Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun

Menntavísindasvið Háskóla Íslands

Grein birt 20. september 2008

Greinar 2008

Birna Björnsdóttir

Munnleg saga – áhugaverð leið
til að læra sögu

Í þessari grein fjallar höfundur um munnlega sögu sem aðferð í kennslu, einkum í sögukennslu. Gerð er grein fyrir markmiðum verkefna í munnlegri sögu, undirbúningi þeirra, vali á verkefnum, viðtalstækni, úrvinnslu, skilum og mati. Aðferðin býður upp á óþrjótandi möguleika og hefur gefið góða raun í kennslu. Greinin byggist á M.Paed-ritgerð höfundar frá Háskóla Íslands. Höfundur er kennari í Lindaskóla í Kópavogi.

Inngangur

Munnleg saga er sagnfræðileg aðferð sem byggist á því að afla sögulegrar þekkingar með því að taka viðtöl við fólk sem tók þátt í eða þekkir til þeirra atburða, aðstæðna eða einstaklinga sem verið er að rannsaka (Samstarfsnefnd um undirbúning að stofnun Miðstöðvar munnlegrar sögu, 2007). Munnleg saga er víða um heim notuð í kennslu og er hentug leið til að fá nemendur til að taka virkan þátt í skólastarfinu. Aðferðin býður upp á rannsóknir, umræður og fjölbreytta vinnu með nemendum. Hún gefur nemandanum færi á að nálgast viðfangsefnið á annan hátt en í gegnum hefðbundna kennslu. Verkefni í munnlegri sögu hjálpar nemandanum að skilja fortíðina og tengja söguna við sitt eigið líf. Nemandinn tekur viðtal við valda viðmælendur um sögulega atburði eða tímabil og gefur það honum færi á að safna ómetanlegum upplýsingum um fortíðina. Nemandinn fær tækifæri til að upplifa söguna í gegnum annan einstakling og skapa „nýja sögu“. Aðferðin er því vel til þess fallin að efla söguvitund. Reynslan sýnir að vinna með munnlega sögu fer oftast eftir ákveðnu ferli. Nemendur læra um viðfangsefnið sem á að rannsaka, skoða heimildir, finna viðmælendur, læra viðtalstækni, framkvæma viðtöl og vinna loks úr viðtalinu. Aðferðir munnlegrar sögu eru þó ekki einungis bundnar við sögukennslu heldur er hægt að nota þær í mörgum námsgreinum, t.d. móðurmálskennslu, umhverfismennt og nýbúakennslu, og á mismunandi skólastigum.

Sérstaða munnlegrar sögu

Munnleg saga er ekki ný af nálinni og í aldanna rás hefur fólk lært um fortíðina með því að hlýða á hið talaða orð. Munnleg saga hefur það fram yfir margar aðrar aðferðir og sögugerðir að hún gefur okkur tækifæri til að nálgast söguna út frá einstaklingnum. Hún gefur okkur möguleika á að rannsaka sögu sem ekki er að finna í öðrum frumheimildum og getur rannsakandinn sjálfur stjórnað þeim upplýsingum sem hann sækist eftir og þjóna tilgangi rannsóknarinnar. Munnleg saga gefur því möguleika á að skoða söguna með öðrum áherslum og opna ný svæði til rannsóknar. Heimur fræðimannsins er ekki lengur takmarkaður við háa stafla af gömlum skjölum heldur getur hann leitað eftir þeim upplýsingum sem vantar með viðtölum við fólk sem hefur beina reynslu af viðfangsefninu eða þekkir til þess (Thompson, 2000, bls. 6).

Möguleikar á að nota aðferð munnlegrar sögu í rannsóknum eru óþrjótandi og hún býður upp á mikla fjölbreytni viðfangsefna, allt frá almennum sögulegum atburðum til smáatriða í persónulegu lífi einstaklings. En eins og með allar heimildir þarf rannsakandinn, sem notar munnlega sögu í rannsóknum sínum, að þjálfa með sér gagnrýna hugsun. Ekki er hægt að treysta því, þó viðmælandinn segi að frásögnin sé sönn um tiltekin atriði, að hún sé það í raun og veru. Ekki er heldur hægt að treysta á, þó viðkomandi hafi verið á staðnum, að hann hafi skilið hvað gerðist. Því þarf strax í upphafi að velta fyrir sér áreiðanleika viðmælandans og sannleiksgildi frásagnarinnar. Skoða þarf tengsl viðmælandans við atburðinn, líkamlegt og andlegt ástand hans og innra samræmi frásagnarinnar. Allir þessir þættir hafa áhrif á hversu áreiðanleg frásögnin er sem heimild. Hægt er að meta sannleiksgildi frásagnarinnar með því að bera hana saman við önnur viðtöl um sama efni og við skriflegar heimildir um sama atburð. Ef frásögnin styður það sem kemur fram annars staðar er hægt að gera ráð fyrir því að frásögnin sé áreiðanleg. En ef frásögnin er í mikilli mótsögn við aðrar heimildir verður rannsakandinn að gera ráð fyrir ósamræminu og skoða betur hvað gæti legið þar að baki. Í raun er ósamræmi milli viðtala og annars vitnisburðar hluti af eðli munnlegrar sögu. Viðtalið kallar fram ákveðnar minningar og ber að líta á það sem slíkt. Rannsakendur sem nota viðtöl sem heimild vilja þó oft festast í því að reyna að gera söguna „rétta“ með miklum rannsóknum og upplýsingaleit til að styðja frásögnina en gleyma oft hversu duttlungafullt minni einstaklingsins er. Nauðsynlegt er að skilja að munnleg saga er ekki æfing í að finna staðreyndir sem passa við fyrirfram gefnar upplýsingar heldur er hún túlkun einstaklingsins á atburði. Sérhvert viðtal er svar einstaklings við hans innri þörf til að skilja reynslu sína á atburðum í fortíðinni. Því þarf að hafa í huga; hver segir hvað, við hvern, í hvaða tilgangi og við hvaða aðstæður (Shopes, 2002, bls. 5–11).

Sagnfræðingar fyrri alda gátu treyst á bréfaskriftir og dagbækur fólks til að nálgast upplýsingar um daglegt líf. Nú á tímum er sími, tölvupóstur og Netið þeir miðlar sem fólk hefur til samskipta og gæti því lítið orðið úr að moða fyrir sagnfræðinga framtíðarinnar þegar kemur að því að rannsaka persónulegar heimildir fólks. Gæti farið svo að mest af persónulegri sögu seinni hluta tuttugustu aldar og tuttugustu og fyrstu aldar hyrfu fyrir sagnfræðinga í framtíðinni ef ekki kæmu til munnlegar heimildir. Munnleg saga gefur okkur tækifæri til að varðveita heimildir á hinni stafrænu öld (Walbert og Sweeney, 2002, bls. 1–2).

Sögukennsla og munnleg saga

Áherslan í sögukennslu í gegnum tíðina hefur verið á efni námsbókanna og kennslan miðast við að ná yfir ákveðið magn námsefnis eftir námskrá hvers aldursstigs. Upplifun nemanda á sagnfræði einkennist því oft af að tengja hana við ártöl, styrjaldir og „merka“ einstaklinga. Fortíðin er langt í burtu og tengist ekki reynsluheimi nemandans í nútíðinni. Því getur verið erfitt að kveikja áhuga nemenda sem sjá litla tengingu sögunnar við þá sjálfa og þeirra eigið líf. Algengt er að nemendur stynji og sendi frá sér athugasemdir á borð við „ég þoli ekki sögu, ég get ekki lært öll þessi ártöl“. Nemendur fá ekki tækifæri til að tengjast fortíðinni á persónulegan hátt (Shopes, 2002, bls. 5).

Verkefni í munnlegri sögu gefur nemendum tækifæri á að læra um fortíðina með því að taka viðtöl við fólk sem var þátttakendur eða vitni að sögulegum atburði eða tímabili. Slík verkefni bjóða því upp á mikinn sveigjanleika fyrir kennarann og geta verið kærkomin vítamínsprauta fyrir kennara sem er orðinn þreyttur á fyrirlestrarforminu og kennslubókalestrinum og vill láta nemendur taka virkari þátt í því sem fram fer í skólastofunni. Nemendur bera ábyrgð á að undirbúa og taka viðtöl við fólk og vinna síðan úr þeim heimildum sem þeir hafa safnað. Með þátttöku í þess háttar verkefni getur nemandinn öðlast meiri þekkingu og skilning á samhengi sögunnar. Tækifæri skapast til að mynda tengsl milli nútíðar og fortíðar á mjög skiljanlegan hátt fyrir nemandann (Ritchie, 2003, bls. 188).

Munnleg saga hefur samfélagslegt gildi fyrir nemandann og getur hjálpað honum að ná persónulegum tengslum við fortíðina og líf sitt í samfélaginu. Þegar nemandi sest niður til að tala við sér eldra fólk um fortíðina hverfur það viðhorf að saga sé tilgangslaus upptalning á nöfnum og ártölum. Sagan verður eitthvað sem gerðist hjá raunverulegu fólki eins og honum sjálfum. Sagan er um fólk með tilfinningar, vonir og viðhorf sem nemandinn getur tengt við sitt eigið líf. Hann upplifir eldra fólkið sem situr fyrir framan hann í viðtalinu og sér í leiðinni unga fólkið sem birtist í frásögninni. Munnleg saga gefur nemendum tækifæri á að skilja fortíðina frá fyrstu hendi og upplifa hvernig sagan hefur áhrif á tilfinningar og lífshlaup einstaklingsins. Viðtölin veita nemendum upplýsingar um hvernig fólk lifði hér áður fyrr, hvernig það klæddist, um leiki barna og margt fleira. Sama hve frumstæð viðtölin eru eða tæknin sem notuð er, þá eru nemendurnir að safna vitnisburði. Þeir standa frammi fyrir grundvallaratriðum eins og hvenær hægt er að trúa eða efast um upplýsingarnar og hvernig á að raða saman þeim upplýsingum sem þeir hafa safnað. Nemendurnir hafa marga möguleika að setja þessar upplýsingar saman í sína eigin sögu og skapa þannig mikilvægar heimildir (Walbert og Sweeney, 2002, bls. 3–5).

En verkefni í munnlegri sögu er ekki nein auðveld töfralausn kennarans til að gera sögunámið áhugaverðara. Hann verður að vera tilbúinn að hliðra til í kennslu sinni. Verkefni í munnlegri sögu getur verið tímafrekt og krefst mikils undirbúnings og eftirfylgni ef vel á að vera. Kennarinn þarf að hagræða kennslunni og ekki er víst að hann komist yfir allar blaðsíður námsbókarinnar samhliða verkefninu. En á móti kemur ávinningur nemenda. Þeir fá tækifæri til að rannsaka hlutina sjálfir og útfæra sitt eigið efni. Þeir þurfa að hafa fyrir hlutunum, grafa upp efni og meta hvað er mikilvægt. Rannsaka þarf aðrar heimildir samhliða og ýtir þannig vinna undir að nemendur noti aðrar hefðbundnar skrifaðar heimildir og að þeir verði litlir „sérfræðingar“ í því sem þeir eru að rannsaka ( Whitman, 2004, bls. 15). Verkefni í munnlegri sögu koma þó aldrei í staðinn fyrir námsbókina eða aðrar eftirheimildir en geta oft á tíðum verið drjúgur þáttur í að uppfylla markmið námskrár. Fyrir sögukennarann hefur munnleg saga þann kost að opna fyrir rannsóknir á byggðarsögu og nærsögunni. En munnleg saga hentar ekki einungis við sögukennslu. Auðvelt er að tengja hana móðurmálskennslu, félagsfræði- og landafræði-kennslu, umhverfismennt, trúarbragðakennslu og nýbúakennslu.

Munnleg saga og kennslufræðin

Þegar nemandi gengur í gegnum það ferli sem felst í að fást við munnlega sögu þjálfar hann með sér fjölbreytta færni ef vel er staðið að verki. Hann þarf að velja sér viðfangsefni, finna viðmælanda, rannsaka heimildir, undirbúa spurningar, taka viðtal og vinna úr því efni sem hann hefur safnað. Þannig öðlast hann færni í að vinna sjálfstætt og bera ábyrgð á sínu námi. Sérhver einstaklingur hefur sína túlkun á einstökum sögulegum atburði. Saga viðmælandans getur því verið frábrugðin því sem stendur í námsbókinni eða öðrum heimildum. Þá þarf nemandinn að vega og meta hvaða frásögn gefur „rétta“ mynd af atburðinum eða hvort um er að ræða mismunandi sjónarhorn. Í stuttu máli byrjar nemandinn að skilja hvernig saga verður til og hann skilur betur hvað felst í túlkun heimilda, hann fær tilfinningu fyrir þeim aðferðum sem sagnfræðingar nota í sinni vinnu. Þannig gefst honum tækifæri að sjá hvernig sögulegir atburðir hafa mismunandi áhrif á sérhvern einstakling. Munnleg saga tengist mörgum þáttum.

Rannsóknarfærni: Ef vel er staðið að framkvæmdinni getur munnleg saga falið í sér mikla rannsóknarvinnu fyrir hvert og eitt viðtal. Þannig eykst þekking nemandans á hinum hefðbundnu skrifuðum heimildum og þeirri rannsóknarvinnu sem liggur að baki þeim heimildum. Þegar nemandinn fer að undirbúa viðtölin eykst löngun til að fá meiri upplýsingar, til dæmis með nánari leit á skólabókasafninu eða öðrum söfnum og í gagnagrunnum. Þannig öðlast hann þjálfun í að leita heimilda og kynnist því hvar hann getur nálgast þær upplýsingar sem hann þarfnast.

Málfærni: Munnleg saga felur í sér bæði hið talaða og ritaða mál. Þegar nemandinn skrifar upp verkefnið sitt, sama hvort það er í formi ritgerðar, vefsíðu, óformlegra skrifa um verkið eða dagbókarfærslu, þjálfast hann í að nota ritmálið sem mun koma honum vel í framtíðinni. Áður en nemandinn fer af stað að taka viðtal þarf hann að ræða um og velta fyrir sér hvernig best er að orða þær spurningar sem hann kemur til með að nota. Þegar kemur að viðtalinu sjálfu þarf hann að búa yfir þeirri hæfni að hlusta á viðmælandann og ná fram þeirri vitneskju sem hann óskar eftir. Þetta krefst mikillar einbeitingar og virkrar hlustunar. Með viðtölunum sjálfum öðlast hann sjálfstraust í að tjá sig með orðum og nota talmálið á virkan hátt. Í lokin er hægt að þjálfa ritað mál með því að láta nemandann skrifa upp það sem hann heyrir á bandinu, skrifa greinargerð eða ítarlega sögugreiningu.

Tæknifærni: Nemandinn notar mismunandi tæki til að taka upp og vinna úr viðtölunum. Hann lærir að nota upptökutæki og tölvur til úrvinnslu. Tækin eru ekki bráðnauðsynleg í skólaverkefnum en þau eru æskileg. Hægt er að þjálfa nemendur enn frekar með því að láta þá skila verkefnum í því formi sem krefst ákveðinnar tæknikunnáttu, t.d. vefsíðugerð, ritvinnslu, skjásýningu eða að búa til bækling.

Félagsfærni: Munnleg saga er mikilvæg til að efla félagsþroska nemenda. Með því að taka viðtöl þroskar nemandinn með sér þolinmæði, hæfni til samskipta, virka hlustun og þá færni að hugsa um að láta öðrum líða vel í návist sinni. Nemandinn fær innsýn í reynsluheim annarra í fortíðinni. Hann öðlast skilning á hvernig sá reynsluheimur er ólíkur hans heimi í dag og hvers vegna hann er það. Nemandinn fær því tækifæri til að setja sig í spor annarra. Hann getur fundið til samkenndar með öðrum og staðið frammi fyrir flóknum gildum og viðhorfum til lífsins. Nemendur velja oft viðmælendur innan fjölskyldunnar, ömmu eða afa, og fá því tækifæri á að brúa bilið milli kynslóða. Fjölskyldan verður þátttakandi í verkefninu og eflir það samstarfið milli heimilis og skóla (Thompson, 2000, bls. 191–193).

Gagnrýnin hugsun: Eðli munnlegrar sögu er að spyrja spurninga um það sem viðkomandi finnst skipta máli til að fá vitneskju um fortíðina. Nemandinn stendur frammi fyrir þeirri áskorun að læra um sögu venjulegs fólks sem oft er í andstöðu við þá sögu sem fjallað er um í stórsögunni. Stórsagan gengur meðal annars út á að tengja fortíðina við „mikilvægt“ fólk; forseta, herforingja og aðra leiðtoga. Munnleg saga kynnir nemendum þversögnina í sagnfræðilegum heimildum. Ef þú spyrð tuttugu einstaklinga af mismunandi þjóðerni og stétt hvernig var að alast upp á ákveðnum stað, þá er mjög líklegt að þú fáir tuttugu ólíkar frásagnir sem oft eru jafnvel í andstöðu hver við aðra. Þrátt fyrir þennan fjölbreytileika eru þær allar sannar út frá sjónarhorni viðmælandans. Þannig dregur munnleg saga fram þann efa að það sé til einn sannleikur um fortíðina og nemendur fá tækifæri til að skoða margbreytileika heimildanna sem hver um sig getur gefið okkur upplýsingar um eitt brot af allri sögunni. Nemendur þurfa að fást við andstæðurnar milli þess sem viðmælandinn segir og þess sem stendur í bókunum og finna leiðir til að útskýra þann mun og ákveða sannleiksgildi heimildanna. Það ferli þjálfar gagnrýna hugsun (Walbert og Sweeney, 2002, bls. 3–5).

Undirbúningur undir verkefni í munnlegri sögu

Munnleg saga felst ekki eingöngu í því að senda nemendur af stað með upptökutæki og taka viðtöl við fólk. Munnleg saga fylgir ákveðnu ferli. Kennarinn þarf að leiða nemandann í gegnum ferlið og gera hann ábyrgan fyrir sínum hluta í verkefninu. Nemendur eru misjafnlega settir hvað varðar undirbúning í sögunámi. Sumir eru mjög vel að sér í sögulegum viðfangsefnum og tímabilum en aðrir ekki. Góð undirstöðuþekking er nauðsynleg til að auka skilning nemenda á þeim sögulegu viðfangsefnum sem þeir eru að fást við. Því er mikilvægt að nemendur fái tækifæri til að skoða sem mest af heimildum til að kynnast viðfangsefninu vel. Það hjálpar þeim, þegar þeir fara af stað með viðtölin, að geta nýtt sér þekkinguna til að spyrja spurninga sem koma þeim að gagni og geta fylgt þeim spurningum eftir. Þannig geta þeir fyllt upp í göt í frásögninni og kunna betur að meta sjónarmið viðmælandans á viðfangsefninu.

Kennarinn getur ákveðið hversu djúpt hann vill fara í hvern þátt. Aldur nemenda skiptir máli og einnig hversu umfangsmikið verkefnið á að vera. Í meginatriðum getur ferlið litið svona út:

 1. Hvað er saga? Umræður og skilgreiningar.

 2. Munnleg saga. Skoða og hlusta á viðtöl og ræða um möguleika munnlegrar sögu og kosti og takmarkanir þessarar aðferðar í sagnfræðirannsóknum.

 3. Undirbúningur og val á viðfangsefni. Ákveða þarf hvernig vinna á verkefnið, hverjir eru mögulegir viðmælendur, hver lokaafurðin á að vera, hvernig verkefnið verður metið, hvaða tæki á að nota og þann tíma sem verkefnið á að taka.

 4. Undirbúningsrannsókn á viðfangsefninu. Heimildarvinna með nemendum.

 5. Viðtalstækni. Markvissar æfingar í að taka viðtöl.

 6. Nemendur taka viðtöl.

 7. Úrvinnsla viðtala.

 8. Kynning á verkefninu.

 9. Varðveisla heimilda (Moyer, 1993/1999).

Þegar kennari ákveður að vinna verkefni í munnlegri sögu með nemendum þarf hann að gera upp við sig hver markmiðin eru með slíku verkefni. Þá fyrst er hægt að byrja að skipuleggja og undirbúa verkefnið. Hægt er að tala um tvenns konar markmið. Annars vegar eru markmið sem felast í aðferðafræði munnlegrar sögu og hins vegar námsmarkmið sem fylgja námskrá þess árgangs sem unnið er með. Ekki er hægt að aðgreina þessi markmið heldur verður kennarinn að ákveða hversu djúpt hann vill fara í hvorn hlutann fyrir sig. Með því að hugsa um markmiðin með verkefninu í upphafi undirbúningsferlisins er auðveldara að velja viðeigandi nálgun, gera tímaáætlun og safna lesefni. Með því að vera meðvitaður um þau markmið sem nemendur eiga að nálgast strax á undirbúningstímanum sparast mikill tími og kennarinn getur einbeitt sér að því að eyða tíma sínum og kröftum í að nálgast þau markmið í stað þess „að gera allt“ (Walbert og Sweeney, 2002, bls. 13–16).

Verkefni í munnlegri sögu gefur nemendum tækifæri á að vinna eins og sagnfræðingar. Nemendur fá tækifæri til að kynnast aðferðafræðinni, sem liggur að baki munnlegri sögu, sem aðferð í sagnfræðirannsóknum. Þetta tengist umræðu um hlutleysi og hlutdrægni í sagnfræði, minnið og túlkun sögulegra upplýsinga. Það er mjög yfirgripsmikil umræða og þó svo að kennaranum gefist ekki tími til að fara ítarlega í alla þá þætti fá nemendur samt sem áður innsýn í heim sagnfræðinnar. Þeir læra að greina á milli frum- og eftirheimilda, öðlast færni í að vinna með margar ólíkar heimildir samhliða og meta gildi þeirra. Nemendur þjálfast í að nota gagnrýna hugsun við mat á heimildum og velta fyrir sér hlutum eins og: Hvað er saga? Hvernig tengjast afi eða amma sögunni? Og síðast en ekki síst: Hvert er hlutverk þeirra sjálfra í sögunni?

Stór hluti af munnlegri sögu er upptaka efnisins. Við undirbúning verkefnisins þarf kennarinn að ákveða hvort öll viðtölin krefjist upptökutækis eða hvort nemendur megi skrifa upp eða skrifa glósur úr viðtalinu. Hafa þarf í huga að ef nemandi skrifar upp viðtalið eingöngu er ekki hægt að birta hljóðupptökur og þar með varðveitist ekki hið talaða orð sem er mikilvægur hluti af munnlegri sögu. Ef nemendur eiga að taka viðtalið upp þarf að skoða vel hvort skólinn ætlar að leggja til tæki eða hvort nemendur geta notað sín eigin tæki eða heimilisins. Það ræðst af því hvað á að gera við upptökuna. Upptaka sem er hugsuð til opinberrar birtingar þarf að vera í háum gæðaflokki og geta tæki sem uppfylla þau skilyrði verið dýr. Fyrir góðar upptökur þarf tæki sem stenst kröfur fyrir útvarpssendingar. Stafræna tæknin gerir það að verkum að hægt er að taka upp viðtölin, bæði hljóð og mynd, beint inn á tölvur og auðveldar það alla vinnslu með viðtölin. Þar sem munnleg saga snýst um að safna röddum einstaklinga og varðveita til frekari notkunar í framtíðinni skipta gæði tækjanna máli. En það má samt ekki láta tækin stoppa verkefnið og þá reynslu sem nemendur fá með því að vinna með munnlega sögu, blað og blýantur duga vel ef annað stendur ekki til boða (Walbert og Sweeney, 2002, bls. 3–5).

Val á verkefni

Huga þarf að ýmsum þáttum þegar viðfangsefnið er valið. Í fyrsta lagi þarf kennarinn að velta fyrir sér hvers vegna hann velur að láta nemendur vinna verkefnið. Í öðru lagi þarf að kanna hvaða heimildir eru aðgengilegar og í þriðja lagi hver afrakstur verkefnisins á að vera. Þegar kennarinn er búinn að hugleiða þessi atriði er tímabært að skoða hvernig hann getur nálgast það sem hann sækist eftir. Hver getur gefið upplýsingar um viðfangsefnið, hverjir eru mögulegir viðmælendur, hvaða tæki á að nota, hve lengi á verkefnið að standa og hve mikla rannsóknarvinnu þarf (The Southern Oral History Program, 2005).

Þematengd viðfangsefni henta oft vel í vinnu með nemendum. Þau geta falist í því að beina athyglinni að ákveðnum atburði sem getur verið alþjóðlegur, innlendur eða jafnvel staðbundinn. Einnig geta þematengd söguleg verkefni falið í sér að skoða ákveðið tímabil í lífi viðmælandans sem tengist viðfangsefninu eða tímabilinu sem unnið er með. Við leit að viðeigandi verkefni fyrir bekkinn er oft gott að líta í kringum sig. Oft eru bestu verkefnin og viðtölin innan fjölskyldunnar, í skólanum eða í nánasta umhverfi nemendanna. Það geta verið verkefni sem tengjast fjölskyldusögu eða byggðarsögu (Whitman, 2004, bls. 29–31).

Val á viðfangsefnum er líka bundið aldri nemenda. Á yngri stigum grunnskólans eru nemendur oft mjög sjálfhverfir. Viðurkennt er að börnin hugsa um sjálf sig áður en þau læra að meta aðra. Því henta vel verkefni sem snúa að þeim sjálfum á einhvern hátt. Þau gætu til dæmis tekið viðtöl við foreldra sína eða ömmur og afa og hægt væri að vinna út frá þemanu „Þegar ég var ung/ungur“. Með slíku verkefni gefst tækifæri á að skoða hvaða leikir voru vinsælir og hvað börn gerðu fyrir tíma sjónvarpsins/tölvunnar. Einnig er hægt að skoða daglegt líf þess tíma með áherslu á að bera saman tækin á heimilum og hvernig tæknin hefur breyst. Ef um unga nemendur er að ræða getur kennarinn sett upp sameiginlegt viðtal við einn eða fleiri viðmælendur fyrir framan allan bekkinn. Þá miðar undirbúningurinn að því að hver nemandi undirbúi sig sérstaklega eða allur bekkurinn sem heild. Þá getur bekkurinn í sameiningu fundið viðmælendur og undirbúið og framkvæmt verkefnið saman. Gott er að vinna með yngri nemendur í gegnum eldri fjölskyldumeðlimi eða einstaklinga kunnuga barninu. Eftir því sem nemendur eru eldri er hægt að hafa viðfangsefnin fræðilegri. Á unglingsárunum eru nemendur að takast á við fullorðinsárin og sjálfsmyndina og má hafa það til hliðsjónar við val á verkefnum (Ritchie, 2003, bls. 193–194).

Þegar viðfangsefnið er valið er æskilegt að leyfa nemendum að vera með í ráðum. Kennari og nemendur geta í sameiningu skrifað lista yfir möguleg viðfangsefni innan ákveðins þema og síðan fá nemendur tækifæri til að velja sér verkefni af listanum. Þannig geta nemendur valið viðfangsefni sem tengist betur áhugasviði þeirra. Kennarinn er samt bundinn því að verkefnið tengist námskrá viðkomandi aldursstigs ásamt því að heimildir séu aðgengilegar.

Fjölbreytileiki verkefna í munnlegri sögu er mikill. Verkefnin geta verið:

 1. Stutt verkefni: Nemendur taka nokkur einföld viðtöl sem byggjast á fáum völdum spurningum. Þetta gefur nemendum tækifæri á að bera saman upplýsingarnar sem þeir fá frá viðmælandanum við aðrar heimildir. Nemandinn þjálfast í meðferð frum- og eftirheimilda.

 2. Fjölskylduverkefni: Nemendur taka viðtal við tvo til þrjá fjölskyldumeðlimi af sitthvorri kynslóðinni. Þannig skapast mismunandi sjónarhorn sem nemandinn getur rannsakað frekar.

 3. Þemaverkefni: Nemendur geta tveir eða fleiri tekið viðtöl við ólíka einstaklinga um sama fyrirbærið og þannig fengið ólíkar upplýsingar um sama atburðinn.

 4. Ævisöguleg verkefni: Þau gefa nemandanum tækifæri á að auka færni sína í að taka viðtöl og gefa honum yfirlit yfir lífshlaup einstaklings.

Kennarinn þarf að ákveða hvers konar verkefni eru heppileg fyrir bekkinn og einnig þarf hann að áætla lengd verkefnisins. Verkefnið getur tekið einn dag, eina önn eða heilt skólaár. Stutt og einföld verkefni geta falist í að nemendur spyrja foreldra spurninga eins og t.d.: Hvar varst þú þegar Vestmannaeyjargosið byrjaði og hvað getur þú sagt mér um það? Síðan skila nemendur svörunum daginn eftir og bera saman niðurstöðurnar.

Hægt er að skipuleggja bekkjarverkefni í kringum ákveðið þema eða tímabil og nota þannig persónulegar frásagnir til að gera viðfangsefnið lifandi fyrir nemendur. Hægt er að skoða ýmis þemu, til dæmis innflytjendamál, unglinga, þegnskap eða stöðu minnihlutahópa í samfélaginu. Einnig er hægt að skoða ákveðin tímabil, t.d. hvernig lífið var á sjötta áratug síðustu aldar. Allt eru þetta möguleg viðfangsefni með viðtöl í huga. Með því að hafa ákveðið þema fyrir verkefnið getur kennarinn sett upp sameiginlega beinagrind að verkinu sem nemendur geta síðan stuðst við. Þar getur komið fram mögulegt lesefni, leiðbeiningar um uppbyggingu viðtalanna og ábendingar um aðrar frumheimildir. Þetta gerir nemendum kleift að vinna saman að undirbúningi og afmarka viðfangsefni með hliðsjón af þemanu áður en hafist er handa um forrannsókn. Nemendur geta æft sig saman í að taka viðtöl. Með því að setja upp sameiginlegt þema til að vinna eftir geta nemendur skipst á reynslusögum meðan á rannsóknarvinnu stendur (Huerta og Flemmer, 2000, bls. 107).

Þegar verkefni er valið verður að hafa í huga hvers konar verkefnavinnu nemendur eiga að framkvæma. Samsetning nemenda getur verið mismunandi.

 1. Einstaklingsverkefni: Tilvalið fyrir sjálfstæða og dugmikla nemendur. Það krefst þess að nemandinn sé fær um að framkvæma allt ferlið og hafi færni til þess. Nemandinn er síðan metinn út frá sinni eigin vinnu og þarf ekki að treysta á aðra einstaklinga.

 2. Litlir hópar: Henta oft vel getuminni og óöruggari nemendum. Hver nemandi tekur ábyrgð á ákveðnum hluta verkefnisins. Hentar mjög vel þar sem fjölbreytileiki nemendahópsins er mikill. Allir geta fengið að njóta sín þar sem þeir standa best að vígi. Hver meðlimur er þó háður því að fylgja hópnum. Nemendur eru síðan metnir með hliðsjón af framlagi hvers og eins til verkefnisins.

 3. Allur bekkurinn saman: Hentar mjög vel þegar rannsaka á yfirgripsmikið efni. Ef markmiðið er kynning eða einhvers konar útgáfa er þátttaka alls bekkjarins nauðsynleg. Hægt er að deila verkum á milli nemenda, t.d. undirbúningsvinnu, viðtali, tækniatriðum og úrvinnslu. Nemandinn fær tækifæri á að njóta sín þar sem hann stendur best að vígi. Á móti kemur að nemandinn fær ekki að reyna sig við allt ferlið. Hver nemandi þarf að fylgja öðrum í hópnum (Siler, 1996).

Ekki er nauðsynlegt að einblína einungis á eina aðferð við verkefnin. Auðvelt er að blanda aðferðum saman. Hægt er að hafa sameiginlegan undirbúning en síðan tekur hver einstaklingur viðtal. Þannig fær nemandinn að reyna sig við allt ferlið og einnig að njóta þeirra kosta sem hópvinna býður upp á.

Þó ekki gefist möguleiki á að láta nemendur taka viðtölin sjálfa geta tilbúin söfn nýst til verkefnavinnu með nemendum. Munnlegar heimildir gefa nemandanum tækifæri á að kynnast öðru sjónarhorni til að meta fortíðina heldur en námsbókin býður upp á og eru oft meira grípandi fyrir nemandann. Það er eitthvað náttúrulegt í mannshuganum sem gerir frásagnarformið að aðlaðandi miðli. Þegar við hlustum á upptöku af viðtali tengjumst við betur frásögninni heldur en þegar við lesum sömu frásögnina af blaði (Whitman, 2004, bls. 15–16). Erlendis er hægt að nálgast munnlegar heimildir í gegnum bókasöfn, sögufélög, byggðarsöfn og skóla. Hér á Íslandi er þetta til dæmis hægt í gegnum Miðstöð munnlegrar sögu. Þar er þegar komið nokkurt safn munnlegra heimilda. Safnið Borgarbörn er aðgengilegt á vefnum og henta viðtölin vel til margvíslegra verkefna sem tengjast námskrá níunda bekkjar þar sem viðfangsefnið er 20. öldin. Ef nemendur eru góðir í erlendum málum er hægt að nálgast fleiri erlend söfn og skólaverkefni, t.d. safnið Telling Their Stories sem inniheldur frásagnir úr seinni heimsstyrjöldinni, og safnið The Whole World was Watching sem eru minningar fólks frá árinu 1968. Bæði þessi söfn eru aðgengileg á Netinu með hljóði og sum hver einnig með mynd. Þá er mikið efni á YouTube – oral history.

Viðtalstækni

Munnleg saga byggist á viðtölum og því er viðtalið sjálft hápunkturinn hjá mörgum nemendum. Að baki góðu viðtali liggur ákveðin tækni. Því skiptir miklu máli að undirbúa nemendur vel fyrir viðtölin þannig að þeim líði vel og séu öruggir í viðtölunum. Þegar unnið er að gerð spurninga fyrir söguviðtal þarf að huga að nokkrum atriðum. Spurningarnar þurfa að vera eins einfaldar og skýrar og hægt er. Ef spurningin er flókin og í mörgum liðum getur verið erfitt fyrir nemandann að átta sig á hvaða hluta spurningarinnar viðmælandinn hefur svarað og hvaða atriði komu ekki fram. Spurningarnar þurfa að vera opnar þannig að þær gefi viðmælandanum tækifæri á að segja sögu. Það er þess virði að fara með nemendum í gegnum ákveðna frasa sem þeir geta síðan notað þegar þeir búa til sínar eigin spurningar. Hægt er að byrja spurningu með „Segðu mér...“, „Hvað fannst þér um ...?“, „Getur þú lýst fyrir mér ...?“. Slíkar spurningar krefjast svara sem gefa viðmælandanum tækifæri á að segja sögu. Lokuðum spurningum er hægt að svara með einu eða tveimur orðum. Þær má nota til að fylla upp í smáatriði í frásögninni en ekki er hægt að byggja upp viðtal á lokuðum spurningum. Einnig þarf að forðast leiðandi spurningar þar sem spyrillinn stjórnar svari viðmælandans (Thompson, 2000, bls. 228–229).

Kennarinn þarf að gefa nemendum nægan tíma til að undirbúa spurningarnar og æfa sig að nota þær. Ef bekkurinn er allur með sama viðfangsefni eða sameiginlegt þema geta kennari og nemendur undirbúið grunn að spurningum í sameiningu. Hægt er að nota hugarflugsaðferðina (e. brainstorming) með bekknum um hugsanlegt form og innihald spurninga. Kennarinn skrifar á töfluna hugmyndir nemendanna og síðan vinna þeir í litlum hópum og semja spurningar. Ákveðið er fyrirfram hvað margar spurningar nemandinn þarf að hafa sem grunn fyrir sitt viðtal. Einnig er hægt að útfæra með bekknum lista með þeim lykilhugmyndum sem tengjast viðfangsefninu og síðan vinna nemendur út frá listanum í viðtalinu án formlegra spurninga. Þetta gildir frekar um eldri og reyndari nemendur. Ungum nemendum hentar betur að vera með tilbúnar spurningar á blaði því það veitir þeim meira öryggi (Haggerty, 2000, bls. 16–17).

Hægt er að fara í gegnum markvissar æfingar í viðtalstækni. Gott er að setja upp ákveðið ferli þar sem nemendur æfa sig í að undirbúa og taka viðtöl hver við annan. Nota má efni eins og Skólinn á 21. öldinni eða Líf mitt í dag. Nemendur semja spurningar úr efninu og æfa sig að leggja þær fyrir. Ef nota á upptökutæki í viðtalinu sjálfu er gott að æfa sig á þau um leið og viðtölin eru æfð. Eftir að nemendur hafa æft sig í að taka viðtölin eru þeir látnir gagnrýna hver annan. Þeir meta hvað sé góð spurning, hvaða spurningar virka ekki og hvaða spurningar vantar. Þannig geta þeir metið sem hópur hvernig spurningar gefa þau svör sem leitað er eftir og hvaða spurningar koma ekki að gagni.

Hlutverk viðmælenda er stórt og þarf að undirbúa val þeirra vel. Viðmælandinn hverju sinni verður að vera fús til að veita viðtal og geta gefið þær upplýsingar sem vantar. Hann verður að búa yfir vitneskju um ákveðið sögulegt þema, atburð eða tímabil sem verið er að rannsaka. Því þarf kennarinn að ræða við nemendur um hver úrtakshópurinn sé áður en viðmælendur eru valdir. Lífsreynsla viðmælandans þarf að passa við viðfangsefnið, t.d. ef það er einhver sögulegur atburður á sjöunda áratugnum þarf viðmælandinn að vera fæddur vel fyrir þann tíma. Kennarinn þarf að ákveða hvort hann ætlar sjálfur að velja viðmælendur fyrir nemendur eða hvort þeir eigi að velja þá sjálfir. Það eru kostir og gallar við báðar aðferðirnar. Nemendur eru oft spenntari að vinna með þeim viðmælendum sem þeir velja sjálfir en sumir nemendur geta lent í erfiðleikum að finna viðmælanda. Þegar nemendur velja viðmælendur sjálfir velja þeir einhvern sem þeir þekkja vel, oftast innan fjölskyldunnar. Það getur verið mjög gefandi og þroskandi fyrir nemandann. Ef markmiðið er að nemandinn taki viðtal við einstakling sem hann er ekki kunnugur getur það sparað tíma að vera búinn að finna og undirbúa viðmælendur. Nemendur velja sér þá viðmælanda af lista sem kennarinn er búinn að taka saman. Jafnvel er hægt að hafa það þannig að viðmælendurnir komi í skólann og nemendur taki viðtölin á skólatíma. En hvor aðferðin sem notuð er þá þarf valið á viðmælandanum að henta viðfangsefninu (Walbert og Sweeney, 2002, bls. 13–16).

Ef kennari fer af stað með munnlega sögu sem hópverkefni stendur valið á milli þess að láta hópinn sem heild taka eitt eða fleiri viðtöl eða láta hvern nemanda í hópnum taka viðtal. Kostur er að láta hvern nemanda taka viðtal því þá fær hver og einn reynslu af öllu ferlinu sem munnleg saga byggist á. En vegna umfangs slíks verkefnis getur líka gefist vel að láta nemendur taka viðtölin í hópum eða tveir og tveir saman. Þegar unnið er með munnlega sögu sem hópverkefni verður að skipta verkum milli nemenda áður en þeir fara af stað. Hægt er að haga því þannig, ef tveir og tveir vinna saman, að annar hefur það hlutverk að taka viðtalið, hinn sér um upptökuna og tæknihliðina. Stundum geta viðtöl sem tekin eru af hóp virkað vel ef hver nemandi er með hlutverk sitt á hreinu og treystir hinum í hópnum fyrir því hlutverki sem hann hefur. Það getur líka verið kostur fyrir nemendur sem eru óöruggir að hafa stuðning frá öðrum (Whitman, 2004, bls. 30).

Þegar búið er að undirbúa spurningarnar og æfa viðtalstæknina þarf að undirbúa viðtalið sjálft. Nemandinn þarf að ákveða hvort og þá hvaða tæki hann ætlar að nota. Mikilvægt er að hvetja nemendur til að nota upptökutæki því þeir eru að safna munnlegri sögu. Gera má ráð fyrir því að upptökutækið sem valið er hafi áhrif á viðmælandann. Flestir viðmælendur samþykkja að notað sé upptökutæki og losna fljótt við þau óþægindi að vita að upptaka sé í gangi. Upptökutæki getur líka reynst gagnlegt að því leyti að líklegt er að viðmælandi haldi sig markvissar við efnið en ella og að framvindan í frásögninni verði skýrari. Eftir að slökkt hefur verið á tækinu koma oft fram mikilvægar upplýsingar til viðbótar við þær sem viðmælandinn lét í ljós meðan kveikt var á tækinu og ekki hefðu komið fram ef ekkert tæki hefði verið notað. Það er því þess virði að láta nemendur velta fyrir sér hvaða tæki eigi að nota vegna þess að gæði viðtalsins geta oltið á þeim og einnig hvar viðtalið eigi að fara fram. Það verður að fara fram á þeim stað sem viðmælandanum líður vel. Heppilegasti staðurinn er oftast heimili viðmælandans. Best gefst að leyfa nemandanum að vera einn með viðmælandanum. Við það skapast ákveðið traust milli spyrils og viðmælanda (Thompson, 2000, bls. 232–234).

Ákveðnar reglur gilda um höfundarétt á viðtölum. Viðmælandinn á höfundarétt á því sem hann segir en réttur spyrilsins snýr að upptökunni sjálfri. Því er nauðsynlegt að nemandinn fái upplýst samþykki viðmælandans til að geta unnið úr og birt viðtalið. Kennarinn þarf því að útbúa leyfi sem nemandinn tekur með sér í viðtalið og lætur viðmælandann skrifa undir. Viðmælandinn verður að fá að vita hvað á að gera við viðtalið og einnig að hann komi til með að skrifa undir leyfi. Þetta er nauðsynlegt til að viðtalið geti verið aðgengilegt fyrir frekari rannsóknir í framtíðinni. Leyfisformið getur verið mismunandi en mikilvægt að það sé þannig orðað að það þjóni fyrirhuguðum tilgangi.

Úrvinnsla viðtala og varðveisla

Þegar nemendur eru búnir að taka viðtal er mikilvægt að gefa þeim góðan tíma til umræðna, leyfa þeim að tjá sig um reynsluna og deila með öðrum frásögn viðmælandans. Það er sérstök reynsla fyrir nemandann að fara í gegnum viðtalsferlið og hann þarf svigrúm til að skiptast á skoðunum við bekkjarfélagana. Hluti af ferlinu er að bera saman upplýsingarnar og skoða hvernig ólíkir einstaklingar líta á sama atburðinn á mismunandi hátt. Þarna gefst tækifæri á að ræða enn frekar við nemendur um hvernig saga verður til og hvað hefur áhrif á hvaða frásögn lendir í námsbókunum þeirra.

Hægt er að fara margar leiðir við úrvinnslu viðtalanna. Þar skiptir aldur nemenda máli, tíminn sem til ráðstöfunar er og aðgengileg tæki. Fyrir yngri nemendur getur úrvinnslan falið í sér hóp- eða bekkjarumræðu, hlutverkaleik, sýningu eða teikningar. Með eldri nemendum er hægt að fara út í meiri vinnu með viðtalið. Freistandi er að biðja nemendur að skrifa viðtölin upp til að skapa sem besta sögulega heimild. Slík skrif eru list út af fyrir sig og mjög tímafrek. Þegar haft er í huga hversu takmarkaðan tíma nemendur hafa er ekki hægt að ætlast til að öll viðtölin séu færð í fullkomin handrit. Reyndir skrifarar geta þurft fimm til sex klukkustundir til að skrifa upp klukkustundarlangt viðtal. Annar kostur gæti verið að nemendur skrifuðu upp eina góða frásögn úr hverju viðtali eða efnisþætti viðtalsins og tímaskeið fyrir upptökuna. Óþarft er að láta nemendur skrifa upp viðtalið ef það er tekið upp í stafrænu formi og geymt á vísum stað (Whitman, 2004, bls. 34).

Hægt er að haga útfærslunni þannig að nemendur skrifi rannsóknarritgerð byggða á viðtalinu. Þá skoðar nemandinn frum- og eftirheimildir og metur þær í samhengi við niðurstöður sínar úr viðtalinu. Hann fær tækifæri til að setja frásögnina í sögulegt samhengi við aðrar heimildir. Nemandinn metur síðan hvort niðurstöður hans varpa nýju ljósi á viðfangsefnið eða hvort þær staðfesti þær hugmyndir sem hann hafði gefið sér fyrirfram. Slík vinnubrögð kenna nemendum að greina styrk og veikleika munnlegrar sögu sem sagnfræðilegrar aðferðar.

Úrvinnsla viðtalanna getur líka verið í formi sýningar sem bekkurinn heldur. Þar er hægt að setja myndir af viðmælendum og brot úr viðtölum nemenda. Einnig er hægt að finna til sögulegar myndir sem tengjast viðfangsefninu og útbúa veggspjöld með myndum og texta. Nemendur geta skrifað og flutt leikþætti sem byggjast á sögu viðmælanda. Þá er líka hægt að útbúa skjásýningu (power point) þar sem blandað er saman myndum og hluta úr viðtölunum með hljóði og/eða mynd. Nemendur geta búið til heimildarmynd eða vefsíðu þar sem þeir nota viðtölin og annað efni sem tengist viðfangsefninu. Ef nemendur eiga að skrifa upp viðtölin er hægt að safna efni bekkjarins saman ásamt öðru efni og gefa út bók eða bækling. Möguleikarnir á úrvinnslu viðtalanna eru margir og getur kennarinn útbúið lista yfir þær útfærslur sem eru í boði og leyft nemandanum að velja hvernig hann vinnur úr viðtalinu.

Munnlegu söguverkefni er ekki lokið fyrr en það hefur verið gert opinbert og efnið gert aðgengilegt öðrum. Mikilvægt er að vanda vel hvernig varðveislu viðtalanna er háttað. Hætta er á að nemendur taki upp frábær viðtöl og síðan er upptökunum hent ofan í skúffuna eða óvart tekið yfir þær. Því er áríðandi að skoða vel hvernig varðveita á vinnu nemanda. Til greina kemur að útbúa svæði innan skólabókasafnsins fyrir slíkar heimildir. Varðveislan verður líka einfaldari ef efnið er í stafrænu formi en þá er hægt að útbúa svæði á skólavefnum þar sem efninu er safnað saman (Walbert og Sweeney, 2002, bls. 13–16).

Mat á verkefninu

Hafa þarf í huga við undirbúning verkefnisins hvernig kennarinn ætlar að meta vinnu nemenda. Engin tvö viðtöl koma til með að verða eins. Viðtölin byggjast á hæfni spyrilsins, sem hægt er að meta, og hvernig nemandinn vinnur úr efninu. Skoða þarf hve mikla alúð nemandinn leggur í viðtalið, hvort hann fylgir spurningum eftir eða les spurningarnar upp án þess að hlusta eftir tækifærum til að nýta þær upplýsingar sem koma fram. Einnig er hægt að skoða hvernig hann undirbjó sig fyrir viðtalið, hvort hann nýtti sér þær heimildir sem hann hafði safnað fyrir viðtalið og hvert er sögulegt gildi þess. Þegar verkefnið er kynnt í upphafi fyrir nemendum er mikilvægt að kennarinn útskýri hvernig verkefnið verði metið í lokin. Einnig er nauðsynlegt að kennarinn meti eigin frammistöðu og verkefnið í heild. Það getur komið sér vel fyrir kennarann að halda dagbók meðan á vinnuferlinu stendur. Þar getur hann sett inn athugasemdir í sambandi við skipulag vinnunnar, þjálfun nemenda og hvar þurft hefði meiri aðstoð við framkvæmd verkefnisins. Einnig verður kennarinn að skoða hvernig tókst að ná þeim markmiðum sem sett voru í upphafi. Nemendur þurfa líka að meta vinnu sína. Mat nemenda getur verið skriflegt eða í formi umræðna, einstaklings- eða hópmats (Ritchie, 2003, bls. 204).

Lokaorð

Munnleg saga er heill heimur út af fyrir sig. Aðferðin býður upp á mikinn sveigjanleika bæði í sambandi við val á viðfangsefni og útfærslu. Hægt er að rannsaka marga þætti eins og til dæmis þátt minnisins í upprifjun einstaklingsins á sögulegum atburðum. Einnig er hægt að skoða hvernig einstaklingurinn man sögulega atburði og hvernig þeir hafa haft áhrif á líf hans; hvernig fólk gerir fortíðina skiljanlega og notar söguna til að skilja líf sitt og umhverfi. Möguleikarnir eru óteljandi og með því að nota munnlega sögu í sagnfræðirannsóknum erum við að safna dýrmætum og persónulegum heimildum sem koma til með að nýtast í framtíðinni. Aðferðin er það sveigjanleg að það ætti að vera auðvelt að finna viðfangsefni við hæfi ólíkra nemenda. Umfang og skipulagning verkefnisins er alfarið í höndum kennarans og ætti hann að geta aðlagað það kennslu sinni. Munnleg saga er ekki einungis hentug sem aðferð í sögukennslu heldur getur hún nýst í mörgum öðrum námsgreinum og á öllum aldursstigum. Einnig hentar hún vel til samvinnu kennara í mismunandi greinum.

Kennarar eru oft hræddir við að kasta sér út í ný verkefni vegna þess hversu takmarkaðan tíma þeir hafa til að undirbúa og framkvæma verkefni. Ekki er hægt að líta framhjá því að verkefni í munnlegri sögu krefst mikils undirbúnings og getur verið tímafrekt. Hægt er að taka einfalt verkefni með litlum hópi til að byrja með. Þá er einnig hægt að velja einfalda úrvinnslu á verkefninu. Ekki er nauðsynlegt að láta allan árganginn gera verkefni í einu ef um stóran árgang er að ræða. Kennarinn getur byrjað að vinna með einn lítinn bekk og tekið síðan verkefnið með fleiri nemendum þegar hann hefur fengið reynslu af aðferðinni. Ef kennarinn fær aðra kennara til samstarfs við sig, eins og íslenskukennara eða tölvukennara, verður undirbúningurinn minni og þunginn dreifist á fleiri hendur. Það gefur líka verkefninu meira gildi og sparar tíma þar sem vinna nemendanna dreifist á fleiri námsgreinar og opnar fleiri möguleika með úrvinnslu efnisins.

Vefefni

Á vef Lindaskóla í Kópavogi er að finna verkefni 8. bekkjar sem unnið var haustið 2007 um þemað Unglingar fyrr á tímum: http://lindaskoli.net/8bekkur/8b/index.html.

Á vef Miðstöðvar munnlegrar sögu er að finna gagnlegt efni um munnlega sögu: http://www.munnlegsaga.is

Glenn Whitman, bandarískur sögukennari og höfundur bókarinnar Dialogue with the Past, Engaging Students & Meeting Standards through Oral History (2004), heldur úti vefsíðu með gagnlegum upplýsingum fyrir kennara, ásamt verkefnum sem hann hefur unnið með nemendum: http://www.doingoralhistory.org/.

Step-by-Step Guide to Oral History er vefur sem sagnfræðingurinn og sögukennarinn Judith Moyer hefur gert með aðgengilegum upplýsingum um hvernig á að framkvæma verkefni í munnlegri sögu: http://dohistory.org/on_your_own/toolkit/oralHistory.html.

East Midlands Oral History Archive. Vefur um helstu atriði í sambandi við munnlega sögu: http://www.le.ac.uk/emoha/training/session.html.

Á vefsíðunni The Youth Source er að finna mjög góðar upplýsingar fyrir kennara um framkvæmd verkefna í munnlegri sögu með nemendum: http://www.youthsource.ab.ca/teacher_resources/oral_fish.html.

Countdown to Millenium Study Guide er vefur frá Ohio University School of Telecommunications með mjög góðar upplýsingar fyrir kennara um hvernig á að vinna munnleg söguverkefni fyrir vef: http://www.tcomschool.ohiou.edu/cdtm/.

Á slóðinni http://www.tellingstories.org/ er vel gerður vefur hjá The Urban School of San Francisco þar sem samhliða er notað hljóð, myndir og lesmál.

D.C. Everest Area Schools Oral History Program er verkefni sem byggist á samstarfi skóla í vinnu með munnleg söguverkefni og hafa aðstandendur þess gefið út bækur með verkefnum nemenda: http://www.dce.k12.wi.us/srhigh/socialstudies/histday/.

Linda P. Wood hefur skipulagt verkefni í munnlegri sögu. Hún stjórnaði meðal annars verkefninu The Whole World Was Watching: an Oral History of 1968 sem er frá South Kingstown High School og er aðgengilegt á vef: http://www.stg.brown.edu/projects/1968/. Linda stjórnaði einnig verkefninu What Did You Do in the War, Grandma? Það er aðgengilegt á vefnum: http://www.stg.brown.edu/projects/WWII_Women/tocCS.html.

Heimildir

Haggerty, P. M. (2000). Oral history: Let their voices be heard. Linking learning with life. Clemson: National Dropout Prevention Center. College of Health, Education, and Human Development. Clemson University. Sjá einnig á slóðinni: http://www.eric.ed.gov/ERICDocs/data/ericdocs2sql/
content_storage_01/0000019b/80/16/1c/fc.pdf.

Huerta, C. C. og Flemmer, L. A. (2000). Using student-generated oral histoy research in the secondary classroom. The Clearing House 74(2): 105–110.

Moyer, J. (1993, endurskoðað 1999). Step-by-step guide to oral history. Sótt 14. júlí 2008 á slóðina: http://dohistory.org/on_your_own/toolkit/oralHistory.html.

Ritchie, D. A. (2003). Doing oral history: a practical guide. New York: Oxford University Press.

Samstarfsnefnd um undirbúning að stofnun Miðstöðvar munnlegrar sögu (2007). Skýrsla um undirbúning að stofnun Miðstöðvar munnlegrar sögu. [Reykjavík: Útgefanda ekki getið.]

Shopes, L. (2002). Making sense of oral history. History Matters: The U.S. Survey Course on the Web. Sótt 26. júlí 2008 á slóðina: http://historymatters.gmu.edu/mse/oral/

Siler, C. R. (1996). Oral history in teaching of U.S. history. ERIC Clearinghouse for Social Studies/Social Science Education Bloomington. Sótt 26. júlí 2008 á slóðina: http://www.eric.ed.gov/ERICDocs/data/ericdocs2sql/content_storage_01/0000019b/80/14/74/c1.pdf.

The Southern Oral History Program (2005). Oral history: A practical guide (4. útgáfa). Sótt 25. júlí 2008: á slóðina: http://www.sohp.org/howto/guide/index.html

Thompson, P. (2000). The Voice of the Past. (3. útgáfa). New York: Oxford University Press.

Walbert, K. og Sweeney, J. S. (2002). Oral history in the classroom. Sótt 26. júlí 2008 á slóðina: http://www.learnnc.org/lp/editions/oralhistory2002.

Whitman, G. (2004). Dialogue with the past: Engaging students and meeting standards through oral history. Walnut Creek, CA: AltaMira Press.

Prentútgáfa     Viðbrögð