Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun

Kennaraháskóli Íslands

Grein birt 30. desember 2007

Greinar 2007


Baldur Sigurðsson

Málrækt er mannrækt

Um Stóru upplestrarkeppnina í 7. bekk
í ljósi opinberrar stefnu í framburðarmálum

Í greininni er fjallað um opinbera stefnu um framburð og framburðarkennslu í grunnskólum á síðari hluta 20. aldar. Höfundur ber saman þá málstefnu sem fylgt var í kjölfar rannsókna Björns Guðfinnssonar um miðja öldina og þá stefnu sem mótuð var í álitsgerð nefndar á vegum menntamálaráðherra árið 1985. Hann dregur fram hvernig álitsgerð nefndarinnar átti þátt í tilurð Stóru upplestrarkeppninnar í 7. bekk um áratug síðar og hvernig keppnin mótaðist af álitsgerðinni. Eftir að hafa lýst megindráttum keppninnar tengir hann grundvallarviðmið hennar, virðingu, ánægju og vandaðan flutning, við menningu og mannrækt í skólastarfi. Höfundur er dósent við Kennaraháskóla Íslands.

Sú kynslóð sem nú er á miðjum aldri hefur alist upp við þá hugmynd að íslensk tunga sé einstök gersemi. Tungan hefur verið nokkurs konar sameiningartákn þjóðarinnar sem við eigum öll að hlúa að og stuðla að því að hún varðveitist í sinni fegurstu mynd. Á hátíðarstundum vitnum við í þjóðskáldin, Hallgrím, Jónas og Snorra og líklega er rétt að fá málsamfélög hafa lagt meira kapp á að varðveita tengslin við fortíðina og smíða ný orð um hvers konar nýjungar í atvinnuháttum, tækni, vísindum og listum.

Vissulega er staða íslenskrar tungu einstök í heiminum miðað við það hversu fáir tala hana. Önnur málsamfélög af sömu stærð standa mun lakar að vígi, eiga fátæklegri bókmenntir, tungan heyrist lítið eða ekkert í útvarpi, leikhúsi og kvikmyndum og slík tungumál eru yfirleitt ekki töluð á ríkisstjórnarfundum. En gildismat er sífelldum breytingum háð og hver ný kynslóð vex upp við ný viðhorf.

Skólarnir gegna lykilhlutverki í að móta sjálfsmynd hverrar þjóðar, og þar með máluppeldi hennar. Höfðingjar landsins geta mælt fagurlega á tyllidögum, og ríkisstjórn og Alþingi geta sent frá sér merkilegar ályktanir og samið reglugerðir, en þær koma fyrir lítið ef þeim er ekki fylgt eftir af fólkinu á akrinum, kennurum og foreldrum. Slík eftirfylgja gerist ekki af sjálfu sér, til þess þarf frumkvæði og kraft, og til þess þarf að skilgreina markmið og skapa raunveruleg viðfangsefni þar sem reynir á að markmiðunum sé náð.

Stóra upplestrarkeppnin í 7. bekk grunnskóla er dæmi um slíkt frumkvæði. Hún var haldin í fyrsta sinn veturinn 19951996 og þá í einu sveitarfélagi. Sex árum síðar náði verkefnið til landsins alls, allt til ystu stranda. Slíkt er einstakt um skólaþróunarverkefni sem að mestu er rekið í sjálfboðavinnu og er ekki skyldubundinn hluti skólastarfs. Í þessu verkefni hefur, með áþreifanlegri hætti en í nokkru öðru einstöku þróunarverkefni í skólum, tekist að laða fram það besta sem býr í börnunum og höfða til þeirrar ræktarsemi sem blundar í brjóstum flestra Íslendinga gagnvart tungunni og máluppeldi nýrrar kynslóðar.

Hér verður fjallað um þær hugmyndir sem Íslendingar hafa gert sér um ræktun framburðar íslenskrar tungu frá miðri 20. öld og hvernig reynt hefur verið að framfylgja þeim hugmyndum. Sýnt er fram á að hugmyndafræðilegur og fræðilegur undirbúningur er nauðsynlegur – en ekki nægilegur – til að árangur náist. Allan þann tíma sem hér er til umfjöllunar eru Kennaraháskóli Íslands og starfsmenn hans í lykilhlutverki.

Hugmyndin um sparibúning íslenskunnar

Haustið 1946 flutti Björn Guðfinnson fyrirlestur í Háskóla Íslands um hugmyndir sínar um samræmingu íslensks framburðar og stafsetningar. Í framhaldi af því var fyrirlesturinn fluttur í útvarpi og síðar um veturinn sendi Björn frá sér bókina Breytingar á framburði og stafsetningu (1947) þar sem hann gerði ítarlega grein fyrir hugmyndum sínum og tillögum.

Hugmyndir Björns snerust um að skilgreina nokkurs konar sparibúning málsins sem hafa mætti um hönd í hinu nýstofnaða Ríkisútvarpi landsmanna og á sviði væntanlegs Þjóðleikhúss, auk þess sem þennan búning skyldi hafa á þeirri íslensku sem kennd yrði útlendingum og í skólum landsins. Hann gerði ráð fyrir að höfuðból þessa framburðar yrði í Kennaraskólanum enda mikilvægast að kennarar sýndu gott fordæmi og væru færir um að leiðbeina nemendum um réttan framburð.

Margt varð til að gefa orðum Björns vægi í samfélaginu svo eftir var tekið. Rannsóknir hans á íslenskum framburði voru brautryðjendaverk og mikið stórvirki. Nýfengin og yfirgripsmikil þekking á framburði í landinu vó þungt í röksemdum hans fyrir því að skapa nokkurs konar sparibúning tungunnar úr því besta sem þá var lifandi í framburði landsmanna. Í annan stað hafði umræða um stafsetningu verið mjög lífleg í landinu og Björn benti réttilega á að stafsetning yrði að taka mið af einhverjum tilteknum framburði, og því væri nauðsynlegt að skilgreina þann framburð.

Í flestum eða öllum málsamfélögum sem byggja ritmál sitt á arfleifð Fönikíumanna hefur farið fram rækileg umræða um stafsetningu: hvort hún eigi að fylgja einhvers konar „uppruna“ eða framburði. Þessi umræða varð mjög heit á 19. öld og stóð langt fram á þá tuttugustu. Í okkar íslenska samfélagi hófst þessi umræða fyrir alvöru með Fjölnismönnum sem héldu því fram að stafsetning ætti refjalaust að vera í samræmi við framburð og stafsettu fyrstu árganga Fjölnis samkvæmt því (sjá Konráð Gíslason 1938). Þótt ýmsir áhrifamiklir menn hér á landi tækju undir þessi sjónarmið síðar varð niðurstaðan samt sú hjá okkur, eins og hjá flestum öðrum erfingjum Fönikíumanna, að stafsetningin fer bil beggja, framburðarins og upprunans.

Birni entist ekki aldur til að fylgja tillögum sínum eftir. Þær fengu mikla umfjöllun en virðist hafa verið stungið undir stól af fræðsluyfirvöldum (sjá Guðmund B. Kristmundsson o.fl. 1986:23). Þótt aldrei yrði til nein opinber stefna um íslenskan framburð í framhaldi af tillögum Björns höfðu þær þó töluverð áhrif: Hugmyndir um sparibúning málsins eða fyrirmyndarframburð skutu rótum meðal leikara og skóla- og menntafólks, og flámælinu var að mestu útrýmt á tveimur eða þremur áratugum. Mestu munaði að „réttmæli“ var markvisst kennt í skólum og málræktarmönnum tókst að gera flámælið hlægilegt meðal almennings, einhvers konar tákn um sveitamennsku eða fíflsku á árunum eftir stríðið þegar þjóðin var sem óðast að segja skilið við torfbæina og þráði ekkert heitar en vera „smart“.

Framburðarnefndin 1985

Víkur nú sögunni til ársins 1984. Um þær mundir er framburður íslensks máls aftur á dagskrá. Þá ályktar Alþingi um vorið „að fela ríkisstjórninni að hlutast til um að í ríkisfjölmiðlum og í grunnskólanámi verði aukin rækt lögð við málvöndun og kennslu í framburði íslenskrar tungu“ (Guðmundur B. Kristmundsson o.fl. 1986:3). Hér var spjótum ekki aðeins beint að framburði tungunnar, heldur skyldi einnig tekið á málnotkuninni í víðum skilningi. Næsta vetur setur Ragnhildur Helgadóttir menntamálaráðherra til starfa eina öflugustu nefnd sem um þessi mál hefur fjallað nokkru sinni: Baldur Jónsson, Höskuld Þráinsson og Indriða Gíslason, en formaður var Guðmundur B. Kristmundsson. Nefndin skilaði vandaðri Álitsgerð um málvöndun og framburðarkennslu í grunnskólum árið 1986. Hún lét ekki þar við sitja heldur lét fylgja álitinu fræðslu- og leiðbeiningarrit handa kennurum, sjá síðar.

Álitsgerðin markar að ýmsu leyti tímamót, eða staðfestir öllu heldur ýmsar breytingar sem orðið höfðu á öllum forsendum málstefnu og framkvæmd hennar frá því Björn Guðfinnsson samdi tillögur sínar. Nefndin fer rækilega yfir forsendur málstefnu, þ.e. forsendur þess að gera greinarmun á réttu og röngu máli, góðu og vondu, viðeigandi og óviðeigandi. Á þeim breyttu forsendum tekur nefndin einarða afstöðu gegn samræmingu framburðarins en leggur til að fræðsla um mállýskur verði aukin í skólum og hlúð að minnihlutaframburði. Er sérstaklega bent á að samræming framburðar geti leitt til mállegrar stéttaskiptingar. Nefndin bendir á að ekki sé alltaf unnt að gera fortakslausa kröfu um skýrt og vandað mál, heldur geti óskýr framburður eða gallað málfar ráðist af aðstæðum hverju sinni, og það verði að umbera og viðurkenna.

Hins vegar virðist nefndin alveg sammála þeirri grundvallarhugmynd að baki tillögum Björns og annarra sem skrifuðu um málstefnu á síðari hluta 20. aldar (sjá t.d. Halldór Halldórsson og Baldur Jónsson (1993) um stofnun Íslenskrar málnefndar 1964), að stuðla beri að varðveislu málkerfisins, rækta með börnum og unglingum skýran framburð og vandað mál, og gera kennara hæfa um að sinna því verkefni. Í leiðbeiningarriti nefndarinnar er allmikið fjallað um brottföll og samlaganir hljóða í mæltu máli og reynt að draga mörkin milli þess sem eðilegt er og sjálfsagt við vissar aðstæður og þess sem er óskýrt, óeðlilegt og óæsklilegt.

Þær tillögur nefndarinnar sem sérstaklega sneru að framburði má setja fram í nokkrum liðum (Guðmundur B. Kristmundsson o.fl. 1986:4043):

 1. Sporna skal gegn breytingum á hljóðkerfinu og stuðla að varðveislu samhengis í málinu.

 2. Kennarar og aðrir sem leiðbeina um mál þekki

 1. íslenska hljóðkerfið sem best og átti sig á venslum málhljóða og bókstafa,

 2. íslenskar mállýskur og einkenni þeirra,

 3. helstu tal- og málgalla og geti greint hvenær ástæða er til að grípa til sértækra úrræða,

 4. að málsnið er margs konar og mismunandi kröfur eru gerðar eftir aðstæðum,

 5. að ekki er unnt miða skýrmæli við stafsetningu.

 1. Skýr framburður er yfirleitt eftirsóknarverður og kennarar skulu reyna að hamla gegn óskýrum og óvönduðum framburði í máli.

 2. Erlend tökuorð í málinu verði borin fram samkvæmt íslenskum hljóðkerfisreglum.

Eins og vænta mátti beindust tillögur nefndarinnar fyrst og fremst að starfi í grunnskólum og þar með að menntun grunnskólakennara. Hér var enn gert ráð fyrir að Kennaraskólinn, nú Kennaraháskóli Íslands, yrði höfuðból stefnunnar. Nefndarmenn lögðu sjálfir hönd á plóg til að fylgja tillögum sínum eftir. Sá hluti af álitsgerðinni sem fjallar um ýmsar félagsfræðilegar forsendur málstefnunnar var gefinn út í bókinni Mál og samfélag (Indriði Gíslason o.fl. 1988) og fræðsluritið um framburð, fylgirit álitsgerðarinnar, varð síðar í höndum tveggja nefndarmanna, Indriða Gíslasonar og Höskulds Þráinssonar að Handbók um íslenskan framburð (1993), ómissandi riti fyrir alla sem eitthvað vilja vita um íslenskan framburð.

En hvað svo? Hafði þetta starf einhver áhrif? Tókst að framfylgja ályktun Alþingis um að rækta með ungu fólki vandaðan og skýran framburð?

Meðal íslenskukennara í framhaldsskólum var um þetta leyti mikill áhugi á hljóðfræði og framsögn. Nemendur framhaldsskólanna voru látnir læra hljóðritun (óvíst með framsögnina), fjöldi símenntunarnámskeiða var haldinn fyrir kennara og út komu nokkrar bækur um efnið, til dæmis eftir Hilde Helgason o.fl. (1988) og Margréti Pálsdóttur (1992). Álitsgerð nefndarinnar hafði mikil áhrif í Kennaraháskólanum. Undir forystu Indriða Gíslasonar prófessors tókst að fá viðurkennt að íslenska þyrfti að skipa stærri sess í kjarna kennarmenntunar og að hljóðfræði og framsögn væru nauðsynlegur hluti þeirrar menntunar. Síðan hefur kennsla í hljóðfræði og framsögn verið órjúfanlegur hluti af undirbúningi kennaraefna.

Í Kennaraháskólanum var unnið samviskusamlega samkvæmt markmiðum þeim sem sett voru í Álitsgerðinni, og í Aðalnámskrá grunnskóla frá 1989 voru sett fögur markmið um ræktun hins talaða máls í grunnskólum, en það reyndist ekki hafa umtalsverð áhrif á vettvangi.

Upphaf upplestrarkeppninnar

Líður svo fram til ársins 1995. Þá er töluverð umræða meðal íslenskukennara við Kennaraháskólann um það að furðu lítil rækt sé lögð við skýran framburð og vandaðan flutning talaðs máls í þjóðfélaginu, sama hvert litið er. Þá höfðu brautskráðir kennarar fengið allgóðan undirbúning í framburði, framsögn og kennslu um nokkurra ára skeið en þess sá ekki mikinn stað í starfi grunnskólans. Flestir kunnu þá sögu að segja að á bekkjarkvöldum grunnskólanna skildu foreldrar ekki skemmtiatriðin og í vönduðum og íburðarmiklum leiksýningum nemendafélaga framhaldsskólanna virtist fullur metnaður lagður í alla þætti sýninganna – nema einn: framburð hins talaða máls; áheyrendur heyrðu ekki orðaskil nema á stangli.

Til er merkileg lýsing Sylvi Penne (1999), lektors við norskudeild háskólans í Ósló, á skólaheimsókn á Íslandi, sem ég tel ómaksins vert að vitna ítarlega til hér því þessi lýsing er sennilega nokkuð dæmigerð fyrir skólabraginn eins og hann var á þessum árum. Í skólanum verður hún vitni að samkomu þar sem nemendur í 7. bekk eru að skila af sér viðamiklu verkefni um lýðræði. Nemendur höfðu unnið að rannsókn á leikreglum lýðræðisins í nokkrar vikur, kannað stefnu stjórnmálaflokka og lært um mismunandi tegundir munnlegs og skriflegs málflutnings í stjórnmálum. Nú var komið að því að gera grein fyrir afrakstri vinnunnar í leikfimisal skólans. Nemendur áttu að kynna stefnu fimm „stjórnmálaflokka“ fyrir foreldrum, kennurum og öðrum nemendum. Hver flokkur hafði valið sér „frambjóðanda“ og aðrir flokksmenn áttu að taka þátt í að styðja sinn flokk. Í lokin áttu samkomugestir að „kjósa“ einn þessara fimm frambjóðenda á lýðræðislegan hátt. Sylvi Penne (1999:8586) skrifar:

Umgjörðin var áhrifamikil. Foreldrarnir báru fram kaffi og kökur, yngri systkini hlupu á milli. Þarna voru blöðrur, fánar og veggspjöld flokkanna um allt. Hávær tónlist dunaði undir. Stuðningsmenn flokkanna dreifðu kosningabæklingum með myndum af frambjóðendum og vígorðum. Þarna var umhverfisflokkur, æskuflokkur o.s.frv. Atkvæðaseðlar lágu í hverju sæti. Dagskrá kvöldins var eftirfarandi: Frambjóðendur áttu að tala, einn í einu. Þá fékk „flokksfélagi“ tækifæri til að mæla með frambjóðanda sínum. Stuðningsmenn áttu að láta á sér bera og sýna stuðning eða óánægju eftir atvikum. Það mátti spyrja spurninga. Eftirvæntingin var mikil. Svo fór dagskráin af stað:

Tíu nemendur héldu ræðu. Allir voru með (allt of langt) handrit. Mjög margir voru í miklum erfiðleikum með að lesa upp úr handritinu. Annaðhvort voru þeir mjög taugaóstyrkir eða þeir höfðu ekki búið sig undir að lesa upp, hvað þá að flytja þann boðskap sem þeir stóðu fyrir. Málsgreinarnar komu í slitrum, tafsandi, allt of hratt og allt of lágt. Örfáir ræðumenn skáru sig vissulega úr, en aldrei nóg til þess að þeir næðu sambandi við áheyrendur. Ógerlegt var að heyra hvað þeir sögðu – jafnvel ekki fyrir velviljaða ættingja og kennara. Fyrst í stað var líf í stuðningsmönnunum. Þeir báru fram spurningar í framhaldinu, það komu meira að segja nokkrar spurningar utan úr sal. Eftir um það bil hálftíma varð hljótt og dautt kringum ræðumenn en töluverður órói í leikfimisalnum.

Einn af hinum tíu var svalasti náunginn í bekknum, í víðum buxum og með húfuna öfugt. Hann var augljóslega sá sem minnst hafði búið sig undir hinn munnlega flutning. Það var eins og hann væri að lesa textann í fyrsta sinn. Margoft varð hann að byrja málsgreinar að nýju af því að hann náði ekki samhengi í handritinu. Hann skildi greinilega ekki allt sem þar stóð. En hann geiflaði sig, daðraði við stúlkurnar, sendi samkomugestum fingurkoss, og skellti húfunni að lokum á ráðvilltan kennara. Þessi var kjörinn með hrópum og blístri af hinum ungu áheyrendum – þó með naumum meirihluta. Aldrei varð ljóst hvað hann hafði fram að færa í kosningunum.

Hvað lærðu nemendur (og áheyrendur) um lýðræði? Töluvert, held ég. Og hvað var hinum hugsjónaríku kennurum efst í huga? Fjögurra vikna kraftmiklu starfi við að kenna nemendum leikreglur lýðræðisins var lokið. Þrátt fyrir að allt verkefnið hefði fjallað um orð – og um allt það sem bjargað getur heiminum – komst það ekki til skila. Það sem samkomugestum var eftirminnilegast, fyrir utan kökurnar, blöðrurnar og hið glæsilega skipulag, var atriðið þegar svalasti náunginn í bekknum setti húfuna öfugt á kennarann.

Ég hygg að margir íslenskir kennarar og foreldrar hafi lent í svipuðum aðstæðum og hér er lýst.

En skeytingarleysi um hið talaða mál var ekki aðeins útbreitt í skólunum. Íslenskumenn í Kennaraháskólanum voru sammála um að í sjónvarpi og kvikmyndum ríkti vantraust á mætti hins talaða orðs, leikararnir flyttu textann vissulega af öryggi en greinilegt væri að textanum væri ekki treyst til að ná áhrifum, heldur lögð áhersa á aðra tilburði leikarans eða leikstjórans, lýsingu, leikmynd og búninga. Jafnvel í sjálfu Þjóðleikhúsinu, sem átti að verða Mekka íslenskrar tungu þegar það var stofnað, heyrðust ekki orðaskil á sviðinu svo gagnrýnendur höfðu sérstaklega orð á því í dómum sínum. Greinilegt var að meira þurfti til en opinbert nefndarálit, nýjar kennslubækur og bætta menntun kennara.

Við þessar aðstæður kemur upp sú hugmynd að unnt sé að keppa í upplestri. Þessa óvenjulegu hugmynd færði ég í tal við Þórð Helgason vinnufélaga minn. Það tók okkur um hálft ár að tala í okkur þann kjark sem þurfti til að hrinda henni í framkvæmd. Við skrifuðum bréf til nokkurra samtaka sem við töldum að mundu hafa áhuga á málinu og í janúar 1996 var fyrsti fundurinn haldinn. Skipuð var undirbúningsnefnd sem starfað hefur með smávægilegum mannabreytingum allar götur síðan.

Keppnin hófst veturinn 1996–1997 með þátttöku 223 barna í fimm skólum í Hafnarfirði og á Álftanesi. Eftir það breiddist keppnin hægt en örugglega út um landið þar til hringurinn lokaðist á Austurlandi sjötta árið en það var ekki fyrr en veturinn 20032004 að verkefnið náði til fjarlægustu byggða á Ströndum og Tröllaskaga. Þar með náði verkefnið til hátt á fimmta þúsund nemenda í nánast öllum skólum landsins, um 150 talsins [1]. Fyrsta veturinn lauk keppninni 4. mars með vel heppnaðri hátíð í Hafnarborg að viðstöddum um 150 áheyrendum. Hver skóli sendi þrjá fulltrúa og fram komu nokkrir ungir tónlistarmenn. Undanfarin ár hafa hátíðirnar verið á bilinu 30 til 35 með samtals um 400 upplesurum. Álíka margir ungir tónlistarmenn koma fram á hátíðunum en áheyrendur eru á að giska 4500 samtals.

Undirbúningsnefnd kappkostaði að breiða keppnina ekki hraðar út en svo að hún hefði bolmagn til hafa nána samvinnu við skipuleggjendur og skóla á hverjum stað. Í því felst að halda kynningarfundi fyrir skóla og skólaskrifstofur að hausti, vera í nánu sambandi við skipuleggjendur yfir veturinn og heimsækja flesta eða alla skóla í febrúar til þess að meta starfið í skólunum og velja fulltrúa þeirra á lokahátíð. Undirbúningsnefnd gaf á fyrsta ári út vandað myndband um upplestur og framburð og hefur á hverju ári gefið út handbók handa kennurum sem dreift er ókeypis.

Frá upphafi tengdist verkefnið hugmynd Björns Bjarnasonar um dag íslenskrar tungu sem þá var í undirbúningi, annað hvort að byrja keppnina eða enda hana á afmæli Jónasar. Úr varð að keppnin hefst formlega á þessum degi með yfirlýsingu menntamálaráðherra, og lýkur jafnan með upplestrarhátíðum í hverju héraði landsins í mars. Á hverju ári eru valin skáld keppninnar og lesið úr verkum þeirra um land allt [2].

Markmið og árangur

Upplestrarkeppnin er ekki „keppni“ í neinum venjulegum skilningi því höfuðáhersla er lögð á að hafa áhrif á bekkjarstarfið. Keppnisformið er einungis rammi utan um verkefnið og markar lok vetrarstarfsins. Upphaflegt markmið verkefnisins var „að vekja athygli og áhuga ungs fólks á vönduðum upplestri og framburði“. Áhersla er lögð á að kennarar í 7. bekk leggi markvissa rækt við upplestur og framburð og fái alla nemendur til að lesa upp, allt frá degi íslenskrar tungu og fram í mars. Boðorðin í bekkjarstarfinu eru þessi (Stóra upplestrarkeppnin í 7. bekk, 2004):

 • Vöndum flutning og framburð íslensks máls.

 • Lærum að njóta þess að flytja móðurmál okkar, sjálfum okkur og öðrum til ánægju.

 • Berum virðingu fyrir móðurmálinu, sjálfum okkur og öðrum.

 • Lesum aldrei upp fyrir aðra án undirbúnings.

 • Lesum á hæfilegum hraða, hvorki of hratt né of hægt.

 • Gerum alltaf kröfu um listrænan flutning.

 • Sýnum upplesara virðingu eins og listamanni.

 • Upplestur á að vera öllum til ánægju – alltaf.

Á undanförnum átta árum hefur komið í ljós að nemendum fer stórkostlega fram í upplestri, framkomu og flutningi hvers kyns ritaðs máls. Svo virðist sem upphaflegt markmið um athygli og áhuga ungs fólks hafi náðst og að kennarar, ekki bara í 7. bekk, gefi vönduðum upplestri og framsögn meiri gaum en áður. Þar við bætist að keppnin virðist hafa styrkt sjálfstraust nemenda til mikilla muna, um það eru allir sammála. Þessi árangur hefur verið staðfestur í viðamikilli rannsókn á gildi verkefnisins sem gerð var af Háskólanum á Akureyri (sjá Rósu Eggertsdóttur og Guðmund Engilbertsson 2004). Þar kemur fram að 95 skólar eru sammála eða mjög sammála um eftirfarandi fullyrðingar um verkefnið:

 • Markmið verkefnisins hafa náðst 92%

 • Verkefnið leiðir til aukins lestrar 68%

 • Verkefnið stuðlar að bættri lestrarfærni 85%

 • Verkefnið eykur sjálfstraust nemenda 100%

Í höndum góðra kennara hefur þátttaka í keppninni styrkt nemendur með ýmsum öðrum hætti, aukið áhuga þeirra á bókmenntum og lestri, og gefið þeim kjark til að glíma við flutning á hvers kyns textum, ekki síst ljóðum. Nemendur sem hvorki höfðu sýnt áhuga á bókmenntum né á að koma fram fyrir bekkinn, fóru að biðja um að fá að lesa upp ljóð eða annan texta sem þeir höfðu valið sérstaklega. Sú meginregla að lesa aldrei upp án undirbúnings gerði einnig þeim seinlæsu fært að koma fram og lesa upp fyrir aðra. Í ljós kemur að þeir sem eiga í erfiðleikum með að lesa hafa ekki síðri unun af máli en hinir, og reynslan hefur kennt okkur að þeir ná ekki síður árangri í upplestrarkeppninni en þeir sem hafa verið fluglæsir frá unga aldri. Nokkrir framhaldsskólakennarar hafa talað um að nýnemar á síðari árum séu mun snarborulegri en áður var, hafi meiri áhuga á bókmenntum og meiri ánægju af að lesa ljóð og glíma við þau. Ekki er ólíklegt að áhrif upplestrarkeppninnar séu þarna að skila sér.

Hvernig er góður upplesari?

Í mars er uppskeruhátíð verkefnisins. Þá eru haldnar upplestrarhátíðir í hverjum skóla og valdir fulltrúar skólans til að taka þátt í héraðshátíð, sem yfirleitt er haldin í húsnæði utan skólanna. Héraðshátíðirnar eru víðast hvar orðnar miklar menningarhátíðir með þátttöku ungra listamann af ýmsu tagi. Þar flytja börnin sögur og ljóð, allir fá bókarverðlaun frá Eddu og þrír bestu upplesararnir fá inneign hjá sparisjóði héraðsins.

Þegar keppnin fór af stað töldu margir að erfitt mundi reynast að meta gæði upplestrar. Vissulega getur mat á upplestri verið smekksatriði en þó má hæglega meta fullkomlega hlutlægt nokkur atriði. Í handbók keppninnar (Baldur Sigurðsson 2006:1718) er lýst þeim viðmiðum sem kennarar eiga að fylgja þegar þeir leiðbeina nemendum sínum og eftir þeim starfa dómnefndir á lokahátíðum.

 1. Líkamsstaða: Standa í báða fætur, slaka á öxlum, anda djúpt og horfa fram.

 2. Raddstyrkur: Til þess að röddin berist þarf að anda djúpt og finna hljóm raddarinnar.

 3. Framburður: Sérhljóð þurfa að vera rétt mynduð og öll þau samhljóð skýr sem eðlilegt er að heyrist í vönduðu samfelldu talmáli. Svokallaður „stafsetningarframburður“ er hins vegar til lýta. Eðlilegt er að segja: „Kvað erðetta maður?“ í vönduðum reykvískum framburði, hvað sem stafsetningunni líður. Hins vegar er óvandað að segja: „Gvadamar?“

 4. Áherslur, tími og þagnir: Mikilvægt er að upplesari gefi sér tíma til að setja þagnir á réttum stöðum eða hægja á lestrinum þar sem það á við.

 5. Blæbrigði og túlkun: Upplesari þarf að lesa af skilningi og miðla honum á einlægan en hófstilltan hátt til áheyrenda.

 6. Samband við áheyrendur: Upplesari þarf að gefa sér tíma til að líta framan í áheyrendur sína svo þeir finni að talað sé til þeirra, við og við undir lestrinum og alltaf í lokin.

Þátttakendur í Stóru upplestrarkeppninni í Hafnarfirði og á Álftanesi
í Listasafninu Hafnarborg á 10 ára afmælishátíð verkefnisins í apríl 2005.
Ljósmynd: Jón Svavarsson.

Yfirleitt ríkir sátt í dómnefnd um niðurstöðu en þó er alltítt að áheyrendur hafi aðra skoðun á frammistöðu upplesara. Þar togast á sjónarmið um hvort á að vega þyngra, skýrleiki framburðarins eða skilningur og túlkun. Og svo má alltaf deila um smekk þegar túlkun er annars vegar.

Þeir sem meta upplestur á lokahátíðum af hálfu undirbúningsnefndar hafa eftirfarandi að leiðarljósi (sjá Baldur Sigurðsson 2006:18–19):

 1. Frumskilyrði er að framburður sé vandaður og skýr en það er ekki alltaf nóg. Vandaður og skýr framburður getur verið líflaus flutningur. Dómnefndum er iðulega vandi á höndum þegar gera þarf upp á milli tveggja lesara þar sem annar les hátt og snjallt en vantar sálina í lesturinn, en hinn nokkuð lægra, stuttu tvíhljóðin ekki alveg nógu skýr en flutningurinn engu að síður heillandi. Í slíkum tilvikum getur komið upp ágreiningur um verðlaunasæti og þar þarf dómnefnd að gæta meðalhófs.

 2. Túlkun á efni skal vera hófsöm en miðla fullum skilningi á efninu. Sá skilningur sem upplesari miðlar verður að vera einlægur skilningur þess sem les. Fyrir kemur að börn eru þjálfuð til að flytja ljóð eins og lærður leikari eða aðrir fullorðnir vilja hafa þau. Það er ekki rétt að kenna börnum upplestur á þann hátt og slíkur flutningur verður falskur og óekta þótt hann kunni að fara fullorðnum vel. Yfirdrifin leikræn túlkun er ekki metin til verðlauna af dómnefndum.

 3. Börnum hættir til að láta bragarhátt ráða upplestri ljóða. Kvæði undir hefðbundnum bragarháttum skal lesa fyrst og fremst af skilningi á efninu en þó verða stuðlar og rím að fá að njóta sín.

Er eitthvað varið í að hlusta á börn lesa upp?

Við sem að upplestrarkeppninni stöndum höfum orðið vör við það, ekki síst hjá sumum sem stjórna menningarmiðlum þjóðarinnar, að upplestur barna sé ekki skemmtun fyrir fullorðna. Upplestur barna er í mesta lagi skemmtun fyrir önnur börn, og fólk heldur að það sé miklu merkilegra að hlusta á fullorðið fólk lesa, t.d. rithöfunda eða stjórnmálamenn.

En við vitum betur. Eftir að hafa hlustað á börn og unnið með börnum í tólf ár vitum við að einmitt aldur barnanna í 7. bekk, þrettánda árið, er undraverður. Á þessum aldri geta þau allt, skilja allt og eru til í allt. Þau geta lesið af svo djúpum skilningi á efninu að þau heilla jafnt börn sem fullorðna. En þau lesa á sinn hátt – ekki eins og fullorðnir –  og það er einmitt hin sérstaka barnslega túlkun þeirra – ekki „barnalega“ – sem bæði er sönn og einlæg, sem gerir upplesturinn svo einstakan. Á sama hátt og myndlistarverk barna eru eðlisólík listaverkum fullorðinna er upplestur þeirra einnig frábrugðinn. Hugsið ykkur dreng á þrettánda ári lesa Álfareiðina eftir Jónas Hallgrímsson, fullan undrunar á því sem fyrir ber: „Var það út af ástinni ungu, sem ég ber? Eða var það feigðin, sem kallar að mér?“ Bæði ást og feigð fá allt aðra og dýpri merkingu í flutningi drengs á þrettánda ári en í munni fullorðins manns.

Þar með er ekki sagt að börn geti lesið allt jafn vel. Mjög margt ráða þau alls ekki við vegna þess að þau hafa ekki þá lífsreynslu sem þarf. Ef gerð er krafa um að börn lesi eins og fullorðnir eyðileggur það einlægnina í túlkun þeirra. Þetta aldursskeið varir stutt í ævi hvers manns og kemur aldrei aftur. Á lokahátíðum upplestrarkeppninnar hefur tekist að fanga þann heillandi þokka sem fylgir þessu stutta æviskeiði þegar barnið stendur á hátindi bernskunnar og þröskuldi unglingsáranna. Þess vegna hefur upplestrarkeppnin eignast sinn trygga hóp áheyrenda sem kemur ár eftir ár til að hlusta – og njóta.

Lokaorð

Árangur verkefnisins er vafalítið margþættur og ekki auðvelt að mæla hann. Hér hefur einkum verið fjallað um tvennt, annars vegar þýðingu verkefnisins fyrir ræktun framburðarins, og hins vegar fyrir skólastarf og skólamenningu.

Björns Guðfinnsonar mun lengi verða minnst fyrir að hafa átt einna mestan þátt í því að kveða flámælið niður. Fjörtíu árum síðar var það horfið en í stað þess komið óskýrmæli og jafnvel vísir að nýjum mállýskum eftir stétt eða aldri. Nefndin sem þá lagði drög að málstefnu fyrir skólana vann afar gott starf, samdi bækur og hélt námskeið, og stefnu hennar var framfylgt í kennaramenntuninni. En eins og oft vill verða vantaði síðasta áfangann, að stefnan um ræktun framburðarins kæmist alla leið út í skólana til barnanna. Og þar kemur upplestrarkeppnin til skjalanna.

Stóra upplestrarkeppnin í 7. bekk er eitt stærsta skólaþróunarverkefni á landinu. Á tólf ára tímabili hafa liðlega þrjú þúsund ungir grunnskólanemendur lesið upp fyrir hönd skólans síns á upplestrarhátíð í héraðinu og þar af hafa 750 fengið verðlaun í eitthvert af þremur efstu sætunum. En mestu munar að tæplega 40 þúsund nemendur hafa tekið þátt í þeirri þjálfun í bekknum sínum sem fylgir þátttöku kennara í verkefninu.

Í verkefninu er markvisst unnið að því að rækta fyrirmyndarframburð tungunnar á þeim forsendum sem álitsgerðin 1986 mælti fyrir um. Mikil áhersla er lögð á virðingu fyrir móðurmálinu, flytjendum og áheyrendum, sem og að gera alltaf kröfu um listrænan flutning. Verkefnið er ekki lögboðinn hluti af verkefnum fræðsluyfirvalda heldur byggist á frjálsri þátttöku kennara. Ekki er verið að þröngva tilteknu framburðarafbrigði uppá neinn, né heldur ætlast til að börn kasti þeim framburði sem þau eru alin upp við.

Í keppninni er verið að rækta sparibúning málsins, fyrirmyndarframburð þess við upplestur á bókmenntum, svo börn og unglingar þekki þennan búning og geti nýtt sér hann þar sem við á. Þekking á þessum sparibúningi er svo grundvöllur að farsælli stafsetningu móðurmálsins en það er önnur saga og efni í aðra grein.

Sú hlið þessa verkefnis sem lýtur að skólastarfi, skólabrag eða skólamenningu, er ekki síður mikilvæg. Sú skólamenning, sem birtist ljóslifandi í frásögn Sylvi Penne, er dæmi um fullkomið skeytingarleysi um flutning og framburð tungumálsins, skort á ánægju og gleði yfir textanum, og ekki síst virðingarleysi við móðurmálið, flytjendur og áheyrendur. Stóru upplestarkeppninni og öllu ræktunarstarfi í tengslum við hana er ætlað að uppræta skólamenningu af þessu tagi. Skipuleggjendur verkefnisins hafa tekið saman þrjú kjörorð sem ætlað er að undirstrika þetta:

 • Vöndum flutning og framburð íslensks máls.

 • Lærum að njóta þess að flytja móðurmál okkar, sjálfum okkur og öðrum til ánægju.

 • Berum virðingu fyrir móðurmálinu, sjálfum okkur og öðrum.

Þessi þrjú kjörorð eru á forsíðu bæklings um Stóru upplestrarkeppnina sem dreift hefur verið til foreldra og kennara um land allt frá árinu 2004 í tengslum við dag íslenskrar tungu (Stóra upplestrarkeppnin í 7. bekk, 2004). Þótt móðurmálið sé hér í fyrirrúmi er ljóst að með málið að vopni er unnt að vinna að ýmsum mikilvægum uppeldislegum markmiðum sem vonandi eiga eftir að skila sér í bættri menningu, bæði innan skóla og utan.

Tilvísanir

 1. Síðasta sveitarfélagið, Grímsey, tók í fyrsta sinn þátt í verkefninu veturinn 2006–2007. 
 2. Frá upphafi hefur verkefnið notið stuðnings menntamálaráðuneytisins, auk þess sem fjölmargir aðrir hafa styrkt verkefnið: Akureyrarbær, Barnavinafélagið Sumargjöf, Byggðastofnun, Flugfélag Íslands, Fræðsluráð Reykjavíkur, Edda, Garðabær, Kennaraháskólinn, Kópavogsbær, Lýðveldissjóður, Málræktarsjóður, Mjólkursamsalan, Mosfellsbær, Reykjanesbær, Seðlabankinn, Seltjarnarnesbær, Skólaskrifstofa Hafnarfjarðar og Sparisjóðirnir.

Heimildir

Baldur Sigurðsson. 2006. Upplestrarkeppni í grunnskóla. Handbók. Reykjavík: Raddir, samtök um vandaðan upplestur og framsögn.

Björn Guðfinnsson. 1947. Breytingar á framburði og stafsetningu. Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja.

Guðmundur B. Kristmundsson, Baldur Jónsson, Höskuldur Þráinsson og Indriði Gíslason. 1986. Álitsgerð um málvöndun og framburðarkennslu í grunnskólum. Samin af nefnd á vegum menntamálaráðherra 1985. Rit Kennaraháskóla Íslands, B-flokkur: Fræðirit og greinar 1. Reykjavík: Kennaraháskóli Íslands.

Halldór Halldórsson og Baldur Jónsson. 1993. Íslensk málnefnd 19641989, Rit Íslenskrar málnefndar 8. Reykjavík: Íslensk málnefnd.

Hilde Helgason, Margrét Pálsdóttir og Sverrir Páll Erlendsson. 1988. Orð í belg. Kennslubók í munnlegri tjáningu. Reykjavík: Mál og menning.

Indriði Gíslason og Höskuldur Þráinsson. 1993. Handbók um íslenskan framburð. Reykjavík: Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands.

Indriði Gíslason, Baldur Jónsson, Guðmundur B. Kristmundsson og Höskuldur Þráinsson. 1988. Mál og samfélag. Um málnotkun og málstefnu. Reykjavík: Iðunn.

[Konráð Gíslason]. 1938. „Ágrip af ræðu áhrærandi íslenskuna“ (flutt á fundi nokkurra Íslendinga í Kaupmannahöfn 1937). Fjölnir 4:1928.

Margrét Pálsdóttir. 1992. Talað mál. Lesörk í munnlegri tjáningu. Reykjavík: Mál og menning.

Rósa Eggertsdóttir og Guðmundur Engilbertsson. 2004. Stóra upplestrarkeppnin. Skýrsla unnin fyrir [m]enntamálaráðuneytið. Akureyri: Háskólinn á Akureyri.

Stóra upplestrarkeppnin í 7. bekk. Þróunarverkefni í samvinnu skóla og heimila um land allt. 2004. [Bæklingur til foreldra og kennara]. Reykjavík: Raddir, samtök um vandaðan upplestur og framburð.

Sylvi Penne. 1999. Nadja og retorikken. Í Frødis Hertzberg og Astrid Roe (ritstj.) Muntlig norsk, bls. 85104. Oslo: Aschehoug.

Prentútgáfa     Viðbrögð