Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun

Menntavísindasvið Háskóla Íslands
 

Grein birt 20. mars 2009

Greinar 2009

Sigurður Fjalar Jónsson

Opnar lausnir

Frjáls og opinn hugbúnaður í skólastarfi

Grein þessi er annar hluti af þremur þar sem fjallað er um frjálsan og opinn hugbúnað og tekist á við þá spurningu hvort hann hafi hlutverki að gegna í nútíma skólastarfi. Fyrsti hluti birtist í júní 2007, sjá hér. Í þessum hluta er fjallað um frjálsan og opinn hugbúnað með tilliti til skólastarfs. Í fyrsta hluta var sagt frá sögu frjáls og opins hugbúnaðar og kynntir einstaklingar sem þar hafa mest komið við sögu. Í þriðja hluta verður sagt frá þróunarverkefni innan Fjölbrautaskólans í Breiðholti þar sem undanfarin ár hefur verið gerð áhugaverð tilraun með innleiðingu námsstjórnunarkerfisins Moodle. Höfundur er kennari við Fjölbrautaskólann í Breiðholti og stundakennari við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Uppruni tegundanna

It is not the strongest of the species that survives, nor the most intelligent, but the one
most responsive to change. (Charles Darwin)

Um þessar mundir má finna yfir 180.000 hugbúnaðarverkefni af öllum stærðum og gerðum á vefnum SourceForge (http://www.sourceforge.net), allsherjar þróunarvettvangi frjáls og opins hugbúnaðar. SourceForge er ekki eini slíki samastaðurinn á Netinu en einhver vinsælastur vefja þeirrar gerðar sem bjóða einstaklingum eða hópum upp á örugga hýsingu á hugbúnaði í vinnslu og verkfærum til miðlunar kóða, samvinnu og samskipta án endurgjalds eða nokkurra skuldbindinga. Skráðir notendur á SourceForge eru margfalt fleiri að tölu en öll íslenska þjóðin og þeim fjölgar dag frá degi enda aðgangur öllum opinn. Án frekari vitnisburðar eru vinsældir SourceForge vissulega takmarkaður mælikvarði á nytsemi hugbúnaðarins sem þar er þróaður en tölfræðin gefur engu að síður nokkrar vísbendingar um virkni og drifkraft hins opna hugbúnaðarsamfélags.

Karl Fogel nefnist maður sem lagt hefur sig eftir að rannsaka og leiðbeina lesendum sínum um þróun, verkefnastjórn og vinnubrögð við hönnun á opnum hugbúnaði. Ef eitthvað er að marka skrif hans þá bíður flestra verkefnanna á SourceForge og samskonar vefjum þau örlög ein að daga uppi ókláruð og afskipt og safna stafrænu ryki í einhverju fáförnu skúmaskoti Netsins. Allt að níu af hverjum tíu opnum hugbúnaðarverkefnum eru dæmd til að hljóta þessi örlög að mati Fogel (Fogel, 2005). Fjöldi verkefnanna er aftur á móti svo gríðarlegur að þetta mat þýðir engu að síður að umtalsvert magn hugbúnaðar mun lifa af. Carlo Daffara, sem rannsakað hefur opinn hugbúnað, m.a. á vegum Flossmetrics (http://www.flossmetrics.org), rannsóknarverkefnis Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, áætlar að í það minnsta 18.000 traust og virk hugbúnaðarverkefni, þ.e. verkefni sem eru í greinilegri þróun og talin eiga framtíð fyrir sér, megi finna á opnum þjónustuvefjum á við SourceForge (Daffara, 2007). Fogel hefur engu að síður ýmislegt til síns máls. Hugbúnaðarverkefni á SourceForge og viðlíka vefjum draga til sín notendur og þróunaraðila í hundruða- og jafnvel þúsundatali, þau vinsælustu. Þegar grannt er skoðað kemur hins vegar í ljós að umtalsverður hluti þeirra er lítið annað en innistæðulaus, góður ásetningur. Og skal engan undra. Við lifum á tímum sem til skamms tíma virtust takmarkalausir. Áhugafólk jafnt sem fagfólk víða um heim býr við einstakt umhverfi sem örvar og styður við frumkvæði og nýsköpun þó að nú hafi syrt í álinn í efnahagsmálum. Standi hugur einhvers til hönnunar og dreifingar hugbúnaðarlausna smárra eða umfangsmikilla standa fá ljón í veginum. Verkfærin eru alla jafnan til staðar og kostnaður við framleiðslu og miðlun er hverfandi. Stundum er vilji allt sem þarf. Eric Von Hippel, höfundur Democratizing Innovation, hefur lengi rannsakað frumkvöðla og nýsköpun. Hippel hafði eftirfarandi að segja í viðtali sem ráðgjafi á vegum ráðgjafafyrirtækisins Gartner tók við hann.

Ég á við að verkfæri til að stunda hágæða nýsköpun eru að verða svo ódýr og almenn að einstaklingar geta unnið stöðugt vandaðra efni með sífellt lægri tilkostnaði. Með tilkomu Netsins hefur kostnaður vegna samvinnu einnig farið stöðugt lækkandi. Opin hugbúnaðarverkefni eru frábært dæmi um þetta á sviði þekkingariðnaðarins, en hið sama á sér stað á vettvangi vélbúnaðar. (Austin, 2007).

Þegar kostnaður við mistök er óverulegur aukast líkurnar á því að almenningur raungeri hugmyndir sínar og háleita drauma. Og þar sem vegurinn að vel heppnuðum hugbúnaði er undantekningarlaust varðaður hvers kyns villum er umhverfi sem refsar ekki grimmilega fyrir feilspor óneitanlega mikill kostur. Á hinn bóginn getur verið átakalaust að leggja árar í bát um leið og á móti blæs þegar maður er einungis skuldbundinn sjálfum sér og draumum sínum.

Áætlaðar lífslíkur opinna hugbúnaðarverkefna virðast ekki hafa minnstu áhrif á áhuga fólks á þátttöku í þróun þeirra eða notkun. Gróskan og krafturinn er sannarlega engu líkur.

Safn frjáls og opins hugbúnaðar um þessar mundir er afrakstur af vinnu forritara sem meta má til nærri 131.000 mannára. Þar sem hér er fyrst og fremst um að ræða framlög einstaklinga sem ekki fá beinar greiðslur fyrir vinnu sína eru þessi verk hvergi sýnileg í útreikningum á þjóðarframlegð. Á ársgrundvelli og að teknu tilliti til vaxtar er hér um að ræða um 800 milljónir evra í sjálfboðavinnu forritara á hverju ári og kemur nærri helmingur þeirra frá Evrópu. (Ghosh, 2006).

Í skýrslu Evrópusambandsins, sem vitnað er til hér á undan, er gerð tilraun til þess að meta umfang frjáls og opins hugbúnaðar í álfunni allri. Niðurstaðan er sú að það myndi kosta hefðbundin fyrirtæki í upplýsingatæknigeiranum evrópska allt að 12 milljarða evra, eða um 1.400 milljarða íslenskra króna, að endurskapa það magn frjáls og opins hugbúnaðar sem nú þegar er í umferð. Í skýrslunni kemur einnig fram að á síðustu átta árum hefur umfang hugbúnaðarsafnsins tvöfaldast að vexti á 18–24 mánaða fresti. Og það sem meira er, allar líkur benda til þess að sá vöxtur muni halda áfram á næstu árum (Ghosh, 2006).

Það vekur athygli að þrátt fyrir háværa umræðu um síaukin ítök fyrirtækja og opinberra stofnana í þróun frjáls og opins hugbúnaðar þá eru, samkvæmt skýrslu Evrópusambandsins, nærri tveir þriðju hlutar hugbúnaðarins forritaðir af einstaklingum. Fyrirtæki leggja til 15% vinnunnar og opinberar stofnanir önnur 20%. Það er einnig umhugsunarefni að Evrópa er leiðandi afl á þessum vettvangi og þá helst Mið-Evrópa og Skandinavía (Ghosh, 2006). Í þessu samhengi má rifja upp að kjarni stýrikerfisins Linux á tilvist sína að þakka Finnanum Linus Torvalds. Þá má einnig geta þess að forritunarmálið Python er ættað frá Hollandi, gagnagrunnurinn MySQL er sænskur að uppruna og forritunarmálið PHP vinsæla á rætur sínar að rekja til frænda vorra Dana. Allur stendur þessi hugbúnaður skólum og opinberum stofnunum til afnota án nokkurra hindrana eða leyfisgjalda.

Í stuttu máli má segja að frjáls og opinn hugbúnaður sé ekki lengur sá forvitnilegi en afskipti afkimi hugbúnaðarþróunar sem hann áður var. Umfang hans er gríðarlegt og ekkert bendir til þess að hægja muni á vexti og útbreiðslu í náinni framtíð. Þróun frjáls og opins hugbúnaðar er ekki lengur á höndum sérviturra hakkara og hann einskorðast ekki við stýrikerfið GNU/Linux. Opinn hugbúnaður snertir nánast öll svið upplýsingatækninnar og skiptir þá ekki máli hvort horft er til kröfuharðra stórnotenda eins og risafyrirtækja eða stofnana, skóla eða heimila. GNU/Linux ruddi brautina en í kjölfar þess feta þrautreyndar og áreiðanlegar lausnir með trausta markaðshlutdeild, virk samfélög notenda og ábyrgra þróunar- og þjónustuaðila. Hér má áfram taka dæmi um hugbúnað eins og vefþjóninn Apache (http://www.apache.org/), forritunarmálið Ruby (htpp://www.ruby-lang.org), hugbúnaðarsafnið OpenOffice (http://www.openoffice.org), gagnagrunninn PostgreSQL (http://www.postgresql.org), vefskoðarann Firefox (http://www.mozilla.com) og netbundna námsumhverfið Moodle (http://www.moodle.org) svo fátt eitt sé nefnt. Frjáls og opinn hugbúnaður er ekki einungis raunverulegur valkostur við séreignarhugbúnað heldur lifandi vitnisburður um hugmyndafræði í þróun og markaðssetningu sem á sér hliðstæðu í sköpun, ummyndun og opnu aðgengi að mannlegri þekkingu og menningararfinum öllum.

Frjáls og opinn hugbúnaður er kominn til að vera. Það sem aftur á móti hefur vafist fyrir leikum sem lærðum, og vert er að skoða nánar, er í fyrsta lagi hvort frjáls og opinn hugbúnaður standist samanburð við séreignarhugbúnað hvað gæði og öryggi varðar. Í öðru lagi hvort frjáls og opinn hugbúnaður sé augljóslega fjárhagslega hagkvæmur kostur. Og loks í þriðja lagi hvaða ávinningur hljótist af notkun frjáls og opins hugbúnaðar og hvort sá ávinningur sé þess eðlis að hann réttlæti notkunina. Allt tengist þetta meginviðfangsefni þessarar ritsmíðar sem orða má með einfaldri spurningu. Er frjáls og opinn hugbúnaður til þess fallinn að nota í skólastarfi?

Frjáls og opinn hugbúnaður í skólastarfi

Árið 2005 gaf forsætisráðuneytið út skýrsluna Opinn hugbúnaður: Opinn hugbúnaður sem valkostur við séreignarhugbúnað til undirbúnings við stefnumótun stjórnvalda um notkun opins hugbúnaðar. Samkvæmt skýrslunni er notkun opins hugbúnaðar á Íslandi almennt ekki útbreidd og kemur það vart á óvart. Þó kemur fram að vefþjónshugbúnaður hefur náð umtalsverðri markaðshlutdeild innan opinbera geirans hérlendis líkt og gerst hefur víðsvegar um heiminn. Nokkuð skortir á aðgengilega þjónustu við annan opinn notendahugbúnað en líklegt er að framboð slíkrar þjónustu komi til með að aukast við aukna útbreiðslu hans, segir ennfremur (Forsætisráðuneytið, 2005). Niðurstaða skýrslunnar er í stuttu máli sú, að opinn hugbúnaður sé kostur sem beri að skoða jafnfætis séreignarhugbúnaði í leitinni að hagkvæmustu lausnum á sviði upplýsingatækni fyrir ríkisaðila. Velja skal þá lausn sem hagkvæmust er hverju sinni á grundvelli óhlutdrægs mats á eignarhaldskostnaði og kostum og göllum fyrir viðkomandi starfsemi. Hafa skal í huga að kostnaður við öflun hugbúnaðar er aðeins hluti heildarkostnaðar við innleiðingu og notkun. Við val á hugbúnaði er mikilvægt að tryggja möguleika á samþættingu við annan hugbúnað og samskipti við notendur annarra tegunda hugbúnaðar (Forsætisráðuneytið, 2005).

Niðurstaða skýrslunnar er afar mikilvæg þar sem hún boðar leiðréttingu á samkeppnisstöðu frjáls og opins hugbúnaðar gagnvart séreignarhugbúnaði þegar kemur að vali eða útboðum á hugbúnaði á vegum hins opinbera hér á landi. Skýrslan er ennfremur mikilvæg vegna þess að hún vekur athygli á opnum hugbúnaði sem raunverulegum valkosti við séreignarhugbúnað en leiða má að því líkum að ráðandi aðilar innan opinbera geirans hafi í gegnum tíðina lítt verið upplýstir um frjálsan hugbúnað og opinn, tilvist hans, kosti og vankanta.

Í kjölfar ofangreindrar skýrslu voru mótuð drög að stefnu stjórnvalda um frjálsan og opinn hugbúnað og birt á Netinu árið 2007. Endanleg útgáfa stefnunnar var birt 11. mars 2008.

Stefna stjórnvalda um frjálsan og opinn hugbúnað

Stefna stjórnvalda er í fimm tölusettum liðum:

 1. Gæta skal þess að gefa frjálsum hugbúnaði sömu tækifæri og séreignarhugbúnaði þegar tekin er ákvörðun um kaup á nýjum búnaði og ávallt skal leitast við að gera sem hagstæðust innkaup.

 2. Leitast verði við að velja hugbúnað sem byggist á opnum stöðlum, hvort sem um staðlaðan búnað er að ræða eða sérsmíðaðan. Opnir staðlar eru yfirleitt ráðandi í frjálsum hugbúnaði.

 3. Stefnt verði að því að opinberir aðilar verði ekki of háðir einstökum hugbúnaðarframleiðendum og þjónustuaðilum. Notkun frjáls hugbúnaðar er liður í því.

 4. Stefnt skal að því að hugbúnaður sem smíðaður er og fjármagnaður af opinberum aðilum, m.a. í rannsóknar- og þróunarverkefnum, verði endurnýtanlegur. Liður í því er að hugbúnaðurinn sé frjáls. Í upphafi slíkra verkefna skal gera áætlun um endurnýtingu hugbúnaðarins.

 5. Stuðlað verði að því að nemendur í menntastofnunum landsins fái tækifæri til að kynnast og nota frjálsan hugbúnað til jafns við séreignarhugbúnað.
  (Forsætisráðuneytið, 2008)

Rétt er að vekja athygli á fimmta og síðasta lið stefnunnar en í skýringum með þeim lið segir:

Einnig býður frjáls hugbúnaður upp á kennslumöguleika sem ekki eru fyrir hendi þegar um séreignarhugbúnað er að ræða. Hægt er að kynnast innri virkni hugbúnaðarins og kenna nemendum um eðli hans, forritun og fleira. Frjáls hugbúnaður er að þessu leyti betur til þess fallinn að vekja áhuga á forritun og upplýsingatækni meðal nemenda en séreignarhugbúnaður sem aðeins leyfir kennslu í notkun búnaðarins. (Forsætisráðuneytið, 2008)

Evrópska skólanetið (e. European Schoolnet) gaf út í aprílmánuði árið 2004 skýrsluna Why Europe Needs Free and Open Source Software and Content in Schools þar sem kannaðir voru kostir og gallar opins hugbúnaðar í skólakerfinu. Í stuttu máli sagt eru niðurstöður skýrslunnar þær að opinn hugbúnaður hafi upp á margt að bjóða í skólakerfinu en almenn vanþekking á viðfangsefninu hindri framgang þess (Vuorikari, 2004, bls. 2). Í skýrslunni er einnig vísað til áhugaverðrar niðurstöðu eldri rannsóknar Evrópska skólanetsins, rannsóknar sem framkvæmd var árið 2002 og leiddi í ljós að allt að 2/3 hlutar stafrænna námsumhverfa (e. digital educational platforms) breskra skóla voru sérsmíðuð innan veggja skólanna. Skýrsluhöfundar velta upp þeirri spurningu hvort þessi sterka hneigð til heimasmíðaðra lausna bendi til undirliggjandi óánægju með séreignarhugbúnað og þann kostnað sem honum fylgir (Vuorikari, 2004, bls. 5). Þetta er vert að rannsaka nánar og má í því sambandi benda á uppgang verkefnisins Sakai sem nokkrir öflugustu háskólar Bandaríkjanna standa í sameiningu að og snýst um þróun á opnu, netbundu námsumhverfi (sjá http://www.sakaiproject.org).

Í maímánuði árið 2005 gaf breska stofnunin BECTA (British Educational Communications and Technology Agency, sjá http://www.becta.org.uk/) út skýrslu þar sem kynntar voru niðurstöður rannsóknar sem hafði það að markmiði að kanna eftirfarandi þrjá þætti í notkun frjáls og opins hugbúnaðar:

 • Kannað var hversu vel aðferðafræði frjáls/opins hugbúnaðar virkar þegar kemur að notkun í námi, kennslu og umsýslu og stjórnun menntastofnana. Ennfremur hvaða árangri skólar sem nota frjálsan og opinn hugbúnað virðast ná.

 • Borinn var saman eignarhaldskostnaður (total cost of ownership) frjáls/opins hugbúnaðar og almenns séreignarhugbúnaðar.

 • Vakin var athygli á vel heppnaðri innleiðingu og notkun frjáls/opins hugbúnaðar innan breska skólakerfisins og komið með dæmi um slíkt.

Skýrslan byggist á rannsókn þar sem þátt tóku alls 48 skólar, 33 þar sem ekki var notast við frjálsan og opinn hugbúnað og 15 þar sem frjáls og opinn hugbúnaður var notaður í mismiklum mæli. Þess má geta að útgáfu skýrslunnar var beðið með töluverðri eftirvæntingu í Bretlandi og viðbrögð við birtingu hennar voru nokkur.

Í skýrslunni er hagnýtingu opins hugbúnaðar skipt í þrjú svið eftir því hvernig notkun hans er háttað innan skólakerfisins. Skiptingin endurspeglar fjölbreytileika opinna lausna, notagildi og margvíslega möguleika.

Samkvæmt skýrslu BECTA:

 • eru opnar hugbúnaðarlausnir nýttar til að keyra vefþjóna og tryggja skólum mikilvæga grunnþjónustu, svo sem aðgengi að Netinu. Hér er ekki síst átt við hinn vinsæla vefþjón Apache og stýrikerfið Linux.

 • er frjáls opinn hugbúnaður nýttur sem grunnkerfi tölva, þ.e. sem stýrikerfi í tölvum sem komið er fyrir í kennslustofum eða annars staðar í skólum. Hér er fyrst og fremst átt við hinar ýmsu útgáfur stýrikerfisins Linux.

 • er opinn hugbúnaður í hlutverki almenns notendahugbúnaðar í kennslustofum og víðar í skólum. Hér má t.a.m. benda á hugbúnaðarvöndla eins og Open Office, teikniforrit eins og GIMP (sjá http://www.gimp.org/) og margvíslegan annan hugbúnað sem hæfir í skólastarfi.

Þrátt fyrir ofangreinda skiptingu er nýting á frjálsum og opnum hugbúnaði mjög ólík eftir skólum samkvæmt niðurstöðum skýrslunnar og skýrir drættir lítt greinanlegir. Allar hugsanlegar útfærslur koma til greina. Skólar geta t.a.m. nýtt stýrikerfið Linux í innviði upplýsingakerfa sinna en stýrikerfið Windows á útstöðvum. Vefþjóninn Apache má nota til að birta vefsíður skóla, kennara og nemenda en forritið Frontpage frá Microsoft til að setja þær saman (British Educational Communications and Technology Agency, 2005).

Niðurstöður í rannsókn BECTA benda til þess að sjaldgæft sé að skólar styðjist eingöngu við opinn hugbúnað í skólastarfinu en þeim mun algengara að blandað sé saman opnum og hefðbundnum lausnum. Þrátt fyrir augljósa kosti slíkrar tilhögunar hefur hún þann stóra galla að fjárhagslegur ávinningur verður takmarkaðri en ella. Á heildina litið telja skýrsluhöfundar breska skóla geta sparað umtalsverðar fjárhæðir með aukinni notkun frjáls/opins hugbúnaðar; allt að 44% á hverja PC-tölvu í grunnskólum og 24% í framhaldsskólum (British Educational Communications and Technology Agency, 2005, bls. 22). Og það sem meira er um vert, niðurstaða skýrslunnar er sú að opinn hugbúnaður sé raunverulegur valkostur í skólastarfi. Það er því augljós samhljómur milli niðurstaðna BECTA og menntamálaráðuneytisins íslenska.

Eins og gera mátti ráð fyrir vakti skýrsla BECTA blendin viðbrögð meðal lesenda og þá sérstaklega hagsmunaaðila á markaði. Stórfyrirtækið Microsoft hafnaði fljótlega niðurstöðum hennar [1] og taldi þær byggja á afar veikum grunni vegna þess hversu fáir skólar tóku þátt í rannsókninni. Fylgismenn frjáls/opins hugbúnaðar fögnuðu hins vegar niðurstöðunum og töldu skýrsluna enn eina sönnun þess að frjáls/opinn hugbúnaður væri vel til þess fallinn að þjóna í kröfuhörðu umhverfi eins og skólakerfinu. Það kemur að sjálfsögðu ekki á óvart að aðilar takist á opinberlega þegar svo miklir hagsmunir eru í húfi. Höfum í huga að hagnýting upplýsingatækninnar í nútíma skólastarfi kostar menntakerfi heimsins umtalsverðar fjárhæðir á hverju ári og fer sá kostnaður vaxandi (Hayes, 2007). Það er því eftir miklu að slægjast fyrir hagsmunaaðila, hvort sem um er að ræða framleiðendur, söluaðila hugbúnaðar eða fyrirtæki sem selja stoðþjónustu í kringum frjálsan/opinn hugbúnað.

Niðurstöður árlegrar rannsóknar samtakanna OSS Watch (sjá http://www.oss-watch.ac.uk/) á notkun á frjálsum og opnum hugbúnaði á framhalds- og háskólastigi í Bretlandi fyrir árið 2006 leiddu í ljós að allt að 56% skóla á framhalds- og háskólastigi nýta námsumhverfið Moodle en það er opinn hugbúnaður. Tæplega 70% aðspurðra nýttu opinn hugbúnað á vefþjónum og styðjast fyrst og fremst við innanhússþjónustu (OSS Watch, 2006).

Í júnímánuði 2007 kom út skýrslan ICT in European Schools: A Value and Cost Analysis of Microsoft and Open Source Technology Solutions. Samkvæmt niðurstöðum hennar er hugbúnaður frá Microsoft betur til þess fallinn að nýta í skólakerfinu en sambærilegir opnir valkostir. Ráðist var í rannsóknina sem liggur að baki skýrslunni að frumkvæði Microsoft sem einnig kostaði gerð hennar.

Rannsóknin grundvallast á 73 viðtölum sem ráðgjafar skýrsluhöfunda (Wipro Technologies, 2007) áttu við kennara á grunn- og framhaldsskólastigi í sex Evrópulöndum: Frakklandi, Ítalíu, Póllandi, Spáni, Svíþjóð og Bretlandi. Markmið viðtalanna var að reyna að öðlast skilning á því hvernig skólarnir nýta upplýsingatæknina til að veita stuðning við nám, kennslu og rekstur skóla. Bornar voru saman opnar lausnir og hugbúnaður frá Microsoft í því skyni að meta hvor valkosturinn hentar betur evrópskum skólum. Áhersla var lögð á eftirfarandi fjóra þætti:

 • Nám nemenda

 • Aukið hagræði fyrir kennara og árangur

 • Aukið hagræði fyrir stjórnendur og árangur

 • Kostnað við umsýslu hugbúnaðar og stuðning við kennara

Niðurstöður skýrslunnar eru þær helstar að á öllum ofangreindum sviðum hefur hugbúnaður Microsoft vinninginn. Nemendur sögðu hann einfaldari í notkun og fleiri eiginleikum gæddan (Wipro Technologies, 2007). Niðurstöðurnar voru ekki eins einhliða þegar leitað var svara hjá skólastjórnendum en eftir sem áður almennt hliðhollari Microsoft. Hvað kostnaðarþáttinn varðar var niðurstaðan sú að hugbúnaðurinn frá Microsoft reyndist ódýrari í umsýslu og utanumhaldi. Eftirfarandi ástæður voru gefnar upp:

 • Færri vandkvæði í tengslum við hugbúnað og vélbúnað.

 • Auðveldara að leysa vandræði sem koma upp, t.d. vegna ríkulegri leiðbeininga.

 • Sérfræðingar í hugbúnaði Microsoft eru fleiri og ódýrari.

 • Kostnaður vegna stuðnings við PC-tölvur er um það bil 17% minni við skóla sem nýta Microsoft hugbúnað heldur en við skóla sem nota opinn hugbúnað.

 • Tölvutengd vandkvæði eru helmingi líklegri til að eiga sér stað við skóla sem nýta opinn hugbúnað heldur en lausnir frá Microsoft.

 • Skólar sem nýta opinn hugbúnað eyða meira fjármagni í stýrikerfi og algengan notendahugbúnað en skólar sem nýta Microsoft lausnir.

Niðurstöður könnunarinnar ganga þvert á BECTA-könnunina fyrrgreindu. Það vekur enda sérstaka athygli að engir breskir skólar sem nýta opinn og frjálsan hugbúnað voru spurðir um reynslu sína, líkt og í öllum öðrum löndum. Fimm breskir skólar voru þátttakendur í könnuninni og nýttu þeir allir hugbúnað frá Microsoft. Að sögn var þetta vegna þess að engir skólar fundust sem nýta fyrst og fremst opinn hugbúnað. Í skýrslunni segir eftirfarandi um vinsældir hugbúnaðarins Microsoft Office samanborið við hugbúnaðarsafnið OpenOffice.

Meirihluti kennara kýs Microsoft Office fram yfir Open Office. Einungis tveir kennaranna kunnu vel við hugbúnaðarsafnið Open Office. Fyrir þessu eru nokkrar ástæður. Í fyrsta lagi eru kennarar vanir að nota hugbúnað frá Microsoft og þekkja það umhverfi vel. Í öðru lagi finnst kennurum okkar hugbúnaður Microsoft einfaldari í notkun (Wipro Technologies, 2007, bls. 24).

Kennarar og nemendur eru hagvanir hugbúnaði Microsoft, þeim hefur verið kennt að nota hann og finnst hann þess vegna sjálfsagður. Íslenskir nemendur og kennarar eru aldir upp við hugbúnað frá Microsoft vegna þess að hann er inngróinn í íslenskt menntakerfi og námsefni. Hann er nánast ríkisstyrktur. Íslenska ríkið kostar þróun og útgáfu á íslensku kennsluefni fyrir grunnskóla í lausnum Microsoft á sviði ritvinnslu, töflureikna og vefsmíða. Í námsefni frá Námsgagnastofnun sem nefnist Upplýsingatækni 5.7. bekkur (sjá http://www.nams.is/uppltaekni/index.htm) er einungis unnið með hugbúnað frá Microsoft og hvergi einu orði minnst á aðra kosti. Þar sem fjallað er um leit á Netinu er t.a.m. kennd notkun vefskoðarans Internet Explorer frá Microsoft en ekki einu orði minnst á hugbúnað eins og t.a.m. Opera, Safari eða Firefox en sá síðastnefndi er opinn hugbúnaður. Í námsefni fyrir miðstig og 8.10. bekk (sjá http://www.nams.is/uppltaekni/index_2.htm) er hið sama uppi á teningnum og einungis kennt á hugbúnað Microsoft. Hér skal þó tekið fram að námsefni í ritvinnslu fyrir opna hugbúnaðinn OpenOffice er væntanlegt en þegar þetta er ritað er einungis efnið um búnaðinn frá Microsoft komið út. Ástæða þessa er skiljanleg. Útgáfa á kennsluefni er kostnaðarsöm og það er einfaldlega ekki gerlegt að gefa út efni á íslensku fyrir alla þá fjölbreyttu flóru hugbúnaðar sem fyrirfinnst. Það felst óumdeilt fjárhagslegt hagræði í því að nýta samstæðar lausnir og þannig vill til að lausnir frá Microsoft eru ráðandi þegar kemur að ritvinnslu, töflureiknum og framsetningu upplýsinga innan jafnt sem utan veggja skólastofunnar. Í þessu sambandi er aftur á móti ágætt að hafa eftirfarandi ákvæði laga í huga. Samkvæmt lögum um námsgögn (Lög nr. 71, 28. mars 2007) hefur Námsgagnastofnun á hendi það hlutverk að leggja grunnskólum til námsgögn í samræmi við meginmarkmið náms og kennslu á grunnskólastigi samkvæmt grunnskólalögum og aðalnámskrá (3. grein). Námsgagnastofnun hefur ennfremur samkvæmt sömu lögum það hlutverk að fylgjast með þróun og nýsköpun í námsgagnagerð fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla (3. grein). Það verður því forvitnilegt að sjá hvort stofnunin kynni sér nýjungar á sviði hugbúnaðarþróunar og endurskoði útgáfu sína á námsefni í upplýsingatækni með hliðsjón af nýrri stefnu um frjálsan og opinn hugbúnað.

Málatilbúnaður Microsoft í kringum skýrslu BECTA og niðurstöður í könnuninni sem fyrirtækið kostaði eru dæmigerð fyrir málflutning markaðsaðila á borð við Microsoft um þessi efni og eiga sér fjölda hliðstæðna. Það virðist því lítil von til þess að andstæðar fylkingarnar nái sáttum um þetta eilífa þrætuepli, þ.e. hversu gjaldgengur frjáls og opinn hugbúnaður sé í skólakerfinu. En hvað ef svarið við spurningunni er ekki einungis að finna í skýrslum sem útlista niðurstöður þar sem tekið er á fjárhagslegum þáttum, öryggi tölvukerfa og gæðum hugbúnaðar? Hvað ef dropinn sem fyllir mælinn, þúfan sem veltir hlassinu er ekki sjálfur hugbúnaðurinn heldur það sem felst í notkun hans. Það sem einkennir þróun hans?

Akademían og klaustrið

Without order nothing can exist
without chaos nothing can evolve.
(Óþekktur höfundur)

Rannsóknir sem gerðar hafa verið á kostum og göllum við nýtingu frjáls og opins hugbúnaðar, og skiptir þá ekki máli hvort notkunin einskorðast við skólaumhverfið eða ekki, byggja fyrst og fremst á empírískum stærðum og mælanlegum. Skýrsla BECTA er dæmigerð fyrir þetta. Kannað er hvernig hugbúnaðurinn reynist við raunverulegar aðstæður. Skortir eitthvað á innri virkni, aðgerðir eða möguleika? Ítarlegar rannsóknir eru gerðar á eignarhaldskostnaði og reynt að ná sem best utan um alla hugsanlega þætti sem honum tengjast; s.s. vélbúnað, hugbúnað, stoðþjónustu og kennslu. Reynt er eftir megni að benda á dæmi um vel heppnaða innleiðingu og notkun og greina í hverju hún helst er falin. Allt er þetta augljóslega gott og gilt. En þegar frjáls og opinn hugbúnaður hefur náð þeim þroska sem hann hefur nú náð má spyrja sig hvort ákvörðun um notkun hans byggi ekki á öðrum þáttum, en þeim sem hér hafa þegar verið nefndir til sögunnar. Á endanum er hugbúnaður einfaldlega hugbúnaður. Meira að segja kostnaður getur reynst afstæður og hugtakið „gæði“ er umdeilt og í besta falli afar sveigjanlegt þegar ekki eru til viðurkenndir staðlar að meta samkvæmt. Það sem einum finnst dýrkeypt finnst öðrum sanngjarnt, eða vel sloppið. Það sem einum finnst vel heppnað telur sá næsti engan veginn fullnægjandi.

Frjáls hugbúnaður, eins og Stallman (Sigurður Fjalar Jónsson, 2007) predikar svo gjarnan, felur hins vegar í sér annað og meira en ótakmarkað aðgengi að ókeypis kóða. Frjáls og opinn hugbúnaður er hugsjón um betra samfélag, um aðgengi að upplýsingum, um óhindraða samvinnu og miðlun þekkingar. Allt eru þetta grundvallaratriði í hugmyndafræði frjáls og opins hugbúnaðar sem byggist á allt að því sjálfsprottnum og sjálfbærum samfélögum notenda. Og allt eru þetta atriði sem ber að taka til greina þegar þeirri spurningu er velt upp hvort frjáls og opinn hugbúnaður eigi erindi í skólakerfið.

Hugmyndafræði opins hugbúnaðar grundvallast á þeirri sannfæringu að þekking skuli vera í almannaeigu. Almenn þekking mannkyns á að vera aðgengileg öllum manneskjum til þess að samfélagið í heild geti dafnað. Að stærstum hluta og alls staðar þar sem því verður við komið byggir þessi hugmyndafræði á gjafamenningu. Hver einstakur þátttakandi hagnast á því að gera eigin verk aðgengileg í ört vaxandi safni sameiginlegra verka (Medosch, 2007).

Eric S. Raymond myndaði líkinguna um dómkirkjuna og basarinn til að sýna fram á grundvallarmun á aðferðarfræði við hönnun annars vegar á séreignar- og hins vegar frjálsum og opnum hugbúnaði. Í skrifum hans er mikilfengleg dómkirkjan tákn fyrir lokað ferli þar sem öll völd eru á hendi fámenns hóps sem sér um hugmyndavinnu og skipulagningu auk þess að hafa yfirumsjón með framkvæmd verkefnisins. Basarinn, á hinn bóginn, er samnefnari fyrir frjálst flæði hugmynda og hið opna samfélag áhugasamra þátttakenda sem allir hafa eitthvað fram að færa og frelsi til að koma hugmyndum sínum á framfæri og jafnvel framkvæma þær (Raymond, 1999). Valdinu er mjög misskipt í þessum ólíku kerfum. Dómkirkjan stendur fyrir sterkt, miðlægt og vel skipulagt valdakerfi. Öll gagnrýni innan slíks kerfis er takmörkuð af eðli þess og utanaðkomandi aðilar fá sjaldnast tækifæri til að gagnrýna hugmyndir og handverk fyrr en á lokastigum verksins, jafnvel ekki fyrr en því er lokið. Basarinn er aftur á móti tákn fyrir dreift vald og hann þrífst á opnum, gagnrýnum skoðanaskiptum þar sem raddir allra hafa vægi þó mismikið sé.

Í ljósi þessa er óhætt að velta því fyrir sér hvort helsti ávinningur frjáls og opins hugbúnaðar felist síður í tæknilegri framþróun á sviði hugbúnaðarsmíða eða einstaka vel heppnaðri hugbúnaðarlausn heldur þeirri samfélagslegu og siðferðilegu sýn sem grundvallar aðferðafræðina.

Í ritgerð sinni The Academy and the Monastery skilgreinir Pekka Himanen [2] hið opna líkan, sem frjáls og opinn hugbúnaður byggir tilvist sína á, og stillir því upp andspænis hinu lokaða líkani sem einkennir hönnun og þróunarferli séreignarhugbúnaðar. Þetta gerir hann með því að kynna til sögunnar nýja samlíkingu, akademíuna og klaustrið. Í ritgerðinni leggur Himanen nánast að jöfnu aðferðafræði opins hugbúnaðar og hefðbundna aðferðafræði akademíunnar.

Vísindamenn birta einnig verk sín á opinberum vettvangi í því skyni að aðrir geti látið á þau reyna og þróað áfram. Rannsóknir þeirra grundvallast á hugmyndinni um opið sjálfleiðréttandi ferli. ... Hið vísindalega siðferði leiðir af sér líkan þar sem kenningar verða til í samvinnu og gallar þeirra greindir og smám saman fjarlægðir við gagnrýna aðkomu alls vísindasamfélagsins (Himanen, 2004, bls. 4).

Þessa hefðbundnu sýn á þekkingarsköpunina rekur Himanen aftur til daga gríska heimspekingsins Platons, til þess tíma þegar nemendur voru hlutaðeigandi í sköpun þekkingar en ekki einungis óvirkir þiggjendur vísdóms og fræða. Þegar þekkingin sjálf varð til við gagnrýnar samræður, raunverulega þekkingarleit. Andstæðan við þetta kerfi er hið lokaða módel sem Himanen kennir við klaustur miðaldar.

Í viðskiptaumhverfi sem grundvallast á klausturslíkaninu setja valdhafar markmiðin og velja lokaðan hóp fólks til að fylgja þeim eftir. Þegar hópurinn hefur lokið eigin rannsóknum hafa aðrir engan kost annan en að samþykkja niðurstöður þeirra eins og þær eru settar fram. Önnur not teljast „óheimil notkun“. ... Lokaða líkanið gerir ekki ráð fyrir frumkvæði og gagnrýni sem myndi gera mögulega skapandi og sjálfleiðréttandi nálgun viðfangsefnisins (Himanen, 2004, bls. 5).

Himanen finnur líka ýmislegt sameiginlegt með iðju hakkarans eins og hún hefur verið skilgreind (sjá fyrri grein höfundar í Netlu, vorið 2007, Opnar lausnir – Frumherjarnir) og námi eða öllu heldur því ferli sem felur í sér virkan lærdóm. Lærdómur er veigamikill þáttur í lífi hvers hakkara, ef til vill sá veigamesti. Má í því sambandi benda á hvernig Linus Torvalds lærði forritun upp á sitt einsdæmi með því að kynna sér verk annarra og er hann ekki einn um það. Segja má að flestir hakkarar hafi lært forritun á svipaðan hátt. Áhugahvötin rekur þá áfram en án virks tengslanets jafningja og aðgengis að verkum og verklagi annarra er hætt við að margir hefðu ekki erindi sem erfiði. Og nám er ekki einungis mikilvæg athöfn í huga einstaka hakkara heldur hluti af því félagslega ferli sem er hugbúnaðarsmíði.

Himanen er ekki einn um að koma auga á félagslegan þátt frjáls og opins hugbúnaðar og tengsl hans við nám og tilurð þekkingar. Henry Tirri greinir þessi tengsl einnig og vekur athygli á mikilvægi þess að rannsaka fyrirbærið nánar.

Þar af leiðandi má færa fyrir því rök að þörf sé á þverfaglegri rannsókn til að kanna fræðilegar og hagnýtar hliðar náms í anda opins hugbúnaðarsamfélags, þ.e. þá þekkingarmyndun sem styðst við netbundin tölvusamskipti og gangverk sem tryggir aðgang almennings (Tirri, 2005, bls. 2).

Tirri bendir í þessu sambandi á hversu óaðskiljanleg nútímatækni er samfélags- og þekkingarmiðlun opinna samfélaga. Enda er það ekki fyrr en með tilkomu Netsins sem sprenging varð í þróun og miðlun frjáls og opins hugbúnaðar.

Meðal hugbúnaðarhakkara er samskipta- og upplýsingatæknin í senn viðfangsefni og verkfæri, ekki ósvipað og fræðileg kenningasmíði í höndum vísindamanna. Það er því vel þess virði að velta því fyrir sér hvort túlka megi hugmyndafræði og þróunarlíkan frjáls og opins hugbúnaðar, eins og það er raungert með aðstoð upplýsinga- og samskiptatækninnar, sem árangursríka formgerð þekkingarsköpunar, náms? Skilningur á opnum samfélögum notenda og þróunaraðila frjáls- og opins hugbúnaðar gæti hæglega vísað veginn í átt til innleiðingar sambærilegrar aðferðarfræði í þágu alls skólastarfs. Frjáls og opinn hugbúnaður er í þessu ljósi áhugavert rannsóknarefni þar sem hann hvetur okkur til þess að beina sjónum á ný að sjálfu ferlinu sem á sér stað við uppbyggingu og miðlun þekkingar og þeim vettvangi sem styður við það. Frjáls og opinn hugbúnaður er mikilvægur í akademísku umhverfi þar sem hann grundvallast á hugmyndafræði sem hvetur til sjálfstæðis, sköpunar, samfélagsmyndunar, opinnar þekkingarmiðlunar, samvinnu og náms. Frjáls og opinn hugbúnaður og þær umbreytingar sem hann er boðberi fyrir gætu hæglega orðið drifkrafturinn á bak við samskonar ummyndun í stöðnuðu menntakerfinu, þróunarstarf í skólum þar sem nýtt væru til fulls sóknarfæri upplýsinga- og samskiptatækninnar.

Frjálst og opið nám

Í meistaraprófsritgerð sinni Veiðum menntun í Netið rannsakar Þuríður Jóna Jóhannsdóttir samspil samskipta- og upplýsingatækninnar og námskenninga og kemst að þeirri niðurstöðu að félagsleg hugsmíðahyggja (e. Social Constructivism) sé sú námskenning sem vænlegast „sé að styðjast við ef nýta eigi upplýsinga- og samskiptatækni til gagns í menntun við nútíma aðstæður.“ (Þuríður Jóhannsdóttir, 2001, án blaðsíðutals). Félagsleg hugsmíðahyggja þróaðist út frá kenningum svissneska þroskasálfræðingsins Jean Piaget og hafði m.a. mikil áhrif á lærisvein hans, Seymour Papert, sem setti fram vinsælar kenningar um hlutverk tölva í námi í upphafi níunda áratugs síðustu aldar [3]. Kenningar félagslegrar hugsmíðahyggju, eins og Þuríður lýsir þeim í ritsmíð sinni, ríma allvel við hugmyndafræði frjáls og opins hugbúnaðar.

Þeir sem aðhyllast kenningar hugsmíðahyggjunnar um nám taka mið af þekkingarfræðilegum forsendum og út frá þeim draga þeir þá grundvallarályktun að þekking séer afurð þess hvernig einstaklingar skapa merkingu úr reynslu sinni (Þuríður Jóna Jóhannsdóttir, 2001, án blaðsíðutals).

Hvað snertir hagnýtingu kenninganna í námi leggur Þuríður áherslu á nokkra meginþætti. Fyrir það fyrsta virkni nemandans í hvetjandi og opnu námsumhverfi. Taka verður tillit til forþekkingar hans og ekki gleyma því menningarbundna samhengi sem hann býr við. Samhengi verkefna við raunveruleikann er mikilvægt sem og að nemendur sjái árangur námsins á einhvern áþreifanlegan hátt. Samvinna nemenda er eðlileg og sjálfsögð og meginhlutverk kennara í námsumhverfi sem þessu felst í því að styðja nemendur og námshópinn, hvetja og leiðbeina. Nemandinn skal bera ábyrgð og hafa stjórn á eigin námi á meðan kennarinn er fagleg fyrirmynd í bæði vinnubrögðum og viðhorfum. Síðast en ekki síst skal námið eiga sér stað í andrúmslofti þar sem hvatt er til opinna samræðna og skoðanaskipta. (Þuríður Jóna Jóhannsdóttir, 2001, án blaðsíðutals)

Þegar grannt er skoðað kemur í ljós að ofangreint er glettilega nákvæm lýsing á dæmigerðri virkni venjulegs þátttakanda í einhverju af þeim fjölmörgu opnu samfélögum sem sprottið hafa upp á Netinu í kringum þróun og notkun á frjálsum og opnum hugbúnaði. Samfélög þessi eru oft fjölmenn og nýta til hins ítrasta samskiptakerfi Netsins, s.s. spjallrásir, umræðuvefi, netsíma, bloggvefi, wiki-vefi og jafnvel heilu námsstjórnunarkerfin ef því er að skipta. Samfélögin eru opin fyrir nýjungum og bjóða alla velkomna sem áhuga hafa á viðfangsefninu, jafnt byrjendur sem þrautreynda forritara. Samvinna er samnefnari þess sem fram fer innan slíkra samfélaga en þrátt fyrir það er einstaklingsframtakið í hávegum haft. Þeir sem lengur hafa tekið þátt eru fyrirmyndir sem hvetja og leiðbeina þeim sem eru að stíga sín fyrstu skref. Hver einstakur þátttakandi er hluti af samfélaginu á eigin forsendum og hann hefur fulla stjórn á hlutverki sínu, virkni og framlagi til samfélagsins. Viðfangsefni hópsins eru yfirleitt hagnýt og geta falist allt í senn í forritun, hönnun, villuprófun, handbókargerð og hagnýtingu hugbúnaðarins sem um ræðir. Fræðilegar umræður eru tíðar og skapa oft skemmtilegt andrúmsloft þrátt fyrir skiptar skoðanir. Gagnrýni er vísir að þróun, uppbyggjandi og almennt vel séð. Þetta eru veldi hæfileikamanna (verðleikaveldi, e. meritocracy) og þátttakandi er metinn að verðleikum fyrir framlag sitt, viðhorf, hæfileika og virkni.

Frjáls og opinn hugbúnaður er að sjálfsögðu ekki skilyrði fyrir opnu námssamfélagi sem grundvallast á frelsi til athafna, raunverulegri samvinnu, virku flæði hugmynda og áhugahvöt þátttakenda. Hann er engu að síður lifandi tákn fyrir hugmynda- og aðferðafræði sem er akademísk í eðli sínu og í andstöðu við þá markaðsvæðingu sem leitað hefur í jafnvel afskiptustu skúmaskot nútímasamfélagsins. Frjálsan og opinn hugbúnað á að bjóða velkominn í skólakerfið vegna þess að hann er fjárhagslega hagkvæmur og tæknilega fullburðugur, en ekki síst vegna þess að í heimi þar sem allt hefur verðmiða boðar hann manneskjuleg gildi og frelsi.

Aftanmálsgreinar

 1. Sjá t.d. hér: http://news.zdnet.co.uk/software/linuxunix/0,39020390,39198432,00.htm

 2. Himanen er höfundur bókarinnar The Hacker Ethic sem kom út hjá útgáfunni Random House árið 2001.

 3. Kenningar Paperts urðu mjög vinsælar í kjölfar útgáfu á bók hans Mindstorms: Children, Computers and Powerful Ideas árið 1980.

Heimildir

Austin, T. (2007). Viðtal við Eric Von Hippel. Sótt 27. október 2007 á þessa slóð: http://www.gartner.com/research/fellows/asset_172822_1176.jsp.

British Educational Communications and Technology Agency (2005). Open source software in schools. A study of the spectrum of use and related ICT infrastructure cost. Science Park, Coventry, UK: British Educational Communications and Technology Agency (Becta). Sótt 10. desember 2008 á þessa slóð: http://publications.becta.org.uk/download.cfm?resID=25907.

Dafarra, C. (2007). Estimating the number of active and stable FLOSS projects. Sótt 14. maí 2008 á þessa slóð: http://robertogaloppini.net/2007/08/23/estimating-the-number-of-active-and-stable-floss-projects/.

Fogel, K. (2005). Producing open source software. How to run a successful free software project. Sótt 27. október 2008 á þessa slóð: http://producingoss.com/.

Forsætisráðuneytið (2005). Opinn hugbúnaður: Opinn hugbúnaður sem valkostur við séreignarhugbúnað. Skýrsla til undirbúnings stefnumótunar stjórnvalda um notkun opins hugbúnaðar. Reykjavík: Forsætisráðuneyti.

Forsætisráðuneytið (2008). Opinn hugbúnaður. Stefna stjórnvalda. Sótt 14. maí 2008 á þessa slóð: http://www.ut.is/media/verkefnisstjorn-radstefna-rafraen-framtid/Frjals_og_opinn_hugbunadur_-_Stefna_stjornvalda.pdf.

Ghosh, R. A. (2006). Study on the: Economic impact of open source software on innovation and the competitiveness of the Information and Communication Technologies (ICT) sector in the EU. Sótt 14. maí 2008 á þessa slóð: http://ec.europa.eu/enterprise/ict/policy/doc/2006-11-20-flossimpact.pdf.

Hayes, J. (2007). Technology in schools: What tech support really costs. Sótt 16. september 2007 á þessa slóð: http://www.parallels.com/files/upload/parallels_tech-schoolsFINAL.pdf.

Himanen, P. (2004). The academy and the monastery. Sótt 15. október 2005 á þessa slóð: http://www.netvironments.org/ECulture/Module3/HackerEthic/ NetAcademy/view.

Medosch, A. (2007). The next layer or: The emergence of open source culture. Sótt 10. desember 2008 á þessa slóð: http://ung.at/cgi-bin/twiki/view/Main/TheNextLayerDraft.

OSS Watch (2006). OSS Watch Survey 2006. Sótt 27. október 2007 á þessa slóð: http://www.oss-watch.ac.uk/studies/survey2006/survey2006report.pdf.

Raymond, S. E. (1999). The Cathedral and the Bazaar. Musings on Linux and open source by an accidental revolutionary. Cambridge: O'Reilly.

Sigurður Fjalar Jónsson (2007).Opnar lausnir – Frumherjarnir. Netla Veftímarit um uppeldi og menntun, grein birt 25. júní. Sótt 15. mars 2009 á þessa slóð: http://netla.khi.is/greinar/2007/004/index.htm.

Tirri, H. (2005). Beyond e-learning: Learner as a hacker. Sótt 17. október 2005 á þessa slóð: http://www.hiit.fi/Henry.Tirri.

Vuorikari, R. (2004). Why Europe needs free and open source software and content in schools. Sótt 27. maí 2004 á þessa slóð: http://www.eun.org/insight-pdf/special_reports/Why_Europe_needs_foss_Insight_2004.pdf.

Wipro Technologies (2007). ICT in European schools: A value and cost analysis of Microsoft and open source technology solutions. Sótt 27. október 2007 á þessa slóð: http://download.microsoft.com/download/d/7/1/d71d2b3c-46ad-489d-8e0d-bf5e9b66709f/ICT%20In%20European%20Schools%20-%20A%20Value%20and%20Cost%20Analysis%20by%20Wipro%20PSA%20June%202007.pdf.

Þuríður Jóna Jóhannsdóttir (2001). Veiðum menntun í Netið. Um námskenningar og nýja miðla og áhrif þeirra á nám og kennslu. Óbirt M.Ed.-ritgerð. Reykjavík: Kennaraháskóli Íslands. Sótt 17. október 2005 á þessa slóð: http://ust.khi.is/tjona/medw.htm.

Prentútgáfa     Viðbrögð