Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun

Menntavísindasvið Háskóla Íslands

Grein birt 20. september 2008

Greinar 2008

Ingvar Sigurgeirsson, Arnór Benónýsson, Hallur Birkir Reynisson,
Jóhanna Eydís Þórarinsdóttir og Valgerður Gunnarsdóttir

Það kemur ekki til greina
að fara til baka

Sveigjanlegt námsumhverfi
í Framhaldsskólanum á Laugum

Í þessari grein er fjallað um þróunarverkefni í Framhaldsskólanum á Laugum sem fengið hefur heitið Sveigjanlegt námsumhverfi persónubundin námsáætlun. Markmið verkefnisins er m.a. að gera nemendur ábyrgari fyrir námi sínu. Hefðbundnum kennslustundum hefur verið fækkað en þess í stað vinna nemendur samkvæmt einstaklingsbundinni áætlun í opnum vinnurýmum (vinnustofum) undir leiðsögn kennara. Áhersla er lögð á samfelldan skóladag og að nemendur geti lokið námi sínu að mestu á venjulegum vinnutíma. Þá hefur persónuleg leiðsögn við nemendur verið sett á oddinn, sem og fjölbreyttar kennsluaðferðir, leiðsagnarmat og að nýta upplýsingatækni með markvissum hætti í náminu. Ingvar Sigurgeirsson, prófessor við Kennaraháskólann, er ráðgjafi við verkefnið. Arnór Benónýsson, Hallur Birkir Reynisson og Jóhanna Eydís Þórarinsdóttir eru kennarar við Framhaldsskólann á Laugum og mynda verkefnisstjórn þróunarstarfsins. Valgerður Gunnarsdóttir er skólameistari Framhaldsskólans á Laugum. 

Inngangur

Á vordögum 2006 samþykktu starfsmenn Framhaldsskólans á Laugum að ráðast í þróunarverkefni sem gefið var heitið Sveigjanlegt námsumhverfi – persónubundin námsáætlun. Stefnt var að markvissum breytingum á kennsluháttum, námsmati og námsumhverfi, sem og á daglegum samskiptum kennara og nemenda í átt til aukinnar einstaklingsmiðunar. Kjarninn í þeim breytingum, sem gerðar voru, fólst í að fækka venjulegum kennslustundum um helming en bjóða nemendum í stað þess að sækja svokallaðar vinnustofur þar sem kennarar væru í leiðsagnarhlutverki. Í vinnustofunum ráða nemendur á hverjum tíma hvaða viðfangsefni þeir kjósa að fást við en kennarar hafa jafnframt möguleika á að sinna einstökum nemendum eða hópum eftir því sem á þarf að halda. Markmiðið var ekki síst að auka ábyrgð nemenda á eigin námi og gera þeim kleift að fara hægar eða hraðar yfir námsefnið eftir námsgetu og þroska hvers og eins, en um leið að halda betur utan um nemendur félagslega og námslega, m.a. með því að efla leiðsagnarhlutverk kennara.

Sérstakt keppikefli var að bæta líðan nemenda og að skólinn yrði sem líkastur góðum vinnustað, m.a. með samfelldum skóladegi. Jafnframt skyldi gert átak til að nýta upplýsingatækni í náminu með markvissum og fjölbreyttum hætti. Markmiðið var að þróa námsumhverfi sem undirbyggi nemendur enn betur undir þátttöku í atvinnulífi og frekara nám en hefðbundið framhaldsskólanám.

Verkefninu voru í upphafi sett eftirfarandi markmið:

 • Allur skólinn fylgi fyrirkomulagi sveigjanlegs námsumhverfis

 • Nemendur stundi nám samkvæmt persónubundinni námsáætlun

 • Bæta námsárangur og ástundun

 • Minnka brottfall

 • Bæta líðan nemenda í skólanum

 • Breyta náms- og vinnuumhverfi þannig að upplýsingatækni verði lifandi þáttur í starfsemi skólans

 • Skapa skólanum sérstöðu

 • Auka aðsókn að skólanum og treysta rekstur hans

Þróunarverkefnið átti sér nokkurn aðdraganda. Um nokkurra ára skeið höfðu sveigjanlegir kennsluhættir verið hafðir að leiðarljósi á almennri námsbraut skólans. Nefna má að mikil áhersla var lögð á að nemendur ynnu eftir einstaklingsbundnum námsáætlunum. Var það mat kennara að þetta hefði gefið góða raun og að ástæða væri til að þróa þessa starfshætti þannig að þeir næðu til alls skólans. Þá skipti máli að flestir kennarar skólans höfðu reynslu af þessari tilhögun.

Á vormisseri 2006 vann undirbúningshópur að útfærslu á hugmyndinni og var hún kynnt kennurum og starfsfólki skólans á vordögum. Skapaðist strax samhugur um hana meðal starfsmanna, bæði kennara og annars starfsfólks. Hugmyndin var send til umsagnar í menntamálaráðuneytinu og hvöttu starfsmenn ráðuneytisins eindregið til þess að farið væri af stað með verkefnið. Þann 7. júní 2006 samþykkti skólanefnd Framhaldsskólans á Laugum að ráðast í verkefnið með fyrirvara um að fjármagn fengist til framkvæmda. Í framhaldi af því var skipuð verkefnisstjórn.

Í upphafi var hugmyndin að hefja verkefnið með breyttri tilhögun hjá nýnemum eingöngu og stækka nemendahópinn í þremur skrefum þannig að á þriðja ári næði verkefnið til allra nemenda skólans. Þegar leið á fyrsta árið þótti auðsýnt að mjög bagalegt og nánast ókleift væri að reka tvenns konar kerfi í svo lítilli stofnun og var því ákveðið að nýja kerfið næði til alls skólans strax á öðru ári verkefnisins.

Í þessari grein verður gerð grein fyrir meginþáttum í starfinu á Laugum og þeim breytingum sem ráðist hefur verið í. Jafnframt verður lagt mat á þá reynslu sem fengist hefur tvö fyrstu ár tilraunarinnar. Byggt er á ýmsum gögnum sem haldið hefur verið til haga um verkefnið. Má þar nefna áfangaskýrslur (Arnór Benónýsson, Hallur Birkir Reynisson, Ingvar Sigurgeirsson, Jóhanna Eydís Þórarinsdóttir og Valgerður Gunnarsdóttir, 2007), áætlanir og vinnupappíra verkefnisstjórnar og minnisblöð sem ráðgjafi verkefnisins hefur haldið til haga en hann hefur heimsótt skólann reglulega, oftast tvisvar á misseri, fylgst með kennslu og rætt við nemendur og starfsfólk. Þá er byggt á ýmsum könnunum sem gerðar hafa verið á viðhorfum starfsfólks, nemenda og foreldra.

Framhaldsskólinn á Laugum í Reykjadal

Skólahald hefur verið samfleytt á Laugum allt frá árinu 1925 er Lýðskólinn á Laugum í Reykjadal hóf göngu sína.

Framhaldsskólinn á Laugum var stofnaður 1988 með sameiningu Héraðsskólans á Laugum og Húsmæðraskólans á Laugum. Fyrstu ár Framhaldsskólans voru í skólanum fjórar námsbrautir til tveggja og þriggja ára; almenn bóknámsbraut, viðskiptabraut, matvælatæknibraut og íþróttabraut.

Skiptar skoðanir voru um það meðal menntamálayfirvalda hvort skólinn ætti að bjóða upp á fjögurra ára nám til stúdentsprófs eða halda sig við styttri brautir. Stúdentsprófið varð ofan á og frá árinu 1993 hefur skólinn útskrifað stúdenta af náttúrufræði-, félagsfræði- og íþróttabrautum.

Steinþór Þráinsson (2005) sem var fyrsti skólameistari hins nýja framhaldsskóla (19881989), hefur skrifað sögu Laugaskólanna frá 1925 til 1988.

Í Framhaldsskólanum á Laugum hafa undanfarin ár verið um eitt hundrað nemendur og við hann eru starfræktar fjórar námsbrautir: félagsfræðibraut, náttúrufræðibraut, almenn námsbraut og starfsnám í íþróttum. Flestir nemendur búa á heimavist og eru í mötuneyti.

Stundataflan brotin upp: Fagtímar og vinnustofur
– samfelldur skóladagur

Meginbreytingin sem gerð hefur verið á Laugum er fólgin í því að fækka kennslustundum á stundatöflu sem merktar eru tilteknum námsgreinum. Þeim hefur einfaldlega verið fækkað um helming. Námsgrein sem áður hafði fjórar kennslustundir á töflu hefur nú tvær. Þær kennslustundir sem greinin heldur eftir eru á Laugum kallaðar fagtímar. Á móti þeim tímum sem fækkað hefur verið sækja nemendur svokallaðar vinnustofur. Í vinnustofunum ákveða nemendur sjálfir hvaða viðfangsefni þeir glíma við á hverjum tíma. Tveir til þrír kennarar liðsinna nemendum í vinnustofum og geta nemendur haft sérgrein þeirra til hliðsjónar þegar þeir ákveða hvaða viðfangsefnum þeir ætla að sinna hverju sinni. Vinnustofutímana geta kennarar einnig notað til að ræða við nemendur einslega eða við hópa.

Í þessari breytingu felst að meðalnemandi sem tekur 17 til 18 einingar á önn sækir þrjár 40 mínútna vinnustofur fyrir hvern 3ja eininga áfanga. Með þessu er leitast við að koma til móts við einstaklingsbundnar þarfir nemenda. Þeir sem standa vel að vígi í náminu geta með þessu móti tekið fleiri einingar og eru þá með færri vinnustofur í hverjum áfanga. Þeir sem vilja fara hægar geta sótt fleiri vinnustofur og fengið þannig meiri tíma til að sinna námi sínu.

Samfelldur skóladagur

Fyrirkomulag það sem þróað hefur verið á Laugum gerir kleift að bjóða nemendum samfelldan skóladag. Haldi nemendur vel á spöðunum geta þeir flesta daga lokið vinnudegi sínum á skólatíma.

Venjulegur skóladagur hefst klukkan 8.30 og byrja flestir dagar á stuttri vinnustofu sem lýkur kl. 9.00 en þá er sameiginlegur morgunverður. Áður byrjaði skóladagurinn kl. 8.00 en ákveðið var að breyta því, m.a. til að kanna hvort það hefði jákvæð áhrif á mætingu og reynist svo vera. Starfsdagurinn skiptist síðan í fagtíma og vinnustofur og lýkur eigi síðar en klukkan 15.30. Allir nemendur byrja á sama tíma, eru á sama tíma í mat og ljúka skóladeginum á sama tíma. Engar eyður eru í stundatöflum nemenda sem er að sjálfsögðu mjög eftirsóknarvert og kunna þeir vel að meta það.
 

           

 

mánudagur

þriðjudagur

miðvikudagur

fimmtudagur

föstudagur

8:30-9:00

NÁM101

VST

VST

LKN

VST

 

Morgunmatur

Morgunmatur

Morgunmatur

Morgunmatur

Morgunmatur

9:25-10:05

DAN103

VST

STÆ102

VST

VST

10:10-10:50

ÍSL103

FÉL103

ÍSL103

VST

NÁM101

11:00-11:40

VST

ÍSL103

ÍÞR

ENS102

DAN103

11:45-12:25

VST

VST

ÍÞR

FÉL103

VST

 

Hádegismatur

Hádegismatur

Hádegismatur

Hádegismatur

Hádegismatur

13:15-13:55

ENS102

ENS102

DAN103

VST

STÆ102

14:00-14:40

STÆ102

VST

FÉL103

VST

VST

14:50-15:30

VST

VST

 

VST

 

 

Kaffi

Kaffi

Kaffi

Kaffi

 


Mynd 1 - Dæmi um stundatöflu nemanda á 1. ári 

Kostir samfellds skóladags eru ótvíræðir. Nemendur nýta tíma sinn betur. Góður vinnuandi skapast og skólinn líkist venjulegum, góðum vinnustað.

Vinnustofur

Vinnustofur fara allar fram á sama stað, í tveimur samliggjandi opnum rýmum. Einnig gefst nemendum kostur á að vera á bókasafni skólans eða fara í minna rými þar sem aðstaða er til hópvinnu.

Leitast hefur verið við að skapa notalegt vinnu- og námsumhverfi í vinnustofunum. Þau tvö ár sem tilraunin hefur staðið hafa kennarar stöðugt verið að þreifa sig áfram með tilhögun. Uppröðun borða í vinnustofunum er önnur en í hefðbundnum kennslustofum þar sem myndaðir eru básar og hópvinnuborð. Reynt er að hafa mismunandi vinnuaðstöðu þannig að nemendur geti að einhverju leyti valið sér aðstöðu sem þeim hentar best. Bókahillur eru notaðar til að afmarka vinnupláss, myndir prýða veggi, blóm setja sinn svip á umhverfið og á nokkrum stöðum hefur verið komið fyrir sófum þar sem nemendur geta látið fara vel um sig, t.d. þegar þeir eru að lesa eða ræða við kennara eða skólasystkini undir fjögur augu.
  

Myndir 2–4 - Úr vinnustofum (ljósmyndir IS)

Misjafnt er hve margir nemendur eru samtímis í vinnustofum, allt frá því að vera 12 til 15 upp í það að allir nemendur skólans, u.þ.b.110, eru í vinnustofu á sama tíma. Þetta fyrirkomulag hefur aukið samskipti og samvinnu allra  nemenda skólans. Það hefur leitt af sér aukna samheldni í nemendahópnum sem aftur hefur haft jákvæð áhrif á vinnuandann og skólabraginn. Oft má sjá nemendur bera saman bækur sínar og hjálpast að. Ráðgjafi fylgdist með stúlku í útskriftarhópi leiðbeina nýnema af erlendum uppruna góða stund í vinnustofu. Hann spurði hana hvort þetta væri nægilega góð nýting á hennar tíma? Svarið var einfalt: Veistu, maður lærir eiginleg mest á að kenna öðrum!

Nemendur skipuleggja sjálfir, með aðstoð kennara, hvaða verkefnum þeir sinna í vinnustofum hverju sinni og geta þannig ráðið hversu miklum tíma þeir verja í hverja námsgrein. Sá sem er fljótur að vinna í einni grein og hefur hana vel á valdi sínu getur valið að verja vinnustofutímum í greinar sem kalla á meiri vinnu af hans hálfu. Í þessu felst aukið sjálfstæði nemenda, þeir verða meðvitaðri um stöðu sína og bera meiri ábyrgð á námsframvindu sinni. Með þessu móti geta nemendur í ríkum mæli notað þær vinnuaðferðir sem henta þeim best.

Í vinnustofum eru alltaf tveir til þrír kennarar samtímis. Hlutverk þeirra er fyrst og fremst að vera leiðbeinendur og verkstjórar. Þeir aðstoða nemendur við námið, gæta þess að vinnufriður sé í vinnustofunni, fylgjast með námsframvindu nemenda sinna og hafa tækifæri til þess að taka einstaklinga eða smærri hópa út til að vinna sérstaklega með þeim. Með þessu fyrirkomulagi hafa kennarar aukin tækifæri til að sinna hverjum nemanda og veita persónulega leiðsögn.

Reynsla kennara af þessari tilhögun er m.a. sú að þeir sjá miklu fyrr og betur en ella hver staða hvers nemanda er. Kennarinn sér vinnubrögð, ástundun og afköst í öðru ljósi og er miklu fyrr fær um að leggja mat á styrkleika og veikleika nemandans og þar af leiðandi grípa inn í er þörf krefur.

Eitt af markmiðum verkefnisins er að auka samvinnu kennara. Sú aðferð að kennarar séu saman tveir til þrír í hverri vinnustofu gefur tækifæri til aukinnar faglegrar samvinnu. Kennararnir eru mun meðvitaðri um hvað samkennarar þeirra eru að gera. Fleiri tækifæri gefast til að ræða um fagleg málefni, eins og t.d. kennsluaðferðir og námsmat, og eins geta þeir borið saman bækur sínar um frammstöðu einstakra nemenda. Reynslan sýnir einnig að upplýsingar og ábendingar sem nýst geta nemendum berast mun greiðar á milli kennara en áður.

Óhætt er að fullyrða að flestir nemendur nýti vinnustofutíma sinn vel. Vissulega kemur fyrir að nemandi svarar persónulegum tölvupósti meðan á vinnstofu stendur, spjallar við skólafélaga um eitthvað sem ekki viðkemur náminu, kíkir á Netið, jafnvel leggst fram á borðið, en þetta eru undantekningar. Líklega kemur ekki á óvart að nokkur munur er á því, eftir kynjum, hvernig nemendur nýta tíma sinn. Stúlkurnar halda sig yfirleitt betur að verki en piltarnir.

Nemendur fara flestir mjög jákvæðum orðum um þetta fyrirkomulag þegar þeir eru spurðir um það, þó ekki henti það öllum. Þá finnst sumum nemendum að námið í vinnustofunum sé full einsleitt. Margir óska eftir aukinni tilbreytingu - að skóladagurinn sé oftar brotinn upp og að verkefnin séu fjölbreyttari.

Ráðgjafi verkefnisins hefur fylgst með hundruðum kennslustunda í íslenskum grunn- og framhaldsskólum. Hann treystir sér til að fullyrða að hvergi hefur hann séð nemendur í skólum hér á landi nýta skólatíma sinn betur til náms en hópurinn á Laugum gerði í þau skipti sem hann heimsótti skólann á síðasta skólaári. Þessi færsla á minnisblaði er færð 8. apríl 2008:

Vettvangsathuganir: Skemmst er frá því að segja að ég var mjög sáttur við það sem bar fyrir augu þennan dag. Vinnusemi nemenda var með miklum ágætum og minnist ég þess ekki að hafa séð jafn marga nemendur, jafn lengi að verki og þennan dag. Aðeins tveir nemendur sáust slá slöku við. Stemming var mjög notaleg allan daginn. Einnig fannst mér nemendur vera að fást við áhugaverðari verkefni en oft áður. Virkni nemenda entist allan daginn og ég tók sérstaklega eftir því að rétt fyrir dagslok var verið að keppast við. Til gamans má geta þess að kl. 14.56 skrifa ég þessa athugasemd í kompuna mína: Mikil iðni nemenda – þetta er að ganga lygilega vel.

Einhver lesandi kann að spyrja hvort ekki sé eðlilegt að flestir nemendur nýti skólatíma sinn vel. Sú virðist því miður ekki raunin. Athuganir ráðgjafa sýna að í flestum kennslustundum er það einungis hluti nemenda sem fylgist með allan tímann. Fleiri rannsóknir staðfesta þetta (Rúnar Sigþórsson, 2008).

Persónuleg leiðsögn

Í fámennum skóla eins og Framhaldsskólanum á Laugum eru góðar forsendur til þess að mynda persónulegt samband við nemendur. Einn liður í þróunarverkefninu var að efla þessi tengsl enn frekar, koma þeim í fastara form og nýta þau markvissar í þjónustu við nemendur. Einn megintilgangurinn með vinnustofunum var að skapa aðstæður þar sem kennarar gætu sinnt nemendum á einstaklingsmiðaðri hátt en áður. Starf umsjónarkennara var eflt í upphafi verkefnisins og áhersla lögð á að þeir fylgdust sem best með umsjónarnemendum sínum. Auk þess hafa nemendur haft mjög góðan aðgang að námsráðgjafa.

Sjá má af umsögnum nemenda að kennurum hefur tekist að mynda gott samband við þá. Hér eru nokkur dæmi um viðhorf nemenda þegar þeir eru beðnir um að nefna það sem þeim finnst jákvætt við skólann:

Þegar kennararnir hjálpa manni hér þá þekkja þeir mann miklu betur og vita hvað maður er að fást við heldur en í öðrum skólum. Mjög gott kerfi. Mikill skilningur sýndur fyrir göllum manns.

Kennararnir þekkja hvern og einn og hvaða sérkenni hver nemandi hefur.

Maður var snöggur að kynnast kennurunum og það hjálpar.

Kennararnir eru mjög góðir og mér líður ekki eins og einhverjum hlut heldur er gott samband milli kennara og nemenda.

Hjálpsemi og hlýhugur sumra kennara og alls starfsfólks.

Persónulegt umhverfi.

Enda þótt þetta sýnist vel viðunandi árangur er það keppikefli að efla þennan þátt enn frekar í síðasta hluta verkefnisins, eins og síðar verður vikið að.

Kennsluhættir

Þróunarverkefnið hefur kallað á ýmsar breytingar á kennsluháttum. Segja má að meginhugmyndin sé að hafa nám nemenda í forgrunni, en ekki kennslu. Einnig er lögð áhersla á að mæta nemendum á jafningjagrunni eftir því sem unnt er. Eins og áður hefur komið fram fá kennarar einungis helming þess tíma sem þeir fengu áður, þar sem þeir eru einir með námshópnum sínum (fagtímar), auk þess sem þeir þurfa að skipuleggja námið þannig að nemendur hafi viðfangsefni til að vinna að í vinnustofum. Því þurftu kennarar að aðlaga nám nemenda þessum kennsluháttum, m.a. með því að skipuleggja sjálfstæð viðfangsefni. Til að skapa góðan ramma utan um þetta var tekið upp kennsluumsjónarkerfið Angel (sjá síðar). Jafnframt voru kennarar hvattir til að beita fjölbreyttum kennsluaðferðum. Þeir höfðu nokkuð frjálsar hendur um hvernig þeir skipulögðu kennsluna og hve hratt þeir færu í breytingar.

Kennsla í sálfræði hefur til dæmis tekið mið af fjölgreindakenningu Gardners (Armstrong, 2001) þar sem nemendur tóku fyrst stutt próf til þess að meta á hvaða sviðum þeir byggju yfir mestri greind. Niðurstaða þessa prófs var síðan notuð til þess að raða nemendum í hópa þar sem þeir áttu að nýta sér sínar sterku hliðar til þess að leysa sjálft sálfræðiverkefnið um þroska barna. Hóparnir höfðu frjálsar hendur um það hvernig þeir skiluðu af sér. Má til dæmis nefna að hópurinn sem hafði einstaklinga með mestu tónlistargreindina bjó til lag og texta og stofnaði hljómsveit sem flutti lagið.

Í náttúrufræði fengu nemendur verkefni þar sem þeir sömdu smásögur um lögmál Newtons og kynntu þær. Niðurstaðan varð sú að nemendur áfangans pældu mikið í innihaldi lögmálanna og sýndu í prófi dýpri skilning á þeim. Í félagsfræði hafa nemendur fengið hópverkefni sem fólst í því að semja leikrit um löggjöf sem snerta börn og ungmenni. Þannig urðu til leikrit sem voru byggð á lögum um barnavernd, leikskóla og grunnskóla.

Þróunarverkefnið hefur líka leitt af sér sveigjanlegri námshraða í nokkrum námsgreinum, þar sem lok og byrjun áfanga er ekki bundin annarskilum. Þar eru því nemendur, eðli málsins samkvæmt, ekki allir í sama áfanga. Sem dæmi um þetta er eðlisfræði þar sem sumir voru að ljúka EÐL103 á sama tíma og aðrir voru í miðjum EÐL203 og einn að byrja á EÐL303.

Til þess að nemendur missi ekki alveg af félagastuðningnum er reynt að stýra nemendum þannig að þeir séu tveir til fjórir samferða í gegnum námið. Með þessu móti er einnig hægt að skipuleggja kennsluna eftir þörfum hvers og eins.

Á samráðsfundum kennara kom fram að þeir telja jákvætt hvað samstarf og fagleg umræða meðal kennara hefur aukist, persónuleg samskipti við nemendur eru meiri og betri en áður og kennsluaðferðir hafa breyst í þá átt að minna er um einstefnumiðlun en meira um uppgötvunarnám og sjálfstæð viðfangsefni. Margir kennarar sjá í þessu breytta námsumhverfi tækifæri til endurnýjunar í starfi, möguleika á samþættingu námsgreina og tækifæri til meira faglegs og þverfaglegs samstarfs og fjölbreyttari kennsluaðferða.

Tölvu- og upplýsingatækni

Eins og fram hefur komið var ákveðið að nýta kennsluumsjónarforritið Angel í tengslum við þær breytingar sem gerðar voru á Laugum. Kerfið gerir nemendum kleift að skipuleggja nám sitt og fylgjast með námsframvindu sinni frá degi til dags því kerfið gefur þeim gott yfirlit um hvar þeir standa, auk þess sem þeir sjá hvaða verkefni bíða þeirra. Þá geta þeir átt samskipti við kennara og sent þeim fyrirspurnir eða ábendingar og rætt við skólasystkini sín.

Auk þess að nota Angel er lögð áhersla á að nemendur noti INNU – upplýsingakerfi fyrir framhaldsskóla – til að fylgjast með mætingum og námsferli sínum. Markmiðið er að nemandinn verði ábyrgari fyrir námi sínu.

Í upphafi hvorrar annar er lögð áhersla á að kenna nýnemum á kerfin og rifja upp með öðrum nemendum sem þess óska eða þurfa. Auk þess nýta nemendur tölvurnar til margvíslegrar upplýsingaöflunar í tengslum við námið. Í tengslum við það leggja kennarar áherslu á að kenna nemendum að umgangast allt það efni sem er aðgengilegt á netinu, bæði hvað varðar höfunarétt og ekki síður að vera gagnrýnin á það efni sem þar er að finna.

Þemadagar, opnir dagar, verkefnadrifið nám

Síðastliðinn vetur var ákveðið að brjóta upp hefðbundið skólastarf, annars vegar með svokölluðum þemadögum í febrúar og hins vegar með verkefnadrifnu námi í apríl.

Á þemadögum var boðið upp á styttri námskeið sem voru ýmist undir stjórn kennara skólans eða utanaðkomandi aðila. Viðfangsefnin voru ákveðin af kennurum eftir að gerð hafði verið könnun meðal nemenda um hvað þeir vildu helst fást við á þessum dögum. Sem dæmi um viðfangsefni má nefna: Snyrtinámskeið, hestamennsku, bútasaum, dorgveiði, grímugerð og hálendisferð með hjálparsveitum. Nokkrir nemendur unnu að undirbúningi á Tónkvíslinni, sem er forkeppni skólans fyrir söngkeppni framhaldsskólanna, en nemendur leggja mikla vinnu í undirbúning og framkvæmd hennar. Nemendum í grunnskólum á Norðausturlandi er boðið að taka þátt í keppninni. Afraksturinn er síðan gefinn út á geisladiski, sem seldur er til fjáröflunar fyrir nemendafélagið. Mikil ánægja var meðal nemenda og starfsfólks með þessa daga og voru þeir frískandi uppbrot á venjubundnu starfi. Um leið fór fram margháttað nám með óhefðbundnum hætti.

Verkefnadrifið nám er tilraun til að þýða enska hugtakið project based learning. Í apríl voru fjórir dagar lagðir undir vinnu sem gekk undir þessu heiti. Hópur kennara vann að undirbúningi í samvinnu við nemendur og annað starfsfólk.

Nemendur unnu ýmist saman í hópum eða einir að fjölbreyttum verkefnum. Lagt var upp með yfirskriftina Samfélagið okkar en segja má að útkoman hafi fyrst og fremst verið frjáls sköpun. Meðal verkefna má nefna: tískusýningu frá Viktoríutímanum, kökubakstur (þar sem bakaðar voru kökur tengdar ýmsum löndum), myndlistarsýningar, fuglaskoðun, virkjanagerð og smásagnagerð.

Afurðirnar voru sýndar á opnum degi á sumardaginn fyrsta og þurftu nemendur að fylgja þeim úr hlaði og vera til staðar og útskýra þau fyrir gestum.

Opinn dagur á sumardaginn fyrsta er orðinn fastur liður í starfi skólans. Þá er íbúum í nálægum sveitarfélögum, þingmönnum kjördæmisins og sveitarstjórnarmönnum boðið að koma í skólann og kynna sér starfsemi hans og þiggja veitingar. Er þetta liður í því að treysta tengsl skólans við nærsamfélagið.

Viðhorf nemenda til þess að brjóta upp kennslu á þennan hátt eru mjög jákvæð eins og sjá má af þessum umsögnum þeirra þegar þeir lýsa viðhorfum sínum til skólastarfsins:

Jákvætt: Hvernig búið er að brjóta upp námið, t.d. með þemadögum og verkefnadrifna náminu.

Kennarar eru nokkuð meðvitaðir um hag nemendanna og kemur það einnig fram með þeim dögum sem hafðir eru til þess að „krydda“ námskerfið.

Námsmat

Lögð hefur verið áhersla á að kennsluaðferðir og námsmat þróist í takt við þær breytingar sem gerðar hafa verið á námsumhverfinu. Stefnt er að því að koma til móts við nemendur með því að stíga skref í átt að persónubundnu námsmati þar sem leitast er við að fá nemendur til þátttöku í námsmatinu.

Aukin áhersla hefur verið á símat og fjölbreyttar námsmatsaðferðir en dregið úr vægi stórra lokaprófa.

Gleggsta dæmið um það er að á vorönn 2008 var horfið frá því að hafa hefðbundið prófatímabil við lotuskil í mars og einungis teknir fimm prófadagar í annarlok. Þau próf sem þar voru lögð fyrir voru yfirleitt kafla- eða hlutapróf sem giltu 1530% af áfanga. Þessi breyting þýðir ekki að vilji sé til að útrýma prófum með öllu heldur fella þau inn í kennslutímann. Eðlilegra er talið að þau séu tekin þegar best hentar, miðað við yfirferð námsefnisins, frekar en að festa þau á ákveðnum próftíma. Þannig nýtist starfstími nemenda í skólanum betur til náms en stundum hefur orðið raunin í hinum hefðbundnu prófavikum.

Með fjölbreytni í námsmati tekst að koma á móts við mismunandi þarfir nemenda. Þeir fá frekar tækifæri til að nýta sínar sterku hliðar við að koma færni sinni og þekkingu á framfæri.

Kennarar voru duglegir við að gera ýmsar tilraunir í námsmati á síðasta skólaári. Sjálfsmat og jafningjamat fékk víða aukið vægi, dæmi voru um bæði hóppróf og svindlpróf. Munnleg verkefnaskil voru meiri en áður hefur verið þar sem nemendur skiluðu stórum verkefnum, t.d. með fyrirlestrum, leikþáttum eða söng (þar sem bæði textar og lög voru samin af nemendum). 

Þessi breyting á námsmati er líka liður í því að gera persónubundna námsáætlun að veruleika. Þar geta nemendur verið að ljúka ákveðnu námsefni eða námsáfanga á mismunandi tíma.

Dæmi um námsmat

Svindlpróf í ÞÝS203

Lagt var fyrir kaflapróf með einnar viku fyrirvara úr þremur köflum bókarinnar. Nemendur máttu útbúa sér „svindlmiða“ í A4 stærð og skrifa á hann eins mikið og þeir vildu. Önnur hjálpargögn voru ekki leyfð.

Mjög athyglisvert var að fylgjast með því hvernig nemendur nýttu sér þetta.

Dagana fyrir prófið fór mikið nám fram hjá stórum hópi nemenda. Margir leituðu eftir aðstoð kennara við að velja úr og fá útskýringar á þeim málfræðiatriðum sem hugsanlega kæmu á prófinu. Þannig gerðu þeir sér góða grein fyrir því hvaða námsefni búið var að fara yfir og þeir áttu að kunna skil á. Í prófinu sjálfu kom greinilega í ljós hverjir höfðu lagt vinnu í svindlmiðann sinn. Þeir gátu nýtt sér mest allt sem þeir höfðu skrifað niður. Aðrir misreiknuðu sig dálítið. Þeir skrifuðu miða, án mikillar íhugunar, og töldu sig þar með nokkuð góða. En þegar á hólminn kom nýttist þeim miðinn illa því þeir höfðu ekki valið réttu atriðin og skildu oft á tíðum ekki samhengi þess sem þeir voru að vinna með.

 

Jafningja- og sjálfsmat í SÁL103

Nemendur skila inn verkefni með kynningu og er einkunn gefin á eftirfarandi hátt:
Mat kennara á verkefninu sjálfu = 50%
Mat kennara á kynningu sem nemendur fluttu = 25%
Jafningjamat á kynningu = 25%

Í öllum tilvikum var metið með hliðsjón af gátlista sem kennari lagði fyrir áður en verkefnaskil fóru fram. Þar með voru allir meðvitaðir um hvað það var sem meta átti og hvað skipti meira máli en annað.

Jákvæð viðhorf nemenda til þróunarstarfsins

Frá upphafi verkefnisins hefur verið leitast við að fylgjast vel með viðhorfum nemenda og hafa raddir þeirra til hliðsjónar við þróun starfshátta. Leitað hefur verið eftir skoðunum þeirra með margvíslegum hætti. Rætt hefur verið óformlega við nemendur. Ráðgjafi verkefnisins hefur sætt lagi í heimsóknum sínum og spurt nemendur um viðhorf þeirra til skólans, kennaranna, kennslunnar og fyrirkomulagsins. Meðlimir stýrihópsins hafa sömuleiðis leitast við að forvitnast um viðhorf nemenda. Auk óformlegra umræðna hafa þeir nýtt umsjónartíma með nemendum til að ræða við þá um líðan, aðbúnað, ástundun og vinnubrögð.

Ráðgjafi hefur haldið matsfundi með hópum nemenda þar sem þeir hafa verið beðnir um að lýsa því sem þeir hafa verið sáttir við sem og því sem þeir hafa verið óánægðir með. Slíkir fundir hafa verið haldnir reglulega. Dæmi um viðhorf nemenda á slíkum fundum eru á töflu 1.

Tafla 1
Dæmi um viðhorf nemenda á matsfundi. Atriðin komu fram á fundi
með nemendum á 1. ári í mars 2007
Jákvæð atriði Það sem betur má fara
 • Margt jákvætt í skólanum
 • Tímarnir hafi verið styttir sem er kostur
 • Kennslan er góð
 • Spjöldin (skilrúm milli vinnustöðva í vinnustofu) hurfu
 • Stærðfræðikennslan er mjög góð
 • Heimavistin
 • Matsalurinn
 • Við eignumst góða vini
 • Persónulegt umhverfi
 • Fáum aðstoð í tímum
 • Persónuleg kennsla
 • Námsfyrirkomulagið
 • Breytingar um áramót – 60 mín. var of langur tími fyrir vinnustofur
 • Skemmtilegt námsefni
 • Sniðugt vinnustofukerfi
 • Heimilislegt – maður þekkir alla
 • Gott að byrja klukkan 8:30 – maður er betur vaknaður
 • Sveigjanleiki með svo margt, t.d. að velja viðfangsefni í vinnustofum
 • Persónulegt – alltaf hægt að fá hjálp
 • Góður matur
 • Flestar breytingar um áramót til bóta
 • Þemaverkefni mjög jákvætt
 • Ferðin á Vestmannsvatn (febrúar) var mjög skemmtileg.

 

 • Bara þýska í boði sem þriðja tungumál. Vildum líka geta valið frönsku
 • Félagslífið
 • Lítið gert – fáir sem mæta – ekki á áhugasviði allra
 • Auka fjölbreytni í félagslífi, t.d. hljómsveitakvöld, ljóðakvöld
 • Vantar samheldni milli nemenda til að vera með
 • Félagslífið þarf að bæta
 • Félagsfræði – bókin svo leiðinleg + alltaf að koma nýjar útgáfur
 • Félagsfræði – kennsluaðferðin leiðinleg
 • Hlustað á glærur allan tímann, engin verkefni í félagsfræði – gera meira svo við munum betur efnið – ekki gott að hafa bara 30 mín. til að leysa verkefnin í Angel
 • Angel – ekki endurgjöf á verkefnin á Netinu
 • Setja uppeldisfræði í námskrána í staðinn fyrir félagsfræði
 • Glærur (yfirleitt) orðnar svo leiðinlegar
 • Ekki gott að vera í þremur prófum á dag
 • Ekki gott að þurfa að taka tvö próf á sama tíma
 • Vinnnustofur ömurlegar – maður hefur ekkert að gera og má ekki fara þegar maður er búinn
 • Ekki gott að fella alltaf niður íþróttir – það eina sem brýtur upp daginn og þær eru skemmtilegar
 • Vantar smíðar og eitthvað verklegt
 • Hafa fleiri kennslustundir og fækka vinnustofum
 • Of mikið er sett fyrir
 • Alltaf öll verkefni á sama tíma og svo ekkert að gera á milli
 • Þarf að samræma verkefnaskil milli kennara
 • Þoli ekki Angel – m.a. lélegt samband heima – ekki hægt að fara yfir verkefnin  – ekki nógu margar tölvur í skólanum
 • Hentar ekki öllum að vinna í tölvum
   

 

Eins og sjá má eru nemendur flestir mjög jákvæðir gagnvart kennsluháttunum. Svör þeirra bera nokkurn keim af þeim breytingum sem gerðar höfðu verið um áramótin 2006–2007 og fólust m.a. í því að stytta lotur úr 60 mínútum í 40 mínútur og að byrja starfsdag kl. 8.30 en ekki 8.00 eins og áður hafði verið. Þá höfðu einnig verið nokkur vandkvæði með tölvukerfi skólans og ljóst að það hefur angrað nemendur, ekki síður en starfsfólk. Þá kemur fram að flestum líkar vinnustofukerfið vel þótt það henti ekki öllum.

Loks hafa nemendur verið beðnir um skriflegar álitsgerðir um námið og hefur það verið gert í lok beggja fyrstu áranna. Á töflu 2 eru tvö dæmi um viðhorf nemenda.

Tafla 2
Dæmi um viðhorf tveggja nemenda (maí 2008). Nemendur voru beðnir að gera skriflega grein fyrir þeim þáttum sem þeir væru ánægðir með í náminu og því sem þyrfti að bæta

Jákvætt

 • Gott að hafa allar vinnustofur í Gamla skóla [á sama stað]

 • Allir fagtímar á einum stað í Dvergasteini [í sama húsi]

 • Hversu rólegir kennararnir eru í vinnustofunum

 • Hversu góður andi er í hópnum

 • Að borðunum er snúið út í vegg í vinnustofunum eins og er í miðdeild

Neikvætt

 • Fyrir áramót þegar sumar vinnustofur voru í Gamla skóla og aðrar í Dvergasteini

 • Kennarar setja stór verkefni fyrir á sama tíma

 • Þegar kennarar skamma mann fyrir að vera að læra en þeir halda að maður sé að leika sér

 • Vantar að moka gönguleiðir milli skólabygginga í snjó

 • Vantar fleiri kennara á bókasafnið þegar vinnustofur eru

 

Jákvætt
 • Frelsi í námi
 • Vel fylgst með manni persónulega
 • Persónuleg hjálp (kennararnir þekkja mann)
 • Þægileg vinnuaðstaða
 • Maður vinnur það sem mann langar og þarf að gera
 • Kennararnir alltaf til í að hjálpa manni
 • Maður getur spjallað um námið hvenær sem er í vinnustofum við vini sína eða kennara (frjálst)
 • Mikið unnið í gegnum tölvur sem er mjög þægilegt

Neikvætt

 • Oft mikill kliður í vinnustofunum
 • Stundum svolítið of mikið verið að fylgjast með manni og um leið að trufla mann (kennarar)
 • Á vissu tímabili var of mikil heimavinna þó maður væri á fullu allan daginn gæti verið vegna þess að kennarar séu hræddir um að ekki væri nóg að gera hjá okkur í vinnustofum og hræddir um að allt færi úr böndum


Segja má að viðhorfin sem fram koma í töflu 2 séu dæmigerð. Þau eru í meginatriðum jákvæð en athugasemdir nemenda um það sem betur má fara engu að síður áhugaverðar og gagnlegar. Ábending nemenda um að stundum séu kennarar nánast að trufla nemendur í vinnustofum vekur vissulega til umhugsunar.

Viðhorf nemenda hafa frá upphafi verið jákvæð en þau hafa engu að síður orðið jákvæðari eftir því sem liðið hefur á verkefnið. Sú ákvörðun að flýta verkefninu, þ.e. að láta það ná til allra nemenda strax á öðru ári, virðist hafa skilað sérstaklega góðum árangri. Enda þótt eldri nemendum skólans hafi litist misvel á breytta tilhögun þegar hún var kynnt þeim áður en ráðist var í breytingarnar, skiptu þeir flestir um skoðun og telja nú flestir að þetta fyrirkomulag henti þeim mjög vel.

Viðhorf foreldra 

Tvær formlegar kannanir hafa verið gerðar á viðhorfum foreldra, önnur vorið 2007 og hin vorið 2008. Báðar kannanirnar voru gerðar í síma og voru sömu spurningar lagðar fyrir í bæði skiptin. Rétt og skylt er að taka fram að kannanir þessar voru gerðar af starfsfólki skólans og kann það að hafa áhrif á svör þeirra og niðurstöður. Foreldrar voru spurðir um mat á líðan barns síns, mat á námsárangri, hversu vel námsfyrirkomulagið hentaði barninu, hvort skólinn hefði staðið undir væntingum og hvaða félagsleg áhrif skólavistin hefði á barnið. Einnig voru foreldrar beðnir að nefna eitt atriði sem væri jákvætt við skólann eða skólavist barnsins og eitt atriði sem væri neikvætt. Svör fengust frá 48 foreldrum.

Niðurstöður voru í heild mjög jákvæðar. Allir foreldrar, utan eitt, töldu að barni sínu liði mjög eða frekar vel í skólanum. Eitt foreldri svaraði með því að velja svarliðinn hvorki vel né illa. Sex foreldrar voru óánægðir með námsárangur, aðrir jákvæðir. Aðeins eitt foreldri taldi námsfyrirkomulagið henta barni sínu illa og eitt foreldri taldi að skólinn hefði fremur illa staðið undir væntingum. Aðrir voru jákvæðir. Allir foreldrar, utan eitt, töldu að skólavistin hefði haft jákvæð félagsleg áhrif á barnið.

Þegar foreldrar voru beðnir um að nefna atriði sem þeir væru ánægðir með nefndu þeir góða kennslu, jákvæð viðhorf starfsmanna til nemenda og góð samskipti, metnað starfsmanna, gott umhverfi, góða íþróttaaðstöðu, einstaklingsmiðað nám, vinnustofufyrirkomulagið og góða líðan nemenda. Aðfinnslur snertu m.a.  kennslu í sumum námsgreinum, fjarlægð, of litla áherslu á verklegt nám, kostnað og að betur mætti fylgjast með mætingu. Flestir svöruðu spurningu um neikvæð atriði með orðinu ekkert.

Jákvætt og áhugavert er að viðhorf foreldra í könnuninni 2008 eru enn betri en þau viðhorf sem fram koma í sambærilegri könnun árið áður.

Viðhorf kennara og annarra starfsmanna

Ráðgjafi verkefnisins hefur frá upphafi kannað viðhorf allra starfsmanna til verkefnisins. Í byrjun voru skoðanir hópsins nokkuð skiptar en meirihluti engu að síður hlynntur þeim breytingum sem ráðgerðar voru. Efasemdarraddir snertu fyrst og fremst hversu stór skref ætti að stíga. Eftir því sem á hefur liðið hefur trú starfsmanna á verkefnið styrkst. Heimsókn stórs hluta starfsmanna í þrjá framsækna skóla í Minnesota í Bandaríkjunum í nóvember 2007 hafði afar jákvæð áhrif, einkum að sjá raunveruleg dæmi um það hvernig nemendur taka ábyrgð á eigin námi, t.d. með námssamningum og þjónustunámi (e. service learning, sjá t.d. hér).

Á matsfundi með ráðgjafa vorið 2008, í lok annars starfsárs verkefnisins, var farið ítarlega yfir stöðu mála; hvað hefði gengið vel og hvað mætti betur fara. Þau jákvæðu atriði sem kennarar nefndu oftast voru að fleiri nemendum gengi betur í náminu, nemendur væru jákvæðari og ánægðari í skólanum, verkefnaskil hefðu batnað og stundvísi sömuleiðis. Þá var það mat kennara að nemendur væru að nýta tíma sinn í vinnustofunum vel, samvinna kennara væri mun meiri og betri en áður og námsumhverfið hefði tekið jákvæðum breytingum. Dæmi um viðhorf kennara:

Ánægður … það kemur ekki til greina að fara til baka … miklu skemmtilegra … meira gaman í kennslunni … öðruvísi andrúmsloft … frjálslegra … í heild jákvætt … getum talað um ýmislegt annað en lexíu dagsins … sveigjanleikinn er að verða eðlilegur …

Eins og skemmtilegur vinnustaður … nemendur eru jákvæðir … betra utanumhald … auðvelt að fylgjast vel með því hvar þeir eru staddir …

Meiri samvinna … mikil samvinna nemenda.

Nemendur eru að ná góðum árangri … verkefni sniðugri … þau sjá vinnu hvers annars … verkefnaskil góð … hafa batnað … gott að geta hjálpað þeim sem standa illa … persónuleg aðhlynning … 

Erum komin langt áleiðis með samvinnu kennara … ræðum mikið saman … erum á góðri leið

Umhverfið hefur tekið jákvæðum breytingum.

Verkefnið í Framhaldskólanum á Laugum hefur þá sérstöðu fram yfir mörg önnur skólaþróunarverkefni hér á landi að allt starfsfólk skólans tekur virkan þátt í umbótastarfinu. Starfsfólk í eldhúsi, heimavistarstjórar og húsvörður eru, svo dæmi sé tekið, jafnvel að sér um meginmarkmið verkefnisins og kennararnir og taka sömu ábyrgð á því og aðrir. Sem dæmi um viðhorf annarra starfsmanna má taka niðurstöður matsfundar með þeim vorið 2008 (sjá töflu 3).

Tafla 3
Dæmi um viðhorf annarra starfsmanna en kennara
til verkefnisins á fundi 26. maí 2008
Jákvæð atriði Það sem betur má fara
 • Nemendum gengur vel … stundvísi hefur batnað …

 • Lítið samfélag … allir þekkjast vel …við erum eins og ein fjölskylda … tengjast sterkum böndum … enginn verulega útundan …

 • Jákvæður skóli … á heildina litið …

 • Jákvætt að hafa engar eyður … allir í skólanum á sama tíma … samfelldur skóladagur …

 • Betri mæting í morgunmat … nemendur eru að skila sér betur í matinn … vinnusemin er betri í tímum … jákvæðara viðhorf nemenda til skólans …

 • Góður vetur … nemendur jákvæðir …

 • Hef unnið hér í tíu ár … besti veturinn … nemendur í jafnvægi … skólastarfið aldrei gengið betur … allir byrja á sama tíma … eyður sem voru áður eru horfnar … allir eru að vinna á sama tíma … vinnustofur eru frábærar … nemendur hafa lokið við námsefni sitt þegar skóladagur er búinn … ánægð með þetta …

 • … góður vinnumórall …

 • … alltaf skemmtilegt samstarf … góðir nemendur … gengið ótrúlega vel … eins og bylting …

 • Reglufesta á hlutunum … skiptir máli … vita að hverju þau ganga … regla á hlutunum … góður andi … bæði hjá nemendum og starfsfólki …
   

 • … ekki margt sem er að …

 • … nemendur eru ekki nógu stundvísir ...

 • … biðst undan kvörtunum … allt gengið mjög vel í vetur …

 • Nemendur eiga að þrífa salinn tvo daga í röð … alltaf einhver hópur sem gerir það ekki … eldri nemendur koma sér hjá þessu … nokkrir nemendur eru ekki að standa sig

 • Ekkert kemur upp í hugann …

 • Gengið rosalega vel í vetur …  

 • Ekki yfir neinu að kvarta

 • Þetta kerfi hentar aldrei öllum … einhverjir detta á milli … er sem ekki finna sig … eru bara færri … þetta kerfi kennir vönduð vinnubrögð og aga … agavandi minnkar … nemendur læra að vinna … skipuleggja sig betur …

 • Ekkert að kvarta …

 • Nemendur þurfa að hugsa betur um sjoppuna … þarf að fylgjast betur með þessu … einhver þarf að fylgjast með þessu …

 • Nemendur og starfsfólk gangi með nafnspjöld fyrst á haustin.


Þessi jákvæðu viðhorf undirstrika þann góða árangur sem náðst hefur. Miklu varðar að allt starfsfólk skólans leggur sitt af mörkum.

Heildarmat

Þegar verið var að undirbúa verkefnið var stefnt að því að allir nemendur skólans fylgdu því fyrirkomulagi sem kennt var við sveigjanlegt námsumhverfi eftir þrjú ár. Þessari áætlun var flýtt um eitt ár og er það mat skólameistara, ráðgjafa og verkefnishóps að þetta hafi verið skynsamleg ákvörðun og þá sérstaklega að haga málum þannig að allir nemendur skólans séu saman í vinnustofum sem hefur haft mjög góð áhrif.

Annað markmið verkefnisins er að nemendur stundi nám samkvæmt persónubundinni námsáætlun. Þetta er langtímamarkmið og vitaskuld álitamál hversu langt er í raun hægt að ganga til að ná því. Eins og fram hefur komið í þessari grein er að því stefnt að nemendur geti t.d. stundað nám sitt að Laugum á ólíkum hraða. Vonir standa einnig til þess að námsáætlun hvers nemanda geti verið mun einstaklingsmiðaðri en verið hefur. Næsta skólaár er stefnt að því að stíga stórt skref í átt til aukinnar einstaklingsmiðunar en það er fólgið í því að taka upp leiðsögukennarakerfi sem miklar vonir eru bundar við (sjá nánar hér á eftir).

Þá var keppikefli að bæta námsárangur og ástundun. Erfitt er að fullyrða nokkuð um námsárangur þar sem vafasamt er að bera saman árganga. Flestir kennarar eru eindregið þeirrar skoðunar að nemendur séu að ná jafngóðum eða betri tökum á viðfangsefnum sínum en nemendur voru að gera við þá skipan sem áður var. Einhverjar vísbendingar felast í því að meðaleinkunn allra nemenda í öllum námsgreinum hefur aldrei verið hærri en á síðasta skólaári eða 7,3. Þá hafa margir kennarar gert grein fyrir því að áberandi sé hve verkefnaskil séu miklu betri nú á þessu skólaári en á undanförnum árum. Mætingar nemenda í kennslutíma hafa einnig batnað mælanlega eða um 3% á þessu skólaári eftir að hafa verið nokkuð stöðugar undanfarin fimm ár. Þá hefur brottfall nemenda á þessu skólaári verið undir meðaltali síðustu ára.

Með verkefninu var stefnt að því að bæta líðan nemenda. Í þessari grein hefur m.a. verið gerð grein fyrir afstöðu nemenda og foreldra eins og hún hefur komið fram í formlegum könnunum. Undantekningarlítið líður nemendum vel í skólanum. Viðhorf þeirra til námsins, skólans og starfsfólks eru jákvæð og þeim líkar öll aðstaða vel. Skemmtilegt dæmi um viðhorf nemenda kemur fram í þessu svari í skriflegri könnun: Félagslega umhverfið sem er hérna er virkilega gott, allir þekkja flest alla og geta óhræddir talað við annað fólk.

Eitt af aðalmarkmiðum verkefnisins var að breyta náms- og vinnuumhverfi þannig að upplýsingatækni yrði lifandi þáttur í starfsemi skólans. Eitt af upphafsverkefnunum var að innleiða kennsluumsjónarkerfið Angel. Hugmyndin með þessu var að nemendur ættu sem bestan aðgang að námsáætlunum, verkefnum og námsmati, hvar og hvenær sem væri. Innleiðing kennsluumsjónarkerfisins hefur í meginatriðum gengið vel, kennarar voru vitaskuld misfljótir að tileinka sér ýmsa af þeim möguleikum sem kerfið hefur upp á að bjóða. Einnig tók það nemendur nokkurn tíma að líta á það sem sjálfsagðan hluta af námsumhverfi sínu. Þótt notkun kerfisins hafi farið frekar hægt af stað hefur mikið áunnist og óhætt að fullyrða að upplýsingatækni sé á góðri leið með að verða sjálfsagður þáttur í daglegu starfi allra í skólanum; tölvan er orðin sjálfsagt verkfæri nemandans.

Með þeim breytingum sem þegar hafa verið gerðar hefur skólinn skapað sér talsverða sérstöðu – en það var eitt af meginmarkmiðum þróunarstarfsins. Skólinn hefur skipað sér í hóp þeirra framhaldsskóla sem eru markvisst að leita eftir meiri sveigjanleika í námstilhögun til að koma betur til móts við ólíka nemendur. Athyglisvert er að það eru öðru fremur fámennir framhaldsskólar hér á landi sem hafa skipað sér í þessa sveit. Greinarhöfundum er kunnugt um áhugavert skólaþróunarstarf í svipuðum anda í Menntaskóla Borgarfjarðar og Fjölbrautaskóla Snæfellinga í Grundarfirði. Þá hafa kennarar við Menntaskólann á Akureyri kynnt mjög áhugaverð þróunarverkefni sem unnið hefur verið að í skólanum á undanförnum árum. Til fróðleiks má geta þess að starfsfólk þessara skóla hefur ákveðið að eiga með sér samstarf þar sem kennarar geta borið saman bækur sínar og miðlað hugmyndum.

Þess hefur verið vænst að þessi breytta námstilhögun leiði til aukinnar aðsóknar að skólanum. Kynning á nýskipan námsins er rétt að hefjast en gefur engu að síður góðar vonir. Umsóknir nemenda sem koma beint úr grunnskóla voru fleiri í vor en í fyrra, auk þess sem þeir sem nefndu skólann sem varaskóla voru fleiri en oft áður.

Hindranir

Enda þótt verkefnið hafi gengið vel í heild hafa vissulega verið hindranir og markmið verkefnisins hafa ekki náðst hvað varðar alla nemendur. Nokkur hópur nemenda hefur ekki fundið sig í þessu umhverfi. Mat kennara er að um 10% nemenda hafi ekki notið sín við þessar aðstæður. Segja má að stöðug umræða hafi farið fram um það með hvaða hætti væri hægt að koma betur til móts við þá.

Þar sem kjarasamningar kennara miðast við aðra kennsluhætti en hér hefur verið lýst er ljóst að þeir geta sett starfinu nokkrar skorður, einkum hvað varðar allan sveigjanleika. Eins byggir þessi hugmyndafræði á samvinnu og teymisvinnu meðan kjarasamningar ganga út frá því að kennarinn sé einyrki. Ljóst er að ef halda á úti þróttmiklu og skapandi þróunarstarfi í framhaldsskólum þarf að gera ráð fyrir meiri tíma kennara til samvinnu og samráðs á starfstíma skólanna.

Húsnæði skólans hefur vissulega sett starfinu ákveðnar skorður. Skólastofur eru t.d. margar heldur litlar sem hindrar t.d. að uppröðun geti verið með þeim hætti sem kennarar kjósa. Þá hagar þannig til að kenna verður í mörgum byggingum og nemendur þurfa að fara á milli þeirra þegar þeir skipta um viðfangsefni. Þessu fylgja einnig einhverjir kostir (hreyfing, tilbreyting).

Breytingum fylgir oft óöryggi og viðbrögð við þeim eru oft þau að reynt er að spyrna við fótum (Fullan 2001, Tyack og Cuban, 1995). Því mátti búast við viðnámi í kennarahópnum, ekki síst í ljósi þess að verið var að ráðast í breytingar á rótgróinni skólastofnum með langa hefð. Þessi hindrun reyndist þó minni en ætla mátti. Vissulega komu upp efasemdir. Mörgum fannst of geyst farið, kennarar voru óöruggir á hlutverki sínu í vinnustofum og þeir höfðu áhyggjur af því að komast ekki yfir námsefnið þegar hefðbundnum kennslustundum fækkaði. Einnig má nefna eðlilegar áhyggjur tungumálakennara af því að nemendur fengju ekki næga talmálsþjálfun með þessu fyrirkomulagi. Þá hefur áður verið að því vikið að ekki voru allir jafn vel undirbúnir til nýta sér rafrænt kennsluumsjónarkerfi.

Á þessum tveimur árum sem liðin eru frá upphafi verkefnisins hafa efasemdaraddirnar hljóðnað og kennarahópurinn orðinn samtaka um að horfa frekar til þeirra tækifæra sem felast í breytingunum. Þar hafa aukin samskipti og samvinna átt stærstan hlut að máli.

Mat ráðgjafa er að meginvandi þessa tilraunastarfs hafi verið fólginn í þeim kröfum sem gerðar eru í Aðalnámskrá framhaldsskóla um að allir nemendur sem velja sama áfanga læri sama námsefnið. Ströng markmiðssetning í námskránni hefur bundið hendur kennara og unnið gegn nauðsynlegum sveigjanleika og möguleikum til einstaklingsmiðunar. Miklar vonir eru því bundnar við ákvæði í nýjum lögum um framhaldsskóla sem sett voru á nýafstöðunu þingi og skapa skólunum meira svigrúm til að ráða námskrám sínum.

Þá er það mat ráðgjafa að starfið sé of bóknámsmiðað og of bókarmiðað. List- og verkgreinar fá ekki verðugan sess og allt of mikill tími fer í eyðufyllingar og önnur hefðbundin verkefni á kostnað skapandi starfs. Tilraunir kennara á þessu skólaári til að brjóta upp hefðbundið form, og lýst var hér að framan, lofa vissulega góðu um framhaldið.

Næstu skref

Á næsta skólaári hafa verkefninu verið sett þrjú undirmarkmið. Í fyrsta lagi að styrkja leiðsagnarhlutverk kennara. Í öðru lagi að vinna með skipulegum hætti að aukinni samþættingu námsgreina og í þriðja lagi að leita leiða til að gera kennsluna enn meira lifandi með áhugaverðum verkefnum, bæði í einstökum áföngum og með því að brjóta skólastarfið upp með skapandi hætti.

Styrkari leiðsögn

Á næsta skólaári verður tekið upp svokallað leiðsögukennarakerfi sem byggist á því að hver nemandi fær leiðsögukennara í upphafi skólagöngu sinnar sem síðan fylgir honum til útskriftar. Markmið kerfisins er að:

 • Auka ábyrgð nemenda á eigin námi og námsframvindu

 • Bæta líðan og árangur

 • Bæta mætingu og minnka brottfall

 • Auka samvinnu nemenda og kennara

Hlutverk leiðsögukennara er skilgreint með svofelldum hætti:

 • Veita persónulega leiðsögn í gegnum alla skólagönguna

 • Fylgja eftir persónubundinni námsáætlun

 • Hvetja nemendur til að nýta hæfileika sína

 • Aðstoða nemendur við skipulag, námsaðferðir og námstækni

 • Vera nemendum innan handar í persónulegum og félagslegum málum og vísa áfram ef þörf krefur

 • Vera fulltrúi nemenda gagnvart skólayfirvöldum

 • Eiga samskipti við foreldra eða forráðamenn

Leiðsögukennarar munu vinna saman tveir og tveir. Hver leiðsögukennari fær sinn nemendahóp en er í samstarfi við annan leiðsögukennara og deila þeir m.a. viðtalsherbergi. Þess er gætt að einu sinni í viku a.m.k. sé nemendahópurinn allur á sama tíma í vinnustofu með leiðsögukennara sínum. Á þessum tíma hafa leiðsögukennarar aðgang að nemendum sínum til að ræða við þá einstaklingslega eða í hópum. Einu sinni í mánuði er þessi vinnustofutími frátekinn fyrir matsfundi. Þá hittir hver leiðsögukennari sinn hóp. Hlutverk þessara funda er að heyra raddir nemenda um skólastarfið og heldur leiðsögukennari til haga því sem brennur á nemendum og kemur því á framfæri. Fagkennarar munu láta leiðsögukennara vita ef ástundun nemenda er ábótavant og einu sinni í mánuði hittast leiðsögukennarar á sameiginlegum fundi. Ekki sjaldnar en einu sinni á önn er gert ráð fyrir að leiðsögukennari sé í sambandi við foreldra eða aðra forráðamenn ólögráða nemenda.

Í þessu sambandi er áhugavert að nýlegar rannsóknir benda eindregið til þess að gott samband kennara og nemenda og gott leiðsagnarkerfi sé sú nálgun sem vænlegust er til að tryggja sem bestan námsárangur og sporna gegn brottfalli úr námi (Ancess, 2008).

Samþætting námsgreina

Eitt af markmiðum nýja námsfyrirkomulagsins var að stefna að því að samþætting námsgreina og þverfaglegt nám yrði eðlilegur þáttur í skólastarfinu. Einnig var áhugi á að hvetja og virkja nemendur til þess að velja sér sjálfir viðfangsefni til úrlausnar sem tengjast í senn náminu og áhugasviðum nemenda. Sem skref í þessa átt er stefnt að því að nemendur og kennarar taki þátt í tveimur skipulögðum samþættingarverkefnum næsta skólaár þar sem verkefnadrifið nám fær einnig aukið vægi.

Í desember verða námsmatsdagar helgaðir verkefnadrifnu námi þar sem stefnt er að því að samþætta a.m.k. þrjá áfanga. Um er að ræða einstaklingsverkefni þar sem nemendur setja sjálfir fram áætlun um verkefni og setja sér markmið sem tengjast námsmarkmiðum þessara áfanga. Verkefninu lýkur með skriflegu prófi eða greinargerð sem allir nemendur vinna á sama tíma.

Tafla 4
Minnispunktar um samþættingarverkefni á haustönn 2008
Framkvæmd Námsmat
 • Verkefnið verður að ná til a.m.k. þriggja áfanga sem nemandinn er í og hann velur sjálfur í upphafi.

 • Markmiðin í verkefninu, sem nemandinn kýs að fást við, verða að vera tengd markmiðum þessara áfanga.

 • Nemandinn verður að ljúka þessu samþættingarverkefni til þess að ljúka viðkomandi áföngum.

 • Nemandinn setur sér markmið í upphafi verkefnis og gerir verkáætlun.

 • Nemandinn heldur vinnudagbók sem hann skilar með verkefninu.

 • Nemandinn vinnur verkefnið sjálfstætt en getur leitað til leiðsögukennara eða fagkennara.

 • Leiðsögukennarar hafa yfirumsjón með matinu

 • Gefnar verða þrjár einkunnir: Óviðunandi = Einkunn áfanga lækkar um 1.0. Viðunandi = Einkunn í áfanganum heldur sér. Gott = Einkunn áfanga hækkar um 1.0.

 • Nemendum er skipað sex til átta saman í samráðshópa sem fylgjast að (jafningjastuðningur).

 • Jafningjamat fer fram við verkefnaskil (gildir sem hluti einkunnar).

 • Sjálfsmat: Verður hluti af lokaprófi.

 • Kennaramat: Fer fram við verkefnaskil og einnig við yfirferð prófsins.

 • Sparifatapróf: Nemendur segja frá verkefninu sem þeir hafa unnið, t.d. hvernig þeim tókst að samþætta viðfangsefni, hvernig tókst að uppfylla markmið, hvað þeir lærðu af verkefninu, hvað mátti betur fara og hvaða ályktanir megi af því draga.

 • Ekki eru gefnar einkunnir fyrir sparifatapróf sérstaklega, heldur athugað hvort nemandinn hefur uppfyllt þau skilyrði sem sett voru – leiðsögukennarar leita til fagkennara ef á þarf að halda. Nemandi þarf að hafa unnið með hliðsjón af þeim markmiðum sem hann setti sér í upphafi.


Á vorönn munu nemendur fást við samþættingarverkefni sem skipulögð verða af kennurum. Kennarar vinna tveir og tveir saman og munu leggja fyrir verkefni sem tengist a.m.k. tveimur áföngum. Verkefnið gildir 1015% af námsmati hvers áfanga. Gert er ráð fyrir að nemendur vinni tveir saman eða í litlum hópum.

Ef vel tekst til á haustönn er stefnt að því að verkefni á vordögum verði tengt verkefnadrifnu námi þar sem lokahnykkurinn yrði síðustu daga skólaársins. Verkefnið er hugsað sem hópverkefni og verður unnið að undirbúningi og verkáætlun í nokkrar vikur í samráði við kennara. Framkvæmdin og verkefnaskil verða síðustu skóladagana.

Mynd 5 - Á forvarnardegi framhaldsskólanna 9. apríl fóru nemendur og starfsfólk
Framhaldsskólans á Laugum í meðmælagöngu! Gengið var að Goðafossi, alls 14 km leið.
Gengið var með friði, heilbrigðu líferni, ást, smokkum, notkun bílbelta, trausti, kærleika,
réttlæti, jafnrétti, velferð, von, samkennd og menntun. Þegar komið var að fossinum
var öllu því vonda í heiminum hnoðað í snjókúlur og fleygt í fossinn!
Ljósmynd: Úr myndasafni Framhaldsskólans á Laugum
 

Að brjóta upp skólastarfið

Í viðræðum við nemendur hefur komið fram að margir þeirra óska eftir því að skólastarfið sé oftar brotið upp. Tilbreyting í skólastarfi getur þjónað margvíslegum tilgangi. Markmiðið getur verið að efla áhuga, bæta samskipti, styrkja liðsheild eða gefa nemendum tækifæri til að vera meira skapandi í verkefnum sínum en hægt er að vera í hefðbundnu bóknámi. Í ljósi þessa hefur verið ákveðið að á næsta skólaári verði oftar vikið frá venjulegri dagskrá en gert hefur verið og um það gerð sú áætlun sem sjá má á töflu 5.

 

Tafla 5
Áætlun um viðburði í skólalífinu skólaárið 2008–2009
Haustönn Vorönn
 • Vestmannsvatn: Einnar nætur ferð með alla nemendur í upphafi annar.

 • Löng helgi: Mánudagur og þriðjudagur, 27. og 28. október.

 • Tveir óvissudagar: Hefðbundin kennsla felld niður, óhefðbundið nám. Annar dagurinn verði helgaður íþróttum (ganga, hlaup, keila, skíði ...). Hinn dagurinn verður helgaður sköpun (snjólistaverkagerð, spýtukalladagur ...).

 • Námsmatsvika í lok annar: Fimm dagar Samþætt, verkefnadrifið nám.

 • Sparifatapróf: Lokapróf fyrir alla síðasta dag annarinnar.

 • Þemadagar í febrúar: Haldnir í tengslum við Tónkvísl (forkeppni að söngvakeppni framhaldsskólanna) – með svipuðu fyrirkomulagi og vorið 2008, þ.e. stutt námskeið skipulögð af kennurum eða aðfengnum aðilum.

 • Samþættingarverkefni (janúar – mars): Kennarar vinna saman tveir og tveir.

 • Vorboð að Laugum á sumardaginn fyrsta: Skólinn opinn fyrir gestum og gangandi.

 • Námsmatsdagar í lok annar:
  Áætlun A: Hefðbundnir prófadagar.
  Áætlun B (ef vel tekst til á haustönn): Verkefnadrifið nám – hópverkefni.

Niðurlag

Spyrja verður hvað ráði mestu um þann góða árangur sem náðst hefur á þessum fyrstu tveimur árum verkefnisins. Oft miðar mjög hægt við skólabreytingar en eins og sjá má af þeim gögnum sem vísað hefur verið til í þessari grein má vel halda því fram að starfsfólkið í Framhaldsskólanum á Laugum hafi þegar tekið nokkur stór umbótaskref.

Mat ráðgjafa er að lykillinn að þeim góða árangri sem náðst hefur á Laugum sé fólginn í þeirri samstöðu sem tekist hefur að skapa um verkefnið í starfsmannahópnum öllum – stjórnendur, kennarar og aðrir starfsmenn hafa lagst á eitt. Þetta hefur tekist með stöðugu samráði alls hópsins allan tímann. Lýðræðisleg vinnubrögð hafa verið höfð að leiðarljósi.

Þá skiptir áreiðanlega máli hversu vel stýrihópur verkefnisins hefur undirbúið hvert skref. Gerðar hafa verið áætlanir og mat lagt á hvern áfanga. Ítarlegum gögnum hefur verið safnað á hverju stigi og ákvarðanir hiklaust endurskoðaðar ef þær hafa ekki gefið nægilega góða raun.

Þá kann að skipta máli að kennarahópurinn er mjög blandaður þó fámennur sé. Bakgrunnur kennara er t.d. mjög ólíkur. Í hópnum eru þrautreyndir kennarar sem búa yfir mikilli reynslu og ungir kennarar með ferskar hugmyndir. Þrátt fyrir þetta hefur hópurinn náð mjög vel saman.

Ytri stuðningur skiptir einnig máli. Ljóst er t.d. að stuðningur starfsmanna menntamálaráðuneytisins við verkefnið hefur verið þungt lóð á vogarskál velgengninnar. Hér er ekki aðeins átt við beina fjárstyrki sem fengist hafa heldur miklu fremur jákvæð viðhorf og hvatningu. Þá er nokkurt aðhald fólgið í ytri ráðgjöf.

Framhaldsskólinn á Laugum er lítill skóli í dreifbýli. Vissulega má halda því fram að slík skólagerð eigi undir högg að sækja nú á tímum þegar gerð er krafa um ítrustu hagkvæmni. Höfundar hafa skrifað þessar grein til að benda á möguleika til að skipuleggja kröftugt og skapandi skólastarf einmitt við þessar aðstæður.

Heimildir

Ancess, J. (2008). Smalll alone is not enough. How can educators recover the purposes of small schools. Educational Leadership, 65(8): 48–53.

Armstrong, Thomas, í þýðingu Erlu Kristjánsdóttur (2001). Fjölgreindir í skólastofunni. Reykjavík: JPV útgáfa.

Arnór Benónýsson, Hallur Birkir Reynisson, Ingvar Sigurgeirsson, Jóhanna Eydís Þórarinsdóttir og Valgerður Gunnarsdóttir (2007). Sveigjanlegt námsumhverfi. Persónubundin námsáætlun. Skýrsla um þróunarverkefni skólaárið 20062007. Þingeyjarsveit: Framhaldsskólinn á Laugum. [Sjá einnig á þessari slóð: http://www.laugar.is/vefur/skrar/Lokaskyrsla07.doc]

Fullan, M. (2001). The new meaning of educational change. (3. útgáfa.) New York og London / Toronto: Teachers College / Irwin Publishing.

Tyack, D. og Cuban, L. (1995). Tinkering toward Utopia: A century of school reform. Cambridge og London: Harvard University Press.

Rúnar Sigþórsson (2008). Mat í þágu náms eða nám í þágu mats: Samræmd próf, kennsluhugmyndir kennara, kennsla og nám í náttúrufræði og íslensku í fjórum íslenskum grunnskólum. Reykjavík: Kennaraháskóli Íslands.

Steinþór Þráinsson (2005). Saga Laugaskóla 19251988. Þingeyjarsveit: Framhaldsskólinn á Laugum.
 

Prentútgáfa     Viðbrögð