Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun

Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands

Prentútgáfa greinar frá 30. desember 2007

Greinar 2007

Hrefna Arnardóttir

Verkfæri, miðill, samskiptatól eða kennari

Hugmyndir um notkun tölvunnar í skólastarfi síðustu 30 ár

Grein þessi byggist á lokaritgerð höfundar á námskeiðinu Kenningar, saga og átakaefni í uppeldis- og menntunarfræði við Háskóla Íslands. Í greininni greinir höfundur umræðu og hugmyndir um mikilvægi tölvu- og upplýsingatækni í skólastarfi undanfarin 30 ár með því að staldra við árin 1985, 1995 og 2005. Höfundur er tölvunarfræðingur og meistaraprófsnemi í uppeldis- og menntunarfræði við Háskóla Íslands.

Inngangur

Þegar ný tækni hefur komið fram á sjónarsviðið hafa jafnan fylgt hugmyndir í kjölfarið um hvernig megi nýta hana til að bæta skólastarf, ekki síst kennslu. Þegar útvarp, sjónvarp, segulbönd og myndbönd komu fram á sjónarsviðið voru margir sem bjuggust við að hin nýja tækni myndi gjörbreyta eða jafnvel umbylta skólanum og því hvernig nám og kennsla færi fram. Hugmyndir um að kennarinn verði óþarfur og skólinn úreltur hafa oftar en ekki skotið upp kollinum. Bjartsýni um breytingamátt tækninnar fyrir menntun hafa líklega komið hvað skýrast fram í umræðu um aðdraganda útvarpsins á árunum 19261930 (Gunnar Stefánsson, 1997).

Upphaf umræðu um notkun tölva og upplýsingatækni í skólastarfi hér á Íslandi má í grófum dráttum rekja aftur til áranna í kringum 1980 en bæði tæknin sjálf og umræðan um hana hafa breyst mikið á þeim tæpu þrjátíu árum sem liðin eru. Hér á eftir verður fjallað um hvað hefur einkennt umræðu um eðli og gildi tölvutækninnar í skólastarfi, hvernig hún hefur mótast og hvort sjá megi eðlis- eða áherslumun á ólíkum tímabilum. Í þeim tilgangi verða borin saman þrjú tímabil og er í grófum dráttum miðað við árin 1985, 1995 og 2005. Leitast verður við að skoða hvað einkennir umræðuna á hverjum tíma og hvað fólst í þeim hugmyndum sem voru til umræðu. Einnig verður hugað að þeirri framtíðarsýn sem birtist í skrifunum á hverjum tíma og hvernig hún hefur breyst.

Umræða um tölvur og skólastarf átti sér auðvitað ekki bara stað á Íslandi heldur í öllum hinum vestræna heimi á þessu tímabili (Cuban, 2001; Kollerbaur, Jansson, Köhler og Yngström, 1983; Sloan, 1984; Tyack og Cuban, 2001). Þótt umræðan hafi farið af stað heldur síðar hér en annars staðar þá fylgdust Íslendingar býsna vel með.

Í greininni verður ekki fjallað um sögu tölvu- og upplýsingatækninnar, stöðu hennar í skólakerfinu eða hvaða árangri hún hefur skilað heldur fyrst og fremst leitast við að skoða þær hugmyndir og rök sem uppi hafa verið um þýðingu hennar og notkun. Þetta er því ekki saga tölvuvæðingar skólanna heldur öllu heldur saga umræðunnar um hana.

Orðanotkun

Ýmis orð hafa verið notuð í umræðu um tölvu- og upplýsingatækni í skólastarfi. Rætt hefur verið um tölvur, tölvutækni, forritun, Netið (vefinn), samskiptatækni, upplýsingatækni, upplýsingalæsi svo fáein dæmi séu tekin. Orðið upplýsingatækni, sem er hvað mest notað, er fremur nýtt af nálinni. Elsta dæmið um það í ritmálsskrá Orðabókar Háskóla Íslands er úr tímaritinu Sveitarstjórnarmál frá 1987 (Orðabók Háskólans, án ártals). Orðið var minna notað á upphafsárunum upp úr 1980 en meira fór að bera á því á seinni hluta tíunda áratugar. Á síðustu árum hefur þetta orð aftur á móti orðið alls ráðandi í umræðunni og sést hvarvetna þar sem rætt er um tölvur og tækni í skólum.

En hvað felst í orðinu upplýsingatækni? Í riti menntamálaráðuneytisins, Í krafti upplýsinga, er orðið skilgreint þannig:

Það að beita viðeigandi tækni við upplýsingavinnslu. Með tækni er átt við tölvutækni, fjarskiptatækni og rafeindatækni (Menntamálaráðuneytið, 1996).

Í þessari skilgreiningu er vísað til tækjanna sjálfra en ekki verklagsins eða hugmyndanna að baki tækjanotkuninni. Jafnframt kann að vera óljóst hvað felst í þessum orðum, t.d. tölvutækni. Með því að skoða umræðuna má sjá að því fer fjarri að menn séu alltaf að tala um það sama þegar rætt er um upplýsingatækni. Ótalmargt er flokkað sem upplýsingatækni í skólastarfi og er þá gjarnan blandað saman vinnulagi, hugbúnaði og vélbúnaði. Nefna má ritvinnslu, glæruforrit, nemendaskráningarkerfi, tölvupóst, samskiptakerfi, Netið, kennslu- og margmiðlunarforrit, heimildaleit, skjávarpa, tölvur og fartölvur svo fátt eitt sé nefnt. Þannig hefur orðið upplýsingatækni haft misjafna merkingu og inntak eftir því hver er að nota það og í hvaða samhengi. Á þetta hafa fleiri bent og telja orðið upplýsingatækni hafa of víða og ónákvæma skírskotun; það sé ekki nógu upplýsandi og mörgum hlutum hrært saman (Jón Torfi Jónasson, 1990; Jón Torfi Jónasson, Andrea G. Dofradóttir og Kristjana Stella Blöndal, 2002). Í þessari grein verða orðin tölvur, tölvutækni, upplýsingatækni og samskiptatækni notuð jöfnum höndum og er þá átt við notkun tölvu- og samskiptatækni í skólastarfi í víðustu merkingu. Þetta er nauðsynlegt til þess að ná yfir það víða svið sem hefur verið tengt við upplýsingatækni í skólastarfi.

Til þess að gera grein fyrir þróuninni verður fyrst fjallað um það sem var mest áberandi á hverju tímabilanna þriggja. Síðan verður gerð grein fyrir helstu áhersluatriðum eða þrástefjum í umræðunni yfir tímabilin þrjú. Að lokum er kafli þar sem dregin eru saman helstu atriði og niðurstöður. Greining mín og umræða er byggð á þeim rituðu heimildum sem ég skoðaði frá þessum tímabilum. Ég gerði mér far um að nota efni frá öllum tímabilunum en gerði enga tilraun til þess að fá tæmandi lista yfir það efni.

Tímabilin þrjú

Róttækar hugmyndir á níunda áratugnum: Tölvur sem kennarar

Upp úr 1980 hélt einmenningstölvan innreið sína á vinnustaði og heimili. Samfélagið var að tölvuvæðast. Í kjölfar þessa fóru margir að benda á að skólarnir yrðu einnig að fylgja þessari þróun og taka tæknina í sína þjónustu. Tölvurnar væru komnar, samfélagið stefndi í átt að hátækni- og upplýsingasamfélagi og mikilvægt væri að undirbúa nemendur fyrir upplýsingatæknisamfélagið (Börkur Hansen, 1982; Jón Nordal, 1983; Jón Torfi Jónasson, 1986, 10. og 11. júlí).

Margir sáu fyrir sér að tölvur og upplýsingatækni yrðu til þess að stuðla að breyttu námi og kennslu og ýmsir spáðu að bylting yrði á þessu sviði (Menntamálaráðuneytið, 1989; Jón Nordal, 1983; Jón Torfi Jónasson, 1986, 10. og 11 júlí). Meðal þess sem talið var að ætti eftir að breytast var hlutverk kennarans sem með tilkomu tækninnar yrði meira sem verkstjóra og leiðbeinanda í stað þess að vera sá sem miðlaði þekkingu. Ýmsir gengu jafnvel svo langt að halda því fram að tölvur myndu með tíð og tíma taka alveg við hlutverki kennarans. Því voru alls ekki allir sammála og töldu aðrir óraunhæft að gera ráð fyrir því að kennarinn og hlutverk hans yrði óþarft (Börkur Hansen, 1982; Jón Nordal, 1983; Jón Torfi Jónasson, 1981; Rögnvaldur Ólafsson, 1981).

Strax á þessum tíma sáu menn möguleika á að nýta tæknina við námsaðgreiningu og sérkennslu. Bæði lengra komnir og seinfærir gætu með tækninni fengið námsefni við sitt hæfi (Menntamálaráðuneytið, 1989; Jón Torfi Jónasson, 1986, 10. og 11. júlí). Meðal þess sem talið var mikilvægt var að sem flestir hefðu vald á forritun til að nýta sér tæknina til hins ítrasta (Börkur Hansen, 1982).

Þá var horft til þess að tölvur opnuðu tækifæri til að tengjast gagnasöfnum sem þá voru að verða til. Einnig sköpuðust möguleikar á að tengjast öðrum skólum innan lands sem utan, meðal annars með tölvupósti (Menntamálaráðuneytið, 1989).

Loks sáu margir tækifæri sem fylgdu tölvunum og fælust í vinnusparnaði og hagræði fyrir kennara, nemendur og skólastarf í heild sinni, meðal annars í tengslum við stundaskrárgerð og nemendabókhald (Jón Nordal, 1983; Rögnvaldur Ólafsson, 1981).

Netið og fjarnám koma til skjalanna á tíunda áratugnum

Á tíunda áratugnum hélt tölvuvæðingin áfram og Netið kom til skjalanna á árunum upp úr 1990 (Þórdís T. Þórarinsdóttir, 1999), þó almenn notkun væri ekki mikil fyrst. Á næstu árum jókst hún hins vegar hratt og um og eftir 1995 fór almenningur að nýta sér þennan nýja miðil í auknum mæli (Harpa Hreinsdóttir, 2002; Salvör Gissurardóttir, 2000). Íslenska menntanetið var stofnað árið 1992 í framhaldi af IMBU, tölvumiðstöð skóla sem hóf göngu sína 1990 á Kópaskeri (Saga Íslenska menntanetsins, 2002; Pétur Þorsteinsson, 1991).

Á tíunda áratugnum var mikill vöxtur í fjarnámi þar sem tölvutæknin var notuð, aðallega tölvupóstur til að koma upplýsingum og verkefnum á milli. Fjarnám, byggt að mestu á tölvusamskiptum, hófst í Kennaraháskóla Íslands árið 1993 (Salvör Gissurardóttir, 2000) og síðan í fleiri skólum á svipuðum tíma. Flestir sáu fyrir sér mikinn vöxt á þessu sviði, nám og samvinna gæti farið fram óháð búsetu sem ætti eftir að hafa mikil áhrif á skólastarf framtíðar (Gísli Þorsteinsson, Halla Gísladóttir, Halldór Arnórsson, Jón Atli Benediktsson, Mikael M. Karlsson, Magnús V. Magnússon og Valgeir Gestsson, 1997; Menntamálaráðuneytið, 1996 og 1999b).

Árið 1996 kom út ritið Í krafti upplýsinga þar sem sett er fram stefna menntamálaráðuneytisins um upplýsingatækni og nýtingu hennar. Mikil áhersla er lögð á að skólinn þurfi að vera í takt við þróunina í samfélaginu og því verði nemendur að kynnast og læra að umgangast tölvur og upplýsingatækni í skólanum. Þar kemur einnig fram að í skólakerfinu beri að nota þessa tækni til að ná fram markmiðum í öllum námsgreinum (Menntamálaráðuneytið, 1996). Þetta endurspeglast síðan í Aðalnámskrá grunnskóla 1999 (Menntamálaráðuneytið, 1999c).

Hugmyndir um tölvur sem öflug kennslutæki eru sterkar á þessum árum. Þó er minni áhersla en fyrr á tölvurnar sem öflug kennslutæki einar og sér en meiri á möguleikana á að nýta þær til fjölbreyttari kennslu og til að koma á framfæri áhugaverðu efni (Gísli Þorsteinsson o.fl., 1997; Lára Stefánsdóttir, 1997; Menntamálaráðuneytið, 1996; Torfi Hjartarson, 1999). Mikið er ritað og rætt um að tölvur og upplýsingatækni muni breyta kennsluháttum á margvíslegan hátt. Jafnframt að hlutverk kennarans muni breytast þó að fáir búist við því að hann verði óþarfur (Gísli Þorsteinsson o.fl., 1997; Hafsteinn Karlsson og Þorsteinn Hjartarson, 1998; Menntamálaráðuneytið, 1996; Torfi Hjartarson, 1999).

Upplýsinga- og samskiptatækni í upphafi nýrrar aldar

Frá síðustu aldamótum hefur tölvu- og tæknivæðingin haldið áfram að vinna sér sess og flest heimili, fyrirtæki og skólar eru orðin tölvuvædd. Margar nýjungar hafa náð útbreiðslu: fartölvur, margmiðlunarforrit, tölvuleikir, GSM-símar, skjávarpar, stafrænar myndavélar, ADSL-háhraðatengingar og þráðlaus net svo dæmi séu tekin. Netið hefur vaxið gífurlega, aðgengi að upplýsingaveitum aukist og einhverskonar kennsluumsjónarhugbúnaður er í notkun í flestum skólum.

Á árinu 1999 var haldin fyrsta UT-ráðstefnan um upplýsingatækni í skólastarfi og hafa þær verið haldnar á hverju ári síðan (Menntagátt, 2007). Á árunum 19992002 voru þrír grunnskólar (Árbæjarskóli, Barnaskólinn á Eyrarbakka og Stokkseyri og Varmalandsskóli) og þrír framhaldsskólar (Fjölbrautaskólinn við Ármúla, Fjölbrautaskóli Suðurlands og Menntaskólinn á Akureyri) þátttakendur í verkefni menntamálaráðuneytisins um „þróunarskóla í upplýsingatækni“. Var þeim ætlað að vinna að framþróun í upplýsingatækni í kennslu, námi og skólastarfi (Jón Torfi Jónasson o.fl., 2002). Segja má að þetta hafi verið í framhaldi af stefnumótun menntamálaráðuneytisins, „Í krafti upplýsinga“, og var þáverandi menntamálaráðherra, Björn Bjarnason, mikill áhugamaður um tölvu- og upplýsingatækni, og skrifaði mikið um þau mál á tíunda áratugnum.

Fjarnámi óx mjög fiskur um hrygg upp úr 1990 og í Kennaraháskóla Íslands varð það fljótlega nánast hliðstætt staðnámi í flestum greinum (Kennaraháskóli Íslands, án árs). Einnig var vöxtur í dreifnámi (sambland af fjarnámi og staðnámi). Má benda á stofnun Fjölbrautaskóla Snæfellinga sem tók til starfa 2004 (Fjölbrautaskóli Snæfellinga, 2005) þar sem hugmyndafræði upplýsingatækni og dreifnáms vó mjög þungt.

Sem fyrr var á þessum árum lögð rík áhersla á mikilvægi skólans til að undirbúa nemendur fyrir líf og starf í upplýsinga- og tækniþjóðfélagi. Nemendur yrðu að venjast vinnulagi upplýsingatækninnar. Upplýsingatækni á að vera sjálfsagt verkfæri í öllum greinum (3F. Félag um upplýsingatækni og menntun, 2005; Menntamálaráðuneytið, 2006; Menntamálaráðuneytið, 2007). Í aðalnámskrám má sjá að litið er á upplýsingatækni og notkun hennar sem einn af grunnþáttum menntunar (Menntamálaráðuneytið, 2004a; Menntamálaráðuneytið, 2007).

Mikið var rætt um hvort og hvernig upplýsingatækni hefði breytt kennsluháttum og hvernig þeir myndu koma til með að breytast (Brynhildur Sch. Thorsteinsson, 2002; Jón Torfi Jónasson o.fl., 2002; Menntamálaráðuneytið, 2005; Þuríður Jóna Jóhannsdóttir, 2001). En einnig var farið að ræða um að kennarar og skólastofnanir þurfi breyta kennsluháttum sínum og vinnulagi til þess að hægt væri að nýta tölvu- og upplýsingatæknina sem best (Jón Torfi Jónasson o.fl., 2002; M. Allyson Macdonald, 2005; Menntamálaráðuneytið, 2005). Hér má því sjá ákveðna breytingu á orðræðunni, breytingu sem hefur verið að gerjast síðan 1995.

Helstu rök fyrir notkun tölvutækni í skólastarfi

Ýmiss konar rök hafa verið sett fram í gegnum tíðina fyrir því hvers vegna mikilvægt sé að nota tölvur og upplýsingatækni í skólastarfi. Hef ég flokkað rökin í fimm meginflokka:

 1. Tæknin er mikilvæg í sjálfu sér – fyrir samfélagið og sérhvern einstakling þess.

 2. Tölvur eru góð kennslutæki.

 3. Tölvur breyta námi og kennslu.

 4. Tölvur hafa hagræði í för með sér. 

 5. Samskiptatækni opnar nýjar leiðir til samskipta og Netið veitir aðgang að brunni upplýsinga.

Ég met það svo að þessir flokkar nái til flestra þeirra atriða sem nefnd hafa verið sem rök fyrir notkun tölvu- og upplýsingatækni í skólum í þeim ritum sem ég hef skoðað. Hér á eftir verður nánar fjallað um hvern þessara flokka og umræðuna sem þeim tengjast.

Við hvern flokk hefur verið settur upp myndrænn kvarði sem á að gefa hugmynd um hve áberandi tilteknir þættir virðast hafa verið í umræðunni á hverju tímabili. Hafa verður í huga að myndirnar byggjast á huglægu mati höfundar á þeim gögnum sem könnuð voru. Notaður er fjögurra punkta kvarði sem á að gefa til kynna hvaða þættir voru sterkir eða veikir í umræðunni á hverju tímabili. Taflan á að endurspegla mat höfundar á því hvað var áberandi í umræðunni á hverjum tíma. Hún segir á hinn bóginn ekkert til um hvernig framkvæmd eða staða mála á viðkomandi sviði var.

1. Tæknin er mikilvæg

Frá upphafi hafa rökin um að tæknin sé mikilvæg fyrir atvinnulíf, samfélag og hvern einstakling verið mjög áberandi. Mikilvægt sé að kenna um tölvur ekki síður en á þær. Á töflu 1 má sjá að áberandi þættir í röksemdafærslunni eru undirbúningur fyrir atvinnulíf framtíðarinnar, tæknin sem verkfæri og forritun og upplýsingalæsi.

Tafla 1 – Helstu þættir í umræðunni um mikilvægi tölvunnar
fyrir samfélag og einstaklinga og vægi
hvers þáttar á mismunandi tímabilum

Rök

1985 1995 2005
Nemendur verða að vera undirbúnir fyrir framtíðina. Nemendur verða að læra að nota tæknina.

Skólinn verður að vera í takt við samfélagslegar og tæknilegar breytingar.

Nemendur verða að læra að umgangast og nýta sér mikið magn upplýsinga.

Efla þarf tækni- og upplýsingalæsi nemenda. 

Nemendur verða að læra forritun til að geta nýtt sér tölvutæknina til fulls. 

-

 Mikil umræða Nokkur umræða Lítil umræða - Engin umræða

Undirbúningur fyrir atvinnulíf

Áhersla hefur verið lögð á mikilvægi þess að nýta tæknina í skólum til að nemendur kynnist henni og séu búnir undir líf og starf í tæknisamfélagi. Rökin hljóma eitthvað á þessa leið: Tölvurnar eru komnar og eru allt í kringum okkur. Samfélagið stefnir í átt að upplýsinga- og hátækniþjóðfélagi og búa þarf einstaklinga undir þær breytingar (Börkur Hansen, 1982; Jón Torfi Jónasson, 1986, 10. og 11. júlí). Tölvutæknin sé það mikilvæg að skólinn verði að fylgja straumi tæknivæðingarinnar (Steinþór Þórðarson, 1998). Jóhann P. Malmquist, prófessor í tölvunarfræði við Háskóla Íslands, bendir á þetta í grein í Morgunblaðinu og segir að ekki verði „undan því vikist að greiða þann kostnað sem þarf til þess að skólarnir geti gegnt hlutverki sínu á þessu sviði sem öðrum“ (Jóhann P. Malmquist, 1987, 11. júní).

Í gegnum tíðina má sjá mikla áherslu á að skólinn búi nemendur undir atvinnulífið og skólinn fylgi takti tækniþróunarinnar á hverjum tíma. Í grein í Morgunblaðinu frá árinu 1987 er fjallað um tillögur menntamálaráðuneytisins varðandi tölvuvæðingu í skólakerfinu en í þeim tillögum er lögð áhersla á að „tölvunotkun í skólum verði skipulögð þannig að sú þjálfun sem nemendur fá nýtist þeim beint í atvinnulífinu“ (Morgunblaðið, 1987, 16. maí, bls. 28). Þessar sömu hugmyndir má greina í riti menntamálaráðuneytisins frá árinu 1996 Í krafti upplýsinga en þar segir að brýnt sé að námsgreinar þróist í takt við breytingar í samfélaginu og þar sé beitt vinnubrögðum eins og þau gerast best á hverjum tíma, atvinnuvegum landsins til framdráttar (Menntamálaráðuneytið, 1996).

Birgir Edwald segir það skyldu grunnskólans að búa nemendur undir nám og starf í þjóðfélaginu og þátttöku í upplýsingasamfélaginu og þess vegna megi starfsaðferðir innan skólanna ekki vera langt á eftir því sem almennt tíðkast (Birgir Edwald, 1999). Lára Stefánsdóttir tekur í sama streng og segir eðlilegt að skólinn „noti þau verkfæri sem notuð eru í samfélaginu við lausn verkefna innan skólans“ (Lára Stefánsdóttir, 1997, bls. 17).

Þessar hugmyndir endurspeglast í aðalnámskrám frá þessum tímabilum. Í Aðalnámskrá grunnskóla frá 1989 er rætt um tölvur í grunnskólum og talið mikilvægt að nemendur fái að kynnast þeirri tækni, meðal annars þar sem atvinnulífið verði sífellt háðara tölvunotkun og nemendur muni því óhjákvæmilega nota tölvur í starfi og einkalífi (Menntamálaráðuneytið, 1989). Í nýrri námskrám grunnskóla frá 1999 og 2007 segir að mikilvægt sé að nemendur tileinki sér vinnuaðferðir og vinnutilhögun samfélagsins á hverjum tíma (Menntamálaráðuneytið, 1999d, 2007).

Í álitsgerð hóps 3F, félags um upplýsingatækni og menntun, um endurskoðun námskrár í upplýsinga- og tæknimennt og í nýrri Aðalnámskrá grunnskóla fyrir upplýsinga- og tæknimennt segir að meginmarkmið skólans sé að nemendur geti nýtt sér nám sitt í áframhaldandi námi og í daglegum störfum (3F. Félag um upplýsingatækni og menntun, 2005). Það sé einnig skylda grunnskólans að ...

... horfa fram á veg og reyna eftir megni að sjá fyrir helstu breytingar til þess tíma að nemendur verða fulltíða og bregðast við þeim með því að undirbúa nemendur á viðeigandi hátt. Beiting upplýsingatækni og tölvunotkun er verklag sem setur svip sinn á allar greinar þjóðlífsins. Það er því nauðsynlegt að slík tækni og slíkar vinnuaðferðir skipi viðeigandi sess í grunnskólanum. Kennsla og nám á öllum námssviðum skólans þarf að taka mið af því (Menntamálaráðuneytið, 2007, bls. 14).

Tæknin sem verkfæri

Jafnhliða umræðunni um undirbúning fyrir atvinnulífið hefur umræða um að allir nemendur þurfi að venjast því að nota tæknina og beita henni sem eðlilegu verkfæri verið áberandi í seinni tíð.

Tölvur eigi erindi í skólana bæði sem verkfæri, kennslutæki og upplýsingabrunnar og nemendur í grunn- og framhaldsskóla þurfa að venjast á að nota tölvur sem verkfæri við ýmis algeng verk sem kennd eru í skólum og venjast verklagi tækninnar (Atli Harðarson, 1998; Jón Torfi Jónasson o.fl., 2002). Nemendur ættu að læra á tölvur með því að nota þær og læra með tölvum en ekki endilega að læra á þær sem slíkar (Gísli Þorsteinsson o.fl., 1997; Jón Jónasson, 1991; Marinó G. Njálsson, 1994, 30. október). Börn verða að vera læs og skrifandi á það öfluga verkfæri sem upplýsingatæknin er (Þuríður Jóna Jóhannsdóttir, 2001). Einnig þarf að fyrirbyggja ótta gagnvart tækninni (Jón Torfi Jónasson, 1986, 10. og 11. júlí) og stuðla að skilningi og virkni nemenda sem þátttakenda í tæknivæðingunni (3F. Félag um upplýsingatækni og menntun, 2005; Menntamálaráðuneytið, 1997).

Bent er á að gera þurfi greinarmun á tölvunotkun og tölvukennslu (Jón Jónasson, 1994). Í gegnum tíðina hefur verið meiri áhersla á að samtvinna tölvunotkun og notkun upplýsingatækni við aðrar námsgreinar heldur en að vera með sérstaka tölvukennslu. Í aðalnámskrám má þó sjá að gert er ráð fyrir sérstökum námsgreinum fyrir tölvukennslu. Í Aðalnámskrá grunnskóla er að finna „Upplýsinga- og tæknimennt“ sem sérstaka námsgrein (sem þó er ætlast til að sé einnig samtvinnuð öðrum greinum) og í Aðalnámskrá framhaldsskóla, áfanganum „Notkun upplýsinga og tölva í námi“, ásamt öðrum áföngum í tölvufræði (Menntamálaráðuneytið, 1999b; Menntamálaráðuneytið, 1999d).

Í Aðalnámskrá leikskóla segir að tölvur skuli vera í leikskólum; tölvur séu stór þáttur í daglegu lífi manna í starfi, námi og tómstundum og börn í leikskólum þurfi að kynnast tölvum og læra að nota þær á sinn hátt. Jafnframt þurfi skólinn að gæta þess að jafna hlut barna í þessum efnum þar sem ekki hafi allir aðgang að tölvum á sínu heimili (Menntamálaráðuneytið, 1999e). Annað sem bent hefur verið á er kynjamunur í tölvunotkun (Sólveig Jakobsdóttir, 1999) og hlutverk skóla í að jafna þann mun (Menntamálaráðuneytið, 1999d).

Forritun

Einn angi umræðunnar um mikilvægi tækninnar og undirbúning fyrir tæknisamfélagið er áhersla á að kenna forritun. Þessi umræða var mest áberandi til að byrja með, upp úr 1980. Meðal annars var bent á þetta sem leið til að nemendur kynnist eiginleikum tölvunnar. Einnig væri mikilvægt að kennarar gætu breytt forritum sem þeir fengju og notuðu við kennslu (Jón Torfi Jónasson, 1981). Þetta var líklega mun mikilvægara á upphafsárunum þar sem bæði var mögulegt og oft nauðsynlegt að breyta forritum og aðlaga þau aðstæðum hverju sinni.

Þótt minni áhersla hafi verið á þennan þátt í seinni tíð má finna eftirfarandi í Aðalnámskrá framhaldsskóla, Upplýsinga- og tæknimennt frá 1999: „Kunnátta í forritun er þannig undirstaða þess að notendur geti nýtt sér almennan hugbúnað til hins ýtrasta“ (Menntamálaráðuneytið, 1999b, bls. 10). Rökin fyrir því að kenna hinum almenna nemanda forritun eru til þess að hann geti lagað hugbúnað að eigin þörfum og notað forritanlega eiginleika þeirra. Sú kunnátta gerir einstaklinginn að öflugri tölvunotanda (Menntamálaráðuneytið, 1999b).

Loks voru kenningar um að með því að nota forritun væri hægt að hjálpa nemendum að öðlast betri skilning á ýmsum hugtökum, reglum og flóknum hugmyndum. Forritunarmálið Logo var meðal annars notað í þessum tilgangi (Jón Jónasson, 1991; Jón Torfi Jónasson, 1987; Papert, 1980). Logo var jafnframt hugsað sem tæki til að hjálpa nemendum að læra að hugsa röklega og talið að slíkt væri til þess fallið að efla (vitsmuna)þroska þeirra. Í stað þess að tölvur forrituðu nemendur, forrituðu nemendur tölvurnar við lausnir þrauta, uppbyggingu hermilíkana og fleira (Börkur Hansen, 1982; Jón Jónasson, 1991; Papert, 1980). Lára Stefánsdóttir benti einnig á þátt tölva í að efla skilning nemenda á ýmsum viðfangsefnum með því að láta þá byggja upp þekkingarlíkön í tölvum (Lára Stefánsdóttir, 1991). Þessar hugmyndir minna um margt á hugsmíðahyggju sem virðist eiga mikinn hljómgrunn um þessar mundir. Það er þó eftirtektarvert að hugmyndir um að nýta tölvur í anda hugsmíðahyggjunnar heyrast mjög lítið eða alls ekki í dag þrátt fyrir að ýmsir hafi séð slíka notkun fyrir sér á upphafsárunum.

Upplýsinga- og tæknilæsi

Einn þáttur í tölvu- og upplýsingabyltingunni sem margir hafa haldið á lofti er efling upplýsingalæsis, ekki síst með tilkomu gagnabanka og upplýsingabrunna á Netinu. Þessi umræða hefur orðið sífellt meira áberandi á seinni árum.

Með tilkomu Netsins var bent á að magn upplýsinga ykist hröðum skrefum og því þyrfti að byggja upp nýja þekkingu um hvernig eigi að finna, velja, meta og vinna úr upplýsingum (Menntamálaráðuneytið, 1996). Lögð var áhersla á hlutverk skóla við að hjálpa nemendum að takast á við margvíslegt og stöðugt áreiti upplýsinga og kenna þeim að umgangast þær og færa sér í nyt (Menntamálaráðuneytið, 1996).

Í nýrri námsgrein, upplýsinga- og tæknimennt, sem kom inn í Aðalnámskrá 1999, var lögð áhersla á tækniskilning og tæknilæsi til að undirbúa nemendur fyrir þátttöku í samfélagi sem einkennist af sífelldum tæknibreytingum og mikilvægi þekkingar á henni á hverjum tíma (Menntamálaráðuneytið, 1997).

Í nýrri námskrá 2007 nefnist þessi námsgrein upplýsingamennt. Hún hefur að markmiði að efla tæknilæsi, upplýsingalæsi og menningarlæsi. Þar segir að í síbreytilegum heimi tækni, upplýsinga og samskipta verði upplýsingalæsi, þ.e. þekking og færni í að flokka, vinna úr og miðla upplýsingum, sífellt mikilvægara (Menntamálaráðuneytið, 2007).

2. Tölvur sem kennslutæki

Á upphafsárunum snerist umræðan að miklu leyti um nýtingu tölva til að styðja við nám nemenda með kennsluforritum og verkefnum sem kennarar bjuggu til fyrir tölvur. Litið var á tölvur sem öflug kennslutæki, m.a. vegna möguleika á gagnvirkni sem önnur tækni, svo sem útvarp, sjónvarp, segulbönd og myndbönd, höfðu ekki. Vissulega var bent á að vöntun væri á ýmsu gagnlegu efni en talið að það myndi breytast mjög hratt og að skólakerfið yrði að fylgjast vel með og vera undirbúið fyrir þær breytingar sem í vændum voru. Á töflu 2 má sjá að umræðan um þetta var sterk í upphafi en dvínaði að sumu leyti þegar á leið.

Tafla 2 – Helstu þættir í umræðunni um tölvur sem kennslutæki
og vægi hvers þáttar á mismunandi tímabilum

Rök

1985 1995 2005
Tölvur eru öflug kennslutæki

Nemendur læra betur og meira með aðstoð tölvu- og upplýsingatækni

Tölvur nýtast vel í námsaðgreiningu, einstaklingsmiðun og sérkennslu

Tölvur munu taka við hlutverki kennarans í framtíðinni

 

 Mikil umræða Nokkur umræða Lítil umræða - Engin umræða

Tölvur í kennslu

Í Aðalnámskrá grunnskóla 1989 er rætt um gagnsemi tölva við kennslu ýmissa námsgreina; í tungumálum, stærðfræði, íslensku og fleiri greinum og bent á að þær komi að gagni við kennslu í flestum námsgreinum (Menntamálaráðuneytið, 1989).

Bent var á ýmsa kosti tölva sem kennslutækja: til utanbókarkennslu og æfinga með endurtekningu (hlítarnáms), sem hermilíkön, sem tæknileg aðstoð við flókin verkefni, fyrir gagnavinnslu og textavinnslu (Rögnvaldur Ólafsson, 1981). Einnig má nefna notkun tölvu til aðstoðar við kennslu, til dæmis til að þjálfa nemendur í að ná valdi á ákveðnum atriðum, til þess að líkja eftir flóknum ferlum eða tilraunum og sem upplýsingabanka. Þær bjóði jafnframt upp á athyglisverðar leiðir til að miðla fróðleik (Jón Torfi Jónasson, 1981).

Ýmsir lögðu áherslu á að hægt væri að nota tölvuna til að bæta nýjum leiðum og hjálpartækjum við hefðbundna kennslu, svo sem með því að nota kennsluforrit. Þá gæti hún nýst sem hjálpartæki kennarans við verkefnagerð (Hörður Lárusson, 1994; Jóhann P. Malmquist, 1987, 11. júní; Morgunblaðið, 1987, 16. maí). Námsgögn sem byggjast á og nýta upplýsingatækni væru sérlega gagnleg þar sem þau nýttust bæði til að miðla þekkingu og að þjálfa nemendur í notkun tækninnar (Menntamálaráðuneytið, 1999c, bls. 34).

Tölvur sem kennarar

Hugmyndir voru um að tölvur myndu gjörbylta skóla og kennslu og meðal annars gera kennarann óþarfan í framtíðinni. Til voru kennslukerfi, til dæmis Plató-kerfið, sem bauð upp á kennslu í ótal námsgreinum og einnig TICCIT-kerfið (Time-shared, Interactive, Computer-Controlled Information Television). Menn sáu fyrir sér að slík kerfi gætu tekið við kennslunni og að tölvustýring yrði á öllu skólastarfi (Börkur Hansen, 1982; Jón Torfi Jónasson, 1981, 1990). Skólar framtíðarinnar yrðu jafnvel inni á heimilum og skólakerfið óþarft (Börkur Hansen, 1982).

Jón Nordal segir tölvuna vera öflugt og mjög skemmtilegt kennslutæki. Hann segir einnig að fræðilega séð væri hægt að losa okkur við kennarann og láta tölvurnar um kennsluna þótt hann telji að það muni ekki verða (Jón Nordal, 1983). Margir bentu samt á að það væri óraunhæft að gera ráð fyrir því að kennarinn og hlutverk hans yrði óþarft (Jón Torfi Jónasson, 1981; Rögnvaldur Ólafsson, 1981) og seinna voru hugmyndir um slík kennsluforrit taldar úreltar (Atli Harðarson, 1998).

Námsaðgreining, sérkennsla og einstaklingsmiðun

Þó að skoðanir á því að tölvur tækju að sér hlutverk kennara hafi verið ólíkar voru menn að mörgu leyti sammála um að tölvur gætu nýst sem „sérkennarar“, þ.e. verið mikilvægt hjálpartæki í sérkennslu. Strax í Aðalnámskrá grunnskóla frá 1989 er talað um að tölvur séu notadrjúgar við námsaðgreiningu. Seinfærir jafnt sem lengra komnir geti nýtt sér tölvur til að fá námsefni við sitt hæfi. Jafnframt henti tölvur vel í sérkennslu og gefi fötluðum nemendum ný tækifæri til þjálfunar og náms (Menntamálaráðuneytið, 1989). Fleiri bentu á þetta; að tölvur gögnuðustu vel til kennslu barna sem ættu erfitt með nám, þær gætu nýst þjálfun þroskaheftra og hreyfihamlaðra og í þjálfun á afmörkuðum sviðum (Atli Harðarson, 1998; Jón Torfi Jónasson, 1981, 1986, 10. og 11. júlí).

Upplýsingatæknin er einn þáttur í svokölluðu einstaklingsmiðuðu námi og jafnvel talin ein forsenda þess þar sem tæknin geri kleift að koma til móts við þarfir ólíkra einstaklinga með aukinni fjölbreytni og sveigjanleika (Gerður G. Óskarsdóttir, 2003; Menntamálaráðuneytið, 2005). Tæknin geti  þannig fjölgað mögulegum kennsluaðferðum og námsmarkmiðum og þar með möguleikum til að „höfða til þeirra sem hingað til hafa ekki fundið sig innan skólakerfisins“ (Steinþór Þórðarson, 1998, bls. 21).

Tölvan sem þverfaglegt verkfæri

Í stefnu menntamálaráðuneytis frá 1996 var lögð áhersla á notkun upplýsingatækni í öllum námsgreinum og að tæknin væri notuð til að ná markmiðum innan hverrar greinar fyrir sig (Menntamálaráðuneytið, 1996). Sú áhersla hefur vegið þungt í öllum aðalnámskrám frá þeim tíma:

Áhersla er lögð á að notkun upplýsingatækni verði sjálfsagt hjálpartæki í öllum námsgreinum. Stórstígar framfarir á þessu sviði hafa breytt ýmsum samfélagsháttum og atvinnuháttum. Í sérhverri námsgrein verður að nýta þau tækifæri sem upplýsingatæknin gefur til að ná markmiðum greinarinnar (Menntamálaráðuneytið, 1999c, bls. 18).

Í Aðalnámskrá grunnskóla 2006 og aðalnámskrám framhaldsskóla frá 1999 og 2004 er einnig áhersla á að upplýsingatækni sé nýtt í öllum námsgreinum. Þar er einnig bent á að námsgögn sem byggi á upplýsingatækni geri hvort tveggja í senn, að miðla þekkingu og þjálfa nemendur í notkun á tækni og vinnubrögðum sem nýtist í lífi og starfi (Menntamálaráðuneytið, 1999a, 2004a og 2006).

3. Breytt nám og kennsla

Þegar á heildina er litið má segja að hugmyndir og umræða um nýja tækni hafi einkennst að miklu leyti af því hvernig tölvu- og upplýsingatækni muni breyta skóla, kennslu og námi. Dæmi um það sem vænst var má sjá í töflu 3. Margir bjuggust við að tölvur og tækni hefðu mikil áhrif á skólastarf, meiri en aðrar tækninýjungar aldarinnar (Hafsteinn Karlsson og Þorsteinn Hjartarson, 1998).

Tafla 3 – Helstu þættir í umræðunni um breytt nám og kennslu
og vægi hvers þáttar  á mismunandi tímabilum

Rök

1985 1995 2005
Tölvur stuðla að breyttu námi og kennslu

Tölvur stuðla að fjölbreyttara, áhugaverðara og þverfaglegra námi

Tölvur gera nemendur virkari og sjálfstæðari í námi sínu

Tölvur stuðla að aukinni þátttöku nemenda í skólastarfinu

Tölvur breyta hlutverki kennara úr miðlara yfir í verkstjóra

 

Tölvur efla og auka samskipti í skólastarfi

 

 Mikil umræða Nokkur umræða Lítil umræða - Engin umræða


Breytt hlutverk kennarans

Breyting á hlutverki kennarans hefur verið mörgum hugleikin. Frá upphafi hefur verið mikið ritað og rætt um hlutverk kennarans og að það muni breytast mikið með tilkomu tölva. Bent var á að tölvur bjóði oft á tíðum upp á ný vinnubrögð og ný viðhorf og breyti þannig starfi kennarans og skólastarfinu (Jón Torfi Jónasson, 1986, 10. og 11. júlí). Tölvur geti „gert kennarastarfið áhugaverðara og gert hann meira að leiðbeinanda og verkstjóra“ (Jón Nordal, 1983, bls. 32) og þannig breytt því hvernig nám og kennsla fer fram. Flestir töldu að kennarinn færi úr því hlutverki að vera beinn fræðari og miðlari yfir í hlutverk leiðbeinanda og verkstjóra (Ásrún Matthíasdóttir, 2001b; Gísli Þorsteinsson o.fl., 1997; Menntamálaráðuneytið, 1996; Torfi Hjartarson, 1999). Um leið yrðu nemendur virkari og sjálfstæðari í námi sínu (Torfi Hjartarson, 1999).

Flestir töldu þó að hlutverk kennarans yrði síst veigaminna en áður. Jafnvel yrðu enn ríkari kröfur gerðar til hans í nýju hlutverki, meðal annars kröfur um góða yfirsýn og hæfni til samstarfs við kennara á mörgum sviðum (Hafsteinn Karlsson og Þorsteinn Hjartarson, 1998). Einnig var bent á að með tilkomu tölvusamskipta þyrftu kennarar að takast á við hlutverk fjarkennarans; að sinna nemendum í námi sem fer fram tímabundið eða alfarið fjarri kennara (Menntamálaráðuneytið, 1996).

Breytt nám og kennsla

Það var ekki bara starf kennarans sem menn bjuggust við að ætti eftir að breytast heldur einnig kennslan og námið. Tölvan væri öðruvísi en önnur tæki, hún væri mörg tæki í einu og biði upp á ótal möguleika (Börkur Hansen, 1982). Víða kemur fram sú sýn að margt í skólastarfi muni gjörbreytast með nýju upplýsingatækninni. Nám muni breytast úr því að nemendur læri staðreyndir yfir í aukna áherslu á aðferðafræði og uppgötvunarnám (Börkur Hansen, 1982). Viðfangsefni nemenda verði samfelldari og umfangsmeiri, samvinna nemenda meiri og skólasókn ekki jafn háð stað og stund og áður (Gísli Þorsteinsson o.fl., 1997; Menntamálaráðuneytið, 1996). Skipulag menntunar, einkum á framhaldsskóla- og háskólastigi, muni í framtíðinni þurfa að taka mið af því (Menntamálaráðuneytið, 1996).

Menn sáu fyrir sér að upplýsingatæknin breytti námi og kennslu á margvíslegan hátt. Tölvur geti verið skemmtilegt og meðfærilegt kennslutæki og gefið kennaranum nýja möguleika til að fjalla um flókið efni (Jón Torfi Jónasson, 1981). Í Aðalnámskrá grunnskóla 1989 er rætt um að í tungumálakennslu séu tölvur heppilegt hjálpartæki og með fjölbreyttum hugbúnaði megi auka áhuga nemenda og auðvelda sjálfsnám (Menntamálaráðuneytið, 1989).

Meðal þess sem bent hefur verið á að ætti eftir að breytast er eftirfarandi:

 • Nemendur verða sjálfstæðari í námi (Harpa Hreinsdóttir, 2003; Lára Stefánsdóttir, 1997; Torfi Hjartarson, 1999) og munu ráða betur ferðinni í námi sínu (Þuríður Jóna Jóhannsdóttir, 2001).

 • Nemendur verða virkari og meðvitaðri þátttakendur í eigin námi (Ásrún Matthíasdóttir, 2001b).

 • Auknir möguleikar verða á að færa meiri námsábyrgð til nemenda og foreldra (Ásrún Matthíasdóttir, 2001b; Hafsteinn Karlsson og Þorsteinn Hjartarson, 1998).

 • Námið verður þverfaglegra (Gísli Þorsteinsson o.fl., 1997; Þuríður Jóna Jóhannsdóttir, 2001) og auðveldara að gera það fjölbreytilegra og sveigjanlegra (Jón Torfi Jónasson o.fl., 2002).

 • Auknir möguleikar verða á að bjóða upp á nýbreytni í kennslu og kennsluháttum (Jón Torfi Jónasson o.fl., 2002; Steinþór Þórðarson, 1998).

 • Verkefni og viðfangsefni í skólastarfinu breytast (Gísli Þorsteinsson o.fl., 1997).

 • Áherslan flyst frá miðlun kennara í áherslu á nám nemandans (Ásrún Matthíasdóttir, 2001b).

Samkvæmt SITES-rannsókninni, sem er alþjóðleg samanburðarrannsókn á notkun stafrænnar upplýsinga- og samskiptatækni í skólum og gerð var 1998, voru nokkur markmið með notkun upplýsingatækni talin mikilvægust: Gera námið áhugaverðara, gera námið einstaklingsbundnara, stuðla að virkari námstækni og búa nemendur undir framtíðarstörf (Brynhildur Sch. Thorsteinsson, 2002). Tæknin myndi ekki endilega draga úr mikilvægi kennslunnar heldur gefa kost á nýjum möguleikum á framsetningu námsefnis og nýjum aðferðum og áherslum við samskipti og verkefnavinnu (Ásrún Matthíasdóttir, 2001a).

Rætt var um hvernig upplýsingatæknin myndi gefa nemendum og kennurum nýtt sjónarhorn á nám og kennslu og nýja sýn á þekkingu, kunnáttu og samfélagið bæði í skólum og utan þeirra (Sigurjón Mýrdal, 1996). Tæknin gæfi kost á nýjum vinnuaðferðum og þessar nýju vinnuaðferðir gerðu mögulegt að gefa náminu nýtt innihald og gildi (Birgir Edwald, 1999). Námsefni, kennsluaðferðir og námsgreinarnar sjálfar ættu eftir að breytast og laga sig að „formgerðum upplýsingatækninnar“ (Sigurjón Mýrdal, 1996).

Með tækninni var talið að áhersla yrði minni á beina þekkingarmiðlun og fjölbreyttari námsgögn, svo sem sérhæfð forrit, kennsluforrit, margmiðlunarefni, Netið og fleira kæmu í stað prentaðs efnis í kennslunni (Hafsteinn Karlsson og Þorsteinn Hjartarson, 1998; Menntamálaráðuneytið, 1996). Margir sáu fyrir sér aukið vægi skólasafna um leið og aðgengi að hvers konar upplýsingaveitum myndi aukast til mikilla muna (Gísli Þorsteinsson o.fl., 1997).

Breytt orðræða

Á seinni árum má segja að umræðan um áhrif tölva og upplýsingatækni á nám og kennslu hafi verið að breytast. Margir hafa trú á því að tæknin geti breytt skólastarfi en ýmsir telja þó að vinna þurfi markvisst að því að þessar breytingar eigi sér stað. Nýta eigi tölvutæknina til að endurnýja kennsluhætti í einstökum greinum og um leið þurfi kennarar að breyta bæði starfsháttum sínum og viðhorfum til starfsins (Hörður Lárusson, 1994).

Aðrir benda á að það sé nauðsynlegt að breyta starfsháttum og skipulagi til þess að kostir upplýsingatækninnar nýtist að fullu. Uppbygging í upplýsingatækni og breytingar á starfsháttum og skipulagi verða að fylgjast að (Menntamálaráðuneytið, 2005). Sveigjanlegir kennsluhættir og skipulag ásamt samvinnu kennara séu forsendur fyrir gagnlegri nýtingu tækninnar (M. Allyson Macdonald, 2005). Kennarar þurfi því að temja sér nýtt verklag til að nýta sér upplýsingatækni í starfi sínu (Jón Torfi Jónasson o.fl., 2002) og endurskoða kennsluaðferðir og skipulagningu kennslunnar (Ásrún Matthíasdóttir, 2001b).

4. Hagræði

Í umræðunni í gegnum tíðina hefur lítið borið á hugmyndum um að nota tölvutæknina til hagræðingar í skólastarfi. Þetta er þó einn þeirra þátta sem óumdeilanlega hefur skilað sér í skólastarfi, þ.e. í öllu utanumhaldi um skólastarfið. Í upphafi var helst bent á vinnusparnað kennara við gerð og yfirferð verkefna. Á seinni árum hefur umræðan helst verið um að tölvur geri það auðveldara fyrir kennara að útbúa eigið námsefni. Umræðan um hagræði var þó mest áberandi á fyrsta tímabilinu en dvínaði síðan nema hvað varðar gerð kennsluefnis eins og sjá má í töflu 4.

Tafla 4 – Helstu þættir í umræðunni um hagræði fólgið í notkun tölva
og vægi hvers þáttar á mismunandi tímabilum

Rök

1985 1995 2005
Tölvur spara vinnu fyrir kennara og nemendur

Tölvur auka skilvirkni í skólastarfi

Tölvur auðvelda skipulag og rekstur skóla
 

Tölvur skila öflugri miðlun þekkingar

 

Tölvur auðvelda gerð kennsluefnis (námsefnis) og birtingu þess

 

 

 Mikil umræða Nokkur umræða Lítil umræða - Engin umræða

 

Meðal þess sem bent var á var að tölvur gætu létt staglinu af kennaranum (Jón Nordal, 1983) og verið þeim dýrmætt hjálpartæki, bæði til námsefnis- og verkefnagerðar sem og við yfirferð verkefna (Jón Torfi Jónasson, 1986, 10. og 11. júlí). Rögnvaldur Ólafsson bendir einnig á þetta; nýta eigi tölvurnar sem hjálpartæki til að létta vinnu af bæði kennara og nemendum við reikninga, skriftir og utanbókarkennslu. Mikil hagræðing felist í að nota tölvur til textavinnslu og frágangs og einnig við ýmiss konar verkefni nemenda, m.a. til að létta þeim vinnuna og spara þeim handavinnu, til dæmis við utanbókarlærdóm og útreikninga; nemendur geti þá frekar einbeitt sér að því að skilja verkefnið og nýta tíma sinn betur (Rögnvaldur Ólafsson, 1981).

Einnig var bent á tölvutæknina sem hjálpartæki við stjórnun skóla; stundatöflugerð, nemendaskráningu, námsframvindu og fleira (Börkur Hansen, 1982; Jóhann P. Malmquist, 1987, 11. júní; Jón Torfi Jónasson, 1981). Þá væru tölvur tilvalin geymslutæki fyrir upplýsingar og gagnavinnslu (Börkur Hansen, 1982).

Varðandi námsefnisgerð sáu menn fyrir sér að hægt væri að spara útgáfukostnað, sérstaklega námsefni fyrir litla hópa og efni sem oft þyrfti að endurnýja (Menntamálaráðuneytið, 1996). Þeirri spurningu var einnig varpað fram hvort hægt væri með notkun margmiðlunarkennsluefnis (tölvustýrðu námi) að draga úr kennslumagni og þar með hagræða í rekstri (Björn Bjarnason, 1996; Börkur Hansen, 1982). Aðrir bentu á möguleika á sparnaði með því að bjóða upp á fjarkennslu, til dæmis í háskólum, því með henni væri hægt að stækka markhóp skóla og halda úti námsbrautum sem að öðrum kosti væru of fámennar (Guðrún Rósa Þorsteinsdóttir, Erla Þrándardóttir, Rögnvaldur Ólafsson og Ögmundur Knútsson, 2007).

Minna er hægt að finna í seinni tíð um tölvur og hagræði af þeim í skólum. Helst er bent á möguleika kennara til að gera eigið námsefni til að nýta í kennslu (Ásrún Matthíasdóttir, 2001c; Þuríður Jóna Jóhannsdóttir, 2001) en það þarf þó ekki endilega að skila sér í vinnusparnaði fyrir kennarann, jafnvel þvert á móti. Ekki er auðvelt að átta sig á því hvers vegna þetta er minna rætt en margt annað tengt tölvu- og upplýsingatækni. Kannski er þó ein helsta ástæða þess sú að hagræðingin er einfaldlega komin til framkvæmda á mörgum sviðum í skólastarfi; við skráningar, skipulag og rekstur skóla og í ýmiss konar vinnu nemenda og kennara og þykir svo sjálfsagður hlutur að hann þurfi ekki að ræða. Segja má að hagræðing af tölvum og upplýsingatækni gegnsýri allt skólastarf; samskipti kennara við nemendur og foreldra, vefsíður skóla, skráningarkerfi fyrir nemendur, einkunnir, upplýsingar um skólasókn og margt fleira. Þetta er því sennilega ekki það málefni sem brennur mest á þeim sem eru að velta fyrir sér tölvum og skólastarfi.

5. Samskiptatæknin og Netið

Strax upp úr 1980 sáu menn möguleika á að nota tölvur til samskipta sín á milli. Í upphafi var fyrst og fremst um að ræða einfaldar tölvupóstsendingar milli þeirra fáu sem voru með póstfang og að fylgjast með erlendum fréttahópum (Salvör Gissurardóttir, 2000). Á tíunda áratugnum má segja að möguleikar til samskipta með tölvum hafi vaxið mjög og um leið umræða um þá. Talað var um byltingu á þessu sviði.

Umræðan um samskiptatækni hefur verið mjög lífleg allt frá upphafi eins og sjá má í töflu 5. Umræða um Netið hófst þó ekki fyrr en á tímabilinu 19901999 enda kom það ekki fram fyrr en þá.

Tafla 5 – Helstu þættir í umræðunni um samskiptatækni og Netið
og vægi hvers þáttar á mismunandi tímabilum

Rök

1985 1995 2005

Samskiptatækni

     
Samskiptatæknin opnar aðgengi að brunni upplýsinga
 

Samskiptatæknin opnar tækifæri til samskipta milli nemenda, skóla og kennara
 

Samskiptatæknin opnar aðgengi fyrir fleiri að menntun í gegnum fjarnám og sjálfsnám

 

Netið      

Netið býður upp á marga nýja möguleika í námi

Netið býður upp á tækifæri til að koma upplýsingum og efni á framfæri

-

 

 Mikil umræða Nokkur umræða Lítil umræða - engin umræða

 

Í Aðalnámskrá grunnskóla 1989 er rætt um að spennandi og fróðlegt geti verið að tengjast öðrum skólum innan lands sem utan. Þar er einnig bent á mikilvægi þess að skólar geti nýtt sér rafræn upplýsingasöfn (Menntamálaráðuneytið, 1989). Bent var á að tölvusamskipti (nemendur skrifast á við aðra, senda verkefni og upplýsingar á milli) gæfu tækifæri til að gera námið áhugaverðara, gæfu náminu aukið gildi og væru til þess fallin að víkka sjóndeildarhring nemenda (Jón Jónasson, 1991; Ragnheiður Benediktsson, 1991). Tölvur gæfu tækifæri til samstarfs milli skólastofnana og einstaklinga innan þeirra, sem og samskipta um allan heim. Þar með væri til dæmis einangrun sérhæfðra faggreinakennara rofin (Steinþór Þórðarson, 1998).

Á síðustu árum hefur trúin á að hægt sé að nota samskiptatækni til að efla samskipti síst dvínað. M. Allyson Macdonald telur að miklir möguleikar felist í tækninni til að efla samskipti í námi og kennslu (M. Allyson Macdonald, 2005). Upplýsingatæknin geti stuðlað að markvissari samskiptum í námi og þátttöku allra í nemendahópum. Breyttir kennsluhættir stuðli enn fremur að virkum samskiptum og góðum anda (Torfi Hjartarson, 1999).

Fjarnám og dreifnám

Með tilkomu tölva og þeirrar samskiptatækni sem þær bjóða upp á fóru menn að sjá nýja möguleika varðandi kennslu í fjarnámi. Segja má að umræðan um þetta hefjist á árunum upp úr 1990.
Með tækninni gætu einstaklingar unnið saman óháð búsetu og líkamlegu atgervi. Hver og einn gæti því fengið tækifæri til að njóta hæfileika sinna (Menntamálaráðuneytið, 1999b). Skólar gætu í samvinnu boðið upp á sérhæfða námsáfanga í fjarkennslu og þannig gætu nemendur viðað að sér þekkingu víða að (Menntamálaráðuneytið, 2004b). Nemendur gætu unnið verkefni hvar sem er, til dæmis í tölvu heima hjá sér eða í fistölvu (Lára Stefánsdóttir, 1997).

Með auknum tölvusamskiptum er ekki lengur nauðsyn að vera „til staðar“ í kennslu. Fjarkennsla öðlast stærri og mikilvægari sess. Nýir möguleikar sem felast í hugtakinu gagnvirkar kennslustofur bjóða upp á að nemendur starfi saman að lausn verkefna um tölvunet. Þetta gefur kost á því að nemendur vinni að verkefnum við hæfi í samræmi við þroska og námsgetu. Gagnvirk kennslustofa skapar einnig grundvöll þess að sérkennari aðstoði nemanda í námi án þess að þurfa að koma inn í kennslustofuna eða að nemandinn þurfi að yfirgefa bekkinn. (Gísli Þorsteinsson o.fl., 1997).

Bent hefur verið á ýmsa kosti við fjarnám, svo sem að slíkt nám geri nemendur sjálfstæðari, ábyrgðarfyllri og skipulagðari og að með þessu móti geti hver og einn unnið á sínum hraða (Brynhildur Anna Ragnarsdóttir, 2002).

Einnig sáu menn fyrir sér að gagnvirkt sjónvarp og margmiðlun yrði að veruleika í náinni framtíð og að hægt væri að efla menntun um land allt og auðvelda símenntun og endurmenntun fólks (Menntamálaráðuneytið, 1996). Hægt væri að efla menntun á landsbyggðinni og það án þess að reisa skólahús og ráða kennara til starfa í þeim (Björn Bjarnason, 1999). Margir sáu fyrir sér að kennsluhættir þróuðust smám saman yfir í dreifmenntun þar sem nemendur gætu jafnvel stundað nám í mörgum skólum í senn og mótað nám sitt eftir þörfum. Slíkt stuðlaði að auknu jafnrétti til náms (Menntamálaráðuneytið, 2001).

Netið

Í þessari grein hef ég kosið að aðgreina hugmyndir sem tengjast samskiptatækni og hugmyndir sem tengjast Netinu. Netið byggist þó að sjálfsögðu á tölvu- og samskiptatækninni en einnig má líta á það sem fyrirbæri út af fyrir sig. Á Netinu er hægt að nálgast upplýsingar, miðla þeim, nálgast ýmsa þjónustu og hafa samskipti á marga vegu (Ásrún Matthíasdóttir, 2001d).

Netið kom til skjalanna á árunum upp úr 1990 (Þórdís T. Þórarinsdóttir, 1999) og umræða um það fer af stað hér á landi á þeim árum. Um leið komu fram hugmyndir um hvernig hægt væri að nýta Netið í skólum, til dæmis í upplýsingaleit. Með tölvunni væri hægt að ferðast um og skoða allt milli himins og jarðar (Steinþór Þórðarson, 1998). Mikilvægt var talið að skólar nýttu sér þær upplýsingalindir sem Netið hafði að geyma og hjálpuðu nemendum að velja og hafna efni úr þessum heimi upplýsinga (Menntamálaráðuneytið, 1999c).

Litið var á Netið sem upplýsingaveitu fyrir skólastarf; þar væri hægt að miðla námsefni og hafa samskipti sín á milli (Menntamálaráðuneytið, 2001). Bent var á kosti Netsins sem kennslumiðils sem hefði margt fram yfir bókina; gagnvirkni og möguleika á fjölbreyttri myndrænni framsetningu (Birna Arnbjörnsdóttir og Kolbrún Friðriksdóttir, 2006). Þar væri aðgangur að upplýsingum og upplýsingaveitum með mjög fjölbreyttu efni, meðal annars á formi texta, mynda og hljóðs (Ásrún Matthíasdóttir, 2001d).

Samantekt

Margvísleg rök hafa verið notuð fyrir því að tölvur og upplýsingatækni eigi heima í skólastarfi á því tímabili sem hér er til umfjöllunar. Þessum rökum hefur þó verið haldið misjafnlega hátt á lofti. Það má sjá í töflu 5 hér fyrir neðan en þar er sett fram á fjögurra punkta kvarða hvaða rök virðast hafa verið mest áberandi í umræðunni á hverju tímabili. Tekið skal fram að taflan endurspeglar ekki hvernig framkvæmd eða staða mála á viðkomandi sviði var á hverjum tíma.

Tafla 5 – Helstu rök fyrir notkun tölvu- og upplýsingatækni í skólastarfi og vægi þeirra í umræðu á þremur tímabilum: 1985, 1995 og 2005

Rök

1985 1995 2005
1. Tæknin er mikilvæg fyrir samfélagið og einstaklinga þess
 

2. Tölvur eru öflug kennslutæki
 

3. Tölvur og upplýsingatækni stuðla að breyttu námi og kennslu

 

4. Tölvur auka hagræði í starfi skóla, kennara og nemenda

5a. Tölvur bæta aðgengi að upplýsingum

5b. Samskiptatækni

5c. Netið

 

 Mikil umræða Nokkur umræða Lítil umræða - Engin umræða

 

1. Tæknin er mikilvæg

Allt frá upphafi hafa í umræðunni verið mjög áberandi þau rök að tæknin sé mjög mikilvæg í samfélaginu og mikilvægt sé að undirbúa nemendur fyrir líf og störf í upplýsingaþjóðfélagi. Sömuleiðis að nemendur þurfi að temja sér vinnuaðferðir hvers tíma. Minna hefur farið fyrir því með hvaða hætti væri best að nota þessa tækni til að ná árangri í skólunum. Einnig má segja að það hafi aldrei verið fyllilega ljóst hvaða þekking um tölvur eða tæknina sjálfa væri mikilvæg fyrir nemendur almennt þótt það hafi verið nokkuð ljóst að sérhæfð þekking um tölvur og forritun væri gagnleg sérmenntuðu fólki. Í umræðu um þetta var óvissan sem í raun ríkti um hvað það væri sem skipti mestu máli aldrei dregin fram í dagsljósið.

Hvað varðar tölvur og upplýsingatækni er mikilvægt að vera ekki langt á eftir þar sem breytingar gerast hratt. Þær vinnuaðferðir sem verið er að kenna í dag eru kannski úreltar á morgun. Því má jafnvel setja spurningamerki við það hversu mikla áherslu slíkt á að hafa á kostnað þess að kenna aðra hluti svo sem góð vinnubrögð almennt og gagnrýna hugsun: það að kunna að meta, velja og miðla upplýsingum og þekkingu. En þessi atriði koma tölvutækninni aftur á móti ekkert sérstaklega við og ætti ekki að tengja mikilvægi þeirra tilurð tölvutækninnar (þótt það sé oft gert).

Þetta tengist umræðunni um mikilvægi tækni- og upplýsingalæsis og hlutverk skólanna í að efla slíkt læsi. Segja má að umræðunni um þetta hafi enn vaxið ásmegin þegar Netið kom fram á sjónarsviðið og gáttir opnuðust almenningi að margvíslegum upplýsingabrunnum og gagnabönkum.

Upplýsingalæsi er oft sett undir hatt tölvu- og upplýsingatækni en það má spyrja sig hvort það heyri þar undir. Að mínu mati á upplýsingalæsi frekar heima undir hatti almennrar menntunar og aðferðafræði en þó má einnig segja að orðið hafi fremur óljósa merkingu, samanber umræðuna hér fyrir ofan um orð og orðanotkun.

Í upphafi var talið að flestir, ef ekki allir, þyrftu að kunna eitthvað fyrir sér í forritun til að geta nýtt sér tölvutæknina að fullu. Einnig var bent á möguleikana við að nota forritun til að kenna ýmsa aðra þætti, svo sem málfræði og ýmis stærðfræðileg atriði. Þessar hugmyndir byggðust á eins konar hugsmíðahyggju og gerðu ráð fyrir að nemendur næðu valdi á þekkingu með því að skapa hana að einhverju marki sjálfir. Í dag er ekki talin þörf á að kunna forritun til að nýta sér tölvutæknina og því eðlilega lítil áhersla á þann þátt. Hvað varðar að nota forritun sem kennslutæki, þá hefur það einnig verið lítt áberandi hin síðustu ár og ekki margir sem halda því á lofti í umræðu um gagnsemi tölvunnar um þessar mundir. Skýringar á þessu geta meðal annars verið að fjármagn skorti til að koma þessu í gagnið, fáir kennarar sjái raunverulegan hag af slíkri kennslu og hafi þess utan ekki kunnáttu eða aðstöðu til að sinna henni. Einnig hefur tölvuumhverfið breyst og ekki er nein þörf á að tölvunotendur kunni mikið fyrir sér í forritun til að nýta sér tæknina á ýmsan máta.

Spurningunni um það hvort tölvu- og upplýsingatækni eigi að vera sérstök grein í skólum eða samtvinnuð öðrum greinum hefur oft verið velt upp. Á síðari árum hefur það sjónarmið orðið ofan á að upplýsingatækni eigi að vera hluti af námi í öllum greinum og segir í Aðalnámskrá grunnskóla 1999 að nýta eigi þau tækifæri sem upplýsingatæknin býður til að ná markmiðum í einstökum greinum (Menntamálaráðuneytið, 1999c).

Rökin um að þekking á tækninni sé mikilvæg fyrir alla hafa alltaf verið sterk og áberandi í umræðunni og eru það enn, þótt þau séu ekki eins sterk og fyrr. Í byrjun voru ekki allir sammála um að nýta tölvutæknina í skólastarfi en nú virðist vera orðið samkomulag um að þar eigi hún fyllilega heima og einnig að mikilvægt sé að þeir sem starfa innan menntakerfisins verði að gera sér far um að nýta þessa tækni sem best. Tæknin sé einfaldlega það mikilvæg í samfélaginu að hún verði að hafa mikið vægi í skólastarfi. En það er ennþá fremur óljóst við hvað er átt og það hefur sennilega aldrei farið fram gagnrýnin umfjöllun um það hvað sé átt við þegar því er haldið fram að umsvif tækninnar kalli á að kennt sé um hana.

2. Tölvur eru öflug kennslutæki

Hugmyndir hafa verið mjög áberandi um tölvur sem öflug kennslutæki og að tæknin geti haft í för með sér margvíslegar breytingar á skólastarfi. Í upphafi voru þessar hugmyndir mjög róttækar og voru margir þeirrar skoðunar að tölvur myndu gjörbylta skólum og kennsluháttum, kennarinn yrði jafnvel óþarfur og að sjálfsnám í tölvum tæki við af skólakerfinu. Ekki voru þó allir á því að þetta væru raunhæfar hugmyndir.

Upphaflega sáu menn ýmis tækifæri til að nota tölvur sem sýndarheim og hermilíkön og hermileiki til að auka skilning á ýmsum fyrirbærum. Flest forrit sem notast var við voru þó einfaldari, „spurning-svar forrit” af ýmsu tagi. Slíkt er notað í einhverjum mæli í flestum skólum í dag og úrval af slíkum forritum er alltaf að aukast. Reyndin er sú að flóknari forrit, sýndarheimar og hermilíkön, hafa í mjög litlum mæli verið notuð í skólum. Á hinn bóginn hefur þetta birst í ýmsum tölvuleikjum og tölvusýndarheimum sem njóta mikilla vinsælda og eru dægradvöl margra barna og unglinga í dag. Ekki er einfalt að svara því hvers vegna þessir möguleikar eru lítt nýttir í skólastarfi og líklega eru skýringarnar margar. Tæknin er augljóslega til staðar eins og sjá má á framboði af ýmsum tölvuleikjum og forritum. Hér kann að vega þungt skortur á efni sem hentar í skólastarfi og á fjármagni til að útbúa slíkt efni.

Þegar litið er til þessarar þrjátíu ára þróunar virðist ekki, nema að mjög litlu leyti, hafa tekist að gera tölvur að þeim öflugu kennslutækjum, a.m.k. ekki í þeim mæli sem hugmyndaríkir frumkvöðlar gerðu ráð fyrir. Ekki virðist vera nóg að tæknin sé til staðar. Fölmargir kennslufræðilegir og skólakerfislegir þættir virðast hafa meiri áhrif, svo sem fé, stundaskrá, námskrá, kunnátta kennara og ekki síst tæknileg aðstaða. Þessir þættir hafa orðið til þess í mörgum tilvikum að styrkja hefðbundna, oft gamaldags, starfshætti.

3. Breytt nám og kennsla

Eins og fram hefur komið í þessari grein voru í upphafi þess tímabils sem hér er til skoðunar róttækar hugmyndir um að tölvur myndu bylta hefðbundnu skólastarfi á margvíslegan hátt. Á seinni árum hefur umræðan snúist meira um að nýta tölvurnar í hefðbundnu skólastarfi. Hugmyndirnar nú eru í þeim skilningi íhaldssamari og sennilega raunsærri en hinar fyrri. Nú er einkum rætt hvernig hægt sé að gera nám og kennslu þverfaglegri, fjölbreyttari, auka virkni og samvinnu nemenda og þátttöku þeirra í skólastarfi og við að byggja upp þekkingu. Svo virðist sem gagnrýni Deweys á framstefnumenn (e. progressivists), fylgismenn sína, hafi átt við um þessa umræðu. Þar gagnrýndi hann að í hina framsæknu menntastefnu vantaði oft ígrundaða hugsun og kenningu til að byggja á (Dewey, 1938/2000). Í umræðunni um notkun tölva í skólum má segja að oft á tíðum hafi skort á ígrundaða hugsun um hvert átti að vera hlutverk kennarans, hvert átti að vera hlutverk tölvunnar og ekki síst hvert ætti að vera hlutverk nemandans. Það vantaði yfirvegaða kenningu um þá reynslu sem átti að vera forsenda menntunar í tölvustuddum náms- eða kennsluheimi. Það má vera að slíka grundvallarumræðu vanti enn.

4. Hagræði

Umræða um hagræði af tölvum í skólastarfi var mest til í upphafi en hefur verið lítið áberandi á seinni tímabilunum og má jafnvel segja að hún hafi alveg dottið niður. Ástæðan er sennilega sú að tölvur og upplýsingatækni hafa náð gríðarlegri útbreiðslu sem hagræðingartæki í skólakerfinu. Tölvutæknin er notuð við flesta þætti skólastarfs, til dæmis stundatöflugerð, nemendaskráningu, mætingarskráningu, rekstur, bókhald, vefsíðugerð, samskipti við nemendur og foreldra og foreldrasamstarf. Því má segja að skólakerfið hafi að þessu leyti lagað tölvutæknina að sér og líklega gætu fæstir hugsað sér rekstur skóla í dag án þessara hjálpartækja. Í þessu efni hefur orðið hljóðlát bylting; sennilega meiri en orðið hefur hvað varðar námskrá, nám og kennslu. Þetta hefur gerst án mikillar umræðu.

5. Samskiptatækni, Netið og aðgengi að upplýsingum

Loks er það umræða um samskiptatæknina og Netið. Í byrjun var hún ekki mjög áberandi en menn sáu þó fyrir sér að í framtíðinni yrðu mörg tækifæri á þessu sviði. Svo reyndist vera. Í seinni tíð hefur umræðan um notkun samskiptatækni og Netið í skólastarfi farið vaxandi. Fjarnám hefur vaxið mikið og margir skólar bjóða nú upp á fjarnám eða dreifnám. Á þessu sviði hefur verið samstaða um að nýta tæknina til að efla menntun og skólastarf.

Niðurstaða

Frá upphafi tölvuvæðingarinnar hefur í umræðunni verið mikil áhersla lögð á notkun tölvutækninnar í skólum enda sáu margir fyrir sér að tölvuvæðingin yrði mikil og að tölvur ættu eftir að verða stór hluti af daglegu lífi. Þær ættu því heima í skólunum líka. Tölvutæknin hefur vissulega teygt anga sína um allt samfélagið, hagræðið og þægindin eru mikil af notkun hennar. Þó að ný tækni gegnsýri allt þjóðfélagið þá liggur alls ekki ljóst fyrir hvernig hún á að fléttast inn í almennt skólastarf og kennslu.

Þó margt í framtíðarsýn þeirra sem hugleiddu þýðingu tölvu- og upplýsingatækni fyrir rúmum 30 árum hafi gengið eftir sýnist mér meginniðurstaðan sú að spár um að þessi nýja tækni myndi gjörbreyta skólastarfi, kennslu og námi hafi ekki ræst. Það sem síðan hefur kannski gerst er að skólakerfið hefur lagað tæknina að þörfum sínum. Tæknin virðist hafa verið talin vera bæði það öflug og þess eðlis að hún gæti sjálfkrafa breytt eðli og starfi skóla en efast má um að raunin hafi verið sú þó að sjálfsögðu hafi orðið ýmsar smærri breytingar svo vitnað sé í Tyack og Cuban (2001).

Spyrja má hvers vegna margt af því sem búist var við að tölvutæknin myndi breyta varð ekki. Hvaða þættir urðu til þess að margar af þeim hugmyndum sem uppi voru gengu ekki upp í raunveruleikanum? Líklega er um samspil margra þátta að ræða, svo sem kennslufræðilega þætti, skort á gagnvirkni, skólakerfis- og stjórnunarlega þætti, eins og fjármögnun, vald og ábyrgð og loks er það hefðin. Tyack og Cuban (2001) hafa einmitt bent á þetta. Einnig verður að benda á aðstöðuleysi og tæknilega erfiðleika sem oft voru miklir til að byrja með og eru enn. Jafnframt að flestir höfðu litla kunnáttu og tölvureynslu, bæði kennarar og nemendur. Sennilega er þó mikilvægasta skýringin sú að þeir sem létu sig dreyma um takmarkalausa nýtingu tækninnar höfðu óraunhæfar hugmyndir, bæði um tæknina sjálfa, um fólkið sem átti að stýra henni eða nota hana en ekki síst um skólastarfið sjálft. Umræðan um upplýsingatæknina var ekki nægilega upplýst.

Þegar á heildina er litið þykir mér sem umræða um hvers vegna eigi að nota tölvur í skólum hafi dvínað á undanförnum árum. Á fyrstu tveimur tímabilunum voru mörg rök tínd til, sennilega til að þoka málum áfram. Umræðan var full bjartsýni og stundum býsna hástemmd. Innleiðing tækninnar var ekki sjálfgefin og það þurfti að færa fyrir henni rök. Í seinni tíð virðist ekki jafn mikil þörf á því að hamra á þessum rökum; það þykir nú orðið sjálfsagt að nota tölvur og upplýsingatækni í skólum og jafnvel breyta skólastarfi svo hún nýtist sem best. Umræðan er líklega af þeim sökum lágstemmdari.

Ég tel að umræða um menntun þurfi alltaf að vera ígrunduð og öguð en hún má líka hafa þann neista hugsjónar sem einkenndi umræðu um tölvu- og upplýsingatækni á fyrstu árum hennar. Ég tel að skólafólk og samfélagið allt verði sífellt að spyrja sig að því hvaða leiðir sé best að fara til að kennsla og raunar skólastarf í heild sinni skili sem bestum árangri og færi okkur nær þeim markmiðum sem eru sett. Í hvaða mæli og með hvaða móti tölvu- og upplýsingatæknin er með í för hlýtur að fara eftir því hvert svarið við þeim spurningum er hverju sinni.

Heimildaskrá

3F. Félag um upplýsingatækni og menntun (2005). Endurskoðun námskrár í upplýsinga- og tæknimennt 2005. Álitsgerð. Sótt 29. apríl 2007 af http://www.ismennt.is/not/3f/UTNamskra.htm.

Atli Harðarson (1998). Tölvur og skólar. Ný menntamál, 16(1), 4046.

Ásrún Matthíasdóttir (2001a). Kennarinn og (far)tölvan. UT fyrir framhaldsskóla. Sótt 12. maí 2007 af http://www.lara.is/utn/tenglar/LTilKennara.htm.

Ásrún Matthíasdóttir (2001b). Kennslurými. UT fyrir framhaldsskóla. Sótt 12. maí 2007 af http://www.lara.is/utn/tenglar/LTilKennara.htm.

Ásrún Matthíasdóttir (2001c). Námsefni á neti. UT fyrir framhaldsskóla. Sótt 12. maí 2007 af http://www.lara.is/utn/tenglar/LTilKennara.htm.

Ásrún Matthíasdóttir (2001d). Netið. UT fyrir framhaldsskóla. Sótt 12. maí 2007 af http://www.lara.is/utn/tenglar/LTilKennara.htm.

Birgir Edwald (1999). Að tölvuvæða grunnskóla. Tölvumál, 24(2), 1314.

Birna Arnbjörnsdóttir og Kolbrún Friðriksdóttir (2006). Íslenskunám á Netinu: Sveigjanleg og skemmtileg leið til að læra íslensku sem erlent mál. Erindi á ráðstefnunni UT2006, 3. mars 2006. Sótt 12. maí, 2007 af http://www.menntagatt.is/default.aspx?pageid=2496.

Björn Bjarnason (1996). Skólastarf og upplýsingatækni. Erindi flutt á Ráðstefna Skýrslutæknifélags Íslands, 31. ágúst 1996. Sótt 29. apríl 2007 af http://www.bjorn.is/greinar/1996/08/31/nr/565.

Björn Bjarnason (1999). Menntakerfið og landsbyggðin. Erindi flutt á ársþingi SSNV á Siglufirði 27. ágúst 1999. Sótt 29. apríl 2007 af http://www.bjorn.is/greinar/1999/08/27/nr/38.

Brynhildur Anna Ragnarsdóttir (2002). Netnám og nemendasjálfstæði. Ritgerð til M.A.-prófs. Háskóli Íslands: Reykjavík.

Brynhildur Sch. Thorsteinsson (2002). Upplýsingatækni, staða hennar og áhrif í grunn- og framhaldsskólum. SITES M1 rannsóknin. Reykjavík: Námsmatsstofnun.

Börkur Hansen (1982). Tölvur og menntun: Hverju breytir tölvuvæðingin í skólastarfi? B.A.-ritgerð í uppeldis- og menntunarfræði. Háskóli Íslands: Reykjavík.

Cuban, L. (2001). Oversold and underused: computers in the classroom. Cambridge, Massachusetts: Harvard University Press.

Dewey, J. (1938/2000). Reynsla og menntun (Gunnar Ragnarsson, þýð.). Reykjavík: Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands.

Fjölbrautaskóli Snæfellinga (2005). Undirbúningur að stofnun Fjölbrautaskóla Snæfellinga. Sótt 29. apríl 2007 af http://www.fsn.is/umskolann/.

Gerður G. Óskarsdóttir (2003). Skólastarf á nýrri öld. Fræðslumiðstöð Reykjavíkur.

Gísli Þorsteinsson, Halla Gísladóttir, Halldór Arnórsson, Jón Atli Benediktsson, Mikael M. Karlsson, Magnús V. Magnússon og Valgeir Gestsson (1997). Markmið upplýsinga- og tæknimennta í grunnskólum og framhaldsskólum. Reykjavík: Menntamálaráðuneytið.

Guðrún Rósa Þorsteinsdóttir, Erla Þrándardóttir, Rögnvaldur Ólafsson og Ögmundur Knútsson (2007). Fjarnám við íslenska háskóla. Úttekt og stöðugreining. Akureyri: Rannsókna- og þróunarmiðstöð Háskólans á Akureyri.

Gunnar Stefánsson (1997). Saga Ríkisútvarpsins, 1930–1960. Reykjavík: Sögufélag.

Hafsteinn Karlsson og Þorsteinn Hjartarson (1998). Upplýsingatækni í skólastarfi. Sótt 28. apríl 2007 af http://www.ismennt.is/not/hsteinn/upplysinga.html.

Harpa Hreinsdóttir (2002). Saga Internetsins. Sótt 13. maí 2007 af  http://www.kennari.is/vefurinn/internet/sagainternetsins.html.

Harpa Hreinsdóttir (2003). Að bakka út úr tölvubyltingunni, kenna vel og halda sönsum. Skólavarðan, 3(8), 57.

Hörður Lárusson (1994). Tölvunotkun í skólum, horft til framtíðar. Tölvumál, 19(56), 2729.

Jóhann P. Malmquist (1987, 11. júní). Svargrein í Morgunblaðið. Morgunblaðið, 3233.

Jón Jónasson (1991). Tölvusamskipti. Tölvumál, 16(7), 89.

Jón Jónasson (1994). Tölvunotkun í kennslu. Sótt 12. maí 2007 af http://starfsfolk.khi.is/jonj/skrif/vegvisir/.

Jón Torfi Jónasson (1981). Vangaveltur eftir ráðstefnu um tölvur og skóla, sem haldin var í Lausanne í Sviss 27.–31. ágúst 1981. Efni fengið hjá höfundi.

Jón Torfi Jónasson (1986, 10. og 11. júlí). Tölvur í skólastarfi. Morgunblaðið, bls. 2.

Jón Torfi Jónasson (1987). Forritun með LOGO (2. útgáfa). Reykjavík: Svart á hvítu.

Jón Torfi Jónasson (1990). Menntun og skólastarf á Íslandi í 25 ár 1985–2010. Reykjavík: Framkvæmdanefnd um framtíðarkönnun.

Jón Torfi Jónasson, Andrea G. Dofradóttir og Kristjana Stella Blöndal (2002). Hvaða lærdóm má draga af þróunarskólaverkefninu í upplýsingatækni? Mat á framkvæmd og ávinningi verkefnisins. Reykjavík: Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands.

Jón Nordal (1983). Dulítið rabb um tölvur og skólastarf. Ný menntamál, 1(2), 3033.

Kennaraháskóli Íslands (án árs). Saga Kennaraháskóla Íslands. Sótt 12. maí 2007 af http://www.khi.is/?q=sagan.

Kollerbaur, A., Jansson, C.-G., Köhler, H. og Yngström, L. (1983). Datorstöd i undervisningen. Slutrapport från PRINCESS-projekted. Stockholm: Stockholms Universitet.

Lára Stefánsdóttir (1991). Tölvur í skólum. Tölvumál, 16(1), 67.

Lára Stefánsdóttir (1997). Nýta á tölvuna í öllu námi og kennslu. Heimili og skóli, 5(1), 1618.

M. Allyson Macdonald (2005). Skýrsla verkefnisstjóra NámUST – Notkun UST sem miðils í námi og kennslu. Markáætlun upplýsingatækni og umhverfismál. Lokaskýrsla. Sótt 31. mars 2007 af http://namust.khi.is/ur_lokaskyrslu.doc.

Marinó G. Njálsson (1994, 30. október). Tölvur í skólastarfi. Morgunblaðið, bls. 67.

Menntagátt (2007) Ráðstefnur menntamálaráðuneytisins um upplýsingatækni í skólastarfi – UT ráðstefnur. Sótt 13. maí 2007 af http://www.menntagatt.is/default.aspx?pageid=128.

Menntamálaráðuneytið (1989). Aðalnámskrá grunnskóla. Reykjavík: Menntamálaráðuneytið.

Menntamálaráðuneytið (1996). Í krafti upplýsinga. Tillögur menntamálaráðuneytisins um menntun, menningu og upplýsingatækni 1996–1999. Reykjavík: Menntamálaráðuneytið.

Menntamálaráðuneytið (1997). Markmið upplýsinga- og tæknimennta í grunnskólum og framhaldsskólum. Skýrsla forvinnuhóps á námssviði upplýsinga- og tæknimennta. Sótt á vefinn 11. maí, 2007. Slóðin er: http://www.ismennt.is/vefir/namskra/taekni/forskyrsla/yfirlit.html.

Menntamálaráðuneytið (1999a). Aðalnámskrá framhaldsskóla. Almennur hluti. Reykjavík: Menntamálaráðuneytið.

Menntamálaráðuneytið (1999b). Aðalnámskrá framhaldsskóla. Upplýsinga- og tæknimennt.  Reykjavík: Menntamálaráðuneytið.

Menntamálaráðuneytið (1999c). Aðalnámskrá grunnskóla. Almennur hluti. Reykjavík: Menntamálaráðuneytið.

Menntamálaráðuneytið (1999d). Aðalnámskrá grunnskóla. Upplýsinga- og tæknimennt. Reykjavík: Menntamálaráðuneytið.

Menntamálaráðuneytið (1999e). Aðalnámskrá leikskóla. Reykjavík: Menntamálaráðuneytið.

Menntamálaráðuneytið (2001). Forskot til framtíðar. Verkefnaáætlun menntamálaráðuneytisins í rafrænni menntun 2001–2003. Reykjavík: Menntamálaráðuneytið.

Menntamálaráðuneytið (2004a). Aðalnámskrá framhaldsskóla. Almennur hluti. Reykjavík: Menntamálaráðuneytið.

Menntamálaráðuneytið (2004b). Aðalnámskrá framhaldsskóla. Upplýsinga- og tæknimennt. Reykjavík: Menntamálaráðuneytið.

Menntamálaráðuneytið (2005). Áræði með ábyrgð: stefna menntamálaráðuneytis um upplýsingatækni í menntun, menningu og vísindum 2005–2008. Reykjavík: Menntamálaráðuneytið.

Menntamálaráðuneytið (2006). Aðalnámskrá grunnskóla. Almennur hluti. Reykjavík: Menntamálaráðuneytið.

Menntamálaráðuneytið (2007). Aðalnámskrá grunnskóla. Upplýsinga- og tæknimennt. Reykjavík: Menntamálaráðuneytið.

Morgunblaðið (1987, 16. maí). Markviss uppbygging tölvuvæðingar í skólum hafin. Morgunblaðið, bls. 28.

Orðabók Háskólans: Ritmálaskrá. Slóðin er: http://lexis.hi.is/cgi-bin/ritmal/leitord.cgi?adg=innsl.

Papert, S. (1980). Mindstorms: Children, computers, and powerful ideas. New York: Basic Books, Inc.

Pétur Þorsteinsson (1991). IMBA Tölvumiðstöð skóla. Tölvumál, 16(7), 3234.

Ragnheiður Benediktsson (1991). Umhverfismenntun og tölvusamskipti. Tölvumál, 16(7), 2627.

Rögnvaldur Ólafsson (1981). Tölvur í skólum. Kennarablaðið (3), 713.

Saga Íslenska menntanetsins (2002). Sótt 11. maí 2007 af http://www.ismennt.is/.

Salvör Gissurardóttir (2000). Reynslusögur Konur og upplýsingasamfélagið. Sótt 12. maí 2007af http://www.simnet.is/konur/reynslusogur/salvor_gissurardottir.htm

Sigurjón Mýrdal (1996). Tæknimenning eða menningartækni?; um ábyrgð menntakerfisins á upplýsingaöld. Sótt 31. mars 2007 af http://www.simnet.is/annalar/val01/sigurjon/taeknimenning-menningartaekni-drog1996.htm.

Sloan, D. (ritstjóri) (1984). The computer in education. A critical perspective. New York: Teachers Collage Press.

Sólveig Jakobsdóttir (1999). Tölvumenning íslenskra skóla: kynja- og aldursmunur nemenda í tölvutengdri færni, viðhorfum og notkun. Uppeldi og menntun, 8, 119140.

Steinþór Þórðarson (1998). Tölvutækni í skólastarfi: framfarir eða fjölmiðlafroða?" Ný menntamál 16(2), 2022.

Torfi Hjartarson (1999). Kennslustofa framtíðar. Tölvumál, 24(2), 1314.

Tyack, D. og Cuban, L. (2001). Tinkering toward utopia. A century of public school reform. Cambridge, Massachusetts: Harvard University Press.

Þórdís T. Þórarinsdóttir (1999). Netið sem heimild. Hugleiðingar um mat á áreiðanleika upplýsinga á Internetinu. Bókasafnið, 23. Sótt 13. maí 2007 af http://www.bokasafnid.is/2023arg/index.html.

Þuríður Jóna Jóhannsdóttir (2001). Veiðum menntun í netið: Um námskenningar á nýja miðla og áhrif þeirra á nám og kennslu. Meistaraprófsritgerð. Reykjavík: Kennaraháskóli Íslands.