Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun

Menntavísindasvið Háskóla Íslands

Ritrýnd grein birt 30. desember 2008

Greinar 2008

Ingibjörg H. Harðardóttir og Amalía Björnsdóttir

Það þarf þorp til að ala upp barn [1]

Framlag eldri borgara til umönnunar barna á Íslandi

Í greininni er fjallað um framlag eldri borgara til samfélagsins og athygli beint að stuðningi afa og ömmu við afkomendur sína. Gagna var aflað með viðtölum og spurningalistakönnunum. Niðurstöður sýna að stuðningur eldri borgara á Íslandi við afkomendur sína er mikill og margþættur og má segja að þeir myndi stuðningsnet um fjölskyldur sínar. Algengast er að stuðningurinn sé í formi barnagæslu en 62% eldri borgara hafa sinnt henni. Þeir sem eru langskólagengnir og/eða tekjuháir eru líklegastir til að hafa þegið aðstoð eldri borgara við barnagæslu. Eldri borgurunum virðist ljúft að aðstoða afkomendur sína og aðra og almenningur kannast vel við þetta framlag þeirra. Ingibjörg H. Harðardóttir er lektor í sálfræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og Amalía Björnsdóttir dósent í aðferðafræði við sömu stofnun.
 

The article focuses on the contribution of older Icelanders to society, with emphasis on the support that grandparents give to their grandchildren. Data was collected with interviews and questionnaires. The results show that senior citizens in Iceland support their families in many different ways and are a kind of safety net for the families. 62% of senior citizens have helped by taking care of children in their families. People with higher SES (higher schooling and salaries) report more often on receiving support in their children’s care. Ingibjörg H. Harðardóttir is a assistant professor at the School of Education, University of Iceland and Amalía Björnsdóttir is associate professor at the same institute.

Fræðileg umfjöllun

Í hugum flestra er fátt mikilvægara en að vel sé búið að börnum og ungmennum. Margir foreldrar kannast við að hafa samviskubit þegar þeim finnst þeir ekki hafa tíma til að sinna börnunum sínum eins vel og skyldi. Í gegnum tíðina ólust börn á Íslandi upp í stórfjölskyldu þar sem þrjár kynslóðir eða fleiri bjuggu og háðu lífsbaráttuna saman. Um aldamótin 1900 bjó meginþorri Íslendinga í sveit eða fámennum plássum við sjávarströndina og á þeim tíma var Reykjavík eina eiginlega þéttbýlið á Íslandi með 12% af íbúum landsins. Þéttbýlismyndun var mjög hröð á 20. öldinni og er nú hlutfall íbúa í þéttbýli með yfir 1.000 íbúa tæplega 90% (Aldarspegill, 2008). Breytingar á íslensku samfélagi á síðustu öld lýstu sér meðal annars í fyrrnefndri þéttbýlismyndun, konur fóru að vinna utan heimilis, börn fóru í dagvistun og stofnanir urðu til sem sinntu öldruðum sem á stuðningi og hjúkrun þurftu að halda. Börnin vörðu æ lengri tíma í leik- og grunnskólum og ýmsum þótti sem tengsl kynslóða væru að rofna og jafnvel að eldri borgarar væru afskiptir.

Árið 2006 var að beiðni Félags eldri borgara í Reykjavík unnin úttekt á framlagi eldri borgara til samfélagsins [2] og hafa niðurstöður hennar birst í tveimur skýrslum (Amalía Björnsdóttir, Auður Torfadóttir og Ingibjörg H. Harðardóttir, 2007; Ingibjörg H. Harðardóttir, Auður Torfadóttir og Amalía Björnsdóttir, 2007). Ákveðið var að skoða framlagið annars vegar frá sjónarhóli eldri borgara sjálfra og hins vegar almennings. Í rannsókninni kom m.a. fram að stór hluti eldri borgara sinnir börnum mikið, oftast barnabörnum og barnabarnabörnum. Hér verður gerð grein fyrir þessum niðurstöðum og spurt hvað þær þýða fyrir það umhverfi sem börn og ungmenni búa við á Íslandi.

Að verða afi og amma er hlutverk sem flestir taka alvarlega og sinna af gleði. Með bættum lífsskilyrðum ná æ fleiri þeim aldri að eignast barnabörn og jafnvel sjá þau ná fullorðinsaldri. Á sama tíma velur fólk að eignast fá börn og ætla má að það að verða afi og amma sé enn meiri viðburður en áður var. Reitzes og Mutran (2002) komust að þeirri niðurstöðu að miðaldra Bandaríkjamenn álitu afa- og ömmuhlutverkið mikilvægara en það hlutverk sem þeir gegndu í vinnunni. Silverstein og Marenco (2001) komast að svipaðri niðurstöðu og segja að samskipti afa og ömmu og barnabarna séu mikil og þau einkennist af miklum stuðningi en skipti jafnframt afana og ömmurnar miklu.

Að verða afi eða amma virðist einnig hafa áhrif á upplifun viðkomandi af eigin aldri. Virkni og þátttaka í samfélaginu leiðir til þess að fólk „upplifir sig yngra en fólk á sama aldri“ (Atchley, 1994) og að vera með barnabörnum í leik og starfi gefur eldra fólki möguleika á þátttöku. Það sem er að gerast í lífi fólks hverju sinni hefur þannig áhrif á hvernig fólk upplifir eigin aldur. Kaufman og Elder (2003) rannsökuðu samspil þess að vera amma og afi og upplifun viðkomandi af eigin aldri. Niðurstöður sýndu að eldra fólki, sem nýtur þess að vera amma eða afi, finnst það vera yngra, það gefur upp hærri aldur sem viðmið um elli og væntir þess að lifa lengur en þeir sem ekki eru afar eða ömmur og spurðir eru að því sama.

Margar fleiri rannsóknir sýna fram á að því virkara sem eldra fólk er og því fleiri hlutverk sem það hefur, þeim mun meiri sé lífsfylling þess og því langlífara verður það. Adelmann (1994) rannsakaði virkni eldri borgara, fjölda hlutverka sem þeir sinntu (allt upp í átta hlutverk; launþegi, maki, foreldri, sjálfboðaliði, afi/amma, nemi) og lagði mat á andlega líðan þeirra með þar til gerðum prófum. Efri árin einkenndust af breyttum hlutverkum þar sem ný hlutverk bættust við hin fyrri og komu jafnvel í stað fyrri hlutverka. Niðurstöður voru þær að haldi einstaklingur áfram að sinna hlutverkum sínum hefur það áhrif á líðan hans. Þeim sem eru virkir líður betur, þeir eru ánægðari, minna ber á þung¬lyndi og þeir upplifa sig gagnlegri en hinir sem sinna færri hlutverkum.

Vissulega þurfa eldri borgarar að sníða sér stakk eftir vexti. Þeir geta ekki endilega sinnt öllum þeim áhugamálum og störfum sem þeir höfðu þegar þeir voru yngri. Því heyrast stundum þær raddir að barnapössun hafi neikvæð áhrif á heilsufar eldri borgara. Hughes, Waite, Pierre og Luo (2007) beindu sjónum sínum að áhrifum barnapössunar á andlega og líkamlega heilsu eldri borgara. Niðurstöður þeirra sýndu að þau heilsufarsvandamál sem eldri borgararnir glímdu við áttu rætur að rekja til annars en barnagæslunnar. Þeir fundu engar vísbendingar um að umönnun barnabarna hefði neikvæð áhrif á heilsu afa og ömmu en fundu aftur á móti dæmi um jákvæð áhrif hennar.

Silverstein og Marenco (2001) benda á að samskipti afa og ömmu séu meiri meðan barnabörnin eru lítil. Þau eru í pössun og afi og amma taka þátt í tómstundastarfi með þeim. Þegar börnin eldast verða samskiptin að trúnaðarsambandi. Amma og afi verða trúnaðarmenn eldri barnabarna sinna. Mann (2007) vitnar í skrif Crawford frá 1981 um að ánægjan sé oft mest meðan barnabörnin eru lítil en þegar þau eldist og flytji að heiman þá verði stundum milliliðalaust samband milli barnabarna og afa og ömmu, þ.e. óháð foreldrum. Afi og amma styðja einnig barnabörnin fjárhagslega í sumum tilfellum. Samkvæmt niðurstöðum Silverstein og Marenco (2001) voru efnameiri afar og ömmur líklegri til að styðja barnabörn fjárhagslega en þau efnaminni. Efnaðar ömmur og afar eru einnig líklegri til að taka þátt í fjölskylduboðum og í tómstundum barnabarna, til dæmis með því að koma og horfa á þau keppa eða taka þátt í ýmiskonar sýningum. Rannsókn Amalíu Björnsdóttur o.fl. (2007) sýndi svipaðar niðurstöður, þ.e. að tengsl voru á milli fjárhagsstöðu og þess að styrkja afkomendur til ákveðinna hluta, t.d. tómstunda.

Mikilvægt er að beina einnig athygli að afahlutverkinu annars vegar og ömmuhlutverkinu hins vegar. Niðurstöðum rannsókna ber ekki saman (skv. yfirliti í Kaufman og Elder, 2003). Finna má rannsóknir sem sýna að ömmur séu ánægðari en niðurstöður annarra rannsókna sýna engan slíkan kynjamun. Reitzes og Mutran (2002) sýndu fram á að ömmur áttu í meiri samskiptum við barnabörnin en afar. Það virtist skipta meira máli fyrir afa að þeir væru með jákvæða mynd af sér í afahlutverkinu meðan konur virtust sinna þessu hlutverki nánast sjálfkrafa. Robin Mann (2007) segir það útbreidda skoðun að framlag afanna sé takmarkað borið saman við ömmurnar og mikilvægi þess að vera afi fyrir karlmenn sé stórlega vanmetið. Hann staðhæfir að eftirtektarverður munur sé á milli niðurstaðna nýrri rannsókna og eldri af afa- og ömmuhlutverkunum og nýrri rannsóknir greini frá nýjum normum fyrir afahlutverkið þar sem áhersla er á uppeldi og leiðsögn.

Aldraðir hafa kvartað yfir neikvæðum viðhorfum til aldurshópsins. Niðurstöður rannsóknar Sigurveigar H. Sigurðardóttur (2006) bentu m.a. til þess að eldra fólk upplifi fordóma í sinn garð, forsjárhyggju og skort á virðingu, eins og það sé hálfpartinn afskrifað af samfélaginu. Hvetja þarf yngra fólk til að bera meiri virðingu fyrir eldra fólki. Það getur einnig minnkað kynslóðabilið ef samband kynslóða á milli er ræktað með fleiri samverustundum. Þá þurfa aldraðir að leggja sitt af mörkum og hafa frumkvæði að þeim samskiptum en ekki ætlast til þess af yngra fólkinu að það hafi alltaf hugsun á því.

Unnið er að auknum samskiptum eldri borgara og barna á ýmsum stöðum á Íslandi. Sem dæmi má nefna Flataskóla þar sem eldri borgurum er boðið í heimsókn og þeir beðnir um að miðla af reynslu sinni (Flataskóli, 2008). Í Hveragerði er samstarf milli leikskóla og dvalarheimilis en í tillögu að skólastefnu segir: ,,Áhersla er lögð á góð samskipti leikskólabarna við eldri borgara, m.a. með gagnkvæmum heimsóknum barna og íbúa Dvalarheimilisins Áss. Þessi samskipti eru mikilvægur þroskakostur fyrir börnin og eldra fólkinu gleðigjafi“ (Skólanefnd Grunnskólans í Hveragerði, 2008).

Niðurstöður rannsóknar á framlagi eldri borgara til samfélagsins sýna að það er mikið, fyrst og fremst innan fjölskyldunnar og mynda þeir þar nokkurs konar öryggisnet (Amalía Björnsdóttir og Ingibjörg H. Harðardóttir, 2007). Hér á eftir verða kynntar þær niðurstöður sem snúa að framlagi afa og ömmu til barnagæslu og þátttöku í lífi afkomenda sinna.

Aðferð

Rannsóknarsnið

Notuð var blönduð rannsóknaraðferð (mixed methods) við öflun gagna. Í fyrstu umferð rannsóknar voru tekin viðtöl við 21 eldri borgara. Unnið var úr þessum viðtölum og gerð spurningakönnun meðal eldri borgara sem valdir voru af handahófi úr þjóðskrá. Með hliðsjón af niðurstöðum þeirrar könnunar var gerð könnun meðal almennings, þ.e. einstaklinga sem valdir voru af handahófi úr þjóðskrá.

Þátttakendur

Valinn var 21 einstaklingur til þátttöku í viðtölum samkvæmt ábendingum um eldri borgara sem væru virkir í samfélaginu. Reynt var að velja fólk með ólíkan bakgrunn, svo sem með hliðsjón af búsetu, fyrri störfum og aldri. Konur voru tólf og karlar níu í hópi þátttakenda. Fjórir karlanna bjuggu í dreifbýli og fimm í þéttbýli en konurnar skiptust jafnt á þétt- og dreifbýli. Meðalaldur þátttakenda var 73,7 ár. Elstu þátttakendurnir voru 82 ára en þeir yngstu 68 ára gamlir. Af þeim voru þrír enn í launaðri vinnu, þar af tveir í fullu starfi.

Til þátttöku í spurningakönnun meðal eldri borgara voru valdir af handahófi úr þjóðskrá 1200 einstaklingar á aldrinum 67 til 85 ára [3]. Endanlegt úrtak var 1123 einstaklingar því fjórir voru búsettir í útlöndum, fimm látnir og 68 veikir. Alls svöruðu 725 eða 64,6%. Í 132 einstaklinga náðist ekki og 266 neituðu að svara.

Í síðasta hluta rannsóknarinnar voru valdir 1350 einstaklingar, 16 til 75 ára, af handahófi úr þjóðskrá. Um var að ræða könnun þar sem spurt var um framlag eldri borgara til samfélagsins. Í úrtakinu voru 29 búsettir í útlöndum, 24 veikir og tveir látnir. Endanlegt úrtak var því 1295. Svarhlutfall var 62% en 296 einstaklingar neituðu að svara og ekki náðist í 199.

Framkvæmd

Tekin voru viðtöl við þátttakendur á heimilum þeirra og hvert viðtal tók á bilinu 13 til 36 mínútur. Viðtölin voru tekin upp stafrænt og síðan vélrituð upp orðrétt. Rannsakendur lásu vélrituð viðtölin yfir og leituðu að atriðum sem tengdust viðfangsefni rannsóknarinnar. Við lyklun var notað forritið NVivo 7.

Í spurningakönnun meðal eldri borgara var hringt í viðmælendur og lagðar fyrir þá spurningar. Gallup sá um framkvæmdina. Niðurstöðum var skilað til rannsakenda í formi skýrslu (IMG Gallup, 2006) og SPSS-skrár. Unnið var frekar úr gögnunum með SPSS 15.0.

Að lokinni spurningakönnun meðal eldri borgara voru nokkrar spurningar um framlag þessa aldurshóps til samfélagsins settar í spurningavagn Capacent Gallup. Niðurstöðum var skilað á sama hátt í skýrslu (Capacent Gallup, 2006) og SPSS-skrá.

Viðtalsrammi og spurningalistar

Viðtölin voru hálfopin og notaður var sami spurningarammi fyrir öll viðtölin.

Í könnun meðal eldri borgara voru spurningar um framlag eldri borgara til samfélagins og bakgrunn og stöðu þátttakenda. Samtals voru 26 spurningar í könnuninni og þar af nokkrar sem notaðar voru til samanburðar, þ.e. skoðað var hvort svör einstaklinga væru ólík eftir flokkun á spurningunum. Í könnun meðal fólks á aldrinum 16 til 75 ára voru nokkrar spurningar sem valdar voru eftir að niðurstöður úr könnun eldri borgara lágu fyrir.

Niðurstöður

Viðtöl

Í upphafi rannsóknarinnar var rætt við 21 eldri borgara sem valinn var vegna þess að hann var virkur í samfélaginu. Þessi hópur veitir sínum nánustu og öðrum ríkulegan stuðning en ofarlega á blaði í viðtölunum var sá stuðningur sem þeir veita barnabörnum og barnabarnabörnum. Afi au pair“ var einn viðmælenda gjarnan kallaður í fjölskyldunni enda flutti hann stundum með ömmunni inn til barnabarnanna þegar foreldrarnir brugðu sér af bæ. Ein konan í hópi viðmælenda lýsir þessu svo: „Ég tek þátt í þeirra kjörum með því að grípa inn í og gæta barnanna, bæði í styttri tíma og lengri tíma.“

Algengt er að afar og ömmur hlaupi í skarðið og gæti veikra barna þar sem foreldrarnir eru útivinnandi: „Meðan dóttir mín var með sín börn lítil og hún var náttúrulega í vinnu, og alltaf koma dagar þar sem börnin eru lasin. Og þá bara skutlaði hún þeim til ömmu.“ Önnur hefur þetta að segja: „Já, það finnst mér alveg yndislegt að þau eigi innhlaup hérna þegar bjátar á og það bregst ekki að í hverri viku er einhver veikur og kemst ekki í leikskólann.“

Enn ein segir:

Ég hef alltaf verið að sinna svolítið barnabörnum og m.a.s. langömmubörnum svo ég gríp ennþá inn í það, mætti segja mér að það væri tvisvar í viku sem ég sæki barn á leikskólann og hef hann þangað til mamman kemur heim og er að passa langömmubörn á meðan mamma er að reyna að læra. Ég gríp alltaf eitthvað í það.

Eldri börnin sem eru orðin meira sjálfbjarga koma oft við á skólatíma ef afi og amma búa nálægt: „Það er meira á matartímum. Stundum ef það eru göt hjá þeim þá koma þeir.“

Einnig veita afar og ömmur stuðning við lærdóminn:

Elsta langömmubarnið er núna orðið 14–15 ára. Og hann býr nú reyndar í Danmörku en þegar hann kemur þá kemur hann hingað. Eins var hann í skóla hér í hálft ár og þá kom hann reglulega einu sinni til tvisvar í viku og ég hjálpaði honum með íslenskuna sem hann var að gera í skólanum. En það var ósköp ljúft að fylgjast með honum.

Stuðningur við íþróttastarf ungu kynslóðarinnar birtist í eftirfarandi:

Ég mæti á flest alla leiki sem að hér eru og öll íþróttamót og reyni alltaf að hjálpa til í undirbúningi að mótum og öðru, þegar þau standa, og ég tel ekki eftir mér að vinna í sjálfboðavinnu að vinna við það. Ég held að það sé mikið forvarnarstarf unnið þar og tel að það sé öllum hollt að vinna í slíku starfi.

Í sumum fjölskyldum eldri borgara eru, eins og í öðrum fjölskyldum, viðfangsefni sem kalla á sértækan stuðning og það er ljóst af viðtölunum að þar leggur þessi hópur sitt af mörkum gagnvart börnum og barnabörnum. Má nefna einhverfan dreng sem nýtur aðstoðar afa síns við lyfjagjöf og fatlaðan dreng sem nýtur stuðnings ömmu sinnar og afa:

Jú, hann getur ekki gengið en er afskaplega glaður og svona duglegur strákur. Nýtur þess að vera á hestbaki og það er álitið að það sé mjög gott fyrir svona fötluð börn. Við höfum verið að fara með hann upp í Kópavog einhvers staðar. Og svo flytjum við líka þangað þegar mamma hans þarf að fara.

Það er ljóst að eldri borgarar eru liðtækir í stuðningi við fjölskyldur sínar þegar sérstakrar aðstoðar er þörf og mynda eins konar öryggisnet þegar á þarf að halda. Oft brúa þeir bilið áður en til opinberrar aðstoðar kemur. Í mörgum tilfellum eru þeir líklega þeir einu innan fjölskyldunnar sem geta ráðstafað tíma sínum að eigin geðþótta og veitt þennan stuðning.

Í viðtölum var ekki spurt sérstaklega um fjármál en fram kom í nokkrum viðtölum að eldri borgarar styðja sína nánustu af og til fjárhagslega. Kona í hópi viðmælenda tók svo til orða: „Ja, þau vita það mín börn að þau geta leitað til mín fjárhagslega ef að eitthvað kemur upp á. Sem betur fer er ég það vel sett að ég get hjálpað.“ Karl tekur í svipaðan streng: „Það er eiginlega ekki nema að litlu leyti. Þau hafa sótt lítið í það. Það hafa verið svona lítilræði og svona herslumunur, ekki gengið neitt lengra í því.“

Spurningakannanir

Í spurningakönnun meðal eldri borgara var spurt hvort þeir hefðu aðstoðað afkomendur eða aðra með barnagæslu eftir að þeir urðu 67 ára. Niðurstöður má sjá á mynd 1 en þar sjást hlutföll. Alls sögðust 62% hafa aðstoðað við slíkt og þar af voru tæplega 37% sem sögðust hafa aðstoðað daglega eða tvisvar til þrisvar sinnum í viku.
 

Mynd 1 - Hlutfall eldri borgara sem hafa aðstoðað við barnagæslu.

Ekki var tölfræðilega marktækur munur á þessum niðurstöðum eftir kyni, aldri eða hjúskaparstöðu. Nokkrir bakgrunnsþættir tengjast svörum við þessari spurningu samkvæmt greiningu IMG Gallup (2006) og var búseta einn þeirra.
 

Mynd 2 - Hlutfall eldri borgara, sem hafa aðstoðað við barnagæslu, eftir búsetu.

Á mynd 2 sést að heldur algengara var að fólk á höfuðborgarsvæði, miðað við fólk á landsbyggðinni, passi tvisvar til þrisvar sinnum í viku en landsbyggðarfólk féll í meira mæli í þann flokk sem passaði sjaldnar en vikulega.

Í spurningakönnun eldri borgara var spurt um ráðstöfunartekjur og var hópunum skipt í þrennt eftir tekjum. Marktækur munur fannst á því hversu mikið eldri borgararnir pössuðu eftir tekjum þeirra. Þeir tekjuhærri höfðu frekar aðstoðað með þessum hætti eins og sést á mynd 3. Helmingur eldri borgara í tekjuhæsta hópnum passaði tvisvar til þrisvar sinnum í viku eða oftar en 31% í tekjulægsta hópnum.
 

Mynd 3 - Hlutfall eldri borgara, sem hafa aðstoðað við barnagæslu, eftir tekjum.

Í framhaldi þessara spurninga var skoðað í hverju barnagæslan fælist, þ.e. hvort börnin væru í gæslu heima hjá viðkomandi, hvort gæslan færi fram á heimili barnanna eða hvort verið væri að fylgja börnunum eða keyra milli staða. Alls sögðust 84% gæta barna á sínum heimilum, 48% sögðust gæta barnanna á þeirra heimilum og 24% sögðust keyra eða fylgja á milli staða.

Kynjamunur kom fram í svörum eins og sést á mynd 4 en karlar voru frekar í því en konur að keyra og fylgja á milli staða sem að hluta til má skýra með því að helmingur kvennanna keyrir bíl en 88% karlanna. Konur fóru frekar en karlar inn á heimili barnanna og gættu þeirra þar.
 

Mynd 4 - Hlutfall eldri borgara sem hafa aðstoðað við ákveðin verk tengd barnagæslu.

Ef mynd 5 er skoðuð sést að smám saman dregur úr því þegar svarendur eldast að þeir séu að fylgja eða keyra börn á milli staða eða gæta barna á heimilum þeirra. Reyndar var ein undantekning á því og hún er sú að fólk á aldrinum 71 til 74 ára var líklegra til að passa börnin á heimilum þeirra en yngsti hópurinn 67 til 70 ára.
 

Mynd 5 - Hlutfall eldri borgara, sem hafa aðstoðað við ákveðin verk
tengd barnagæslu, eftir aldri.

Ekki var hægt að sjá að mat eldri borgaranna á eigin heilsu tengdist því hverju þeir sinntu af þeim þáttum sem á undan eru nefndir. Búseta hafði einnig lítil áhrif á hlutfall þeirra sem gættu barna á heimilum þeirra en algengara var að fólk á höfuðborgarsvæðinu (51%) en landsbyggðinni (44%) gætti barna á heimilum þeirra. Það var einnig meira um það að eldri borgarar á höfuðborgarsvæðinu (29%) en landsbyggðinni (18%) væru að fylgja eða skutla börnum á milli staða.

Á mynd 6 sést að munur var eftir tekjum eldri borgara hvaða verk tengd barnagæslu þeir tóku að sér. Þar sést að algengara var að þeir tekjuhærri væru að keyra eða fylgja börnum á milli staða. Hafa skal þó í huga að yngri hluti eldri borgara er yfirleitt tekjuhærri en sá eldri og þeir yngri eru einnig líklegri til að keyra bíl.

 

Mynd 6 -  Hlutfall eldri borgara, sem hafa aðstoðað við ákveðin verk
tengd barnagæslu, eftir tekjum.

Auk spurninga um barnagæslu voru nokkrir þættir þar sem spurt var almennt um stuðning við fjölskyldu eða aðra. Til dæmis höfðu 19% þátttakenda aðstoðað afkomendur eða aðra vegna alvarlegra veikinda eða fötlunar og 54% höfðu aðstoðað afkomendur eða aðra fjárhagslega. Líklegt er að eitthvað af þeim stuðningi hafi nýst barnabörnum.

Í spurningakönnun meðal almennings kom í ljós að 32% þátttakenda könnuðust við að hafa þegið aðstoð eldri borgara við barnagæslu. Munur var talsverður eftir tekjum þátttakenda, þ.e. þeir tekjuhærri meðal almennings höfðu frekar þegið slíka aðstoð en þeir tekjulægri. Niðurstöðurnar má sjá á mynd 7.
 

Mynd 7 - Hlutfall almennings, sem þegið hefur aðstoð eldri borgara
við barnagæslu, skoðað eftir tekjum.

Það er nokkuð áberandi ef mynd 7 er skoðuð að þeir sem eru með 800 þúsund krónur eða hærri mánaðartekjur voru langlíklegastir til að hafa þegið aðstoð eldri borgara við barnagæslu.

Sama mynstur kom í ljós ef skoðað var hlutfall almennings sem þegið hafði þessa aðstoð eftir menntun.

Algengara var að háskólamenntaðir hefðu fengið aðstoð en þeir með minni menntun og má sjá niðurstöður á mynd 8. Það virðist því vera að langskólagengnir og tekjuháir fái oftast aðstoð við barnagæslu hjá eldri borgurum.
 

Mynd 8 - Hlutfall almennings, sem þegið hefur aðstoð eldri borgara
við barnagæslu, skoðað eftir menntun.

Umræður

Ljóst er að stuðningur eldri borgara á Íslandi við fjölskyldur sínar er mikill og margþættur. Í viðtölum við 21 eldri borgara var nokkuð áberandi að þeir virtust mynda öryggisnet innan fjölskyldu sinnar, þ.e.a.s. þeir hlupu undir bagga þar sem þörf var á. Stuðningur þeirra er margvíslegur og er það í samræmi við niðurstöður Kaufman og Elder (2003) að stuðningur sé mismunandi eftir aldri barnanna, t.d. unglingar komi að borða og fái aðstoð við heimanámið. Yngri börn eru sótt í leikskóla eða þeirra er gætt á eigin heimilum eða heima hjá afa og ömmu. Í spurningakönnun kom í ljós að 62% eldri borgara höfðu sinnt barnagæslu og tæplega 37% sinna henni daglega eða tvisvar til þrisvar í viku. Þetta hlýtur að vera framlag sem skiptir þjóðfélagið og foreldra ungra barna máli. Samskiptin við barnabörnin eru einnig eldri borgurum í hag því þau gefa þeim möguleika á þátttöku í samfélaginu en samkvæmt Atchley (1994) leiðir þessi þátttaka til þess að eldri borgarar upplifa sig yngri. Kaufman og Elder (2003) segja einnig að þeir sem hafa gaman af þessu hlutverki upplifi sig yngri og vonist til að lifa lengur. Í viðtölunum var áberandi gleði yfir því að eiga möguleika á þátttöku í lífi barnabarnanna.

Þeir sem hafa hærri tekjur eru líklegri til þess að hafa sinnt barnagæslu. Þetta rímar við niðurstöður Silverstein og Marenco (2001) sem sýndu að efnameiri einstaklingar voru líklegri til að styðja afkomendur sína, ekki bara fjárhagslega heldur einnig með því að gefa af tíma sínum, svo sem með því að fylgjast með tómstundastarfi barnabarna. Einnig sýna niðurstöður okkar að munur er á tíðni barnagæslu eftir búsetu. Hjá fólki á höfuðborgarsvæðinu er algengast að passa tvisvar til þrisvar í viku en á landsbyggðinni er algengast að passa sjaldnar en vikulega. Munur á landsbyggð og höfuðborgarsvæði kemur einnig fram í því að líklegra er að fólk á höfuðborgarsvæðinu hafi fylgt börnunum eða keyrt þau á milli staða.

Ekki var munur á tíðni barnagæslu eftir kyni en munur var á því í hverju hún fólst. Mann (2007) hefur bent á að það sé útbreidd skoðun að ömmur leggi meira af mörkum en afarog að nýrri rannsóknir sýni að framlag afanna sé stórlega vanmetið. Okkar niðurstöður sýna að afarnir eru meira í því að fylgja á milli staða og keyra meðan ömmurnar gæta frekar barna á heimilum þeirra. Smám saman, með hækkandi aldri, dregur úr því að eldri borgarar keyri og fylgi á milli staða og einnig því að þeir fari á heimili barnabarna til að sinna þeim þar. Fjárhagsleg staða eldri borgara hefur einnig áhrif, þeir tekjuhærri fylgja frekar eða keyra á milli staða.

Niðurstöður okkar eru skýrar þegar skoðað er hverjir njóta helst þessa stuðnings eldri borgara. Tekjuhærri og betur menntaðir einstaklingar eru líklegri til að segja að þeir hafi þegið aðstoð við barnagæslu hjá eldri borgurum. Velta má fyrir sér ástæðum þessa. Ein hugsanleg skýring er sú að þetta sé hópur sem vinnur langan vinnudag og þurfi því frekar slíka aðstoð en hinir, eða sé í störfum þar sem vinnutími er lítt sveigjanlegur. Einnig má velta fyrir sér hvort það sé eitthvað í hefðum eða venjum hjá ákveðnum fjölskyldum að standa saman og styrkja hvert annað og að sú samheldni hafi komið foreldrunum í gegnum langskólanám og nýtist nú næstu kynslóð. Auk þess er hugsanlegt að börn foreldra sem hafa góðar tekjur séu líklegri til að taka þátt í ýmiskonar tómstundastarfi og því fylgi umstang þar sem afi og amma hlaupa undir bagga. Munurinn sem fram kemur er vísbending sem áhugavert væri að skoða nánar, þ.e. hvort stéttarmunur sé á þessum stuðningi.

Umræða um eldri borgara sem veikan hóp með miklar þarfir fyrir þjónustu samfélagsins hefur verið ráðandi, a.m.k. í fjölmiðlum. Þótt sá hópur sé vissulega til þá eru hinir líka margir sem eru við góða heilsu og leggja mikið af mörkum. Tæplega er hægt að efast um framlag eldri borgara til uppeldis og umönnunar barna en eldri borgarar geta í ríkara mæli en aðrir hópar í samfélaginu ráðstafað tíma sínum að vild og vilja gjarnan hlaupa undir bagga. Sú umræða í þjóðfélaginu að tengsl á milli kynslóða hafi rofnað stenst ekki að öllu leyti sé höfð hliðsjón af þessum niðurstöðum.
 

Aftanmálsgreinar

  1. Afrískt spakmæli og einnig heiti á metsölubók sem Hillary Clinton skrifaði.

  2. Rannsóknin var styrkt af Sambandi íslenskra sparisjóða.

  3. Capacent Gallup miðar venjulega við efri aldursmörk 75 ár.

Heimildir

Adelmann, P. K. (1994). Multiple roles and psychological well-being in a national sample of older adults. Journal of Gerontology: Social Sciences, 49(6), 277–285.

Aldarspegill. Kennaraskóli Íslands/Kennaraháskóli Íslands 1908–2008 (2008). Ritstjórar Svanhildur Kaaber og Heiðrún Kristjánsdóttir. Reykjavík: Kennaraháskóli Íslands.

Amalía Björnsdóttir og Ingibjörg H. Harðardóttir (2007). Eldri borgarar og stórfjölskyldan. Í Gunnar Þór Jóhannesson (ritstj.), Rannsóknir í félagsvísindum VII (bls. 493–504). Reykjavík: Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands.

Amalía Björnsdóttir, Auður Torfadóttir og Ingibjörg H. Harðardóttir (2007). Framlag eldri borgara til samfélagsins. Seinni hluti. Niðurstöður kannana meðal eldri borgara. Reykjavík: Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands.

Atchley, R. (1994). Social forces and aging (7. útg.). Belmont, CA: Wadsworth.

Capacent Gallup (2006). Viðhorf almennings til framlags eldri borgara til samfélagins. Reykjavík: Capacent Gallup.

Flataskóli (2008). Upplýsingarit. Sótt 15. júlí 2008 af http://gamli.flataskoli.is/Uppl%C3%BDsingarit%202008.doc.

Hughes, M. E., Waite, L. J., Pierre, T. A. og Luo, Y. (2007). All in the family: The impact of caring for grandchildren on grandparents´ health. The Journals of gerontology Series B: Psychological Sciences and Social Sciences, 62, 108–119.

IMG Gallup (2006). Framlag eldri borgara. Viðhorfsrannsókn. Reykjavík: IMG Gallup.

Ingibjörg H. Harðardóttir, Auður Torfadóttir og Amalía Björnsdóttir (2007). Framlag eldri borgara til samfélagsins. Fyrri hluti. Viðtalskönnun meðal eldri borgara. Reykjavík: Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands.

Kaufman, G. og Elder Jr., G. H. (2003). Grandparenting and age identity. Journal of Aging Studies, 17, 269–282.

Mann, R. (2007). Out of the shadows?: Grandfatherhood, age and masculinities. Journal of Aging Studies, 21, 281–291.

Reitzes, D. C. og Mutran E. J. (2002). Self-concept as the organization of roles: Importance, centrality and balance. Sociological Quarterly, 43, 647–667.

Sigurveig H. Sigurðardóttir (2006). Viðhorf til aldraðra. Í Gunnar Þór Jóhannesson (ritstj.), Rannsóknir í félagsvísindum VII (bls. 221–234. ). Reykjavík: Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands.

Silverstein, M. og Marenco, A. (2001). How Americans enact the grandparent role across the family life course. Journal of Family Issues, 22, 493–522.

Skólanefnd Grunnskólans í Hveragerði (2008). Fundur skólanefndar Grunnskólans í Hveragerði haldinn í Grunnskólanum Hveragerði, 10. mars 2008. Fundargerð. Sótt 15. júlí 2008 af www.hveragerdi.is/content/files/public/Fundargerdir/Skólanefnd/Sk080310.doc.
 

Prentútgáfa     Viðbrögð