Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun

Menntavísindasvið Háskóla Íslands

Grein birt 1. desember 2008

Greinar 2008

Guðrún Helgadóttir

Sýn[ir]?

Um sjónrýni

Í þessari grein ræðir höfundur um sýn, sjónarhorn, upplifun og sjónrýni frá ýmsum hliðum. Rætt er um mikilvægi skynjunar og greiningar ekki síður en túlkunar á tímum sem einkennast af ofgnótt myndmáls og sjónrænu áreiti. Myndlæsi eða menningarlæsi öðlast nýtt og aukið mikilvægi í uppeldi og spurningar um sjónarhorn eða hlutverk rýnandans verða áleitnar jafnt í einstaklingsbundnu og félagslegu samhengi. Höfundur er kennslufræðingur, prófessor við Háskólann á Hólum og kennir við ferðamáladeild skólans.

Inngangur

Sýnin er vissulega lykilhugtak í allri upplifun; fjallasýn, jöklasýn, framtíðarsýn, á fjallinu hafði ég yfirsýn, á safninu öðlaðist ég innsýn í ...  Einmitt vegna þess hve sýnin er fyrirferðarmikil í menningu samtímans skiptir máli að spyrja sig hvort þessi áhersla á sýnina takmarki ekki möguleikana á að skilja til fulls. Það er að önnur skynjun, s.s. snerting, lykt, bragð og rýmistilfinning eða hreyfing fái of litla athygli. Jafnframt má spyrja; er meðvitund um takmörk sjónarhornsins og áhrif þeirra á það sem sýnist eða sést?

„Það sem mestu skiptir nú er endurheimt skilningarvitanna. Við verðum að læra að sjá meira, heyra meira, skynja meira“ (Sontag, 2005 bls. 33). Þessi áskorun menningarvitans Susan Sontag á erindi við alla þá sem hafa áhuga á menningu, hvort sem er kennarinn, nemandinn, ferðalangurinn eða áhorfandinn. Það sem er merkilegt við hana er að í miðri umræðunni um sjónræna ofgnótt og mikilvægi sýnarinnar skorar Sontag á okkur að setja skynjun fremur en túlkun í fyrirrúm.

Fullyrt er að við lifum á tímum þar sem sjónrænt áreiti er meira en nokkru sinni fyrr, að myndmálið sé æ mikilvægara, að hið sjónræna og myndlæsi sé jafnvel að verða öðru læsi mikilvægara (Nordström, 1989; Sontag, 2005). Þessi viðhorf þróuðust á sama tíma og segja má að vestræn samfélög að minnsta kosti séu að leggja meiri áherslu á menningu. Menning er að verða stór atvinnugrein (Ágúst Einarsson, 2005) og fræðimenn, s.s. innan félagsfræði, mannfræði, viðskiptafræði og fjölmiðlafræði, eru að snúa sér meira að því að skoða viðfangsefni sín sem menningarfræði (Jones, 1987). Gillian Rose (2001) bendir á að jafnframt sé alls ekki á hreinu hvað við er átt með myndlæsi, ekki einu sinni hvað mynd er, hvað er að sjá og hvernig við skiljum myndir? Myndir birtast okkur sem hlutir; í bókum, á skjá, á striga, áldós, svo nokkur dæmi séu nefnd. Ef tekið er mið af kenningunni um gerendanet (Actor Network Theory), þar sem hlutum og fyrirbærum eru ætlaðar „gjörðir“ eða áhrif, til jafns við hinn mennska geranda, verða takmörk sýnar enn skýrari (Gunnar Þór Jóhannesson, 2005).

Í þessari grein leitast ég við að ræða þessi mál með hliðsjón af óravíddum hins óformlega náms og byrja á að stilla upp ákveðnum spurningum um hlutverk rýnandans með því að ræða um listgagnrýni og fikra mig áfram út úr hvíta rýminu, listheiminum, út í heiminn þar sem áhorfandinn er ferðalangur og gagnrýnandinn leiðsögumaðurinn.

Um hvað erum við að tala?

ÍÍ fræðaheimi samtímans hefur verið talað um nokkurs konar menningarsveiflu (cultural turn), það er að æ fleiri fræðigreinar eru farnar að líta á menningu sem lykilhugtak og þá í þeim skilningi að sú merking sem menn leggja í hlutina sé í raun mikilvægari en hlutirnir sjálfir (Rose, 2001). Þetta á ekki einungis við um efnislega hluti heldur einnig hugmyndir, til dæmis um sögu og minni. Samanber þá kenningu innan sagnfræði að fólk hagi lífi sínu í samræmi við það, sem það telur hafa átt sér stað, fremur en því sem raunverulega gerðist (Hay, 1986). Þessa einföldu fullyrðingu, sem ef til vill má hafa fyrir satt, talar Foucault (1991) um í heldur flóknara máli sem Skýringarritið; það er stóra viðtekna „handritið“ um hvernig hlutirnir eru, s.s. um Íslendinga - afkomendur víkinga.

Foucault (1991) ræðir líka hvernig fræðigreinar byggja orðræðu og skilgreina svið sitt, hvaða rannsóknarspurningar og athafnir tilheyri sviðinu, hvar markalínurnar liggja og þannig óbeint hvað má segja og hvað sé merkt sem frávik eða rugl. Foucault nefnir dæmi um hvernig þessi mótun orðræðunnar getur leitt til þess að fræðigrein standi gegn sannindum sem síðan verða viðtekin þegar markalínunum er breytt; nýjum forsendum beitt. Hugmyndir manna um sólkerfið eru lýsandi dæmi um hvernig hægt er að hafa fyrir satt er takmarkað af ákveðnum hugmyndaheimi þannig að lengi var ekki hægt að hafa það fyrir satt að jörðin snerist um sólina. Til þess þurfti sannleiksvilja brjálæðingsins sem tekur sér stöðu fráviksins og spyr hvað er svona merkilegt við það ...

... að vera karlmaður? Ég veit ekki hvort margir aðdáendur Grýlanna hafa pælt í því hvað þetta er í raun djúp spurning. Haft er fyrir satt í menningarfræðunum að þessi spurning sé ein af þeim sem breyttu heimsmynd okkar. Þegar við tókum eftir fjarvist kvenna úr sögunni, sáum hvernig við sjáum heiminn frá sjónarhóli karla, urðu ný sjónarhorn að möguleika. Spurningin býður upp á greiningu orðræðunnar og það sem hefur á íslensku verið nefnt afbygging. Það er að skoða og skilja hvernig hlutirnir, í þessu tilviki orðræðan, eru byggðir upp með því að taka þá sundur og skoða úr hverju þeir eru samsettir (Lather, 1991).

Við þessa skoðun kemur í ljós að það er þungi í orðræðunni, hún er eins og skriðjökull hugmynda og umræðna sem eru frosnar í fast form hefðar, viðtekinna skoðana, tækni og ríkjandi hagsmuna. Það er ekki nema von að aumingja Foucault (1991) langi heldur að berast með henni en rísa gegn henni með nýjum skoðunum og öðrum hagsmunum. Orðræða er sem sagt ekki bara umræðan og öll orðin sem slitna í notkun hennar heldur líka hvernig þau raðast og birtast, hvaða forsendur liggja að baki og hvernig orðin eru notuð, slitna og lúnast, önnur koma í þeirra stað, hvaða raddir heyrast og hver hlustar.

Sjón – sýn

Rétt eins og listfræðin gerir greinarmun á nekt og því að vera ber, gerum við greinarmun á sýn og sjón. Nekt er ákveðin framsetning, miðlun á viðhorfum hins ímyndaða áhorfanda, þ.e. menningarlega mótað fyrirbæri (Berger, 1972). Á sama hátt er sýn ekki bara hið lífeðlisfræðilega ferli að sjá (sjón), heldur er sýnin félagslega og menningarlega mótuð. Segja má að samtíminn sé hálfgert ríki augans. Við erum alltaf í mynd og myndir ber sífellt fyrir augu. Við verðum að hafa eitthvert kerfi til að mæta öllu þessu sjónræna áreiti, kerfi linsunnar hjálpar okkur að afmarka sýnina. Sýn er það sem við viljum, getum og megum sjá, það sem er sýnt, hvernig það er séð og túlkað (Rose, 2001).

Þessi sjónræna ofgnótt sem við búum við vekur upp spurningar um hvað sé raunverulegt og hvað séu eftirlíkingar. Myndir eru fjölfaldaðar og myndum er breytt þannig að þær höfði betur til okkar en frummyndin, svo sem fyrirsæturnar sem eru „photoshoppaðar“. Baudrillard (2000) talar um þetta fyrirbæri sem framrás líkneskjanna, þ.e. að eftirmyndirnar séu að verða ríkjandi í heimi okkar. Við þær aðstæður eru leiðsögumanninum lagðar nýjar skyldur á herðar.

Menningarfræðin hafa að miklu leyti snúist um hið manngerða; um listir, s.s. bókmenntir, kvikmyndir, siði og landnýtingu. Náttúran verður þó aldrei undanskilin, menning og náttúra eru samofin. Í greiningu á orðræðunni um náttúruna nýtast hugtök eins og sýn ákaflega vel, samanber hugtakið náttúrusýn, sem lýsir sjónarhorni, afstöðu til náttúrunnar (Páll Skúlason, 1994). Náttúrusýn er grundvallarþáttur í heimsmyndinni. Náttúrusýnin afmarkar möguleikana í tengslum manns og náttúru, þannig er hún grundvallaratriði hverrar menningar. Það hjálpar okkur til að skilja heimsmyndina að líkja þeim saman leiðsögumanninum/gagnrýnandanum í náttúrunni og gagnrýnandanum/leiðsögumanninum í menningunni. Jafnframt gerir sá samanburður það ljósara hvað það er að rýna og skoða, gagnrýna og rannsaka.

[gagn]Rýnandinn

Líkjum gagnrýnandanum við leiðsögumann í menningarheiminum; hann hefur farið þessar slóðir áður, veit meira um svæðið en almennt gerist og er fær um að benda samferðafólki sínu á tengingar, sérstöðu og samlíkingar, tæknileg atriði jafnt sem tilfinningaleg sem dýpka reynslu þess af ferðinni (Barrett, 1992). Ef hann er góður leiðsögumaður kann hann að tengja þessa dýpkun hugarheimi samferðafólksins, fremur en að þylja fyrir því þekkingaratriði sem ekki hafa merkingu.

Leiðsögumaðurinn er jafnframt sá sem veit hvar gamlar götur um svæðið liggja, gagnrýnandinn skilur hvaða spurningar um verkið vakna og hvert þær leiða – á sama hátt og kennarinn þekkir og kennir námsefni en veit ekki fyrir víst hvort og þá hvað nemandinn lærir af því. Gagnrýnandinn, kennarinn og leiðsögumaðurinn eiga því ýmislegt sameiginlegt – allir eru þeir að undirbúa samferðafólk sitt og leiða það til upplifunar, reynslu og lærdóms. Hlutverk gagnrýnandans er m.a. að draga fram spurningar og svör um listina af víðum vettvangi, pólitískum, félagslegum, mannfræðilegum, sögulegum og vísindalegum (Dobbs, 1998). Svo mætti lengi telja og það eiga þessir þrír líka sameiginlegt, að nota sem flestar leiðir að viðfangsefninu eða sjá ólíka fleti á því.

Þótt leiðsögumenn reyni af fremsta megni að vinna verk sín af víðsýni er þó þeirra eigið viðhorf, afstaða eða heimsmynd ráðandi. Þeirra helstu áhugamál og þekking lita óhjákvæmilega skipulag og framkvæmd ferðarinnar. Enda er það ef til vill sú sérstaða sem vekur áhuga okkar á að ferðast með þeim. Við vitum að þegar ferðast er með jarðfræðingi um Njáluslóð verður ferðin ekki eins og ef sagnfræðingur eða bókmenntafræðingur er í sæti leiðsögumannsins. Einnig að túlkun viðkomandi á söguslóðinni ræðst af þeirri hugmyndafræði sem heimsmynd hans byggist á.

Ef við lítum til líkingarinnar „menningarviti“, sem er hugtak sem Íslendingar nota gjarna yfir gagnrýnendur á menningarsviðinu, þá má segja að staðsetning eða sjónarhorn menningarvitans í heimsmyndinni ráði því hvað hann upplýsir, að hverju andans leiftrin beinast. Það sýnir kannski ákveðinn menningarmun að við hugsum um að lýsa upp meðan starfssystkinum okkar vestanhafs er tamt að vitna til Harry Broudy (1994) sem kallar þennan skilning „enlightened cherishing“. Á íslensku mætti kannski útleggja hugtakið sem upplýsta væntumþykju eða varðveislu, í beinni þýðingu. Mörgum þykir vænt um þetta hugtak, það vísar til þess að safna og varðveita, í huga eða hjarta, þekkingu og skilning á listaverkum og verða þar með læsari á heimsmenninguna, jafnt sem eigin menningarheim.

Ég hef áður haldið því fram að listgagnrýni væri nálgun sem ætti sér skírskotun langt út fyrir heim listanna (Guðrún Helgadóttir, 2003). Þessi fullyrðing er í raun dæmigerð fyrir það sem áður var lýst sem menningarsveiflu, það er að nálgun listfræða og listsköpunar er yfirfærð á önnur fræðasvið og atvinnugreinar. Í því sambandi hefur hugtakið menningarlæsi (cultural literacy) komist á dagskrá sem ákveðin grundvallarþekking (Hirsch, 1987). Um það hefur svo verið deilt að hverju skuli beina sjónum, hvað allir eigi að vera læsir á.

Skynjun og skilningur

Menningarlæsi er hugtak sem við tengjum gjarnan sjóninni en í raun getum við lesið, ef svo má segja, þ.e. túlkað þá skynjun sem önnur skilningarvit færa okkur og það er einmitt mikilvægur þáttur í samtímalist og samtímamenningu að listgreinar renna saman og höfða til margra skynfæra í senn. Orðræðan er ekki einungis bundin í orð, myndir og hljóð hlutir og jafnvel landslag er hluti orðræðunnar. Sem dæmi um útleggingu á þessum skilningi nefni ég greiningu Úlfhildar Dagsdóttur (2005) á myndböndum Bjarkar Guðmundsdóttur.

Ofangreindur skilningur hefur afleiðingar fyrir tilraunir okkar til að kenna greinandi hugsun og gagnrýni. Geahigan (2002) bendir til dæmis á að varðandi listfræði leiði umhugsunin um fræðigreinar og tilraunir okkar til að greina milli fræðigreina okkur í ógöngur þegar að því kemur að beita þeirri þekkingu og færni sem í þeim felst í skólastarfinu. Í kennslufræðilegri umfjöllun er tilhneiging til að rugla saman skynjun og skilningi. Tilhneiging skólamannsins er, að hans mati, að skilgreina hugtök á borð við „lýsingu“ eða „túlkun“ sem aðgerð eða skref í ferli eða röð aðgerða sem hægt sé að nýta í kennsluáætlun. Aftur á móti er alls ekki gefið að listgagnrýni byggist á slíkum ferlum eða skrefum. Listgagnrýni er ekki formleg rannsókn, ef til vill má notast við slík módel til að lýsa gagnrýnni umræðu – og þó varla, því gagnrýnin umræða er svo frjó og skapandi að hún er að miklu leyti ófyrirsjáanleg og oft alls ekki línulegt ferli röksemda frá forsendu til niðurstöðu. Niðurstaðan getur t.d. varpað nýju ljósi á röksemdina og vakið upp grunsemdir um gildi þeirra forsendna sem gengið var út frá. Módelin eru þannig hjálpartæki til að skilja og efla gagnrýna umræðu en ekki uppskrift að henni.

Hættan er alltaf sú að í veruleika skólastarfsins verði skýringarlíkön að forskriftum. Hugsjónir framsækisstefnunnar, sem John Dewey var helsti frumkvöðull að, eru nokkur vörn. Hugmynd hans var að læra á virkan hátt; átta sig á vandamáli, gera grein fyrir eðli þess, setja fram tilgátur, draga ályktanir, reyna tilgáturnar með ímyndunaraflinu, athuguninni og öflun upplýsinga. Segja má að þrjár kennsluaðferðir séu lykillinn að því að nýta listfræðin í þessu skyni. Að rækta einstaklingsbundin viðbrögð, þ.e. að skynja með því að mæta spurningum um merkingu og gildi með því að ræða og rita, sem einstaklingar og hópur. Að þróa hugtakaskilning og færni með því að kenna viðeigandi hugtök og þjálfa notkun þeirra við greiningu. Að meta með aðstoð nauðsynlegra upplýsinga til að dýpka skilning á listaverkum með rannsóknarverkefnum og athugunum með leiðsögn.

Ég tel að þessar þrjár aðferðir, sem Geahigan (2002) nefnir til sögunnar, falli ákaflega vel að íslensku námskránni í listum. Sú námskrá gekk aldrei svo langt að skilgreina þrjár fræðigreinar eða faggreinar (sbr. Clark, Day & Greer, 1988) heldur setti fram kröfuna um upplýsta væntumþykju með gagnrýnni umræðu í áheitinu: skynjun, greining, mat. Skynjun er meira en sýn, að leiðsögumaðurinn góði hvetur til þess að virkja fleiri skilningarvit til heildrænnar upplifunar rétt eins og helstu uppeldisfrömuðir hafa gert öldum saman undir mörgum formerkjum, s.s. fjölgreind eða kröfum um samspil hugar og handar. Þetta samspil mætti ef til vill orða á annan hátt til að fá nýtt sjónarhorn með því að tala um líkamlega sýn, að sjá meira eins og Sontag (2005) fer fram á.

Líkamleg sýn og staðsetning

Þannig er að sjónin er takmörkuð af líkamsbyggingu okkar; hrossin mín vorkenna mér fyrir að hafa augun svona þétt saman í andlitinu því ég sé hreint ekkert aftur fyrir mig nema að snúa höfðinu og það er jafnvel takmörkum háð því ég hef alls ekki sama hreyfanleika í hálsliðnum og uglan. Þannig er sjónsviðið takmarkað við það sem er fyrir framan manneskjuna. Skyldi það hafa leitt mannkynið á þær villigötur að halda að framfarir séu eina leiðin, bara af því við sjáum svo illa aftur fyrir okkur og út á hlið? Sýn okkar er skilyrt af hver við erum, hvar við höfum verið og hver viðhorf okkar og reynsla eru.

Út frá því sjónarmiði verður það skiljanlegt þegar Jokinen og Veijola (2003) spyrja hvers landslag krefjist af áhorfanda, gesti sínum – í hvaða stellingar setja Þingvellir okkur eða við okkur á Þingvöllum? Hvaða löngun stýrir upplifun okkar, hvaða böndum bindumst við staðnum? Ef Foucault (1991) væri með í þessu ferðalagi (sem hann er í hugskoti Jokinen og Veijola, 2003) myndi hann spyrja hver er löngun mín sem einstaklings til staðarins og hvað segir stofnunin mér að staðurinn sé? Hvað leyfi ég mér eða leyfist mér að sjá eða skynja og skilja með víðtækari hætti. Í umfjöllun um myndmenntir minnir jagodzinski (1997) okkur á hvernig listaverk laða fram löngun til snertingar en liststofnunin skilyrðir gesti sína sem áhorfendur, bannar jafnvel snertingu.

Þekking okkar á staðnum, í samspili við alla okkar reynslu og viðhorf, stýrir skynjun okkar, sýnir okkur sumt en blindar okkur fyrir öðru. Drekkingarhylur breyttist sem sögustaður fyrir mér eftir að sjá sjónvarpsfrétt um gjörning Rúríar (2006), Tileinkun, þar sem hún fékk kafara og björgunarsveit í lið með sér til að leika að hylurinn væri slæddur eftir pokunum með konunum sem þar var drekkt og þær lagðar á börur og fluttar á brott eins og þær hefðu verið myrtar í samtímanum. Það er drekkingarhylur í heiminum og mér verður hugsað til þess þegar ég hugsa um Drekkingarhyl á Þingvöllum. Ég get líka séð fegurð hylsins en ég er ekki viss um að alþýðufólk sem bjó við Stóradóm, lögin sem bönnuðu meirihluta þjóðarinnar að eignast börn, hafi séð fegurð í hylnum. Ég gæti ímyndað mér að konur hafi haft ónotatilfinningu fyrir staðnum og að eins hafi fólki liðið við gálgaklettana víða um land. Við þetta bætist það sem þær stöllur Jokinen og Veijola (2003) benda á að sjónarhorn okkar gefur til kynna valdahlutföll; við horfum niður í hylinn.

Sjónarhorn og heimsmyndir

Sjónarhorn er lykilhugtak í feminískri gagnrýni á hefðir listheimsins. Á það hefur verið bent að feminísk endurskoðun heimsmyndarinnar hefur ekki einungis haft áhrif á hefðir móðurgreina listmenntunar (listsköpun, listasögu, listheimspeki og listgagnrýni) hverja um sig heldur einnig breytt þeirri mynd af listheiminum sem þær gefa sameiginlega (Hagaman, 1990). Feminísk gagnrýni er í raun mjög gott dæmi um þá endurskoðun heimsmyndar sem verður þegar viðteknar skoðanir mæta gagnrýni frá sjónarhorni hópa sem áður höfðu ekki það hugmyndafræðilega vald að rödd þeirra heyrðist í orðræðu dagsins og mótaði þannig viðteknar skoðanir (Smith, 1987).

Það er meðal annars vegna framlags feminista að við getum sagt að við lifum á tímum ákveðinnar fjölhyggju, það er tímum þegar talið er að sannleikurinn þurfi ekki að vera einn, að hugmyndir séu afstæðar. Með því að hægt var að færa rök fyrir að viðtekin skoðun listheimsins, eins og hún birtist t.d. í orðræðu gagnrýnenda, væri „fölsk“ að því leyti að list kvenna væri þar ósýnileg, var sem hulunni væri svipt af ósýnileika margra annarra. Þannig urðu áhrif stéttar, trúarbragða, þjóðernis og fleiri félagslegra þátta allt í einu merkjanleg í myndinni af listheiminum rétt eins og í öðrum greinum mannlegra athafna.

Áherslur feminista í listgagnrýni hafa breyst frá því að leita uppi hinar týndu konur í myndlistinni til þess að spyrja sig hvað er að listheiminum, að þær týndust fyrir það fyrsta (Nochlin, 1973; Collins og Sandell, 1984). Tilraunir til að finna konur í listheiminum leiddu í ljós að konurnar hafa ekki einungis gleymst sem einstaklingar heldur hafa þær listgreinar sem þær stunda fallið í skuggann. Sem dæmi má nefna greinar sem oft eru kenndar við handverk eða hagnýtar listir, s.s. textíl, leirlist og fleiri slík svið. Það er athyglisvert að skoða verk og skrif bandarísku listakonunnar Judy Chicago sem dæmi um feril listakonu og jafnframt tilraun til framlags til listgagnrýni á forsendum kvenna. Eitt þekktasta verk hennar nefnist The Dinner Party þar sem hún kynnir til sögunnar sem konur og kynverur ýmsar afreks- og andans konur frá ýmsum tímum. Jafnframt því að vinna verkið hefur hún ritað um ferilinn og um kynni sín af handverki og listiðnaði kvenna í tengslum við sköpunarferlið. Þar dregur hún einnig fram hina félagslegu þætti sem móta viðhorf kvennanna til vinnu sinnar og viðhorf samfélagsins til þeirra (Chicago, 1996). Greining jagodzinski (1997) beinir athyglinni að því að þessar greinar eru jafnframt skilgreindar sem handverk, ekki bara í þeim skilningi að verkin séu handunnin heldur vegna þess að þau kalla á snertingu handanna. Gerendanetið myndi taka þetta orðalag; að hlutir kalla á viðbrögð, alvarlega. Svo má velta því fyrir sér hvort nándin sem felst í snertingunni tengist einkarýminu, stað kvenna meðan fjarskinn sem þarf til að sjá hlutinn í samhengi tengist hinu opinbera rými (Grumet, 1988).

Annar listgagnrýnandi sem er athyglisvert að skoða er Lucy Lippard (1976; 1990; 1997). Hún hefur eins og Chicago gengið gegnum ákveðna þróun í verkum sínum, frá því að „setja konur inn í myndina“ til þess að skoða betur frá sjónarhorni hvers blasir einmitt þessi mynd við? Hvað ef við skiptum um sjónarhorn? Verk hennar hafa verið innblástur í sambandi við námskrá úr umhverfi nemandans og má sérstaklega benda á bók hennar Mixed Blessings: New Art in Multicultural America (1990) í tengslum við fjölþjóðlega menningu og sem áhugaverðar greiningar á samtímanum og stöðu okkar. Við og þeir, heima og heiman, þekkt og framandi eru andstæður sem okkur er tamt að nota sem ramma til að afmarka skynjun og skilning okkar. Á undanförnum árum hefur Lippard einmitt snúið sér að því að skoða tengsl fólks við staði (2000).

Framandleiki eða hversdagsleiki

Við lifum á tímum mikils hreyfanleika og miðlun er orðin svo víðtæk að menningarstraumarnir eru bæði stríðir og miklir. Almenningur hefur nú á tímum aðgang að nær öllum heiminum, öllum menningarkimum í samtíð og fortíð. Það sem áður var framandi, jafnvel forboðið, er þekkt og nær hversdagslegt í dag.

Þegar grannt er skoðað hvað fólk gerir; samskipti þess og hegðun þá kemur í ljós sá hversdagsleiki sem við erum mótuð af og tökum með í farangrinum hvert sem við förum. Það er með sjónglerjum þessa hversdagsleika, sem er líf okkar, viðhorf og vani, sem við sjáum allt sem fyrir augu ber (McCabe, 2002). Hvað segir þetta okkur um list og hvernig við nálgumst listir? Það er þær þurfa einhverja skírskotun til hins þekkta, jafnvel hversdagslega, til þess að við „náum því“.

Þolmörk okkar gagnvart hinu óþekkta í menningarlífi eru nátengd þolmörkum okkar í daglegu lífi. Vissulega er framandleikinn áhugaverður en bara að vissu marki. Þetta gildir í ríkum mæli um hugmyndir okkar um afþreyingu og vettvang afþreyingar. Golfari vill að golfvöllur sé af sömu gæðum í eyðimörkinni í Arizona og í suddanum í St. Andrews. Við viljum sömu þjónustu á baðströndinni í Búlgaríu og Jamaica. Það má jafnvel segja að það sé til Golfland sem er eiginlega eins um allan heim og í því býr golfþjóðin sem er alþjóðleg þó einstaklingarnir séu með passa frá einhverjum þjóðlöndum. Á sama hátt er til skólaland, safnaland, sýningaland, leikhúsland, verslunarland ... Við leitum að sýnilegum merkjum þess að við séum á þekktu svæði hvort sem það er sýningasalur, verslun eða skóli. Vísbendingarnar eru í ásýnd staðar, efnisnotkun, táknum og myndum, skipulagi rýmisins og þeim sjónrænu leiðbeiningum sem þú hefur um staðinn sem vettvang, t.d. starfs, verslunar, skemmtunar; í gerendanetinu (Van der Duim, 2007).

Þarna reiðum við okkur á orðræðuna eins og hún hefur mótast, það þarf brjálæðing, Foucault eða týndu konurnar til að menningarstraumurinn steyti á einhverju sem stendur upp úr, einhverju sem getur breytt stefnunni, mótað farveginn.

Hlutverk sjónrýni í samfélaginu

Sú rýni sem Sontag (2005) kallaði á; rýni í merkingunni skynjun er ef til vill eitt besta kennslutækið sem við höfum til að ná fram því markmiði að gera nemendur virka þegna í lýðræðisþjóðfélagi eins og fyrir er lagt í grunnskólalögum (Guðrún Helgadóttir, 2003). Mikilvægi sjónrýni vex stöðugt í heimi þar sem orðræðan er að miklu leyti sjónræn, þar sem merkingu er miðlað með myndum. En jafnframt má segja að andóf gegn veldi augans sé einmitt mikilvægt við þær aðstæður. Það að hlusta, finna, er líka hluti af þeirri sýn sem er forsenda þeirrar virkni sem er grundvöllur lýðræðis.

Barrett (1992) lýsir aðferðum listgagnrýninnar í skólastarfi og leggur áherslu á að nemendur vandi sig við að lýsa verkunum og að þau noti lýsinguna, eða skoðun sína á verkinu, til að rökstyðja túlkun sína á merkingu verksins og mat á mikilvægi þess. Þessar aðferðir eru ekki sértækar fyrir listgagnrýni, þær eru aðferðir sem ættu að vera grundvöllur allrar gagnrýnnar umræðu, mikilvæg uppistaða í allri orðræðu. Það að lýsa einhverju er talið einfalt, það er túlkunin sem er talin vandasöm. Þar leggst allur þungi orðræðunnar á viðfangsefnið. Það er einmitt þarna sem varnaðarorð Sontag (2005) eiga við er það svo að hægt sé að greina og upphefja túlkun á kostnað lýsingar? Getur greining/túlkun verið án lýsingar sem er byggð á þeirri þjálfuðu skynjun sem Sontag biður um?

Það er ekkert gefið, um allt má efast því það er aldrei neitt einfalt og bara í sjálfu sér. Það fer eftir því hvaða gleraugu eru sett upp, frá hvaða sjónarhóli orðræðan er skoðuð hvað við sjáum. Það segir jafnmikið um merkingu hennar hvað er sagt og hvað er ekki sagt. Hver talar og til hvers eða við hvern og í hvaða tilgangi skiptir máli ekki síður en að gera sér grein fyrir sjónarhorni og takmörkunum þess. Þess vegna þarf að hlusta á þagnirnar, finna eyðurnar, sjá hlutina og merkja við fjarvistirnar í kladda orðræðunnar.

Heimildir

Ágúst Einarsson (2005). Hagræn áhrif menningar í hnattrænu samhengi. Rannsóknir í félagsvísindum VI: viðskipta- og hagfræðideild, bls. 5363

Barrett, T. (1992). Criticizing art with children. Í A. Johnson (ritstj.), Art Education Elementary, bls. 115–130, NAEA, Reston, VA.

Baudrillard, J. (2000). Framrás líkneskjanna. Í Geir Svansson (ritstj.), Frá eftirlíkingu til eyðimerkur (bls. 42–60). Reykjavík: Bjartur, Reykjavíkurakademían.

Berger, J. (1972). Ways of seeing. London: Penguin.

Broudy, H.S. (1994). Enlightened cherishing. An essay on aesthetic education. Urbana, Ill: University of Illinois.

Bukdahl, E.M. (1996). The new demands on art and art criticism in the information age. Erindi á ráðstefnunni Art Criticism Today: The State of European Art Criticism. Norræna húsið, Reykjavík 19.–22. september.

Chicago, J. (1996). The dinner party. Australia: Penguin Books.

Clark, G., Day, M., og Greer, D. (1988). Discipline-based art education: Becoming students of art. The Journal of Aesthetic Education 21(2), 129193.

Collins, G. og Sandell, R. (1984). Women, art and education. Reston, VA: NAEA.

Dobbs, S.M. (1998). Learning in and through art. Los Angeles, CA: The Getty Education Institute for the Arts.

Foucault, M. (1991). Skipan orðræðunnar. Í Garðar Baldvinsson, Kristín Birgisdóttir og Kristín Viðarsdóttir (ritstj.), Spor í bókmenntafræði 20. aldar (bls. 191–226). Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands.

Geahigan, G. (2002). Art Criticism. Reflections on the evaluation of an educational concept. Journal of aesthetic education 36(2), 84–98.

Grumet, M.R. (1988). Bitter milk. Women and teaching. Amherst, Mass.: University of Massachusetts.

Guðrún Helgadóttir (2003). Námsmat í myndlist, mat á myndlistarkennslu og aðferðir listgagnrýni. Í Netlu, veftímariti um uppeldi og menntun. Grein birt 3. september. Sótt 10. nóvember 2006 á slóðina http://netla.khi.is/greinar/2003/006/prent/index.htm

Gunnar Þór Jóhannesson (2005). Tourism translations: Actor–Network Theory and tourism research
Tourist Studies 5(2); 133150. Sótt 1. nóvember 2008 á slóðina http://tou.sagepub.com/cgi/content/abstract/5/2/133

Hagaman, S. (1990). Feminist inquiry in art history, art criticism and aesthetics: An overview for art education. Studies in Art Education 32(1), 27–35.

Hay, J. (1986). The use and abuse of oral evidence. Victoria, Australia: Deakin University.

Hirsch, E.D. (1987). Cultural literacy. What every american needs to know. Boston: Houghton Mifflin.

jagodzinski, jan (1997). The perception of non perception: Lessons for art education with downcast eyes (Part I: Trompe-L'Oeil and the question of radical evil). Í Irwin, R.L. og Grauer, K. (ritstj.), Readings in Canadian art teacher education (bls. 5372). Boucherville, Quebec: Canadian Society for Education through Art.

Jokinen, E. og Veijola, S. (2003). Mountains and landscapes: Towards embodied visualities. Í D. Crouch og N. Lübbren (ritstj.), Visual Culture and tourism (bls. 259–278). Oxford, U.K.: Berg.

Jones, M.O. (1987). Making work art and art work: The aesthetic impulse in organizations and education. Í D. Blandy og K.C. Congdon (ritstj.), Art in a democracy (bls. 124–137). New York: Teachers College.

Lather, P. (1991). Getting smart. Feminist research and pedagogy with/in the postmodern. New York: Routledge.

Lippard, L. (1976). From the center: Feminist essays on women's art. N.Y.: Dutton.

Lippard, L. (1990). Mixed blessings: New art in a multicultural America. N.Y.: Pantheon.

Lippard, L. (1997). The Lure of the local: A Sense of home in a multicentered society. N.Y.: New Press.

Lippard, L. (2000). On the beaten track: Tourism, art, and place. N.Y.: New Press

McCabe, S. (2002). The tourist experience and everyday life. Í G.M.S. Dann (ritstj.), The tourist as a metaphor of the social world (bls. 61–75). Án útgáfustaðar: CABI International.

Nochlin, L. (1988/1973). Why have there been no great women artists? Í E. Baker og T. Hess. Art and sexual politics (bls 145178). N.Y.: Harper Row.

Nordström, G., Z. (1989). Bilden i det postmoderna samhället. Stockholm: Carlssons.

Páll Skúlason (1994). Inngangur. Í Róbert H. Haraldsson og Þorvarður Árnason (ritstj.), Náttúrusýn. Safn greina um siðfræði og náttúru (bls. 918). Reykjavík: Rannsóknarstofnun í siðfræði, Háskóli Íslands.

Rose, G. (2001). Visual methodologies. London: Sage.

Rúrí (2006). Tileinkun. [Gjörningur]. Þingvellir, 5. september. Sótt 2. janúar 2008 á þessa slóð: http://www.ruri.is/english/gallery.asp?offset=8.

Smith, D.E. (1987). The everyday world as problematic. A feminist sociology. Toronto: University of Toronto.

Sontag, S. (2005/). Gegn túlkun. (Hermann Stefánsson þýddi). Í Hjálmar Sveinsson (ritstj.), Að sjá meira. Atvik 10 (bls. 20–35). Reykjavík: Reykjavíkurakademían. 

Úlfhildur Dagsdóttir (2005). Metamorphoses of the imagination: imagining Björk. Í Dagný Kristjánsdóttir (ritstj.), Litteratur og visuell kultur = Literature and visual culture (bls 69-85). Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands.

Van der Duim, R. (2007). Tourismscapes. An actor-network perspective. Annals of Tourism Research 34(4), 961976. Sótt 5. nóvember 2008 á þessa slóð: doi:10.1016/j.annals.2007.05.008.
 

Prentútgáfa     Viðbrögð