Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun

Menntavísindasvið Háskóla Íslands

Grein birt 20. september 2008

Greinar 2008

Nanna Kristín Christiansen

Drengir og grunnskólinn

Móðurskólaverkefni

Í greininni er fjallað um móðurskólaverkefni Vesturbæjarskóla sem unnið var á árunum 2005–2008. Verkefnið nefnist Drengir og grunnskólinn. Niðurstöður PISA og samræmdra prófa í 10. bekk árið 2003 sýndu að árangur stúlkna var að meðaltali betri en árangur drengja. Það vakti sérstaka athygli að yfirburðir stúlkna í samanburði við drengi voru meiri hér en í nokkru öðru þátttökulanda PISA-rannsóknarinnar. Þessar niðurstöður urðu meðal annars kveikjan að því að vorið 2005 óskaði menntaráð Reykjavíkur eftir skóla sem vildi taka að sér móðurskólahlutverk í málefninu drengir og grunnskólinn. Markmið greinarinnar er að fjalla um þróun verkefnisins og skýra frá helstu niðurstöðum. Fram kemur að góðir kennsluhættir hafa ekki síður áhrif á árangur drengja en stúlkna og að vænlegra sé að leggja áherslu á einstaklingsmun en kynjamun nemenda. Greinin er byggð á reynslu Vesturbæjarskóla, fræðilegum heimildum, athugunum, námsferð og kynnum af nýjum kennsluaðferðum. Höfundur var verkefnisstjóri móðurskólaverkefnisins.

Inngangur

Haustið 2005 hóf Vesturbæjarskóli þriggja ára starf sem móðurskóli í verkefninu Drengir og grunnskólinn. Var það gert fyrir tilstuðlan Menntasviðs Reykjavíkurborgar og með fjárstuðingi þess. Eins og fram kemur á heimasíðu Menntasviðs á slóðinni http://www.menntasvid.is er meginhlutverk móðurskóla að vera frumkvöðull á sínu sviði, veita öðrum grunnskólum í Reykjavík ráðgjöf og standa fyrir fræðslu- og kynningarstarfi um þá sérþekkingu sem hann býr yfir.

Verkefninu var þannig ætlað að finna leiðir sem stuðla að bættum námsárangri og líðan drengja í skólum og veita öðrum skólum ráðgjöf og fræðslu á því sviði en rannsóknir höfðu sýnt að drengjum farnast almennt verr í skólum en stúlkum.

Starfshópur sem vann að móðurskólaverkefninu var að jafnaði skipaður fimm til sjö kennurum og stjórnendum við skólann. Þrír þeirra tóku þátt í verkefninu allan tímann en aðrir komu að því í skemmri tíma. Þeir voru: Málfríður Ragnarsdóttir, Þuríður Elfa Jónsdóttir, Vigdís Garðarsdóttir, Margrét Ingadóttir, Guðný Rut Gylfadóttir, Hrefna Birna Björnsdóttir, Hanna Guðbjörg Birgisdóttir, Sigríður Nanna Heimisdóttir og Nanna Kristín Christiansen sem stýrði verkefninu.

Staða drengja

Í skýrslu Námsmatsstofnunar um kynjamun í samræmdum prófum og PISA (Almar M. Halldórsson, Ragnar F. Ólafsson og Júlíus K. Björnsson, 2007) segir:

Stúlkur eru betri en drengir í öllum fjórum greinunum og í engu landi eru yfirburðir stúlkna meiri í samanburði við drengi í sama landi. Niðurstöður PISA um kynjamun eru í samræmi við niðurstöður samræmdra prófa á Íslandi. Stúlkur eru að meðaltali betri en drengir á samræmdum prófum 10. bekkjar. Samræmi milli niðurstaðna PISA og samræmdra prófa styður réttmæti beggja prófa og sýnir að kynjamunurinn er raunverulegur, ekki afsprengi þess mælitækis sem notað er við námsmatið.

Hér er vísað til niðurstaðna prófa árið 2003. Það er ekki einungis námslega sem drengir standa verr að vígi en stúlkur því Berglind Rós Magnúsdóttir (2004) bendir á að tölfræðilegar rannsóknir sýni að fleiri drengjum en stúlkum leiðist og líði illa í skólanum. Áhyggjur af stöðu drengja í skólum eru langt frá því að einskorðast við íslenskt samfélag því fjöldi erlendra fræðimanna hefur fjallað um málefnið, nægir þar að nefna áströlsku fræðimennina Martino, Mills og Lingard (2005) og bresku fræðimennina Jones og Myhill (2004).

Í móðurskólaverkefni Vesturbæjarskóla var frá upphafi lögð áhersla á að stúlkur myndu á engan hátt líða fyrir verkefnið, þvert á móti var þess vænst að þær nytu ekki síður góðs af því en drengirnir. Í stað þess að grípa til þekktra hugmynda sem taldar eru koma til móts við þarfir drengja, eins og að kynjaskipta í námshópa, auka hreyfingu og verklega kennslu hjá drengjum eða stytta námslotur þeirra, ákvað starfshópurinn að byrja á því að kynna sér fræðilega umræðu um málefnið. Markmiðið var að byggja aðgerðir hópsins á grundvelli þekkingar sem þannig yrði aflað. Var leitað eftir leiðsögn Ingólfs Ásgeirs Jóhannessonar, prófessors við Háskólann á Akureyri og höfundar bókarinnar Karlmennska og jafnréttisuppeldi. Valdi hann lesefni með hópnum og tók þátt í umræðufundum um efni þess. Auk lesturs og umræðna stóð hópurinn fyrir fjórum opnum fundum í Vesturbæjarskóla um málefnið Drengir og grunnskólinn þar sem Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, Ingólfur Gíslason, sérfræðingur hjá Jafnréttisstofu, Margrét Pála Ólafsdóttir, stofnandi Hjallastefnunnar og Álfgeir Logi Kristjánsson, sérfræðingur hjá Rannsóknum og greiningu, fluttu erindi.

Niðurstaða starfshópsins við lok fyrsta árs verkefnisins var í stuttu máli sú að það virðist algengt að fólk falli í þá gryfju að alhæfa um kynin þegar leitað er skýringa á vanda drengja í skólanum. Til einföldunar má setja algengustu skýringarnar fram líkt og Bredesen (2004) gerir:

  1. Eðlisskýringar

  2. Fjölskylduskýringar

  3. Gagnrýnin skýring

  4. Femíniskar skýringar

  5. Karlmennskuskýringar

  6. Menningarskýringar

Eðlisskýringar

Þeir sem aðhyllast eðlisskýringar líta svo á að drengir og stúlkur séu í eðli sínu ólík. Dæmigert fyrir þessa skýringu er það sem Ingólfur Ásgeir Jóhannesson (2004) fjallar um í bók sinni og nefnt er strákar eru strákar. Þessar skýringar enduróma hugmyndir um að drengir þurfi á hreyfingu að halda, þeim sé jafnvel eðlilegt að vera pínulítið árásargjarnir og umfram allt ekki kvenlegir eða hommalegir. Samkvæmt þessum hugmyndum er það góð leið til að mæta ólíkum þörfum drengja og stúlkna að kynjaskipta skólum eða námshópum. Martino, Mills og Lingard (2005) hafa skoðað áhrif kynjaskiptra bekkja í Ástralíu. Í rannsókn þeirra kom m.a. fram að kennararnir höfðu tilhneigingu til að aðlaga námskrá skólans staðalímyndum kynjanna og þannig jukust líkurnar á því að þær styrktust. Martino, Mills og Lingard (2005) vekja athygli á því að aðrir þættir hafi ekki síður áhrif á mótun einstaklingsins en kynferði, ekki síst félagslegur bakgrunnur. Þannig geta drengur og stúlka með sama félagslega bakgrunn átt mun meira sameiginlegt en tveir drengir úr ólíkum félagshópum.

Fjölskylduskýringar

Algeng skýring á slakri stöðu drengja í grunnskólanum er sú að marga drengi skorti fyrirmyndir þar sem þeir hafi ekki feður á heimilum sínum. Þar við bætist að sárafáir karlkennarar séu til staðar í skólanum. Fjarvera karlmanna er þannig talin skýra vanda stráka. Að sögn Berglindar Rósar Magnúsdóttur (2004) heyrast þær raddir að með því að konur leggi undir sig kennarastarfið, eyðileggi þær ekki aðeins launin og virðinguna fyrir starfinu heldur einnig velferð drengjanna. Ólöf Garðarsdóttir (2001) vísar þessum fullyrðingum á bug, m.a. með því að benda á að flestar stelpur hafi líka verið með hærri einkunnir en strákar á fyrri hluta síðustu aldar en þá voru karlar í miklum meirihluta kennara. Þessi viðhorf gera fyrst og fremst lítið úr kvenkennurum en Ingólfur Ásgeir Jóhannesson (2004 ) og Martino, Mills og Lingard (2005) telja fagmennsku kennara og þekkingu þeirra á félagsmótun og kynjafræði hafa mun meiri áhrif á gæði starfsins en kynferði þeirra.

Gagnrýnin skýring

Svokölluð gagnrýnin skýring gefur til kynna þá hugmynd að skólinn sé illa aðlagaður þörfum drengja. Slakur árangur þeirra er ekki endilega talinn vera vísbending um að eitthvað sé að hjá þeim, heldur miklu fremur að þeir séu viljandi ekki að nýta sér hæfileika sína til fulls (Jones og Myhill, 2004). Þannig telja Jones og Myhill (2004) að drengir séu oft taldir skila verri árangri en efni standa til. Slakur árangur þeirra er útskýrður með áhugaleysi eða leti og oft talinn staðfesta að þeim leiðist í skólanum. Eins og Berglind Rós Magnúsdóttir (2004) nefnir þá fylgir það gjarnan sögunni þegar lélegur árangur drengja er ræddur að allt of margir kvenkennarar séu í skólanum og þar af leiðandi sé skólinn orðinn kvenlægur. Þessi hugmynd varpar allri ábyrgð af drengjunum og gerir þeim drengjum sem ekki standa undir væntingum jafnvel erfitt fyrir. Það getur valdið álagi á dreng, sem á við námserfiðleika að stríða, að fá stöðugt að heyra að hann geti betur. Í versta falli getur þessi afstaða komið í veg fyrir að hann fái þá kennslu sem hann þarf á að halda (Myhill, 2002).

Femíniskar skýringar

Stundum er vísað til þess að öfugt við óánægju stelpna þá sé tekið tillit til óánægju stráka. Sem dæmi um þetta bendir Bredesen (2004) á að þegar stúlkur náðu ekki jafn góðum árangri og piltar í framhaldsskóla, t.d. í stærðfræði, var það skýrt með því að stúlkurnar skorti eitthvað. Drengirnir hefðu aftur á móti eiginleika frá náttúrunnar hendi sem þær hefðu ekki. Ingólfur Ásgeir Jóhannesson (2004) vekur athygli á því að áhugi útgefenda á bókum með sérstaka áherslu á málefni drengja sé mikill. Hann vísar til þess að á bókasýningu, sem haldin var í tengslum við ráðstefnu Evrópsku menntarannsóknar-samtakanna haustið 2003, hafi hann aðeins fundið eina bók sem fjallaði fyrst og fremst um málefni stúlkna meðan allmargar bækur um málefni drengja voru sérstaklega kynntar. Í bók sinni Karlmennska og jafnréttisuppeldi tekur Ingólfur Ásgeir (2004) saman drengjaorðræðuna og kemst að þeirri niðurstöðu að hún einkennist af einföldunum, reynt sé að finna sökudólga, ekki síst með því að sýna fram á að drengir séu fórnarlömb aukinnar áherslu á menntun stúlkna.

Karlmennskuskýringar

Bent hefur verið á að ein ástæða þess að drengir fylgi ekki menntunarbyltingunni, sem ríkt hefur á Vesturlöndum, sé sú að þær karlmennskuímyndir sem margir strákar hafa sem fyrirmynd gangi þvert gegn hugmyndum um að fjárfesta í námi. Þeir sem það geri eigi jafnvel á hættu að vera stimplaðir stelpur eða nördar (Bredesen, 2004).

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson (2004) nefnir tvær ástæður fyrir því að skólinn og heimilin freisti þess að hafa áhrif á þessar viðteknu hugmyndir eða það hvernig karlmannlegar hugverur mótast í orðræðunni. Sú fyrri er að það gæti dregið úr skaðlegri hegðun og viðhorfum sem tengjast karlmennsku en þar er t.d. átt við ofbeldi og áhættuhegðun. Alþekkt er að karlar deyja yngri en konur, þeir fremja oftar sjálfsmorð og mun fleiri karlar sitja í fangelsum. Þetta er meðal þess sem stundum hefur verið nefnt gjald karlmennskunnar. Síðari ástæðan sem Ingólfur Ásgeir (2004) nefnir er að það gæti aukið lífsgæði beggja kynja að útvíkka karlmennskuhugtakið á þann hátt að opna þeim fleiri möguleika, m.a. í starfsvali, en hingað til.

Menningarskýringar

Með menningarskýringum er átt við að vandinn sem við stöndum frammi fyrir um stöðu drengja í samtímanum orsakist af því að menning drengja sé önnur en stúlkna. Þess er vænst að þeir hagi sér á ákveðinn hátt af því að þeir eru strákar. Í skólanum virðast stúlkur frekar njóta virðingar félagahópsins fyrir að standa sig vel í námi. Mörgum stelpum er umbunað fyrir samviskusemi, ábyrgð, hlýðni og hjálpsemi. Drengir komast frekar upp með að tala hátt, grípa fram í og tala án þess að rétta upp hönd (Berglind Rós Magnúsdóttir, 2005). Í rannsókn sem Berglind Rós (2005) vísar til kemur einnig fram að drengir fara að meðaltali seinna að sofa en stúlkur, læra síður heima og fá minni umhyggju og hlýju frá foreldrum sínum. Foreldrar stúlknanna þekkja oftar vinahóp dætra sinna og vita frekar hvar þær eru. Drengjunum er hinsvegar síður  settar reglur um hvenær þeir eigi að koma heim. Foreldrar koma með öðrum orðum ekki eins fram við syni sína og dætur og gera ekki sömu kröfur til þeirra hvað þessa þætti varðar. Eins og kunnugt er eru drengir og stúlkur klædd í ólíka liti allt frá fæðingu. Þannig má telja að menningin hafi mótandi áhrif á kynin allt frá fæðingu.

Martino, Mills og Lingard (2005) álíta  rannsakendur oft falla í þá gryfju að beina rannsóknum sínum í kynjafræði að einkennum sem leiða gjarnan til alhæfinga og síðan er leitað að einföldum flýtilausnum. Við slíka nálgun á viðfangsefninu er jafnvel hætt við að hefðbundnar staðalímyndir um kynin styrkist enn frekar í stað þess að foreldrar og kennarar beini áherslum sínum að einstaklingsmun. Vissulega standa margir strákar sig vel í námi og þeim líður ekki öllum illa í skólanum. Allir sem starfað hafa í grunnskólum vita líka að það eru til stúlkur sem gengur ekki vel í skóla og þær eru heldur ekki allar hamingjusamar þar. Goðsögnin um góða stöðu stúlkna og slaka stöðu drengja er að mati Myhill (2002) hættuleg því hún getur komið í veg fyrir að þeir hópar drengja og stúlkna sem eiga í vanda fái þá aðstoð sem þeir þurfa. Auk þess fullyrðir Ingólfur Ásgeir Jóhannesson (2004) að orðrómurinn um að drengir séu illa settir í skólum í vestrænum nútímasamfélögum sé mjög orðum aukinn.

Starfshópurinn dró þá ályktun að rétt væri að forðast staðalímyndir hvað varðar drengi og stúlkur og að einfaldar lausnir myndu einar sér ekki vera líklegar til að mæta meintum vanda drengja. Ákveðið var að leita uppi skóla sem rannsóknir hefðu sýnt að næðu árangri hvað varðar nám og líðan drengja án þess að það væri á kostnað stúlkna. Markmiðið var að kynna sér hugmyndafræði og kennsluaðferðir þeirra og athuga hvort aðlaga mætti þær starfinu í Vesturbæjarskóla að einhverju leyti.

Annað starfsár

Á öðru starfsári var jafnréttisfræðsla fléttuð inn í skólanámskrá Vesturbæjarskóla í lífsleikni auk þess sem þátttakendur starfshópsins unnu margvísleg verkefni sem þeir töldu geta komið enn frekar til móts við mismunandi þarfir nemenda. Einnig voru gerðar óformlegar kannanir. Skoðað var hvort og hvernig kynferði nemenda hefur áhrif á orðalag kennara í námsmati en niðurstöður bentu til þess að kennarar gerðu oftar ráð fyrir að drengir gætu betur en þeir höfðu gert. Umsögn eins og „með því að leggja sig betur fram næði hann betri árangri“ var mun oftar notuð í skriflegu námsmati drengja en stúlkna. Þetta er í samræmi við niðurstöður Jones og Myhill (2004) um að drengir séu viljandi ekki að nýta hæfileika sína til fulls. Starfshópurinn lagði sérstaka áherslu á fjölbreytta kennsluhætti, þar á meðal útikennslu og verklegar greinar. Boðið var upp á aðstoð við heimanám og aukin áhersla var lögð á tómstundastarf að loknum hefðbundnum skóladegi. Gerð var tilraun með að kynjaskipta í nokkrum námsgreinum, án þess að formlegt mat væri lagt á árangurinn. Unnin voru verkefni þar sem foreldrar voru hvattir til að vinna með börnum sínum að undirbúningi og kynningu á ákveðnum viðfangsefnum. Dæmi um slíkt er kynning á safni eða áhugaverðri persónu. Undirbúningsvinnan fór fram heima en kynningin í skólanum. Kennarar við skólann höfðu áður uppgötvað að margir feður tóku frekar þátt í slíkum verkefnum með börnum sínum en í hefðbundnu heimanámi.

Renningur er stærðfræðiverkefni sem byggist á hugmyndum Maríu Montessori. Undanfarin ár hefur renningurinn verið notaður í stærðfræðikennslu í Vesturbæjarskóla. Á renninginn skrifa nemendur kerfisbundið tölustafi frá einum og upp úr. Við hverja tölu lengist renningurinn. Þegar nemandinn er kominn að 100 fær hann sérstakt merki á renninginn sinn og einnig þegar hann kemur að 500 og 1000. Kennarar hafa um nokkurt skeið veitt því athygli að drengir hafa sérstakt dálæti á renningnum. Í niðurstöðum rannsóknar sem nefnist Raising Boys’ Achievement (Younger o.fl., 2004) og unnin var af fræðimönnum í Cambridge-háskóla kemur fram að margir drengir laðast að verkefnum sem hafa skýr markmið og fela í sér möguleikann á að mæla eigin árangur og framfarir. Að mati starfshópsins virðist renningurinn falla undir þessa skilgreiningu og skýrir líklega hvers vegna hann er sérstaklega vinsæll meðal drengja í Vesturbæjarskóla enda þótt margar stúlkur hafi líka dálæti á að vinna með hann.

Námsferð til Englands

Meðal lesefnis hópsins var skýrsla um verkefnið Raising Boys’ Achievement (Younger o.fl., 2004), sem áður er minnst á, en markmið þeirrar rannsóknar var að greina þau úrræði sem skólar hafa til að koma til móts við drengi (og stúlkur) sem standa illa að vígi í skólanum. Rannsóknin fór fram á árunum 2000–2004 og tóku yfir 50 grunn- og sérskólar í Englandi þátt í henni (Younger o.fl., 2004). Fyrir tilstuðlan Ingólfs Ásgeirs Jóhannessonar komst starfshópurinn í samband við Mike Younger prófessor við Cambridge-háskóla og einn forvígismanna rannsóknarinnar. Að beiðni starfshópsins benti Younger á tvo skóla sem tekið höfðu þátt í rannsókninni og náð eftirtektarverðum árangri með drengi en þessir skólar eru Dog Kennel Hill School og Ardleigh Green Junior School.

Dog Kennel Hill School

Í apríl 2007 fór starfshópurinn í námsferð til Englands með það fyrir augum að kynna sér starf þessara tveggja skóla. Skólastjóri Dog Kennel Hill School, Patricia Boyer, kynnti skólann sem ætlaður er nemendum frá 3ja til 11 ára. Í stuttu máli telur starfshópurinn það einkenna skólamenningu Dog Kennel Hill School að litið er heildrænt á þarfir nemenda. Mikil umhyggja er borin fyrir nemendum, ekki síst þeim sem taldir eru standa höllum fæti. Skólinn lítur svo á að allir hafi einhverja styrkleika og leitast er við að gefa þeim möguleika á að blómstra, hvort sem það er við garðyrkjustörf, umönnun gæludýra, hefðbundnar námsgreinar, móttöku gesta, aðstoð við yngri nemendur eða annað. Boyer lýsti því hvernig sérstök áhersla væri lögð á að gefa nemendum hlutdeild í daglegu starfi skólans, t.d. með virku starfi nemendaráðs. Nemendaráð tók m.a. þátt í að skipuleggja nýja viðbyggingu við skólann og hefur það hlutverk að kynna skólann fyrir gestum. Á ferð starfshópsins um skólann, undir leiðsögn nemenda, vakti það athygli hvað nemendurnir voru vel að sér um kostnað vegna viðhalds, um námskrá skólans og þau verkefni sem framundan voru. Nánari upplýsingar um Dog Kennel Hill School má finna á heimasíðu skólans: http://atschool.eduweb.co.uk/dkh/.

Ardleigh Green Junior School

Ardleigh Green Junior School er líkt og Dog Kennel Hill almennur grunnskóli en ætlaður nemendum frá 7 til 11 ára. Skólastjórinn, John Morris, tók á móti hópnum og veitti leiðsögn um skólann. Morris sagði það hafa komið honum og samstarfsfólki hans í opna skjöldu þegar rannsakendur frá Cambridge-háskóla tjáðu þeim að minni munur væri á námsárangri drengja og stúlkna í skólanum þeirra en í öðrum skólum á Englandi. Þetta mun vera sérstaklega áberandi í lestri og ritun. Morris sagði niðurstöður rannsóknar Cambridge-hópsins sýna að góðan námsárangur drengjanna mætti rekja til kennsluaðferðanna en það eru ekki einungis drengir sem ná góðum námsárangri í skólanum heldur virðast kennsluaðferðirnar ekki síður skila sér til stúlknanna. Samkvæmt upplýsingum Morris hefur meðaleinkunn skólans á samræmdum prófum ellefu ára nemenda hækkað jafnt og þétt og hin síðari ár hefur skólinn alltaf verið í hópi þeirra hæstu í landinu.

Starfshópnum gafst kostur á að fylgjast með kennslu í Ardleigh Green Junior School og kynnast kennsluaðferðum skólans. Í megindráttum einkennast þær af því að markmið hverrar einstakrar námsgreinar er afar skýrt, bæði þegar til lengri tíma er litið og einnig með tilliti til hverrar einstakrar kennslustundar. Eru kennarar, skólastjórnendur, foreldrar og nemendur meðvitaðir um þessi markmið og hvernig árangurinn er metinn. Hver nemandi er með einstaklingsáætlun fyrir hverja námsgrein sem kölluð er „passport“ (vegabréf) þar sem markmiðin eru skráð og merkt við þegar þeim er náð. Skólaárinu er skipt niður í sex vikna lotur og samkvæmt upplýsingum Morris er áherslan fyrstu fimm vikurnar á að þjálfa nemendur markvisst í að ná ákveðinni færni, eða eins og Morris orðar það, þá eru nemendur þjálfaðir í að nota „verkfærin“ sín á réttan hátt. Í sjöttu vikunni vinna nemendur fjölbreytt þemaverkefni þar sem þeir beita „verkfærunum“ sjálfstætt, m.a. í hópvinnu.

Kennslustund í móðurmáli

Tíminn hjá níu ára bekk hófst með því að kennarinn upplýsti nemendurna um að markmið kennslustundarinnar væri að æfa rökstuðning. Síðan hófst tíu mínútna kynning þar sem skjávarpinn var í aðalhlutverki. Vakti kennarinn athygli starfshópsins á því að skjávarpinn hefði það viðmót sem börnin þekktu og væru sátt við. Kveikjan var brot úr kvikmynd um refaveiðar. Að því loknu áttu sér stað umræður um efnið. Á þann hátt gafst nemendunum tækifæri til að mynda sér skoðanir og tjá þær, jafnframt því sem þeir öðluðust betri skilning á viðfangsefninu. Kennarinn sýndi því næst dæmi um hvað einkenndi góðan rökstuðning. Áður en nemendur fóru í hópvinnu gerði kennarinn stutta könnun með því að biðja nemendur um að skrifa tiltekin orð á plastspjöld sem hver og einn nemandi hafði. Spjöldunum lyftu þeir svo upp og kennarinn gat á andartaki séð hvort einhver þyrfti frekari aðstoð. Hópvinnan fór fram á 20 mínútum og fólst ýmist í því að finna rök með eða á móti refaveiðum. Því næst kynntu hóparnir niðurstöður sínar og var kynningin eftirlíking af umræðuþætti í sjónvarpi. Að lokum veittu bekkjarsystkin hverjum hópi þrjár stjörnur fyrir það sem vel hafði verið gert og tillögu eða ósk um það sem betur mætti fara. Mikið skipulag einkenndi kennslustundina, nemendur virtust öruggir um hvað þeir ættu að gera, voru ófeimnir við að tjá sig og nýttu tímann vel til vinnu.

Eins og áður hefur komið fram er árangur nemenda í Ardleigh Green Junior School sérstaklega góður í lestri og ritun. Niðurstaða rannsóknar fræðimannanna frá Cambridge (Warrington, Younger og Berne, 2006) er sú að þær kennsluaðferðir sem byggjast á heildrænni nálgun sem samþættir m.a. lestur, ritun, munnlega tjáningu, hlustun og leikræna tjáningu, skili bestum árangri í ritun og lestri. Auk þess er mikilvægt að kennslan sé markviss og vel skipulögð, að verkefnin séu fjölbreytt, hvetjandi og að nemendur sjái tilgang með þeim. Kennarar þurfa einnig að sýna með dæmum hvernig ritun er byggð upp. Þar sem kennsla í lestri og ritun er samþætt með þessum hætti eykst námsárangur drengja umtalsvert en margir drengir standa verr að vígi í lestri en stúlkur (Younger o.fl., 2004).

Athygli vakti mikil notkun á skjávörpum, snertitöflum og tölvum í kennslunni, einnig nákvæm uppbygging kennslustunda og það hversu vel nemendur nýttu tímann til náms. Það kom m.a. í ljós í kynnisferð um húsnæði skólans að nemendur sátu saman tveir og tveir við vinnu sína á göngum og gátu vart gefið sér tíma til að svara spurningum forvitinna gesta frá Íslandi, enda höfðu þeir aðeins 20 mínútur til að vinna verkefnin sín. Auðvelt var að draga þá ályktun að miklar væntingar væru gerðar til nemenda og svo virtist sem þeir legðu sig fram um að standa undir þeim. Ein af niðurstöðum Cambridge-rannsóknarinnar var einmitt að miklar væntingar, viss ögrun og reglulegt hrós sé meðal þess sem skilar drengjum og stúlkum góðum námsárangri (Younger o.fl., 2004). Einnig er vert að leggja á það áherslu að ein meginniðurstaða Cambridge-rannsóknarinnar er sú að kennsluaðferðir, sem mæta þörfum drengja, skili ekki síður góðum árangri þegar litið er til stúlkna og námsárangurs þeirra (Younger o.fl., 2004).

Heimasíða Ardleigh Green Junior School er á slóðinni http://www.lgfl.net/lgfl/leas/havering/
schools/ardleigh-green-jnr/.

Lærdómar af námsferðinni til Englands

Margt vakti athygli starfshópsins í heimsókninni í skólana tvo. Fyrst er að nefna áherslu á umhyggjuna í skólamenningu í Dog Kennel Hill School og síðan kennsluaðferðir Ardleigh Green Junior School. Englandsferðin sannfærði starfshópinn enn frekar um að varasamt er að alhæfa um kynin og að skólamenning og kennsluaðferðir sem höfða til drengja og skila þeim góðum námsárangri hafa einnig jákvæð áhrif á námsárangur stúlkna. Nær er því að tala um börn eða nemendur og gera ráð fyrir fjölbreytileika í þeim hópi. Mikilvægi umhyggjunnar dregur starfshópurinn ekki í efa og það er mat hans að einnig megi auðveldlega laga margt í kennsluaðferðum Ardleigh Green Junior School að starfi Vesturbæjarskóla. Það gefur aðferðunum vissulega mikið vægi að rannsókn fræðimannanna frá Cambridge-háskóla staðfestir að kennsluaðferðir Ardleigh Green Junior School eru árangursríkar hvort sem um er að ræða drengi eða stúlkur.

Þriðja starfsár

Það lá beint við að þriðja starfsár móðurskólaverkefnisins Drengir og grunnskólinn hæfist með því að John Morris, skólastjóri, og Jacki Avis, kennari við Ardleigh Green Junior School, kæmu til Reykjavíkur og héldu eins dags námskeið fyrir kennara Vesturbæjarskóla. Á námskeiðinu, sem haldið var í ágúst 2007, kynntu þau kennsluaðferðir Ardleigh Green Junior School í ritun og lestri og kennslugögn sem kennarar þar hafa unnið. Að námskeiði loknu gáfu fyrirlesararnir Vesturbæjarskóla fjölmörg kennslugögn til móðurmálskennslu. Megináhersla starfshópsins síðasta starfsár sitt var því að þýða og staðfæra kennslugögnin og tilraunakenna efnið í þremur bekkjum. Auk þess opnaði starfshópurinn heimasíðu fyrir móðurskólaverkefnið þar sem birt eru nokkur þeirra kennsluverkefna sem hópurinn hefur þýtt og staðfært, slóðin er: http://www.vesturbaejarskoli.is/heimasida_drengjaverkefni/index.htm.

Tilraunakennsla

Kennararnir sem notuðu aðferðir og verkefni Ardleigh Green í kennslu sinni létu afar vel af þeim. Þeir töldu verkefnin veita nemendum markvissari færni í ritun texta en fyrri kennsluaðferðir höfðu gert. Mikil áhersla er á að efla getu nemenda í að greina á milli ólíkra texta og að auka meðvitund þeirra um hvernig orðaval og uppbygging málsgreina skapar mismunandi áhrif. Þetta krefst þess að kennarinn sýni nemendum dæmi og að markviss umræða fari fram um textann. Umfjöllun um málfræði og setningarfræði fléttast eðlilega inn í ferlið, jafnvel hjá yngstu nemendunum. Þetta vinnur gegn því að ritunin verði tilviljanakennd þar sem markmiðin eru skýr og leiðin vel vörðuð áður en lagt er af stað. Í ljós kom að nemendurnir sýndu almennt mikinn áhuga á verkefnunum, enda eru þau fjölbreytt og skemmtileg. Skjávarpinn er óspart notaður, einnig umræður og leikræn tjáning.

Allt of lítil reynsla er komin á kennsluaðferðir Ardleigh Green í Vesturbæjarskóla til þess að hægt sé að fullyrða um áhrif þeirra þar. Það er aftur á móti mat kennaranna að allt bendi til þess að kennsluaðferðirnar geti skilað umtalsverðum árangri í ritun og lestri. Það vakti athygli að nokkrir drengir sem fram til þessa höfðu sýnt lítinn áhuga á ritun urðu metnaðarfyllri og náðu betri árangri en áður. Einhverjir þeirra áforma jafnvel að hasla sér völl á sviði ritstarfa. Í stuttu máli má segja að þessar kennslustundir hafi einkennst af áhuga nemenda, gleði og árangri.

Næstu skref

Á vorönn var haldinn fundur með kennurum og stjórnendum Vesturbæjarskóla þar sem starfshópurinn kynnti kennslugögn, niðurstöður tilraunakennslu og heimasíðu verkefnisins. Var þar tekin ákvörðun um að Vesturbæjarskóli myndi leitast við að kynna sér nánar kennsluaðferðir Ardleigh Green Junior School með það í huga að sem flestir kennarar skólans geti nýtt þær með nemendum sínum í framtíðinni. Í því skyni er fyrirhuguð náms- og kynnisferð kennara Vesturbæjarskóla til Ardleigh Green haustið 2008.

Það má geta þess að starfshópurinn hvatti til þess að John Morris, skólastjóri, yrði fenginn til að flytja erindi á Öskudagsráðstefnunni 2008 en hún er haldin af Menntasviði Reykjavíkurborgar, Skólastjórafélagi Reykjavíkur og Kennarafélagi Reykjavíkur. Þar kynnti Morris kennsluaðferðir Ardleigh Green Junior School. Ríflega 600 kennarar og skólastjórnendur sóttu ráðstefnuna. Á málstofu ráðstefnunnar aðstoðuðu kennarar úr starfshópi móðurskólans Morris við að kynna kennslugögn og aðferðir í ritun og lestri.

Lokaorð

Móðurskólaverkefnið Drengir og grunnskólinn, sem hófst haustið 2005, hafði það að markmiði að finna leiðir sem stuðla að bættum námsárangri og líðan drengja í skólum en niðurstöður rannsókna höfðu gefið til kynna að þeim farnaðist oftar verr í skólum en stúlkum. Eftir að starfshópurinn hafði kynnt sér fræðilega umræðu, rannsóknir, tekið þátt í umræðum um málefnið og jafnframt kynnt sér starfsemi skóla þar sem drengir hafa náð sérstaklega góðum árangri er niðurstaðan sú að til að bæta stöðu drengja ætti Vesturbæjarskóli líkt og aðrir skóla að leggja áherslu á umhyggju og kennsluaðferðir sem skila árangri fyrir alla nemendur. Með því að leggja áherslu á staðalímyndir kynjanna er hætt við að drengir og stúlkur, sem vegnar illa í skóla, fari á mis við þá aðstoð sem þau þurfa á að halda. Skólinn ætti því fyrst og fremst að vera vakandi fyrir einstaklingsmun og leitast við að mæta þörfum allra nemenda.

Kennsluaðferðir Ardleigh Green Junior School hafa skilað nemendum þar, drengjum jafnt sem stúlkum, góðum árangri einkum í lestri og ritun. Reynslan sýnir að kennsluaðferðirnar virðast einnig falla vel að þörfum nemenda í Vesturbæjarskóla. Það er von starfshópsins að með því að tileinka sér þessar aðferðir geti skólinn haldið áfram að þróa starfshætti sína í þá átt að allir nemendur skólans njóti skólastarfsins og nái góðum námsárangri.

Samkvæmt niðurstöðum PISA 2006 (Ragnar F. Ólafsson, Almar M. Halldórsson, Sigurgrímur Skúlason og Júlíus K. Björnsson, 2007) kemur í ljós skýr kynjamunur í lesskilningi hér á landi, stúlkum í hag. Hið sama á við í öllum öðrum löndum sem þátt tóku í PISA. Á hinn bóginn er ekki um marktækan mun að ræða á færni íslenskra stúlkna og drengja í náttúrufræði og stærðfræði. Sá kynjamunur sem mældist í PISA-rannsókninni 2003 er því ekki lengur til staðar. Engu að síður er það umhugsunarvert að samkvæmt PISA er kynjamunurinn mesti ójöfnuður sem mælist í íslenska skólakerfinu. Hann er aftur á móti óstöðugur milli ára og skóla (Ragnar F. Ólafsson, Almar M. Halldórsson, Sigurgrímur Skúlason og Júlíus K. Björnsson, 2007). Þetta er vísbending sem skólafólk getur varla litið framhjá.

Kennsluaðferðir Ardleigh Green Junior School munu á næstu árum væntanlega halda áfram að þróast og festast í sessi í Vesturbæjarskóla. Þess er að vænta að þær skili drengjum ekki síður en stúlkum bættum námsárangri. Ekki er ólíklegt að bættur námsárangur ásamt áherslu á umhyggju með nemendum muni stuðla að enn betri líðan allra nemenda. Áhugavert væri að fylgja því þróunarstarfi eftir með rannsóknum svo hægt verði að meta árangurinn sem hófst með móðurskólaverkefninu haustið 2005.

Ferill verkefnisins Drengir og grunnskólinn hófst með því að starfshópurinn lagði áherslu á kynjafræði og jafnréttismál. Sú ígrundun leiddi til þess að hópurinn kynntist nýjum kennsluaðferðum. Líklega er það vel við hæfi. Það er von starfshópsins að þær aðferðir skili þeim árangri sem stefnt var að.

Heimildir

Almar M. Halldórsson, Ragnar F. Ólafsson og Júlíus K. Björnsson (2007). Færni og þekking nemenda við lok grunnskóla. Helstu niðurstöður PISA í náttúrufræði, stærðfræði og lesskilningi (Rit nr. 6). Reykjavík: Námsmatsstofnun.

Berglind Rós Magnúsdóttir (2004). Ógnin sem stafar af kvenkennurum. Skólavarðan 4(5), 5–7.

Berglind Rós Magnúsdóttir (2005). Hvað er vænlegt til valda? Drengjamenning og karlmennska í skólum. Uppeldi 17(2), 56–57.

Bredesen, O. (2004). Nye gutter og jennter – en ny pædagogik? Kaupmannahöfn: Capplan Damm AS.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson (2004). Karlmennska og jafnréttisuppeldi. Reykjavík: Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræðum við Háskóla Íslands.

Jones, S. og Myhill, D. (2004). Seeing things differently: teachers´ constructions of underachievement. Gender and Education, 16(4), 531–546.

Martino, W., Mills, M. og Lingard, B. (2005). Interrogating single-sex classes as a strategy for addressing boys´ educational and social needs. Oxford Review of Education, 31(2), 237–254.

Myhill, D. (2002). Bad boys and good girls? Patterns of interaction and response in whole class teaching. British Educational Research Journal, 28, 339–352.

Ólöf Garðarsdóttir (2001). Skóli og kynferði. Hugleiðingar um mun á möguleikum drengja og stúlkna til náms við upphaf skólaskyldu á Íslandi. Kvennaslóðir. Rit til heiðurs Sigríði Th. Erlendsdóttur sagnfræðingi, bls. 419–429. Reykjavík: Kvennasögusafn Íslands.

Ragnar F. Ólafsson, Almar M. Halldórsson, Sigurgrímur Skúlason og Júlíus K. Björnsson (2007). Kynjamunur í PISA og samræmdum prófum 10. bekkjar (Rit nr. 3). Reykjavík: Námsmatsstofun.

Younger, M., Warrington, M., Gray, J., Rudduck, J., McLellan, P., Bearne, E., Kershner, R., og Bicheno, P. (2004). Raising Boys’ Achievement: a study funded by the Department for Education and Skills. (DfES Research Report RR63). Cambridge: University of Cambridge Faculty of Education.

Warrington, M. og Younger, M. ásamt Berne, E. (2006). Raising Boys´ Achievement in Primary Schools: towards an holistic approach. Berkshire: Open University Press.
 

Prentútgáfa     Viðbrögð