Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun

Menntavísindasvið Háskóla Íslands

Ritrýnd grein birt 30. desember 2008
 

Greinar 2008

Sigurborg Sturludóttir og Jóhanna Einarsdóttir

Reynsla foreldra
af grunnskólabyrjun barna sinna


Viðfangsefni þessarar rannsóknar var að kanna upplifun og reynslu foreldra af grunnskólabyrjun barna sinna og þær breytingar sem grunnskólabyrjunin hafði á fjölskylduna. Enn fremur var athugað hvort samskiptin við skóla barnsins, þ.e. annars vegar við leikskóla, hins vegar grunnskóla, breyttust á þessum tímamótum. Rannsóknin var gerð í byrjun árs 2007 og var um megindlega rannsókn að ræða. Sendir voru spurningalistar til foreldra barna sem byrjuðu í 1. bekk haustið 2006. Úrtakið var klasaúrtak; valdir voru þrír hópar foreldra, einn hópur búsettur á höfuðborgarsvæðinu, annar í stærri sveitarfélögum á landsbyggðinni og sá þriðji í minni sveitarfélögum. Svörun var 64%. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að menntun og búseta foreldra hafi áhrif á þær breytingar sem skólabyrjun barnsins hefur í för með sér á fjölskylduna og daglegt líf hennar. Flestir foreldrarnir höfðu jákvæða reynslu af grunnskólabyrjuninni en margir sögðust hafa kviðið þessum tímamótum. Háskólamenntaðir foreldrar kviðu minnst grunnskólabyrjun barna sinna en foreldrar einungis með grunnskólamenntun kviðu henni mest. Í rannsókninni kom fram að tíunda hvert foreldri skipti um vinnu vegna breytinga sem urðu þegar barn þess fór úr leikskóla í grunnskóla og áttu mæður erfiðara en feður með að samræma vinnu sína og grunnskólagöngu barnsins. Samskipti heimilis og skóla barnsins breyttust töluvert og virtist menntun foreldranna hafa mikil áhrif á viðhorf foreldra til mikilvægis samskipta heimilis og skóla. Almennt var þátttaka foreldra í skólastarfi barnsins ekki mikil eftir að það hóf grunnskólanámið.

Sigurborg Sturludóttir er kennari við Grunnskólann í Stykkishólmi og Jóhanna Einarsdóttir er prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.
 

The aim of the study was to examine parents’ feelings and experience when their children started primary school and the changes it had on the family. It was also examined if relations and interactions with the primary school were different from that of the playschool. The study was quantitative and data was collected in the beginning of the year 2007. Questionnaires were sent out to parents of children who had started 1st grade in the fall of 2006. The sample was a cluster sample. Three groups of parents were selected; one group from the capital area of Reykjavík, the second from large municipalities, and the third from small municipalities. The response rate was 64%. The results indicate that parents’ education and residence has influence on the changes that families experience when their children start primary school. Most of the parents had positive experience of their children starting primary school but many said that they had been anxious and worried. University educated parents were least worried but parents with only compulsory education were most anxious. The research shows that every tenth parent changed jobs because of this turning point in their lives, mainly the mothers. Relations between families and school changed considerably when the children went from playschool to primary school. After the children started primary school there was less interaction between the family and the school. Educated parents had more interactions with the school than other parents.

Sigurborg Sturludóttir is a primary school teacher in Stykkishólmur and Jóhanna Einarsdóttir is a professor in early education at the School of Education, University of Iceland.

Inngangur

Að byrja í grunnskóla er mikilvægur áfangi í lífi barna og er fyrsti skóladagurinn í hugum margra einn af eftirminnilegustu dögum ævinnar. Þessi áfangi er talinn marka ákveðin kaflaskil í lífi barna sem hefur í för með sér breytingar á hlutverki þeirra innan fjölskyldunnar og samfélagsins (Fabian, 2002). Griebel og Niesel (2003) skipta þessum breytingum í þrennt: Í fyrsta lagi breytist einstaklingurinn sjálfur, sjálfsmynd hans og sjálfstæði, í öðru lagi breytast samskiptin við aðra, ný tengsl myndast og þau eldri breytast eða jafnvel rofna og í þriðja lagi verða breytingar á aðstæðum þar sem grunnskólinn er ólíkur leikskólanum að mörgu leyti. Einnig verða breytingar innan fjölskyldunnar. Þessar breytingar snerta ekki eingöngu börnin sjálf heldur alla sem koma að skólabyrjun þeirra (Bronfenbrenner, 1979; Fabian, 2002). Erlendar rannsóknir hafa sýnt að breytingar verða á daglegum venjum fjölskyldunnar, stundvísi verður mikilvægari þáttur í daglegu lífi hennar og margir foreldrar verða á nýjan leik að samræma vinnu sína, fjölskyldulíf og hinn nýja skóla barnanna (Dockett og Perry, 2007; Griebel og Niesel, 2002). Tilgangur þeirrar rannsóknar sem greint er frá í þessari grein [1] var að skoða reynslu íslenskra foreldra af grunnskólabyrjun barna þeirra og þær breytingar sem þeir upplifðu við þau tímamót.

Tengsl einstaklingsins og umhverfisins

Líkön byggð á vistkerfisnálgun Urie Bronfenbrenners hafa verið notuð til að útskýra mikilvægi tengsla á milli heimilis, leikskóla og grunnskóla. Bronfenbrenner (1979) horfði á einstaklinginn út frá heildrænu samhengi, þ.e. félagslegum, sögulegum, menningarlegum og umhverfislegum þáttum, og talaði um vistkerfisþroska einstaklingsins (e. ecology of human development) í umhverfi hans. Hann skipti umhverfi einstaklingsins í fjögur lög eða kerfi; nærkerfi (e. microsystem), millikerfi (e. mesosystem), stofnanakerfi (e. exosystem) og lýðkerfi (e. macrosystem). Hann líkti lögunum eða kerfunum við babúsku, þ.e. trébrúðu sem er gerð úr mörgum lögum hverju innan í öðru. Þá er einstaklingurinn kjarninn í lagskiptu umhverfi. Í nærkerfinu, eða hversdagssviðunum eins og það er einnig kallað, er nánasta umhverfið (innsta lagið) eða þau svæði þar sem einstaklingurinn er í beinum tengslum við þær persónur sem standa honum næst, t.d. foreldra og systkini heima hjá sér og við kennara og önnur börn í skólanum eða leikskólanum.

Einstaklingar innan nærkerfisins hafa samskipti innbyrðis og mynda næsta lag, samskiptanet, sem kallast millikerfi. Þar er t.d. átt við samskipti barnsins við vini í hverfinu, samstarf heimilis og skóla og samstarfsverkefni á milli skólastiganna. Utan um nær- og millikerfið er síðan þriðja lagið sem kallast stofnanakerfi. Yst er síðan lýðkerfið en þar er menning samfélagsins og gildismat, siðir og skipulag. Ystu tvö lögin snerta einstaklinginn á óbeinan hátt en hafa áhrif á hversdagssvið hans í gegnum stofnanir innan þess, t.d. skólakerfið, fjölmiðla og vinnustaði foreldranna.
 

Mynd 1 - Vistkerfis- og breytingalíkan Pianta og félaga


Robert Pianta og samstarfsfólk hans við Virginíuháskóla í Bandaríkjunum (Pianta, Rimm-Kaufman og Cox, 1999; Pianta og Kraft-Sayre, 1999; Pianta, Kraft-Sayre, Rimm-Kaufman, Gercke og Higgins, 2001; Pianta og Walsh, 1996) og Aline-Wendy Dunlop og Hilary Fabian (2002) hafa gert líkön byggð á vistkerfisnálgun Bronfenbrenners sem skýra tengsl og samskipti einstaklinga og stofnana í umhverfi barna þegar þau hætta í leikskóla og byrja í grunnskóla (mynd 1 og mynd 2). Líkönin eru tilraun til að sýna myndrænt hvernig tengsl á milli barns, heimilis, skóla, vina og umhverfis geta myndað virkt tengslanet sem hefur bein og óbein áhrif á þær breytingar sem eiga sér stað á þessum tímamótum [2].
 


Mynd 2 - Yfirfærslulíkan Dunlop og Fabian

Mismunandi heimar barna

Lars Dencik hefur fjallað um þær breytingar sem orðið hafa í lífi barna á síðustu áratugum. Að mati Denciks (2005) hefur gerð og hlutverk fjölskyldunnar í samfélaginu breyst mikið; fjölskyldurnar eru ekki eins einsleitar og þær voru áður og oft ríkir meiri losarabragur innan þeirra en áður var. Báðir foreldrar eru nær undantekningarlaust útivinnandi og börn verja því mörg hver megninu af deginum í samvistum við aðra en fjölskyldu sína. Degi flestra barna er því skipt á milli heimilis þeirra og stofnana utan þess. Þess vegna telur Dencik að nútímabörn séu þátttakendur í a.m.k. tveimur ólíkum hversdagssviðum eða heimum sem þau upplifa daglega breytingar eða færslur á milli (Dencik, 1999a, 1999b, 2001, 2005; Dencik, Bäckström og Larsson, 1988).

Dencik notar hugtakið félagssvæði (s. sociotop) um þessa heima sem eru ólíkir innbyrðis og hafa mismunandi væntingar til barnanna en hafa víxlverkandi áhrif hver á annan, ekki ólíkt hversdagssviðum Bronfenbrenners. Denick talar í þessu samhengi um tvöfalda félagsmótun barna (s. dobbelt-socialisation) þar sem degi nútímabarna er skipt á milli ólíkra félagssvæða, þ.e. fjölskyldunnar og stofnana utan heimilisins. Dencik hannaði líkan sem lítur út eins og fiðrildi þar sem barnið er í miðjunni og vængirnir tákna félagssvæðin (mynd 3). Samkvæmt líkaninu starfa báðir fiðrildavængirnir saman, eru báðir jafnmikilvægir en innri bygging þeirra er ólík (Dencik, 2005).

Heimilið og skólinn eru tvö mikilvæg hversdagssvið eða heimar í umhverfi barna samkvæmt Bronfenbrenner (1979) og Dencik (1999a; Dencik o.fl., 1988) og því mikilvægt að þau starfi saman. Börnin upplifa daglega skiptingar á milli hversdagssviða eða heima sem krefst aðlögunar að breyttum aðstæðum og væntingum til þeirra.

Mynd 3 - Fiðrildalíkan Dencik og félaga [3]

Samstarf heimilis og skóla

Foreldrar eru lykilaðilar í heimi barna sinna, uppspretta öryggis og tengiliðir við ókunnugar aðstæður og mynda því samfellu í lífi þeirra (Bronfenbrenner, 1979). Þrátt fyrir að nýir aðilar eða hversdagssvið komi til sögunnar er heimilið í flestum tilvikum fastur punktur í lífi barna (Dockett og Perry, 2001; Epstein, 2001; Griebel og Niesel, 2002; Pianta og Kraft-Sayre, 1999). Þegar börn hefja grunnskólagönguna eru foreldrar mikilvægir tengiliðir barns, leikskóla og grunnskóla. Þeir styðja börn sín á þessum tímamótum auk þess að mynda tengingu á milli heimilis og skóla (Dockett og Perry, 2003; Griebel og Niesel, 2002). Foreldrarnir þekkja börn sín best og geta miðlað til grunnskólans upplýsingum um þroska þeirra og reynslu. Góð tengsl á milli skóla og heimila og gagnkvæm upplýsingaöflun skapar samfellu í lífi barna. Rannsóknir benda til þess að grunnskólabyrjunin verði börnum auðveldari þegar þau upplifa svipaðar væntingar í grunnskólanum, á heimili sínu og í leikskólanum (Andersson, 2004; Christenson, 1999; Connors og Epstein, 1995; Dockett og Perry, 2007; Epstein, 2001; Jóhanna Einarsdóttir, 2007; Kagan, 1991; OECD, 2006; Pianta og Kraft-Sayre, 1999).

Erlendar rannsóknir hafa leitt í ljós að virk þátttaka foreldra í skólastarfi og tengsl heimilis og skóla hafa jákvæð áhrif á þroska barna og námsárangur þeirra í skólanum (Connors og Epstein, 1995; Epstein, 2001). Samstarfið er hagur beggja aðila; með því fá kennarar aukinn skilning á lífi og aðstæðum barnanna og foreldrarnir öðlast meira öryggi í uppeldishlutverki sínu og betri skilning á þeim væntingum sem skólinn hefur til barnanna og á því hvernig fjölskyldan og skólinn geta í sameiningu stutt við nám þeirra (Baum og McMurray-Schwarz, 2004; Connors og Epstein, 1995; Epstein, 2001). Gott samstarf milli heimilis og skóla felur í sér að foreldrar barnanna eru samstarfsaðilar skólans í námi þeirra og fjölskylda barnsins er viðurkennd sem samherji skólans (Bohan-Baker og Little, 2004; Epstein, 2001; Epstein, Sanders, Simon, Salinas, Jansorn og Van Voorhis, 2002; Keyes, 2002).

Joyce L. Epstein (1996, bls. 8) flokkar þátttöku foreldra eða samskiptaleiðir á milli heimila og skóla í sex flokka:

 1. Uppeldi. Skólinn er fjölskyldunni til stuðnings og aðstoðar hana við barnauppeldið. Dæmi: Fræðslufundir fyrir foreldra um þroska barna.

 2. Samskipti. Skólinn og foreldrar hafa gagnkvæm samskipti. Dæmi: Foreldraviðtöl, vikuáætlanir, skilaboð, fréttabréf, heimasíða skólans o.fl.

 3. Sjálfboðaliðar. Skólastarfið er aðlagað þannig að foreldrar geti tekið þátt eða fylgst með því. Dæmi: Kennarinn lætur vita að kraftar allra eru vel þegnir og foreldrar boðnir velkomnir í skólann.

 4. Heimanám. Foreldrar taka þátt í heimanámi barna sinna. Dæmi: Vikuáætlun eða heimavinnuáætlun send heim og foreldrar vinna að verkefnum með barninu.

 5. Ákvarðanir. Foreldrar taka þátt í ákvörðunum og stjórnun skólans með setu í foreldrafélögum, foreldraráðum og fræðslunefndum.

 6. Tengsl við samfélagið. Skólinn kemur á tengslum við fyrirtæki og stofnanir í samfélaginu til að styrkja skólastarfið. Dæmi: Mentor-verkefni, tengsl við heilsugæslu, menningarmál, umhverfismál o.fl.

Foreldrar við upphaf grunnskólagöngu

Þegar börn byrja í skóla tekur á móti þeim nýtt umhverfi eða félagssvæði með mótaðar væntingar til þeirra. Ef lítil eða engin samskipti eru á milli heimilis og skóla lifa börnin í tveimur aðskildum heimum (Brooker, 2002). Rannsóknir benda til þess að mörg börn og foreldrar upplifi bæði kvíða og tilhlökkun á þeim tímamótum er börn þeirra hefja grunnskólagönguna. Í rannsókn Jóhönnu Einarsdóttur (2007) á viðhorfum foreldra barna, sem voru að ljúka leikskóladvöl sinni í Reykjavík, kom fram að margir foreldrar báru kvíða í brjósti þegar barn þeirra var að hætta í leikskóla og byrja í grunnskóla. Foreldrar kviðu því að barnið færi úr vernduðu umhverfi leikskólans og ætti erfitt með að aðlagast þeim breytingum sem fylgdu því að færast yfir í grunnskólann þar sem ekki væri eins verndað umhverfi. Margir nefndu að þeir kviðu frímínútum barna sinna í grunnskólanum og stærð grunnskólabygginganna. Þá nefndu þeir að í leikskólanum væru fleiri fullorðnir um hvert barn.

Rannsókn Dockett og Perrys í Ástralíu (2005, september) sýndi svipaðar niðurstöður. Margir foreldrar kviðu því að barnið þeirra væri að fara úr öruggu umhverfi leikskólans og í grunnskólann sem væri meira ógnvekjandi. Sérstaklega tiltóku þeir leiksvæði barnanna í grunnskólanum þar sem færri fullorðnir væru við stjórn og eftirlit en í leikskólanum. Í rannsókn Piantas og Kraft-Sayre (1999) í Bandaríkjunum nefndi meirihluti foreldra að þeim hefði þótt byrjun grunnskólans jákvæð; þó kom fram að um 35% mæðranna í úrtakinu höfðu áhyggjur eða fundu fyrir kvíða við upphaf grunnskólagöngu barna sinna og 8% foreldra sögðu að grunnskólabyrjun barna þeirra hefði valdið óþægindum við daglegar venjur fjölskyldunnar og smávaxandi streitu sem orsakaðist af því að samræma þurfti vinnu foreldra og skóla barnsins.

Rannsóknir benda til þess að samskipti foreldra við skóla barnsins breytist töluvert þegar barnið fer úr leikskóla í grunnskóla. Í rannsókn Griebels og Niesel (2002) kom fram að foreldrum – og þá sérstaklega mæðrum – fannst samskiptin minni við grunnskólann en við leikskólann og að foreldrar þyrftu að hafa meira fyrir því að ná til kennarans. Einnig kom fram hjá foreldrunum að oft á tíðum fengju þeir upplýsingar um nám barnsins í gegnum barnið sjálft eða hjá öðrum foreldrum í stað kennarans. Í rannsókn Rimm-Kaufman og Piantas (1999) kom fram að algengara varð að samskiptin í grunnskólanum snerust um eitthvað sem betur mætti fara í námi barnanna eða um hegðun þeirra.

Eru allir foreldrar þátttakendur í námi barna sinna?

Í nýlegri skýrslu OECD (2006) er bent á að ólíkur félagslegur bakgrunnur foreldra og kennara geti haft áhrif á samstarf heimilis og skóla og lögð er áhersla á að miklu skiptir að kennarar geri sér grein fyrir ólíkri valdastöðu og viðhorfamun í foreldrahópnum. Knopf og Swick (2007) hafa bent á mikilvægi þess að kennarar hafi frumkvæði að samstarfi heimila og skóla og að þeir láti í ljós áhuga á þátttöku foreldra í skólastarfinu. Kennarar þurfi að mynda tengsl við alla foreldra og finna leiðir og tíma sem henta öllum foreldrum, einnig þeim sem þeir telja áhugalausa en eru e.t.v. með lítið sjálfstraust gagnvart skólanum vegna menntunarskorts eða neikvæðrar reynslu af eigin skólagöngu og hafa sig þess vegna ekki í frammi.

Niðurstöður erlendra rannsókna benda til að sumum foreldrum gangi betur að hafa samskipti við skóla barna sinna en öðrum. Lee og Bowen (2006) fundu að betur menntaðir foreldrar í Bandaríkjunum og foreldrar með svipaðan bakgrunn og kennarar barnanna höfðu meiri samskipti við skólann en minna menntaðir foreldrar sem komu úr öðru umhverfi. Í rannsókn Andersson (2004) í Svíþjóð kom fram að kennurum fannst erfiðast að ná til foreldra sem höfðu önnur viðhorf en þeir sjálfir, höfðu aðra sýn á skóla og uppeldi, áttu börn sem áttu í erfiðleikum eða voru neikvæðir eða hræddir við skólann. Mismunandi bakgrunnur foreldra getur haft áhrif á hvenær, hvers vegna og hvernig foreldrar taka þátt í námi barna sinna. Rannsóknir í Bandaríkjunum sýna að einstæðir foreldrar, útivinnandi mæður, foreldrar sem búa langt frá skólanum, og feður koma sjaldnar í skóla barnanna en aðrir foreldrar og taka einnig sjaldnar þátt í skólastarfinu (Epstein, 2001). Niðurstöður rannsóknar Drummond og Stipek (2004) á viðhorfi tekjulágra foreldra til þátttöku þeirra í námi barna sinna sýndu að meirihluti foreldra taldi mikilvægt að taka þátt í námi barnanna og fylgjast með því sem þau voru að læra en jafnframt mátti greina ákveðið öryggisleysi meðal foreldra gagnvart skóla barnsins og skort á upplýsingum um námið. Rannsókn Pelletier og Brent (2002) sýnir svipaðar niðurstöður. Foreldrar sem voru öruggir með sig tóku meiri þátt í skólastarfi barna sinna. Þær aðferðir sem kennarar notuðu til að fá foreldra til samstarfs skiptu sköpum. Lee og Bowen (2006) nýta kenningar Bourdieus og benda á þá skýringu að foreldrar með ólíkan bakgrunn sýni misjafnan áhuga á samskiptum við skóla barna sinna vegna þess að þeir hafi ólíkan veruhátt (e. habitus) sem felur í sér ólíkar hugmyndir og hegðunarmynstur. Menningarauður (e. cultural capital) millistéttarforeldra sé sambærilegur ríkjandi menningu skólans og þess vegna eigi þeir auðveldara með samstarf en hinir.

Fáar rannsóknir hafa verið gerðar á því hvernig íslenskir foreldrar upplifa skólabyrjun barna sinna. Þessi rannsókn beinir sjónum að reynslu foreldra af grunnskólabyrjun barna sinna og þeim breytingum sem hún hafði í för með sér fyrir daglegar venjur fjölskyldunnar og samskipti við skóla barnsins. Jafnframt var skoðað hvort menntun og búseta foreldra hafði áhrif á viðhorf þeirra og reynslu. Með rannsókninni var leitast við að fylla upp í ákveðið þekkingargat þar sem áhrif skólabyrjunar á daglegt líf fjölskyldna hefur lítið verið rannsakað hér á landi. Eftirfarandi rannsóknarspurningar voru hafðar að leiðarljósi í rannsókninni:

 1. Hver var reynsla foreldra af grunnskólabyrjun barna sinna?

 2. Hvaða breytingar á högum fjölskyldunnar hafði grunnskólabyrjunin í för með sér?

 3. Breyttust samskipti foreldra við skóla barnanna þegar þau hófu grunnskólagönguna?

Aðferð

Til að fá svör við rannsóknarspurningunum var spurningakönnun lögð fyrir foreldra barna í 1. bekk grunnskóla. Markmið spurningakönnunarinnar var að fá fram reynslu foreldra af skólabyrjun barna sinna og varpa ljósi á þær breytingar sem hún hafði í för með sér fyrir fjölskylduna.

Spurningalistinn

Spurningalistinn skiptist í þrjú meginþemu eða hluta auk bakgrunnsupplýsinga um svarandann og barn hans, s.s. hvort móðir, faðir eða annar tengdur barninu svaraði listanum, um aldur, menntun og búsetu svarandans, kyn barnsins, hvenær það var fætt á árinu, hvar það var í systkinaröðinni og hversu lengi það var í leikskóla. Í fyrsta hlutanum var reynsla foreldra af grunnskólabyrjun barna þeirra athuguð. Spurt var um þær tilfinningar sem þeir fundu fyrir á þeim tímamótum, hvort þeir hefðu fundið fyrir kvíða og ef svo var af hverju. Í öðrum hluta spurningalistans var spurt um hvort grunnskólabyrjunin hefði haft einhverjar breytingar í för með sér fyrir daglegt líf fjölskyldunnar, á vinnutíma eða vinnustað foreldranna og hvort erfiðara eða auðveldara hefði verið að samræma vinnu foreldra og skóla barnsins eftir að það byrjaði í grunnskóla. Í þriðja hlutanum voru samskipti heimilis og grunnskóla athuguð, kannað var hvort foreldrar hefðu fundið fyrir breytingum á samskiptum við skóla barnsins, þ.e. annars vegar leikskóla og hins vegar grunnskóla, og ef svo var – á hvaða hátt samskiptin breyttust. Einnig var í þessum hluta athuguð upplifun foreldra á þeim upplýsingum sem þeir höfðu fengið frá grunnskólanum á þessum tímamótum og af því hversu mikilvægir þeir séu fyrir skólann í tengslum við nám barna sinna. Frumkvæðið að samskiptum heimilis og skóla var einnig kannað, hvaða samskipti höfðu átt sér stað frá skólabyrjun og viðhorf foreldra til þessa samstarfs.

Spurningalistinn samanstóð af lokuðum spurningum og voru svarmöguleikar þeirra flestra á raðkvarða (Likert-kvarða). Nokkrar spurningar voru hálflokaðar þar sem foreldrar gátu t.d. tilgreint aðrar tilfinningar sem þeir fundu fyrir eða aðrar ástæður fyrir kvíða sínum en svarmöguleikar gáfu kost á. Einnig gátu foreldrar skrifað hvaða ástæður þeir töldu vera fyrir breyttum samskiptum á milli heimilis og skóla. Spurningalistinn var forprófaður á hópi foreldra í 1. og 2. bekk í einum grunnskóla og í framhaldi af forprófuninni var honum lítillega breytt.

Þátttakendur

Úrtakið var klasaúrtak; valdir voru þrír hópar foreldra og í hverjum hópi voru 150 einstaklingar; í hópi 1 voru foreldrar búsettir á höfuðborgarsvæðinu, í hópi 2 foreldrar búsettir í stærri sveitarfélögum á landsbyggðinni (>5000 íbúar) og í hópi 3 foreldrar búsettir í minni sveitarfélögum á landsbyggðinni (≤ 5000 íbúar). Úrtakið var því 450 foreldrar barna í 1. bekk eða um 10,5% af þýðinu (Hagstofa Íslands, 2008).

Framkvæmd

Ellefu skólar voru valdir til þátttöku og voru þeir flokkaðir eftir stærð sveitarfélagsins í ofannefnda þrjá hópa og reynt að hafa fjölda nemenda í hverjum hópi sem næst 150. Rannsóknin var tilkynnt til Persónuverndar og leyfi fengið hjá fræðsluyfirvöldum. Einnig var leitað leyfis frá skólastjórum viðkomandi grunnskóla. Leyfi fékkst frá níu skólum og voru umsjónarkennarar 1. bekkjar beðnir um aðstoð við dreifingu og innheimtu á spurningalistunum. Spurningalistarnir voru sendir til skólanna í janúar 2007 þegar börnin höfðu verið í grunnskólanum í fimm mánuði. Listarnir voru síðan sendir heim með börnunum í umslagi ásamt bréfi til foreldranna með beiðni um þátttöku. Foreldrar svöruðu spurningalistanum heima og sendu hann síðan aftur í skóla barnanna í lokuðu umslagi. Umsjónarkennarinn safnaði umslögunum saman og sendi þau til rannsakanda. Í tveimur skólum var óskað eftir að spurningalistarnir væru sendir beint heim til foreldra og sendu þessir skólar rannsakanda lista með nöfnum og heimilisföngum foreldra. Með því að fá umsjónarkennara til að sjá um dreifingu og innheimtu á spurningalistunum fékkst mun betri svörun heldur en þar sem spurningalistarnir voru sendir beint heim til foreldra.

Svörun

Svörun var í heild 64% af úrtaki og reyndist hún vera misjöfn eftir búsetu þátttakenda; mest var hún í stærri sveitarfélögunum (72,5%), þá í minni sveitarfélögunum (67%) en minnst var svörunin á höfuðborgarsvæðinu (52%). Svörunin var einnig misjöfn eftir menntunarstigi foreldranna; flestir foreldranna, sem svöruðu spurningalistanum, voru með háskólapróf (46%), rúmlega þriðjungur með framhaldsskólapróf (37%) eða sambærilega menntun og 17% með grunnskólapróf. Af foreldrum, sem svöruðu spurningalistanum, voru mæður barnanna í meirihluta eða 87,5%, feður voru 7,5% og aðrir 5%.

Spurningalistarnir voru nafnlausir og var ekki hægt að rekja þá til einstakra svarenda. Niðurstöðurnar voru ekki skoðaðar út frá einstökum skólum eða sveitarfélögum heldur bornar saman í heild eftir bakgrunnsupplýsingum um foreldra og börnin, s.s. búsetu, menntun foreldra, kyni barnsins og hvar í systkinaröðinni barnið var.

Niðurstöður

Reynsla foreldra af grunnskólabyrjuninni

Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að almennt hafi foreldrar jákvæða reynslu af þeim tímamótum þegar barn þeirra byrjaði í grunnskóla því flestir sögðust hafa fundið fyrir tilhlökkun og stolti eins og fram kemur á mynd 4. Um þriðjungur foreldranna (30%) sagðist hafa fundið fyrir einhverjum kvíða eða áhyggjum.
 

Mynd 4 - Líðan foreldra þegar barn þeirra byrjaði í grunnskóla

Háskólamenntaðir foreldrar kviðu minnst grunnskólabyrjun barna sinna en foreldrar einungis með grunnskólapróf kviðu henni mest; tæpur helmingur háskólamenntaðra foreldra kveið þessum tímamótum en rúmlega 60% foreldra með grunnskólapróf. Þegar litið er til búsetu fjölskyldunnar þá var kvíðinn mestur á meðal foreldra á höfuðborgarsvæðinu en minnstur í litlum sveitarfélögum, þ.e.a.s. hlutfall þeirra sem fann fyrir kvíða hækkaði eftir stærð sveitarfélagsins sem þeir bjuggu í.

Hvar barnið var í systkinaröðinni virtist einnig skipta máli því foreldrar sem voru að senda sitt elsta barn í grunnskóla (56%) og foreldrar með einbirni (53%) voru kvíðnari en foreldrar sem voru að senda sitt annað (52%) eða þriðja barn (38%) í grunnskóla. Helmingur foreldra sem var að senda sitt yngsta barn í grunnskóla fann fyrir kvíða. Foreldrar drengja virtust einnig bera meiri kvíðboga fyrir grunnskólabyrjuninni en foreldrar stúlkna því 53% foreldra drengja kviðu skólabyrjuninni en 48% foreldra stúlkna. Ekki reyndist þó vera tölfræðilega marktæk fylgni milli kvíða og fyrrnefndra bakgrunnsupplýsinga.

Þegar reynt var að grafast fyrir um rótina að kvíða foreldranna og þeir spurðir af hverju þeir hefðu fundið fyrir kvíða á þessum tímamótum nefndu flestir að þeir hefðu helst kviðið því að börn þeirra ættu eftir að eiga erfitt með að aðlagast nýjum skólafélögum og að þau væru ekki tilbúin að byrja í grunnskóla
(mynd 5).
 

Mynd 5 - Orsök kvíða foreldra við grunnskólabyrjun barna þeirra

Fram kom munur á svörum foreldranna eftir menntun. Foreldrar með grunnskólapróf skáru sig úr að því leyti að þeir höfðu meiri áhyggjur af því heldur en betur menntaðir foreldrar að börn þeirra væru ekki tilbúin að byrja í grunnskóla. Einnig kviðu þeir heimanámi barnanna meira en aðrir foreldrar. Þá kviðu foreldrar drengja því í meira mæli en foreldrar stúlkna að synir þeirra yrðu erfiðir í skólanum. Foreldrar stúlkna kviðu því á hinn bóginn meira en foreldrar drengja að dætur þeirra væru að eldast. Margir foreldrar nefndu einnig að þeir hefðu kviðið því að barnið færi úr vernduðu umhverfi leikskólans og nokkrir foreldrar sögðust hafa haft áhyggjur af því að barnið ætti eftir að eiga erfitt með að aðlagast þeim breytingum sem fylgdu því að fara úr vernduðu umhverfi leikskólans yfir í grunnskólann sem fæli ekki í sér eins verndað umhverfi.

Breytingar á daglegu lífi fjölskyldunnar

Samkvæmt niðurstöðum úr spurningakönnuninni var grunnskólabyrjun barnsins ekki eingöngu breyting fyrir barnið sjálft heldur fyrir fjölskylduna í heild því breytingar urðu á daglegum venjum fjölskyldunnar. Tími barnanna eftir skólann breyttist, tómstundir og samskipti við vini urðu meiri og heimanám bættist við en það er jafnframt sú breyting á daglegum venjum fjölskyldunnar sem hæsta hlutfall foreldra merkti við að hefði verið erfið og valdið mestri streitu. Búseta fjölskyldunnar virtist hafa áhrif á þennan þátt því eftir því sem sveitarfélagið var stærra fjölgaði þeim sem merktu við að heimanámið hefði aukna streitu í för með sér. Í minni sveitarfélögum merktu 21,5% við þann lið og 38% í stærri sveitarfélögum og á höfuðborgarsvæðinu. Tæp 44% foreldra sögðu að breyting hefði orðið á tómstundum barnsins og af þeim sögðu 30% að þær væru nú meiri, tæp 5% að þær væru auðveldari, 4% að þær væru erfiðari og 5% að þær væru streitumeiri. Ein móðirin lýsti þessum breytingum á þann veg að það væri „erfiðara að samræma tómstundir barns og vinnu foreldra því oft eru tómstundirnar á vinnutíma foreldra og barnið getur ekki farið á eigin spýtur á æfingar“. Mesta breytingin á tómstundum varð hjá börnum í stærri sveitarfélögum eða hjá tæpum helmingi þeirra en hjá rúmum 20% barna í minni sveitarfélögum og á höfuðborgarsvæðinu. Minnsta breytingin varð hjá fjölskyldum í minni sveitarfélögum eða hjá tæpum 4%.

Tíminn frá því að börnin og foreldrarnir vöknuðu og þar til skólinn byrjaði breyttist einnig. Um helmingur fjölskyldna vaknaði fyrr og af þeim sem það gerðu töldu tæp 10% að þessi breyting á daglegum venjum hefði aukið streitu. Tæpur helmingur foreldranna sagði að barnið borðaði morgunmat nú fyrr og meira en það gerði áður og ferðir til og frá skóla voru að margra mati auðveldari.

Þá breyttust einnig kvöldvenjur fjölskyldunnar, úthald barnanna yfir daginn, háttatími og svefn. Um þriðjungur foreldranna taldi að börnin væru þreyttari eftir skóladaginn en þau hefðu verið í leikskólanum og það hafði í för með sér að háttatíminn breyttist hjá 30% barnanna en aðeins 5,5% barnanna fóru þó fyrr að sofa.

Samræming vinnu og skólagöngu barnsins

Þegar foreldrarnir voru spurðir hvort þeir hefðu skipt um vinnustað eða breytt vinnutíma sínum þegar barn þeirra hætti í leikskóla og byrjaði í grunnskóla sagðist rúmlega tíunda hvert foreldri hafa skipt um vinnu og voru mæður þar í miklum meirihluta. Aðeins einn faðir skipti um vinnu á þessum tímamótum. Ef skoðuð er menntun mæðranna sem skiptu um vinnu kemur í ljós að hlutfall þeirra sem það gerði lækkaði með meiri menntun þeirra. Munurinn á milli hópanna var þó óverulegur og reyndist ekki tölfræðilega marktækur. Hæsta hlutfall þeirra sem skiptu um vinnu voru mæður með grunnskólapróf og framhaldsskólapróf eða sambærilega menntun en rúm 10% þeirra skiptu um vinnu á þessum tímamótum (mynd 6).
 

Mynd 6 - Breytingar á vinnustað mæðranna, flokkaðar eftir menntun þeirra

Tæpur helmingur (45%) mæðranna sagðist hafa breytt vinnutíma sínum þegar barn þeirra hóf grunnskólagönguna en einungis 13% feðranna.

Menntun foreldra reyndist hafa áhrif á breytingar þeirra á vinnutíma. Mynd 7 sýnir að mæður með meiri menntun aðlöguðu frekar vinnutíma sinn að skólatíma barnsins auk þess sem þær skiptu síður um vinnu en þær sem höfðu minni menntun. Í hópi mæðra, sem styttu eða lengdu vinnudaginn, voru flestar með háskólapróf en síðan lækkaði hlutfall þeirra eftir menntun. Mæður með framhaldsskóla- og grunnskólapróf virtust í minna mæli stytta eða lengja vinnudaginn en í stað þess breyttu þær vinnutíma sínum meira samanborið við háskólamenntuðu mæðurnar og er þá m.a. átt við breytingar vegna vaktavinnu. Ekki reyndist þó vera marktækur munur á breytingum á vinnutíma mæðranna eftir menntun þeirra.
 

Mynd 7 - Breytingar á vinnutíma mæðranna, flokkaðar eftir menntun þeirra

Þegar foreldrar voru spurðir um hvort þeir ættu erfiðara eða auðveldara með að samræma vinnu sína og skólagöngu barnsins eftir að það byrjaði í grunnskóla svöruðu rúm 40% að það væri aðeins eða mun erfiðara að samræma vinnu og skólagöngu barnsins, helmingur sagði að það væri engin breyting og tæp 9% að það væri aðeins eða mun auðveldara. Mun fleiri mæður en feður sögðu að það væri erfiðara að samræma vinnu sína skólagöngu barnsins en 42% þeirra sögðu að það væri aðeins eða mun erfiðara en 27% feðranna. Það reyndist vera jákvæð fylgni á milli mæðra sem breyttu vinnutímanum og þeirra sem töldu auðveldara að samræma vinnu og skóla barnsins (rs (278)=0,12, p<0,05).

Ef menntun foreldra er skoðuð kemur í ljós að foreldrar með meiri menntun töldu erfiðara fyrir þá að samræma vinnu sína og skóla barnsins eftir að barnið byrjaði í grunnskóla. Munurinn reyndist þó ekki vera marktækur en 43% þeirra sem voru með háskólapróf eða framhaldsskólapróf eða sambærilega menntun töldu það vera aðeins eða mun erfiðara en á hinn bóginn 29% foreldra með grunnskólapróf.
Búseta foreldra hafði einnig áhrif þó svo að tölfræðilega marktæk fylgni reyndist ekki vera á milli búsetu og möguleika á að samræma vinnu og skóla. Foreldrar í minni sveitarfélögum töldu auðveldara að samræma vinnu sína skóla barna sinna en rúm 70% þeirra sögðu enga breytingu hafa orðið á vinnu þeirra eða töldu jafnvel auðveldara en áður að samræma vinnu og skóla.

Breytingar á samskiptum heimilis og skóla barnsins

Mikill meirihluti þeirra foreldra, sem tóku þátt í rannsókninni, taldi að samskiptin við grunnskólann væru frábrugðin samskiptunum við leikskóla barnsins. Flestir sögðu að þau væru minni eins og fram kemur á mynd 8.
 

Mynd 8 - Samskiptin við grunnskóla barnsins borin saman við samskiptin við leikskólann,
flokkuð eftir menntun foreldra

Með meiri menntun virtust foreldrar upplifa sterkar að samskiptin við grunnskóla barnsins væru ólík því sem var í leikskólanum. Hærra hlutfall háskólamenntaðra foreldra sagði að samskiptin væru nú aðeins minni eða miklu minni en við leikskóla barnanna. Orsakir þessara breytinga að mati foreldranna voru einnig mismunandi eftir menntun þeirra (mynd 9).

Mynd 9 - Ástæður minni samskipta við grunnskólann en við leikskólann að mati foreldra, flokkaðar eftir menntun þeirra

Foreldrar með meiri menntun töldu í ríkara mæli að orsök breyttra samskipta væru erfiðleikar við að ná í kennara barnsins og einnig að tímaskorti foreldra væri um að kenna. Foreldrum með grunnskólapróf var aftur á móti efst í huga að barnið gæti nú séð sjálft um samskiptin. Foreldrar nefndu einnig að foreldri og kennari hittust ekki daglega líkt og í leikskólanum og að kennarar í grunnskólanum tækju ekki á móti börnunum þegar þau kæmu í skólann að morgni né væru til staðar þegar börnin væru sótt í lok skóladagsins. Þar af leiðandi væri erfiðara að ná í kennarana eftir að barnið byrjaði í grunnskóla.

Kennarar höfðu í meirihluta tilvika frumkvæðið að samskiptum á milli heimilis og skóla samkvæmt niðurstöðum þessarar rannsóknar, eða í 64% tilvika. Ef foreldrahópurinn, sem hafði frumkvæðið, er skoðaður nánar þá virtist menntun skipta þar miklu máli því frumkvæði foreldra jókst með meiri menntun þeirra. Eins og fram kemur á mynd 10 sögðust foreldrar með minnstu menntunina mun sjaldnar hafa frumkvæði að samskiptum en þeir sem voru meira menntaðir; 20% foreldra með grunnskólapróf sögðust oftar hafa frumkvæði, 32% foreldra með framhaldsskólapróf eða sambærilega menntun og 35% foreldra með háskólapróf. Þessi munur er þó ekki tölfræðilega marktækur.

 

Mynd 10 - Frumkvæði að samskiptum á milli heimilis og skóla eftir menntun foreldra

Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að samskiptin á milli heimila og grunnskóla snúist fyrst og fremst um upplýsingar um nám og kennslu í skólanum og heimanám barnsins í formi vikuáætlana eða dagbóka. Mikill meirihluti foreldranna hafði farið í eitt til tvö foreldraviðtöl frá skólabyrjun til áramóta. Aðeins færri höfðu farið á foreldrafund eða námsefniskynningu. Í svörum foreldra kom fram að þeim fannst samskiptin á milli heimilis og grunnskóla formlegri en þeir höfðu vanist við leikskóla barnsins. Samskiptin við leikskólakennarana hefðu oftast verið óformleg og stutt og átt sér stað þegar komið var með barnið í leikskólann eða það sótt, en samskiptin á milli heimilis og grunnskóla væru formlegri og ópersónulegri, þ.e.a.s. í formi skriflegra tilkynninga eða athugasemda sem sendar væru heim með barninu eða í fyrirfram skipulögðum foreldraviðtölum. Fram kom í svörum nokkurra foreldra í rannsókninni að þeir söknuðu þess að geta ekki í lok skóladagsins átt spjall við kennara barnsins um hvernig hefði gengið yfir daginn.

Þegar foreldrar voru beðnir um að raða sex þátttökuflokkum samskipta heimilis og skóla eftir mikilvægi kom í ljós að tæpur helmingur foreldra taldi að gagnkvæm samskipti væru mikilvægustu samskiptin og örlítið færri (38%) töldu að þátttaka foreldra í heimanámi barna sinna væri mikilvægust. Fræðslufundir komu í þriðja sætið en minna vægi fengu samskipti líkt og þátttaka foreldra í ákvörðunum og stjórnun skólans, virk þátttaka foreldra í skólastarfinu og tengsl heimilis við samfélagið í gegnum skóla barnsins. Menntun foreldra virtist hafa töluverð áhrif á viðhorf þeirra til þátttöku og ákvarðana varðandi skólastarf barna þeirra en þó var munurinn eftir menntun ekki tölfræðilega marktækur. Þegar spurt var um hversu mikilvæg foreldrum þótti þátttaka þeirra í skólastarfi settu 5% grunnskólamenntaðra foreldra þann möguleika í 1.–3. sætið, 11% foreldra með framhaldsskólapróf eða sambærilega menntun og 19% foreldra með háskólapróf. Viðhorf foreldra til þess hversu mikilvæg þátttaka í ákvörðunum og stjórnun skólans væri var einnig ólíkt eftir menntun þeirra: 19% foreldra með grunnskólapróf setti þann lið í 1.–3. sætið, 26% foreldra með framhaldsskólapróf eða sambærilega menntun og 36% foreldra með háskólapróf.

Foreldrarnir í rannsókninni virtust almennt ekki taka mikinn þátt í skólastarfi barna sinna utan boðaðra foreldrafunda og viðtala. Í janúar, þegar rannsóknin fór fram, hafði innan við helmingur foreldranna komið í skólann í öðrum erindagjörðum og um fjórðungur þeirra hafði einungis komið í skólann einu sinni frá skólabyrjun. Hlutfall þeirra sem sagðist hafa tekið virkan þátt í bekkjarstarfinu var enn lægra. Ekki reyndist vera afgerandi munur á þátttöku foreldra eftir menntun þeirra en meiri munur reyndist vera þegar búseta foreldranna var skoðuð. Foreldrar í sveitarfélögum á landsbyggðinni voru heldur virkari þátttakendur í skólastarfinu en foreldrar á höfuðborgarsvæðinu en munurinn var þó hverfandi. Ein móðir búsett á landsbyggðinni sagði: „Ég gef mér ekki tíma til að kíkja í heimsókn í skólann og dvelja um stund vegna vinnu“ og önnur móðir sem nýlega hafði flust til Íslands eftir nokkurra ára námsdvöl erlendis sagði: „Mér finnst vanta að foreldrar taki meiri þátt, t.d. fylgi barninu í skólann og nái í það eins og gert er úti.“

Umræða

Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að ákveðin kaflaskil verði í lífi fjölskyldunnar þegar börn byrja í grunnskóla. Töluverðar breytingar verða á hversdagskerfunum skóla og heimili (Bronfenbrenner, 1979). Þó svo að niðurstöður séu ekki allar tölfræðilega marktækar þá gefa þær vísbendingar um sjónarmið og reynslu foreldra á þessum tímamótum. Flestir foreldrarnir, sem tóku þátt í rannsókninni, höfðu jákvæða reynslu af grunnskólabyrjun barna sinna og flestir sögðust hafa fundið fyrir tilhlökkun og stolti á þessum tímamótum. Jafnframt sagðist rúmlega helmingur foreldranna hafa fundið fyrir kvíða eða áhyggjum. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að menntun og búseta foreldra hafi mikil áhrif á reynslu þeirra af grunnskólabyrjun barnanna og á þær breytingar sem verða á daglegum venjum fjölskyldunnar. Háskólamenntaðir foreldrar kviðu minnst grunnskólabyrjun barna sinna en foreldrar með grunnskólapróf kviðu henni mest.

Á svörum foreldranna, sem tóku þátt í rannsókninni, má merkja að í mörgum tilvikum hafi fjölskyldan þurft að skipuleggja daglegar venjur sínar upp á nýtt þegar barnið hóf grunnskólagönguna. Fyrir marga var morgunninn streitumeiri tími eftir að barnið byrjaði í grunnskóla. Tíminn eftir að skóladegi lauk breyttist að því leyti að þá jókst tómstundaiðkun barnanna, þau höfðu meiri samskipti við vini sína auk þess sem heimanám bættist við. Að þessum breytingum þurftu fjölskyldurnar að aðlaga sig og þær virtust valda mörgum aukinni streitu. Þessar niðurstöður eru í samræmi við niðurstöður erlendra rannsókna á þeim breytingum sem verða á þessum tímamótum (Dockett og Perry, 2007; Dockett, Perry, Howard og Meckley, 1999; Fabian, 2002; Griebel og Niesel, 1999, september, 2002; Perry og Dockett, 2006; Pianta og Kraft-Sayre, 1999).

Á undanförnum áratugum hefur hlutverk fjölskyldunnar breyst mikið (sjá m.a. Dencik, 2005). Fjölskyldur eru orðnar fjölbreyttari og báðir foreldrar vinna í auknum mæli utan heimilis. Þessar breytingar á gerð og hlutverki fjölskyldna hafa haft áhrif á samstarf heimilis og skóla. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að við grunnskólabyrjunina þurfi foreldrar að aðlaga á nýjan leik vinnu sína að skóla barnsins og voru það frekar mæðurnar en feðurnir sem samræmdu vinnu sína og skólatíma barna sinna. Staðan hér á landi virðist því vera sambærileg því sem gerist víða annars staðar; mæðurnar aðlaga atvinnu sína að skóla barnanna í meira mæli en feðurnir (Epstein, 2001; OECD, 2006; Pianta og Kraft-sayre, 1999). Mæður með meiri menntun virðast hafa meira svigrúm til að aðlaga vinnutíma sinn að skóla barnsins því að meðal þessara mæðra var hæsta hlutfall þeirra sem stytti eða lengdi vinnutímann og þær skiptu síður um vinnu en þær sem höfðu minni menntun.

Athyglisvert er að þrátt fyrir að meiri menntun gefi mæðrum aukið svigrúm til að hagræða vinnutíma sínum þá telja þessar mæður sig eiga erfiðara með að samræma vinnu sína og skóla barnsins. Ef til vill má skýra það á þann veg að með meiri menntun mæðra og þátttöku þeirra í atvinnulífinu finni þær fyrir ákveðinni togstreitu á milli starfsframa síns og fjölskyldulífsins eða að háskólamenntaðar mæður séu meðvitaðri um skólagöngu barna sinna og vilji taka meiri þátt í námi barna sinna en þær geta gert vegna vinnu sinnar.

Foreldrar í minni sveitarfélögum virtust eiga auðveldara með að samræma vinnu sína og skóla barna sinna. Skýringin gæti verið sú að í minni sveitarfélögum er meiri nálægð innan foreldrahópsins og jafnvel fleiri leiðir til að brúa bilið á milli styttri skólatíma barnsins og vinnutíma foreldra, t.d. að börnin fari heim með vinum sínum eða séu frekar ein heima en börn í stærri sveitarfélögum.

Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að mikill meirihluti foreldranna, sem tóku þátt, töldu að samskiptin við skóla barnsins hefðu breyst töluvert þegar barnið byrjaði í grunnskóla. Fram kom í svörum foreldranna að grunnskólinn væri formfastari og starfaði meira eftir klukkunni en leikskólinn og margir nefndu að samskiptin hefðu orðið formlegri og ópersónulegri heldur en þau voru í leikskólanum. Þá kom fram í svörum nokkurra foreldra að þeir söknuðu þess að geta ekki í lok skóladagsins átt spjall við kennara barnsins um hvernig hefði gengið og að samskiptin á leikskólanum hefðu verið miklu persónulegri. Þetta er í samræmi við niðurstöður erlendra rannsókna sem sýna að foreldrar telja að samskiptin minnki þegar barnið byrjar í grunnskóla (Griebel og Niesel, 2002) og þau snúist oft meira um það sem betur mætti fara í námi barnanna og hegðun þeirra (Rimm-Kaufmann og Pianta, 1999).

Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar fara algengustu samskiptin á milli heimilis og grunnskóla fram í skipulögðum foreldraviðtölum og í gegnum vikuáætlanir sem sendar eru heim með börnunum en það töldu foreldrar einnig mikilvægustu samskiptin ásamt þátttöku foreldra í heimanámi barna sinna og fræðslufundum eða námsefniskynningum. Þessir þættir falla undir samskipti, heimanám og uppeldi samkvæmt flokkunarkerfi Epstein (1996, 2001). Minna vægi fengu flokkarnir sjálfboðaliðar, ákvarðanataka og tengsl við samfélagið því íslenskir foreldrar virðast ekki taka mikinn þátt í skólastarfinu eða í stjórnun og ákvörðunum í grunnskólanum.

Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar virðist grunnskólinn ná misjafnlega vel til foreldrahópsins. Niðurstöðurnar benda til þess að menntun foreldra hafi mikil áhrif á samskipti þeirra við skóla barnsins. Foreldrar með minnstu menntunina höfðu mun sjaldnar frumkvæði að samskiptum en þeir sem voru meira menntaðir og menntun þeirra hafði einnig áhrif á viðhorf þeirra til þátttöku í stjórnun og ákvarðanatöku í skólunum og almennt á þátttöku í skólastarfinu. Óöryggi foreldra gagnvart grunnskólanum virðist haldast í hendur við menntun þeirra því þeir foreldrar sem voru meira menntaðir virtust vera öruggari og hafa sig meira í frammi. Þetta er í samræmi við niðurstöður erlendra rannsókna sem hafa leitt í ljós að menntun, hjúskaparstaða, atvinna og búseta hafa áhrif á þátttöku foreldra í námi barna sinna og þar með talið á samskipti við skóla barnsins (Drummond og Stipek, 2004; Epstein, 2001; Lee og Bowen, 2006; Pelletier og Brent, 2002).

Lokaorð

Miklar breytingar í umhverfi barna á síðustu áratugum kalla á breytingar á samskiptum og samvinnu allra sem að börnum koma. Góð tengsl heimilis og skóla hafa sennilega aldrei verið jafn mikilvæg og nú um stundir. Á undanförnum árum hefur skóladagur barna lengst verulega og ýmsir þættir, eins og t.d. tómstundastarf og skóladagvist, hafa tengst skólastarfinu. Uppeldishlutverk grunnskólans hefur þar með fengið meira vægi. Samstarf heimilis og skóla eykur skilning og þekkingu á báða bóga. Þannig er stuðlað að velferð barnsins en það ætti að vera meginmarkmið allra sem það varðar.

Niðurstöður rannsóknarinnar eiga erindi við kennara yngstu grunnskólabarnanna og varpa ljósi á hvernig foreldrar upplifa þær breytingar sem verða þegar barn þeirra fer úr leikskóla og í grunnskóla. Foreldrar finna fyrir miklum breytingum á samskiptum við skóla barnsins þegar börnin byrja í grunnskólanum, samskiptin verða minni og ópersónulegri að mati margra foreldra. Starfshættir grunnskólans eru ólíkir leikskólanum og foreldrar virðast ekki hafa eins greiðan aðgang að kennara barnsins í byrjun og lok skóladags og þeir gerðu þegar barnið var í leikskóla. Mikilvægt er að kennarar hugleiði hvernig breyta megi skipulagi skóladagsins til að koma til móts við þarfir og aðstæður foreldra.

Niðurstöðurnar benda einnig til þess að auðveldara sé fyrir suma foreldra en aðra að eiga samstarf við skóla barna sinna. Foreldrar með minni menntun hafa sig síður í frammi en þeir sem eru með meiri menntun og hinir fyrrnefndu sækjast síður eftir að sitja í stjórnum og nefndum á vegum skólans. Raddir þeirra heyrast því minna innan veggja grunnskólans. Grunnskólinn þarf að leita leiða til að ná til allra foreldra og tryggja þeim jöfn tækifæri til að taka þátt í, hafa áhrif á, og fylgjast með námi barna sinna. Kennarar þurfa að hafa frumkvæði að samstarfinu og finna leiðir og tíma sem henta ólíkum einstaklingum í foreldrahópnum. Einnig er mikilvægt að samfélagið og atvinnurekendur bregðist við breyttum aðstæðum barnafjölskyldna við flutning barnanna úr leikskóla í grunnskóla með því að auðvelda foreldrum að samræma vinnu sína og skóla barnanna.
 

Aftanmálsgreinar

 1. Grein þessi er byggð á rannsóknarverkefni sem fyrsti höfundur lagði fram til fullnaðar M.Ed.-gráðu í uppeldis- og menntunarfræði við Kennaraháskóla Íslands vorið 2008. Annar höfundur greinarinnar var leiðbeinandi við verkefnið. Amalía Björnsdóttir var meðleiðbeinandi.

 2. Myndirnar eru teknar úr bók Jóhönnu Einarsdóttur, Lítil börn með skólatöskur: Tengsl leikskóla og grunnskóla.

 3. Myndin er úr bók Dencik, Bäckström og Larsson (1988), Barnens två världar.

 

Heimildir

Andersson, I. (2004). Lyssna på föräldrarna: Om mötet mellan hem och skola. Stokkhólmur: HLS Förlag.

Baum, A. C. og McMurray-Schwarz, P. (2004). Preservice teachers’ beliefs about family involvement: Implications for teacher education. Early Childhood Education Journal, 32(1), 57–61.

Bohan-Baker, M. og Little, P. M. D. (2004, apríl). The transition to kindergarten: A review of current research and promising practices to involve families. Cambridge: Harvard Family Research Project.

Bronfenbrenner, U. (1979). The ecology of human development: Experiments by nature and design. Cambridge: Harvard University Press.

Brooker, L. (2002). Starting school: Young children learning cultures. Buckingham: Open University Press.

Christenson, S. L. (1999). Families and schools: Rights, responsibilities, resources, and relationships. Í R. C. Pianta og M. J. Cox (ritstjórar), The transition to kindergarten: Research, policy, practice and training (bls. 143–177). Baltimore: Paul H. Brookes.

Connors, L. J. og Epstein, J. L. (1995). Parent and school partnership. Í M. Bornstein (ritstjóri), Handbook of parenting: Applied and practical parenting (bls. 437–458). Mahawh: Lawrence Erlbaum Associates.

Dencik, L. (1999a). Fremtidens børn – om postmodernisering og socialisering. Í L. Dencik og P. S. Jørgensen (ritstjórar), Børn og familie i det postmoderne samfund (bls. 19–44). Kaupmannahöfn: Hans Reitzels Forlag.

Dencik, L. (1999b). Små børns familieliv – som det formes i samspillet med den udenomsfamiliære børneomsorg. Et komparativt nordisk perspektiv. Í L. Dencik og P. S. Jørgensen (ritstjórar), Børn og familie i det postmoderne samfund (bls. 245–272). Kaupmannahöfn: Hans Reitzels Forlag.

Dencik, L. (2001). Om til-syn, hen-syn, og fejl-syn. (Skýrsla nr. 1). Hróarskelda: Roskilde Universitetscenter, Center for Childhood og Family Research.

Dencik, L. (2005). Mennesket i postmoderniseringen – om barndom, familie og identiteter i opbrud. Værløse: Billesø og Baltzer.

Dencik, L., Bäckström, C. og Larsson, E. (1988). Barnens två världar. Falköping: Esselte Studium.

Dockett, S. og Perry, B. (ritstjórar). (2001). Beginning school together: Sharing strengths. Canberra: Australian Early Childhood Association.

Dockett, S. og Perry, B. (2003). Children starting school: What should children, parents and school teachers do? Journal of Australian Research in Early Childhood Education, 10(2), 1–12.

Dockett, S. og Perry, B. (2005, september). Family issues and expectations as children start school. Erindi flutt og dreift á ráðstefnu European Early Childhood Education Research Association (EECERA), Dublin, Írlandi.

Dockett, S. og Perry, B. (2007). Transitions to school; Perceptions, expectations, experiences. Sydney: University of New South Wales Press.

Dockett, S., Perry, B., Howard, P. og Meckley, A. (1999). What do early childhood educators and parents think is important about children's transition to school? A comparison between data from the city and the bush [Rafræn útgáfa]. Sótt í september 2005 af http://www.aare.edu.au/99pap/per99541.htm.

Drummond, K. V. og Stipek, D. (2004). Low-income parents' beliefs about their role in children's academic learning. The Elementary School Journal, 104(3), 197–213.

Dunlop, A.-W. og Fabian, H. (2002). Transitions in the early years: Debating continuity and progression for children in early education. London: Routledge/Falmer.

Epstein, J. L. (1996). Advances in family, community, and school partnerships. New Schools, New Communities, 12(3), 5–13.

Epstein, J. L. (2001). School, family, and community partnerships: Preparing educators and improving schools. Boulder og Oxford: Westview Press.

Epstein, J. L., Sanders, M. G., Simon, B. S., Salinas, K. C., Jansorn, N. R. og Van Voorhis, F. L. (ritstjórar). (2002). School, family, and community partnerships: Your handbook for action (2. útgáfa). Thousand Oaks: Corwin Press.

Fabian, H. (2002). Children starting school: A guide to successful transitions and transfers for teachers and assistants. London: David Fulton Publishers.

Griebel, W. og Niesel, R. (1999, september). From kindergarten to school: A transition for the family. Erindi flutt og dreift á ráðstefnu European Early childhood Education Research Association (EECERA), Helsinki, Finnlandi.

Griebel, W. og Niesel, R. (2002). Co-constructing transition into kindergarten and school by children, parents and teacher. Í H. Fabian og A. W. Dunlop (ritstjórar), Transitions in the early years (bls. 64–75). London og New York: Routledge Falmer.

Griebel, W. og Niesel, R. (2003). Successful transitions: Social competencies help pave the way into kindergarten and school. European Early Childhood Education Research Journal. Themed Monograph Series, 1(25), 25–33.

Hagstofa Íslands (2008). Hagtölur. Sótt í janúar 2008 af http://www.hagstofa.is/Hagtolur/Skolamal/Leikskolar

Jóhanna Einarsdóttir (2007). Lítil börn með skólatöskur: Tengsl leikskóla og grunnskóla. Reykjavík: Háskólaútgáfan. Rannsóknarstofa í menntunarfræðum ungra barna.

Kagan, S. L. (1991). Moving from here to there. Rethinking continuity and transitions in early care and education. Í B. Spodek og O. N. Saracho (ritstjórar), Issues in early childhood curriculum: Yearbook in early childhood education (bls. 132–151). New York: Teachers College Press.

Keyes, C. R. (2002). A way of thinking about parent/teacher partnerships for teachers. International Journal of Early Years Education, 10(3), 177–191.

Knopf, H. T. og Swick, K. J. (2007). How parents feel about their child's teacher/school: Implications for early childhood professionals. Early Childhood Education Journal, 34(4), 291–296.

Lee, J. S. og Bowen, N. K. (2006). Parent involvement, cultural capital, and the achievement gap among elementary school children. American Educational Research Journal, 43(2), 193–218.
OECD (2006). Starting strong II: Early childhood education and care. París: Höfundur.

Pelletier, J. og Brent, J. (2002). Parent participation in children’s school readiness: The effects of parental self-efficacy, cultural diversity and teacher strategies. International Journal of Early Childhood, 34(1), 45–60.

Perry, B. og Dockett, S. (2006). Our family is starting school: A handbook for parents and carers. Castle Hill: Pademelon Press.

Pianta, R. C. og Kraft-Sayre, M. (1999). Parent´s observations about their children's transition to kindergarten. Young Children, 54(3), 47–52.

Pianta, R. C., Kraft-Sayre, M., Rimm-Kaufman, S. E., Gercke, N. og Higgins, T. (2001). Collaboration in building partnerships between families and schools: The National Center for Early Development and Learning's Kindergarten Transition Intervention. Early Childhood Research Quarterly, 16(1), 117–132.

Pianta, R. C., Rimm-Kaufman, S. E. og Cox, M. J. (1999). Introduction: An ecological approach to kindergarten transition. Í R. C. Pianta (ritstjóri), The transition to kindergarten (bls. 22–31). Baltimore: Paul H. Brookes.

Pianta, R. C. og Walsh, D. J. (1996). High-risk children in schools: Constructing sustaining relationship. New York: Routledge.

Rimm-Kaufman, S. E. og Pianta, R. C. (1999). Patterns of family-school contact in preschool and kindergarten. School Psychology Review, 28(3), 426–438.

Sigurborg Sturludóttir (2008). Þetta er stórt skref í lífi okkar allra: Breytingar á daglegu lífi fjölskyldunnar við upphaf grunnskólans. Óbirt meistaraprófsritgerð: Kennaraháskóli Íslands.
 

Prentútgáfa     Viðbrögð