Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun

Menntavísindasvið Háskóla Íslands

Grein birt 30. desember 2008

Greinar 2008

Ólafur Páll Jónsson

Lýðræði, menntun og þátttaka

Í þessari grein veltir höfundur fyrir sér gildi menntunar og virkrar þátttöku fyrir einstaklinga í samfélagi. Hann bendir á nærtæk rök fyrir gildi menntunar fyrir þátttöku í lýðræðissamfélagi en telur þau hrökkva skammt. Í þeirra stað kynnir hann hugmyndir Johns Dewey og fleiri hugsuða um samband menntunar og lýðræðis og telur mikilvægt að skoða þátttökuna í því ljósi. Ólafur Páll er lektor í heimspeki við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Flestir virðast vera sammála um að menntun og lýðræði heyri hvort öðru til þótt hugmyndir manna um hvernig þeirri sambúð sé háttað séu ólíkar og oft raunar harla óljósar. Í Aðalnámskrá grunnskóla lesum við meðal annars:

Almenn menntun á að styrkja einstaklinga til þess að átta sig á eigin stöðu í samfélaginu og að geta tengt þekkingu og færni við daglegt líf og umhverfi. Þessar skyldur skólans falla m.a. undir hugtakið lífsleikni og miða að því, í samvinnu við heimilin, að búa nemendur undir líf og starf í lýðræðislegu þjóðfélagi og að dýpka skilning þeirra á samfélaginu og hlutverki einstaklingsins í því (Aðalnámskrá grunnskóla, 2006, bls. 16).

Þarna sjáum við sambandi lýðræðis og almennrar menntunar lýst. Menntunin er undirbúningur fyrir það sem koma skal, nefnilega líf og starf í lýðræðisþjóðfélagi.

Víkjum þá að hugmyndinni um virka lýðræðislega þátttöku, þ.e. þátttöku á vettvangi ákvarðana eða á opinberum vettvangi í lýðræðislegu samfélagi. Hvað er það sem gerir virka lýðræðislega þátttöku virkilega lýðræðislega? Tvennt virðist skipta máli: Annars vegar í hverju þátttakan er fólgin og hins hvert sé markmiðið með henni. Hvað fyrra atriðið varðar þá myndu flestir líklega telja mikilvægt að vettvangur þátttökunnar tengist stjórnskipulagi samfélagsins (hvort sem um er að ræða sveitarfélag eða ríki). Hvað seinna atriðið varðar eru flestir líklega sammála um að markmiðið með þátttökunni sé að hafa áhrif á ákvarðanir, hvort sem um er að ræða skipulagsmál í sveitarfélagi eða kosningar til þings. Af þessari hugmynd um lýðræðislega þátttöku leiðir líka að menntun hlýtur að skipta verulegu máli; þátttakan verður markvissari og árangursríkari ef hún er studd haldgóðri þekkingu. Og hér skiptir símenntun samskonar máli og almenn grunnmenntun.

Ef við bætum því við að hinn lýðræðislegi vettvangur sé einmitt vettvangur til að vinna skoðunum sínum fylgi með því að leitast við að sannfæra aðra um ágæti eigin skoðana, leiðir af ofansögðu að menntun er mikilvæg fyrir einstaklinginn sjálfan þar sem hún eykur líkurnar á því að hans skoðanir hljóti brautargengi í samfélaginu. Sú mynd sem ég hef dregið upp af sambandi lýðræðis og menntunar kemur fæstum líklega fyrir sjónir sem framandi eða rótttæk, heldur einmitt sem hversdagsleg mynd af því hvernig þessu sambandi er háttað. Einhvern veginn svona gætu námskrárhöfundarnir einmitt hafa hugsað sér sambandið. Mig langar að leggja til annarskonar mynd. Ég held ekki að sú mynd sem ég hef dregið upp sé beinlínis röng – það er í henni sannleikur, en varla meira en korn. Myndin er afar takmörkuð og afmyndar bæði lýðræði og menntun. Þessi mynd lítur á lýðræði sem einhverskonar stofnanabundið skipulag – t.d. stjórnskipulag – og gerir menntun að forsendu fyrir því að einstaklingarnir geti fótað sig í þessu skipulagi. Samband menntunar og lýðræðis er, samkvæmt þessari mynd, ekki ósvipað sambandi menntunar í gömlu embættismannaskólunum og þeirra starfa sem svo biðu embættismannanna. Munurinn er einkum sá að í hinu lýðræðislega skipulagi eru allir svolitlir embættismenn – allir taka þátt í að stjórna ríkinu.

Það er vissulega rétt að nútímasamfélag reiðir sig á býsna flókið skipulag til að halda utan um samfélagið og að það þarf mikla menntun, bæði til að vita hvernig maður getur komist að í þessu skipulagi og til að vinna málum sínum brautargengi ef maður skyldi komast að. Þetta er einmitt sannleikskornið í myndinni sem ég dró upp af sambandi menntunar og virkri lýðræðislegri þátttöku.

Lýðræði og þátttaka

Lýðræði er aftur á móti miklu meira en stjórnskipulag og virk lýðræðisleg þátttaka er að sama skapi miklu meira en þátttaka í ákvörðunum sem teknar eru innan tiltekins stjórnskipulags. En hvers vegna skyldi virk þátttaka skipta máli í lýðræðislegu samfélagi? Einhver kynni að segja sem svo að í lýðræðislegu samfélagi sé það skylda borgaranna að taka þátt í stjórnvaldsaðgerðum ríkisins, t.d. með því að kjósa í kosningum. Vísun til skyldu svarar þó ekki spurningu okkar, þ.e. hvers vegna þátttakan skipti máli, nema við vitum hverjar rætur þessarar skyldu eru. Í skemmtilegri grein sem heitir Á meirihlutinn að ráða? fjallar Þorsteinn Gylfason einmitt um lýðræðislega þátttöku – eina hugmynd um slíka þátttöku – ásamt raunar ýmsu öðru (Þorsteinn Gylfason, 1992). Um þátttökuna hefur hann ýmsar efasemdir og til að gera þær skýrar tekur hann eftirfarandi dæmi.

Tökum mann sem alltaf er í minnihluta um alla hluti. Honum er sagt að hugga sig við það að hann hafi þó alltaf fengið að greiða atkvæði eins og aðrir. En hvaða huggun er það? Segjum að hann sé háskólakennari og sitji deildarfundi. Hann vill ráða hæfasta umsækjanda í hverja stöðu, en meirihlutinn greiðir alltaf atkvæði með vanhæfum umsækjendum. Hann vill auka kröfur til stúdenta, en meirihlutinn samþykkir að draga úr þeim jafnt og þétt. Hann vill að kenndar séu góðar kennslubækur, en meirihlutinn sam¬þykkir að kenndar séu bækur sem kennararnir í meirihlutanum hafa sjálfir samið. Það eru tíu svona mál á tíu fundum á ári og þau fara næstum alltaf eins. Á þessi maður að hugga sig við það að hann fái þó að minnsta kosti að vera með á fundunum og greiða atkvæði? Hefur seta hans og upprétting handarinnar á fundunum sjálfstætt gildi? Hefur hún gildi sem vegur upp á móti því að öllu sem hann trúir á í starfi sínu er varpað fyrir róða á þessum fundum?

Þorsteinn svarar svo:

Mér virðist nær að segja að hún sé einskis virði, og hann eigi að hætta að sækja þessa bölvaða fundi, og jafnvel að hætta störfum í þessum bölvaða háskóla (Þorsteinn Gylfason, 1992, bls. 104–105).

Dæmi Þorsteins er vitanlega dálítið ýkt en það ætti að fá okkur til að efast um þá hugmynd að þátttaka ein og sér, jafnvel í því sem skiptir máli, hafi sérstakt gildi (sbr. Ólaf Pál Jónsson, 2007a, kafli 9). Gagnrýnin miðar ekki að því að afskrifa þátttöku sem mikilvæga eða eftirsóknarverða, heldur að benda á að það þarf að rökstyðja sérstaklega að þátttaka sé yfirleitt eftirsóknarverð. Það fyrsta sem þarf að huga að í þessu sambandi er einfaldlega hvað það er sem gefur lýðræðislegri þátttöku gildi.

Hugum sem snöggvast að greinarmuninum á félagslegri þátttöku og lýðræðislegri þátttöku. Ekki þarf að rökstyðja með sama hætti hvers vegna félagsleg þátttaka hefur gildi. Markmiðið með félagsstarfinu er lífsfylling, öðrum þræði að minnsta kosti. Þegar kemur að lýðræðislegri þátttöku er markmiðið, samkvæmt þeirri mynd af lýðræðinu sem ég dró upp að framan, annað; nefnilega að hafa áhrif á ákvarðanir. Og það sem Þorsteinn benti á með dæmisögunni af háskólakennaranum, sem alltaf var í minnihluta, var að þegar það er nánast gefið fyrirfram að viðkomandi hefur engin áhrif, þá virðist þátttakan heldur ekki hafa neinn tilgang. Að segja að þátttaka í slíkum kringumstæðum hafi sjálfstætt gildi er eiginlega út í bláinn.

Eigum við þá að segja að gildi lýðræðslegrar þátttöku sé háð þeirri tilviljun hvort manni takist að hafa einhver áhrif eða ekki. Sú niðurstaða væri harla sérkennileg, þó ekki nema fyrir þá sök að maður gæti ekki dæmt um það fyrr en eftirá hvort þátttaka manns hafi haft eitthvert gildi. Hér virðumst við lent í ólánlegri kreppu, þ.e. þeirri kreppu að (a) annað hvort hafi lýðræðisleg þátttaka sjálfstætt gildi en að það gildi sé á köflum öldungis dularfullt og óútskýranlegt, eða (b) að lýðræðisleg þátttaka hafi einungis gildi þegar þátttakan hefur áhrif á ákvarðanir. Og það er nokkuð sem maður getur sjaldnast vitað fyrir.

Þessi kreppa, hversu ólánleg sem hún annars er, grefur að vísu ekki undan þeirri hugmynd að menntun sé mikilvæg fyrir lýðræðislega þátttöku. Mikilvægi menntunar, samkvæmt þessari mynd af lýðræðislegri þátttöku, er fólgið í því að hún bætir stöðu manns á samkeppnisvettvangi hugmyndanna – hún gerir manni kleift að vinna hugmyndum manns fylgi með markvissari hætti en ella og hún opnar manni möguleika á að komast í áhrifastöður sem krefjast sérþekkingar eða viðurkenningar sem ekki fæst nema með skólagöngu.

Það er oft sagt að leikskólinn og grunnskólinn skuli búa nemendur undir líf og starf í lýðræðisþjóðfélagi – sumsé að skólinn sé undirbúningur fyrir lífið. Orðalagið, sé það tekið bókstaflega, gefur til kynna að lífið byrji ekki fyrr en eftir að skólanum lýkur og að það sé ekki fyrr en þá sem reyni á lýðræðið. Kannski er þetta bara óvarlegt orðalag og ætti ekki að taka svona bókstaflega. En hvort sem við tökum það bókstaflega eða ekki, þá virðist sú hugmynd um samband lýðræðis og menntunar sem hér kemur fram vera fremur einfalt en jafnframt undirorpið tilviljun. Menntun skiptir máli fyrir lýðræðið vegna þess að hún hjálpar manni að koma ár sinni vel fyrir borð á vettvangi lýðræðisins. Menntun verður einfaldlega tæki og gildi hennar fyrir lýðræðislega þátttöku er bundið tækisgildi menntunarinnar.

Lýðræði og lífsmáti

Ég held að þessi sýn á samband lýðræðis og menntunar sé alltof einfeldningsleg. Og einfeldnings-bragurinn stafar af of einfeldningslegri sýn á lýðræði og menntun. Í stað þeirrar myndar af sambandi lýðræðis og menntunar sem ég dró upp að framan vil ég leggja til annarskonar mynd – að verulegu leyti fengna að láni frá bandaríska heimspekingnum John Dewey (1859–1952) – þar sem litið er á lýðræði sem einstaklingsbundinn lífsmáta ekki síður en stofnanabundið félagslegt skipulag. Dewey leit ekki á þetta sem frumlega hugmynd hjá sér, enda á hún rætur t.d. í róttækum hugmyndum Jean-Jacques Rousseau á 18. öld og samfellda sögu á sviði heimspeki menntunar a.m.k. fram á daga Deweys og svo áfram inn í samtímann (sjá t.d. Jørgensen, 2004).

Dewey leggur ríka áherslu á að lýðræði, sem tilteknir stjórnarhættir eða þjóðfélagsgerð, verði einungis að veruleika ef það á rætur í einstaklingsbundnum lífsmáta og skapgerð borgaranna. Hann hélt því reyndar fram að þessi hugmynd hans væri síður en svo ný af nálinni.

Lýðræði sem persónulegur, einstaklingsbundinn lífsmáti felur ekki í sér neinar grundvallar nýjungar. En þegar hugmyndinni er beitt þá ljær hún gömlum hugmyndum nýja og lifandi merkingu. Þegar þessi hugmynd er virkjuð sýnir hún að öflugum andófsmönnum lýðræðisins verður einungis svarað með því að skapa persónuleg viðhorf hjá einstökum manneskjum; að við verðum að komast yfir þá tilhneigingu að halda að vörn fyrir lýðræði verði fundin í ytri athöfnum, hvort heldur hernaðarlegum eða borgaralegum, ef þær eru aðskildar frá persónulegum viðhorfum sem eru svo inngróin að þau mynda manngerð einstaklingsins (Dewey, (1998 [1939]), bls. 341).

Dewey gerir ekki lítið úr ytri skilyrðum lýðræðis – lýðræðislegum stofnunum og borgaralegum réttindum – en hann leggur áherslu á að slíkar stofnanir séu einungis ytri skilyrði lýðræðislegs samfélags og að trúin á lýðræði er ekki trú á slíkar stofnanir heldur er hún fyrst og fremst trú á möguleika einstaklingsins. Trúin á lýðræði er trú á manneskjuna sem virka skynsemisveru. Í vörn fyrir þessa hugmynd segir hann m.a.:

Oftar en einu sinni hefur fólk úr andstæðum hornum ásakað mig um óraunsæja, draumkennda, trú á möguleika skynseminnar og á menntun sem fylgifisk skynsemi. Hvað sem því líður, þá er þessi trú ekki mín uppfinning. Ég hef tekið hana upp eftir umhverfi mínu að því marki sem þetta umhverfi er innblásið af anda lýðræðisins. Því hvað er trú á lýðræði í ráðgjöf, í sannfæringu, í samræðu, í upplýstu almenningsáliti sem réttir sig af þegar til lengri tíma er litið, nema trú á möguleika skynsemi hins venjulega manns til að bregðast af heilbrigðri skynsemi við frjálsu flæði staðreynda og hugmynda sem byggja á traustum grunni frjálsra rannsókna, frjálsra samtaka og frjálsra samskipta? (Dewey, (1998 [1939]), bls. 342).

Trú Deweys á möguleika lýðræðisins er þannig fyrst og fremst trú á að einstaklingar geti orðið lýðræðislegar manneskjur rétt eins og trú Rousseaus á frjálst samfélag var trú á möguleikann á frjálsum manneskjum (Rousseau, 2004). En hvað einkennir hina lýðræðislegu manneskju annað en að hún er frjáls og full af heilbrigðri skynsemi? Og á þessi trú Deweys erindi við okkur nú á tímum fjölmenningar þegar sú staðreynd er ófrávíkjanleg að borgararnir hafa í grundvallaratriðum ólíka lífssýn?
Frekar en að vera úrelt, vegna fjölmenningar og sundurleitra markmiða og lífssýnar, á trú Deweys e.t.v. meira erindi nú en nokkru sinni fyrr. Og það er einmitt þessi einstaklingsbundna nálgun sem hér skiptir máli. Hann segir:

Lýðræði er sú trú að jafnvel þegar þarfir og markmið eða afleiðingar eru ólík frá einni manneskju til annarrar, felur vinsamleg samvinna í sér ómetanlega viðbót við lífið – samvinna sem getur, t.d. í íþróttum, gert ráð fyrir samkeppni og kappi. Með því að taka sérhvern ásteitingarstein – og þeir hljóta að verða fjölmargir – eftir því sem nokkur kostur er, út úr andrúmslofti og umhverfi valds og aflsmunar sem leið til úrlausnar og inn í umhverfi rökræðu og skynsemi, þá lítum við á þá sem við eigum í ágreiningi við – jafnvel djúpstæðum ágreiningi – sem einstaklinga sem við getum lært af, og að sama marki, sem vini (Dewey, (1998 [1939]), bls. 342).

Af þessum tilvitnunum í Dewey sjáum við að grundvallarþættir hins lýðræðislega einstaklingseðlis, eins og hann skilur það, eru bæði af toga skynsemi og tilfinninga. Þegar við eigum í ágreiningi við aðra þá leitum við lausna á vettvangi skynseminnar en það skiptir ekki síður máli að við nálgumst þá sem okkur greinir á við sem vini. Ágreiningur er alls ekki hnökrar sem æskilegt er að fjarlægja – eða breiða yfir – heldur er hann uppspretta siðferðilegra og menningarlegra verðmæta.

Ef við lítum á lýðræðið með þessum hætti þá sjáum við að samband lýðræðis og menntunar verður allt annað. Menntun hefur ekki einungis tækisgildi fyrir lýðræðislega þátttöku heldur er hún einn af inntaksþáttum lýðræðisins. Hér legg ég menntun vitaskuld ekki að jöfnu við skólagöngu heldur skil ég hugtakið um menntun svipuðum skilningi og t.d. Guðmundur Finnbogason í kaflanum Menntun í Lýðmenntun.

Menntunin getur ekki verið fólgin í einhliða æfingu vissra krafta, hún verður að efla manneðlið í heild sinni, hún verður að koma á samræmi milli allra líkams- og sálarafla mannsins (Guðmundur Finnbogason, 1994, bls. 32).

Og litlu síðar bætir Guðmundur við:

... menntun hvers manns verður að metast eftir því hve hæfur hann er til að lifa og starfa í mannlegu félagi, lifa og starfa þannig að líf hans verði með hverjum degi meira virði fyrir sjálfan hann og aðra (Guðmundur Finnbogason, 1994, bls. 33).

Lífsmáti og lýðræðisleg þátttaka

Spurningin um hvers vegna lýðræðisleg þátttaka skiptir máli horfir nú allt öðruvísi við. Spurningin um gildi þátttöku, eins og Þorsteinn stillti henni upp og ég rakti að ofan, virtist ekki eiga sér neitt skynsamlegt svar. En hvaða ályktun ættum við að draga af því? Ekki þá að lýðræðisleg þátttaka skipti ekki máli fyrir einstaklinginn og heldur ekki þá að hún skipti bara máli þegar einstaklingnum tekst að hafa einhver áhrif. Sú ályktun sem við ættum að draga af því sem ég hef nú rakið er þessi: Lýðræðisleg þátttaka snýst ekki fyrst og fremst um þátttöku í ákvörðunum. Ef við lítum á lýðræði með svipuðum hætti og Dewey þá verður svarið við spurningunni um það hvers vegna lýðræðisleg þátttaka skipti máli fyrir þá sem í hlut eiga einfaldlega þetta: Lýðræðisleg þátttaka er menntandi og menntun er eitt af því sem veitir lífsfyllingu. Dewey lýsir röktengslum lýðræðis og menntunar m.a. með eftirfarandi orðum:

Lýðræði er sú trú að ferli reynslunnar sé mikilvægara en nokkur tiltekinn árangur sem hún kann að leiða til, svo að sá árangur sem næst hefur einungis gildi að því marki sem hann er notaður til að auðga og koma skipulagi á þau ferli sem eru í gangi. Þar sem ferli reynslunnar getur verið menntandi, er trúin á lýðræði ekkert annað en trú á reynslu og menntun (Dewey, (1998 [1939]), bls. 343).

Til að rökstyðja þá staðhæfingu að menntun veiti lífsfyllingu þyrfti aðra grein – eða bók – og því mun ég einungis láta nægja tvennskonar athugasemdir. Í fyrra lagi hugmynd Guðmundar Finnbogasonar um menntun sem þroskun og eflingu manneðlisins í heild sinni. Að efla manneðlið er vitanlega ekki það sama og að njóta lífsfyllingar en ef það er til eitthvað sem heitir mannleg lífsfylling, sem er ólík t.d. hundslegri lífsfyllingu eða lífsfyllingu fálkans, þá liggur beint við að leita slíkrar lífsfyllingar í manneðlinu. Í seinna lagi skiptir eðlismunur menntunar og fræðslu hér máli (sjá t.d. Ólaf Pál Jónsson, 2007b). Í greininni „Menntun og stjórnmál“ segir Páll Skúlason m.a.:

Eðli allrar fræðslu er að skilja menn eftir ófullnægða: fræðslan fær mönnum í hendur tæki í mynd kunnáttu af öllu tagi, en án þess að segja þeim til hvers og hvernig þeir eiga að nota það sem þeir hafa lært, ef það er yfirleitt til nokkurs skapaðs hlutar. Eðli menntunar er á hinn bóginn að fullnægja mönnum: menntunin segir mönnum hvað máli skiptir og hvað ekki, til hvers þeir geta lifað lífinu og hvernig þeir eiga að fara að því; hún kennir mönnum að beita eigin dómgreind, nýta frelsi sitt til að móta sína eigin lífshætti og lífsstíl (Páll Skúlason, 1987, bls. 340–341).

Menntun er ekki auðfengin og hún verður alls ekki fengin nema menn reyni á sig í glímu við eigin tilveru – hún verður einungis fengin með því að hugsa sjálfur (en ekki endilega óstuddur) um vandamál, stór og smá. Sú menntun sem mest er um verð er sú menntun sem verður til í glímunni við tilgang lífsins – þau gildi sem líf manns byggist á og hvernig hægt sé að lifa í samræmi við þessi gildi í hversdagslegum kringumstæðum. Lýðræðisleg þátttaka er því ekki fyrst og fremst spurning um þátttöku í ákvörðunum á opinberum vettvangi, heldur er hún mun almennari. Hún er spurning um að vera gerandi í eigin lífi.

Samkvæmt þessum skilningi á lýðræði þá er gildi lýðræðislegrar þátttöku fyrir einstaklinginn sem í hlut á af sömu rót runnið og gildi félagslegrar þátttöku. Greinarmunurinn á lýðræðislegri og félagslegri þátttöku getur eftir sem áður átt rétt á sér því vissulega er munur á því að skipta sér af deilumálum samfélagsins, t.d. með blaðaskrifum og fundahöldum, og því að sækja kóræfingar tvisvar í viku. Munurinn á lýðræðislegri þátttöku og félagslegri þátttöku liggur m.a. í því að eiginleg lýðræðisleg þátttaka, ekki síst opinber þátttaka í stjórnmálum, hefur almannaheill að forsendu og markmiði á meðan félagsleg þátttaka hefur einstaklingsbundna – og oft sérviskulega – fullnægju að markmiði. Það sem Dewey lagði áherslu á – og þetta var líka ein af hugmyndum Rousseaus – var að við verðum ekki lýðræðislegar manneskjur nema við lærum að sjá okkar eigin hagsmuni sem brot af almannahag.

Heimildir

Dewey, John (1998 [1939]). Creative democracy – The task before us. Í The Essential Dewey (1. bindi). Bloomington: Indiana University Press.

Guðmundur Finnbogason (1994 [1903]). Lýðmenntun, (2. útg.). Reykjavík: Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands.

Jørgensen, Per Schulz (2004). Childrens’ participation in a democratic learning environment. Í John MacBeath og Lefj Moss (ritstj.), Democratic Learning: The Challenge to School Effectiveness (bls. 113–131). New York: Routlege Falmer.

Menntamálaráðuneytið (2006). Aðalnámskrá grunnskóla. Almennur hluti. Reykjavík: Menntamálaráðuneytið.

Ólafur Páll Jónsson (2007a). Lýðræði, kosningar og vorið 2006. Í Náttúra, vald og verðmæti (bls. 137–144). Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag.

Ólafur Páll Jónsson (2007b). Skóli og menntastefna. Hugur, 19.

Páll Skúlason (1987). Menntun og stjórnmál. Í Pælingar (bls. 325–345). Reykjavík: Ergo.

Rousseau, Jean-Jacque (2004). Samfélagssáttmálinn. (Björn Þorsteinsson og Már Jónsson þýddu). Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag.

Þorsteinn Gylfason (1992). Á meirihlutinn að ráða? Í Tilraun um heiminn (bls. 91–114). Reykjavík: Heimskringla.

Prentútgáfa     Viðbrögð