Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun

Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands

Ritrýnd grein birt 18. desember 2007

Greinar 2007

Helga Rut Guðmundsdóttir

Tónskynjun 711 ára barna

Þroskaferli í getu til að heyra tvær laglínur
sem hljóma samtímis

Rannsóknin beindist að getu barna í 1., 3., og 5. bekk (n = 73) til að heyra tvær laglínur sem hljómuðu samtímis. Laglínupör voru sett saman á mismunandi vegu úr þremur laglínum. Tvær laglínur voru börnunum vel kunnar en þriðja laglínan var börnunum ókunn. Laglínurnar voru leiknar tvær og tvær saman í einu og voru þær leiknar á víxl fyrir ofan og neðan hvora aðra og með mismunandi hljómblæ. Börnin voru beðin um að styðja á sérstaklega merkta hnappa til þess að gefa til kynna hvaða laglínur þau heyrðu og skráðust svör þeirra jafnóðum inn í tölvu.

Niðurstöður gáfu til kynna að eldri börnin væru fljótari að þekkja tvær samhljómandi laglínur og gerðu það af meiri nákvæmni en yngri börnin. Úr hópi 1. bekkinga gáfu 70% svara til kynna að þau heyrðu tvær laglínur í tóndæmi en um fjórðungur svara þeirra var rangur. Hinsvegar gáfu 90% svara 5. bekkinga til kynna að þau heyrðu báðar laglínurnar og voru 3% svara þeirra röng. Börnin sem gátu tilgreint tvær laglínur sem hljómuðu samtímis völdu efri laglínuna oftar á undan þeirri neðri með marktækum mun. Hinsvegar þegar laglínurnar voru leiknar með ólíkum hljómblæ beindist athyglin marktækt oftar að laglínunni með skærari hljómblæ og gilti þá einu hvort um var að ræða efri eða neðri laglínu.

Höfundur er lektor við Kennaraháskóla Íslands.
 

Greinin hefur áður verið birt á ensku í tímaritinu Journal of Research in Music Education.

Gudmundsdottir, H. R. (1999) Children’s Auditory Discrimination of Simultaneous Melodies. Journal of Research in Music Education 47(2): 101110.

Hér birtist greinin á íslensku og hægt er að hlusta á öll tóndæmi úr rannsókninni.

 

Inngangur

Að hlusta á tónlist og að flytja tónlist felur hvort tveggja í sér skynjun á mörgum þáttum sem gerast samtímis. Ekki er mikið vitað um skynjun barna á því sem gerist samtímis í tónlist eða getu þeirra til að greina í sundur ýmis áreiti í tónlistarflutningi. Í stöðluðum tónlistarþroskaprófum eru ýmsir þættir tónskynjunar prófaðir en sjaldgæft er að geta barna til að greina tónlistarlega þætti sem gerast samtímis sé prófuð (Boyle og Radocy, 1987). Að vísu eru dæmi um að mæld sé geta til að heyra einföld hljóð sem heyrast samtímis (Bentely, 1966; Wing, 1961).

Ákveðnar vísbendingar hafa fundist um að börn heyri það sem gerist á efra tónsviði betur en það sem gerist á neðra tónsviði í margraddaðri tónlist. Zenatti (1969) lét börn hlusta eftir þemalaglínu í fjórradda pólifónískri tónlist og komst að því að börnin voru líklegri til að heyra þemað í efri röddunum tveimur en í neðri röddunum. Aðrar rannsóknir fundu sömuleiðis að ung börn beina athygli sinni frekar að efri laglínu en neðri í tveggja radda tónlist (Imberty, 1969; Zimmermann, 1971).

Rannsóknir benda til þess að börn eigi erfitt með að greina þætti sem gerast samtímis í tónlist (Bertrand, 1997; Serfaine, 1981, 1988). Raunar eiga börn á yngri stigum yfirleitt ekki gott með að einbeita sér að nema einum afmörkuðum þætti tónlistar í einu (Costa-Giomi, 1994a, 1994b; Sims, 1991). Á meðan börn á eldri stigum eru fær um að leysa verkefni sem fela í sér að beina athyglinni að tilteknum þáttum og hundsa óviðkomandi þætti virðast yngri börn ekki hafa tileinkað sér þá færni (Doyle, 1973; Maccoby og Konrad, 1966; Sergeant og Roch, 1973).

Ekki er hlaupið að því að rannsaka hvað börn eru fær um að heyra og hvað ekki með ásættanlegri nákvæmni. Margir þættir hafa áhrif á svörun og mikið komið undir því að vandað sé til allra þátta í slíkum rannsóknum. Serafine (1988) lýsir í bók sinni tilraun þar sem hún prófaði getu fullorðinna og barna á ýmsum aldursstigum til að þekkja aftur tónhendingar sem hún hafði kennt þeim þegar þær voru spilaðar samtímis. Þátttakendurnir voru beðnir að svara hvort hendingarnar myndu hljóma svona saman eða ekki. Þessi þraut reyndist jafnvel fullorðnu þátttakendunum erfið en þeir svöruðu rétt í 73% tilvika. Svör yngri barnanna (5 og 8 ára) virtust háð tilviljun þar sem þau svöruðu rétt í um helmingi tilfella. Í þessari tilraun gæti vandinn verið fólginn í því að tónhendingarnar voru nýlærðar og því fólst þrautin ekki síður í að muna nýju hendingarnar en í því að heyra hvað gerðist samtímis. Greinarhöfundur framkvæmdi svipaða rannsókn með 5, 7 og 9 ára börnum (Gudmundsdottir, 1995). Laglínurnar í þeirri rannsókn voru aðeins lengri en hendingar í rannsókn Serafine og voru laglínurnar þátttakendum bæði kunnar og ókunnar. Í ljós kom að börnin stóðu sig marktækt mun betur þegar laglínan var kunn en þegar hún var ókunn auk þess sem talsvert bar á ósamræmi í svörun barnanna þegar laglínurnar voru ókunnar.

Aðferð

Þátttakendur

Þátttakendur í þessari rannsókn voru nemendur í fyrsta (n = 29), þriðja (n = 22) og fimmta bekk (n = 22) í enskumælandi grunnskóla í Montreal, Kanada. Þessir nemendur fengu tónmennt og blokkflautukennslu 1 sinni í viku og hafði tónmennt verið kennd í 2 ár við þennan skóla þegar rannsóknin var gerð. Skólinn var staðsettur í borgarhluta þar sem fjölskyldutekjur voru undir landsmeðallagi og sjaldgæft að nemendur væru í tónlistarnámi utan við grunnskólann.

Tóndæmi

Þrjár laglínur voru notaðar til að setja saman tóndæmin. Tvær voru börnunum kunnar og sú þriðja var samin sérstaklega fyrir þessa rannsókn og því börnunum ókunn. Laglínurnar tvær sem börnin þekktu fyrir voru laglínurnar Meistari Jakob (A) og Út um mó (B) (Á ensku Frére Jacques og The Barney Song). Aðeins laglínurnar voru leiknar, án texta. Laglínurnar þrjár uppfylltu eftirfarandi skilyrði: Þær voru jafn langar og unnt var að spila tvær og tvær saman í ólíkum samsetningum á þann hátt að það hljómaði eins og tvíradda lag.

 


 

Mynd 1 - Dæmi um tvær laglínur sem hljómuðu samtímis. Hér er laglínuparið
Út um mó (B) fyrir ofan og Meistari Jakob (A) fyrir neðan (B+A).

Tóndæmin voru samsett úr tveimur laglínum hvert sem gefur möguleika á þremur pörum. Nefnum laglínurnar þrjár: B, A og X. Mögulegar paranir eru því þessar: A+B; A+X og B+X. Við þetta bætist möguleikinn á að spila laglínurnar á efra eða neðra tónsviði. Til dæmis þegar laglínurnar Meistari Jakob og Út um mó eru spilaðar samtímis er hægt að spila Meistari Jakob á efra tónsviði en Út um mó á neðra tónsviði og svo öfugt. Af þessu leiðir að laglínurnar þrjár verða að sex ólíkum laglínupörum (Mynd 1). Að auki voru laglínupörin spiluð í þrenns konar samsetningum af hljómblæ. Þessar samsetningar voru 1) með píanóhljómi á efra og neðra sviði; 2) með píanói á efra og trompet á neðra sviði; og 3) með trompet á efra og píanói á neðra sviði. Ítarlegri lýsingu á samsetningu tóndæmanna má sjá í Töflu 1. Fyrstu tvö laglínurpör í hverri samsetningu voru tvítekin í þeim tilgangi að kanna áreiðanleika mælingarinnar og þessvegna eru pör 1 og 2 samskonar og pör 7 og 8 í Töflu 1. Tóndæmin voru ekki leikin í þeirri röð sem taflan sýnir heldur í slembiröð sem var stjórnað af tölvuforritinu sem var skrifað fyrir þessa rannsókn og spilaði tóndæmin. Þess vegna var röðin ólík hjá hverjum þátttakanda fyrir sig. Lengd hvers tóndæmis var 16 sekúndur og voru þau leikin með 2 sekúndna millibili. Heildarlengd prófsins var 7,2 mínútur.

Tafla 1
Allar samsetningar tóndæmanna í prófinu
sem lagt var fyrir börnin

Samsetning 1

Efri laglína píanó
Neðri laglína píanó

Samsetning 2

Efri laglína píanó
Neðri laglína trompet

Samsetning 3

Efri laglína trompet
Neðri laglína píanó

Tóndæmi

Efri + Neðri

Tóndæmi

Efri + Neðri

Tóndæmi

Efri + Neðri

1.1

A + B

2.1

A + B

3.1

A + B
1.2 B + A 2.2 B + A 3.2 B + A
1.3 A + X 2.3 A + X 3.3 A + X
1.4 X + A 2.4 X + A 3.4 X + A
1.5 B + X 2.5 B + X 3.5 B + X
1.6 X + B 2.6 X + B 3.6 X + B
1.7 A + B 2.7 A + B 3.7 A + B
1.8 B + A 2.8 B + A 3.8 B + A
Laglínurnar voru leiknar tvær í einu með mismunandi samsetningum af hljómblæ á víxl í efra og neðra tónsviði. A = Meistari Jakob; B = Út um mó; X = Ókunna laglínan. Efstu tvö tóndæmin og neðstu tvö tóndæmin í hverri runu eru samskonar.

Smellið á tóndæmi til að heyra hvernig þau hljóma
(sækja þarf Scorch á netið til að skoða og hlusta).

Tækjabúnaður

Prófið var sett upp og hannað með forritinu Max frá Opcode fyrir Macintosh. Tóndæmin voru spiluð í gegnum hljóðgervil sem lék bæði píanóhljóð og trompethljóð. Prófið fór fram á Macintosh-fartölvu sem var tengd við Roland-hljóðkort með MIDI-tengi og var hljóðinu varpað með Boss-hátölurum sem stilltir voru á meðal hljóðstyrk.

Framkvæmd

Framkvæmd rannsóknarinnar var með þeim hætti að eitt barn í einu sat fyrir framan tölvuna. Hátalarinn var staðsettur við hlið tölvunnar. Á lyklaborði tölvunnar voru 3 hnappar merktir með áberandi límmiðum sem hver táknaði eina af laglínunum þremur. Tryggt var að börnin þekktu laglínurnar og kynnu að styðja á rétta hnappa. Börnin fengu loks þau fyrirmæli að hlusta á tóndæmin og styðja á hnappinn sem táknaði þá laglínu sem þau heyrðu. Ekki var tekið fram að laglínurnar væru alltaf tvær og tvær heldur var börnunum sagt að það gætu heyrst fleiri en ein laglína í einu. Svörun hvers barns skráðist sjálfkrafa jafnóðum í tölvuskrá með hjálp forritsins Max. Úr þessum tölvuskrám mátti lesa á hvaða hnappa barnið studdi og hvenær. Þannig var unnt að sjá hversu margar sekúndur liðu frá byrjun tóndæmis og þangað til barnið studdi á hnapp. Í tilvikum þegar barnið studdi oftar en einu sinni á sama hnappinn var aðeins fyrsta svarið talið.

Niðurstöður

Þrjú börn valin af handahófi úr hverjum aldurshópi tóku prófið tvisvar í þeim tilgangi að kanna áreiðanleika mælingarinnar. Beitt var t-prófi tveggja háðra úrtaka á niðurstöður fyrri og seinni prófunar og gaf það til kynna að ekki væri marktækur munur á þeim (M = -1.44; SD = 3.21; t-gildi (-1.35); df = 8; p = .21). Ennfremur voru svör allra barnanna við samskonar tóndæmum borin saman þar sem tóndæmi 1 og 7 voru eins og tóndæmi 2 og 8 voru eins (Tafla 1). Hlutfall samskonar svara var 81% í dæmum 1 og 7 en 82% í dæmum 2 og 8. Líkurnar á því að þessi hlutföll mælist af tilviljun eru hverfandi (z = 8.3; p < .01).

Fyrir hvert tóndæmi var talið hversu margar laglínur börnin „völdu” og hversu mörg svör voru rétt. Meirihluti barnanna studdi á tvo hnappa fyrir hvert tóndæmi. Mjög fá studdu á enga eða þrjá hnappa fyrir eitt tóndæmi. Þegar svörunin við öllum tóndæmum var tekin saman kom í ljós að 83% voru tveggja-laglínu svör en 15% voru einnar-laglínu svör. Flest tveggja-laglína svörin voru á meðal 5. bekkinganna og fæst á meðal 1. bekkinganna. Hlutfall réttra tveggja-laglína svara var hátt meðal 5. bekkinganna (97%), lægra meðal 3. bekkinganna (86%) og lægst meðal 1. bekkinganna (75%). Hlutfall réttra einnar-laglínu svara var hátt á meðal yngstu barnanna (95%) og meðal 5. bekkinganna voru öll einnar-laglínu svörin rétt.

Megindlegum aðferðum var beitt til þess að skoða áhrif aldurs, kyns og hljómblæs á frammistöðu barnanna. Þáttagreiningu (ANOVA) var beitt á fjölda réttra svara sem og svörunartíma barnanna. Áhrif staðsetningar laglínu í efra eða neðra tónsviði (tegund tóndæma) á svörun barnanna voru metin með Kí-kvaðrat greiningu.

Gefin voru stig fyrir svörun við hverju tóndæmi eftir því hversu margar „réttar” laglínur voru valdar. Stigafjöldi jókst með hækkandi aldri barnanna. Marktækur munur fannst í fjölda stiga milli 1. og 3. bekkinga og milli 3. og 5. bekkinga [F (2, 58) = 13.10, p < .01] (sjá töflu 2). Fleiri stig mældust fyrir tóndæmi með tveimur kunnuglegum laglínum heldur en tóndæmi sem innihélt eina ókunna laglínu [F (7, 406) = 2.69, p = .01].

Tafla 2
Meðaltöl (M) og staðalfrávik (SD) stigagjafar í hverjum aldurshópi

1.  bekkur

(n=546)

3.  bekkur

(n=528)

5.  bekkur

(n=504)

M

D

M

D

M

D

1.48

.58

1.68

.52

1.91

.31


Hljómblær hafði marktæk áhrif á niðurstöðurnar [F (2, 116) = 2.90, p = .05] (sjá töflu 3). Marktækt fleiri stig fengust þegar tompethljómurinn lék neðri laglínuna og píanóhljómurinn lék efri laglínuna heldur en þegar því var öfugt farið. Fleiri stig fengust einnig þegar trompethljómurinn lék neðri laglínuna heldur en þegar píanóhljómurinn lék bæði efri og neðri laglínuna en sá munur var ekki tölfræðilega marktækur.

Tafla 3
Meðaltöl (M) og staðalfrávik (SD) allra stiga flokkað
eftir tegund tóndæma (samsetning hljómblæs)

Samsetning 1
píanó/píanó

(n=523)

Samsetning 2
píanó/trompet

(n=529)

Samsetning 3
trompet/píanó

(n=526)

M

D

M

D

M

D

1.66

.51

1.73

.49

1.67

.56


Meirihluta svaranna mátti flokka í tveggja-laglína og einnar-laglínu svör. Rétt svör voru skoðuð sérstaklega í báðum flokkum. Við greiningu á réttum svörum meðal tveggja-laglínu svara kom í ljós að eldri börnin (3. og 5. bekkingar) voru fljótari í sekúndum talið að velja báðar laglínurnar en yngri börnin (1. bekkingar) og var þessi munur marktækur [F (2,772) = 12.803, p = .01] (sjá töflu 4). Hins vegar var ekki marktækur munur á því hversu fljót börnin voru að velja fyrri laglínuna.

Tafla 4
Meðaltöl og staðalfrávik svörunartíma meðal réttra tveggja-laglína svara
flokkað eftir aldurshópi

1.  bekkur

(n=198)

3.  bekkur

(n=273)

5.  bekkur

(n=355)

M

D

M

D

M

D

18.30

6.33

16.59

5.70

15.65

5.97


Kunnugleiki laglínanna hafði áhrif á hversu hratt börnin svöruðu. Marktækur tímamunur fannst milli tóndæma sem höfðu eina ókunna laglínu og þeirra sem höfðu tvær þekktar laglínur og voru börnin fljótari að svara þegar báðar laglínur voru þekktar [F (5, 772) = 5.514, p = .01]. Staðsetning laglína í tónsviði hafði einnig áhrif á hraða svörunar, en laglínur á efra tónsviði voru valdar marktækt hraðar en laglínur á neðra tónsviði (df = 825; t = 4.34; p < .01). Börnin völdu laglínurnar tvær yfirleitt ekki samtímis heldur fyrst eina og svo aðra. Hljómblær og staðsetning í tónsviði hafði áhrif á það hvor laglínan var valin fyrst. Trompetlaglínur voru valdar á undan marktækt oftar en píanólaglínur (df = 2; x2 = 120.7; p < .01). Þegar laglínan var leikin með píanóhljómblæ í báðum tónsviðum höfðu börnin tilhneigingu til að velja efri laglínuna fyrst (sjá Mynd 2).

 
    

 Prósentur

píanó/píanó                        píanó/trompet                     trompet/píanó

Tegund tóndæma


Mynd 2. Greining á réttum tveggja-laglína svörum: Hlutfall tilvika þegar efri laglína var valin fyrst
á móti hlutfalli tilvika þegar neðri laglína var valin fyrst, flokkað eftir samsetningum tóndæma.

Greining á einnar-laglínu svörum sem voru rétt leiddi í ljós að sú laglína var rúmlega tvisvar sinnum oftar efri laglínan en neðri laglínan (Tafla 5). Aukinheldur leiðir samanburður milli ólíkra tegunda tóndæma í ljós að neðri laglínan var valin oftar en vænta mætti af tilviljun þegar sú neðri var leikin með trompethljómblæ (df = 2; x2 = 27.044; p < .01).

Tafla 5
Greining á réttum einnar-laglínu svörum:
Tíðni þess að efri og neðri laglínur voru valdar
flokkað eftir tegund tóndæma
 

Samsetning 1
píanó/píanó

Samsetning 2
píanó/trompet

Samsetning 3
trompet/píanó

Samtals

Efri laglína

128 (116.8)

65 (86.5)

107 (96.6)

300

Neðri laglína

34 (45.2)

55 (33.5)

27 (37.4)

116
Samtals 162 120 134 416
Gildi í svigum eru væntigildi (expected values)

Umræður

Rannsóknin sem um ræðir mældi getu barna til að greina tvær laglínur sem hljóma samtímis. Mælingin sjálf var framkvæmd án orða. Með þessari mælitækni var unnt að safna gögnum um getu barnanna til að þekkja laglínurnar, hversu fljót þau voru að þekkja þær og í hvaða röð þær voru þekktar. Áreiðanleikapróf gáfu til kynna að þessi mæliaðferð væri áreiðanleg og við hæfi aldurshópsins sem rannsóknin beindist að.

Þekking á getu barna til að greina marga þætti sem gerast samtímis í tónlist er afar mikilvæg fyrir tónlistarkennara. Þessi þekking er sérstaklega mikilvæg þegar kemur að samspili, þ.e. flutningi tónlistar í hópum. Barnakórstjóri þarf til dæmis að vita með hvaða aldurshópum er viðeigandi að gefa fyrirmæli um að hlusta á laglínuna í altinum. Sömuleiðis á þessi þekking við þegar stjórnandi lúðrasveitar biður börnin að veita klarínettustefinu athygli. Þessi rannsókn bendir til þess að börn í 1. bekk eiga ekki auðvelt með að heyra tvær laglínur sem hljóma samtímis, jafnvel þegar báðar laglínur eru kunnuglegar. Margir fyrstubekkingar virðast hætta að hlusta þegar þeir hafa heyrt eina laglínu og staðhæfa að aðeins ein laglína sé leikin þó að þær séu tvær. Í 3. bekk virðast börnin átta sig á að þau eru að hlusta á tvær laglínur. En samt sem áður reynist mörgum þriðjubekkingum erfitt að þekkja báðar laglínurnar. Þegar komið er í 5. bekk reynist börnunum auðvelt að greina tvær laglínur, í það minnsta þegar önnur laglínan er vel þekkt. Ekki er unnt að fullyrða út frá þessari rannsókn hversu vel fimmtubekkingum myndi ganga að þekkja tvær ókunnar laglínur en ef tekið er mið af rannsóknum á laglínuskynjun (sjá t.d. Dowling 1994), má telja nokkuð víst að það gæti reynst erfitt.

Það er athyglisvert að allir aldurshópar í þessari rannsókn voru jafnfljótir að velja eina laglínu. Aldursmunurinn birtist einungis í því hversu langan tíma tók að velja báðar laglínurnar. Þessi niðurstaða gefur til kynna að yngri börnin voru jafnfljót og hin eldri að heyra eina laglínu og virtust ekki láta truflast af því að önnur laglína hljómaði samtímis. Leiða má líkum að því að yngri börnin heyri aðra laglínuna undir eins en sé illmögulegt að beina athygli sinni að hinni laglínunni í tóndæminu.

Lykillinn að því að heyra tvær laglínur sem hljóma samtímis gæti falist í getunni til að beina athyglinni að neðri laglínunni. Börnin í rannsókninni sem voru fær um að greina tvær laglínur voru lengur að greina neðri laglínur en efri laglínur í tóndæmunum. Sömuleiðis völdu börnin sem aðeins greindu eina laglínu mun oftar efri laglínuna en neðri laglínuna í tóndæmunum. Þessar niðurstöður ríma vel við þær viðteknu venjur í tónsmíðum að þegar þemu og laglínur eiga að vera áberandi eru þau sett í efstu rödd. Niðurstöðurnar gefa til kynna að manneskja sem hlustar á tónlist eigi eitthvað auðveldara með að heyra þær raddir sem liggja ofar í tónsviði heldur en þær raddir sem liggja neðar í tónsviði tónverks. Fyrri rannsóknir styðja þessar niðurstöður (Imberty, 1969; Zenatti, 1969; Zimmerman, 1971).

Í þessari rannsókn var það hins vegar ekki aðeins staðsetning í tónsviði sem hafði áhrif á það hvaða laglínu athyglin beindist fyrst að. Í tóndæmum þar sem önnur laglínan var leikin með trompethljómblæ beindist athygli barnanna oftar að trompetlaglínunni hvort sem laglínan var í efra eða neðra tónsviði. Það er líklegt að björt og skerandi áferð trompethljómblæsins hafi verið svo áberandi að hann fangaði athyglina fram yfir píanóhljómblæinn jafnvel þegar trompetlaglínan var á neðra tónsviðinu. Þetta eru athyglisverðar niðurstöður vegna þess að þær benda eindregið til þess að eðli hljómblæsins geti dregið verulega úr tilhneigingu mannseyrans til að beina athyglinni fyrst og fremst að efstu laglínunni í tónverki. Áhugavert væri að rannsaka nánar áhrif hljómblæs á tónskynjun barna.

Niðurstöður þessarar rannsóknar hafa beina skírskotun fyrir alla tónlistarkennara. Niðurstöðurnar benda til þess að börn í 1. - 3. bekk einblíni oft á efsta tónsvið tónlistar og þurfi á stuðningi að halda til þess að geta greint aðrar raddir en efstu röddina í tónlist sem þau hlusta á. Jafnvel þó að þemað eða laglínan sé þeim kunnug er ólíklegt að yngri börnin á þessu aldursskeiði séu fær um að greina hana ef hún liggur fyrir neðan aðrar raddir í tónverkinu. Hinsvegar ef röddin er leikin með hljóðfæri sem hefur áberandi eða bjartan hljómblæ eins og trompet er nokkuð öruggt að börn niður í 1. bekk muni geta greint hana. Á meðal fyrstubekkinga er ríkjandi tilhneiging að hlusta aðeins eftir einni laglínu hverju sinni og eru þær niðurstöður í samræmi við fyrri rannsóknir sem sýndu að ung börn eiga mjög erfitt með að beina athygli sinni að fleirum en einum þætti tónlistar í einu (Bertrand, 1997; Sims, 1991).

Niðurstöður rannsóknarinnar gáfu til kynna að börn í 3. bekk og yngri væru fær um að taka þátt í flutningi fjölradda tónlistar í kórum, hljómsveitum eða samspilshópum. Í ljós kom að þessi aldurshópur er í það minnsta fær um að beina athyglinni að einni rödd í fjölradda tónlist án þess að hinar raddirnar hafi truflandi áhrif. Hinsvegar hentar þessum hópi líklega best að flytja efstu röddina í tónverki. Það er svo ekki fyrr en eftir 3. bekk sem börn hafa náð þeirri færni að geta að vild beint athygli sinni milli efra og neðra tónsviðs í tvíradda tónsmíð, en þess konar færni er skilyrði fyrir því að hafa vald á samstillingu tóna og þar með stjórn á tónlistarlegum gæðum í flutningi tónlistar.

Heimildir

Bentely, A. (1966). Measures of Musical Abilities. London: George G. Harrap og Co. Ltd.

Bertrand, D. (1997). Development of decentration in music listening in 3 to 8 year old children. Í A. Gabrielsson (Ed.), Proceedings of the Third Triennial Conference of The European Society for the Cognitive Sciences of Music, (397402). Uppsala, Sweden: University of Uppsala.

Boyle, D. J., og Radociy, R. E. (1987). Measurement and evaluation of musical experiences. New York: Schirmer Books (Macmillan).

Bregman, A. S. (1990). Auditory scene analysis: The perceptual organization of sound. Cambridge, MA.: MIT Press.

Bregman, A. S. (1978). The formation of auditory streams. Í J. Requin (Ed.), Attention and performance VII. Hillsdale, NJ:Lawrence Erlbaum.

Bregman, A.S., og Campbell, J. (1971). Primary auditory stream segregation and the perception of order in rapid sequences of tones. Journal of Expermimental Psychology, 89, 244249.

Bregaman, A. S., og Pinker, S. (1978). Auditory streaming and the building of timbre. Canadian Journal of Psychology, 32 (1), 1931.

Costa-Giomi, E. (1994a). Effect of timbre and register modifications of musical stimuli on young children’s identification of chord changes. Bulletin of the Council for Reserach in Music Education, no.121, 115.

Costa-Giomi, E. (1994b). Recognition of chord changes by 4- and 5-year-old American an Argentine Children. Journal of Research in Music Education, 42, 6885.

Doyle, A. B.,(1073). Listening to distraction: A developmental study of selective attention. Journal of Experimental Child Psychology, 15, 100-15.

Dowling, W. J. (1994). Melodic contour in hearing and remembering melodies. Í R. Aiello og J. A. Sloboda (Eds.), Musical perceptions (pp. 173190).

Gudmundsdottir, H. R. (1995). Young children’s ability to hear two simultaneous melodies. Unpublished manuscript, Faculty of Music, McGill University.

Imberty, M. (1969). L’acquisition des structures tonales chez l’enfant. [Þroskaferli barna í tengslum við skilning á hljómrænni uppbyggingu tónlistar] Paris: Klincksieck.

Hartman, W. M., og Johnson, D. (1991). Stream segregation and peripheral channeling. Music Perception, 9 (2), 155184.

Maccoby, E. E., og Konrad, W. K. (1966). Age trends in selective listening. Journal of Experimental Psychology, 3, 113122.

Serafine, M. L. (1981). Musical timbre imagery in young children. Journal of Genetic Psychology, 139, 97108.

Serafine, M. L. (1988). Music as cognition: The development of thought in sound. New York: Columbia University Press.

Sergeant, D. C., og Roche, S. (1973). Perceptual shifts in the auditory information procession of young children. Psychology of Music, 1, 3948.

Sims, W. (1991). Effects of instruction and task format on preschool children’s music concept discrimination. Journal of Research in Music Education, 39, 289310.

Wing, H. D. (1961). Standardized Tests of Musical Intelligence. The Mere, England: National Foundation for Educational Reserach.

Zenatti, A. (1969). Le developpement genetique de la perception musicale. Monopraphies Françaises de Psychologie. Centre National de la Recherche Scientifique, Paris.

Zimmerman, M. (1971). Musical characteristics of children. Reston, VA: Music Educators National Conference.

Prentútgáfa     Viðbrögð