendum
að skrá niðurstöður í tölvu.

Markmið verkefnisins

Markmiðið með verkefninu var að fá yfirlit yfir hreyfivirkni nemenda og hvetja til aukinnar daglegrar hreyfingar. Að auki var þess vænst að nemendur yrðu meira meðvitaðir um eigin ábyrgð á umhverfisvænum lífsstíl vegna þess að lögð var áhersla á umhverfis- og náttúruverndarsjónarmið í verkefninu. Það felur t.d. í sér að hjóla eða ganga í skólann í stað þess að keyra, að fara á æfingu o.s.frv. Annað markmið var að athuga hvort notkun skrefateljara gæti hvatt nemendur til daglegrar hreyfingar. Rannsóknir hafa sýnt fram á að skrefateljari getur verkað hvetjandi á hreyfivirkni, sérstaklega hjá þeim sem hreyfa sig lítið (Bravata, Smith-Spangler, Sundaram, Gienger, Lin, Lewis, Stave, Olkin og Sirard, 2007). Af þessu getur verið verulegur heilsufarslegur ávinningur, eins og t.d. aukin orkubrennsla og betra þol. Það er auðvelt að nota skrefateljara, hann er hægt að nota hvar og hvenær sem er og hann er tiltölulega ódýr. Það þarf engan sérstakan búnað eða fatnað og það er gaman að fara í gönguferð með öðrum og hafa sameiginlegt markmið, t.d. um að taka eins mörg skref og unnt er. Það getur því líka verið jákvæð félagsleg hlið á notkun skrefateljara.

Verkefnið

Fyrst var haft samband við þátttökuskólann í mars 2008. Bæði skólastjórnendur og kennarar 6. bekkjar tóku þátt í fyrsta samstarfsfundi þar sem verkefnið var kynnt. Í júní voru áætlanir og dagskrá tilbúnar. Hjá nemendum stóð verkefnið yfir frá skólabyrjun í ágúst til 19. september. Skráning hreyfingar stóð yfir í tvær vikur. Nemendur fengu upplýsingar um að þeir ættu sjálfir að taka þátt í rannsókninni og kynna niðurstöðurnar á Rannsóknardögum 2008.

Tengsl við námskrá

Rannsóknir um gildi aukinnar hreyfingar barna og unglinga voru aðalhvati að verkefninu. Um leið var lögð áhersla á að nemendur gætu unnið þverfaglega út frá námsmarkmiðum í fleiri en einni grein. Í almennri námskrá fyrir grunn- og framhaldsskóla er lögð áhersla á að kennsla sé við hæfi allra nemenda og að fjölbreyttar aðferðir séu notaðar. Í verkefninu unnu nemendur með grunnfærniþættina fimm samkvæmt norsku aðalnámskránni (að geta lesið, reiknað, tjáð sig munnlega, tjáð sig skriflega og notað tölvur). Eftirfarandi námsmarkmið úr norsku aðalnámskránni (LK 06) úr ýmsum greinum voru höfð að leiðarljósi:

Áfangamarkmið í leikfimi við lok 7. bekkjar:

Íþróttir og dans:

„taka þátt í leikjum og æfingum sem byggja líkamann upp á fjölbreyttan hátt“

Áfangamarkmið í náttúrufræði við lok 7. bekkjar:

Þekkingarsmiður:

„semja spurningar um það sem nemandann langar að fræðast um, gera áætlun um hvernig rannsaka má fyrirbærið, framkvæma rannsóknina og taka þátt í umræðum um niðurstöðurnar“

„útskýra þörf á að búa til og prófa tilgátur á nákvæman hátt með athugunum og tilraunum og hvers vegna það er mikilvægt að bera saman niðurstöður“

„nota rafræn hjálpargögn og náttúrufræðibúnað í tilraunum“

„finna náttúrufræðilegar upplýsingar í einföldum náttúrufræðilegum texta í fjölmiðlum“

„nota tölvur í kynningu á niðurstöðum á eigin rannsóknum“

Líkami og heilsufar:

„lýsa helstu líffærum líkamans og hvaða hlutverki þau gegna“

„lýsa beinagrindinni og vöðvum og gera grein fyrir hvernig við getum hreyft okkur“

Áfangamarkmið í stærðfræði við lok 7. bekkjar:

Tölur og algebra:

„nota reikniforrit til að reikna út og kynna útreikninga“

Tölfræði og líkindareikningur:

„skipuleggja og safna gögnum sem tengjast eigin athugunum“

„kynna gögnin með töflum og gröfum sem eru sett upp í tölvuforritum og á annan hátt, lesa, túlka og meta gildi þeirra“

Áfangamarkmið í norsku við lok 7. bekkjar:

Munnlegir textar:

„hlusta á aðra, tjá sig um og rökstyðja eigin skoðanir og virða skoðanir annarra“

„gefa rökstutt mat á munnlegri kynningu annarra“

„kynna fræðilegt efni munnlega, með eða án hjálpargagna, með þarfir hlustenda í fyrirrúmi“

Skriflegir textar:

„skrifa samfelldan texta með persónulegri handskrift“

„hafa vald á stafsetningu, reglum um merkjasetningu, nota fjölbreyttan orðaforða og byggja upp setningar á mismunandi hátt“

„nota uppflettirit og orðabækur“

Hér höfum við valið áfangamarkmið ólíkra námsgreina til að sýna að verkefnið nær yfir mörg fög. Þetta lögðum við áherslu á í undirbúningi með kennurum.

Nemandinn sem þekkingarsmiður

Nemendur áttu að rannsaka eigin hreyfivirkni. Fyrst þurftu þeir að glíma við spurningar á borð við þessar: Hvað er vísindamaður? Hvað gerir vísindamaður? Hvernig vinnur hann? Hvað er hægt að rannsaka?Þurfum við rannsóknir? Hvers vegna? Hvers vegna skiptir máli að vera nákvæmur í rannsóknum?
Allir nemendur fengu möppu fyrir verkefnið. Í henni voru upplýsingar um framkvæmdina, blöð fyrir dagbókarfærslur og skráningareyðublað. Á það áttu nemendurnir að merkja við hvernig þeir höfðu hreyft sig, svo sem gengið í skólann, hjólað í skólann, verið í leikfimi, útikennslu eða á æfingu. Þeir áttu að merkja með X fyrir hverjar tíu mínútur sem hreyfingin hafði staðið yfir. Allir nemendur fengu skrefateljara til eignar og áttu að nota hann og skrá skrefafjölda daglega. Þeir áttu að skrifa dagbók daglega, ekki í tölvu heldur handskrifa. Skrefafjöldann átti hver nemandi að skrá í reikniforritið Excel og kynna það fyrir öðrum með töflum og gröfum.

Í gönguferð
með skrefateljara

Hreyfing skráð
 

Krossað við
á skráningarblaðið

Í umræðum í bekknum áttu nemendur að koma með tillögur um hvernig þeir gætu stuðlað umhverfisvernd með aukinni hreyfingu. Dagbókina notuðu nemendur til að skrifa um hvað þeir gerðu og hugmyndir sínar tengdar verkefninu.

 


 

Dæmi úr dagbók nemanda

Mánudagur 01.09.08

Á mánudeginum gekk ég í skólann og heim aftur. Og ég hreyfði mig mikið í frímínútunum. Ég var ennþá umhverfisvænni, því ég gekk í staðinn fyrir að keyra á gítarnámskeiðið. Rétt á eftir fóru mamma, frænkur mínar, litla systir mín og ég í gönguferð upp á Smørås-fjallið.

 

Reynslan af verkefninu, niðurstöður

Verkefnið leiddi til aukins áhuga og hvatningar fyrir nemendur, ekki síst vegna notkunar á skrefateljurum. Þetta var einróma álit nemenda. Að auki kom í ljós að áhugi nemenda á hreyfingu hafði áhrif á áhuga fjölskyldunnar og var þeim hvatning. Til dæmis skrifaði einn nemandi að hún og mamma hennar hefðu gengið út í búð að versla í staðinn fyrir að keyra eins og venjulega. Margir nemendur lýstu svipaðri reynslu. Með því að vinna með eigin reynslu og upplýsingar sem þeir höfðu sjálfir safnað saman, eins og t.d. skrefafjölda, lærðu nemendur að nota reikniforrit um leið og það skipti þá sjálfa máli að nota það. Þeir lærðu einnig að búa til og lesa töflur og gröf. Mikil spenna og áhugi var í bekknum þegar árangur var kynntur, bæði hvers einstaklings og árgangsins í heild. Þeir urðu yfir sig hrifnir þegar þeir sáu svart á hvítu að virkni þeirra hafði verið meiri en ráðlögð klukkustund á dag og að þeir voru virkari en enskir jafnaldrar þeirra! Niðurstöður hvers bekkjar sýndu einnig að daglegt meðaltal skrefa var nærri 14000 skref. Nemendurnir voru að sjálfsögðu mjög ánægðir með að vera vel yfir þeim tíu þúsund skrefum sem mælt er með daglega.

Að skrifa í dagbókina var góð þjálfun í ritun sem tengdist eigin reynslu og hugsunum hvers nemanda. Nemendurnir þurftu að hugsa um tengslin milli þess að nota líkamann meira og að stuðla að umhverfisvernd.

Hvað snerti kennara þeirra, þá reyndist þeim erfitt að nýta nægilega í kennslu möguleikana sem fólust í verkefninu: Að vera meðvitaðir um og vilja vinna þvert á námsgreinar. Í viðtölum við kennarana eftir á sögðust þeir ekki hafa gert þetta. Þeir töldu þó að verkefnið hefði leitt til aukinnar meðvitundar um og hvatningar til verkefna af þessu tagi.

Heimildir


Bouchard, C. (1993). Physical activity, fitness and health. Campaign, IL: Human Kinetics Publishers.

Bravata, D. M., Smith-Spangler, C., Sundaram, V., Gienger, A., Lin, N., Lewis, R., Stave, C. D., Olkin, I. og Sirard, J. (2007). Using pedometers to increase physical activity and improve health. The Journal of the American Medical Association 298 (19): 2296–2304.

Departementene (2004). Handlingsplan for fysisk aktivitet 2005–2009. Oslo: Departementene.

Helsedirektoratet (2008). Nøkkeltall for helsesektoren 2008. Sótt á þessa slóð 18. maí 2009:
http://www.helsedirektoratet.no/publikasjoner/rapporter/n_kkeltall_for_helsesektoren_
_2008_327854.

UNICEF (2007). Child poverty in perspective: An overview of child well-being in rich countries: report card 7. Flórens: Unicef Innocenti Research Centre.

Utdanningsdirektoratet. Kunnskapsløftet. Sótt 25.03.09 á þessa slóð: http://www.utdanningsdirektoratet.no/templates/udir/TM_UtdProgrFag.aspx?id=2103.

WHO (2006). Global strategy on diet, physical activity and health. Genf: WHO.
 

Prentútgáfa     Viðbrögð