Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun

Kennaraháskóli Íslands

Grein birt 18. desember 2007

Greinar 2007

Snjólaug Elín Bjarnadóttir og Ásrún Matthíasdóttir

Styðjum við ungt afreksíþróttafólk
í framhaldsskólum

Grein þessi byggist á lokaverkefni Snjólaugar E. Bjarnadóttur í MPH-námi (2005–2007 við Kennslufræði- og lýðheilsudeild Háskólans í Reykjavík. Afreksíþróttir krefjast sífellt meiri tíma af íþróttaiðkendum og aldur afreksíþróttafólks hefur farið lækkandi á undanförnum árum. Ungt afreksíþróttafólk á framhaldsskólaaldri á fullt í fangi með að stunda íþróttir samhliða námi. Greinin fjallar um mat á þjálfun afreksíþróttafólks til eininga á framhaldsskólastigi. Reynt er að varpa ljósi á stöðu þessara mála um þessar mundir, fjallað um stefnu menntamálaráðuneytisins og Íþrótta- og Ólympíusambandsins varðandi ungt afreksíþróttafólk og staðan hér borin saman við nágrannalöndin Danmörku, Noreg og Svíþjóð. Snjólaug er íþróttakennari og stallari við Fjölbrautaskólann í Garðabæ. Ásrún er lektor í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík.

Núverandi staða

Mikil umræða hefur farið fram í íþrótta- og skólasamfélaginu um mat á afreksíþróttaiðkun til eininga á framhaldsskólastigi. Tónlistar- og listdansnám hefur verið metið til eininga til stúdentsprófs um margra ára skeið ef nemandi hefur lokið ákveðnum stigum eða gráðum. Því má halda fram að hið sama ætti að gilda um afreksíþróttaþjálfun og að hún verði metin á sambærilegan hátt. Nú þegar bjóða fjórir framhaldsskólar hér á landi upp á tengsl við afreksíþróttaþjálfun hjá íþróttafélögum eða sérþjálfun hjá einkaaðilum og meta þjálfunina til eininga til stúdentsprófs. Þessir skólar eru: Fjölbrautaskóli Suðurnesja, Fjölbrautaskóli Suðurlands, Flensborgarskólinn í Hafnarfirði og Menntaskólinn á Ísafirði. Umræðan hefur staðið um nokkurt skeið og stendur til að bjóða upp á einhvers konar mat á afreksíþróttaiðkun í a.m.k. fjórum framhaldsskólum til viðbótar haustið 2007.

Afreksíþróttir og afreksíþróttafólk

Í námskrá fyrir framhaldsskóla, almennum hluta, er eftirfarandi skilgreining á afreksíþróttamanni: „Afreksíþróttamaður telst sá sem valinn hefur verið í unglingalandslið eða landslið viðkomandi íþróttagreinar eða sá sem hefur verið valinn til þátttöku og/eða undirbúnings fyrir Norðurlandamót, Evrópumeistaramót, heimsmeistaramót eða Ólympíuleika í sinni íþróttagrein“ (Menntamálaráðuneytið, 1999, bls. 51). Önnur skilgreining á afreksmanni í íþróttum er að það sé sá sem á landsvísu nær framúrskarandi árangri í íþróttagrein sinni og keppir um Íslands- eða bikarmeistaratitla eða aðra sambærilega titla (Garðabær, 2003).

Afrek er uppskera áralangrar markvissrar þjálfunar og faglegra vinnubragða þar sem umhverfi afreksíþróttamannsins hefur mikið að segja (Sigurbjörn Árni Arngrímsson, 2006). Íþróttaiðkun og þjálfun líkamans almennt hafa forvarnargildi og eru samkvæmt rannsóknum dæmi um lífsstíl sem minnkar líkur á að unglingar tileinki sér þá lifnaðarhætti sem fylgja notkun vímuefna (Þórólfur Þórlindsson, Þorlákur Karlsson og Inga Dóra Sigfúsdóttir, 1994).

Aðilar í umhverfi afreksíþróttamannsins eru mikilvægir og hægt að skipta þeim í þrjá hópa eða lög eftir eðli samskiptanna (sjá mynd 1). Í innsta laginu eru þeir sem eru í miklum og oftast daglegum samskiptum við íþróttamanninn, s.s. þjálfarar og foreldrar. Í öðru laginu eru ýmsir sérfræðingar sem eru í vikulegu eða mánaðarlegu sambandi við viðkomandi. Í þriðja laginu eru fjölmiðlar, styrktaraðilar o.fl. sem eru í sambandi mánaðarlega eða sjaldnar (Langagergaard, 2006).

Mynd 1 – Aðilar í umhverfi íþróttamannsins (Langagergaard, 2006).

Hvatning til íþróttaiðkunar er samspil iðkandans og aðstæðna hans og það er því í innsta lagi umhverfis íþróttamannsins sem mesta hvatningin er. Þar hafa foreldrar, þjálfarar og jafnvel æfingafélagar mest áhrif (Langagergaard, 2006). Það er einmitt í þessu nærumhverfi íþróttamannsins/nemandans sem skólinn gæti komið inn og haft jákvæð áhrif og stuðlað að aukinni þekkingu og meiri heildarsýn á daglegar þarfir og kröfur til iðkandans.

Afreksíþróttafólkið eru „hinir útvöldu, þeir bestu innan ákveðinnar íþróttagreinar. Breiddin er fjöldinn sem iðkar viðkomandi íþróttagrein án þess að árangur veki sérstaka athygli. Breiddin og afreksíþróttirnar hafa þörf hvor fyrir aðra því þær eru tvær hliðar á sama máli. Hægt er að líta á þetta sem ákveðið íþróttalíkan sem gildi fyrir íþróttastarfið í heild sinni. Það eru þó afreksíþróttirnar sem skapa hugmyndafræðina af því að það er þær sem haldið eru á lofti daglega og ákaft gegnum fjölmiðlana. Talað er um sjálfsstyrkjandi ferli því markaðsöflin styðja og þróa líkanið vegna mikilvægis afreksíþróttanna sem auglýsingamiðils. Þetta hefur áhrif á íþróttirnar sem heild því samanburðurinn við afreksfólkið þýðir að keppni er í hávegum höfð, sérhæfing eykst og árangur tengdur viðmiði við afreksfólkið (Böje og Eichberg, 1994). Mynd 2 sýnir hvernig íþróttaiðkun almennt hefur oft verið líkt við pýramída þar sem afrekin skapa breiddina og breiddin afrekin.

Mynd 2 – Pýramídalíkan þar sem toppurinn byggist á breiddinni (Kirk og Gorely, 2000).

Efasemdir um heilbrigði afreksíþrótta hafa komið fram í kjölfar síhækkandi afreksstiga. Dagleg áhrif á heilsu íþróttafólks sem og annarra eru samspil næringar, álags og hvíldar. Næringin verður að vera í samræmi við athafnasemina og mikil þjálfun krefst hæfilegrar hvíldar. Einnig skipta máli samskipti við annað fólk, samfélagið og menningin sem við erum hluti af og náttúran og umhverfið sem við lifum í. Til lengri tíma litið er jafnvægi allra þessara þátta mjög mikilvægt. Ef fram kemur ójafnvægi þarf að skoða heildarmyndina. Til dæmis getur íþróttamaður í mikilli þjálfun þjáðst af einbeitingarskorti sem rekja má til ofþreytu (Gjerset, Haugen og Holmstad, 1998).

Áhersla á keppni og árangur hefur áhrif á íþróttamennskuna eða íþróttamannslega framkomu í íþróttum og á íþróttamótum. The National Collegiate Athletic Association (NCAA) í Bandaríkjunum hefur skilgreint íþróttamennsku sem hegðun íþróttaiðkenda, þjálfara, stjórnenda, skipuleggjenda og áhangenda (foreldra) í tengslum við íþróttakeppnir. Þessi hegðun er byggð á grunngildum, eins og virðingu, sanngirni, kurteisi, heiðarleika og áreiðanleika (NCCA, 2003). Í sambandi við viðhorf til keppni er annars vegar talað um íþróttamenn sem sjálfhverfa, þ.e. að þeir hugsi mest um að sigra andstæðing sinn og hins vegar þá íþróttaiðkendur sem einblína á persónuleg markmið sem hluta af háleitari markmiðum og eru frekar að keppast við að bæta eigin árangur. Flestir hafa báða þættina samtímis en þegar sjálfhverfan verður ofan á víkur íþróttamennskan oft á tíðum fyrir svindli, hæðni og annarri óíþróttamannslegri hegðun. Það eru litlar líkur á íþróttamannslegri hegðun hjá ungum íþróttaiðkendum ef fyrirmyndirnar haga sér á þennan hátt. En dæmin sýna að til eru afreksíþróttamenn, eins og Michael Jordan, sem setja íþróttamennskuna á háan stall og sanna þar með að hægt er að ná langt án þess að svindla eða haga sér á annan óíþróttamannslegan hátt (Goldstein og Iso-Ahola, 2006).

Sveitarfélög styrkja íþróttaiðkun barna og unglinga sem er jákvæð þróun en skoða þarf hvert hún leiðir. Fjölgun íþróttaiðkenda getur leitt til þess að við eignumst fleira afreksíþróttafólk en því fylgir mikil krafa um ástundun og meiri tíma til æfinga. Þróunin er sú að sífellt yngri íþróttamenn komast á afreksstig. Taka þarf tillit til þess í skólakerfinu og veita þann stuðning sem nauðsynlegur er til að sem bestur árangur náist á öllum sviðum.

Ungt afreksíþróttafólk og framhaldsskólanám

Ungt afreksíþróttafólk þarf að mennta sig eins og annað ungt fólk. Í nágrannalöndum okkar hafa verið farnar mismunandi leiðir til að koma til móts við og meta íþróttaiðkun afreksfólks á framhaldsskólastigi. Í töflu 1 kemur fram samanburður á mati á íþróttaiðkun á afreksstigi og námslengd til stúdentsprófs milli fjögurra landa. Danir meta íþróttaiðkunina ekki til eininga heldur bæta við einu námsári meðan Norðmenn og Svíar meta íþróttaiðkun til eininga. Þar ljúka nemendur í afreksíþróttum stúdentsprófi á þremur árum. Á Íslandi tekur stúdentspróf að jafnaði fjögur ár og eins og fram hefur komið meta fjórir skólar iðkun íþrótta á afreksstigi til eininga vorið 2007.

Tafla 1 – Samanburður á milli landa
  Mat á íþróttaiðkun til eininga Námslengd til stúdentsprófs
Danmörk Nei 3 ár (4 ár fyrir afreksíþróttafólk)
Noregur 3 ár
Svíþjóð 3 ár
Ísland Já / nei 4 ár


Eitt af markmiðum afreksstefnu ÍSÍ er að skapa kjöraðstæður fyrir íþróttamenn innan skólakerfisins til að ná árangri samhliða námi. Hvaða leiðir skuli fara kemur aftur á móti ekki fram hjá ÍSÍ og heldur ekki hvaða eða hvers konar aðgang sambandið hefur að skólakerfinu. Skólamál heyra undir menntamálaráðuneytið en að sjálfsögðu getur ÍSÍ komið með ályktanir í tengslum við þann málaflokk og komið skoðunum á framfæri.

Samkvæmt Aðalnámskrá framhaldsskóla er 140 eininga námi til stúdentsprófs skipt upp í kjarna sem er 98 einingar, kjörsvið 30 einingar og frjálst val 12 einingar. Nemendum stendur til boða að haga 30 eininga vali sínu á kjörsviði á fjölbreyttan hátt og hið sama gildir um 12 einingar í frjálsu vali. Ef notað er sama viðmið og þegar listdans- og tónlistarnám er metið ættu nemendur að geta fengið íþróttaþjálfun á afreksstigi metna sem hluta af námi sínu til stúdentsprófs. Ákveðnar kröfur um menntun þjálfara ættu að vera til staðar, ákveðinn tímafjöldi æfinga að baki hverrar einingar sem metin yrði og síðan mætti gera kröfur um, t.d. val í unglingalandslið, afrekshóp viðkomandi íþróttagreinar eða annað sambærilegt val. Útfærslan væri háð starfsaðferðum viðkomandi sérsambands og eðli íþróttagreinar sem um væri að ræða en einnig þyrfti að skilgreina námið betur í aðalnámskránni. Menntamálaráðuneytið hefur gefið tóninn um mat á afreksíþróttaiðkun með því að samþykkja (eða hafna ekki) því mati sem fram fer hjá þeim skólum sem meta íþróttaiðkun afreksfólks nú þegar en nánari útfærsla eða lýsing á námsbraut fyrir afreksíþróttafólk er ekki til.

Nám í framhaldsskóla samhliða því að stunda afreksíþróttir getur verið erfitt fyrir ungt fólk. Mikið brottfall úr framhaldsskóla er vandamál sem Íslendingar standa nú frammi fyrir. Sama á við um íþróttaiðkun þar sem brottfall er mikið og þá sérstaklega við upphaf framhaldsskólanáms. Rannsóknir hafa sýnt að ástæða brottfalls úr íþróttum á þessum aldri er meðal annars tímaskortur (Álfgeir Logi Kristjánsson, Silja Björk Baldursdóttir, Inga Dóra Sigfúsdóttir og Jón Sigfússon, 2005). Ein leið til að sporna við þessu gæti verið að koma til móts við nemendur sem iðka íþróttir með því að bjóða þeim upp á þjálfun á skólatíma, í samvinnu við íþróttafélögin, og stundatöflu sem miðast við þessa þjálfun. Mat á íþróttaiðkun til eininga myndi þannig létta á námsálagi og ætti að stuðla að betri og heildrænni umgjörð um skóla, íþróttir og fjölskyldulíf þar sem það kallar á aukin samskipti þessara aðila. Að auki væri komið til móts við nemendur á einstaklingsgrundvelli og í samræmi við áhugasvið þeirra. Það skiptir máli að stuðlað sé að því að íþróttafólk sem vill halda áfram námi samhliða íþróttaiðkun sinni geti það. Erfitt getur verið seinna meir þegar íþróttaferlinum lýkur að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið ef eftir er að ljúka stúdentsprófi.

Í gegnum afreksíþróttasvið á framhaldsskólastigi opnast leið til að hafa jákvæð áhrif á ungt afreksíþróttafólk. Fræða má um gildi hollra lífshátta, eins og nauðsyn góðrar næringar og hvíldar í tengslum við árangur í íþróttum. Fylgjast þarf vel með þjálfunarálagi svo viðkomandi íþróttaiðkandi og nemandi lendi ekki í vandræðum tengdum ofþjálfun og geti þar af leiðandi ekki stundað námið með fullri einbeitingu. Stuðla þarf að sannri íþróttamennsku þar sem grunngildin virðing, heiðarleiki, kurteisi, sanngirni og áreiðanleiki eru í heiðri höfð. Þá er mikilvægt að íþróttamanninum sé gerð grein fyrir hlutverki sínu sem fyrirmynd yngri íþróttaiðkenda og skólasystkina.

Afreksíþróttasvið

Hér að framan hafa verið sett fram rök fyrir því að framhaldsskólanemandi sem hefur áhuga á að stunda íþróttir, leggur sig fram, notar mikinn tíma til æfinga og er kominn á afreksstig í sínum aldursflokki ætti að fá það metið til eininga. Afreksíþróttamenn verða ekki margir atvinnumenn í sinni íþrótt miðað við fjöldann sem stundar íþróttir en þeim fjölgar þó ár frá ári. Óhætt er að halda því fram að sú reynsla og sá agi sem fylgir því að vera afreksmaður í íþróttum nýtist vel í hverju sem viðkomandi tekur sér fyrir hendur á lífsleiðinni. Það sem afreksíþróttamaður fær út úr því að stunda íþróttagrein sína er miklu meira en bara færni í íþróttinni sem slíkri. Sá lærdómur og reynsla sem fæst með því að taka þátt í stórum mótum á alþjóðavísu og takast á við bæði sigra og mótlæti sem fylgja slíkri þátttöku er mikilvægt veganesti út í lífið. Einnig þarf mikinn aga og skipulagshæfileika til að geta sett sér markmið og unnið að þeim yfir lengri tíma. Íþróttamaður lærir líka að taka tillit til annarra og að vera hluti af heild, liði eða félagi. Allt eru þetta þættir sem gagnast vel hverjum sem er úti á vinnumarkaðnum og má líta á það sem ákveðna uppbót fyrir það að stunda íþróttir.

Framhaldsskólarnir keppast við að hafa sem best námsframboð og höfða til sem flestra nemenda. Líklegt er að margir framhaldsskólanna verði farnir að meta iðkun afreksíþróttamanna til eininga innan skamms. Skólarnir fara hver sína leið hvað útfærslu varðar, meðal annars með kröfu um mismargar einingar til stúdentsprófs. Dæmi um skóla sem mun bjóða upp á afreksíþróttasvið haustið 2007 er Fjölbrautaskólinn í Garðabæ (FG). Útfærslan felst í samvinnu FG, Garðabæjar og íþróttafélagsins Stjörnunnar. Markmið allra aðila er að bæjarfélag, framhaldsskóli og íþróttafélag í Garðabæ verði í fremstu röð. FG vill treysta böndin við sitt nánasta umhverfi og víkka út það námsframboð sem er í skólanum. Bæjarfélagið kemur að málinu með því að leggja til íþróttaaðstöðu, styðja þjálfun verðandi afreksmanna og styrkja forvarnarstarf í bænum í samræmi við afreksstefnu sína (Garðabær, 2003). Íþróttafélagið Stjarnan vill með þessu dýpka þjálfun þeirra íþróttamanna sem skara fram úr bæði í ástundun og leikni.

Nám á afreksíþróttasviði í FG getur verið hluti af kjörsviði allra bóknámsbrauta og nær að hámarki 32 einingum. Þær koma inn sem kjörsvið annarrar brautar (12 einingar), valáfangar (hámark 12 einingar) og síðan geta nemendur fengið íþróttaiðkun sína metna sem almennar íþróttir, en það er ein eining á önn, alls átta einingar. Nemendur á afreksíþróttasviði skuldbinda sig til að standa sig vel í skólanum, þ.e. stunda námið af kostgæfni og mæta vel. Þeir þurfa að sýna fram á eðlilega námsframvindu með því að ljúka 15–18 einingum á önn. Krafan um góða mætingu og að nemendur leggi sig alla fram gildir einnig um þjálfunarhlutann. Boðið verður upp á tvær verklegar æfingar á viku, eina og hálfa klst í senn, kl. 07:00–08:30. Gert er ráð fyrir að einstaklingar komi úr ólíkum íþróttagreinum. Á haustönn er áhersla á grunnþjálfun en eftir áramót verður lögð áhersla á sérgreinaþjálfun. Einnig verður hluti æfinganna nýttur til að fylgjast með heilsufari nemenda og líkamsástandi. Einn morgun í viku verða fyrirlestrar um ýmislegt sem tengist því að vera afreksíþróttamaður. Hægt er að lesa um afreksíþróttasviðið á heimasíðu FG (www.fg.is).

Lokaorð

Því má halda fram að í góðu lagi sé að skólar geti ákveðið eigin útfærslu við að koma til móts við nemendur sem stunda afreksíþróttir. Slíkt mun væntanlega skapa fjölbreytni og þar af leiðandi meira úrval í námsframboði fyrir nemendur á framhaldsskólaaldri. Að mati höfunda er engu að síður nauðsynlegt að menntamálaráðuneytið leggi fram einhver viðmið um kröfur að baki þeim einingum sem fást metnar fyrir íþróttaþjálfun á afreksstigi. Einnig þurfa sérsambönd innan ÍSÍ að skilgreina hvað felst í því að vera kominn á afreksstig í viðkomandi grein miðað við íþróttaiðkanda á framhaldsskólaaldri. Því er lagt til að menntamálaráðuneytið og Íþrótta- og Ólympíusambandið leggi línur og síðan hafi skólarnir ákveðið svigrúm til útfærslu. Þannig skapast samræmi í kröfum við mat á einingum fyrir íþróttaiðkun á afreksstigi. Einnig gæti það hjálpað til við mat milli skóla því töluvert er um að nemendur taki framhaldsskólanám sitt í fleiri en einum skóla. Þó svo að ÍSÍ hafi ekki bein tengsl inn í skólana er lagt til að sambandið hafi ákveðna stefnu í þessum málaflokki, veiti aðgang að sérmenntuðum þjálfurum og verði í samvinnu við skólana með fyrirlestra eða námskeið um fræðileg efni tengdum afreksíþróttum.

Nauðsynlegt er að móta ákveðna afreksíþróttastefnu og koma til móts við iðkendur íþrótta á afreksstigi. Íþróttir eru hluti af menningu okkar og það þarf að gera nemendum framhaldsskólanna sem stunda íþróttir á afreksstigi jafn hátt undir höfði og þeim sem leggja stund á tónlistar- eða listdansnám. Því er lagt til að íþróttaiðkun á afreksstigi verði metin til eininga á framhaldsskólastigi.

Heimildaskrá

Álfgeir Logi Kristjánsson, Silja Björk Baldursdóttir, Inga Dóra Sigfúsdóttir og Jón Sigfússon (2005). Ungt fólk 2004. Menntun, menning, tómstundir, íþróttaiðkun og framtíðarsýn íslenskra ungmenna. Reykjavík: Menntamálaráðuneytið.

Böje, C. og Eichberg, H. (1994). Idrættens tredje vej – om idrætten i kulturpolitikken. Århus: Klim.

Garðabær (e.d.). (2003). Afrekssjóður íþrótta- og tómstundaráðs Garðabæjar. Sótt 20. mars 2007 af: http://www.gardabaer.is/upload/files/Afreksstefna.pdf.

Gjerset, A., Haugen, K. og Holmstad, P. (1998). Þjálffræði (Anna Dóra Antonsdóttir þýddi). Reykjavík: ÍSÍ og IÐNÚ.

Goldstein, J. D. og Iso-Ahola, S. E. (2006). Promoting Sportsmanship in Youth Sports: Perspectives from sport Psychology. Journal of Physical Education, Recreation & Dance, 77:1825.

Kirk, D. og Gorely, T. (2000). Challenging Thinking About the Relationship Between
School Physical Education and Sport Performance. European Physical Education
Review, 6
:119134. Sótt 15. mars af: http://epe.sagepub.com/cgi/content/abstract/6/2/119

Langagergaard, M. T. (2006). Talenternes forældre. Sótt 21. mars 2007 af:
http://www.teamdanmark.dk/CMS/cmsdoc.nsf/contentwebs6rue2y

Menntamálaráðuneytið. (1999). Aðalnámsskrá framhaldsskóla. Almennur hluti. Reykjavík: Menntamálaráðuneytið.

National Collegiate Athletic Association. (2003). Report on the sportsmanship and fan behaviour summit. Sótt 5. júní 2007 af: http://ncaa.org/sportsmanshipFanBehaviour/report.pdf

Sigurbjörn Árni Arngrímsson. (2006). Afreksíþróttamaður – Frjálsíþróttir. Sótt 22. mars
2007 af: http://www.olympic.is/iw_cache/3969_isi_sigurbjorn.pdf

Þórólfur Þórlindsson, Þorlákur Karlsson og Inga Dóra Sigfúsdóttir (1994). Um gildi íþrótta fyrir íslensk ungmenni. Reykjavík: Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála.

Athugasemd

Magnús Þorkelsson sendi ritstjórn Netlu athugasemd skömmu eftir birtingu þessarar greinar og er hún birt hér lesendum til fróðleiks. - Sjá athugasemd.

 

Prentútgáfa     Viðbrögð