Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun

Kennaraháskóli Íslands

Grein birt 4. apríl 2008

Greinar 2008

Hafþór Guðjónsson

Starfendarannsóknir í Menntaskólanum við Sund

Í þessari grein lýsir Hafþór Guðjónsson starfendarannsóknum og þá sérstaklega rannsóknum kennara og stjórnenda við Menntaskólann við Sund í Reykjavík. Hafþór ræðir skilgreiningar á starfendarannsóknum og segir frá ástralska skólaþróunarverkefninu PEEL sem byggist á hugmyndafræði starfendarannsókna. Þá greinir hann frá skólaþróunarverkefni í Menntaskólanum við Sund þar sem hópur kennara hefur um þriggja ára skeið rannsakað eigin starfshætti með skólaþróun að markmiði. Höfundur er dósent í kennslufræði við Kennaraháskóla Íslands.

Inngangur

Starfendarannsóknir hafa verið að ryðja sér til rúms hér á landi að undanförnu, bæði sem einstaklingsframtak og sem samstarfsverkefni í skólum. Árið 1993 varði Hafdís Guðjónsdóttir meistaraprófsverkefni við University of Oregon sem hún kallaði One teacher effort og greindi þar frá rannsókn sem hún gerði á eigin kennslu sem grunnskólakennari. Síðan hafa komið út á annan tug íslenskra meistaraprófsritgerða sem telja má til starfendarannsókna (Anna Guðmundsdóttir, 2002; Björg Pétursdóttir, 2006; Bolette Høeg Koch, 2006; Erna Jóhannesdóttir, 1998; Guðrún Angantýsdóttir, 2005; Ingibjörg Auðunsdóttir, 2006; Jónína Vala Kristinsdóttir, 2003; Jóna Guðbjörg Torfadóttir, 2006; Kolbrún S. Hjaltadóttir, 2007; Lilja M. Jónsdóttir, 1995; Sigurbjörg Einarsdóttir, 2008; Sigurborg Kristjánsdóttir, 2007; Vigfús Hallgrímsson, 2000; Vilborg Jóhannsdóttir, 2001). Tveir Íslendingar hafa varið doktorsritgerðir á þessu sviði, Hafdís Guðjónsdóttir, árið 2000, og ég, árið 2002. Ritgerð Hafdísar heitir Responsive professional practice: Teachers analyze the theoretical and ethical dimensions of their work in diverse classrooms og segir frá starfendarannsókn sem unnin var í samstarfi við sex grunnskólakennara (Hafdís Guðjónsdóttir, 2004). Verkefni mitt kallaði ég Teacher learning and language: A pragmatic self-study og beinist, eins og heitið gefur til kynna, að sjálfum mér, nánar tiltekið starfi mínu með kennaranemum við Háskóla Íslands. Segja má að ritgerðin sé nokkurs konar „tiltekt“ í eigin ranni, tilraun til að endurskoða viðhorf mín og starfshugmyndir. Þegar upp var staðið fannst mér ég hafa náð áttum í því flókna landslagi sem kennaramenntun er, vissi nú betur en áður hvernig ég vildi vinna með kennaranemum (Hafþór Guðjónsson, 2003). Og líkast til hafa starfendarannsóknir oftar en ekki þannig áhrif. Það er engu líkara en að fólki vaxi ásmegin þegar það fær tækifæri til að rannsaka sitt eigið starf. Fólk skynjar þá starfið í nýju ljósi og finnst um leið að því miði nokkuð áfram, að einhver þróun eða endurnýjun eigi sér stað, að það sé að læra og þroskast í starfi. Þetta á ekki síst við þegar starfsfólk vinnur saman að starfendarannsóknum líkt og raunin hefur orðið við Menntaskólann við Sund (MS) og Borgarholtsskóla. Í þessum skólum hefur starfsfólk myndað hópa um starfendarannsóknir sem koma saman reglulega til að ræða framvindu mála og skiptast á skoðunum. Í MS eru tveir slíkir hópar að störfum en einn við Borgarholtsskóla, alls um þrjátíu manns, um tíu í hverjum hópi. Hópurinn í Borgarholtsskóla er eingöngu skipaður kennurum en í MS taka líka stjórnendur, félagsráðgjafi og bókasafnsfræðingur þátt í starfinu.

Tilgangurinn með þessari grein er að gera nokkra grein fyrir starfendarannsóknum og þá sérstaklega starfendarannsóknum við MS sem eiga sér brátt þriggja ára sögu. Að mínum dómi er þarna um að ræða frumkvöðlastarf sem varpar ljósi á hvað starfendarannsóknir eru og hvernig þær geta stuðlað að aukinni fagmennsku og skólaþróun. Áður en vikið verður að starfendarannsóknum við MS langar mig að segja lesandanum frá PEEL, verkefni sem á rætur að rekja til Ástralíu en hefur breiðst víða um lönd og er gott dæmi um starfendarannsókn þar sem kennarar vinna saman að því að rannsaka eigin starfshætti.

PEEL

PEEL er stytting fyrir Project for Enhancing Effective Learning. Verkefnið byrjaði árið 1984 í skóla einum, Laverton High School, í Melbourne í Ástralíu og hefur verið þar við lýði allar götur síðan en líka breiðst út til annarra skóla, innan Ástralíu sem utan. Eins og heiti þess gefur til kynna snýst verkefnið um nám: að nemendur verði meðvitaðri um nám sitt og taki námsviðhorf sín og námsvenjur til skoðunar, með það fyrir augum að þeir eflist sem námsmenn. Kennarar í Laverton High School voru einfaldlega orðnir þreyttir á því að horfa upp á stóran hluta nemenda lullast áfram í náminu líkt og stefnulaus reköld. Þeir voru því ekki lengi að taka við sér þegar doktorsnemi í nálægum háskóla, John Baird að nafni, leitaði til þeirra og spurði hvort þeir væru til í að vinna með honum að því að skoða hvernig mætti efla námsvitund (metacognition) nemenda en það var meginviðfangsefnið í doktorsverkefni hans. Fjórtán kennarar (þriðjungur kennara í skólanum) slógu til og PEEL varð að veruleika (Baird og Northfield, 1992). Ákveðið var að hópurinn myndi hittast vikulega, klukkutíma í hvert skipti og þannig hefur það verið allar götur síðan. Fyrstu tvö árin var Baird með hópnum en síðan varð hópurinn „sjálfala” ef svo má að orði komast, þ.e. kennararnir urðu smám saman öruggari með sig sem rannsakendur og tóku málin í sínar hendur.

Og hvað voru þeir svo að bauka? Í sem stystu máli þá lögðust þeir á eitt um að þróa kennsluaðferðir sem fengju nemendur til að skoða eigin viðhorf og námsvenjur gagnrýnum augum og taka nám sitt fastari tökum. Strax í upphafi var lögð áhersla á að PEEL kennarar skráðu það sem gerðist í tímum þegar þeir voru að prófa sig áfram með nýjar kennsluaðferðir. Skráningarnar urðu gjarnan að reynslusögum sem kennarar sögðu hver öðrum á vikulegum fundum og urðu þær tilefni vangaveltna og uppsprettur nýrra hugmynda sem kennarar tóku með sér í skólastofuna til að prófa í kennslu. Smám saman varð til myndarlegur gagnabanki, safn af sögum úr skólastofunni. Rúmum áratug eftir að verkefnið byrjaði kom út bók með PEEL sögum: Stories of Reflective Teaching. A Book of PEEL Cases (Mitchell og Mitchell, 1997). Formála bókarinnar ritar Jeff Northfield og segir m.a.:

Þegar ég fullyrði að góður og reyndur kennari hafi meiri þekkingu og dýpri skilning á kennslu og námi en nokkur rannsakandi eða fræðimaður þá er ég ekki að ögra neinum. Ég trúi þessu staðfastlega og ég held að það sé tími til kominn að halda þessu á lofti – við höfum hreinlega ekki efni á því að kennarar séu stöðugt undir hælnum á stjórnmálamönnum og skriffinnum sem ákvarða bæði markmið og leiðir í skólastarfi. Ég hef alltaf heillast af því hvað kennarar geta áorkað miklu þegar þeim eru gefin tækifæri og stuðningur til að efla skólastarfið og takast á við aðsteðjandi vandamál (Northfield, 1997, bls. iii).

Ég tek undir orð Jeff Northfield. Góðir og reyndir kennarar búa yfir mikilli þekkingu á skólastarfi. Aftur á móti er þessi þekking að miklu leyti dulin í þeim skilningi að hún er persónuleg reynsluþekking sem býr í kennaranum. PEEL verkefnið er að hluta til viðleitni til að fá þessa þekkingu upp á yfirborðið, gera reynsluþekkingu kennara sýnilega öðrum þannig að hún nýtist öðrum. Hér er söguformið nærtækt. Kennurum (líkt og almenningi) virðist eðlilegt að tjá reynslu sína í formi frásagnar, líklega vegna þess að frásögnin hentar vel til að vefa saman marga þræði; og allir sem hafa kennt eitthvað að ráði vita að kennsla er flókið fyrirbæri, að þar fléttast saman margir þræðir.

PEEL sögunum fjölgar jafnt og þétt. Upp á síðkastið hafa PEEL kennarar brugðið á það ráð að gefa út geisladiska með PEEL sögum. Nýjasti diskurinn innheldur yfir 1300 sögur sem hafa verið flokkaðar með ýmsum hætti, til dæmis eftir aldri nemenda, námsgreinum, námsefni og daglegum viðfangsefnum kennara. Þess má geta að meistaraprófsnemi við Kennaraháskóla Íslands, Eygló Ragnhildur Sigurðardóttir, vinnur að því að byggja upp gagnabanka fyrir kennara. „Skólasögur“ mun hann líklega heita og hefur PEEL að fyrirmynd. Eygló vinnur nú að því að safna reynslusögum frá kennurum, frásögnum um eitt og annað sem þeir hafa verið að gera í kennslustofum, eitthvað sem þeim hefur fundist „ganga“ á einhvern hátt eða „gefist vel“ í einhverjum skilningi þess orðs. Eygló mun fara að fordæmi PEEL kennara og flokka sögurnar, til dæmis eftir námsgreinum, námsefni, aldri nemenda, praktískum vandamálum o.fl. Hægt verður að slá inn leitarorð þar sem notendur gagnagrunnsins geta leitað að því vandamáli sem þeir eru að glíma við. Sé kennari til að mynda að velta því fyrir sér hvernig hann geti kennt skapandi skrif, slær hann inn „skapandi skrif” og þá ættu að koma upp nokkrar reynslusögur frá kennurum sem hafa verið að vinna með slík verkefni. Hugmyndin er að í upphafi verði gagnagrunnurinn opinn öllum á meðan verið er að safna sögum í grunninn. Síðan verði kennarar áskrifendur og fyrir það þurfa þeir að leggja til eina sögu á ári. Þannig safnast upp margar reynslusögur sem aðrir kennarar geta nýtt sér. Á sérstökum kynningarvef sem Eygló hefur gert um PEEL getur lesandinn fundið nokkur dæmi um slíkar sögur (Eygló R. Sigurðardóttir, 2006).

Hvað er starfendarannsókn?

Fyrir stuttu hafði vinnufélagi minn í Kennaraháskólanum samband við mig og bað mig um stutta og hnitmiðaða skilgreiningu á starfendarannsókn. Ég hikaði við og það sló mig að ég hafði, fram að þessu, forðast slíka skilgreiningu. Málið er nefnilega dálítið flókið og ef til vill eldfimt. Þegar ég nota orðið starfendarannsókn þá er ég með í huga býsna fjölbreytta flóru rannsókna og ýmis ensk heiti, til dæmis practitioner research, action research, practical inquiry og self-study. Með öðrum orðum, ég læt íslenska orðið starfendarannsókn ná yfir öll þessi ensku heiti og er þá auðsætt að skilgreiningin á því, hvernig sem hún annars er orðuð, hlýtur að verða víð. Svar mitt við beiðni vinnufélaga míns varð eftirfarandi:

Í stuttu máli má segja að starfendarannsókn sé rannsókn sem starfsmaður gerir á eigin starfi í því augamiði að skilja það betur og þróa til betri vegar. Grunnhugmyndin er að læra í starfi: taka til athugunar reynslu sem maður verður fyrir og þá með þeim ásetningi að átta sig betur á því sem maður er að gera og hvaða afleiðingar gerðir manns hafa. Starfendarannsóknir hafa verið að hasla sér völl í skólum. Kennarar sem taka þátt í slíkum rannsóknum beina athyglinni að eigin starfsháttum og áhrifum þeirra á nemendur. Þeir taka til athugunar ákveðna og afmarkaða þætti í starfinu, prófa nýjar leiðir og kanna hvernig til tekst. Lykilatriðið er alltaf skráning og gagnasöfnun, að maður skrái það sem gerist og afli gagna um það sem maður er að gera og hafi þannig eitthvað í höndunum til að greina og ræða um við aðra. Í skólum er algengt að kennarar starfi saman að slíkum rannsóknum og hittist reglulega til að fara yfir gögn sem þeir hafa aflað. Í slíkum hópum gefst fólki líka tækifæri til að læra hvert af öðru og þróa þannig hugmyndir sínar og hugsun, bæði sem rannsakendur og kennarar.

Starfendarannsóknir við Menntaskólann við Sund

Í Menntaskólanum við Sund hefur verið lögð áhersla á skipulagt sjálfsmat í mörg ár og hefur skólinn m.a. tekið þátt í alþjóðlegu samstarfi á þessu sviði. Haustið 2005 var því ákveðið að hleypa af stokkunum sérstöku þróunarverkefni í sjálfsmati skólans þar sem starfendarannsóknir yrðu hafðar í öndvegi. Í skýrslu sem Hjördís Þorgeirsdóttir (2006a) gerði um starfendarannsóknir í MS eftir reynsluna af fyrsta árinu sem þær voru stundaðar skrifar hún:

Tilgangurinn var að veita kennurum og stjórnendum tækifæri til að bæta sig í starfi og þróa kennslu- og stjórnunarhætti sína með því að gera starfendarannsókn, ígrunda starf sitt og fara í jafningjamat. Helstu markmiðin voru að efla kennara og stjórnendur í starfi, styrkja og þróa sjálfsmat í MS, bæta skólastarf, gera nám nemenda skilvirkara og innihaldsríkara og bæta námsárangur nemenda....Samtals tóku 11 kennarar og stjórnendur þátt í rannsókn á eigin starfi. Sameiginlegur flötur var nemendur og hópurinn ákvað að sameiginlegt markmið hópsins og útgangspunktur hjá öllum yrði að auka meðvitund nemenda fyrir því að bera ábyrgð á eigin námi (bls. 3).

Hópurinn fékk mig til að taka þátt í þessu starfi og skyldi ég vera „faglegur ráðgjafi“ eins og það er orðað í skýrslu Hjördísar en einnig höfum við átt gott samstarf við Jean McNiff, prófessor við St. Mary’s University College í London. Hún hefur komið til Íslands nokkrum sinnum undanfarin ár til að styðja við bakið á okkur. McNiff er þekktur fræðimaður á sviði starfendarannsókna og hefur skrifað fjölda greina og bóka um slíkar rannsóknir eða „action research“ eins og hún kallar þær á sinni tungu. Á heimasíðu hennar (http://www.jeanmcniff.com/) er margvíslegt efni um starfendarannsóknir, þar á meðal aðgengilegur bæklingur sem ber heitið Action research for professional development. Concise advice for new action researchers. Segja má að þessi bæklingur hafi orðið nokkurs konar fræðileg kjölfesta í starfendarannsóknum okkar í MS. McNiff leggur á það áherslu að starfendarannsóknir séu ekki skýrt afmarkað fyrirbæri, að fólk hugsi um starfendarannsóknir á ólíka vegu og takist jafnvel á um hvernig beri að skilgreina þær. Þetta er eðlilegt, segir hún og af hinu góða og í raun í anda starfendarannsókna sem snúast, þegar grannt er skoðað, um lýðræði og rétt fólks til að tala fyrir sjónarmiðum sínum. Ég tek undir með McNiff. Við leggjum bæði á það ríka áherslu að starfendarannsóknir séu leið fyrir skólafólk til að koma hugmyndum sínum á framfæri og þróa þær í samvinnu og samræðu við starfsfélaga og fræðimenn og taka þannig virkan þátt í því að þróa eigin starfshætti og efla skólastarfið. Heiti bæklings McNiff, sem ég nefndi til sögunnar, endurspeglar þessa áherslu á þroskun fagmennsku: Action research for professional development“. Í upphafsorðum spyr McNiff hvað starfendarannsókn sé og svarar spurningunni þannig:

Starfendarannsókn er hugtak sem bendir á praktíska leið fyrir þig að rýna í eigin starfshætti í því augamiði að kanna hvort þeir séu eins og þú vildir hafa þá. Rannsókn af þessu tagi kallast starfendarannsókn vegna þess að það ert þú – starfsmaðurinn – sem gerir hana; og þar sem hún felur í sér að þú ert að hugsa um – ígrunda – eigið starf má einnig segja að hér sé um ákveðna sjálfsskoðun eða sjálfsrýni að ræða (McNiff, 2002).

Hér bendir McNiff á ákveðin lykilhugtök: ígrundun og sjálfsrýni. Hefðbundnar menntarannsóknir beinast að fólki og atburðum „þarna úti“. Starfendarannsókn (a.m.k. það afbrigði sem ég og McNiff aðhyllumst) beinist aftur á móti bæði að því sem er „þarna úti“ og því sem er „þarna inni“: viðhorfum, gildum og hugmyndum okkar sjálfra, rannsakendanna. Þegar ég hitti hópana mína í MS (um það bil einu sinni í mánuði) ræðum við vitaskuld um rannsóknir einstakra þátttakenda en við beinum líka athyglinni að okkur sjálfum, spyrjum af hverju við gerum hlutina eins og við gerum þá, hvað okkur gangi til. Þegar þannig er spurt verður fólk gjarnan meðvitaðra en áður um að það er hluti af stærri heild, skólamenningu sem markar því bás og mótar venjur þess og starfshætti. Hlutverk starfendarannsókna í skólum er meðal annars fólgið í því að rýna í skólamenninguna og átta sig á því hvernig hún mótar hugsun okkar og starfshætti – taka til gagnrýnar skoðunar það sem er orðið að vana og rútínu og spyrja hvort það samræmist í raun þeim gildum sem maður trúir á. Og þetta gerum við í MS. Fyrir okkur felst starfendarannsókn ekki síst í því að rýna í eigin viðhorf og þann jarðveg sem þau eru sprottin úr.

Starfendarannsóknir okkar fela þannig í sér starfsrýni, sjálfsrýni og menningarrýni. Og við lítum á samtöl okkar um þessa hluti sem hluta af rannsóknum okkar og sem sérstaka rannsóknaraðferð. Þegar við tölum saman á þann hátt sem við gerum á þessum fundum (gerum okkur far um að hlusta vel á hvert annað og bregðast við því sem aðrir segja með það í huga að skilja og þróa hugsunina) verður til sérstakt samveruform („samtal“) sem í vissum skilningi gerir okkur „höfðinu hærri“ en við erum sem einstaklingar[1]. Cochran-Smith og Lytle (1993), þekktir frumkvöðlar starfendarannsókna í Bandaríkjunum, eru meðvitaðar um þetta fyrirbæri og kalla það samtalsrýni („oral inquiry“). Þær telja slíka rýni mikilvægan þátt í starfendarannsóknum; það sé einmitt í gegnum samtöl af þessu tagi sem hugtök og hugmyndir rannsakenda skýrist og dýpki og fleiri sjónarmið komi inn í myndina. Höfum í huga að rannsókn er í vissum skilningi nám. Þegar við rannsökum fyrirbæri erum við að læra um fyrirbærið, öðlast betri skilning á því. Starfendarannsóknir má því skoða sem viðleitni starfsfólks að læra í starfi, skilja betur og dýpra hvað það er að fást við og öðlast þannig innsýn og þekkingu sem fleytir því áfram og skapar því ný sóknarfæri og betri möguleika á að þróa starfshætti sína. Þannig séð eru samtöl mikilvægur þáttur í starfendarannsóknum. Fólk dýpkar skilning sinn á viðfangsefnum með því að ræða saman um þau og hlusta eftir sjónarmiðum hvers annars. Því má bæta við að lestur fræðigreina hefur verið fastur liður í starfendarannsóknum í MS. Slíkur lestur gefur fólki gjarnan ný og jafnvel óvænt sjónarhorn á hlutina og stuðlar að því að þroska samskipti okkar, efla orðræðuna. Hjördís Þorgeirsdóttir (2006a) kemur inn á þetta í fyrrnefndri skýrslu sinni:

Áhersla Hafþórs á að nauðsynlegt væri að breyta orðræðunni var lykilatriði og lögð var áhersla á að gera tilraun til að tengja raunveruleikann við fræðin sem var hvatning fyrir kennara til að lesa kennslufræðilegt efni í tengslum við rannsóknina (bls. 13).

Milli funda í rannsóknarhópnum sinntu þátttakendur sínum rannsóknarverkefnum með ýmsum hætti:

Hver kennari / stjórnandi safnaði gögnum um eigið starf og notaði ferilmöppu til þess. Mismunandi rannsóknaraðferðir voru notaðar, sumir gerðu kannanir meðal nemenda, sumir tóku viðtöl við nemendur upp á segulband, sumir skrifuðu minnispunkta eftir kennslustundir, sumir útbjuggu eyðublöð til að útfylla sjálfir eða til að láta nemendur útfylla. Hver kennari / stjórnandi í sjálfsmatshópnum ígrundaði starf sitt með því að halda dagbók allt skólaárið og taka þátt í samræðum við jafningja um starf sitt. Mynduð voru teymi tveggja til þriggja kennara eða stjórnenda sem unnu saman að því að ræða saman um framvindu starfendarannsóknarinnar og sumir fóru einnig í heimsóknir í kennslustundir til hvors annars. Haldnir voru samtals 12 fundir í sjálfsmatshópnum, 6 á hvorri önn. Þess á milli voru þátttakendur í tölvusamskiptum og óformlegum samræðum (Hjördís Þorgeirsdóttir, 2006a, bls. 7).

Dæmi um rannsóknarverkefni

Rannsóknarverkefni þátttakenda hafa verið af ýmsu tagi. Hér er ekki rými til að lýsa hverju verkefni fyrir sig en eftirfarandi dæmi ættu að nægja til að gefa lesandanum nokkra hugmynd um hvað fólk tók sér fyrir hendur í þessum rannsóknum. Lífsleiknikennarinn í hópnum, Sjöfn Guðmundsdóttir, setti sér sem markmið að auka færni nemenda í rökræðum með því að nota umræðuaðferð sem kennd er við Sókrates. Í skýrslu sinni segir Sjöfn:

Strax í upphafi verkefnisins var ég með þá hugmynd að reyna að finna góða aðferð til að efla rökræðu meðal nemenda í anda heimspekinnar ... Í aðalnámskrá framhaldsskóla í lífsleikni er í höfuðmarkmiðunum lögð áhersla á sjálfstæða hugsun, siðvit, borgaravitund og tjáningu. Í minni lífsleiknikennslu hef ég lagt áherslu á að skapa umræðu í tímum, með áðurnefnd markmið í huga. Mér finnst það mikilvægt að nemendur fái kennslu og þjálfun í að koma skoðunum sínum á framfæri á þann hátt að tekið sé mark á þeim. Gagnrýnin hugsun er líka mikilvæg í þessu tilliti. Með því að hlusta á skoðanir og/eða fullyrðingar og læra að vega og meta rökin er verið að ýta undir gagnrýna hugsun.Ýmis álitamál bæði siðfræðileg og út frá dægurmálum hafa verið tekin fyrir í tímum. Oftar en ekki hefur reynst erfitt að virkja allan hópinn, fá alla til að hlusta og fá góð rök í umræðuna. ... Þetta gekk alveg ljómandi vel fyrir sig og kom það mér á óvart hve vel nemendum gekk að tileinka sér þett og hve þeim var umhugað um að standa sig vel og fá stig fyrir frammistöðuna (Sjöfn Guðmundsdóttir, 2006).

Eins og fram hefur komið var þátttakendum í rannsóknarverkefninu umhugað um að gera nemendur sjálfstæðari og virkari í náminu, til dæmis Þorbirni Guðjónssyni, efnafræðikennara:

Eftir að hafa farið í gegnum glæru-, hópvinnu-, skjávarpa- og dæmasýningartímabil þá er ég alltaf að leita að aðferðum sem virkja nemendur þannig að hjá þeim vakni frumkvæði og metnaður. Einnig finnst mér mikilvægt að nemendur finni eða upplifi að æfingin við að leysa verkefni í skólanum gefi þeim sjálfstraust og geri þá óhræddari við að takast á við ný viðfangsefni („finni ánægjuna af því að ráða við/ leysa verkefnin”). Í vetur hef ég verið upptekinn af hugtakinu færni. Ég hef verið að ýta nemendum út í sem sjálfstæðust vinnubrögð (Þorbjörn Guðjónsson, 2006).

Sem fyrr segir eru það ekki bara kennarar sem hafa tekið þátt í þessum rannsóknum heldur líka stjórnendur. Hjördís Þorgeirsdóttir, konrektor, setti sér það markmið að bæta formleg viðtöl við nemendur, auka óformleg tengsl við nemendur MS og ræða við þá um markmið og ábyrgð þeirra á námi sínu. Það kemur fram í skýrslu Hjördísar að fljótlega komu fram áhrif til hins betra:

Samtöl við nemendur sem koma til mín á skrifstofuna eru í fastari skorðum og ég fylgi ákveðnum vinnureglum þar sbr. t.d. eyðublað fyrir kvartanir. Ég er einnig meðvitaðri um að gefa þeim alltaf tíma, bjóða þeim sæti etc. því oft er raunverulega erindið annað en þau nefna fyrst. Ég legg einnig meiri áherslu á eftirfylgni. Bæði tek ég mál upp á hálfsmánaðarfundum stjórnenda með námsráðgjöfum og spyr kennara um hvernig gangi með ákveðna nemendur (Hjördís Þorgeirsdóttir, 2006b).

Kennararnir sem taka þátt í starfendarannsóknum við MS koma úr ýmsum greinum. Það hafði vitaskuld áhrif á val rannsóknarverkefna. Til að mynda setti Ósa Knútsdóttir, dönsku-kennari, sér það markmið að auka talþjálfun nemenda sinna í tilteknum bekk. Hún fór þá leið að láta nemendur flytja erindi fyrir bekkinn um sjálfvalið efni. Og hvernig gekk þetta?

Þetta verkefni gilti 10% af vetrareinkunn þeirra og voru gerðar ákveðnar kröfur um bæði lengd og innihald (þ.e. vandaða efnismeðferð!) Nemendur máttu nota ýmis hjálpargögn við fyrirlesturinn svo sem glærur, Power Point, myndbandsbút osfrv. Satt best að segja tókst þetta ótrúlega vel og mun ég hiklaust halda þessu áfram á komandi árum (Ósa Knútsdóttir, 2006).

Gildi og gagnsemi verkefnisins

Af skýrslu Hjördísar um starfendarannsóknir við MS má ráða að þátttakendur séu sammála um gildi þeirra og gagnsemi, að það sé mikilvægt að skoða starfið sitt með gagnrýnum huga, leita leiða til að þróa sig í starfi og fá tækifæri til að ræða við aðra um hugmyndir sínar og viðhorf. Hitt ber að hafa í huga að það er ekki auðvelt að festa hendur á gagnsemi verkefnis af þessu tagi. Hannes Hilmarsson, stærðfræðikennarinn í hópnum, vakti athygli á þessu í erindi sem hann hélt þegar hópurinn fór til London til að taka þátt í alþjóðlegu málþingi um starfendarannsóknir við St. Mary’s University College í febrúar 2007. Þar benti Hannes á að þátttaka í rannsóknarhópnum hefði verið nokkurs konar „þerapía“ fyrir sig og kannski fleiri (Hannes Hilmarsson, 2007). Bara það að fá tækifæri til að koma saman og ræða um starfið í dýpt og finna að það er hlustað á mann eykur manni gleði í starfi og gefur manni aukinn kraft, hressir mann við. Halla Kjartansdóttir, íslenskukennari, velti líka fyrir sér gagnsemi starfendarannsókna í fyrirlestri sem hún hélt í MS og komst að eftirfarandi niðurstöðu:

  • Gerir starfið „sýnilegra”.

  • Veitir tækifæri til að vinna markvisst að betri vinnubrögðum.

  • Hvati til að leggja enn meiri alúð í starfið.

  • Gefur nýtt sjónarhorn á starfið og vinnur gegn því að það sé ,,unnið á sjálfsstýringunni”.

  • Færir kennarann skrefi nær nemandanum (Halla Kjartansdóttir, 2006a).

Halla segir að starfendarannsóknir geti fært kennarann „skrefi nær nemandanum“. Hvað á hún við með þessu? Svarið felst að einhverju leyti í eftirfarandi sögu sem Halla segir í skýrslu um rannsóknir sínar (Halla Kjartansdóttir, 2006b). Hún hafði verið að fara yfir bókina Sjálfstætt fólk eftir Halldór Kiljan Laxness og ákvað að leggja fyrir nemendur sína nokkrar spurningar um afstöðu þeirra til bókarinnar. Á þessum tíma voru nemendur búnir að taka próf úr bókinni. Voru þeir hvattir til að hugsa um áhrif bókarinnar á sig – glíma við eftirfarandi spurningar: Hvað gaf þessi saga mér? Hvað situr eftir af efni eða persónum að lestri loknum? Vakti sagan mig til umhugsunar um þjóðfélagsmál? Nemendur þurftu ekki að setja nafn sitt við svör sín enda tilgangurinn af hálfu Höllu að forvitnast um viðhorf þeirra almennt, ekki einstaklinga í hópnum. Í skýrslu sem Halla skrifaði um starfendarannsókn sína segir hún eftirfarandi um þennan þátt rannsóknarinnar, svör nemenda:

Úr þessum gögnum vann ég og varpaði svörum þeirra upp á glærur og notaði sem umræðugrundvöll í kennslustund. Þetta fannst mér ótrúlega spennandi aðferð og raunar alveg ný nálgun þ.e. að skrá ummæli þeirra svona markvisst niður og setja þau síðan skipulega upp og varpa þeim á glæru. Ekki viss um að þessi hugmynd hefði kviknað nema vegna rannsóknarinnar. Þetta er í rauninni aðferð umræðunnar eða umræðuformsins í skriflegu formi. Þetta gaf nemendum frelsi til að tjá sig um námsefnið án þess að þurfa að velta fyrir sér hverju orði eins og í ritgerð eða á prófi eða að þurfa að standa fyrir máli sínu fyrir framan hópinn. Með þessari aðferð voru þau knúin til að tjá persónulega afstöðu sína til námsefnisins. Þarna lærðu þau líka áreiðanlega sitthvað af viðbrögðum hvers annars þegar afrakstur var sýndur og skiptar skoðanir í bekknum vörpuðu ljósi á ólíkan smekk, túlkun og skilning á sögunni. Og allt þetta vakti síðan enn frekari viðbrögð í kjölfarið því þau gátu andmælt, samsinnt eða einfaldlega skemmt sér yfir svörum hvers annars. Þarna datt ég niður á góða kennsluaðferð sem hægt er að nota við ýmis tækifæri (Halla Kjartansdóttir, 2006a).

Hér sjáum við dæmi um fyrirbæri sem einkennir gjarnan starfendarannsóknir kennara í skólum: Rannsóknin og kennslan tvinnast saman. Áður en Halla veit af er rannsókn hennar farin að móta starfshætti hennar. Hún notar gögn sem verða til í rannsókninni, setur þau á glærur og kynnir fyrir bekknum. Þetta vekur athygli, ný tegund af umræðu verður til í bekknum, umræða sem beinir athygli nemenda ekki einasta að námsefninu heldur líka að eigin viðhorfum og eigin gildum. Þeir læra ekki bara um námsefnið heldur kynnast sjálfum sér og félögum sínum í leiðinni.

Að eignast gögn um eigið starf

Af sýnishornum þeim sem hér hafa verið gefin sést að í starfendarannsóknum í MS hafa þátttakendur verið iðnir við að prófa eitt og annað. Þetta er í sjálfu sér ekkert nýtt, margir kennarar eru iðnir við kolann að þessu leyti. Það sem er nýtt hér er skráningin og gagnasöfnunin. Þátttakendur í rannsóknarhópnum í MS eru ekki aðeins að prófa eitt og annað heldur gera þeir sér líka far um að skrá það sem þeir upplifðu og afla gagna með skipulögðum hætti: Flestir halda dagbók, aðrir láta sér nægja minnispunkta, sumir nota spurningalista, aðrir hljóðrita viðtöl við nemendur, enn aðrir taka ljósmyndir eða notast við myndbandsupptökur. Aðalatriðið er þetta: starfsfólkið eignast gögn um eigið starf, gögn til að rýna í og ræða um við aðra, gögn til að byggja á þegar kemur að því að skipuleggja eða endurskipuleggja starfið. Það sem háir einkum þróun kennarastéttarinnar til aukinnar fagmennsku er skortur á skráningu, að það sem gert er, til dæmis í skólastofu, sé að einhverju marki og á einhvern hátt skráð þannig að starfsþekking skólafólks verði sýnileg, bæði þeim sem í hlut eiga og öðrum, til dæmis nýjum kennurum. Nú á tímum er það þannig að þegar reyndur kennari hverfur af vettvangi skólans þá hverfur um leið sú starfsþekking sem hann hefur byggt upp með sjálfum sér – vegna þess að hún er hvergi skráð nema í líkama og hug þess sem kveður. Þannig fer gríðarleg þekking á kennslu og námi forgörðum á hverju ári. Starfendarannsóknir í skólum má skoða sem viðleitni til að snúa af þessari braut og sem hvatningu til að taka eigin starfsþekkingu alvarlega, koma henni á framfæri við aðra og byggja upp sameiginlegan þekkingargrunn kennara og annarra sem starfa í skólum.

 

Aftanmálsgrein

  1. Þegar ég tala um að við verðum „höfðinu hærri“ hef ég í huga orð Vygotskys sem hann hafði um leik barna: „ Í leik er barnið alltaf eldra en lífaldur þess segir til um, ofar daglegri hegðun, það er engu líkara en að það sé höfðinu hærra en það er annars“ (Vygotsky, 1978, kafli 7, bls. 102).

 

Heimildaskrá

Anna Guðmundsdóttir (2002). „Það er bara heilans vandamál“: starfendarannsókn á kennslu í gagnvirkum lestri á miðstigi. M.Ed.-ritgerð. Reykjavík: Kennaraháskóli Íslands.

Baird, J. R. and Northfield, J. R. (1992). Learning from the PEEL Experience. Melbourne: The Monash University Printing Services.

Björg Pétursdóttir (2006). „Það eru samskiptin sem breyta þessu öllu saman“. Viðbrögð framhaldsskólanema í náttúrurfræði við óhefðbundnu námsumhverfi. M.Ed.-ritgerð. Reykjavík: Kennaraháskóli Íslands.

Bolette Høeg Koch (2006). Þróun náttúrufræðikennslu við Þjórsárskóla. M.Ed.-ritgerð. Reykjavík: Kennaraháskóli Íslands.

Cochran-Smith, M. og Lytle, S. L. (1993). Inside/Outside. Teacher Research and Knowledge. New York: Teachers College Press.

Erna Jóhannesdóttir (1998). Þróunarverkefni um samvinnunám: starfendarannsókn. M.Ed.-ritgerð. Reykjavík: Kennaraháskóli Íslands.

Eygló R. Sigurðardóttir (2006). PEEL árangursríkt skólastarf. Kynningarvefur. Vefslóð: http://www.eyglo.com/PEEL/default.htm.

Guðrún Angantýsdóttir (2005). Getur nýtt námsefni stuðlað að þróun kennara í starfi? Starfendarannsókn á kennslu í stærðfræði á miðstigi. M.Ed.-ritgerð. Reykjavík: Kennaraháskóli Íslands.

Hafdís Guðjónsdóttir (1993). One teacher effort. Meistaraprófsverkefni varið við University of Oregon. Eugene: University of Oregon.

Hafdís Guðjónsdóttir (2000). Responsive professional practice: Teachers analyze the theoretical and ethical dimensions of their work in diverse classrooms. Óútgefin doktorsritgerð. Eugene: University of Oregon.

Hafdís Guðjónsdóttir (2004). Kennarar ígrunda og rannsaka sitt starf. Tímarit um menntarannsóknir 1(27–38).

Hafþór Guðjónsson (2002). Teacher learning and language: A pragmatic self-study. Óútgefin doktorsritgerð. Vancouver: University of British Columbia.

Hafþór Guðjónsson (2003). Að rannsaka eigin rann frá pragmatískum sjónarhóli. Í Friðrik H. Jónsson (ritstj.), Rannsóknir í félagsvísindum IV, bls. 333–342. Reykjavík: Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands.

Halla Kjartansdóttir (2006a). Starfsrýni. Erindi í Menntaskólanum við Sund 26. maí 2006. Reykjavík: Menntaskólinn við Sund.

Halla Kjartansdóttir (2006b). Starfsrýni – rannsóknarskýrsla. Óútgefin skýrsla. Reykjavík: Menntaskólinn við Sund.

Hannes Hilmarsson (2007). Improving my students’ mathematics competence. Erindi flutt á alþjóðlegu málþingi um starfendarannsóknir við St. Mary’s University College í febrúar 2007. Reykjavík: Menntaskólinn við Sund.

Hjördís Þorgeirsdóttir (2006a). Sjálfsmat kennara: Rannsókn á eigin starfi. Skýrsla um þróunarverkefni skólaárið 2005–2006. Sótt á vef Menntaskólans við Sund 15. mars 2008 af slóðinni http://www.msund.is/Kennarar/HjordisT/Skyrsla0607.doc.

Hjördís Þorgeirsdóttir (2006). Starfsrýni – rannsóknarskýrsla. Óútgefin skýrsla. Reykjavík: Menntaskólinn við Sund.

Ingibjörg Auðunsdóttir (2006). Árangursríkt samstarf: þróunarverkefni um bætt samstarf heimila og skóla. M.Ed.-ritgerð. Akureyri: Háskólinn á Akureyri.

Jóna Guðbjörg Torfadóttir (2006). Að fást við eða slást. Starfendarannsókn framhaldsskólakennara á samskiptum við nemendur. M.A.-ritgerð. Reykjavík: Háskóli Íslands.

Jónína Vala Kristinsdóttir (2003). Þróun kennara í starfi: rannsókn kennara á eigin stærðfræðikennslu á yngsta stigi grunnskóla. M.Ed.-ritgerð. Reykjavík: Kennaraháskóli Íslands.

Kolbrún S. Hjaltadóttir (2007). Þetta er einhvern veginn auka: tölvutækni sem verkfæri í skólastarfi? M.Ed. – ritgerð. Reykjavík: Kennaraháskóli Íslands.

Lilja M. Jónsdóttir (1995). Integrating the curriculum: a story of three teachers. M.Ed.- ritgerð. Ontario: The Ontario Institute for Studies in Education, University of Ontario.

Ósa Knútsdóttir. 2006. Starfsrýni – rannsóknarskýrsla. Óútgefin skýrsla. Reykjavík: Menntaskólinn við Sund.

McNiff, J. (2002). Action research for professional development. Concise advice for new action researchers. Vefslóð: http://www.jeanmcniff.com/books/booklet1.html.

Mitchell, I. og Mitchell, J. (ritstj.). (1997). Stories of reflective teaching. Melbourne: PEEL Publishing.

Northfield, J. (1997). Foreword. Í I. Mitchell og J. Mitchell, (ritstj.), Stories of reflective teaching, bls. iii. Melbourne: PEEL Publishing.

Sigurbjörg Einarsdóttir (2008). „Svarið er ekki endilega eitt“. Starfendarannsókn á bókmenntakennslu í framhaldsskóla. M.A.-ritgerð. Reykjavík: Háskóli Íslands.

Sigurborg Kristjánsdóttir (2007). Svona gerum við [rafrænt efni]: innleiðing á PMT-verkfærum með starfendarannsókn í leikskóla. M.Ed.- ritgerð. Akureyri: Háskólinn á Akureyri.

Sjöfn Guðmundsdóttir (2006). Starfsrýni – rannsóknarskýrsla. Óútgefin skýrsla. Reykjavík: Menntaskólinn við Sund.

Vigfús Hallgrímsson (2000). „Ágætt spark í rassinn”: rannsóknarskýrsla um athuganir kennara á námskeiði með það að markmiði að auka starfshæfni sína og bæta kennsluaðstæður. M.Ed.-ritgerð. Reykjavík: Kennaraháskóli Íslands.

Vilborg Jóhannsdóttir (2001). Markmið og mælingar: þróun mælikvarða á árangur í félagslegri þjónustu við fólk með fötlun. M.Ed.-ritgerð. Reykjavík: Kennaraháskóli Íslands.

Vygotsky, L. S. (1978). Mind in society. The development of higher psycological processes. Cambridge: Harvard University Press.

Þorbjörn Guðjónsson (2006). Starfsrýni – rannsóknarskýrsla. Óútgefin skýrsla. Reykjavík: Menntaskólinn við Sund.

Prentútgáfa     Viðbrögð