Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun

Kennaraháskóli Íslands

Ritrýnd grein birt 30. desember 2007

Greinar 2007

Úr bókinni Komdu og skoðaðu land og þjóð eftir Sigrúnu Helgadóttur.
Teikningar: Freydís Kristjánsdóttir.

Kristín Loftsdóttir

Hin mörgu andlit Íslands

Framandleiki og fjölmenning í námsbókum

Á síðustu áratugum hafa fræðimenn skoðað birtingarmyndir fordóma gagnvart öðrum hópum í margs konar miðlum og jafnframt hvernig ákveðnir hópar hafa verið dregnir fram sem framandi eða öðruvísi. Námsbækur eru sérlega áhugaverður vettvangur til að skoða staðalmyndir vegna þess að þær eru notaðar innan skóla sem þáttur í að miðla ákveðinni þekkingu sem er oftast nær samþykkt sem gagnlegur og eðlilegur grunnur að menntun barna í samfélaginu. Einnig er námsbókin tengd ríkisvaldinu þar sem hún á að uppfylla markmið aðalnámskrár sem gefin er út af ríkinu. Greinin fjallar um þær ímyndir sem nýlegar íslenskar námsbækur bregða upp af fjölmenningarlegu Íslandi. Greining á tveimur bókaflokkum gefur til kynna mikilvægar breytingar á íslenskum námsbókum þar sem sjá má tilraun til að endurspegla Ísland á jákvæðan hátt sem fjölbreytt og fjölmenningarlegt samfélag. Kristín Loftsdóttir er mannfræðingur og prófessor við Háskóla Íslands.
 

Scholars have for some time analyzed prejudice and the ‘othering’ of certain groups in the media. Schoolbooks can be seen as particularly interesting in this regard because they are used in an institutional context to transmit ‘knowledge’ which is generally accepted in society as useful for children. Schoolbooks are also connected to the nation state due to that they are meant to execute the goals of the curriculum composed by the nation state. The article discusses images of multiculturalism in recent Icelandic schoolbooks used in primary schools, claiming that the analysis of two recent book series indicates an attempt to show Iceland in a positive way as being a diversified and multicultural society.

Inngangur

„Nú er Ísland að fara í ferðalag,“ sagði fjögurra ára gamall sonur minn upp úr eins manns hljóði þegar ég var að fara frá Noregi til Íslands. „Það erum við sem ferðumst á milli staða,“ útskýrði ég, „en Ísland er hins vegar kyrrt þar sem það er.“ „Nei, mamma,“ mótmælti hann óþolinmóður og bætti við: „Við erum að ferðast, við erum Ísland.“ Hann benti á sjálfan sig til að gefa orðum sínum aukið vægi.

Orð sonar míns vísa til þess að Ísland, rétt eins og önnur lönd, er ekki náttúrulegt landfræðilegt fyrirbæri heldur er því gefin merking af mannlegu samfélagi. Þeir sem eru titlaðir og upplifa sig sem Íslendinga eru að ákveðnu leyti líkami Íslands. Þeir eru landið sjálft.

Á síðustu áratugum hafa fræðimenn skoðað birtingarmyndir fordóma í margs konar miðlum og jafnframt hvernig ákveðnir hópar hafa verið dregnir upp sem framandi eða öðruvísi. Þetta hefur sérstaklega verið áberandi í kjölfar útgáfu bókar Edward Said, Orientalism, sem fyrst var gefin út árið 1978.

Námsbækur eru sérlega áhugaverður vettvangur til að skoða viðhorf til framandleika og fordóma gagnvart öðrum hópum vegna þess að þær fá oft mikla dreifingu og lesningu og eru notaðar innan stofnana sem þáttur í að miðla ákveðinni þekkingu. Þessi tiltekna þekking er oftast nær samþykkt sem gagnlegur og eðlilegur grunnur að menntun barna í samfélaginu (Kristín Loftsdóttir, 2007). Einnig er námsbókin tengd ríkisvaldinu þar sem hún á að uppfylla markmið aðalnámskrár sem gefin er út af ríkinu.

Í þessari grein fjalla ég um framandleika- og námsbókarannsóknir og beini sjónum sérstaklega að fjölmenningarlegu samfélagi nútímans. Ég mun í þeim tilgangi fjalla um námsbækur ætlaðar yngri skólastigum í bókaflokkunum Listin að lesa og skrifa og Komdu og skoðaðu sem Námsgagnastofnun gefur út. Þær fyrrnefndu eru lestrarbækur en þær síðarnefndu taka mið af áherslum námskrár í samfélagsfræði og náttúrufræði. Ég held því fram að þessar námsbækur reyni að endurspegla Ísland sem fjölmenningarlegt samfélag sem markar ákveðið fráhvarf frá eldri bókum. Greining á þeim gefur þannig til kynna mikilvægar breytingar á íslenskum námsbókum þar sem sjá má tilraun til að endurspegla á jákvæðan hátt Ísland sem fjölbreytt og fjölmenningarlegt samfélag.

Í fyrsta hluta greinarinnar fjalla ég sögulega um rannsóknir á námsbókum og tengingu þeirra við ríkisvaldið og mótun sjálfsvera (e. subjectivities), en eins og aðrar orðræður eru námsbækur þáttur í að flokka einstaklinga á ákveðinn hátt. Ég bendi á að skipta megi rannsóknum sem beinast að „okkur“ og „hinum“ í námsbókum í tvennt. Annarsvegar í rannsóknir á ímyndum eigin þjóðar og annarra, og hins vegar á margbreytileika innan þjóðríkis.

Rétt eins og aðrar orðræður (e. discourse) (Bordo, 1993; Lutz og Collins, 1993) bregða námsbækur upp ímyndum af öðrum þjóðum og menningarhópum og byggja þar á menningarlegum og félagslegum skilningi á eigin stöðu í samfélagi þjóða. Í gegnum texta og myndir er því brugðið upp ímynd eigin þjóðar eða samfélags sem endurspeglar sýn á eðli hennar og einkenni. Ég legg áherslu á mikilvægi námsbóka til að endurgera ákveðin minni og jafnframt möguleika þeirra á að brjóta upp staðalmyndir. Annar hluti greinarinnar snýr að greiningu á fyrrnefndum bókum út frá áherslu þeirra á fjölmenningarlegt samfélag. Ég byrja á að segja stuttlega frá rannsókn minni á eldri námsbókum í tengslum við skólabókaþátt verkefnisins Ímyndir Afríku á Íslandi, en eins og heiti hennar gefur til kynna voru ímyndir Afríku skoðaðar og einnig birtingarmyndir litarháttar í íslensku samhengi.

Fjölmenning hefur á síðustu árum verið ört vaxandi viðfangsefni íslenskra fræðimanna (til dæmis Hanna Ragnarsdóttir, 2002a og 2002b; Unnur Dís Skaptadóttir, 2004a, 2004b). Þetta má telja beina afleiðingu af aukinni þátttöku Íslands í hnattvæddum ferlum samtímans og í kjölfarið miklum breytingum á íslensku samfélagi (Kristín Loftsdóttir og Unnur Dís Skaptadóttir, væntanlegt 2007).

Úr bókinni Listin að lesa og skrifa - Rósa er lasin eftir Arnheiði Borg og Rannveigu Löve.
Teikningar: Freydís Kristjánsdóttir.

Framandleiki og rannsóknir á námsbókum

Gagnrýnar rannsóknir á námsbókum byrjuðu í lok fyrri heimstyrjaldarinnar á 20. öld og var þá fyrst og fremst lögð áhersla á að námsbækur gætu ýtt undir fordóma gagnvart öðrum þjóðum og hvatt til þjóðarígs. Árið 1937 undirrituðu 26 ríki Declaration regarding the teaching of history (revision of school text books) þar sem m.a. var lögð áhersla á að gæta þess að námsbækur hvettu ekki til fordóma gagnvart öðrum þjóðum. Á ráðstefnu UNESCO árið 1946 var lagður mikilvægur grunnur að frekari rannsóknum á námsbókum [1], og þremur árum síðar var gefin út handbók til að bæta gæði námsbóka sem tæki til að auka skilning milli þjóða (Handbook for the improvement of textbooks and teaching materials as aids to international understanding) (Pingel, 1999, bls. 11).

Falk Pingel (1999) hefur bent á að þrátt fyrir að vissulega sé mikilvægt að auka skilning á milli þjóða beri einnig að leggja áherslu á fjölbreytni innan þjóðríkja. Í handbók UNESCO var þjóðin notuð sem útgangspunktur og áhersla lögð á að skoða staðreyndavillur og augljósa fordóma í garð annarra þjóða í skólabókum. Í þeim rannsóknum á námsbókum sem á eftir hafa fylgt hefur aukin áhersla verið lögð á menningarlega og svæðisbundna fjölbreytni og í ályktun UNESCO árið 1974 var lögð áhersla á víðara samhengi námsbóka með áherslu á mikilvægi námsbóka til að auka þekkingu og skilning milli ólíkra hópa (Pingel, 1999, bls. 15–16) [2]. Samhliða var mikilvægi þess undirstrikað að skoða námsbókina í samhengi kennslustofunnar, þ.e. hvernig námsbækur væru notaðar og túlkaðar.

Námsbækur eru augljóslega einungis ein framsetning ímynda eða orðræðna rétt eins og aðrir textar og ljósmyndir. Eins og aðrar ímyndir fela námsbækur í sér endurspeglun á ákveðnum félagslegum viðhorfum og geta jafnframt endurskapað eða andæft ráðandi viðhorfum í samfélaginu.

Fræðimenn hafa lengi bent á mikilvægi ímynda í að skapa og viðhalda ákveðnum staðalmyndum, t.d. hvað varðar hlutverk og eðli kynjanna (Bordo, 1993). Orðræður staðsetja, miðla og viðhalda tengingu ákveðinna hópa við ákveðin félagslega skilgreind rými (Bordo, 1993; Kristín Loftsdóttir og Helga Björnsdóttir, 2005) þrátt fyrir að veita einnig möguleika á andófi og uppbroti þeirra. Námsbækur, rétt eins og aðrir miðlar, eru þannig áhrifaþáttur í sköpun ákveðinna sjálfsvera og eiga þátt í að skilgreina „okkur“ og „hina“.

Notkun franska heimspekingsins Michel Foucault á hugtakinu orðræður (e. discourse) dró athygli að mikilvægi þess að skoða ímyndir í tengslum við margþættar stofnanir samfélagsins, þátt orðræðna í sköpun ákveðinna sjálfsvera (e. subjectivities) og tengingu þeirra við athafnir einstaklinga (Foucault, 1980[1972] og 1983). Áhersla Foucault á skoðun stofnana samfélagsins og sköpun sjálfsvera í gegnum margskonar orðræður beinir athygli að því að námsbækur eigi að þjóna og uppfylla markmið aðalnámskrár en í henni eru sett fram sameiginleg markmið náms fyrir alla grunn- og framhaldsskóla landsins. Aðalnámskráin er gefin út af menntamálaráðuneytinu og útfærir nánar ákvæði laga um nám og setur meginstefnu hvað varðar skólamál. Börkur Vígþórsson (2003) bendir á að námsefni geti bæði stutt við ákvæði aðalnámskrárinnar og unnið gegn þeim. Það hlýtur til dæmis að vera ákveðin hætta á að námsefni, sem er mun eldra en aðalnámskráin, sé að einhverju leyti í ósamræmi við ákvæði hennar.

Segja má til einföldunar að skoða megi „okkur“ og „hina“ á tvennan hátt í námsbókum. Annars vegar hvernig fjallað er um tengsl milli þjóða, þ.e. hugmyndir um aðrar þjóðir, og hins vegar um eðli þjóðarinnar og hverjir séu hluti af henni, hinu sameiginlega „við“. Hvað varðar fyrri þáttinn má segja að námsbækur snúi að sjálfsmyndum og tengingu samfélaga og þjóða í stærra alþjóðlegt samhengi. Eins og Faye D. Ginsburg, Lila Abu-Lughod og Brian Larkin (2002) benda á er þjóðríkið fyrir flesta einn mikilvægasti vettvangur samkenndar og sjálfsmynda og má segja að námsbækur séu sérlega áhugaverðar til að skoða ímynd þjóðarinnar og ímyndir annarra þjóða.

Í mínum rannsóknum hef ég að mestu skoðað ímyndir hópa sem sögulega séð hafa verið skilgreindir sem framandi á Vesturlöndum og þá sérstaklega ímyndir Afríku í námsbókunum. Ég hef notað hugtakið félagslegt minni (e. social memory) til að skoða ímyndir Afríku og kynþáttahyggju í sögulegu samhengi, en líta má svo á að ímyndir endurskapi ákveðið minni í tíma og rúmi, þar á meðal fordóma í garð ákveðinna hópa. Í þessum rannsóknum hef ég skoðað íslenskar námsbækur sögulega (Kristín Loftsdóttir, 2005a og 2007a) ásamt ímyndum Afríku í öðrum miðlum, en áhugavert er að skoða hvernig ímyndir námsbóka tengjast staðalmyndum og sögulegum breytingum í öðrum miðlum í samfélaginu (sjá Kristín Loftsdóttir, 2006 og 2005b).

Ég hef haft sérstakan áhuga á ímyndum tengdum nýlendutíma 19. og 20. aldar en nota má nokkuð frjálslega hugtak V. Y. Mudimbe (1994:vii) „nýlendusafnið“ (e. colonial library) til að benda á að ákveðin minni frá nýlendutímanum virðast vera rifjuð upp aftur og aftur á meðan aðrir þættir falla í gleymsku eða hverfa úr forgrunni. Nýlendusafnið má því útskýra sem eina tegund minnis sem hjálpar til við að útskýra og skilja þætti í samtímanum.

Hvað varðar seinni þáttinn, umfjöllun námsbóka um land og þjóð, er vísað til eðlis þjóðarinnar og þess hverjir eru hluti af henni. Hið sama má segja um lestrarbækur, trúarbragðafræðslu og annað námsefni, texta jafnt sem myndir. Áhersla á þjóðina sjálfa getur falið í sér rannsókn á kynjuðum margbreytileika, trúarlegum eða stéttarlegum, svo dæmi séu tekin, en einnig ímyndir „okkar“ og „hinna“ í tengslum við fjölmenningarleg samfélög samtímans. Slík áhersla markar ákveðið fráhvarf frá eldri skólabókarannsóknum sem beindust fyrst og fremst að fordómafullum ímyndum þjóðríkisins af öðrum þjóðum. Hér má taka mið af athugasemdum feminískra fræðimanna um að sjálfsmyndir og ímyndir hópa samastandi af ólíkum víddum sjálfsmynda sem skarast á fjölbreytilegan hátt (t.d. Moore, 1994). Í námsbókum getur afmörkun hópa þannig skarast og verið breytileg, t.d. kyn verið í samspili við trúarbrögð og etnískan uppruna. Jafnframt ber að undirstrika mikilvægi þess að skoða sögulegar breytingar og fjölbreytileika á afmörkun og flokkun á „okkur“ og „hinum“ (sjá Kristín Loftsdóttir, 2006).
 

Úr bókinni Listin að lesa og skrifa - Á Sæbóli eftir Arnheiði  Borg og Rannveigu Löve.
Teikningar: Halla Sólveig Þorgeirsdóttir.

Fjölmenning og litarháttur

Vaxandi notkun hugtaksins fjölmenning má líta á sem viðbrögð við aukinni fjölbreytni í samfélögum samtímans (Hartman og Gerteis, 2005, bls. 222). Innan Bandaríkjanna, þar sem fjölmenning hefur verið ofarlega á baugi lengi vel, hafa hinir svonefndu fjölmenningarsinnar (e. multiculturalists), til dæmis, gagnrýnt að bandarísk saga endurspeglar eingöngu sögu og hugmyndaheim eins ráðandi þjóðfélagshóps. Hugtakið hefur þó lengi verið gagnrýnt af mannfræðingum fyrir að hlutgera menningu og bendir mannfræðingurinn Jack David Eller á að í raun séu fjölmenningarsinnar og þeir sem andæfa áherslu á fjölmenningu líkir í málflutningi sínum hvað varðar að báðir hóparnir „trúi“ á menningu, þ.e. hlutgeri hana (1997, bls. 252–253). Einnig hefur því verið haldið fram að fjölmenning sé óljós og illa skilgreind fræðilega (Thompson, 2003, bls. 102; Wieviorka, 1998). Eller telur að líta eigi á fjölmenningu frekar sem hreyfingu þar sem krafist er félagslegra endurbóta en fræðilegt svið (1997:251; sjá einnig Byrne, 1995–1996). Í ljósi þessarar gagnýni hafa sumir fræðimenn lagt til önnur hugtök svo sem fjölhyggju (e. pluralism), byggða á flæðandi sjálfsmyndum (Rapport, 2003, bls. 383) eða tvímenningar- (e. biculturalism) og tvítyngis- (e. bilingual) stefnu. Sú síðarnefnda leggur áherslu á kennslu tveggja tungumála og menningarheima, en talið er að slíkt auki skilning á fjölbreytni í víðara samhengi (Thompson, 2003).

Þrátt fyrir að taka megi undir hluta af þeirri gagnrýni sem fram hefur komið á hugtakið fjölmenningu má þó engu að síður undirstrika mikilvægi þess að ólíkir hópar samfélagsins séu sýnilegir á margvíslegan hátt í samfélaginu. Stundum má heyra raddir úti í samfélaginu sem gagnrýna að reynt sé markvisst að endurspegla fjölmenningarlegt samfélag í mynd- og textamiðlum ætluðum börnum og unglingum, athugasemdir eins og að fáranlegt sé að alltaf þurfi einhver að vera svartur, kvenkyns eða fatlaður í slíku efni.

Með vísun til hugtaksins fjölmenning er reynt að endurspegla á jákvæðan hátt þá auknu fjölbreytni sem einkennir þjóðríkin og það undirstrikað að þau eru samansett af hópum sem koma fra ólíku menningarlegu umhverfi. Hugtakið felur í sér ákveðna viðurkenningu á þessum fjölbreytileika (Unnur Dís Skaptadóttir 2003, bls. 315). Innan skólakerfisins hlýtur slík viðurkenning að vera sérlega mikilvæg.

Hanna Ragnarsdóttir bendir á hvað varðar þekkingarmiðlun að mikilvægt sé „fjölbreytileiki mannlífsins sé sýnilegur á hinum ýmsu sviðum námsins, en námið miðist ekki eingöngu við tiltekinn hóp í samfélaginu“ (2007, bls. 110). Hér má undirstrika að valdastaða ólíkra hópa endurspeglast í miðlum, þ.e. um hverja er fjallað og hvernig. Rannsóknir hafa til dæmis sýnt að konur birtast mun sjaldnar í fjölmiðlum en karlar og þá gjarnan í kynbundnu samhengi, svo sem í tengslum við heimilið (Kristín Loftsdóttir og Helga Björnsdóttir, 2005; Menntamálaráðuneytið, 2001).

Rannsókn Myra Max Ferree og Elaine J. Hall (1990) á kennslubókum í félagsfræði í Bandaríkjunum sýnir að konur birtast mun sjaldnar í námsbókum en karlar. Hér má þó árétta, eins og Ferree og Hall gera, að mikilvægt sé að skoða ekki eingöngu tíðni birtinga ákveðinna hópa heldur samhengi umfjöllunarinnar. Rannsókn þeirra gefur til dæmis til kynna að konur eru oftast tengdar umfjöllun um kyn eða heimili. Rannsóknir á textum bandarískra námsbóka hafa einnig gefið til kynna að í þeim séu Bandaríkjamenn af afrískum uppruna oft tengdir fátækt. Greining Rosalee A. Clawson og Elizabeth R. Kegler (2000) á myndum og myndatextum amerískra framhaldsskólabóka leiddi til þeirrar niðurstöðu að ætla megi af bókunum að svart fólk sé mun stærra hlutfall fátækra í Bandaríkjunum en raun ber vitni. Þær telja þetta undirstrika hvernig námsbækur geta ýtt undir fordóma gagnvart ákveðnum hópum samfélagsins. Mínar eigin niðurstöður um að Afríka birtist í eldri námsbókum sem staður þar sem fólk hefur dökkan litarhátt og lifir við framandi og hefðbundnar aðstæður eiga sérlega illa heima í fjölmenningarlegu samfélagi nútímans þar sem fólk með dökkan litarhátt er vaxandi hluti af íslensku samfélagi (Kristín Loftsdóttir, 2005a, 2007).

Á Íslandi hefur hugtakið fjölmenning verið notað í auknum mæli samhliða vaxandi fjölda fólks af erlendum uppruna. Talið er að 3,5% íslensku þjóðarinnar hafi verið með erlent ríkisfang í desember 2002 og að auk þeirra séu aðrir af erlendum uppruna með íslenskt ríkisfang, svo sem önnur kynslóð innflytjenda og ættleidd börn (Hagstofa Íslands, 2004).

Fjölgun innflytjenda er mismikil í ólíkum byggðarlögum og ástæður þess að fólk flyst til Íslands eru margskonar (Unnur Dís Skaptadóttir 2003, bls. 312). Sá hópur, sem flokkast sem innflytjendur eða af erlendum uppruna, er augljóslega margvíslegur og ósamstæður, oft með fátt eitt sameiginlegt annað en að vera flokkaður sem slíkur. Ættleiðingar erlendis frá hafa einnig aukist töluvert á undanförnum árum. Á tímabilinu 2000–2005 voru til dæmis 153 börn ættleidd frá Kína, Indlandi og Kólumbíu (Íslensk ættleiðing, 2007). Börn ættleidd erlendis frá eru því í flestum tilvikum útlitslega frábrugðin á einhvern hátt meirihluta þjóðarinnar en tilheyra engu að síður íslenskri menningu á sama hátt og börn fædd á Íslandi. Börn foreldra af erlendum uppruna geta hins vegar verið fædd erlendis og verið þátttakendur í tveimur ólíkum menningarsamfélögum. Hugtakið fjölmenning passar þannig ekki vel við alla hópa sem eru af erlendum uppruna, eins og á við um börn ættleidd erlendis frá sem alast upp í sama menningarumhverfi og önnur íslensk börn.

Úr bókinni Listin að lesa og skrifa - Sísí og Lóló eftir Arnheiði Borg og Rannveigu Löve.
Teikningar: Brian Pilkington.

Fjölmenning í íslenskum námsbókum

Aðalnámskrá og Námsgagnastofnun

Í greiningu var notast við námsgögn gefin út af Námsgagnastofnun, en hún gefur út meirihluta þeirra námsgagna sem notuð eru í grunnskólum og því má telja hún sé mikilvægasti útgefandi námsbóka hér á landi. Til stendur hjá menntamálaráðherra að auka svigrúm annarra útgefenda hvað varðar útgáfu á kennsluefni [3] en hlutverk Námsgagnastofnunar hefur í þó nokkurn tíma verið til umræðu (Gerður G. Óskarsdóttir, Gunnlaugur Ástgeirsson, María Jónasdóttir, Birna Sigurjónsdóttir, Hrólfur Kjartansson og Sylvía Guðmundsdóttir, 1989; Eyrún María Rúnarsdóttir og Sigrún Aðalbjarnardóttir, 1996).

Námsgagnastofnun gefur út sérstakan gátlista þar sem meðal annars koma fram atriði sem höfundar eru beðnir um að gæta að í námsefnisgerð [4]. Gátlistinn hefur líklega verið margsinnis endurskoðaður en sá sem ég hef undir höndum er frá árinu 2003. Hann má finna á heimasíðu stofnunarinnar þannig að álykta má að hér sé um að ræða nýjustu útgáfuna af listanum. Þar er á nokkrum stöðum vísað í að námsefni skuli „stuðla að mannréttindum og jafnrétti manna.“ Tekið er til dæmis fram að námsefni skuli „vera laust við fordóma, t.d. um búsetu, fötlun, kyn, kynhneigð, kynþætti, stétt eða trúarbrögð“ og að forðast beri að „mismuna kynjum eða fjalla með einhliða hætti um hlutverk kynjanna“ (bls. 2 og 3). Tekið er sérstaklega fram að þar sem „fjallað er um aðrar þjóðir eða kynþætti í námsefninu [skuli] það vera gert á málefnalegan og ýkjulausan hátt, bæði í máli og myndum“ (bls. 3).

Ætla má að markmið gátlistans sé að vekja höfunda til umhugsunar um mikilvægi þess að vísa á einn eða annan hátt til fjölbreytilegs samfélags (sjá einnig umræðu í Kristín Loftsdóttir, 2005b). Áherslur gátlistans passa vel við markmið núgildandi aðalnámskrár frá árinu 1999 en þar segir: „Við gerð námsgagna og val á þeim skal gæta þess að mismuna ekki einstaklingum eða hópum vegna kynferðis, búsetu, uppruna, litarháttar, fötlunar, trúarbragða eða félagslegrar stöðu“ (Menntamálaráðuneytið, 1999, bls. 34).

Í nýrri aðalnámskrá birtist þessi sama setning næstum orðrétt (Menntamálaráðuneytið, 2006, bls. 16) en einnig er tekið fram í kafla um jafnrétti til náms að: „Verkefnin [skuli] höfða jafnt til drengja og stúlkna, nemenda í dreifbýli sem þéttbýli og fatlaðra og ófatlaðra óháð uppruna, trú og litarhætti.“ (bls. 9) sem einnig er endurtekið hvað varðar kennsluaðferðir (bls.15). Í sama kafla stendur: „Einnig er mikilvægt að nemendum lærist að þekkja og tjá eigin tilfinningar og kunni jafnframt að virða tilfinningar annarra og tjáningu þeirra, óháð uppruna, kyni, búsetu, trú, kynhneigð eða fötlun.“ (bls. 9). Jafnframt má lesa í kaflanum Almenn menntun að hún eigi að stuðla að „umburðarlyndi, virðingu fyrir náunganum og umhverfinu“ (bls. 8). 

Nokkuð áhugavert er að í nýsamþykktum samfélagsgreinahluta aðalnámskrár grunnskóla er talað um nýbúa í samhengi við undirkaflann Heimsbyggð en ekki í samhengi við undirkaflann Land og þjóð. Þar segir í áfangamarkmiðum í samfélagsfræði við lok fjórða bekkjar, að nemandi eigi að "þekkja til nýbúa á Íslandi, hvaðan þeir [komi] helst og nokkrar ástæður þess að þeir [hafi] flust hingað (Menntamálaráðuneytið, 2007, bls. 13). Í viðauka má finna dæmi um þrepamarkmið í samfélagsfræði í öðrum bekk (Menntamálaráðuneytið, 2007, bls. 29), sem er næstum samhljóma því sem er hér fyrir ofan og er það einnig sett undir Heimsbyggð en ekki Land og þjóð. Þótt vissulega séu nýir Íslendingar mjög tengdir heimsbyggðinni má þó velta fyrir sér hvort ekki væri einmitt mikilvægt að staðsetja þá sem hluta af landi og þjóð og sögu landnáms þeirra á Íslandi sem hluta af sögu lands og þjóðar? Á blaðsíðu 29 má einnig sjá eftirfarandi setningu í tengslum við þrepamarkmiðin, þar sem lögð er áhersla á að nemandinn „gerið sér ljóst að til eru margar þjóðir og kynþættir í heiminum, til dæmis með því að heyra frásögn nýbúa af framandi siðum“ (bls. 29). Hér er hugtakið kynþáttur notað ógagnrýnið, nánast sem samheiti yfir þjóðir. Notkun hugtaksins nýbúi í öllum þessum tilvísunum gefur einnig næstum til kynna að þeir standi utan við nemandann sem er verið að vísa til í textanum.

Aðferðir

Greining gagna var gerð í beinu framhaldi af verkefninu Ímyndir Afríku á Íslandi, en innan þess var gerð ítarleg greining á námsbókum í sögu, landafræði, samfélagsfræði og kristinfræði frá miðri 18. öld til ársins 2001. Þau gögn voru greind með megindlegum og eigindlegum aðferðum sem fólu í sér notkun gátlista og innsetningu gagna í SPSS tölfræðiforritið og jafnframt orðræðugreiningu (sjá Kristín Loftsdóttir, 2005a). Alls voru 202 námsbækur skoðaðar í verkefninu. Þar af fundust 164 bækur í samfélagsfræði, sögu, kristinfræði og landafræði og innihéldu 87 þeirra bóka einhverskonar tilvísun til þeirra land- og menningarsvæða sem verkefnið byggðist á.

Fyrir meginumræðuna hér beindist athyglin að mjög nýlegum kennslubókum fyrir yngstu stig grunnskólans. Engin bókanna er eldri en frá árinu 1996 og er meirihlutinn gefinn út eftir árið 2001. Sérstaklega voru teknar fyrir lestrarbækur í bókaflokknum Listin að lesa og skrifa og efni í náttúrufræði og samfélagsfræðum úr bókaflokknum Komdu og skoðaðu sem einnig er ætlaður yngri bekkjum. Hér er augljóslega eingöngu um að ræða greiningu á broti af því námsefni sem er til og notað er í grunnskólum.

Námsbækur eru auðvitað eingöngu einn hluti námsgagna, en rannsóknir hafa þó sýnt að þær eru mikilvægur miðpunktur þess sem gerist í kennslustofunni [5] (Ingvar Sigurgeirsson, 1994; Bragi Guðmundsson og Gunnar Karlsson, 1999). Sigríður Rut Magnúsdóttir (2001) bendir á að námsgögn séu hluti af sértæku námsumhverfi og dregur athygli að þeim sem hluta af námsumhverfi barna af erlendum uppruna. Minna má á að í kennslustofunni á sér auðvitað stað túlkun kennara og nemanda á kennsluefninu og að sama skapi heima fyrir (Kristín Loftsdóttir, 2007, bls. 4–5).

Þar sem texti lestrarbókanna er í flestum tilvikum mjög stuttur og byggir á endurtekningum ákveðinna orða var aðallega um myndgreiningu að ræða þar. Í Komdu og skoðaðu bókunum voru hins vegar bæði textar og myndir skoðaðar. Myra Marx Ferree og Elaine J. Hall (1990) benda á að ljósmyndir endurspegli félagslegt og menningarlegt rými þeirra sem þar birtast og skoðun á því hverjir eru á myndunum og hverjir ekki, gefi nokkuð skýra mynd af ríkjandi áherslum viðkomandi samfélags. Umfjöllun Ferree og Hall er sett fram í samhengi við kyn en hugmyndir þeirra eiga einnig vel við í tengslum við fjölmenningu. Með því að skoða hverjir birtast á myndum og í hvaða samhengi má sjá „hverjir“ eru hluti af íslensku samfélagi, hverjir eru Íslendingar. Eins og gildir um eigindlegar aðferðir almennt (Creswell, 1998; Esterberg, 2002) er hér um að ræða huglæga túlkun gagna þar sem reynt er að lesa texta og myndir í samræmi við stærra félagslegt samhengi. Lausleg athugun á myndunum leiddi í ljós að sýnilegasta tákn fjölmenningar á myndum bókanna var útlit þeirra sem voru á myndunum, þ.e. dökkur litarháttur eða skásett augu. Íslendingar hafa auðvitað lengi vel haft margbreytilegt litarhaft sem spanar órofinn skala brúnna og bleikra húðtóna og áhugavert að skoða samspil mynda og texta þegar það er hægt [6].

Umfjöllun um „aðra“ í eldri námsbókum

Áður en fjallað er um bókaflokkana, sem eru til umræðu, er rétt að skoða stuttlega umfjöllun eldri námsbóka um fólk frá framandi slóðum. Ég notaðist eins og fyrr var sagt við gögn sem safnað var í tengslum við verkefnið Ímyndir Afríku á Íslandi en í þeirri rannsókn voru bæði myndir og textar skoðaðir í námsbókum grunnskólabarna í samfélagsfræði, sögu, kristnifræði og landafræði [7]. Vikið verður að tveimur þáttum sem tengjast umræðunni í þessari grein: (1) hvaða hlutar heimsins eru kynntir til sögunar í eldri námsbókum og (2) tíðni tilvísunar til dekkri litarháttar. Hér er augljóslega ekki um sambærileg gögn að ræða við þau gögn sem verður fjallað um síðar (sem samanstanda eingöngu af námsefni úr tveimur bókaflokkum), heldur er markmiðið að gefa hugmynd um þessa þætti í eldri námsbókum. Í yfirferð á efni til greiningar (þ.e. þegar flett var í gegnum námsbækurnar) var allt efni lagt til hliðar sem vísaði til litarháttar á einhvern hátt burtséð frá hvort um Afríku væri að ræða eða ekki, og að sama skapi var merkt við í sérstökum gátlista (notaður til SPSS-greiningar) ef fjallað var um þá hluta heimsins sem voru nýlendur eða undir yfirráðum Evrópubúa. Merkt var við ef tilvísun var til Afríku, Asíu, Grænlands og Eyjaálfu, en einnig ef talað var um frumbyggja Norður-Ameríku, Suður-Ameríku og Ástralíu.

 

Mynd 1 - Tíðni tilvísunar til ákveðinna svæða skipt niður eftir tímabilum.

Á mynd 1 má sjá tíðni tilvísunar til heimshlutanna í bókunum 164 þar sem slík vísun fannst. Bláu súlurnar sýna að tilvísun til þessara heimshluta var tíðari í eldri bókum, en þó ber að gæta þess að ekki er gerður greinarmunur á ýtarlegri umfjöllun og tiltölulega stuttri tilvísun. Í eldri bókum er iðulega um að ræða stutta umfjöllun sem oft byggir á útlistingum á kynþáttum ábúenda svæðisins en ekki beinni umfjöllun um ólík samfélög, sögu eða lífskilyrði. Afríka virðist vera oftast til umræðu í nýrri bókum en segja má á heildina að lítill áhugi virðist hafa verið á þessum tilteknu heimshlutum í námsefni eftir 1950.

Mynd 2 sýnir hvernig umfjöllunin dreifist á milli námsgreina og gefur til kynna að umfjöllun um land- eða menningarhópa, sem standa utan við Evrópu, sé tiltölulega mest í landafræðibókum. Í dag er lögð áhersla á að flétta landafræði inn í almenna samfélagsfræði í 1.– 4. bekk en er síðan sjálfstæð grein. Þær bækur, sem voru hér skylgreindar sem landafræðibækur, hafa hugtakið landafræði í titli. Mynd 2 getur þó verið villandi því ekki er mögulegt að sjá hvers konar umfjöllun átti sér stað í ólíkum námsgreinum. Í súlunni, sem vísar til Afríku, kemur til dæmis fram að 27,9% sögubóka vísa til Afríku. Við nánari athugun á bókunum kemur þó í ljós að í langflestum tilvikum er um að ræða umfjöllun í eldri bókum um Forn-Egypta og er sú umfjöllun í bókunum ekki sett í samband við Afríku sem slíka. Mynd 2 gefur engu síður til kynna að litið hefur verið á flest þessara landsvæða sem landfræðileg rými en minni áhugi verið á félagsgerð þeirra og sögu.
 

Mynd 2 - Umfjöllun um land- og menningarsvæði eftir námsgreinum.
Dreifing umfjöllunar á milli námsgreina.

Þegar bækurnar voru skoðaðar var athugað hvort einhvers konar tilvísun til litarháttar ætti sér stað, svo sem hvort tilvísun væri til hugtaksins kynþáttur, eða til litaheita. Alls höfðu 50,6% bókanna texta sem fól í sér einhverskonar aðgreiningu og var hún tíðust í landafræðibókunum. Benda má á að í bókum gefnum út fyrir 1900 mátti finna tilvísun til litarháttar í 73,3% tilfella, en hins vegar í 41,7% bóka sem gefnar voru út á tímabilinu 1991–2000. Í eldri bókunum var einnig um að ræða fordómafulla kynþáttaflokkun á meðan tilvísanir í nýrri bókum fólu í sér nokkuð fjölbreytta umfjöllun, til dæmis um aðskilnaðarstefnuna í Suður-Afríku, þar sem vart er hægt að komast hjá notkun litaheita, og gagnrýnislausa tilvísun til fólks í Afríku sem svartra eða svertingja [8]. Tíðar tilvísanir til litarháttar fólks, sem hefur engin tengsl við umfjöllunarefnið, afmarka Afríku sem heimsálfu fólks með dökkan litarhátt. Jafnframt með því að vera í sífellu að taka fram dökkan litarhátt er hann afmarkaður sem hið óvenjulega og þannig eitthvað sem tilheyrir „öðru“ fólki annarstaðar í heiminum.
 

Úr bókinni Listin að lesa og skrifa - Ramí, Tímó og Tara eftir Arnheiði Borg og Rannveigu Löve.
Teikningar: Freydís Kristjánsdóttir.

Listin að lesa og skrifa

Ég mun nú fjalla um nýrri bækur og hvað þær segja um fjölmenningarlegt Ísland út frá myndefni. Bókaflokkurinn Listin að lesa og skrifa vakti einmitt athygli mína vegna myndskreytinga bókanna. Þetta eru stuttar lestrarbækur sem eru ríkulega myndskreyttar með mynd á hverri síðu og er höfundur mynda ekki alltaf sá sami. Margar bókanna í þessum flokki fela í sér tilvísun til fjölmenningarlegs íslensks samfélags hvað varðar útlit þeirra sem eru á myndunum. Skoðuð voru 21 bók í þessum bókaflokki (heildarfjöldi útgefinna bóka er 24) og þær flokkaðar eftir því hvort einstaklingar á myndum hefðu dökkan húðlit eða skásett augu, hvort umhverfi væri íslenskt eða erlent og hvort þeir fyrrnefndu væru í einhverju af aðalhlutverkunum. Flokkun bókanna í erlent eða íslenskt umhverfi snéri í raun eingöngu að því að taka frá bækur sem áttu augljóslega ekki að gerast á Íslandi, eins og í einni bókinni þar sem fíll var í einu aðalhlutverki.

Tafla 1
Litarháttur og Listin að lesa og skrifa bækur
 

Íslenskt
umhverfi

Erlent umhverfi

Óljóst

Samtals

Fjöldi bóka

18

2

1

21

Fjölbreytt útlit

8

1

1

10

 

Í töflu 1 má sjá að tíu bókanna sýna einstaklinga sem eru annaðhvort með dekkri húðlit eða skásett augu. Af þeim voru átta bækur sem áttu að gerast á Íslandi, en í greiningu var gert ráð fyrir að bækurnar gerðust á Íslandi nema að eitthvað ákveðið sýndi að svo væri ekki, enda voru bækurnar skrifaðar á íslensku og gefnar út í íslensku samhengi. Í einstaka tilvikum er augljóst að sagan gerist ekki á Íslandi, eins og í bókinni Ramí, Tímó og Tara þar sem fíll er í einu aðalhlutverkanna (Arnheiður Borg og Sigrún Löve, 2005). Í níu af þeim tíu bókum, sem sýndu fjölbreytt litarhaft, var sá einstaklingur, sem var dökkur á hörund eða virtist vera ættaður frá Asíulöndum, í einu aðalhlutverka sögupersónanna.

Ég mun nú fjalla nokkuð nánar um samspil texta og mynda í bókunum Í baði, Mús í móa, Á róló, Í sól og Á Sæbóli. Þær segja frá hversdagslegum viðburðum í lífi nokkurra barna og endurspegla í myndmáli fjölbreytt samfélag og að sama skapi fjölbreytilegar fjölskyldugerðir þar sem börn eru með dekkri húðlit en foreldrar. Í baði (fyrsta útgáfa 1998) segir frá tveimur stúlkum, Ýr og Báru, sem heimsækja tvo jafnaldra sína ásamt foreldrum sínum í hús sem lítur helst út eins og sumarbústaður. Stúlkurnar, og þannig tvær af fjórum aðalsöguhetjunum, eru dökkar á hörund með slétt hár. Foreldrar þeirra eru hins vegar ljósir á hörund og hið sama má segja um aðrar persónur bókarinnar. Því má ætla að höfundur mynda hafi hugsað þær ættleiddar frá Indlandi eða Pakistan þar sem það á við um töluverðan fjölda íslenskra barna.

Bókin Mús í móa (fyrsta útgáfa 1996) segir frá fimm börnum úti að leika sér og er eitt barnanna teiknað með skásett augu og svart, slétt hár. Bókin Á róló (2002) segir frá systkinunum Ara, Lilla og Sísi. Þau eru öll ljós á hörund nema Sísi og í bókinni má sjá mynd af móður þeirra sem einnig er höfð ljós á hörund. Meginhluti sögunnar segir frá leik barnanna á róluvelli. Í bókunum Á Róló (2002) og Í sól (2002) má einnig sjá barn með nokkuð dökkan húðlit á leik með öðrum ljósari börnum og virðist barnið vera hluti af fimm manna fjölskyldu þar sem öll eru ljósari á hörund en barnið.

Myndskreytingar þessara bóka draga fram íslenskt umhverfi barnanna, með hversdagslegum og kunnuglegum hlutum eins og berjalyngi, róluvelli og sumarbústað. Undartekning frá því er bókin Í sól þar sem umhverfið er ekki sérstaklega íslenskt og má telja að höfundur mynda hafi ekki haft sérstakt umhverfi í huga heldur dregið fram myndir sem endurspegla þau orð sem verið er að æfa í textanum, enda mjög léttur lestrartexti. Bókin Á Sæbóli segir frá systkinunum Þóri og Þuru sem dveljast hjá ömmu og afa á Sæbóli á meðan foreldrar þeirra fara í ferðalag til Rómar. Móðir barnanna er ljós á hörund með ljóst hár, en faðirinn dökkur með svart krullað hár. Þura og Þórir eru bæði með sama litarhátt og faðirinn og Þórir með krullað hár. Umhverfi bókarinnar er mjög íslenskt þar sem sjá má meðal annars himinblá fjöll, íslenskan smalahund, sveitabæ og bláberjalyng.

Í bókunum fimm, sem hér var sagt frá, er fjallað um börn á Íslandi sem jafnframt bera íslensk nöfn, en það staðsetur þau enn fremur sem hluta af íslensku samfélagi. Í textum bókanna er jafnframt ekki minnst á uppruna barnanna eða að þau séu „öðruvísi“ á litinn. Ég vil ekki halda því fram að á það megi aldrei minnast, en ég tel nauðsynlegt að gæta að í hvaða samhengi og af hvaða ástæðu á það er minnst. Með slíku samspili mynda og texta eru börnin sýnd sem eðlilegur og sjálfsagður hluti af íslensku samhengi, sem þau auðvitað eru. Eins og Nirmal Puwar (2004) hefur bent á er líkami hvítra karlmanna hinn venjulegi líkami sem þarf hvorki kyn né litarhátt til að skilgreina sig út frá og í því felst vald hans. Í bókunum eru hinir venjulegu líkamar þannig fjölbreyttir og margbreytileika þeirra þarf ekki að útskýra sérstaklega. Börn og fullorðnir með dökkan húðlit eða skásett augu eru þannig ekki „hinir,“ eins og í eldri bókunum heldur hluti af venjulegum Íslendingum.
 

Komdu og skoðaðu

Í bókaflokknum Komdu og skoðaðu hafa verið gefnar út þrettán bækur, nokkuð ólíkar að innihaldi (og ein hljóðbók sem er skilgreind á vef Námsgagnastofnunar sem hluti af einni bókinni af þessum tólf). Hver bók hefur ákveðið viðfangsefni á borð við hafið, umhverfið og landnámið. Skoðaðar voru níu bækur í bókaflokknum, en val á þeim réðst af þeim bókum sem til voru á Námsgagnastofunun þegar rannsóknin var gerð.

Bækurnar Komdu og skoðaðu hafið, Komdu og skoðaðu umhverfið og Komdu og skoðaðu bílinn höfðu allar myndir sem sýndu fólk með margvíslegan litarhátt. Sögusvið allra bókanna var íslenskt umhverfi og sérstaklega höfðu myndir tveggja af fyrrnefndum bókum tilvísun til séríslenskra aðstæðna eða fyrirbæra, svo sem krakka að leika sér í fjöruborðinu, hafnar og fjalla. Einnig mátti finna myndir af fólki af ólíkum litarhætti í bókunum Komdu og skoðaðu sögu mannkyns, Komdu og skoðaðu líkamann og Komdu og skoðaðu himingeiminn en eins og titlar þeirra gefa til kynna eiga þær ekki nauðsynlega að gerast í íslensku samhengi eða umhverfi. Ekki fundust myndir af fólki sem virtist eiga að vera af erlendum uppruna í bókunum Komdu og skoðaðu fjöllin og Komdu og skoðaðu landnámið.

Bókin Komdu og skoðaðu líkamann er dæmi um bók þar sem viðfangsefnið tengist ekki Íslandi sérstaklega en þó má vel segja að bókin fjalli um líkamann í íslensku samhengi. Bókin var fyrst gefin út árið 2001 og felur í sér, eins og nafnið gefur til kynna, umfjöllun um starfsemi líkamans. Texti er frekar stuttur á hverri blaðsíðu og myndmál mikið. Textinn útskýrir hina ýmsu starfsemi líkamans, eins og að vöðvar hreyfi líkamann og að í blóðinu séu rauð og hvít blóðkorn. Rétt eins og í lestrabókunum, sem hér var minnst á, eru börnin af báðum kynjum og húðlitur þeirra fjölbreyttur. Einnig má sjá barn í hjólastól á einni mynd (bls. 11) en hún virðist vera hluti af því markmiði að sýna fjölbreyttan hóp barna í leik og starfi því textinn minnist ekki á fötlun í samhengi við myndina. Bókin undirstrikar þannig ekki eingöngu algilda starfsemi líkamans sem er sú sama hjá mismunandi einstaklingum heldur forðast að ákveðnu leyti að taka ákveðið útlit líkamans sem viðmið. Líkamar einstaklinga koma þannig í ólíkum stærðum, kynjum og litum.

Í bókinni Komdu og skoðaðu hafið er umhverfið hins vegar mjög íslenskt enda fjallar bókin um fjörur og hafið í kringum Ísland. Fæstar myndanna eru því af fólki. Á blaðsíðum bókarinnar má þó sjá konu með ljósbrúnan húðlit flaka fisk, lítinn dreng, dökkan á hörund, leika sér í fjöruborðinu ásamt ljóshærðri stúlku, og á mynd af fögnuði sjómannadagsins á bryggju sjávarþorps eru tvö börn áberandi dökk miðað við aðra í hópnum. Íslenski fáninn og kona að spila á harmóníku staðsetja myndina nokkuð kyrfilega innan íslensks veruleika.

Bókin Komdu og skoðaðu land og þjóð er hér sérlega áhugaverð. Titillinn endurspeglar að markmið bókarinnar er að einhverju leyti að útskýra fyrir nemendum hvað íslenska þjóðin og landið fela í sér og skoðaði ég hana því sérstaklega. Hún var fyrst gefin út árið 2001 og aftan á bókakápu má lesa að hún er ætluð börnum í öðrum og þriðja bekk. Eins og aðrar bækur, sem fjallað hefur verið um hér, er bókin ríkulega myndskreytt og textinn einfaldur. Á síðunum hægra megin á opnu er lítil ör sem gefur til kynna að sá texti sé nokkuð þyngri. Í kynningu aftan á bókarkápu er viðfangsefni bókarinnar kynnt með þeim orðum að „fjallað [sé] um landið okkar Ísland í víðu samengi og tengsl okkar við önnur lönd og þjóðir.“ Þetta má einnig sjá framan á bókinni þar sem mynd er af efri hluta hnattarins með Ísland fyrir miðju (myndina má einnig sjá inni í bókinni sjálfri). Ofan á teikningunni af Íslandi standa lítill drengur og kona hvort með sinn fiskinn í hendi, og á hinum löndunum má einnig sjá einstaklinga sem fulltrúa þeirra landa sem þeir standa á.

Bókin segir frá drengnum Kára og kynnir í gegnum hann ákveðna þætti sem varða land og þjóð. Á einni blaðsíðu flýgur Kári t.d. yfir jökul og á þeirri næstu yfir eldgos. Hann gengur um miðbæ Reykjavíkur sem er kynnt sem höfuðborg landsins og situr fyrir utan Alþingishúsið. Myndirnar og textarnir eru að sumu leyti nokkuð þjóðernislegir sem endurspeglast meðal annars í því að dregin eru fram tákn eins og jöklar og eldgos (þar má sjá íslensku sauðkindina og lamb hlaupa frá gosinu), ásamt Þingvöllum sem lengi hafa verið mikilvæg í íslenskri þjóðernisorðræðu. Á einni myndinni má sjá íslenskan torfbæ í bakgrunni (bls. 8). Myndin af hátíðarhöldum í Reyjavík á 17. júní sýnir óvenju margar konur klæddar í þjóðbúning og í bakgrunni er lagður blómsveigur að styttu Jóns Sigurðsonar. Einnig má sjá konu í íslenskum búningi á svölum Alþingishússins. Með þeirri mynd segir textinn: „Einu sinni voru Íslendingar ekki sjálfstæð þjóð. Núna eru Íslendingar sjálfstæð þjóð" (bls. 16). Einnig er lögð mikil áhersla á höfuðborg landsins og tengingu hennar við þjóðerni Íslendinga.
 

Úr bókinni Komdu og skoðaðu land og þjóð
eftir Sigrúnu Helgadóttur.
Teikningar: Freydís Kristjánsdóttir.

Sagan, sem bindur þessar upptalningar saman, er þó sérlega áhugaverð því hún segir frá því þegar foreldrar Kára fara utan til að sækja litlu systur hans. Sagt er: „Kári eignast bráðum systur. Pabbi og mamma sækja hana til útlanda. Á meðan er Kári hjá afa og ömmu. Seinna lærir litla systir að tala íslensku. Þá talar hún við pabba og mömmu eins og Kári. Hún verður Íslendingur eins og Kári.“ (bls.6). Þyngri textinn til hliðar útskýrir að áður fyrr hafi enginn búið á Íslandi en svo hafi landnemar numið hér land og jafnhliða er lögð er áhersla á að hreyfanleiki hafi alltaf einkennt fólk í heiminum. Á seinustu opnunni eru svo foreldrarnir komnir aftur heim og þar kemur fram að þeir fóru til Indlands til að sækja Púrnímu, litlu systur Kára, sem mun síðar fá íslenskt nafn. Þessi opna geymir stærstu myndina sem er af ungbarninu Púrnímu sem situr í ungbarnastól og breiðir út fangið. Standandi í kringum hana eru Kári, foreldrar hans og afi og amma sem horfa á hana með greinilegri aðdáun og gleði. Á sama tíma og bókin hefur þannig nokkuð þjóðernislegan tón er lögð áhersla á fjölbreytileika Íslendinga og að fólk geti verið Íslendingar burtséð frá uppruna.

Umfjöllun bókarinnar um útlönd er einnig áhugaverð. Ein opna sýnir Kára að skoða myndir með ömmu sinni af börnum í ónefndu ríki Afríku og textinn útskýrir að frændi hans eigi heima í Afríku. Þar segir: „Fólkið er líkt þótt löndin séu ólík. Allir þurfa að borða og drekka. Allir vilja eiga góða vini“ (bls. 8). Þyngri textinn hægra megin segir að einu sinni hafi fátt fólk verið til í heiminum og þá hafi allir haft dökka húð og búið í Afríku. Nokkuð áhugavert er að eina heimsálfan, sem fær einhverja umræðu, er álfa sem löngum hefur verið talin nokkuð ólík okkar heimsálfu og í þeirri umfjöllun er lögð áhersla á tengsl og það sem fólk á sameiginlegt.

Að lokum

Námsbækur eru sérlega forvitnilegur vettvangur til að skoða samfélagslegar ímynd „okkar" og hinna". Hér hefur ekki verið farið út í áhrif miðla á samfélagið en fræðimenn hafa töluvert snúið frá módelum þar sem litið var svo á að ímyndir hefðu bein áhrif á samfélagið. Sú félagsmótun, sem á sér stað innan skólanna, er augljóslega flókið fyrirbæri og ekki hægt að líta svo á að kennarar og nemendur lesi bækurnar gagnrýnislaust. Nú á tímum er almennt lögð áhersla á túlkun og endurtúlkun texta í námsefni og að kennarar og nemendur séu virkir gerendur í því ferli (Olsen, 1997; Yon, 2003). Rannsóknir á efni miðla leggja áherslu á að þeir standi ekki utan við samfélagið heldur séu hluti af því (Mazzarella, 2004). Engu að síður ber að hafa í huga að námsbækur eru kennsluefni og sem slíkar er þeim ætlað að móta viðhorf að einhverju leyti. Þær berast í hendur nemenda í gegnum skólakerfið sem hlýtur að gefa þeim ákveðinn trúverðugleika í augum nemenda og foreldra. Í samspili við aðrar ímyndir samfélagsins hljóta námsbækur því að vera áhrifavaldur í að flokka fólk í ólíka hópa, tengja þessa flokka við ákveðin félagslega skilgreind rými og móta þannig sýn á sjálfsverur (e. subjectivities).

Þau dæmi, sem ég hef fjallað um, eiga það sammerkt að fela í sér jákvæða tilraun til að endurspegla Íslendinga sem þjóð af margvíslegum uppruna og sýna hvernig námsbækur þurfa auðvitað ekki að endurskapa ráðandi staðalmyndir í þjóðfélaginu heldur geta unnið á móti þeim. Eins og fyrr var sagt eru allar bækurnar gefnar út af Námsgagnastofnun sem er forvitnilegt þar sem algengt viðhorf til ríkisstofnana er að þær séu lengi að tileinka sér þjóðfélagslegar breytingar. Í þessu tilviki virðist ríkisstofnun bregðast við breytingum og má sjá mikinn mun á eldra og nýrra námsefni sem skoðað var fyrir þessa rannsókn. Í eldra námsefninu fundust myndir af fólki með dökkan húðlit svo til eingöngu í tengslum við umfjöllun um fólk í fjarlægum menningarheimum.

Námsbækurnar, sem hér hefur verið fjallað um, gefa þannig í heild sýn af Íslandi sem fjölmenningarlegu samfélagi í þeirri merkingu að hér búi fólk af ólíkum uppruna. Þessar bækur fjalla ekki um ólíka menningu innflytjenda sem vissulega er einnig mikilvægt, en draga sameiginlega upp þá sýn að Íslendingar séu til í mismunandi húðlitum og séu þannig af fjölbreyttum uppruna.

Mikilvægt er að árétta að fjölmenning snýr ekki eingöngu að fólki af erlendum uppruna heldur einnig að þeim sem ekki eru skilgreindir sem slíkir. Fjölmenning snýr að tengslum ólíkra þjóðfélagshópa innan samfélagsins og textar og myndir fela í sér ákveðin viðmið varðandi þessi tengsl. Þannig eru ímyndir í námsbókum eins og í öðrum miðlum mikilvægar til að endurspegla og viðurkenna síbreytilegt íslenskt samfélag og þannig líkama Íslands sem margskonar og fjölbreytilegan.
 

Tilvísanir

  1. Stofnað var Programme for the improvement of text-books and teaching materials as aids in developing international understanding (Pingel, 1999, bls. 11). 

  2. Í textanum er það orðað á eftirfarandi hátt: „enhance mutual knowledge and understanding between different people.“

  3. Grein um þetta eftir Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur menntamálaráðherra birtist á vef menntamálaráðuneytisins: http://www.menntamalaraduneyti.is/radherra/raedur/nr/3920.

  4. Gátlistinn var upphaflega saminn af deildarsérfræðingum og forstöðumanni námsefnissviðs árið 1986 (Menntamálaráðuneytið, 1989, bls. 29). Hann má nálgast á vef Námsgagnastofnunar http://www.nams.is.

  5. Rannsókn Ingvars Sigurgeirssonar (1994) á notkun námsefnis meðal 10–12 ára grunnskólabarna leiddi í ljós að 60,9% kennslutímans voru námsbækur í notkun. Þetta hlutfall var þó mismunandi eftir skólum og námsgreinum. Í rannsókn Braga Guðmundssonar og Gunnars Karlssonar (1999) á söguvitund íslenskra ungmenna kemur fram að í sögukennslu grunnskólabarna er námsbókin þungamiðja þess sem gerist í kennslustundum.

  6. Kynþáttahyggja er af flestum talin vera úrelt vísindalegt hutak en hefur haldið áfram að vera mikilvæg félagslega sem tæki samsömunar og mismununar.  Eins og fyrrnefnd rannsókn Clawson og Kegler (2000) gefur til kynna er fólk með dökkan húðlit oft sett í ákveðið samhengi, eða það er ekki sýnilegt í ákveðnum miðlum. Því er mikilvægt að skoða birtingamyndir litarháttar og annarra útlitseinkenna sem sögulega séð hafa verið tengd kynþáttahyggju. 

  7. Fjallað er nánar um aðferðafræðilega þætti þessarar rannsóknar í Kristín Loftsdóttir (2005a).

  8. Nokkuð ólíklegt er að bækur, sem fjalla um Evrópu eða hluta hins vestræna heims, taki sérstaklega fram húðlit meirihluta Evrópubúa. Taka má sem dæmi bókina Evrópa: Álfan okkar sem fyrst var gefin út árið 1992. Hún hefur verið margútgefin síðan þá og er fáanleg á vef Námsgagnastofnunar og því má gera ráð fyrir að hún sé í töluverðri notkun í grunnskólum. Þar er ekki fjallað um litarhátt í Evróp er sagt að hægt sé að finna menn af „flestum kynþáttum í Evrópu“ og að hinir „upprunalegu íbúar Evrópu [teljist] flestir til hvíta mannflokksins (erenar)“ (bls. 30). Á myndum bókarinnar Evrópa er þó erfitt að sjá að uppruni einstaklinga í Evrópu sé frá öllum mögulegum heimsálfum.

  9. Í nokkrum tilvikum var erfitt að ákvarða hvort myndhöfundur væri að reyna að teikna einstakling sem ætti að vera útlitslega öðruvísi en meirihluti einstaklinga en í flestum tilfellum var slíkt nokkuð skýrt af dekkri litarhætti eða þá andlitsfalli sem gaf til kynna að viðkomandi væri af asískum uppruna.

 

Heimildir

Frumheimildir


Arnheiður Borg og Rannveig Löve (1996). Mús í móa. Teikningar eftir Brian Pilkington. Reykjavík: Námsgagnastofnun.

Arnheiður Borg og Rannveig Löve (1996). Óli og Ása. Teikningar eftir Brian Pilkington. Reykjavík: Námsgagnastofnun.

Arnheiður Borg og Rannveig Löve (1996). Sísí og Lóló. Teikningar eftir Brian Pilkington. Reykjavík: Námsgagnastofnun.

Arnheiður Borg og Rannveig Löve (1998). Á Hofi (2. útgáfa). Teikningar eftir Sigrúnu Eldjárn. Reykjavík: Námsgagnastofnun.

Arnheiður Borg og Rannveig Löve (1998). Á Sæbóli. Teikningar eftir Höllu Sólveigu Þorgeirsdóttur. Reykjavík: Námsgagnastofnun.

Arnheiður Borg og Rannveig Löve (1998). Amma er góð (2. útgáfa). Teikningar eftir Kristínu Rögnu Gunnarsdóttur. Reykjavík: Námsgagnastofnun.

Arnheiður Borg og Rannveig Löve (1998). Dúfur í Dalabæ. Teikningar eftir Áslaugu Jónsdóttur. Reykjavík: Námsgagnastofnun.

Arnheiður Borg og Rannveig Löve (1998). Í baði. Teikningar eftir Sigrúnu Eldjárn. Reykjavík: Námsgagnastofnun.

Arnheiður Borg og Rannveig Löve (1998). Rósa er lasin (2. útgáfa). Teikningar eftir Freydísi Kristjánsdóttur. Reykjavík: Námsgagnastofnun.

Arnheiður Borg og Rannveig Löve (1998). Tóta og Tumi (2. útgáfa). Teikningar eftir Freydísi Kristjánsdóttur. Reykjavík: Námsgagnastofnun.

Arnheiður Borg og Rannveig Löve (1998). Vinir. Teikningar eftir Freydísi Kristjánsdóttur. Reykjavík: Námsgagnastofnun.

Arnheiður Borg og Rannveig Löve (2006). Afmæli (2. útgáfa). Teikningar eftir Höllu Sólveigu Þorgeirsdóttur. Reykjavík: Námsgagnastofnun.

Arnheiður Borg og Sigrún Löve (2003). Á róló. Teikningar eftir Birnu Steingrímsdóttur. Reykjavík: Námsgagnastofnun.

Arnheiður Borg og Sigrún Löve (2003). Í sól. Teikningar eftir Birnu Steingrímsdóttur. Reykjavík: Námsgagnastofnun.

Arnheiður Borg og Sigrún Löve (2003). Í vali. Teikningar eftir Jean Posocco. Reykjavík: Námsgagnastofnun.

Arnheiður Borg og Sigrún Löve (2003). Moli. Teikningar eftir Jean Posocco. Reykjavík: Námsgagnastofnun.

Arnheiður Borg og Sigrún Löve (2004). Í Hólaseli. Teikningar eftir Margréti E. Laxness. Reykjavík: Námsgagnastofnun.

Arnheiður Borg og Sigrún Löve (2004). Í síma. Teikningar eftir Jean Posocco. Reykjavík: Námsgagnastofnun.

Arnheiður Borg og Sigrún Löve (2004. Melóna. Teikningar eftir Margréti E. Laxness. Reykjavík: Námsgagnastofnun.

Arnheiður Borg og Sigrún Löve (2004). Sólás 7. Teikningar eftir Jean Posocco. Reykjavík: Námsgagnastofnun.

Arnheiður Borg og Sigrún Löve (2005). Ramí, Tímó og Tara. Teikningar eftir Freydísi Kristjánsdóttur. Reykjavík: Námsgagnastofnun.

Gunnhildur Óskarsdóttir og Ragnheiður Hermannsdóttir (2001). Komdu og skoðaðu líkamann. Teikningar eftir Sigrúnu Eldjárn. Reykjavík: Námsgagnastofnun.

Gunnhildur Óskarsdóttir og Ragnheiður Hermannsdóttir (2002). Komdu og skoðaðu Bílinn. Teikningar eftir Sigrúnu Eldjárn. Reykjavík: Námsgagnastofnun.

Jóhanna Karlsdóttir og Sigrún Helgadóttir (2004). Komdu og skoðaðu Landnámið. Teikningar eftir Erlu Sigurðardóttur. Reykjavík: Námsgagnastofnun.

Sigrún Helgadóttir (2002). Komdu og skoðaðu land og þjóð. Teikningar eftir Freydísi Kristjánsdóttur. Reykjavík: Námsgagnastofnun.

Sigrún Helgadóttir (2002). Komdu og skoðaðu Umhverfið. Teikningar eftir Olgu Bergmann. Reykjavík: Námsgagnastofnun.

Sigrún Helgadóttir (2006). Komdu og skoðaðu Sögu mannkyns. Teikningar eftir Írisi Auði Jónsdóttur teiknaði myndir. Reykjavík: Námsgagnastofnun.

Sólrún Harðardóttir 2002). Komdu og skoðaðu Himingeiminn. Teikningar eftir Rannveigu Jónsdóttur teiknaði myndir. Reykjavík: Námsgagnastofnun.

Sólrún Harðardóttir (2005). Komdu og skoðaðu Hafið. Teikningar eftir Freydísi Kristjánsdóttur. Reykjavík: Námsgagnastofnun.

Fræðilegar heimildir

Bordo, S. (1993). Unbearable weight: Feminism, western culture and the body. Berkeley, Los Angeles, London: University of California Press.

Byrne, W. G. (1995–1996). Multiculturalism, Culture and Anthropology. SACC Notes, (Fall-Winter):9–14.  

Byrne,W. G. (1995). Multiculturalism, culture and anthropology. Teaching Anthropology: Society for Anthropology in Community Colleges Notes, 3(2):9–14.

Bragi Guðmundsson og Gunnar Karlsson (1999). Æska og Saga: Söguvitund íslenskra unglinga í evrópskum samanburði. Reykjavík: Sagnfræðistofnun, Háskólaútgáfan.

Börkur Vígþórsson (2003). Bót eða dót? Hugleiðingar um Aðalnámskrá grunnskóla 1999. Netla: Veftímarit Kennaraháskóla Íslands. Grein birt 10. febrúar. Sótt 15. apríl 2004 af http://netla.khi.is/greinar/2003/002/.

Clawson, R. A. og Kegler, E. R. (2000). The „Race Coding“ of poverty in American government college textbooks. The Howard Journal of Communications, 11:179–188.

Creswell, J.W. (1998). Qualitative inquiry and research design: Choosing among five traditions. London: Sage Publications.

Eller, J. D. (1997) Anti-anti-multiculturalism. American Anthropologist, 99(2):249–256.

Esterberg, K. G. (2002). Qualitative methods in social research. Boston: McGraw-Hill Higher Education.

Eyrún María Rúnarsdóttir og Sigrún Aðalbjarnardóttir (1996). Námsbókin: Stefnumörkun í námsefnisgerð fyrir grunnskóla. Reykjavík: Höfundar.

Ferree, M. M. og Hall, E. J. 1990. Visual images of American society: Gender and race in introductory sociology textbooks. Gender and Society, 4(4):500533.

Foucault, M. (1980 [1972]). Power/knowledge: Selected interviews & other writings 1972–1977. New York, Pantheon Books.

Foucault, M. (1983). The subject and power. Í H. Dreyfus og P. Rabinow, (ritstj.) Michel Foucault: Beyond Structuralism and Hermeneutics (bls. 208–226) Chicago: University of Chicago.

Gerður G. Óskarsdóttir, Gunnlaugur Ástgeirsson, María Jónasdóttir, Birna Sigurjónsdóttir, Hrólfur Kjartansson og Sylvía Guðmundsdóttir (1989) Skýrsla um stöðu Námsgagnastofnunar og framtíðarþróun. Reykjavík: Menntamálaráðuneytið.

Ginsburg, F. D., Abu-Lughod, L. og Larkin, B. (2002). Introduction. Í F. D. Ginsburg, L. Abu-Lughod og B. Larkin (ritstj.) Media Worlds: Anthropology on new terrain Berkeley (bls. 1–36). University of California Press.

Hagstofa Íslands (2004). Mannfjöldi eftir fæðingar- og ríkisfangslandi 31. desember 2003. Sótt 24. febrúar 2004 af http://www.hagstofa.is/template25.asp?pageid=1355&nid=826&Redirect=False

Hanna Ragnarsdóttir (2002a). „Markvisst leikskólastarf í fjölmenningarlegu samfélagi.“ Uppeldi og menntun, 11:51–77.

Hanna Ragnarsdóttir (2002b). Menningarmenntun og trúfrelsi í leikskóla og grunnskóla. Á sama báti: Um samskipti fólks af ýmsum trúarbrögðum í íslensku fjölmenningarsamfélagi. Erindi flutt á ráðstefnu á vegum kærleiksþjónustusviðs biskupsstofu og presti innflytjenda í Reykjavík 20. september 2003. Sjá einnig á þessari slóð: http://www.kirkjan.is/?trumal/menning/a_sama_bati/menningarmenntun_og_trufrelsi.

Hanna Ragnarsdóttir (2007). Grunngildi skólastarfs í fjölmenningarsamfélagi. Uppeldi og menntun,
16
(1):109–112.

Hartman, D. og Gerteis J. (2005). Dealing with diversity: Mapping multiculturalism in sociological terms. Sociological Theory, 23(2):218–240.

Ingvar Sigurgeirsson (1994). Notkun námsefnis í 10–12 ára deildum grunnskóla og viðhorf kennara og nemenda til þess. Reykjavík: Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands.

Íslensk ættleiðing (2007). Skiptir fjöldi ættleiðingarlanda höfuðmáli? Sótt 28. mars 2007 af http://www.isadopt.is/index.php?a=204

Kristín Loftsdóttir (2005a). Menntaðar og villtar þjóðir: Afríka í texta íslenskra námsbóka. Uppeldi og menntun, 14(1):71–101.

Kristín Loftsdóttir (2005b). Nýjar námsbækur, fjölmenning og Afríka. Skólavarðan, Málgagn Kennarasamband Íslands, 5(7):24–26.

Kristín Loftsdóttir (2006). Þriðji sonur Nóa: Íslenskar ímyndir Afríku á miðöldum. Saga, Tímarit Sögufélagsins, XLIV(1):123–151.

Kristín Loftsdóttir (2007a). Hvar á að ræða um kynþátt í skólabókunum? Kynþáttahyggja, fjölmenning og íslenskt samfélag? Í Gunnar Þór Jóhannsson (ritstj.), Þjóðarspegill: Rannsóknir í félagsvísindum (bls. 461–471). Reykjavík: Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands.

Kristín Loftsdóttir (2007b). Learning Differences? Nationalism, Identity and Africa in Icelandic School Textbooks International Textbook Research. The Journal of the George-Eckert Institute, 29(1):5–22.

Kristín Loftsdóttir og Helga Björnsdóttir. 2005. Í fréttum er þetta helst: Myndræn og kynjuð orðræða fjölmiðla. Í Úlfar Hauksson (ritstj.) Rannsóknir í Félagsvísindum VI. (bls. 367–375). Reykjavík: Háskólaútgáfan.

Lutz, C. A., og Collins, J. L. (1993). Reading National Geographic. Chicago: University of Chicago Press.

Mazzarella, W. (2004). Culture, globalization, mediation. Annual Review of Anthropology, 33:345–67.

Menntamálaráðuneytið (1999). Aðalnámskrá grunnskóla: Almennur hluti. Reykjavík: Menntamálaráðuneytið.

Menntamálaráðuneytið (2001). Nefnd um konur og fjölmiðla. Reykjavik: Menntamálaráðuneytið.

Menntamálaráðuneytið (2006). Aðalnámskrá grunnskóla: Almennur hluti. Reykjavík: Menntamálaráðuneytið.

Menntamálaráðuneytið (2007). Aðalnámskrá grunnskóla: Samfélagsgreinar. Reykjavík: Menntamálaráðuneytið.

Moore, H.L. (1994). A passion for difference: Essays in anthropology and gender. Bloomington and Indianapolis: Indiana University Press.

Mudimbe, V. Y. (1994). The idea of Africa (African systems of thought). Bloomington, Indianapolis: Indiana University Press.

Olsen, L. (1997). Made in America: Immigrant students in our public schools. New York: The New Press.

Pingel, F. (1999). UNESCO Guidebook on textbook research and textbook revision. Hannover: Verlag Hahnsche Buchhandlung.

Puwar, N. (2004). Space Invaders: race, gender and bodies out of place. Oxford: Berg.

Rapport, N. (2003). Culture is no excuse. Critiquing multicultural essentialism and identifying the anthropological concrete. Social Anthropology, 11(3):373–384.

Said, E. W. (1978). Orientalism. New York: Vintage Books.

Sigríður Rut Magnúsdóttir (2001). Námsumhverfi nýbúabarna. Í Börn af erlendum uppruna, Ritröð Barnaheilla 5:64–69.

Thompson, R. (2003). Basing educational anthropology on the education of anthorpology. Can bilingualism and biculturalism promote the fundamental goals of anthropology better than multiculturalism? Anthropology and Education Quarterly, 34(1):96–107.

Unnur Dís Skaptadóttir 2003. Vestfirsk fjölmenning: Um menningarlega fjölbreytni í sjávarþorpum. Ársrit Sögufélags Ísfirðinga, 43:311–323.

Unnur Dís Skaptadóttir (2004a). Mobilities and cultural difference: Immigrants’ experiences in Iceland. Í Valur Ingimundarson, Kristín Loftsdóttir og Irma Erlingsdóttir (ritstj.) Topographies of Globalization: Politics, Culture, Language (bls. 133–149). Reykjavík, The University of Iceland Press.

Unnur Dís Skaptadóttir (2004b). Fjölmenning á ferð og flugi. Í Friðrik H. Jónsson (ritstj.). Rannsóknir í félagsvísindum V (bls. 201–212). Reykjavík: Háskólaútgáfan.

Unnur Dís Skaptadóttir og Kristín Loftsdóttir (2007). Cultivating Culture? Images of Iceland, Globalization and Multicultural society. Images of the North. Reykjavík: ReykjavíkurAkademía (bls. 201–212).

Unnur Dís Skaptadóttir og Sóley Gréta Sveinsdóttir (2006). Valkyrjur samtímans: Veröld kvenna frá Asíu á Íslandi. Í Úlfar Hauksson (ritstj.). Rannsóknir í Félagsvísindum VII (bls. 489–487). Reykjavík: Háskólaútgáfan.

Yon, D. A. (2003). „Higlights and overview of the history of educational ethnography.“ Annual Review of Anthropology, 32:411–29.

Wieviorka, M. (1998). Is multiculturalism the solution? Ethnic and Racial Studies, 21(5):881–910.
 

Prentútgáfa     Viðbrögð